Hæstiréttur íslands

Mál nr. 422/2009


Lykilorð

  • Ásetningur
  • Líkamsárás
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009.

Nr. 422/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Ásetningur. Líkamsárás. Sératkvæði.     

X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa látið hjá líða að útvega A læknishjálp þótt honum hafi ekki dulist að A var í lífsháska eftir líkamsárás sem hann hafði orðið fyrir í sumarhúsi við O. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við mat á því hvort athafnaleysi X varðaði við áðurgreint ákvæði hegningarlaga yrði skilyrði um ásetning að vera fullnægt þannig að X hefði að minnsta kosti látið sér það í léttu rúmi liggja hvað yrði um A þótt hann hefði gert sér grein fyrir því að A væri í lífsháska. Við mat á sönnun um það yrði meðal annars litið til þess að ákærði var vitni að árás á A í stofu sumarhússins. Hins vegar fór ákærði úr stofunni að árás lokinni og kom aftur inn þegar meðákærðu, AU og D, voru að færa A í sófa og hefði AU meðal annars gert að sárum hans. Þá hefði X fyrr um kvöldið náð í sjúkrakassa úr bifreið sinni til að hlúa að A vegna árásar sem hann hafði orðið fyrir í svokölluðu reykherbergi. X kvað A hafa verið kunningja sinn og hefði hann haft nokkurt samneyti við hann og fjölskyldu hans. Hefði ölvun A umrætt sinn því ekki komið honum á óvart. Í málinu þótti upplýst að A hefði verið mikill drykkjumaður en samkvæmt niðurstöðum úr blóðrannsóknum hefði A á einhverjum tímapunkti verið með um eða yfir 3,6 ‰ alkóhóls í blóði fyrir andlátið. Ekki var fallist á það með ákæruvaldinu að sú staðreynd að X hefði tekið tvær ljósmyndir af A þar sem hann lá rænulítill í sófanum studdi sérstaklega ályktun um sekt hans. Að öllu virtu yrði ekki staðhæft að X hefði haft ásetning til brots gegn 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga. Var X því sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. júlí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvald krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms  um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Með héraðsdómi var Rimvydas Stasiulionis fundinn sekur um líkamsárás gegn A sem leiddi til dauða A, en árásin átti sér stað í samkvæmi í húsi nr. 1 við Oddsholt í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þá var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa látið hjá líða að útvega A læknishjálp þótt honum hafi ekki getað dulist að A var í lífsháska. Meðákærðu í héraði, AU og D, voru á hinn bóginn sýknaðar af ákæru um brot gegn þessu ákvæði og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu.

Atvikum er rétt lýst í þeim kafla héraðsdóms þar sem komist er að niðurstöðu um sekt ákærða að öðru leyti en því að ákærði varð hvorki vitni að deilum milli A og Rimvydas í svokölluðu reykherbergi hússins né þeirri líkamsárás sem þar fylgdi í kjölfarið. Á hinn bóginn er ljóst að ákærði lét fyrir farast að koma A undir læknishendur eftir að hann hafði slasast lífshættulega af völdum Rimvydas við hina síðari líkamsárás sem átti sér stað í stofu hússins.

Við mat á því hvort þetta athafnaleysi ákærða varði við 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga verður skilyrði um ásetning að vera fullnægt þannig að sannað sé að ákærði hafi að minnsta kosti látið sér í léttu rúmi liggja hvað um A yrði þótt hann hafi gert sér grein fyrir að hann væri í lífsháska. Við mat á sönnun um þetta er fallist á með héraðsdómi að líta verði til þess að ákærði var vitni að hinni síðari líkamsárás Rimvydas á A. Á hinn bóginn er óumdeilt að ákærði fór úr stofunni að árás lokinni, en kom aftur inn þegar AU og D voru að færa A af gólfinu í sófa. Þar gerði AU að sárum A og setti meðal annars á hann sárabindi. Þá telst fram komið að eftir hina fyrri líkamsárás Rimvydas náði ákærði í sjúkrakassa úr bifreið sinni og hlúðu þau AU að A. Einnig er upplýst að A muni hafa verið mikill drykkjumaður og oft drukkið illa. Kvað ákærði mikla ölvun A umrætt sinn því ekki hafa komið sér á óvart en hann mun hafa verið kunningi ákærða og haft allnokkurt samneyti við hann og fjölskyldu hans. Samkvæmt niðurstöðum úr rannsóknum á blóði og þvagi A og vætti Jakobs Kristinssonar dósents var hann með um eða yfir 3,6 ‰ alkóhóls í blóði á „einhverjum tímapunkti“ fyrir andlátið. Þá eru í gögnum málsins ljósmyndir sem teknar voru meðan á samkvæminu stóð, meðal annars tvær myndir af A þar sem hann lá rænulítill eða rænulaus í sófanum. Ákærði kvaðst hafa tekið myndirnar til að sýna A síðar hvernig hann liti út drukkinn. Þegar litið er til framanritaðs verður ekki fallist á með ákæruvaldinu að sú staðreynd að ákærði tók þessar tvær myndir styðji sérstaklega ályktun um sekt hans.

