Hæstiréttur íslands
Mál nr. 386/2005
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 23. febrúar 2006. |
|
Nr. 386/2005. |
Samherji hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) gegn Jane Ingrid Bork (Hreinn Pálsson hrl.) |
Vinnuslys. Líkamstjón. Gjafsókn.
J byggði kröfu sína á því að hún hafi orðið fyrir slysi við störf sín hjá S í janúar árið 2000. Taldi hún S bera skaðabótaábyrgð á slysinu sem vinnuveitandi hennar vegna ófullnægjandi aðstæðna á vinnustað og annmarka á verkstjórn við þau störf sem J vann er hún slasaðist. J var ekki talin hafa sannað að hún hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá S umræddan dag og var S þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2005. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefnda byggir kröfu sína á því að hún hafi orðið fyrir slysi við störf sín hjá áfrýjanda 28. janúar 2000. Telur hún áfrýjanda bera skaðabótaábyrgð á slysinu sem vinnuveitandi hennar vegna ófullnægjandi aðstæðna á vinnustað og annmarka á verkstjórn við þau störf sem stefnda vann er hún slasaðist.
Sá sem krefst skaðabóta úr hendi annars aðila vegna slyss verður að sanna að hann hafi orðið fyrir slysi, að það hafi leitt til þess tjóns sem bóta er krafist fyrir og það megi rekja til atvika sem gagnaðilinn beri ábyrgð á með þeim hætti að bótaskyldu varði. Í málinu greinir aðila á um hvort stefnda hafi uppfyllt sönnunarskyldu sína um þessi atriði.
Staðhæfingar málsaðila um atvik máls hafa almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við úrlausn á ágreiningi málsaðila um sönnun atvika í þessu máli verður því að taka afstöðu til þess, hvort staðhæfingar stefndu fái stoð í sönnunargögnum sem aflað hefur verið við rekstur málsins.
Engin vitni voru að hinum ætlaða tjónsatburði. Samstarfsmaður stefndu við færibandið umrætt sinn gaf skýrslu hjá lögreglu 9. júní 2000 og kvaðst ekki muna eftir að stefnda hafi minnst á það við sig að hafa fengið vörubretti í höfuðið þennan dag. Hann minntist þess heldur ekki að stefnda hafi kvartað undan höfuðverk næstu daga á eftir. Óumdeilt er að stefnda lét hvorki yfirmenn né samstarfsfólk sitt vita um slysið og gafst því ekki tilefni til að rannsaka vettvang og hugsanlegar orsakir þess þegar í stað. Ekki nýtur gagna í málinu um að ytri áverkar hafi sést á stefndu eftir slysið, en hún bar sjálf fyrir dómi að hún hefði fengið stóra kúlu á höfuðið. Ekkert slíkt kemur heldur fram í læknisvottorðum um skoðun á stefndu 11. febrúar 2000 en þann dag leitaði hún á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri vegna höfuðverks. Í þessum vottorðum er heldur ekki minnst á höfuðhöggið sem stefnda kveðst hafa fengið í slysinu, þó að greint sé frá kvörtunum hennar varðandi heilsufar umrætt sinn.
Í málinu liggur fyrir bréf framkvæmdastjóra pökkunarstöðvar áfrýjanda 7. mars 2000 „til þeirra sem málið varðar“. Tilefni þess mun vera milliganga sem danskur konsúll á Akureyri hafði við að koma orðsendingu til áfrýjanda um slysið. Í bréfinu er tekið fram að stefnda segist hafa orðið fyrir höfuðhöggi sem kunni að vera orsök veikinda hennar. Er þetta í fyrsta sinn sem gögn málsins nefna að stefnda kveðist hafa orðið fyrir slysi. Bréfritari segist hafa kannað málið með viðtölum við yfirmann, samstarfsfólk og launafulltrúa. Hafi enginn kannast við að stefnda hafi slasast á vinnustaðnum.
Ekki verður bætt úr skorti á sönnun um að tjónsatburðurinn hafi orðið með vitnisburði starfsmanna áfrýjanda um geymslustað vörubretta eða almennar aðstæður á vinnustaðnum. Hið sama er að segja um síðari tíma læknaskýrslur, umsögn Vinnueftirlits ríkisins um aðstæður á vettvangi löngu eftir að slysið á að hafa orðið og vottorð frá veðurstofu.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telst ósannað að stefnda hafi slasast við vinnu sína hjá áfrýjanda umræddan dag. Verður áfrýjandi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfu stefndu.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verður látinn niður falla. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu í héraði verða staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Samherji hf., er sýkn af kröfu stefndu, Jane Ingrid Bork.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað.
Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. ágúst 2005
Mál þetta, sem dómtekið var þann 22. júlí, hefur Jane Ingrid Bork, kt. 310759-2289, Sólheimum 1, 601 Akureyri, höfðað hér fyrir dómi með stefnu, útgefinni 15. júní 2004 og birtri 15. s.m., á hendur Samherja h.f., kt. 610297-3079, Glerárgötu 30, 600 Akureyri, og Tryggingamiðstöðinni h.f. kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, til réttargæslu, en málið var þingfest 24. júní s.á.
Endanlegar dómkröfu stefnanda eru þær, að hið stefnda félag, Samherji h.f. verði dæmt til að greiða henni kr. 6.554.578 með 4,5% ársvöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37, 1999 um breytingar á þeim lögum, af kr. 2.771.578 frá slysdegi 28. janúar 2000 til 1. október 2001, en af kr. 6.554.578 frá þ.d. til 17. desember 2003 og með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38, 2001 til greiðsludags. Þá er þess krafist að vextirnir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 28. janúar 2001.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda, þ.m.t. útlagðs kostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, en með bréfi Dómsmálaráðuneytisins dags. 18. júlí 2002 var stefnanda veitt gjafsókn og gerir stefnandi þá kröfu að málskostnaður verði dæmdur henni eins og málið sé eigi gjafsóknarmál. Þá er krafist að 24% virðisaukaskattur leggist við dæmdan málskostnað sbr. lög nr. 50, 1998, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyld.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, en það félag hafði með höndum ábyrgðartryggingar vegna launþega fyrir stefnda.
Dómkröfur stefnda eru aðallega, að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og að málskostnaður verði dæmdur að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Í stefnu og öðrum gögnum er atvikum máls lýst á þá leið að stefnandi, sem er danskur ríkisborgari, hafi flust búferlum frá Danmörku til Íslands sumarið 1999 og tekið sér bólfestu í næsta nágrenni Akureyrar. Þann 4. október það ár hóf hún störf í fiskvinnslufyrirtæki stefnda, Strýtu á Oddeyrartanga, nánar til tekið í pökkunarstöð fyrirtækisins.
Ágreiningslaust er að þann 28. janúar 2000 var stefnandi ásamt öðrum starfsmanni, Huldu Ólafsdóttur, að pakka eins kílóa pokum af frosnum karfaflökum í kassa. Kassarnir voru færðir á færiband, og þaðan í sjálfvirka lokunarvél en síðan var þeim staflað á trévörubretti. Vörubrettin voru færð til með vörulyftara ellegar handlyftara.
