Hæstiréttur íslands
Mál nr. 496/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Ómerkingarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2015 af hálfu ákæruvaldsins og 29. júlí sama ár í samræmi við yfirlýsingu ákærða Ómars um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess aðallega að ákærðu verði sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í I. kafla ákæru 29. október 2014, en til vara að sá hluti héraðsdóms verði ómerktur. Jafnframt verði sá hluti héraðsdóms ómerktur er varðar sakargiftir á hendur ákærða X í II. kafla ákæru. Þá krefst ákæruvaldið þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu Brynjars og Ómars samkvæmt ákæru 17. nóvember 2014 og refsing þeirra verði þyngd.
Ákærði X krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Ákærði Brynjar krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Ákærði Ómar krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að hann krefst þess að málinu verði heimvísað vegna ákæru 17. nóvember 2014, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
I
Varakröfu sína um ómerkingu héraðsdóms, að því er varðar sakargiftir á hendur ákærðu í I. kafla ákæru 29. október 2014, byggir ákæruvaldið á því að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar sé rangt auk þess sem þörf sé á því að taka skýrslu fyrir dómi af brotaþolum sem ekki gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Ákæruvaldið kaus hvorki að leiða þessi vitni fyrir dóm við aðalmeðferð málsins í héraði né eftir að dómurinn var kveðinn upp og verður það að bera hallann af því. Hefur ekkert komið fram sem styður það að mat héraðsdóms á munnlegum framburði ákærðu og vitna hvað þennan þátt varðar sé rangt svo einhverju skipti við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, og verður ómerkingarkröfu þessari því hafnað.
Þá krefst ákæruvaldið ómerkingar á þeim hluta hins áfrýjaða dóms sem lýtur að sakargiftum á hendur ákærða X í II. kafla ákærunnar 29. október 2014. Reisir ákæruvaldið kröfu sína á því að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar sé rangt og vísar meðal annars til þess að öll vitni hafi við rannsókn málsins hlotið nafnleynd og þau vitni sem komu fyrir dóminn undir nafni hafi breytt framburði sínum. Eru engin haldbær rök til að draga í efa mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar þessara vitna og verður ómerkingarkröfunni því hafnað.
Ákærði Ómar krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur hvað varðar sakargiftir á hendur honum samkvæmt ákæru 17. nóvember 2014. Má af málatilbúnaði hans ráða að sú krafa sé reist á því að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi framburðar ákærða og vitna sé rangt en ekkert hefur fram komið í málinu sem leitt getur til þess að þetta mat héraðsdóms verði dregið í efa. Verður kröfu ákærða um ómerkingu því hafnað.
II
Ákæruvaldið gerir athugasemdir við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms hvað snertir I. kafla ákæru 29. október 2014 og telur að mat héraðsdóms á sönnunargögnum málsins, þar á meðal framburði ákærða og vitna, sé rangt og sakfella beri ákærðu fyrir þau brot sem þeim eru þar gefin að sök. Vísar ákæruvaldið til fyrirliggjandi upptaka úr eftirlitsmyndavélum frá vettvangi sem styðji sakfellingu. Við skoðun á umræddum upptökum er hins vegar ljóst að þær eru fjarri því að vera skýrar og verður ekki af þeim ráðið að atburðarás hafi verið með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Með vísan til 2. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður allur áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, verjanda ákærða Brynjars Kristenssonar, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur og verjanda ákærða Ómars Abrahamssonar, Tryggva Agnarssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2015.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 14. október 2014, á hendur:
,,X, kt. [...],
[...], [...] og
Y, kt. [...] ,
[...], [...],
fyrir líkamsárás í Reykjavík með því að hafa fimmtudaginn 21. nóvember 2013, í félagi, veist að F, kt. [...], með því að Y kýldi hann í andlitið þannig að F féll á jörðina og ákærðu í sameiningu spörkuðu í hann liggjandi allt með þeim afleiðingum að F hlaut yfirborðsáverka, kúlu og dreifða marbletti á andlit, og tognun og ofreynslu á kjálka.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Hinn 29. október 2014 gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur:
„Brynjari Kristenssyni, kennitala [...],
Vallargerði 34, Kópavogi,
Ómari Abrahamssyni, kennitala [...],
Þverási 3a, Reykjavík og
X, kennitala [...],
[...], [...],
dvalarstaður [...], [...],
I.
Á hendur ákærðu öllum fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás aðfaranótt sunnudagsins 22. desember 2013, á veitingastaðnum [...], [...], í Reykjavík.
- Á hendur ákærðu Brynjari og Ómari með því að hafa, við bar á veitingastaðnum veist að D þar sem ákærði Brynjar veitti D ítrekuð hnefahögg í höfuð og ákærði Ómar sló D ítrekað í höfuðið með flösku og krepptum hnefa, allt með þeim afleiðingum að D hlaut mar á andliti og sjö skurði á höfði þann stærsta 2 cm langann.
