Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2000
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 8. febrúar 2001. |
|
Nr. 343/2000. |
Tryggvi Tryggvason(Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur.
T tók árið 1974 að sér með samningi við flutningafyrirtækið E að gerast afgreiðslumaður fyrir það á Ísafirði. Meðal skyldna T var að leggja afgreiðslunni til húsnæði og geymslurými. Samkvæmt samningnum skyldi T bera ábyrgð á skemmdum sem kynnu að verða á munum á meðan þeir væru í geymslu hjá honum. T keypti árið 1984 vátryggingu vegna starfsemi sinnar hjá vátryggingafélaginu TR, þ.m.t. ábyrgðartryggingu fyrir atvinnurekstur. Samkvæmt skilmálum ábyrgðar-tryggingarinnar voru skemmdir á munum undanþegnar gildissviði hennar. T bar að hann hefði ítrekað reynt að fá TR til að breyta skilmálunum þannig að tryggingin næði jafnframt til skemmda á munum. Árið 1993 var gerður viðauki við skilmálana þar sem þeim var breytt á þann veg að undir trygginguna féllu jafnframt „vörur í upp og útskipun”. Deilt var um hvernig túlka bæri hin tilvitnuðu orð og hvort af þeim yrði leidd sú niðurstaða að vátryggingin skyldi bæta tjón sem varð þegar rækjufarmur í frystigámi skemmdist í meðförum T. Talið var ljóst að viðaukanum við skilmálana hefði verið ætlað að víkka gildissvið tryggingarinnar. Þar sem geymsla á vörum væri þáttur í skipaafgreiðslu var talið að TR hefði borið að afmarka skýrlega hvort og að hvaða nánara leyti sá þáttur í starfsemi T félli utan sviðs ábyrgðartryggingarinnar. Jafnframt var litið til þess að TR hafði áður greitt T bætur vegna sams konar tjóns á grundvelli tryggingarinnar. Var TR dæmt til að greiða T bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2000. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.148.645 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. janúar 1997 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara krefst stefndi þess að áfrýjanda verði dæmd lægri fjárhæð en hann krefst og falli dráttarvextir ekki á hana fyrr en aðallega frá uppsögu dóms, til vara 19. janúar 2000, en til þrautavara 25. júní 1999. Verði þá málskostnaður á báðum dómstigum látinn falla niður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerði áfrýjandi samning 4. nóvember 1974 við Hf. Eimskipafélag Íslands, þar sem hann tók að sér að verða afgreiðslumaður fyrir félagið á Ísafirði. Í samningnum var meðal annars kveðið á um að áfrýjandi bæri kostnað af afgreiðslunni og legði til nægilegt húsnæði fyrir hana, „svo og gott geymsluhús fyrir vörur þær og annað, sem hann tekur við til flutnings með skipum fjelagsins, eða veitir móttöku frá skipum fjelagsins til geymslu eða afhendingar.“ Sagði síðan eftirfarandi í samningnum: „Ber afgreiðslumaður ábyrgð á öllum slíkum vörum eða flutningi, að hann tapist ekki eða skemmist fyrir hirðuleysi eða handvömm afgreiðslumanns eða manna, sem eru í þjónustu hans, þangað til skilað er skipi fjelagsins eða réttum móttakanda. Heimilt er afgreiðslumanni að taka sanngjarna borgun af vörusendendum og móttakendum fyrir útskipun, uppskipun og geymslu, þó eigi hærri borgun en venja er á staðnum, eða á öðrum stöðum, þar sem líkt hagar til.“
Áfrýjandi kveðst hafa keypt frá árinu 1984 vátryggingar vegna starfsemi sinnar hjá Tryggingu hf., þar á meðal ábyrgðartryggingu fyrir atvinnurekstur. Samkvæmt 2. gr. skilmála, sem giltu um þá vátryggingu, tók hún til skaðabótaábyrgðar, sem félli á áfrýjanda vegna slyss á mönnum eða skemmda á munum „vegna starfsemi þeirrar, sem getið er í skírteini eða iðgjaldskvittun.“ Í 5. gr. skilmálanna var hins vegar mælt fyrir um almennar undantekningar vegna skemmda á munum, en þar sagði meðal annars eftirfarandi: „Vátryggingin tekur ekki til ábyrgðar vegna skemmda á munum eða glötunar muna, sem ... vátryggður hefur að láni, á leigu, til geymslu, sölu, flutnings eða eru af öðrum ástæðum í vörslu hans ...“. Óumdeilt er í málinu að vegna síðastnefnds ákvæðis hafi vátrygging þessi ekki náð til tjóns á vörum í vörslum áfrýjanda. Hann kveðst á hinn bóginn hafa notið ábyrgðartryggingar að þessu leyti fyrir milligöngu Hf. Eimskipafélags Íslands, en samkvæmt skilmálum hennar hafi hann borið mjög háa sjálfsáhættu vegna hvers tjóns, eða sem svarar 5.000 sterlingspundum. Hann hafi því ítrekað leitað eftir því við Tryggingu hf. að skilmálum ábyrgðartryggingar hans sjálfs yrði breytt, þannig að hún tæki til tjóns á varningi í vörslum hans. Félagið hafi ekki ljáð máls á þessu fyrr en áfrýjandi fékk á árinu 1992 frá skipaafgreiðslumanni á Húsavík nýja skilmála ábyrgðartryggingar, sem sá hafði tekið hjá öðru vátryggingafélagi. Segist áfrýjandi hafa sent Tryggingu hf. þessa skilmála og greint frá því að hann yrði að beina viðskiptum sínum annað ef félagið yrði ekki við óskum hans. Hafi í framhaldi af þessu tekist samkomulag milli þeirra um að ábyrgðartrygging áfrýjanda hjá félaginu næði framvegis til tjóns á vörum í vörslum hans, en skilmálar yrðu hliðstæðir þeim, sem hann hafi kynnt því. Stefndi hefur andmælt þessum staðhæfingum að því leyti að hann kannast ekki við að Tryggingu hf. hafi borist umræddir skilmálar, þótt áfrýjandi hafi vísað til þeirra í samtölum. Hafi aðeins verið rætt um að færa út svið ábyrgðartryggingar áfrýjanda, þannig að hún næði til meðferðar hans á varningi í skipaafgreiðslunni. Fyrir liggur í málinu að viðauki var gerður við skilmála ábyrgðartryggingar áfrýjanda hjá Tryggingu hf. frá 1. janúar 1993 að telja, þar sem fram kom að undir hana féllu „vörur í upp og útskipun“. Skyldi sjálfsáhætta áfrýjanda vegna ábyrgðartryggingarinnar alltaf vera sem svaraði 10% af hverju tjóni, almennt að lágmarki 16.500 krónur og hámarki 165.000 krónur, en lágmarkið yrði þó 50.000 krónur að því er varðaði vátrygginguna samkvæmt viðaukanum.