Af hálfu stefnanda er atvikum nánar lýst á þann veg að umræddan dag hafi vantað 2-3 manneskjur í pökkunarsalinn og þar sem færibandið hafi stöðugt verið í gangi hafi aðeins önnur þeirra, þ.e. hún eða nefnd Hulda, mátt víkja frá í senn. Það hafi því gerst er vörubretti var fullhlaðið að hún hafi farið út úr vinnslurýminu og inn á lager til að ná í nýtt bretti. Staðhæfir stefnandi að það hafi tíðkast að vörubrettin hafi verið geymd utan dyra í frosti og snjó, en brettastæður, allt að 2ja metra háar, verið færðar á nefndan lager. Til þess að ná til efsta brettisins hafi hún í greint sinn mátt stíga upp í brettasamstæðuna. Brettið hafi verið hálffrosið eða stamt af bleytu og hafi hún því þurft að beita afli til að losa um það. Við þetta átak hafi brettið skyndilega losnað og fallið niður og þá rekist í höfuð hennar. Hún hafi strax fengið kúlu á höfuðið, en í fyrstu ekki fundið fyrir miklum óþægindum og þar sem ekki hafi blætt hafi hún ekki haft orð á höfuðhögginu við samstarfsmann sinn. Hún hafi því lokið vinnu sinni nefndan dag. Daginn eftir atvikið hafi hún hins vegar fundið fyrir höfuðverk sem hafi ágerst með tímanum og af þeim sökum hafi hún tekið verkjatöflur. Hún hafi þó farið til vinnu mánudaginn 31. janúar og sinnt störfum sínum allt til þriðjudagsins 8. febrúar, en það hafi verið síðasti vinnudagur hennar hjá stefnda. Miðvikudaginn 9. febrúar hafi höfuðverkurinn verið orðinn slíkur að hún hafi átt erfitt með svefn og af þeim sökum kvatt Braga Sigurðsson heimilislækni til sín. Læknirinn hafi talið að hún væri með slæmar bólgur í ennisholum. Fimmtudaginn 10. febrúar hafi hún farið á Heilsugæslustöðina á Akureyri þar sem m.a. hafi verið tekin úr henni blóðprufa. Föstudaginn 11. febrúar hafi hún enn farið á Heilsugæslustöðina, hitt fyrir nefndan lækni, er hafi tjáð henni að samkvæmt blóðprufunni væri eitthvað athugavert við heilsu hennar og gefið þau fyrirmæli að ef höfuðverkurinn skánaði ekki þá skyldi hún leita til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA). Þá um kvöldið hafi hún verið með miklar höfuðkvalir og svima og af þeim sökum farið um miðnættið í leigubifreið á FSA. Í anddyri slysadeildar FSA hafi hún liðið út af og í raun lítið vitað af sér eftir það. Hafi hún dvalið á sjúkrahúsinu þá um nóttina, en farið í sneiðmyndatöku að morgni laugardagsins 12. febrúar. Hafi þá komið í ljós að blæðing var innan við höfuðkúpu. Hafi þá þegar verið flogið með hana í sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hún hafi verið lögð inn á Sjúkrahús Reykjavíkur, en þar hafi hún gengist undir bráðaaðgerð. Hún hafi dvalið á sjúkrahúsinu til 29. febrúar 2000 en þá verið útskrifuð. Hún hafi samt sem áður ekki komist til vinnu og því ýmist dvalið á Íslandi eða í Danmörku, en loks farið í endurhæfingu á Kristnesspítala þann 20. ágúst 2001 og dvalið þar til 5. október sama ár.
Samkvæmt stefnu leitaði stefnandi til danska konsúlsins á Akureyri nokkru eftir að hún lét af starfi sínu í pökkunarstöð stefnda. Liggur fyrir að konsúllinn greindi þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, Aðalsteini Helgasyni frá líðan stefnanda og frásögn hennar um að hún hefði orðið fyrir greindu höfuðhöggi á vinnustaðnum. Í málinu liggur og fyrir bréf Aðalsteins dags. 7. mars 2000, en þar kemur m.a. fram að hann hafi í viðtölum við yfirmann og annað starfsfólk fyrirtækisins komist að því að stefnandi hefði hringt í launafulltrúa fyrirtækisins og greint frá höfuðhöggi og veikindum og að hún hefði haft höfuðverk í einhvern tíma en tekið verkjalyf til að minnka þjáningar sínar. Enginn á vinnustaðnum hafi kannast við að stefnandi hefði slasast á vinnustaðnum, en „sumir samstarfsmenn hennar höfðu áður haft á orði að suma daga virtist hún vera á lyfjum eða “undir áhrifum””. Er haft á orði í bréfinu að umrætt slys sé sennileg skýring á þessu ástandi stefnanda, enda ekki aftekið að það geti hafa átt sér stað þrátt fyrir að hún sé ein til frásagnar þar um. Frá því er greint að stefnandi hafi starfað í nefndri pökkunarstöð í nokkra mánuði og reynst ágætur starfsmaður.
Á meðal gagna málsins eru þrjú læknabréf slysadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna stefnanda, dagsett 11.02. og 17.03. 2000. Í fyrsta bréfinu, sem undirritað er af Birni Guðbjörnssyni sérfræðingi er samskiptadagur tilgreindur 11. febrúar 2000 kl. 00:24, vegna höfuðverkjar stefnanda. Tiltekið er að um sé að ræða 40 ára gamla konu sem hafi átt við áfengisvandamál að stríða, að u.þ.b. mánuði fyrir komu hafi hún fengið sýkingu neðanvert við hægra auga er hafi breiðst út yfir andlit og að hún hafi verið á sýklalyfjum vegna þessa. Þá segir að 2 vikum fyrir komu hafi hún verið kvefuð, en að síðustu 3 daga hafi hún verið með sögu um höfuðverk. Síðan segir: Hefur verið stífluð í nefi og er þetta slæmur höfuðverkur, sérstaklega hægra megin í andliti. Þessu hefur ekki fylgt nein ógleði né uppköst, en hún segist þola ljós svolítið illa. Hún hefur ekki sögu um mígreni. Hún segist lítið hafa sofið undanfarnar 3 nætur. Við komu vaknar strax grunur um sinusitis, sérstaklega þar sem hún var aum yfir enni og kinnum. Var ekki mjög kvalin að sjá. Fékk 2 Parkódín Forte og 1 Voltaren, en þar sem það virkaði ekki eftir klukkustund fékk hún Pethidin 50 mg. og Phenergan 25 mg. i.m. Við það sofnaði hún og svaf í u.þ.b. klukkustund, fór þá heim og kemur ambulant í sinusamind um morguninn.
Í öðru læknabréfinu, sem dagsett er sama dag, þ.e. 11. febrúar 2002 kl. 9:30 segir að ástæða samskipta sé tilgreindur höfuðverkur. Í bréfinu er vísað til upplýsinga frá Braga Sigurðssyni, lækni, þ. á. m. að stefnandi hafi m.a. misnotað áfengi á árum áður og að hún hafi lent í bílslysi einhverjum árum fyrr og þá hlotið áverka á höfuð. Einnig er áréttað að stefnandi hafi verið með sýkingu á hægri kinn í byrjun desember 1999 og að hún hafi af þeim sökum verið meðhöndluð með sýklalyfjum. Tiltekið er að stefnandi hafi fyrst fundið fyrir höfuðverk 2 vikum fyrir komu: „ekkert akút” upphaflega frekar væg, en ágerst og ekki sofið nú s.l. 2-3 nætur. Lýsir sárum púlserandi höfuðverk í öllum hægri hluta höfuðs, mest á bak við augað, eins og augað ætli að þrýstast út. Einhver ljósfælni, eitthvað runnið meira úr auganu. Óvinnufær s.l. 2 daga. Ekki veitt eftirtekt neinum neurologiskum brottfallseinkennum öðrum en að hún upplifir tvísýni sem er jafnt til allra átta. Síðast í blóðprufu hjá Braga (heimilislækni) í gær og var þá með crp um 50 og sökk 35. Hefur haft hækkuð lifrarpróf. Skoðun kl. 11 að morgni, fengið petitin injection að ganga um 2 um nóttina. Hún er e.t.v. svolítið sljó. Ákaflega ruglingsleg saga. Í stuttu máli ekkert öruggt fokalt í neuroliskum status og ekkert með vissu í lokal status annað en smávægileg litabreyting á hægri kinn. Hún er ekki hnakkastíf. Babinski mjög grunsamlega positifur beggja vegna.