- Á hendur ákærðu Brynjari og X með því að hafa í félagi skömmu seinna í anddyri sama veitingastaðar veist að E þar sem ákærði Brynjar sló E ítrekað í höfuðið með flösku og ákærði X veitti honum ítrekuð hnefahögg, með þeim afleiðingum að E hlaut 2 sm skurð framan á höfði hægra megin, skurð á efri vör vinstra megin, bólguþrota og eymsli vinstra megin á hálsi og brot á hægri framtönn í efri góm.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Á hendur ákærða X fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 27. desember 2013, utan við skemmtistaðinn [...] við [...] í Reykjavík, veist að G og slegið hann hnefahöggi í andlitið með krepptum hnefa þannig að G féll í götuna og hafa þar sem hann lá stappað á eða sparkað í höfuð hans, allt með þeim afleiðingum að G hlaut tvö brot á neðri kjálka, brot á nefbeini og framtönn vinstra megin í neðri gómi losnaði.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu E, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða honum miskabætur samtals að fjárhæð kr. 600.000, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 4. gr. laganna, frá 22. desember 2013 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa þessi er kynnt fyrir ákærðu en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu lögmannsþóknunar eða réttargæsluþóknunar, ef lögmaður verður skipaður réttargæslumaður, allt í samræmi við framlagða tímaskýrslu að teknu tilliti til þess að brotaþoli er ekki með virðisaukaskattskylda starfsemi.
Af hálfu D, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða honum miskabætur samtals að fjárhæð kr. 600.000, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 4. gr. laganna, frá 22. desember 2013 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa þessi er kynnt fyrir ákærðu en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu lögmannsþóknunar eða réttargæsluþóknunar, ef lögmaður verður skipaður réttargæslumaður, allt í samræmi við framlagða tímaskýrslu að teknu tilliti til þess að brotaþoli er ekki með virðisaukaskattskylda starfsemi.
Af hálfu G, kt. [...], er þess krafist að ákærði X greiði honum miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð kr. 3.000.000 auk útlagðs lyfjakaupa- og lækniskostnaðar o.þ.h. samtals að fjárhæð kr. 152.555, auk almennra vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 27. desember 2013, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Í ljósi afleiðinga árásarinnar þykir fullljóst að útlagður kostnaður vegna læknisþjónustu og lyfjakaupa verður meiri en hér er gerð krafa um. Áskilinn er réttur til þess að koma að frekari kröfum eða auka við gerðar kröfur á seinni stigum málsins. Þá er krafist greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.“
Þá gaf ríkissaksóknari út ákæru hinn 17. nóvember 2014 á hendur:
„Brynjari Kristensson, kt. [...],
Vallargerði 34, Kópavogi og
Ómari Abrahamssyni, kt. [...],
Þverási 3a, Reykjavík,
Gegn ákærðu báðum fyrir líkamsárás framda aðfaranótt sunnudagsins 14. júlí 2013 inni á skemmtistaðnum [...] við [...], Reykjavík, gegn A og C, dyravörðum á skemmtistaðnum, sem þar höfðu afskipti af ákærðu.
I.
Gegn ákærða Ómari Abrahamssyni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa
slegið A með glerflösku í hnakka og þá slegið hann í höfuð og búk hans með tómum bjórkút, allt með þeim afleiðingum að A hlaut kúlur og opið sár á hnakka sem saumað var sex sporum, brot í endajaxli hægra megin, eymsli í nefi og stirðleika í hálsvöðvum.
Telst brot ákærða Ómars varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Gegn ákærða Brynjari fyrir líkamsárás, með því að hafa slegið og skallað C í höfuðið. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að C hlaut mar á andliti, bólgu á efri vör, þreifieymsli á augntönn og verk í hálshrygg.
Telst brot ákærða Brynjars varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að hinir ákærðu verði dæmdir in solidum til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð krónur 1.000.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi þegar liðinn var mánuður frá birtingu bótakröfunnar, til greiðsludags. Þá er þess krafist að hinir ákærðu verði dæmdir til að greiða brotaþola málskostnað við að halda fram kröfu þessari samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.
C, kt. [...], gerir þá kröfu að ákærði verði dæmdir in solidum til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi þegar liðinn var mánuður frá birtingu bótakröfunnar, til greiðsludags. Þá er þess krafist að hinir ákærðu verði dæmdir til að greiða brotaþola málskostnað við að halda fram kröfu þessari samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.“
Málin voru sameinuð.
Verjandi ákærða X krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til var er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafa sæti lækkun. Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar refsivistar ef dæmd verður. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Y krefst sýknu og til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Brynjars krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Verjandi ákærða Ómars krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara að sýknað verði af bótakröfu og til þrautavara að hún sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Ákæra dagsett 14. október 2014.
Undir dómsmeðferð málsins var fallið frá ákærunni að því er varðar ákærða X.
Ákærði Y neitar sök. Hann kvað þá X hafa komið að [...] en þeir hafi þar farið íbúðavillt. Er þeir sáu menn í glugga íbúðar hafi þeir talið það kunningja X sem tók þá upp steinvölu og kastaði í gluggann. Maðurinn sem þarna var, F, hafi orðið öskureiður og komið út en X hafi þá beðið hann afsökunar. F hafi hringt á lögregluna og þá hafi hann aftur verið beðinn afsökunar en X gengið í burtu. F hafi þá sagt þeim að bíða eftir lögreglunni og sett höndina á móti ákærða sem gekk áfram en þá hafi F rifið í úlpu ákærða og sagt honum að bíða. Hann hefði þá ýtt F frá til að reyna að losa sig. F hafi þá hjólað í sig og læst sig í einhverju taki og hafi þeir fallið í götuna en mjög hált var þarna. F hafi skollið með ennið í götuna þar sem ákærða var haldið fast niðri. Hann hafi reynt að losa sig. Ákærði kvaðst hvorki hafa kýlt F viljandi né sparkað í hann. Hann kvaðst hafa losað sig og farið í burtu en lögreglan komið skömmu síðar.