Áfrýjandi tilkynnti Tryggingu hf. með bréfi 8. maí 1996 að tjón hafi orðið á 20.320 kg af iðnaðarrækju, sem hann hafi tekið við í frystigámi 7. janúar sama árs. Hafi eftirlit verið vanrækt af starfsmönnum hans og þannig farið fram hjá þeim að hitastig í gáminum hafi hækkað á nánar tiltekinn hátt á tímabilinu frá 17. til 22. febrúar 1996. Í samráði við eiganda rækjunnar hafi sýni verið rannsakað og að fenginni niðurstöðu hafi hann hafnað að taka við henni. Hafi eigandinn síðan gert kröfu á hendur áfrýjanda 2. maí 1996 um greiðslu bóta að fjárhæð 2.902.474 krónur vegna skemmda á rækjunni. Óskaði áfrýjandi eftir að Trygging hf. bætti þetta tjón í skjóli ábyrgðartryggingar hans. Í svarbréfi félagsins til áfrýjanda 21. júní 1996 var þeirri afstöðu lýst að eigandi rækjunnar hafi ekki gert ráðstafanir sem skyldi til að takmarka tjón sitt. Var einnig vísað til þess að samkvæmt skilmálum ábyrgðartryggingarinnar ætti Trygging hf. rétt á að annast samninga við tjónþola, sem geri kröfu á hendur vátryggðum. Gæti félagið ekki samþykkt framkomna kröfu og óskaði því eftir að áfrýjandi tilkynnti eiganda rækjunnar að beina ætti kröfunni að félaginu, sem myndi annast vörn í málinu. Nokkru eftir þetta samþykkti Trygging hf. kröfuna og greiddi áfrýjanda fjárhæð hennar að frádreginni sjálfsáhættu hans 23. september 1996. Í gögnum um þá greiðslu voru engir fyrirvarar gerðir af hálfu félagsins um skyldu þess til að inna hana af hendi. Stefndi kveður starfsmenn Tryggingar hf. á hinn bóginn hafa gert áfrýjanda ljóst að greitt væri umfram skyldu, þar sem ábyrgðartryggingin næði ekki til tjóns sem þessa, en þetta hafi verið gert vegna velvildar í garð hans sökum áfallalausra viðskipta um langan tíma. Áfrýjandi andmælir að þetta hafi komið fram af hálfu Tryggingar hf.
Fram er komið í málinu að í nóvember 1996 hafi áfrýjandi sagt upp öllum vátryggingum sínum hjá Tryggingu hf. og þær fallið niður í apríl 1997. Með bréfi 16. desember 1996 tilkynnti áfrýjandi félaginu um annað tjón, sem orðið hafi á iðnaðarrækju í frystigámi í vörslum hans. Af þessari tilkynningu og öðrum gögnum málsins verður ráðið að nánari atvik í þessu tilviki hafi verið á þann veg að frystigámurinn hafi borist áfrýjanda 3. janúar 1996, en eigandi rækjunnar í gáminum hafi verið Bakki hf. Gámurinn hafi verið í geymslu hjá áfrýjanda til 23. eða 24. apríl sama árs, en daginn eftir að gámurinn barst félaginu hafi það óskað eftir að hann yrði tekinn til baka, þar sem „eitthvað væri athugavert“ við rækjuna. Hafi þá verið búið að vinna úr um helmingi hennar, en nýting á þeim hluta hafi verið langt undir því, sem telja mætti eðlilegt. Gámurinn hafi eftir þetta staðið óhreyfður í geymslu hjá áfrýjanda fram í október 1996. Athugun á síritaspjaldi úr gáminum hafi leitt í ljós að hitastig í honum hafi hækkað 17. til 22. janúar 1996 og verið eftir það og fram til 3. febrúar sama árs um fimmtán gráðum hærra en ætlast var til. Hafi þetta valdið skemmdum á rækjunni. Áfrýjanda hafi borist útreikningur frá Bakka hf. 25. nóvember 1996 á tjóni félagsins af þessum sökum, sem var talið nema 2.333.645 krónum. Líkt og í áðurnefndu tilviki teldi hann tjónið nú eiga rætur að rekja til vangæslu starfsmanna sinna við eftirlit með gáminum. Af gögnum málsins verður ráðið að Trygging hf. hafi með bréfi til áfrýjanda 23. janúar 1997 hafnað að greiða bætur úr vátryggingunni, þar sem hún hafi ekki tekið til tjóns af þessum toga. Liggja fyrir í málinu bréf, sem fóru eftir þetta milli áfrýjanda og Tryggingar hf., svo og gögn, sem áfrýjandi mun hafa framvísað um tjón Bakka hf., en óumdeilt er að hann hafi nú bætt það tjón fyrir milligöngu Hf. Eimskipafélags Íslands.
Vegna þeirra atvika, sem síðast greindi frá hér að framan, höfðaði áfrýjandi mál þetta 25. júní 1999 á hendur Tryggingu hf. til heimtu bóta að fjárhæð 2.148.645 krónur eða sem nemur tjóni Bakka hf., áðurnefndum 2.333.645 krónum, að frádreginni sjálfsáhættu áfrýjanda samkvæmt vátryggingarskilmálum, sem mun á árinu 1996 hafa verið orðin 185.000 krónur. Hinn 1. nóvember 1999 voru vátryggingarstofnar Tryggingar hf. yfirfærðir til stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., sem tók þá yfir réttindi og skyldur fyrrnefnda félagsins sem vátryggjanda og þar með aðild að málinu.