Samkvæmt 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, nýtur ákærði vafans við mat á þeirri huglægu afstöðu sem bjó að baki því að hann lét fyrir farast að koma A undir læknishendur. Af því sem að framan er rakið verður ekki staðhæft að ákærði hafi haft ásetning til brots gegn 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga. Verður hann því sýknaður af sakargiftum ákærunnar.

Eftir þessum úrslitum verður sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti að því er ákærða varðar felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður í héraði að því er varðar ákærða og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

Sératkvæði

Viðars Más Matthíassonar

Ákærði var ekki sjónarvottur að fyrri atlögu Rimvydas Stasiulionis gegn A, en kvaðst hafa orðið var við einhver hljóð innan úr reykherbergi í húsinu. Hann hafi farið að athuga málið og hitt A. Þar sem blætt hafi úr skurði á augabrún A hafi hann sótt plástur og sárabindi til að búa um sárið. Ákærði bar fyrir dómi að eftir þetta hafi viðstaddir, þar á meðal A, snætt, drukkið, dansað og spjallað saman í samkvæminu. Um einum og hálfum klukkutíma síðar, að mati ákærða, var hann ásamt A og Rimvydas saman í stofu er upp hafi komið deila milli hinna síðarnefndu, líklega vegna krafna A um verndarpeninga úr hendi Rimvydas. Það hafi orðið tilefni síðari atlögu Rimvydas á hendur A og hafi ákærði verið viðstaddur hana. Atlögunni, að því leyti sem hún telst sönnuð, er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Jafnframt er lýst þeim niðurstöðum sérfróðra manna um dánarorsök A og ályktunum, sem lögregla telur að draga megi af rannsókn af dreifingu blóðbletta á vettvangi, að A hafi meðal annars verið veitt þung höfuðhögg. Ákærða var ljóst að eftir seinni atlöguna var A rænulaus og hafði verið lagður til í sófa í stofunni. Ákærða hlaut að vera ljóst að orsakatengsl væru milli rænuleysis A og hinnar harkalegu árásar sem hann hafði orðið fyrir í viðurvist hans, einkum hinna þungu höfuðhögga. Fallist er á með héraðsdómi að ákærða hafi ekki getað dulist að A hafi verið í lífsháska eftir atlöguna. Engu að síður lét hann fyrirfarast að útvega honum læknishjálp.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna tel ég að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm. 

Ég tel að dæma eigi ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 26. júní 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. maí sl. er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 18. febrúar 2009 „á hendur Rimvydas Stasiulionis, kennitala 081182-2649, Háagerði, Grímsnes- og Grafningshreppi, AU, kennitala og heimilisfang, [...], D, kennitala og heimilisfang, [...], og X, kennitala og heimilisfang, [...], fyrir eftirtalin hegningarlagabrot framin að kvöldi föstudagsins 7. nóvember 2008, að Oddsholti 1, Grímsnes- og Grafningshreppi:

1.         Ákærði Rimvydas, fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða, með því að hafa slegið A, kennitala 000000-0000, hnefahögg í höfuðið svo hann féll á gólfið, og með því að hafa skömmu síðar gripið um A og ýtt honum svo hann féll á gólfið af stól sem hann sat á og síðan ítrekað sparkað í og stigið á höfuð hans og efri hluta líkama á meðan hann lá á gólfinu, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut höggáverka á höfði, andliti, hálsi, hnakka, öxlum og herðablöðum, blæðingar í hálsvöðvum og miklar blæðingar inn í höfuðkúpu, sem leiddi til þess að A lést stuttu síðar af völdum undirþrýstings í miðtaugakerfi vegna mikillar blæðingar í heilastofni ásamt dreifðra blæðinga í heila með bjúg aðallega við hægra heilahvel og blæðingar milli heilahimna.