Vitnið X kvaðst hafa ætlað að ræða við félaga sinn í [...] en þeir ákærðu hefðu farið íbúðavillt er hann kastaði möl í glugga íbúðar á staðnum. Þá hafi F komið út og talið þá ákærðu hafa ætlað að vera með einhver leiðindi. X kvaðst hafa hlaupið í burtu og F hafi ráðist á ákærða. X kvaðst þá hafa komið til baka og þá hafi F sleppt Y sem hann hafi hangið á. Þeir hafi þá farið í burtu. Hann kvaðst aldrei hafa snert F.
Vitnið H, eiginkona F, lýsti því er kastað var í glugga íbúðar þeirra á þessum tíma. F fór þá út og hún á eftir. Tveir menn voru fyrir utan og ræddi F við þá. Annar maðurinn tók upp kylfu og ógnaði með henni en hún fór þá aftur inn að sinna börnunum. Er hún kom aftur út sá hún F í rifnum bol. Hún sá ekki átök sem þarna urðu en mennirnir hlupu í burtu.
Vitnið I kvaðst hafa verið að leggja bíl sínum er hún sá tvo menn dragandi F, henda honum og sparka í hann. Nánar spurð hvort mennirnir hafi verið tveir sem gengu í skrokk á F kvaðst hún telja manninn hafa verið einann. Hún kvað annan mannanna hafa staðið afsíðis og ekkert aðhafst. Hún kvaðst bæði hafa sérð högg og spörk.
Vitnið J kvaðst hafa heyrt F í orðaskaki við tvo menn. Hún kvað hafa verið gengið í skrokk á F og hafi hún þá öskrað á mennina og skipað þeim að hætta sem þeir gerðu og fóru þá í burtu. Hún kvaðst muna eftir höggum í andlit F og spörkum. Nánar spurð kvaðst hún ekki muna þetta en muna eftir öðrum piltanna í átökum við F.
Vitnið K lögreglumaður lýsti komu lögreglu á vettvang og viðræðum við þá sem hlut áttu að máli. Hann staðfesti frumskýrslu vegna þessa.
Fyrir liggur áverkavottorð fyrir F, dagsett 13. desember 2013. Þar er lýst áverkunum sem í ákæru greinir. Vitnið L sérfræðilæknir ritaði vottorðið. Hann staðfesti það og skýrði fyrir dóminum. Hann kvað áverkana geta samrýmst frásögn F af atburðum.
Niðurstaða ákæru dagsettrar 14. október 2014.
Eins og rakið var féll ákæruvaldið frá ákærunni er varðar X.
Ákærði Y neitar sök og kvaðst ekki hafa kýlt F viljandi. Ljóst er af vitnisburði F að ákærði Y hafði sig lítið í frammi eins og lýst var. Hins vegar bar hann að ákærði Y hefði slegið sig eitt högg í ennið og þeir hafi síðan fallið en mjög hált var þarna. Það er mat dómsins að sannað sé með trúverðugum vitnisburði F sem fær stoð í vitnisburði Y og J, og með stuðningi læknisvottorðs og vitnisburðar L sérfræðilæknis, en gegn neitun ákærða, að hann hafi kýlt F eitt hnefahögg í andlitið. Ósannað er að F hafi fallið við höggið og má fremur telja það hafa gerst vegna hálku er þeir ákærði tókust á. Vitnið F kvað ekki hafa verið sparkað í sig og er ákærði þannig sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Í læknisvottorði segir að greinst hafi kúla vinstra megin á enni F við skoðun. Með þessu og vitnisburði L sérfræðilæknis er sannað að þessar voru afleiðingar höggs ákærða. Ósannað er gegn neitun ákærða að hann hafi verið valdur að öðrum áverkum F og er ákærði sýknaður af þeim hluta ákærunnar.
Með háttsemi sinni hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga eins og ákært er fyrir.
Ákæra dagsett 29. október 2014.
Ákæruliður I.1
Ákærði Brynjar neitar sök. Hann kvaðst hafa verið á [...] á þessum tíma en hann muni ekki með hverjum. Hann hafi ekki lent í neinum átökum á þessum tíma og hann muni ekki eftir neinum átökum þarna. Hann kvaðst hafa séð upptöku úr eftirlitsmyndavél staðarins frá þessum tíma. Hann kvaðst ekki þekkja sig á upptökunni og húðflúr á handlegg manns sem þarna sjáist sé frábrugðið húðflúri á handlegg sínum og skýrði hann þetta.
Ákærði Ómar neitar sök. Hann kvaðst hafa verið á [...] að skemmta sér á þessum tíma. Hann kvað sig minna að hann hafi verið með Ý, kunningja sínum, en hann mundi ekki eftir því að hafa verið í för með meðákærðu Brynjari og X. Hann hafi ekki lent í neinum átökum þarna og hann muni ekki eftir því að átök hafi orðið. Hann kvað hugsanlegt að hann sæist á upptöku eftirlitsmyndavélar staðarins og hugsanlega sæist meðákærði einnig. Hann neitaði því að upptakan sýndi þá meðákærða Brynjar ráðast á mann.