Álit: Vanmetið (sic) en finnst að verði að útiloka annars vegar heilaabcess og hins vegar sinus thrombosu, legg til tölvusneiðmynd af höfði
Viðbót: Á tölvusneiðmynd sést blæðing í heila. Líklega subdural blæðing. Bjarni Hannesson, taugaskurðlæknir er staddur í húsinu og lítur á myndina af sjúklingi. Bjarni metur þetta þannig að hún eigi að fara í aðgerð sem fyrst og fer konan héðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur og leggst inn á taugaskurðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.”
Í læknabréfi Heila- og taugaskurðdeildar Landspítala, sem ritað er f.h. Arons Björnssonar, sérfræðings, og dags. er 9. maí 2000 er ofangreind sjúkrasaga stefnanda rakin að nokkru, þ.á.m. að hún hafi verið með vaxandi höfuðverk við komu á FSA þann 11. febrúar 2000, í u.þ.b. 2 vikur, er hafi ágerst 2-3 daga fyrir komu, en síðan segir: „Saga um einhverjar ryskingar um 2 vikum fyrir komu. Tölvusneiðmynd á FSA fyrir komu sýndi stóra subdural blæðingu hæ. megin. Við skoðun var hún vel vakandi . Var talsvert illa áttuð á stað og stund, var mjög óstyrk við gang og lítt samstarfsfús. Hún kvartaði um tvísýni þegar horft var til beggja hliða en kraftar í útlimum, reflexar og skyn virtust eðlil. Blþr. 176/104 púls 80, reglul. Eðlileg hjarta- og lungnahlustun. Farið var með hana í aðgerð strax við komu og gerð borhola hæg. megin á höfði og tæmt út mikið af gömlu blóði. Eftir aðgerðina hresstist Jane (stefnandi) hratt og var mun betri daginn eftir.“
Í síðast nefnda bréfinu er greint frá því að 14. febrúar 2000 hafi stefnanda hrakað og að hún hafi af þeim sökum þurft að fara í nýja aðgerð. Hafi þá á ný verið tæmt úr mikið af blóði og gömlum himnum. Eftir aðgerðina hafi stefnandi verið í gjörgæslu í einn sólarhring en síðan hægt og rólega farið að hressast og að lokum útskrifast 29. febrúar með tilvísun um áframhaldandi eftirlit hjá læknum á FSA.
Í bréfi áðurnefnds Arons Björnssonar sérfræðings á Heila- og taugaskurðdeild Landsspítala í Fossvogi, dagsettu 16. mars 2000, sem ritað er til danska konsúlsins á Akureyri er sjúkrasaga stefnanda rakina og m.a. staðfest innlögn og meðferð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og segir um það orðrétt: ,,.. vegna blæðingar innan höfuðkúpu sem hún hefur væntanlega fengið við einhvers konar höfuðhögg einhverjum vikum áður. Var þetta farið að valda talsverðum þrýstingi og vaxandi einkennum í formi lömunar og rugls. Þá voru gerðar á henni tvær aðgerðir með einhverra daga millibili og eftir seinni aðgerðina hefur henni farnast vel og er hún nú á góðum batavegi. Hún útskrifaðist á sjúkrahúsið á Akureyri og síðan í framhaldi af því heim til sín, 29.02.2000.“
Samkvæmt gögnum málsins ritaði lögmaður stefnanda beiðni til Vinnueftirlits ríkisins 14. apríl 2000 og til lögreglunnar á Akureyri 17. maí 2000. Er þar að nokkru rakin framan lýst atburðarás en farið fram á frekari rannsókn.
Af hálfu lögreglu fór fram rannsókn í fyrirtæki stefnda Strýtu hf. á tímabilinu frá 31. maí til 4. nóvember 2000. Voru þá m.a. teknar skýrslur af stefnanda, samstarfskonu hennar Huldu Ólafsdóttur, aðstoðarverkstjóranum Bjarneyju Völu Steingrímsdóttur og lyftaramanninum Snorra Sigurðssyni.
Í lögregluskýrslu stefnanda sem dagsett er 31. maí nefnt ár lýsir hún verkefnum sínum á vinnustað stefnda með svipuðum hætti og hér að framan var rakið, þ.á.m. að þann 28. janúar hafi hún verið að pakka karfapakkningum í pappakassa og raða þeim á bretti. Í skýrslunni er tekið fram að lögmaður hennar hafi túlkað orð hennar, en þar segir m.a.:
„Jane segir að hún hafi verið að vinna með konu sem heitir Hulda við að pakka og raða á bretti. Jane segir að þegar að þær hafi verið búnar að fylla brettið þá hafi það verið sótt á lyftara og síðan hafi hún þurft að sækja nýtt bretti til að raða á. Jane segir að þennan dag hafi vantað tvær eða þrjár manneskjur til vinnu og því hafi hún þurft að sækja brettin sjálf. Jane segir að tómum brettum hafi verið ekið inn í húsið í tveggja metra stæðum. Jane segir að þessi bretti hafi staðið úti og verið frosin og snjóug. Jane segir að í eitt skiptið þegar hún var að sækja bretti sem þá voru í u.þ.b. tveggja metra hæð. Jane kveðst hafa ætlað að taka efsta brettið en ekki náð upp og því hafi hún stigið inn í brettastæðuna til að ná hærra upp. Jane segir að hún hafi togað í efsta brettið til að ná því niður. Jane segir að brettið hafi verið frosið fast á stæðunni en það hafi síðan losnað skyndilega og runnið niður á höfuðið á sér. Jane segir að henni hafi ekki fundist afleiðingarnar af þessu né líðan sín eftir þetta hafa verið neitt slæm og því hafi hún haldið áfram vinnu eins og ekkert hafi komið fyrir. Jane kveðst hafa fengið kúlu á höfuðið og hún ekki verið með neinn höfuðverk eftir þetta. Jane segir að þetta hafi líka gerst í endanum á vinnudeginum. Jane sagði að enginn hafi orðið vitni að þessu óhappi. Jane segir að á laugardeginum hafi hún svo fundið fyrir höfuðverk sem svo hafi ágerst. Jane kveðst hafa farið í vinnu á mánudeginum og þá enn verið með höfuðverk og fengið eitthvað af verkjatöflum í vinnunni.“
Í lögregluskýrslunni lýsir stefnandi atvikum máls eftir þetta, þ.á.m. versnandi líðan, samskiptum við lækni og innlögn á FSA með sama hætti og hér að framan var rakið. Lokaorð hennar voru þessi: „Jane segir að hún sé ekki í vafa um að ástæðan fyrir þessum blæðingum sé eftir að hún fékk brettið í höfuðið þegar að hún var að vinna á Strýtu. Jane segir að hún hafi ekki fengið annað höfuðhögg á þessu tímabili, hvorki áður en hún fékk brettið í höfuðið né eftir að það gerðist.“
Í skýrslu sem samstarfskona stefnanda, Hulda Ólafsdóttir gaf hjá lögreglu þann 9. júní 2000 skýrir hún frá því að hún hafi frá því að hún hóf störf í Strýtu hf. í septembermánuði 1999 mikið starfað með stefnanda en jafnframt að hún myndi sáralítið eftir atvikum máls þann 28. janúar sl. Í skýrslunni segir síðan m.a.:
„Hulda segir að hún og Jane hafi verið að vinna saman þennan dag við að pakka fiskpakkningum ofaní kassa. Hulda segir að þeim kössum hafi svo verið raðað á bretti. Hulda segir að þegar að brettin voru full þá hafi hún og Jane keyrt brettin með trillu fram í skála þar sem þau hafi rúllað utan um kassann, utan á brettinu með plasti og síðan hafi lyftari komið og tekið brettið. Hulda segir að yfirleitt sé tóm brettastæða geymd hjá rúllubandinu við pökkunina. Hulda segir að sig minni að í einu tilfelli þegar að brettastæðan var búin við bandið að Jane hafi farið fram í skála til að sækja tómt bretti. Hulda segir að sig minni að Jane hafi farið ein að sækja brettið þar sem þær megi ekki yfirgefa pökkunarbandið báðar í einu því að það sé alltaf í gangi. Hulda segir að hún muni ekki eftir því að Jane hafi minnst á það við sig að hafa fengið bretti í höfuðið þegar að hún sótti það. Hulda kveðst ekki minnast þess að Jane hafi kvartað undan höfuðverk eftir þennan dag.“
Í lögregluskýrslu Bjarneyjar Völu, flokksstjóra, sem dagsett er 9. júní 2000, er haft eftir henni að hún muni ekkert eftir þeim degi er vinnuslys það sem um sé rætt hafi átt að gerast þ.e. þann 28. janúar 2000. Hún staðfesti hins vegar að þann dag hafi stefnandi og nefnd Hulda unnið saman við að pakka fiski og lýsti hún ferlinum á svipuðum nótum og þær hér að framan. Í skýrslunni er m.a. haft eftir vitninu: „Bjarney segir að brettastæða með tómum brettum sé svo geymd við pökkunarbandið og þær nái í tóm bretti þangað. Bjarney segir að tómu brettin séu aldrei geymd frammi þar sem lyftarinn kemur inn. Bjarney segir að lyftarinn komi alltaf með tóma brettastæðu inn að pökkunarbandinu. Bjarney segir að það sé engin föst regla á því hvað þessi brettastæða sé há. Bjarney segir að lyftaramennirnir komi með brettin í þeirri hæð sem þægilegt er að taka þau niður. Bjarney segir að Jane hafi aldrei minnst á neitt við sig um að hafa fengið tómt bretti í höfuðið. Bjarney segir að hún muni eftir því að Jane hafi fengið einhverja flensu og verið frá í einhvern tíma. Bjarney segir að eftir það hafi Jane kvartað um höfuðverk. Bjarney segir að Jane hafi ekki fengið nein verkjalyf hjá sér en segir að starfsfólk geti sjálft fengið þau verkjalyf sem til eru á vinnustaðnum og fengið sér þegar tilefni er til þess.“
Í lögregluskýrslu Snorra Sigurðssonar, sem dagsett er 4. nóvember 2000, lýsti hann verkum sínum sem lyftaramanns svo og vinnuferli í pökkunarsal stefnda þannig: „Snorri segir að hann hafi einnig komið með tóm bretti til þeirra sem voru að pakka. Snorri segir að hann hafi yfirleitt ekið tómu brettunum inn til þeirra sem voru að pakka en stundum hafi hann þurft að skilja þau eftir frammi í innkeyrslunni. Snorri segir að hæðin á brettastæðunni hafi verið misjöfn. Snorra er nú sýnd mynd af brettastæðu sem er u.þ.b. tveggja metra há. Snorri segir að þessi hæð á brettastæðunni sé í líkingu við hæðina á þeim brettastæðum sem að hann hafi flutt inn en þær hafi líka verið lægri en þetta. Snorri segir að oft hafi brettin verið frosin saman og erfitt hafi verið að ná þeim sundur.“
Í lok skýrslunnar kveðst Snorri ekki hafa orðið vitni að ætluðu vinnuslysi, en hins vegar heyrt af því síðar að stefnandi hefði fengið bretti í höfuðið.
Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, sem dagsett er 21. september er greint frá aðstæðum í pökkunarsal stefnda. Þá er atvikum lýst með hliðsjón af frásögn stefnanda með eftirfarandi hætti: Tildrög munu hafa verið þau að hin slasaða vann ásamt annarri konu við að pakka inn eins kílóa pökkum af frosnum karfaflökum í kassa, sem síðan er settir á rúllufæriband þar sem þeim er lokað. Þá eru þeir teknir af bandinu og staflað á vörubretti. Utan um kassastæðuna er síðan vafið plasti og eftir það er vörubrettið fjarlægt með vörulyftara. Að sögn slösuðu mun hún hafa verið að ná í vörubretti sem að hún segir að hafi verið í vörubrettastæðu sem var um tveir metrar á hæð. Brettastæðan mun hafa verð flutt með vörulyftara af plani utan við húsið og inn í pökkunarsalinn. Til að ná efsta brettinu þurfi hún að stíga upp í brettastæðuna og kippa því niður. Slasaða telur að brettið hafi verið frosið við það næsta en losnað skyndilega og við það rekist í höfuð hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut kúlu á höfuðið. Telur hún að höggið hafi komið af stað blæðingu innan við höfuðkúpuna. Aðstæður í pökkunarsal voru eftirfarandi þegar að rannsókn fór fram (080900), lýsing mældist um 170-250 lúx, hitastig um 18 stig, rakastig 42%. Gólf voru þurr, hávaði var óverulegur.
Greint er frá því í skýrslunni að umrædd vörubretti séu af eura staðli, 120x80x15 cm., um 25 kíló, en síðan segir: Orsök meints slyss má hugsanlega rekja til þess að vörubrettastæðan hafi verið það há að erfitt og jafnvel varasamt hafi verið að ná í brettin með því að stíga upp í brettastæðuna. Hugsanlega hafa brettin verið frosin saman þannig að erfitt hafi reynst að ná þeim sundur án þess að rykkja í þau. Ekki mun vera notuð trappa eða pallur við að ná efstu brettunum úr stæðu.
Skyldur aðila samkvæmt lögum nr. 46, 1980 voru skýrðar fyrir verkstjóra/forstöðumanni og eftirfarandi fyrirmæli voru gefin:
1. Gera skal úrbætur við pökkun er varða of mikla vinnuhæð við stöflun á fiskikössum á vörubretti. sjá m.a. reglur nr. 499/1994.
2. Þegar verið er að taka vörubretti á höndum úr brettastæðum, skal þess gætt að þær séu ekki of háar fyrir starfsmanninn.
3. Atvinnurekandi skal gera skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki, einkum vélbúnað, til að komast hjá að starfsmenn þurfi að handleika byrðar, sbr. reglur nr. 499/1994.”