II.
Eins og áður greinir sömdu áfrýjandi og Trygging hf. um að ábyrgðartrygging hans hjá félaginu skyldi frá ársbyrjun 1993 ná til tjóns á því, sem þeir nefndu „vörur í upp og útskipun“, sem hann tók við í starfsemi sinni við skipaafgreiðslu. Verður að líta svo á að með þessu hafi verið samið um að víkja frá áðurgreindu ákvæði um undantekningar frá ábyrgð í 5. gr. skilmála fyrir ábyrgðartryggingunni. Svo sem meðal annars verður ráðið af áðurgreindum ummælum í samningi áfrýjanda við Hf. Eimskipafélag Íslands frá 4. nóvember 1974 var ekki ætlun þeirra að hann bæri ábyrgð á tjóni, sem kynni að verða á vörum áður en þær kæmu á hafnarbakka af skipi eða eftir að þær væru teknar af hafnarbakka til skips. Slík ábyrgð verður heldur ekki leidd af lögum. Að því gættu átti Tryggingu hf. að vera ljóst að áfrýjanda væri engin þörf á ábyrgðartryggingu með svo takmörkuðu gildissviði, sem bókstaflegur skilningur tilvitnaðra orða gæti gefið til kynna. Er þeim skilningi heldur ekki haldið fram af stefnda, sem í þess stað ber því við eins og áður greinir að með breytingu á skilmálum ábyrgðartryggingarinnar hafi verið ætlast til að hún tæki til tjóns, sem yrði á vörum við hvers konar tilfærslu þeirra á meðan þær væru í vörslum áfrýjanda. Þessi skýring stefnda á sér enga stoð í tilvitnuðum orðum. Með henni hefur hann hins vegar viðurkennt að ábyrgðartryggingin hafi átt að hafa víðtækara gildissvið en orðalag skilmála um hana bar með sér. Ábyrgðartrygging áfrýjanda var tekin vegna atvinnurekstrar hans við skipaafgreiðslu. Sjálfgefið er að geymsla á vörum er þáttur í slíkri starfsemi. Af þessum sökum hvíldi á Tryggingu hf. brýn skylda gagnvart áfrýjanda til að afmarka skýrlega hvort og að hvaða nánara leyti sá þáttur í starfsemi hans félli utan sviðs ábyrgðartryggingarinnar. Það lét félagið ógert. Auk þess, sem hér hefur verið greint, verður ekki horft fram hjá viðbrögðum Tryggingar hf. í áðurnefndu bréfi 21. júní 1996 við tilkynningu áfrýjanda 8. maí sama árs um tjón á rækjusendingu í frystigámi, sams konar því tjóni, sem um ræðir í málinu. Í því bréfi kom ekkert fram, sem benti til annars en að félagið legði sama skilning í skilmála ábyrgðartryggingar áfrýjanda og hann heldur nú fram. Á þeim tíma höfðu þau atvik þegar gerst, sem ollu tjóni á rækjunni í eigu Bakka hf. í frystigámi hjá áfrýjanda. Gat Trygging hf. ekki á síðari stigum breytt afstöðu sinni til vátryggingarskilmálanna svo bindandi yrði fyrir áfrýjanda varðandi fjártjón Bakka hf., sem þegar var komið til, en samkvæmt því getur engu breytt í þeim efnum hvort fyrirvari kunni síðar að hafa verið gerður um greiðsluskyldu þegar Trygging hf. innti af hendi áðurnefndar bætur 23. september 1996, svo sem stefndi heldur fram. Að öllu þessu athuguðu verður að fallast á með áfrýjanda að stefnda beri að bæta úr ábyrgðartryggingunni tjónið, sem deilt er um í málinu.
Með gögnum málsins er sannað að áfrýjandi hefur þegar greitt Bakka hf. 2.333.645 krónur í bætur vegna tjóns á umræddri rækjusendingu. Skaðabótakrafa félagsins var studd viðhlítandi gögnum og hefur stefndi ekki fært fram haldbær rök fyrir mótmælum gegn útreikningi hennar. Óumdeilt er að til frádráttar skaðabótakröfunni komi 185.000 krónur vegna sjálfsáhættu áfrýjanda samkvæmt skilmálum ábyrgðartryggingar hans hjá Tryggingu hf. Verður krafa áfrýjanda því tekin að fullu til greina.
Í málinu hefur verið lagður fram reikningur Hf. Eimskipafélags Íslands til áfrýjanda 9. janúar 1998 fyrir endurkröfu vegna skaðabóta til Bakka hf. að fyrrgreindri fjárhæð. Á reikningnum er svohljóðandi áritun frá starfsmanni útgefanda hans: „Þessi reikningur er að fullu greiddur. Reykjavík, 21. september 1999.“ Með þessu skjali er ekki tekið af skarið um hvenær áfrýjandi greiddi endurkröfuna, sem eftir hljóðan reikningsins bar enga vexti, en fyrr en það var gert gat hann ekki krafið áfrýjanda um dráttarvexti á grundvelli 3. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sbr. 7. gr. laga nr. 33/1987. Verða dráttarvextir því dæmdir eins og nánar greinir í dómsorði.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi svo sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, Tryggva Tryggvasyni, 2.148.645 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. september 1999 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2000.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 16. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Tryggva Tryggvasyni & Co., kt. 281250-2059 Aðalstræti 24, Ísafirði, með stefnu birtri 25. júní 1999 á hendur Tryggingu hf., kt. 660269-3399, Laugavegi 178, Reykjavík. Undir rekstri málsins tók Tryggingamiðstöðin hf. við réttindum og skyldum stefnda, Tryggingar hf., sem vátryggingartaka stefnanda í máli þessu. Enn fremur tók Tryggvi Tryggvason, kt. 281250-2059, Árholti 1, Ísafirði, persónulega við aðild stefnanda.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda bætur úr ábyrgðartryggingu að fjárhæð kr. 2.148.645, með dráttarvöxtum frá 16. janúar 1997 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafizt, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 16. janúar 1998, og svo árlega þann dag. Loks er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti. Til vara er krafizt verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og málskostnaður verði látinn niður falla. Er þess jafnframt krafizt, að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi, þegar endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp, til greiðsludags. Til þrautavara eru gerðar sömu kröfur og greinir í varakröfu, að öðru leyti en því, að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga frá 19. janúar 2000. Til þrautaþrautavara eru gerðar sömu kröfur og greinir í varakröfu, að öðru leyti en því, að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga frá þingfestingardegi, 29. júní 1999, til greiðsludags.