Hinn 3. janúar 2014 var tekin vitnaskýrsla af D hjá lögreglu. Hann greindi svo frá að rekist hefði verið harkalega í sig þar sem hann stóð við bar skemmtistaðarins. Síðan hafi náungi í hvítum bol tekið sig og haldið sér á meðan að minnsta kosti þrír tóku hann og héldu á meðan að minnsta kosti þrír piltar kýldu hann í höfuðið. Hann kvað E hafa komið sér til aðstoðar í fyrstu en síðan dyraverði sem stíuðu mönnunum í sundur. Hann kvað einn piltanna hafa verið í grænum bol og sá heiti X. Eftir að hafa skoðað facebook síðu hans hafi hann séð að pilturinn í hvíta bolnum heiti víst Kristens. Fram kom í skýrslunni að D hafi verið mjög ölvaður er þetta átti sér stað.
Hinn 2. janúar 2014 gaf E vitnaskýrslu hjá lögreglunni. Hann kvað þá D hafa verið í afmælisveislu á [...] á þessum tíma. Hann lýsti því er piltur í hvítum bol kom að D, hélt honum hálstaki og kýldi hann í andlitið. Hann kvaðst hafa reynt að stía þeim í sundur og rætt við piltinn í hvíta bolnum. Hann kvaðst hafa tekið D með sér út úr þvögunni sem þarna var. Er hann var kominn í anddyrið hafi pilturinn í hvíta bolnum komið að honum og slegið hann í vörina svo að brotnaði upp úr tönn. Hann kvaðst nokkuð viss um að pilturinn í hvíta bolnum hefði haft eitthvað í hendinni er hann sló sig. Hann lýsti höggi sem hann fékk hægra megin á höfuðið og vinstra megin á hálsinn. Annað höggið hafi verið frá pilti í grænum bol. Hann kvað engan dyravörð hafa komið til aðstoðar á þessum tíma. Fram kom í lögregluskýrslunni að E skoðaði upptökur úr eftirlitsmyndavél skemmtistaðarins frá þessum tíma. Því er lýst í skýrslunni að E hafi bent á árásarmenn, annan í grænum bol og hinn í hvítum bol. Í skýrslunni segir að lögreglumaðurinn sem ritaði skýrsluna þekki piltinn í hvíta bolnum sem Brynjar Kristensen og piltinn í græna bolnum sem X.
Það var ákvörðun ákæruvaldsins að fá hvorugt vitnanna D eða E fyrir dóm undir aðalmeðferð málsins en hvorugur er búsettur hér á landi.
Vitnið M var dyravörður á Austur á þessum tíma. Hann kvaðst hafa verið í anddyri staðarins og ekki séð hvað gerist þar inni. Hann sá engan laminn með flösku í höfuðið.
Fyrir liggur læknisvottorð D, dagsett 13. janúar 2014. Þar er lýst áverkum sem greindust á D við komu hans á slysadeild 22. desember 2013 og eru þeir hinir sömu og í ákæru greinir. N sérfræðilæknir ritaði vottorðið. Hann skýrði það og staðfesti fyrir dóminum. Hann kvaðst ekki telja að áverkarnir hafi hlotist eftir flösku, frekar eins og eftir hnúajárn eins og N lýsti við komu á slysadeild.
Niðurstaða ákæruliðar I.1
Ákærðu neita báðir sök. Ákærði Brynjar kvaðst ekki þekkja sig á upptöku úr eftirlistmyndavél staðarins auk þess sem húðflúr aðilans sem ákæruvaldið taldi vera ákærða væri frábrugðið húðflúri sem hann bæri. Ákærði Ómar kvað hugsanlegt að ákærðu sæjust báðir á upptökunum en kvað upptökurnar ekki sýna þá ráðast á annan mann. Vitnin D og E eru báðir búsettir erlendis. Afstaða ákæruvaldsins var sú að fá hvorugan fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins og hefur því hvorugt vitnanna gefið skýrslu fyrir dómi. Það er mat dómsins að við svo búið standi og verður sönnunargildi skýrslna þeirra D og E hjá lögreglu metið á grundvelli 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Ekki verður ráðið af upptökum eftirlitsmyndavéla sem liggja fyrir í málinu að ákærðu hafi viðhaft þá háttsemi sem ákært er fyrir. Ekkert vitni bar fyrir dómi að ákærðu væru sekir af þessari háttsemi. Vitnisburður D hjá lögreglu, jafn óskýr og hann er, breytir ekki niðurstöðunni um þetta og hið sama á við um vitnisburð E enda er það mat dómsins að ekki sé unnt að byggja dóm um sakfellingu á vitnisburði þessara manna hjá lögreglu, gegn neitun ákærðu, þar sem hvorugur gaf skýrslu fyrir dómi og ákærðu og verjendum hefur ekki verið gefinn kostur á að spyrja vitnin um sakarefnin fyrir dómi, sbr. meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi. Samkvæmt þessu er ósannað, gegn neitun beggja ákærðu, að þeir hafi gerst sekir um háttsemina sem hér er ákært fyrir og ber að sýkna þá báða af þessum ákærulið.
Ákæruliður I.2
Ákærði X neitar sök. Hann kvaðst ekki vita hvað gerðist á þessum tíma utan að sparkað hafi verið í bak hans er hann gekk út af staðnum. Hann kvaðst hafa talið sig hafa verið í „góðum gír“ inni á staðnum en hann hafi ekki átt í neinum átökum við E eða aðra þar inni. Hann viti ekki um meðákærða Brynjar en þeir hafi ekki veist að E í sameiningu eins og ákært er fyrir. Á upptöku sést að sparkað er í ákærða fyrir utan staðinn. Ekki verður með vissu ráðið af upptökunum hvað gerðist inni á staðnum en þar er mikil mannþröng, nánast stappað.
Ákærði Brynjar neitar sök og var framburður hans rakinn í ákærulið hér að framan.