2.         Ákærðu AU, D og X, fyrir brot gegn lífi og líkama, með því að hafa látið fyrir farast að koma A undir læknishendur er hann hafði slasast lífshættulega af völdum ákærða Rimvydas, sbr. 1. ákærulið, en ákærðu leituðu eigi hjálpar fyrr en morguninn eftir er það var um seinan.

Telst brot samkvæmt 1. ákærulið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.  Telst brot samkvæmt 2. ákærulið varða við 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði Rimvydas Stasiulionis krefst þess aðallega að hann verði einungis dæmdur til að þola vægustu viðurlög sem lög framast leyfi vegna brots þess er hann kunni að verða sakfelldur fyrir. Komi til frelsissviptingar sé þess krafist að gæsluvarðhaldsvist hans komi að öllu í stað refsingar, en að öðrum kosti komi hún að fullu til frádráttar þeirri vist sem honum kunni að verða dæmd. Þá sé og krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði eftir mati dómsins með hliðsjón af málskostnaðaryfirliti.

Ákærða AU krefst þess aðallega að hún verði sýknuð og að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð. Til vara krefst hún þess að henni verði aðeins gert að sæta vægustu refsingu sem lög leyfi. Í öllum tilvikum sé krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Ákærða D krefst þess að hún verði sýknuð af öllu kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði látin niður falla eða að hún verði dæmd til að þola vægustu refsingu sem lög framast leyfi vegna brots þess sem hún verði sakfelld fyrir. Jafnframt sé krafist málsvarnarlauna að mati dómsins og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

Ákærði X krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann verði einungis dæmdur til að sæta vægustu refsingu sem lög geri ráð fyrir. Jafnframt sé krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.                                           

I.

Laugardaginn 8. nóvember, kl. 08.22, barst lögreglunni á Selfossi tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um að erlendur maður hefði tilkynnt til Neyðarlínunnar um látinn mann í íbúðarhúsi að Oddsholti 1 í Grímsnes- og Grafningshreppi. Komu lögreglumenn og sjúkraflutningamenn á vettvang kl. 08.42. Kemur fram í frumskýrslu að ákærði Rimvydas hafi tekið á móti lögreglumönnum og sagst hafa tilkynnt um atvikið til Neyðarlínunnar. Hann hafi vísað lögreglumönnum inn í stofu þar sem maður lá sem greinilega var látinn. Hafi hann legið í sófa í stofunni, ber að ofan, með sáraumbúðir ofan við vinstra auga. Blóðstorka hafi verið í munnvikum og nefi, blóð á enni og áverkar á hálsi. Líkami hans hafi verið volgur. Áberandi líkblettir hafi verið byrjaðir að myndast á vinstri hendi sem legið hafi til gólfs. Hinn látni reyndist vera A. Þá er greint frá því í skýrslunni að tvær stúlkur, ákærðu AU og D, hafi setið í reykherbergi, á móti inngangi, ásamt ákærða Rimvydasi og hafi það vakið athygli lögreglumannanna hversu róleg og yfirveguð þau hafi virst miðað við aðstæður. Hafi ákærði Rimvydas þá greint frá því að hann hefði lent í átökum við A kvöldið áður, á milli kl. 21 og 22. Hafi A þá verið orðinn mjög drukkinn og erfiður í umgengni. Hafi Rimvydas veitt honum högg á vinstra gagnauga með krepptum hnefa og við það opnast skurður ofan við vinstra auga. Eftir það hafi kærasta hans, AU, búið um sárið á A sem hafi þá haldið áfram að drekka. Voru ákærðu, Rimvydas, AU og D, handtekin og flutt á lögreglustöð vegna rannsóknar málsins. Hin handteknu og hinn látni hafa öll litháískt ríkisfang. Þar sem D hafði skýrt lögreglumönnum frá því að ákærði X hefði einnig verið í húsinu ásamt eins árs syni þeirra tveggja þá var hafin leit að honum og var hann handtekinn síðar sama dag að Vesturvör 27 í Kópavogi.