Af hálfu stefnanda var lagt fram vottorð Veðurstofu Íslands um veður á Akureyri dagana 25. til 28. janúar 2000. Samkvæmt vottorðinu var hitastig þann 25. og 26. janúar í fyrstu 9,2° stig en fór lækkandi og var mínus 2° um miðnætti 26. til 27. samhliða lítilsháttar snjókomu. Þann 27. fór hiti lækkandi frá mínus 2,6° til mínus 6° ásamt skúrum slydduéli og lítilsháttar sjókomu, þann 28. var hitastig frá mínus 6,9° til mínus 4°, án úrkomu fyrri hluta dags.
Af hálfu stefnanda voru, auk þeirra læknisvottorða sem áður voru rakin, lögð fram tvö vottorð. Í því fyrra, þ.e. læknisvottorði Þóris V. Þórissonar heimilislæknis, sem dagsett er 22. mars 2001, er rakin saga stefnanda eftir höfuðaðgerðina í febrúarmánuði 2000. Er því lýst að stefnandi hafi í fyrstu alveg verið óvinnufær vegna verulegra höfuðkvala og svima, að í maí 2000 hafi hún flust um stund til Danmerkur en farið til síns heima á Íslands í lok október sama ár. Greint er frá því að stefnandi sé á ritunartíma vottorðsins enn ekki vinnufær vegna mikillar þreytu og úthaldsleysis svo og verkja sem að hún fái af og til. Tiltekið er að í sjúkrasögu stefnanda blandist áfengissýki sem hún hafi átt að stríða við bæði hér á Íslandi og í Danmörku, en að hún hafi alveg hætt að drekka áfengi eftir að hún fluttist að nýju til Íslands í október 2000. Vegna nefnds heilsufarsástands hafi stefnandi verið lögð inn á endurhæfingardeild FSA í Kristnesi.
Í læknisvottorði Lúðvíks Guðmundssonar, endurhæfingarlæknis á Kristsnesi, sem dagsett er 27. september 2001 er lýst félagssögu stefnanda og eldri sjúkrasögu. Er frá því greint að stefnandi hafi á yngri árum stundað sjómennsku og starfað við aðhlynningu fatlaðs fullorðins fólks, en síðar starfað við iðn sína, matreiðslu og þá m.a rekið fiskveitingahús. Greint er frá því að stefnandi hafi átt við áfengisvandamál að stríða, einkum er hún bjó í Danmörku en að það sé nú úr sögunni. Greint er frá því að árið 1996 hafi hún lent í bílslysi og fengið höfuðhögg vinstra megin á enni og rifbrot auk fleiri eymsla, en að hún hafi jafnað sig allvel af þeim afleiðingum. Þá hafi hún ökklabrotnað árið 1994 og aftur 1997. Í vottorðinu er síðan rakin frásögn stefnanda af ætluðu vinnuslysi þann 28. janúar 2000 og innlögn hennar á endurhæfingardeild af þeim sökum hinn 20. ágúst 2001. Er lýst ástandi stefnanda við komu og gangur meðferðar rakin, en lokamatið er svofellt: „Almennt líkamlegt ástand er gott og verkjavandamál sem voru til staðar í kjölfar slyss virðast að mestu úr sögunni. Vitræn geta virðist eðlileg en við verklega prófun komu þó fram nokkrir erfiðleikar við að skipuleggja vinnu, einbeitingarerfiðleikar og sennilega úthaldsleysi. Þetta eru væntanlega afleiðingar höfuðslyssins. Vænta má að þessi einkenni eigi eftir að minnka og lagast þegar að frá líður og Jane komist í betra form og fer að stunda vinnu. Það er ráðlegt að Jane fari í frekar létt starf, gjarnan það sem að hún hefur lært til, þ.e.a.s. einhvers konar eldamennsku eða störf í mötuneyti, til að byrja með í hlutastarfi en á að geta unnið fullt starf þegar að frá líður.“
Samkvæmt gögnum málsins ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefnda þann 9. apríl 2002 og greindi þar formlega frá ætluðu vinnuslysi og spurðist fyrir um afstöðu félagsins til bóta. Með bréfinu fylgdu framangreindar skýrslur lögreglu og vinnueftirlits en einnig læknabréf og læknisvottorð. Er engin svör bárust frá stefnda var erindið ítrekað með bréfum dagsettum 14. maí og 11. desember 2002.
Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi þann 12. júní 2002 og óskaði hún þá eftir örorkumati dómkvaddra matsmanna, læknanna Guðmundar Björnssonar og Guðna Arinbjarnar og er það dagsett 30. maí 2003.
Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er vísað til áður rakinna gagna en síðan er rakin félags- og persónusaga stefnanda, fyrri heilsufarssaga, frásögn stefnanda af ætluðu slysi 28. janúar og loks er lýst skoðun þeirra á stefnanda. Í niðurlagi matsgerðarinnar er svofelld samantekt:
„Undirritaðir matsmenn hafa kynnt sér þau læknisfræðilegu gögn sem að fyrir liggja varðandi ofanritaða og hafa átt við hana viðtal og skoðað. Þeir telja ljóst að við slysið þann 28.01.00 hafi Jane Ingrid Bork getað hlotið höfuðhögg sem valdið hefur subdural blæðingu sem kom í ljós eftir nokkra daga. Það er álit heila- og taugaskurðlæknis að svo geti verið. Þá eru vitrænar skerðingar og úthaldsleysi taldar til afleiðinga höfuðslyssins af endurhæfingarlækni.”
Í matsgerðinni láta hinir dómkvöddu matsmenn það álit í ljós að læknismeðferð og endurhæfingartilraunum gagnvart stefnanda sé lokið og að tímabært sé að leggja mat á varanlegt heilsutjón hennar vegna afleiðinga slyssins, en við mat á stöðugleikapunkti er miðað við útskrift á endurhæfingardeild.
Við mat á tímabundnu atvinnutjóni leggja matsmenn til grundvallar að stefnandi hafi hætt störfum þann 08.02.00 og hafi ekki hafið störf að nýju á almennum vinnumarkaði eftir það. Telja þeir sanngjarnt að telja tímabundna óvinnufærni fram að stöðugleikapunkti, 01.10.01.
Við mat á þjáningatíma leggja matsmenn til grundvallar að stefnandi hafi verið veik og batnandi í u.þ.b. 8 mánuði, þar af verið rúmliggjandi í 9 vikur, bæði á sjúkrahúsi á Akureyri, í Reykjavík og til endurhæfingar á Kristnesspítala.
Við mat á varanlegum miska er af hálfu matsmannanna lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða höfuðhögg, blæðingar og aðgerðir þeim tengdum, en um það segir nánar í matsgerðinni:
,,Ofanrituð (stefnandi) finnur fyrir almennum einkennum úthaldsleysis, svima og höfuðverkja og fram hefur komið truflun við verklega prófun. Auk almennrar líkamlegrar færnisskerðingar er um allnokkra varanlega skerðingu á lífsgæðum hennar að ræða. Við mat á varanlegri örorku leggja matsmenn til grundvallar að ofanrituð vann í fullu starfi í rækjuverksmiðju þegar slys það sem hér er fjallað um átti sér stað. Hún er lærður kokkur og hefur reynslu af rekstri fiskveitingahúss. Fram kemur að hún hyggst nú fara að vinna í hálfu starfi í plastverksmiðju. Hún nýtur 65% örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins frá því í september 2002.