Vísað er til vitnisburðar E og D hjá lögreglu en vitnisburður þeirra var rakinn undir ákæruliðnum hér að framan.
Vitnið O var dyravörður á [...] á þessum tíma og kvaðst hafa komið að í lok atburðarásar. Er hann kom út í anddyri hafi tveir menn staðið þar hjá dyraverði og annar mannanna verið blóðugur á höfði. Hópar voru þar fyrir utan og hann áttaði sig ekki á aðstæðum þar. Þá hafi komið maður úr þvögunni og brotið flösku á höfði annars manns. Hann lýsti því að margmenni hefði verið þarna er þetta gerðist. Hann hafi ekki getað greint hver árásarmaðurinn var en þetta hafi gerst mjög hratt. Aðspurður kvaðst hann hvorugan ákærða þekkja. Hann gat ekki borið hvort ákærðu áttu hlut að máli eins og þeim er gefið að sök í þessum ákærulið.Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst hann hafa séð mann í hvítri peysu og sá hafi lamið manninn með flösku eða glasi. Spurður um þetta kvaðst hann ekki geta greint nánar frá þessu og hann þekki manninn ekki í sjón. Fram kom að vitnið þekkti ákærða X og greindi hann svo frá að hann hefði ekki gert neitt svo að vitnið sæi. Í ákærunni er því lýst að ákærði X hafi veitt E ítrekuð hnefahögg í höfuð eftir að E var sleginn í höfuðið með flösku. O kvað ákærða X ekki vera þennan mann.
Vitnið M var dyravörður á [...] á þessum tíma. Hann kvaðst hafa verið í anddyri staðarins og ekki séð hvað gerðist inni á staðnum. Hann mundi eftir að hafa gengið á milli manna sem voru að kýta fyrir utan staðinn, árásarþolar og þess sem þeir töldu árásarmann. Hann sá engan laminn með flösku í höfuðið.
Fyrir liggur læknisvottorð E, dagsett 13. janúar 2014. Þar er lýst áverkunum sem greindust á E við komu á slysadeild 22. desember 2013 og eru þeir hinir sömu og í ákærunni greinir. N sérfræðilæknir ritaði vottorðið. Hann skýrði það og staðfesti fyrir dóminum. Hann kvað áverkana geta samrýmst frásögn E af því sem gerðist.
Niðurstaða ákæruliðar I.2
Ákærðu neita sök. Vitnisburður dyravarðanna M og O varpa ekki ljósi á þennan atburð nema að vitnisburður O gefur sterka vísbendingu um að ákærði X hafi ekki átt hlut að máli. Öðrum vitnisburði er ekki til að dreifa utan vitnisburðar E og D hjá lögreglu. Af ástæðum sem raktar voru við ákærulið I.1 að framan er það mat dómsins að ekki sé fær sú leið að leggja vitnisburð þessara vitna til grundvallar sakfellingar, gegn neitun ákærðu, án frekari stuðnings af gögnum málsins. Eftir stendur að ekkert vitni hefur fyrir dómi borið um þessa ætluðu háttsemi ákærðu. Með vísan til alls ofanritaðs er ósannað, gegn eindreginni neitun ákærðu, að þeir hafi gerst sekir um háttsemina sem hér er ákært fyrir og ber samkvæmt því að sýkna þá báða af þessum ákærulið.
Ákæruliður II
Ákærði X neitar sök og kvað ekkert af því sem lýst er í ákærunni hafa átt sér stað. Hann kvaðst hafa verið í [...] á þessum tíma og kvöldið hafi verið gott. Hann viti ekki nein deili á G og hann hafi engin samskipti átt við hann þetta kvöld.
Vitnið G kvaðst hafa verið vel drukkinn að skemmta sér á [...] á þessum tíma. Hann kvaðst ekki alveg viss um hvað gerðist en hann hafi verið laminn fyrir utan staðinn og rankað við sér á spítala. Hann kvað árásarmanninn heita X en lögreglan hafi greint sér frá nafni hans og hann muni ekki eftir neinum samskiptum við hann þetta kvöld. Hann kvaðst ekki geta lýst árásinni þar sem hann hafi rotast. Hann mundi ekki eftir neinum útistöðum við nokkurn mann þetta kvöld. Hann kvaðst hafa náð sér að mestu leyti eftir þennan atburð.
Vitnið P kvaðst hafa séð slagsmál fyrir utan [...] á þessum tíma. Hún geti ekki lýst slagsmálunum og viti ekki hverjir áttu hlut að máli. Hún viti ekki hvort ákærði X átti þar hlut að máli en hún fór inn eftir að slagsmálin hófust.
Vitnið R var dyravörður á [...] á þessum tíma en hann kvaðst ekki vita annað um þennan atburð en sögusagnir. Hann varð ekki vitni að atburðinum og geti ekkert um hann sagt.
Fyrir liggur upptaka úr eftirlitsmyndavél sem sýnir ákærða og fleiri fyrir utan staðinn. Atburðurinn sem í ákæru greinir kemur ekki fram á upptökunum. Ákærði var spurður um upptökurnar. Hann kvaðst sjá sig þar og upptakan sýni för sína út af staðnum en ákærði hafi ætlað að fá sér að borða. Hann hafi gleymt úlpu sinni inni á staðnum og komið til baka að sækja hana. Skömmu síðar sjáist hann fara heim á leið klæddur úlpunni.
