Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-30
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Endurgreiðsla
- Skattur
- Tollur
- Framsal valds
- Stjórnarskrá
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 11. mars 2022 leitar Sælkeradreifing ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. febrúar sama ár í máli nr. 455/2020: Sælkeradreifing ehf. gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til endurgreiðslu á fjármunum sem hann hafði innt af hendi til gagnaðila á tilteknu tímabili vegna innflutnings á landbúnaðarvörum sem báru toll samkvæmt 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 og tollskrá í viðauka með lögunum. Reisti hann kröfu sína á ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda og taldi að með ákvæðum þágildandi tollalaga og búvörulaga nr. 99/1993 hefði ráðherra verið framselt vald umfram það sem væri heimilt samkvæmt 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Vísað var til þess að með því fyrirkomulagi sem mælt væri fyrir um í 65. gr. A búvörulaga og 3. mgr. 12. gr. tollalaga, um úthlutun tímabundinna tollkvóta á sérstökum tollkjörum, væri stefnt að lögmætum markmiðum sem væri lýst í 1. gr. búvörulaga. Játa yrði löggjafanum talsvert svigrúm við val á leiðum að þeim markmiðum að því tilskildu að gætt væri grundvallarsjónarmiða stjórnarskrár um að skattar skyldu lagðir á eftir almennum efnislegum mælikvarða og jafnræðis gætt gagnvart skattborgurum eftir því sem unnt væri. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 65. gr. A búvörulaga væri ljóst að ráðherra væri skylt að úthluta umræddum tollkvóta að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Í ákvæðinu hefði með nægilega skýrum hætti verið kveðið á um skattskylduna þegar tilteknar aðstæður ríktu á innanlandsmarkaði og ákvörðun um úthlutun tollkvótans hefði því ekki verið á hendi ráðherra. Þá þótti engum vafa undirorpið að hverjum gjaldskyldan beindist. Talið var að löggjafinn hefði tekið nægilega skýra afstöðu til þess hvaða forsendur skyldu ráða fjárhæð tollgjaldsins samkvæmt 3. mgr. 12. gr. tollalaga og að ráðherra eða önnur stjórnvöld hefðu ekki haft það svigrúm sem máli skipti til að ákveða fjárhæð þess, breyta því eða um önnur meginatriði skattheimtunnar. Var því ekki fallist á að um óheimilt framsal löggjafans á skattlagningarvaldi til ráðherra hefði verið að ræða.
5. Leyfisbeiðandi byggir því á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um heimildir löggjafans til framsals skattlagningarvalds til stjórnvalda. Dómur Landsréttar sé í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar enda hafi ráðherra samkvæmt umræddum lögum haft talsvert svigrúm til mats, bæði til ákvörðunar um hvort skattur skyldi lagður á og til ákvörðunar um fjárhæð hans. Með lögum nr. 152/2019 um breytingu á búvörulögum og tollalögum sem tóku gildi 1. janúar 2020 hafi þessu verið breytt. Þá bendir hann á að 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar kveði á um fortakslaust bann við því að stjórnvöldum sé falið nokkurt svigrúm til ákvörðunar um meginatriði skattheimtu. Það sé ekki nægilegt að löggjafinn taki skýra afstöðu til þess hvaða forsendur skuli ráða fjárhæð skatts líkt og lagt hafi verið til grundvallar í dómi Landsréttar.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.