II.
Málavextir:
Stefnandi rekur skipaafgreiðslu á Ísafirði og hefur hann m.a. umboð fyrir Eimskipafélag Íslands. Á árinu 1984 gerði hann samning um kaup á ábyrgðartryggingu af stefnda vegna atvinnureksturs síns. Um trygginguna giltu skilmálar nr. 41. Í grein 2.1 í skilmálunum segir, að vátryggingin taki til skaðabótaábyrgðar, sem fellur á vátryggðan vegna slyss á mönnum eða skemmda á munum vegna starfsemi þeirrar, sem getið er í skírteini eða iðgjaldskvittun. Samkvæmt gr. 5.2 í skilmálunum tekur vátryggingarverndin þó ekki til muna, sem skemmast eða glatast í vörzlum vátryggðs, sem hann hefur að láni, á leigu, til geymslu, sölu, flutnings eða af öðrum ástæðum.
Í ársbyrjun 1993 var vátryggingarvernd stefnanda rýmkuð með viðauka, sem gefinn var út og hélzt óbreyttur út samningstímabilið. Samkvæmt texta viðaukans tekur breytingin til vara í upp- og útskipun. Ársiðgjald fyrir þessa útvíkkun skyldi vera kr. 50.000, eða kr. 11.650 fyrir tímabilið 1. janúar 1993 til marzloka 1995, en 1. apríl var reglulegur árlegur endurnýjunargjalddagi vátryggingarinnar. Eigin áhætta stefnanda var hin sama og gilti um önnur tjón, er féllu undir vátrygginguna.
Þann 22. febrúar 1996 varð tjón á rækjum í gámi í vörzlum stefnanda, sem rakið var til vanrækslu starfsmanns stefnanda. Eigandi hráefnisins var Ritur hf. Varð tjónið með þeim hætti, að hiti í gáminum hækkaði, án þess að við því væri brugðizt, og skemmdist hráefnið, sem í gáminum var. Var tjónið bætt að fullu úr ábyrgðartryggingu stefnanda hjá stefnda þann 23. september 1996.
Þann 24. apríl 1996 sendi stefnandi gáminn LPIU 586146-7 til Bakka hf. í Hnífsdal. Daginn eftir mun Kristinn Kristjánsson, framleiðslustjóri Bakka hf., hafa haft samband við stefnanda og beðið um, að gámurinn yrði tekinn til baka til geymslu, þar eð eitthvað væri athugavert við innihald hans, en gámurinn innihélt frosnar rækjur. Mun þá hafa verið búið að vinna um helming rækjunnar úr gáminum, og var nýtingin talin langt undir því, sem eðlilegt er, eða 18% í stað 37%. Eftir að gámurinn var tekinn til baka í geymslu, mun hann hafa staðið óhreyfður hjá stefnanda, án þess að frekar væri aðhafzt í málinu, þar til í lok október 1996, er starfsmaður Rannsóknastofnunar Fiskiðnaðarins tók sýni úr honum, að beiðni Bakka hf., og mun niðurstaða sýnatökunnar hafa staðfest framangreint nýtingarhlutfall. Var tjón Bakka hf. talið nema kr. 2.333.645. Bótaskylda stefnanda gagnvart Bakka hf. sætir ekki ágreiningi og greiddi stefnandi Bakka hf. tjónið.
Samkvæmt síritaspjaldi, sem sett var í gáminn 21.12.1995 og tekið úr honum 15.02.1996 tók hiti að hækka í gáminum þann 18.01.1996 og hélzt í u.þ.b. -10°C til hádegis 03.02. s.á., og lækkaði þá hratt og hafði náð -25°C þann 9. febrúar s.á. Ástæða þess, að hitastig var svo hátt í þetta langan tíma, er rakin til þess, að starfsmaður stefnanda hafði ekki nægjanlegt eftirlit með sírita, þ.e. við aflestur og hitastigsskráningu. Stefnandi tilkynnti stefnda og Eimskipafélagi Íslands hf. um tjónið með tjónaskýrslu og fylgiskjölum, dags. 16. desember 1996. Nokkru áður hafði stefnandi sagt upp tryggingu sinni hjá stefnda, og féll hún úr gildi í apríl 1997.
Í máli þessu krefst stefnandi greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu sinni hjá stefnda vegna skemmda á hráefni í framangreindum gámi. Stefndi hefur hafnað öllum bótagreiðslum vegna tjónsins.
Ágreiningur aðila snýst um gildi viðauka þess, sem gerður var við ábyrgðartrygginguna í ársbyrjun 1993. Heldur stefnandi því fram, að hann hafi ítrekað óskað eftir því við stefnda, að hann fengi víðtækari skilmála, sem fælu í sér tryggingu á vörum í hans vörzlu, en án árangurs. Stefndi kveður það vera rangt, en hins vegar hafi stefnandi leitaði eftir því hjá stefnda að fá gildissvið ábyrgðartryggingarinnar útvíkkað, þannig að tryggingin tæki einnig til tjóns á vöru, meðan unnið væri við að flytja hana um borð í skip eða frá borði, eða við flutning hennar á athafnasvæði hans í tengslum við út- og uppskipun hennar.