Fyrir liggur læknisvottorð S, dagsett 28. desember 2013. Þar er lýst áverkum sem greindust á G við komu hans á slysadeild 27. desember 2013 og eru þeir hinir sömu og lýst er í ákærunni. T kjálkaskurðlæknir ritaði vottorðið sem hann skýrði og staðfesti fyrir dóminum. Hann kvað áverkana samrýmast frásögn G af atburðunum.
Niðurstaða ákæruliðar II
Ákærði neitar sök. Vitnið G þekkti ákærða ekki og kvaðst engin samskipti hafa átt við hann þetta kvöld. Hann kvað lögregluna hafa greint sér frá því að ákærði væri árásarmaðurinn. Upptökur úr eftirlistmyndavélum staðarins frá þessum tíma varpa ekki ljósi á sakarefnið og verður ekkert af þeim ráðið um það. Ekkert vitni hefur komið fyrir dóm og borið um þetta ætlaða brot ákærða. Að þessu virtu og öðrum gögnum málins er ósannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er ákært fyrir og ber því að sýkna hann.
Ákæra dagsett 17. nóvember 2014
Ákæruliður I
Ákærði Ómar neitar sök. Hann kvaðst hafa komið á [...] á þessum tíma ástamt meðákærða Brynjari. Hann kannaðist ekki við A og hafi hann ekki átt í neinum útistöðum við hann. Hann kvað lögregluna hafa rætt við þá meðákærða og greindi hann þar svo frá að hann hefði fengið bjórkút í andlitið og kvartaði undan eymslum. Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi hann svo frá að þetta hefði verið grín hjá sér. Hann staðfesti það fyrir dóminum enda kvað hann lögregluna hafa skutlað þeim meðákærða á næsta bar. Hann staðfesti að hafa beðið eiganda [...] um að draga kæruna til baka þar sem hann væri saklaus. Hann mundi ekki eftir því að átök hefðu orðið vegna þess að meðákærði Brynjar hefði ætlað með vínflösku inn á staðinn.
Vitnið A kvaðst hafa verið við störf sem dyravörður er hann kom að C, eiganda og dyraverði, að fást við hóp af mönnum. Hann kvað áfengisflösku hafa verið þarna og í ljós kom að hópurinn hafði komið með flöskuna inn á staðinn og reynt að fá að halda flöskunni. C reyndi að fá hópinn út með flöskuna. Hann hafi reynt að tala við mennina en þá virtist ákærði Brynjar, sem hélt á flöskunni, reyna að lemja C með henni en vitnið kvaðst hafa komið í veg fyrir það. Þá sneri ákærði Brynjar sér að vitninu og reyndi að kasta flöskunni í hann en hitti ekki. Brynjar sneri sér síðan aftur að C og skallaði hann svo að út brutust slagsmál. Einhver kom og tók vitnið hálstaki aftan frá og náði vitninu í gólfið. Þá hafi Brynjar komið og spurt hvort vitnið væri tilbúið að tala við sig eins og maður. Hann hafi aðstoðað sig á fætur og leitt hópinn niður stigann. Er hann var kominn hálfa leið niður hafi þriðji dyravörðurinn komið á móti sér og stöðvað vitnið. Hann hafi sagt mennina vera vini sína og færi hann niður myndi meira vesen hljótast af. Hann kvað sig hafa grunað það en haldið áfram engu að síður þar sem hann hitti ákærða Brynjar við dyrnar. Brynjar hefði spurt hvernig vitnið ætlaði að endurgreiða flöskuna sem brotnaði er hann kastaði henni. Vitnið kvaðst ekki ætla að gera það og reyndi Brynjar þá að kýla hann. Þá byrjuðu slagsmál aftur og fékk vitnið mörg högg og allir voru komnir með flöskur sem þeir reyndu að berja frá sér. Hann hafi reynt að verjast flöskunum og höggunum er hann fékk högg á hnakkann og rankaði við sér á gólfinu þar sem honum tókst að verjast. Hann taldi höggið sem hann fékk á hnakkann hafa verið eftir flösku. Ákærði Ómar hafi verið sá eini sem var fyrir aftan hann á þessum tíma og er hann leit upp hafi Ómar komið úr þeirri átt sem höggið kom. Hann hafi séð ákærða Ómar út undan sér þar sem hann tók bjórkút sem hann sló vitnið tvisvar sinnum með í höfuðið uns hann missti kútinn og sparkaði honum tvisvar í síðu vitnisins eftir það. Þarna hafi þeir ákærðu Brynjar og Ómar báðir reynt að sparka í sig. Er hann náði að standa upp fóru ákærðu út. Hann kvaðst hafa hlotið áverkana sem lýst er í ákærunni og lýsti hann þessu og fleiri áverkum og tannskaða sem hann hlaut við þetta.
Vitnisburður C er rakinn við ákæruliðinn hér á eftir og vísast til þess sem þar er rakið.
Vitnið U kvaðst hafa verið á efri hæð staðarins er hann varð var við læti bak við sig. Er hann sneri sér við sá hann dyraverði og mann takast á. Átökin færðust síðan niður að inngangi staðarins. Þar kom A dyravörður og var hann kýldur á fullu en hann hafi reynt að koma árásarmönnunum út. Þá hafi einn árásarmannanna, sem hann taldi heita Ómar, sagt að hann skyldi fara út. Er A sneri baki í Ómar hafi Ómar tekið upp glerflösku og slegið A í hnakkann svo að hann féll í jörðina. U kvað Kristensen, sem hann kallaði svo, hafa tekið upp bjórkút og kastað í hnakka A. Lögreglan kom skömmu síðar. Hann kvaðst ekki hafa þekkt árásarmennina en hann þekki nöfnin eftir að árásin var rædd eftir á á staðnum.