Undirritaðir matsmenn telja ljóst að ofanrituð verði fyrir varanlegri skerðingu á getu til tekjuöflunar þegar litið er til eðli þeirra varanlegu meina sem býr við í kjölfar slyssins sem hér er fjallað um. Um er að ræða skerðingu á álagsgetu og úthaldsþoli og þá hafa komið fram erfiðleikar við að skipuleggja vinnu og einbeitingarerfiðleikar. Matsmenn telja að þegar til lengri tíma er litið komi hún til með að getað aukið starfshlutfall sitt í léttu hreyfanlegu starfi og jafnvel tekið til við starf þar sem starfsreynsla hennar og menntun nýtist.”
Telja matsmenn sanngjarnt að telja stefnanda búa við fjórðungs, 25%, skerðingu á varanlegri getu til tekjuöflunar, en að miski hennar sé 20% og að hefðbundin varanleg læknisfræðileg örorka sé 20%.“ Lokaorð matsgerðarinnar eru svohljóðandi: „Undirritaðir matsmenn hafa kynnt sér þau læknisfræðilegu gögn sem fyrir liggja varðandi ofanritað og hafa átt við hana viðtal og skoðað. Þeir telja ekki að önnur slys eða sjúkdómar eigi þátt í því mati sem hér er lagt fram og eingöngu tekur til afleiðinga vinnuslyssins þann 28.01.00.“
Af gögnum málsins má ráða að málsaðilar hafi reynt að ná samkomulagi um bætur til handa stefnanda á árinu 2003 en að þær tilraunir hafi runnið út í sandinn í lok ársins.
Málsástæður stefnanda.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hún hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda föstudaginn 28. janúar 2000. Slysið hafi ekki vitnast strax enda hafi hún ekki haft orð á því við samstarfsfólk og vinnuveitanda heldur harkaði hún af sér við vinnu sína næstu daga þrátt fyrir stöðugt vaxandi höfuðverk uns hún hafi gefist upp þriðjudaginn 8. febrúar sama ár.
Af hálfu stefnanda er vísað til framlagðra læknabréfa, ekki síst bréfs Arons Björnssonar sérfræðings á heila- og taugaskurðlækningadeild frá 16. mars 2000 og svohljóðandi álits: „ að vegna blæðingar innan höfuðkúpu, sem hún hefur væntanlega fengið við einhvers konar höfuðhögg einhverjum vikum áður. Var þetta farið að valda talsverðum þrýstingi og vaxandi einkennum í formi lömunar og rugls“. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að álit sérfræðingsins komi mjög vel saman við þann atburð sem hún hefur upplýst um, en við nefnda höfuðaðgerð hafi einmitt verið liðnar röskar tvær vikur frá því að vörubrettið skall í höfuð hennar.
Til þess er vísað að stefnandi hafi unnið samvikusamlega og yfir höfuð mætt stundvíslega til vinnu nema þegar veikindi hömluðu, en hún hafi legið veik 7.-14. janúar og 20.-21. janúar 2000 vegna lungnabólgu. Ekkert annað atvik né slík högg hafi átt sér stað en það sem nefndur sérfræðingur lýsir að sé líklegasta orsök slíkrar blæðingar hafi átt sér stað. Í því samhengi er og vísað til bréfs Aðalsteins Helgasonar, framkvæmdastjóra Strýtu frá 7. mars 2000.
Af hálfu stefnanda er vísað til fyrirliggjandi lögregluskýrslna og frásagnar samstarfsmanna stefnanda, ekki síst varðandi meðferð og starfstilhögun á vinnustað stefnda, þar á meðal með tóm vörubretti. Í því sambandi er og vísað til áður rakinnar skýrslu Vinnueftirlits ríkisins og um skyldur stefnda samkvæmt lögum nr. 46, 1980 og loks til fyrirmæla er gefin voru eftir vettvangsathugun Vinnueftirlitsins.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að álit Arons Björnssonar, heilaskurðlæknis, en einnig að nokkru frásögn samstarfsmanna, þ.á.m. um geymslustað tómra vörubretta, hæð þeirra og ástand, styðji það að frásögn hennar af atvikum máls sé rétt. Greindar vinnuaðstæður, ekki síst það að engin trappa eða ástig var til staðar í vinnurými stefnanda, hafi verið þannig að stefnandi hafi unnið við aðstæður sem ekki voru boðlegar og það orðið til þess að slysið þetta varð.
Er á því byggt að stefnandi beri í ljósi allra aðstæðna ábyrgð á slysi hennar sem vinnuveitandi. Bæði hafi vinnuaðstæður ekki verið fullnægjandi, hjálpartæki ekki verið til staðar, en einnig hafi skort á verkstjórn og vinnuskipulag. Fyrirmæli er Vinnueftirlitið hafi gefið eftir rannsókn á aðstæðum hjá stefnda sýni þetta best, sbr. og reglur nr. 499, 1994. Staðreynt hafi verið að tóm bretti hafi ekki verið tiltæk er á þurfti að halda og einnig hafi verið of fámennt á vinnuvettvangi stefnanda. Það undanþiggi þó ekki vinnuveitanda því að gæta þess að boðlegar aðstæður séu fyrir hendi, þ.á.m. með hliðsjón af þyngd bretta, u.þ.b. 25 kg, hæð brettastæðu og að verkið var unnið með handafli. Óljóst sé hvers vegna starfsmenn þurftu yfir höfuð á stundum að ná sjálfir í bretti, en það bendi þó til þess að verkstjórn og skipulagi hafi verið ábótavant eða mannekla verið á staðnum. Telur stefnandi að sökum vanbúnaðar varðandi vinnuaðstöðu og mistaka við verkstjórn hafi slys hennar orðið og á því beri stefndi skaðabótaábyrgð og beri að bæta tjón stefnanda.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 46, 1980, 1. mgr. 14. gr., 21. gr., 1. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 36. gr., en auk þess til dómafordæma Hæstaréttar í máli nr. 1994, bls. 2379.
Varðandi útreikning bótakröfu vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50, 1993 með síðari breytingum. Til grundvallar leggur stefnandi matsgerð læknanna Guðmundar Björnssonar og Guðna Arinbjarnar, en kröfuna sundurliðar hún nánar þannig:
1. Tímabundið atvinnutjón kr. 2.147.576, en að frádregnum sjúkradagpeningum kr. 790.748, samtals kr. 1.376.828.
2. Þjáningabætur: Þjáningatími 8 mánuðir, þar af 9 vikur rúmliggjandi samtals 177 dagar x 980 (3.282/4.618) þ.e. án rúmlegu kr. 173.460. Vegna rúmlegu, 63 dagar x 1.0830 samtals kr. 115.290. Alls þjáningabætur kr. 288.750.
3. Varanlegur miski: 4.000.000 x 4.618/3.282 x 20, samtals kr. 1.126.000.
4. Varanleg örorka, 25%, en með hliðsjón af skattframtölum síðustu þriggja ára, 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 6. gr.: 1.200.000 x 4.271/3.282 = 1.561.609 x 9.689 x 25%, og með leiðréttingu skv. 15. gr. skaðabótalaga samtals 3.783.000.
Heildarkrafa stefnanda samkvæmt ofangreindu er því kr. 6.554.578.
Kröfur um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við lög nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, en um málskostnað er vísað til 1. mgr. 29. gr., sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. Þá er vísað til laga nr. 46, 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. og reglur nr. 499, 1994, skaðabótalaga nr. 50, 1993 svo og óskráðra reglna skaðabótaréttar þ.á.m um húsbónda- eða vinnuveitendaábyrgð.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að hann beri ekki sem vinnuveitandi ábyrgð á slysi stefnanda. Jafnframt er því andmælt að ábyrgð hans geti grundvallast á því að vinnuaðstæður hafi ekki verið fullnægjandi og að verkstjórn og skipulagi hafi verið ábótavant.