Stefnandi kveðst hafa fengið af því fregnir, að umboðsmaður skipa á Húsavík hefði keypt ábyrgðartryggingu vegna atvinnustarfsemi af öðru tryggingarfélagi, Sjóvá, sem tæki til vara í vörzlum vátryggingartaka. Hafi þeir skilmálar falið í sér, að grein nr. 5 var felld út í heild sinni. Stefnandi kveðst hafa fengið afrit af skilmálunum hjá umboðsmanni skipa á Húsavík og sent þá til Ágústs Ögmundssonar hjá stefnda með tilkynningu þess efnis, að hann yrði að leita annað með tryggingakaup sín, enda hefði hann brýna þörf á vátryggingarvernd vegna muna í hans vörzlum. Stefndi mótmælir þessu sem röngu.
Stefnandi kveður aðila hafa hafið viðræður um breytingar á skilmálum vátryggingar stefnanda, og hafi orðið að samkomulagi milli aðila, að ábyrgðartrygging stefnanda skyldi ná til vara í hans vörzlum. Hafi sérstöku skilmálarnir átt að vera að öllu leyti hliðstæðir þeim sérstöku skilmálum, sem giltu um tryggingar hjá Sjóvá, sem stefnandi hafði sent stefnda afrit af. Stefndi kveður aldrei hafa komið til álita í þeim umræðum, að þörf stefnanda á rýmkun ábyrgðartryggingarinnar byggðist á því, að hann hefði frystigáma til geymslu á athafnasvæði sínu til langtíma.
Stefnandi kveðst hafa sent stefnda og fleiri tryggingarfélögum bréf, í nóvember 1995, með upplýsingum um þá þætti, sem hann vildi tryggja, og hafi tilgangur bréfsins verið að fá tilboð frá félögunum í tryggingakaup hans. Stefnandi kveðst ekki hafa haft hug á að breyta ábyrgðartryggingu vegna atvinnustarfsemi sinnar, hvað varði vörur í hans vörzlum, heldur hafi hann viljað leita hagstæðasta tilboðsins í tryggingakaupin. Í erindi stefnanda hafi sérstaklega verið tilteknar ábyrgðartryggingar, þar með taldar vörur í vörzlu. Ekki hafi orðið breytingar á tryggingakaupum stefnanda í kjölfar þessa. Stefndi kveður stefnanda hafa sent stefnda skriflegar upplýsingar um verðmæti ýmissa vátryggðra eigna, svo og upplýsingar um fjölda starfsmanna, fjölda vinnuvikna, greidd laun o.fl., en þær upplýsingar hafi ekki borið með sér, að stefnandi hefði verið að leita tilboða í vátryggingar sínar hjá öðrum tryggingafélögum. Hafi stefndi litið svo á, að hér væri einungis um helztu upplýsingar að ræða til að endurskoða vátryggingariðgjöld stefnanda fyrir komandi ár og gera nauðsynlegar leiðréttingar og lagfæringar, eins og venja sé. Á upplýsingagjöf þessa hafi því, af hálfu stefnda, aldrei verið litið svo á, að með henni hafi stefnandi verið að óska eftir nýjum tilboðum í vátryggingar sínar, eða að ábyrgðartrygging hans ætti að vera að einhverju leyti víðtækari, en hún hafði verið.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi reisir kröfur sínar á því, að stefndi sé greiðsluskyldur fyrir það tjón, sem stefnandi hafi þurft að taka á sig vegna skemmda á hráefni í gámi í sinni vörzlu, á grundvelli viðauka við skilmála ábyrgðartryggingar hans, sem gilt hafi frá 1. janúar 1993, og framkvæmdar vátryggingarsamningsins.
1. Almennur málskilningur og tilgangsskýring ráði túlkun skilmála:
Í grein 2.1 í vátryggingarskilmálum ábyrgðartryggingar stefnanda hjá stefnda segi, að vátryggingin taki til skaðabótaábyrgðar, sem falli á vátryggðan vegna slyss á mönnum eða skemmda á munum vegna starfsemi þeirrar, sem getið sé um í skírteini eða iðgjaldskvittun. Vátryggingarskilmála beri að skýra í samræmi við eðli og tilgang ábyrgðartryggingar. Tilgangur ábyrgðartryggingar stefnanda hjá stefnda komi fram í ofangreindri grein 2.1 í almennu skilmálunum með tryggingunni. Undanþáguákvæði í grein 5.2, sem kveði á um vörur í vörzlum vátryggingartaka, beri að skýra þröngt í samræmi við reglur um túlkun undanþáguákvæða samninga. Allar takmarkanir á undanþáguákvæði beri að skýra til samræmis við eðli og tilgang ábyrgðartryggingarinnar, en ekki þröngt, svo sem stefndi hafi gert vegna þess tjóns, sem nú sé krafizt greiðslu vegna.
Eðlilegur málskilningur leiði og til þeirrar skýringar á texta sérstöku skilmálanna, að verndin sé virk frá því að tekið sé við vörugám úr krana skips og þar til eigandi vörunnar taki við vöru úr skipaafgreiðslunni, að því er uppskipun varði, og frá því að tekið sé við vöru í skipaafgreiðslu, og þar til krani skips taki við vörugám, að því er útskipun varði. Í ljósi atvika málsins og aðdraganda tryggingartökunnar sé ljóst, að þessi skilningur verði lagður í orðalag viðaukans. Tryggingarfélagið beri hallann af því, að tímamörk séu ekki tilgreind í viðaukanum, þ.e. hvenær upp- og útskipun teljist lokið, og hvenær hún hefjist.
2. Stefndi hafi gefið stefnanda fullt tilefni til að ætla, að hann væri tryggður fyrir þeirri áhættu að hafa vörur í sínum vörslum:
Stefnandi hafi ávallt staðið í þeirri trú, að hann væri tryggður fyrir öllum skaðabótakröfum, sem hann yrði gerður ábyrgur fyrir, vegna tjóns á vörum í hans vörzlu, í samræmi við ofangreinda skilmála, og hafi það verið forsenda áframhaldandi tryggingarkaupa af stefnda, að vátryggingarverndin næði til þessara þátta í starfsemi hans.