Ákærðu voru öll úrskurðuð til að sæta gæsluvarðhaldi hinn 8. nóvember 2008. Sætir ákærði Rimvydas enn gæsluvarðhaldi en hin hafa verið leyst úr gæsluvarðhaldi en úrskurðuð í farbann; D 18. nóvember, AU 21. nóvember og X 27. nóvember sl.

Gylfi Haraldsson læknir kom á vettvang og úrskurðaði manninn látinn kl. 08.52. Eftir skoðun kvað hann manninn hafa orðið fyrir hrottalegri líkamsárás. Hann væri með áverka og mar á hálsi, en þó ekki hálsbrotinn. Þá hefði hann einnig verið marinn og bólginn við hægra eyra og með skurð á enni við vinstri augabrún sem líklega hefði blætt mikið úr.

Fyrir liggja í gögnum málsins ljósmyndir af fatnaði ákærðu, þar á meðal skófatnaði. Greindust rauðir blettir, sem reyndust vera blóðblettir, meðal annars á leðurinniskóm, eins konar töfflum. Voru þeir framan á og undir sóla beggja skónna. Þá liggja fyrir ljósmyndir sem teknar voru á vettvangi umrætt kvöld og hafði verið eytt út af minniskortum viðkomandi myndavéla. Þar á meðal mynd af A þar sem hann liggur út af í sófa í stofunni með sýnilega áverka á höfði, sem búið hafði verið um að hluta.

II.

Matthias Xavier Voisard meinafræðingur á rannsóknarstofu í meinafræði annaðist réttarkrufningu á líki A. Í kafla krufningarskýrslu um niðurstöður krufningar segir svo:

„I.        Sundurtæting fyrir ofan og til hliðar við vinstri augabrún. Grunnlæg þornuð skráma undir vinstra auga og til hliðar við bæði augu. Lítil blæðing milli vinstra auga og eyra og blæðing í húð á sama stað hægra megin. Blæðing í vinstra efra augnloki og aftari hluta hægri ullinseyra. Blæðing í vinstra gagnaugavöðva, sem og vinstra megin að framan og á höfði aftanverðu báðum megin.

II.        Mikil innanbasts blæðing við efri hnykilstoðir, mest hægra megin, og innanbastsblóðhimna þekur allan heilann. Merki um aukinn þrýsting í höfuðkúpu þar sem miðlína færist til vinstri sem nemur 1-1,5 cm.

III.       Innanskúmsblæðingar í báðum fremri ennisblöðum og minni yfir vinstri hnakkablaði. Ferskar blæðingar eru í fremri tengibraut og nálægum gyrðigára. Mikið mar víða á báðum heilahvelum. Blæðing í báðum hliðlægum heilahólfum og í þriðja og fjórða hólfi.

IV.       Mikil fersk blæðing í heilastofni frá framstúku gegnum allan miðheilann og efri hluta heilabrúar.

V.        Grunnlægar línulegar húðskrámur á framhluta háls og eru litlar blæðingar hægra megin. Grunnlæg þornuð húðskráma aftan við hægri kjálka með kornóttu yfirborði. Blæðing í höfuðvendivöðva hægra megin við rót hans og vinstra megin við vöðvafestu. Blæðing við festu hægri höfuðvendivöðva.

VI.       Lungnabjúgur og ummerki um blóðútsog.

VII.     Miklar blæðingar og mar á deltoid-vöðvum hægri axlar, minni blæðing í vinstri deltoid-vöðva. Litlar blæðingar í vöðva aftan á vinstri framhandlegg.

VII.     Mikil vínandaölvun (2,89‰ í blóði og 4,54‰ í þvagi).“

Þá segir svo í niðurstöðum skýrslunnar:

„Dánarorsök A er undirþrýstingur í miðtaugakerfi vegna mikillar blæðingar í heilastofni sem varð vegna þungs höfuðhöggs. Ásamt blæðingu í heilastofni eru dreifðar blæðingar í heila með bjúg aðallega við hægra heilahvel og blæðingar milli heilahimna. Frekari merki um höggáverka eru vinstra megin á enninu, báðum megin á höfðinu, á hnakkanum, hálsinum, báðum öxlum og á herðablöðum og eru þetta blæðingar, skurðir og/eða skrámur á húð og mar. Að auki eru blæðingar í hálsvöðvum. Áverkar vinstra megin á höfðinu sýna greinilegt mynstur sem samsvarar hægri skósóla Rimvydas. Ekki eru aðrir áverkar sem hægt væri að tengja við einhvern grunaðra eða við hlut, nema grunnlægur húðáverki á framhlið háls. Þessi húðáverki hefur greinilegt mynstur sem líkist málmhálsfesti A. Áverkar hægra megin á höfðinu gætu verið eftir beint högg eða að höfðinu hefur verið þrýst að hörðu yfirborði (festingaráverki). Þetta síðastnefnda gæti hafa orsakað blæðingar í undirhúðarvef höfuðleðurs á hnakka og í vöðvum á baki. Blæðing og beinir húðáverkar á framhlið háls gætu verið eftir tak á hálsinum og/eða A dreginn á fötunum eða hálsfestinni.