Vitnið V var dyravörður á staðnum á þessum tíma. Hann kvað A dyravörð hafa verið barinn nokkrum sinnum í höfuðið með glerflösku. Hann kvaðst ekki muna hver sló hann en vitnið kvaðst strax hafa snúið sér við í því skyni að kalla til lögreglu. Spurður hvort árásarmaðurinn hafi gert eitthvað frekar á hlut A kvaðst vitnið ekki hafa séð það þar sem hann sneri sér strax undan eins og lýst var. Hann kvaðst ekki þekkja árásarmanninn og ekki geta lýst útliti hans.
Vitnið Z kvað C hafa komið á efri hæð staðarins blóðugan í framan og greint frá því að átök hefðu orðið. Hann hafi þá litið niður og séð A dyravörð í átökum og annan dyravörð við hlið hans en sá hafi ekkert aðhafst. Hann kvað A hafa verið sleginn í höfuðið svo að hann féll við en hann sá ekki með hverju A var sleginn. Hann sá A ekki sleginn með bjórkút. Þar sem dyravörðurinn sem stóð hjá aðhafðist ekkert kvaðst vitnið hafa farið niður og spurt hvort hann ætlaði ekki að stöðva átökin en hann hafi sagst þekkja þá sem áttu í átökum. A og hann hafi þess vegna ekki skipt sé af því sem átti sér stað. Vitnið kvað A hafa verið í götunni rænulítinn og vitnið hafi þá tekið árásarmann tökum og ætlað að henda honum út en þá hafi vinur þess manns ráðist á vitnið sem sleppti þá takinu á árásarmanninum og varðist uns A stóð á fætur haldandi á bjórkút uppi yfir höfði sér en þá hafi árásarmennirnir yfirgefið staðinn. Hann kvað ákærða Brynjar manninn sem réðst á A og hann hafi ekki séð aðra ráðast á hann.
Vitnið Þ kvaðst hafa verið fyrir utan [...] á þessum tíma en hann sá slagsmál inni á staðnum. Þrír strákar hafi ráðist á dyravörð og hann hafi verið laminn með flösku. Þá hafi einn mannanna lamið dyravörðinn með bjórkút. Hann viti ekki hvort sami maður lamdi dyravörðinn með flöskunni og með bjórkútnum. Hann viti ekki hverjir árásarmennirnir voru. Þetta endaði er annar dyravörðurinn kom hinum til aðstoðar og þá fóru árásarmennirnir.
Vitnið Æ lögreglumaður fór í útkall á [...] á þessum tíma. Hann kvaðst lítið muna eftir málinu en þó það að einhver átök hefðu verið í anddyrinu. Hann kvað eins og tvær fylkingar ættu hlut að máli. Hann viti ekki hvað gerðist inni á staðnum áður en hann kom á vettvang.
Fyrir liggur læknisvottorð fyrir A, dagsett 20. ágúst 2013. Ö sérfræðilæknir staðfesti vottorðið og skýrði það fyrir dómi. Hann kvað áverkana sem lýst er í ákærunni og í vottorðinu geta samrýmst frásögn A af því sem gerðist.
Fyrir liggur áverkaskýrsla fyrir A þar sem lýst er tannáverkum sem í ákæru greinir. Á tannlæknir ritaði vottorðið og staðfesti það fyrir dómi.
Niðurstaða ákæruliðar I
Ákærði neitar sök en framburður hans í heild um þennan atburð er ótrúverðugur og hefur hann gefið ótrúverðugar skýringar á frásögn sinni hjá lögreglu sem hann kvað grín eins og rakið var. Það er mat dómsins að sannað sé með trúverðugum vitnisburði A sem fær stoð í vitnisburði C, U, V, Z, Þ, læknisvottorðum og áverkaskýrslu og með vitnisburði Ö sérfræðilæknis og Á tannlæknis, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir.
Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákæruliður II
Ákærði Brynjar neitar sök. Hann kvað slagsmál hafa verið í gangi á [...] er þeir meðákærði Ómar voru nýkomnir þangað. Hann geti ekki lýst slagsmálunum. Lögreglan kom og ræddi við þá Ómar og ók þeim á næsta pöbb. Hann kvaðst ekki þekkja C og engin samskipti hafa átt við hann þetta kvöld. Hann kvað ekki rétt það sem fram kom í lögregluskýrslum um að hann hafi ætlað með áfengisflösku inn á staðinn og lent í átökum þess vegna.
Vitnið C kvaðst hafa starfað sem dyravörður á [...] þetta kvöld. Hann hafi séð fjóra menn við tröppur við inngang staðarins þar sem þeir blönduðu vín sem hann grunaði að væri ekki af skemmtistaðnum. Hann hafi spurt mennina hvar þeir hefðu fengið flöskuna. Þeir sögðust hafa keypt hana af barnum sem reyndist ekki rétt eftir að vitnið kannaði það. Þá bað hann mennina um að afhenda sér flöskuna og yfirgefa staðinn. Þá hefði maðurinn með flöskuna ætlað að berja sig með henni en A dyravörður kom þá aftan að manninum og stöðvaði þetta. Þá skallaði ákærði Brynjar hann en hann fékk við það mjög þungt högg á nefið og brotnaði eða brákaðist og varð mjög blóðugur. Hann mundi ekki eftir því að ákærði Brynjar hefði slegið sig. Mennirnir hafðu þá ráðist á A en vitnið fór aftur að barnum til að hringja í lögreglu. Hann hafi þessu næst reynt að beina slagsmálunum niður að útganginum en þá komu tveir menn að sem reyndu að draga vitnið frá. Er komið var að innganginum hafi þrír menn, þar á meðal ákærði Brynjar, tekið flöskur og notað sem vopn. Dyraverðir hafi náð að halda aftur af þessu að hluta en A hafi verið sleginn með flösku svo að hann féll í gólfið. Þá hafi ákærði Ómar tekið upp bjórkút sem hann notaði til að slá A liggjandi. Hann kvað lögregluna hafa komið stuttu síðar og þá hafi árásarmennirnir flúð af vettvangi. Hann kvað árásarmennina hafa haft samband síðar í því skyni að reyna að fá vitnið til að falla frá kæru.