Í fyrsta lagi rökstyður stefndi sýknukröfu sína með því að algjörlega sé ósannað að stefnandi hafi yfirleitt orðið fyrir slysi á vinnustað hans þann 28. janúar 2000. Er til þess vísað að stefnanda beri að sanna að slys hafi orðið á þann veg sem hún haldi fram og sé það bjargföst skoðun hans að sú sönnun hafi ekki tekist. Engin vitni hafi verið að ætluðu slysi. Þá hafi stefnandi heldur ekki haft orð á því við nokkurn mann að eitthvað hafi komið fyrir hana nefndan dag. Þáverandi framkvæmdastjóri stefnda hafi samkvæmt framlögðu bréfi, dagsettu 7. mars 2000, rúmum mánuði eftir að slys það sem stefnandi hefur borið að hafi orðið, rætt við samstarfsfólk og verkstjóra um ætlað tilvik en enginn kannast við frásögn hennar. Af hálfu stefnda er lögð áhersla á að í bréfinu finnist engin viðurkenning á því að slys hafi orðið þó svo slíkt hafi ekki verið talið útilokað í bréfinu, enda stefnanda ein til frásagnar um atvikið. Þá hafi lögregluskýrslur sem hafi verið teknar af samstarfsfólki stefnanda í júní og nóvember 2000 ekki skorið úr um málatilbúnað stefnanda. Er að því leyti mótmælt andstæðri lýsingu stefnanda í stefnu svo og ályktunum sem þar eru dregnar af umsögn Vinnueftirlits ríkisins. Verði engin sú ályktun dregin af umræddum gögnum, þvert á móti sé það skoðun stefnda að ósannað sé með öllu að stefnandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína umræddan dag líkt og hún haldi fram og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Af hálfu stefnda er á það bent, að þó svo að sannað verði að stefnandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína þann 28. janúar 2000 sé eftir sem áður ósannað að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefndi beri á því ábyrgð að lögum. Í því samhengi er vísað til skýrslu Vinnueftirlits ríkisins þar sem segi m.a.: „Orsök meints slyss má hugsanlega rekja til þess að vörubrettastæðan hafi verið það há að erfitt og jafnvel varasamt hafi verið að ná í brettin með því að stíga upp í brettastæðuna. Hugsanlega hafa brettin verið frosin saman þannig að erfitt hafi reynst að ná þeim sundur án þess að rykkja í þau.”
Af hálfu stefnda er því andmælt að vinnuaðstæðum á vinnustað hans hafi verið ábótavant auk þess sem skort hafi á að verkstjórn hafi verið í lagi. Er því haldið fram að vinnuaðstæður hafi verið eins og gengur og gerist við fiskvinnslu á Íslandi og ekkert hafi verið athugavert við verkstjórnina.
Kjarna málsins kveður stefndi vera þann að stefnandi hafi ekki fært sönnur á það að málsástæður hennar eigi við rök að styðjast. Í fyrsta lagi sé ósannað að bretti hafi vantað við færibandið. Í öðru lagi sé ósannað að bretti hafi verið frosin saman. Í þriðja lagi sé ósannað að hæð brettanna hafi verið á þann veg að erfitt hafi verið að nálgast þau væri slíkt nauðsynlegt.
Stefndi mótmælir því ennfremur að stefnandi hafi sýnt fram á að heilsufarslegt ástand hennar megi alfarið rekja til ætlaðs slyss þann 28. janúar 2000. Í því samband bendir stefndi á áður rakin gögn, þ.á.m. að stefnandi hafi fengið höfuðhögg árið 1996 er hún ók bifreið sinni á tré. Þá segi í læknisvottorðum að stefnandi hafi orðið fyrir einhverjum ryskingum u.þ.b. 2 vikum fyrir komu á Landspítala Háskólasjúkrahús þann 11. febrúar 2000 eða á svipuðum tíma og slys það er hún heldur fram að hafi orðið. Loks komi það ítrekað fram í gögnum málsins að stefnandi hafi átt við áfengisvandamál að stríða, sem vissulega kunni að hafa haft áhrif á heilsufarslegt ástand hennar í dag.
Af hálfu stefnda er á því byggt að af öllu framangreindu leiði að grundvöllur bótakröfu stefnanda geti engan veginn staðist og beri því að fallast á aðalkröfu hans um sýknu.
Varakröfu sína um lækkun kveðst stefndi fyrst og fremst byggja á eigin sök stefnanda. Samkvæmt frásögn stefnanda hafi hún sjálf ákveðið að sækja brettið í umrætt sinn og staðið að því verki eins og henni fannst best. Hafi eitthvað farið úrskeiðis við framkvæmdina hljóti stefnandi að bera ábyrgð á því. Hún hafi og haft aðra möguleika til að vinna verk sitt. Í fyrsta lagi hafi hún getað beðið einhvern af samstarfsfólki sínu um aðstoð en fjöldi fólks hafi verið að vinna í pökkunarsalnum. Í öðru lagi hafi ætíð verið á vinnustaðnum tiltækir litlir handtjakkar er hafi verið heppilegir til að sækja bretti væri slíkt nauðsynlegt. Stefnandi hafi hvorugan kostinn nýtt sér og sé eigin sök hennar því augljós að mati stefnda.
Við munnlegan málflutning hafði stefndi ekki uppi tölulegan ágreining um skaðabætur, þ.e. eftir að stefnandi hafði lagfært kröfugerð sína undir rekstri málsins.
Stefndi andmælir á hinn bóginn vaxta- og dráttarvaxtakröfu og bendir á að vextir sem áfallnir hafi verið fyrir 24. júní 2000 séu fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14, 1905. Þá hafi krafa um dráttarvexti ekki stoð í lögum þar sem ekki verði séð að töluleg krafa hafi verið formlega sett fram fyrr en við þingfestingu málsins þann 24. júní 2004.
II.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu, en auk þess voru teknar vitnaskýrslur af Bjarneyju Völu Steingrímsdóttur og Snorra Sigurðssyni.
Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður, en auk þess liggja fyrir ljósmyndir lögreglu af margnefndum pökkunarsal stefnda.
III.
Í máli þessu greinir aðila á um hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína í fiskverkunarhúsi stefnda, Strýtu á Oddeyrartanga, hinn 28. janúar 2000. Í málinu byggir stefnandi ennfremur á því að vinnuaðstæður hafi ekki verið fullnægjandi og að almennri verkstjórn og skipulagi hafi verið áfátt, þ.á.m. að fullnægjandi hjálpartæki hafi ekki verið fyrir hendi, og að þetta hafi verið andstætt ákvæðum laga nr. 46, 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum nr. 499, 1994 um öryggi og hollustu.
Ágreiningslaust er að stefnandi hóf störf hjá stefnda í byrjun október 1999, en hún er danskur ríkisborgari. Hafði stefnandi það hlutverk að raða fullunnum fiskafurðum í plastpakkningum í kassa, sem síðar fóru yfir færiband og í álímingarvél. Kassarnir voru færðir með handafli á vörubretti. Fullhlaðin vörubretti voru loks færð til með hand- ellegar vélknúnum lyftara, en tóm bretti sett í þeirra stað.