Blæðing í fremri vöðvum á hálsi eru líklega vegna rifins vöðva eftir mikinn snúning á höfðinu og ekki eftir beint högg. Þetta er í samræmi við hluta af blæðingum í heila. Mar á hvelatengslum (tengibrautin milli heilahvelanna), blæðingar við hvelatengslin og blæðingar við heilastofn eru eftir snúning/hliðrun á heilanum í miðlínu. Ekki er hægt að skýra alla áverka á heila með þessu. Frekari högg á höfuðið hljóta að hafa orðið til að skýra allan skaðann með mari víða á berki beggja heilahvela og bjúg á hægra heilahveli. Blæðing í heilastofni og á hvelatengslum, sem og mar á þeim eru háhraðaáverkar. Einfalt fall til jarðar úr eigin líkamshæð getur ekki valdið svo alvarlegum og miklum áverkum á heila. Eina mögulega skýringin með hliðsjón af framburði hins grunaða (grunuðu) er þungt spark í höfuðið. Mikil vínandaáhrif fórnarlambsins sem drógu úr vöðvavirkni þess gætu hafa átt þátt í umfangi áverkanna. Áverki á hægri axlarvöðva (deltoid-vöðva) með mari og blæðingu er mjög líklega eftir spark, frekar en þrýsting við hart yfirborð eins og Rimvydas heldur fram.

Heilastofnsblæðing telst banvæn og ólæknandi. Dauði á sér stað innan nokkurra mínútna. Hinar grunuðu konur sögðu að þegar þær lögðu A á sófann eftir átökin heyrðust undarleg hljóð í honum. Lýsingin á hljóðunum líkist hljóði sem myndast þegar loft þrýstist hlutlaust upp úr lungunum við tilfærslu á líki. Bein orsakatengsl eru á milli heilaáverkanna og dauða hans. Dánarorsök er manndráp af völdum þungs sparks í höfuð fórnarlambsins þar sem það lá á gólfinu.“

Matthias Voisard kom fyrir dóminn, staðfesti og skýrði skýrslu sína. Ítrekaði hann þá niðurstöðu sína að orsök blæðingarinnar innan í höfuðkúpu hins látna væri sú að mikil snúningshreyfing hefði orðið á höfðinu af völdum mikils höggs. Hefði við það teygst á heilastofninum sem leitt hefði til þess að æðar hefðu slitnað. Hefðu einstakir heilastofnshlutar sýnt mikla ferska blæðingu. Þessi blæðing við heilastofninn hefði ekki verið blæðing, sem kæmi í kjölfar blæðingar, eða svokölluð „sekúnder“ blæðing, eins og honum skildist að dómkvaddur matsmaður byggði á. Dánarorsökin væri undirþrýstingur á miðtaugakerfið, sem þýddi hjartaáfall eða hjartastöðvun, vegna mikillar blæðingar í heilastofni. Kom og fram hjá vitninu að vöðvar hægri axlar hefðu orðið fyrir miklum höggum. Taldi hann að áverkarnir á hinum látna hlytu að stafa af fleiri en einu höggi þegar til þess væri litið hversu umfangsmikið tjónið hefði verið og að ekki væri hægt að skýra alla áverkana með einhvers konar snúningshreyfingu á höfuð eða háls. Þá tók hann og fram að hann teldi nánast útilokað að sárið við augabrún mannsins hefði hlotist af hnefahöggi miðað við það mynstur, eða þann  yfirborðsskaða, sem þar hefði mátt greina á húðinni.