Tilgangur stefnanda með því að óska eftir aukningu á vátryggingarverndinni hafi verið að tryggja vörur, sem séu í gámum í hans vörzlum, enda hafi hann haft brýna þörf fyrir þá tryggingu í samræmi við tegund atvinnustarfsemi hans. Engum vafa hafi verið undirorpið, að sameiginlegur skilningur hafi verið milli aðila til hvers konar, eða hvaða, tjóna ætlunin hafi verið, að ábyrgðartrygging næði, eftir að hinir sérstöku skilmálar höfðu tekið gildi. Sameiginlegur skilningur aðila hafi verið sá, að skilmálarnir fælu í sér, að undanþáguákvæði greinar 5.2 ætti ekki við um stefnanda, og hafi það verið í samræmi við sambærilegar tryggingar hjá samkeppnisaðila stefnda, sem stóðu stefnanda til boða þá, og hann hafi í dag.
Stefndi hafi og staðfest, að þessi skilningur stefnanda sé réttur, með því að gera upp tjónsbætur vegna skemmda á hráefni í gámi, sem stafaði af gáleysi starfsmanns stefnanda. Nánar tiltekið sé þar um að ræða áður nefndar bótakröfur frá Rit hf., sem stefndi greiddi 23. september 1996. Í því máli hafi atvik verið með nákvæmlega sama hætti og í því tilviki, sem nú sé gerð krafa um greiðslu á, þ.e. hitastig í gámi hafi hækkað, án þess að starfsmenn stefnanda veittu því eftirtekt.
Vegna þess máls hafi starfsmenn stefnda kynnt sér aðstöðu, sem stefnandi hafi við rekstur starfsemi sinnar, og af þeirri skoðun hafi verið augljóst, að vörur kunni að staldra við um lengri eða skemmri tíma á athafnasvæði stefnanda. Þá megi ljóst vera, að geymsla gáma á athafnasvæði stefnanda sé ávallt í tengslum við upp- og útskipun þeirra. Hvort gámar séu hafðir á athafnasvæði félagsins í lengri eða skemmri tíma, skipti ekki máli, enda sé það eðlilegur þáttur í starfsemi stefnanda, að gámar séu hafðir á svæðinu í óákveðinn tíma, þar til eigendur varanna taki við þeim úr vörslum skipaafgreiðslu. Þegar starfsmenn stefnda skoðuðu aðstöðu stefnanda, hafi þeir ekki séð ástæðu til að koma á framfæri neinum athugasemdum um þá sérstöku skilmála, sem giltu, né hafi það haft nein áhrif á uppgjör greiðslu vegna bótakröfunnar frá Rit hf. Þá hafi starfsmenn stefnda ekki ástæðu til að gera fyrirvara um gildissvið vátryggingarinnar í þeim bréfaskiptum, sem áttu sér stað vegna uppgjörs á tjóni Rits hf.
Samkvæmt framansögðu megi ljóst vera, að stefndi hafi gefið stefnanda fullt tilefni til að ætla að hann væri tryggður fyrir þeirri áhættu að hafa vörur í sínum vörzlum, og sé hann því ábyrgur fyrir þeirri áhættu.
3. Stefndi beri hallann af óskýrleika í vátryggingaskilmálum og framkvæmd á vátryggingarsamningi:
Hafi stefndi ætlað að takmarka trygginguna við ákvæði 5. gr., þrátt fyrir sérskilmála, um að ábyrgðin tæki til vöru í upp- og útskipun og uppgjör á áðurgreindu tilviki, hefði stefndi þurft að gera það með skýrum hætti. Stefndi hefði þurft að taka fram, að trygging á vörum í upp- og útskipun takmarkaðist við tilgreind tímamörk. Þá hefði stefndi þurft að taka það skýrt fram, að áðurgreint tjónsuppgjör hefði verið gert á einhverjum öðrum forsendum en þeim, að það félli undir trygginguna. Stefndi sé vátryggingafélag og hafi samið texta sérstöku skilmálanna, sem giltu frá l. janúar 1993. Stefndi beri því hallann af óskýrleika í vátryggingaskilmálum og framkvæmd á vátryggingarsamningi.
Stefnufjárhæðin sé fengin þannig út, að miðað sé við fjárhæð þess tjóns, sem Bakki hf. varð fyrir, og stefnandi hafi verið bótaskyldur vegna, þ.e. kr. 2.333.645. Tekið sé tillit til sjálfsábyrgðar stefnanda, sem samkvæmt yfirliti frá stefnda fyrir 1. apríl 1996, sé að hámarki kr. 185.000. Samtals nemi stefnufjárhæðin því kr. 2.148.645.
Upphafstími dráttarvaxta af stefnufjárhæð sé sá dagur, þegar liðinn hafi verið einn mánuður frá dagsetningu tjónaskýrslu stefnanda til stefnda.
Um greiðsluskyldu stefnda vísist til laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 og meginreglu vátryggingarréttar um in dubio contra stipulatorem. Enn fremur sé vísað til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og samninga. Þá sé vísað til almennra reglna um bótaskyldu innan samninga.
Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti af stefnufjárhæð byggist á 12. og 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
Málskostnaðarkrafan byggi á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda:
Aðalkrafa:
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ábyrgðartrygging sú, er stefndi keypti hjá stefnda, ásamt þeim viðauka, sem gilt hafi óbreyttur frá 1. janúar 1993, nái ekki til þess tjóns, sem stefnandi geri kröfu um, að sér verði greitt.
1. Tjón ekki bótaskylt úr ábyrgðartryggingu stefnanda:
Sú almenna undantekning í ábyrgðartryggingarskilmálum stefnda, að vátryggingin taki ekki til skemmda á munum, sem séu í vörzlum vátryggðs, eins og nánar sé tilgreint í grein 5.2, eigi sér langa sögu og sé eitt mikilvægasta undanþáguákvæðið í skilmálunum.
Ákvæðið helgist einkum af því, að oft geti komið til ríkari bótaábyrgðar þess, er hafi hlut í vörzlum sínum, en leidd verði af almennum skaðabótareglum, en tilgangur ábyrgðartryggingarinnar sé fyrst og fremst sá að veita vátryggðum vernd gegn bótaábyrgð, sem á hann kunni að falla samkvæmt almennum skaðabótareglum. Almennt sé hér um slíka áhættu að tefla, að hún sé ekki tryggjanleg í almennri ábyrgðartryggingu, sem að jafnaði sé í boði hjá vátryggingarfélögum. Að því marki, sem gerlegt sé að víkja frá undanþáguákvæðinu, sé það því aðeins gert, að umfang áhættunnar sé skýrt afmarkað og tryggingafélagi hafi gefizt kostur á að meta áhættuna. Í ljósi þessa beri að skoða og túlka umrætt undanþáguákvæði í gr. 5.2 í hinum umdeildu skilmálum, svo og þá sérskilmála, sem gerðir séu til rýmkunar á því.