Samkvæmt frásögn vitnisins Snorra Sigurðssonar, lyftaramanns, fyrir dómi voru tómar trébrettasamstæður, allt að 2 metra háar, geymdar utan dyra. Var það vinnulag viðhaft, sérstaklega á vetrum, að stæðum þessum var ekið í hús að kvöldlagi með þeirri ætlan að brettin þiðnuðu. Voru því brettastæðurnar geymdar í rými við útidyrnar, í pökkunarsal ellegar í lagerskála þar fyrir innan. Frásögn nefnds vitnis var samhljóða vitnisburði Bjarneyjar Völu Steingrímsdóttur, flokksstjóra, um að starfsmönnum í pökkunarsal hafi verið ætlað að taka nefnd bretti með handafli úr stæðunum eftir þörfum og færa þau að pökkunarfæribandinu. Samkvæmt frásögn Bjarneyjar Völu unnu að jafnaði tveir starfsmenn við pökkunarvélina, og þá oft stefnandi og samverkakona hennar, Hulda Ólafsdóttir. Vegna stöðugrar vinnslu í pökkunarsalnum var samkvæmt vætti Bjarneyjar Völu og nauðsynlegt að önnur þeirra væri við pökkunina, þ.á.m. er sækja þurfti ný bretti til áhleðslu. Það var hins vegar álit vitnisins að stefnanda hefði eftir atvikum verið í sjálfsvald sett hvort hún kallaði eftir aðstoð annarra starfsmanna ellegar biði eftir lyftaramanni, treysti hún sér ekki til að ná í bretti einsömul.
Við skýrslugjöf fyrir dómi lýsti stefnandi atvikum máls með aðstoð dómtúlks. Var frásögn hennar í öllum aðalaltriðum samhljóða því er fram kom í áður rakinni lögregluskýrslu hennar, en að nokkru leyti fyllri, þ.á.m. að hún hefði í umrætt sinn farið einsömul inn í lagerskálann til þess að ná í bretti, en það fallið niður er hún sló í það til þess að losa um það. Hafi brettið þá fallið niður úr um 2 metra hæð á hægri hluta höfuðs hennar, en einnig komið við mjöðmina. Fyrir dómi staðhæfði stefnandi að höggið hefði verið þungt og áréttaði að hún hefði af þeim sökum fengið sýnilega kúlu á höfuðið og fundið fyrir eymslum. Vegna tungumálaörðugleika kvaðst hún ekki hafa greint samverkakonu sinni eða öðrum á vinnustaðnum frá atvikinu, en vísaði í því sambandi til þess að aðeins hafi verið um hálf klukkustund eftir af vinnudeginum er atburðurinn gerðist. Að öðru leyti bar stefnandi á svipaða lund og áður var rakið, þ.á.m. um stöðugt versnandi líðan næstu daga eftir atburðinn.
Samkvæmt framansögðu er stefnandi ein til frásagnar um atvik. Frásögn hennar er þó samhljóða lýsingu áður greindra vitna um verklag í pökkunarstöð stefnda, þ.á.m. um að tíðkast hafi að einn starfsmaður tæki um 25 kílóa trébretti úr um 2 metra brettastæðu með handafli og færði að pökkunarlínunni. Um aðrar aðstæður á vettvangi þykir frásögn stefnanda hafa stuðning í vætti samstarfskonunnar Huldu Ólafsdóttur hjá lögreglu, þ.á.m. að þær hafi að jafnaði verið einar að störfum, en einnig í vætti Snorra Sigurðssonar fyrir dómi, um ástand bretta að vetrarlagi, svo og í vottorði Veðurstofu Íslands.
Við aðalmeðferð málsins lýsti stefnandi áverka sínum hægra megin á höfði, en jafnframt að hún hefði ekki, m.a. af tungumálaörðugleikum, greint frá slysinu á vinnustað stefnda. Verður fallist á að stefndi hafi af þeim sökum tæplega getað brugðist við á annan hátt en gert var, en fyrir liggur að Vinnueftirlit ríkisins og lögregla hófu rannsókn sína eftir tilkynningu lögmanns stefnanda vorið 2000. Í ljósi þessa verður að telja að fullnægjandi rannsókn hafi farið fram í kjölfar veikinda stefnanda.
Eins og áður er lýst hefur stefnandi borið að hún hafi fundið fyrir stöðugt vaxandi höfuðverk við vinnu sína næstu daga eftir höfuðhöggið. Að mati dómsins hefur þessi frásögn hennar nokkra stoð í framburði vitnanna Snorra Sigurðssonar og Huldu Ólafsdóttur, en til þess er að líta að nokkuð var um liðið frá ætluðu atviki er þau gáfu skýrslur sínar og að vætti þeirra er ekki í samræmi við fram lagt bréf fyrrum framkvæmdastjóra stefnda um að starfsmenn hafi við eftirgrennslan um mánuði eftir ætlað atvik ekki kannast við að stefnandi hafi orðið fyrir vinnuslysi. Í bréfinu er hins vegar ekki tilgreint við hvaða starfsmenn framkvæmdastjórinn ræddi.
Lýst líðan stefnanda hefur að mati dómsins stoð í áður röktum læknabréfum og vottorðum, ekki síst bréfi Arons Bjarnasonar, sérfræðings á heila- og taugaskurðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, sem dagsett er 16. mars 2000, um blæðingu innan höfuðkúpu og bráðaaðgerð hægra megin á höfði stefnanda og tæmingu á miklu magni af gömlu blóði. Var það álit sérfræðingsins að þetta ástand stefnanda hefði væntanlega stafað af einhvers konar höfuðhöggi, einhverjum vikum áður. Greind vottorð og álit eru samhljóða álitsgerð Lúðvíks Guðmundssonar, endurhæfingalæknis á Kristnesi, á líðan stefnanda svo og matsgerð læknanna Guðna Arinbjarnar og Guðmundar Björnssonar. Nefndum gögnum hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnda.
Þegar framangreint er virt í heild, þ.á.m. lýsing stefnanda á verklagi við færslu margnefndra timburbretta á vinnustað stefnda, frásögn vinnufélaga þar um, vottorð Veðurstofu Íslands um hitastig og úrkomu dagana 27.-28. janúar 2000 ásamt framangreindum vottorðum og matsgjörðum lækna og loks athugasemdum Vinnueftirlits ríkisins um úrbætur skv. lögum nr. 46, 1980, eru að áliti dómsins nægjanlegar líkur að því leiddar að stefnandi hafi hlotið þann höfuðáverka sem hún hefur lýst með þeim hætti sem hún hefur borið.
Ber samkvæmt þessu að leggja fébótaábyrgð vegna vinnuslyssins á stefnda og eru eigi efni til að skipta þeirri ábyrgð. Þar sem ekki er tölulegur ágreiningur um kröfur stefnanda verður stefnda dæmt til að greiða stefnufjárhæðina, kr. 6.554.578. ásamt þeim vöxtum sem greinir í dómsorði, en vextir fyrir 24. júní 2000 eru þó fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14, 1905.
Stefnanda var veitt gjafsókn þann 12. júní 2002. Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 892.832 greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hennar, Hreins Pálssonar hrl., sem ákveðast kr. 754.252, og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.
Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefnda greiði kr. 892.832 í málskostnað til ríkissjóðs.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Samherji h.f., greiði stefnanda, Jane Ingrid Bork, kr. 6.554.578 með vöxtum skv. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50, 1993 frá 24. júní 2000 til 24. júlí 2004 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þ.d. til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 892.832 greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hennar, Hreins Pálssonar hrl. kr. 754.252.
Stefndi greiði kr. 892.832 í málskostnað til ríkissjóðs.