Vitnið U kvaðst ekki hafa séð atburðinn sem hér um ræðir.
Vitnið V sem bar um atburði samkvæmt ákærulið I kvaðst ekki hafa orðið vitni að atburðinum sem hér er ákært vegna.
Fyrir liggur læknisvottorð C, dagsett 23. júlí 2013. Ö sérfræðilæknir staðfesti vottorðið og skýrði fyrir dómi. Hann kvað áverkana sem lýst er í ákæru og í vottorðinu geta samrýmst frásögn C af því sem gerðist.
Fyrir liggur áverkavottorð C, dagsett 18 júlí 2013. Í tannlæknir ritaði vottorðið og skýrði það fyrir dóminum. C kom til skoðunar fjórum dögum eftir hina ætluðu árás. Hann hafi verið aumur við skoðun. Vitnið kvaðst ekki hafa lýst þreifieymslum á augntönn eins og í ákærunni greinir.
Niðurstaða ákæruliðar II
Ákærði neitar sök. Vitnisburður C er trúverðugur og fær hann stoð í vitnisburði A, sem rakinn var við ákæruliðinn hér að framan, með læknisvottorði og vitnisburði Ö sérfræðilæknis og með áverkavottorði og vitnisburði Í tannlæknis, en gegn neitun ákærða, að hann hafi skallað C í andlitið eins og ákært er fyrir með afleiðingum sem lýst er í ákærunni utan að ósannað er að ákærði hafi slegið C, enda bar vitnið Brynjar ekki um það og er ákærði sýknaður af þeim hluta þessa ákæruliðar.
Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði Y hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð 120.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 10 daga fangelsi í stað sektarinnar verið hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja
Ákærði Brynjar hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð 200.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar verið hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja
Ákærði Ómar hlaut ákærufrestun á árinu 2010 fyrir þjófnað en hefur ekki hlotið refsingu fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði en eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustunni skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.
A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða Ómars á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja miskabæturnar hæfilega ákvarðaðar 400.000 krónur auk vaxta svo sem greinir í dómsorðið en dráttarvextir reiknast frá 18. janúar 2014 er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða. Aðeins er krafist dráttarvaxta. Þá greiði ákærði 409.200 króna réttargæsluþóknun Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns skipaðs réttargæslumanns A.
C á rétt á miskabótum úr hendi ákærða Brynjars á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja miskabæturnar hæfilega ákvarðaðar 150.000 krónur auk vaxta svo sem greinir í dómsorðið en dráttarvextir reiknast frá 18. janúar 2014 er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða. Þá greiði ákærði 200.000 krónur í málskostnað vegna bótakröfunnar.
Í samræmi við niðurstöðu sakarefnis í ákæru frá 29. október 2014 ber að vísa skaðabótakröfum E, D og G frá dómi. Þóknun skipaðs réttargæslumanns þessara kröfuhafa greiðist úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði.
Ákærði Brynjar greiði 30.400 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði Ómar greiði 39.100 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
1.023.000 króna málsvarnarlaun Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða X, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Y greiði ¾ hluta 613.800 króna málsvarnarlauna Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns á móti ¼ hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Brynjar greiði helming 1.023.00 króna málsvarnarlauna Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Ómar greiði helming 1.023.000 króna málsvarnarlauna Gísla Kr. Björnssonar héraðsdómslögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Hildur Sunna Pálmadóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, Y, greiði 120.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 10 daga fangelsi í stað sektarinnar verið hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja
Ákærði, Brynjar Kristensson, greiði 200.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar verið hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja
Ákærði, Ómar Abrahamsson, sæti fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Ómar greiði A, kt. [...], 400.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. janúar 2014 til greiðsludags. Þá greiði ákærði Ómar 409.200 króna réttargæsluþóknun Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns.
Ákærði Brynjar greiði C, kt. [...], 150.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. janúar 2014 til greiðsludags. Ákærði Brynjar greiði C 200.000 krónur í málskostnað.
Einkaréttarkröfum E, D og G er vísað frá dómi.
409.200 króna réttargæsluþóknun Hönnu Maríu Þórhallsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns E og D, og 409.200 króna réttargæsluþóknun Hildar Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns G, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Brynjar greiði 30.400 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði Ómar greiði 39.100 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
1.023.000 króna málsvarnarlaun Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða X greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Y greiði ¾ hluta 613.800 króna málsvarnarlauna Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns á móti ¼ hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Brynjar greiði helming 1.023.00 króna málsvarnarlauna Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Ómar greiði helming 1.023.000 króna málsvarnarlauna Gísla Kr. Björnssonar héraðsdómslögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.