Hefði það verið ætlun stefnda að víkja frá undanþáguákvæði í gr. 5.2, eins og stefnandi gefi í skyn, hefði greinin einfaldlega verið felld niður úr skilmálunum. Sú hafi hins vegar ekki verið raunin, enda hafi aldrei verið ætlun aðila, hvorki stefnanda né stefnda, að svo langt þyrfti að ganga í rýmkunarátt til að fullnægja þörfum og hagsmunum stefnanda á þeim tíma, er samkomulag tókst um hina rýmkuðu skilmála, þ.e. í byrjun árs 1993. Í raun sé stórlega dregið í efa, að á þeim tíma hafi starfsemi stefnanda verið með þeim hætti, að hann hafi tekið að sér langtíma geymslu á frystigámum.
Sá sérstaki skildagi, sem stefnandi hafi fengið við ábyrgðartryggingu sína þann l. janúar 1993, þannig að hún tæki einnig til tjóns á vörum, sem yrði við upp- og útskipun, sé alveg skýr og afdráttarlaus, hvað gildissvið snerti. Taki vátryggingin að þessu leyti fyrst og síðast til tjóns, sem verði við flutning og meðhöndlun vörunnar í tengslum við að skipa henni um borð í skip, eða frá borði, eða taka við vöru úr höndum sendanda, eða afgreiða hana í hendur viðtakanda, þ.e.a.s. tjón sem verði, þegar stefnandi meðhöndli vöruna í tengslum við þá starfsemi sína að reka skipaafgreiðslu.
Sú starfsemi stefnanda að annast geymslu frystigáma til langs tíma sé af allt öðrum toga og eigi ekkert skylt við rekstur skipaafgreiðslu. Með slíkri starfsemi komi til allt önnur og mun meiri áhætta en felist í rekstri venjulegrar skipaafgreiðslu. Hafi stefnandi ætlað að kaupa vátryggingarvernd, sem tæki til ábyrgðar vegna frystigáma í geymslu, hefði honum borið að gera grein fyrir þeirri starfsemi sérstaklega og semja enn fremur um víðtækari skilmála, en hann hafi áður samið um um. Undir slíkum kringumstæðum hefði stefndi tekið mun hærra iðgjald en hann hafi áskilið sér vegna sérskilmálans um upp- og útskipun, auk þess sem eigin áhætta stefnanda í hverju tjóni hefði orðið mun hærri en gildi varðandi skilmálann um upp- og útskipun. Sé fráleitt, að eðlilegur málskilningur leiði til þeirrar skýringar á vátryggingarsamningi aðila, að ábyrgð stefnda nái til tjóns á frystum sjávarafurðum í gámum, sem stefnandi hafi tekið til geymslu til langs tíma.
Um leið og stefnandi tilkynnti stefnda, snemma árs 1996, um tjón á rækju í eigu Rits hf., hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því, að tjónið væri ekki bótaskylt úr ábyrgðartryggingu hans hjá stefnda. Starfsmenn stefnda hafi sótt stefnanda heim í júlí 1996, m.a. í þeim tilgangi að skoða nýtt athafnasvæði hans og meta þá áhættu, sem myndi felast í því að útvíkka gildissvið ábyrgðartryggingarinnar í samræmi við óskir stefnanda, vegna geymslu á frystigámum. Í þeirri heimsókn hafi stefnanda ekki átt að geta dulizt sú eindregna afstaða stefnda, að ábyrgðartrygging hans hafi alls ekki tekið til slíks tjóns. Það jaðri því við ósvífni af hálfu stefnanda að halda því nú fram, að stefndi hafi staðfest skilning hans á gildissviði vátryggingarinnar með því að greiða honum téða bótakröfu frá Rit hf. Stefnandi hafi vitað betur, og skipti í þessu sambandi engu máli, þótt láðst hafi að geta þess í skaðabótakvittun, að bæturnar væru greiddar án viðurkenningar á bótaskyldu.
Skilmálar þeir, sem giltu um ábyrgðartryggingu stefnanda, hafi verið skýrir og afdráttarlausir. Ekki hafi verið sérstök þörf á að tilgreina sérstök tímamörk um það, hvenær vara teldist vera til upp- eða útskipunar hjá stefnanda. Fari það eftir meðhöndlun vörunnar hverju sinni, hvenær hún teljist vera í upp- eða útskipun. Sé af og frá, að langtíma geymsla frystigáms teljist til upp- eða útskipunar. Í máli þessu komi því ekki til, að stefndi þurfi að bera halla af óskýrleika í vátryggingarskilmálum, eða af framkvæmd vátryggingarsamnings.
Varakrafa:
Varakrafa sé sett fram, fari svo ólíklega, að sýknukrafa stefnda verði ekki tekin til greina. Krafa stefnanda sé allt of há, og stefnandi hafi ekki með neinum haldbærum gögnum sýnt fram á, að raunverulegt tjón Bakka hf. hafi numið kr. 2.333.645. Kröfufjárhæð stefnanda sé því mótmælt sem allt of hárri.
Samkvæmt skoðunarskýrslu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins frá 1. nóvember 1996 verði ekki annað séð, en rækjan hafi verið hæf til vinnslu. Heildarmagn í gáminum, sem hin skemmda rækja var í, virðist hafa numið 19.350 kg. Samkvæmt upplýsingum Bakka hf. hafi nýting á rækjunni verið 18%. Bakka hf. hafi borið að takmarka tjón sitt, eins og kostur hafi verið, og nýta því alla þá rækju, sem var í gáminum. Miðað við 18% nýtingu hefði nýtanlegt magn numið 3.483 kg (19.350 x 18%). Fyrir það magn hefðu átt að fást kr. 2.089.800 (3,483 x 600), þegar miðað sé við sama söluverð og miðað sé við í útreikningum Bakka hf. Frá þeirri upphæð dragist innkaupsverð, kr. 2.476.800 (19.350 x 128), og sennilegur vinnslukostnaður, sem sanngjarnt sé að reikna kr. 30 á hvert kg, eða kr. 580.500 (19.350 x 30). Þannig verði ekki séð, að raunverulegt tjón Bakka hf. vegna tjóns á umræddri rækju hafi numið meiru en kr. 967.500 (2.089.800 - 2.476:000 - 580.500).
Vextir:
Þegar tjónaskýrsla stefnanda var gerð og hún send stefnda hafi engar kröfur verið komnar fram á hendur stefnanda. Sé því enginn lagagrundvöllur til að miða upphafstíma dráttarvaxta við 16. janúar 1997. Verði krafa stefnanda að einhverju leyti tekin til greina, séu ekki skilyrði til að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögudegi.
Málskostnaður:
Málskostnaðarkröfur í aðalkröfu og varakröfu séu reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi hafi ekki með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar stefnandi, Tryggvi Tryggvason, Árni Grétar Gunnarsson, fyrrum starfsmaður skipaafgreiðslu Húsavíkur, Halldór Jónsson fiskverkandi, Kristinn Kristjánsson framleiðslustjóri hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru á Ísafirði, Össur Lárusson, fyrrum starfsmaður stefnda, Ágúst Ögmundsson, aðstoðarforstjóri stefnda, og Páll Viggó Jónsson, starfsmaður stefnda.
Engin skrifleg gögn liggja fyrir um tildrög þess, að vátryggingarvernd stefnanda var rýmkuð í ársbyrjun 1993, eða hverjar forsendur lágu að baki henni. Ágúst Ögmundsson bar fyrir dómi, að stefnandi hefði einungis óskað eftir víðtækari tryggingu við meðferð eða höndlun á vöru, sem honum hefði verið veitt. Ekki hefði verið minnzt á ábyrgð vegna gáma, sem hann hafði til geymslu. Hann kannaðist ekki við að hafa séð skilmálana, sem stefnandi kveðst hafa fengið hjá umboðsmanni skipa á Húsavík, en kvað stefnanda oft hafa vísað í þá, og þá eingöngu vegna útvíkunnar skilmálanna vegna höndlunar á vöru. Hann kannaðist við að hafa fengið dskj. nr. 4, sem er það bréf, sem stefnandi kvaðst hafa sent ýmsum tryggingafélögum í nóvember 1995 í þeim tilgangi að fá tilboð í tryggingakaup. Í skjali þessu segir m.a. svo: “V/Slysatryggingar launþega, frítímatryggingar, ábyrgðatryggingar þ.m.t. vörur í vörslu.” Skjal þetta ber ekki með sér eitt sér, að verið sé að leita eftir tilboði í tryggingar, en það ber yfirskriftina “Upplýsingar vegna trygginga í nóvember 1995.” Einu upplýsingarnar, sem fyrir liggja í máli þessu um, hvað fólst í hinni auknu vátryggingarvernd stefnanda, eru þær, sem skráðar voru í viðauka vátryggingarskírteinisins, þ.e. að tryggðar séu vörur í upp- og útskipun. Hvergi kemur fram, að undanþáguákvæði gr. 5.2 í vátryggingarskilmálunum hafi verið fellt út. Því hefur ekki verið mótmælt, að hluti af starfsemi stefnanda laut að vörzlum gáma um lengri eða skemmri tíma. Þá er því ómótmælt, að umdeildur frystigámur hafi verið í geymslu hjá stefnanda um lengri tíma, enda þótt tjónið hafi orðið á fyrri hluta geymslutímans. Er ekki unnt að fallast á, gegn andmælum stefnda, að vörugeymsla teljist eðlilegur hluti af starfsemi stefnanda við upp- og útskipun, og hefði þurft að tryggja þá starfsemi sérstaklega, með hliðsjón af undanþáguákvæði vátryggingarskilmálanna.
Með vísan til orðalags í viðbótarskilmálanum, sem stefnandi gerði aldrei athugasemdir við, er ekki fallizt á, að það hafi víðtækari merkingu af þeim sökum einum, að stefnda hafi mátt vera ljóst, að ábyrgð stefnanda hófst við skipshlið og lauk við skipshlið, eftir því hvort um upp- eða útskipun var að ræða, enda fer fram ýmisleg meðhöndlun vörunnar í beinum tengslum við upp- eða útskipun hennar, s.s. flutningur hennar að og frá skipshlið.
Stefnandi byggir einnig á því, að stefndi hafi gefið honum tilefni til að ætla, að vörur í hans vörzlum væru tryggðar, og vísar þá í bótagreiðslu stefnda vegna sambærilegs tjóns í gámi Rits hf.
Það liggur fyrir, að stefnandi greiddi það tjón, án þess að gera skriflegan fyrirvara um bótaskyldu, og eru allar fullyrðingar um munnlegan fyrirvara ósannaðar gegn andmælum stefnanda. Mátti stefnandi því líta svo á, að vátryggingarverndin tæki til gáma í geymslu hjá honum, á þeim tíma sem tjónið á gámi Rits var samþykkt. Hins vegar er ekki fallizt á, að stefnandi hafi mátt vera í þessari góðu trú, þegar tjónið varð á gámi Bakka hf., sem um er deilt í máli þessu, en óumdeilt er, að það varð áður en tjónið í gámi Rits varð, enda þótt það hafi uppgötvazt mun síðar. Stefnandi getur því ekki byggt bótakröfu sína á hendur stefnda á því, að stefndi beri ábyrgð á því, að hann hafi ranglega staðið í þeirri trú, að vátryggingarverndin næði til gáma í hans vörzlu, þegar umdeilt tjón varð.
Ekki er fallizt á, að orðalag í vátryggingarsamningi sé svo óskýrt, að bótaskylda falli á stefnda af þeim sökum.
Með vísan til framanritaðs ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Tryggva Tryggvasonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.