Þá taldi vitnið að skýringar ákærða Rimvydasar á árásinni í stofunni, það er hvernig hann hefði fellt A í gólfið með handahreyfingu og síðan haldið honum niður við gólf með því að setja fæturna á öxl hans, stæðust ekki miðað við umfang þess líkamstjóns sem greinst hefði á A. Það að manni væri hent eða slengt í gólf gæti ekki orsakað slíkt snúningstjón sem orðið hefði á heilastofninum. Mögulegt væri að skýra blæðingar framan á enni eða blæðingar í báðum heilahvelum með slíku falli en það dygði engan veginn til að skýra það tjón sem orðið hefði á heilastofninum, hvað þá það tjón sem orðið hefði á heilabrúnum milli heilahvelanna tveggja. Spurður hvort sennilegt mætti telja miðað við áverkana að í manninn hefði verið sparkað eða á honum trampað svaraði vitnið: „Já, það er mögulegt.“ Og er hann var nokkru síðar spurður um það sem fram kemur í niðurstöðu krufningsskýrslunnar að dánarorsök væri manndráp af völdum þungs sparks í höfuð fórnarlambsins þar sem það lá í gólfinu kom fram hjá vitninu að enda þótt orðið „kicking“ sé þar þýtt sem spark þá væri það í sjálfu sér ekki bundið við eitt spark því þau gætu allt eins hafa verið fleiri.

Vitnið kvaðst aðspurt ekki telja að sýnilegir áverkar á hinum látna og ástand hans eins og það virtist hafa verið hefði átt að leiða leikmönnum fyrir sjónir að maðurinn væri í lífshættu. Hins vegar ættu þeir að gera sér grein fyrir því að hætta væri á ferðum þegar viðkomandi ætti í erfiðleikum með öndun og væri meðvitundarlaus. Inn í það mat spilaði þó vafalaust vitneskja um hegðun mannsins þar á undan eða hvort hann hefði lent í einhverju. Inn í þetta gæti þannig blandast vitneskja viðstaddra um ölvun viðkomandi eða árás sem hann hefði orðið fyrir. Ef einhver þyrfti að dæma um ástand hins slasaða án þess að hafa verið sjálfur á staðnum þegar atvik áttu sér stað efaðist vitnið um að sá hinn sami gæti metið alvöru málsins, með þeirri undantekningu þó ef maðurinn hætti að anda. Á meðan einhver lífsmerki væru, jafnvel þótt viðkomandi væri meðvitundarlaus eða í djúpu dái, þá myndi leikmaður ekki geta greint milli ástands vegna ofurölvunar annars vegar og innvortis skaða vegna höggs hins vegar.

Jakob Kristinsson, dósent við Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, kom fyrir dóminn og staðfesti eiturefnaskýrslu sína, sem er fylgiskjal með krufningarskýrslu. Samkvæmt skýrslunni var vínandi í jaðarblóði hins látna 2,89‰ og 4,54‰ í þvagi og bendi slíkt hlutfall vínandamettunar í blóði og þvagi hins látna til þess að margar stundir hafi liðið frá síðustu neyslu áfengra drykkja þar til hann dó.  Kom fram hjá Jakobi að af þessum tölum mætti draga þá ályktun að hinn látni hefði á einhverjum tímapunkti fyrir andlátið verið með vínandamagn í blóði sem væri um eða yfir 3,6‰. Væri það mjög mikið áfengismagn og gæti slíkt áfengismagn eitt út af fyrir sig leitt til dauða.

Hannes Blöndal taugasérfræðingur vann sérstaka skýrslu um krufningu á heila hins látna, dags. 19. nóvember 2008, sem er fylgiskjal með krufningarskýrslu. Segir þar svo í niðurstöðukafla: „Utanfrá sýnir þessi heili merki um aukinn þrýsting í höfuðkúpu, án slita og ferskt innanskúmsblóð yfir báðum ennisblöðum og í minna mæli yfir vinstri hnakkablaði. Hlutar heilans sýna ferskar vefblæðingar í fremri hvelatengslum og nálægum gyrðigára, ásamt mörgum litlum maráverkum, einkum í berki, á báðum heilahvelum, ferskar blæðingar í báðum hliðarhólfum, þriðja og fjórða hólfi, bjúgur í hægri framennisblaði og færsla á miðlínu sem nemur um 1 cm til vinstri. Heilastofnshlutar sýna mikla ferska blæðingu sem nær frá framstúku gegnum miðheilann allan og efri hluta miðheilabrúar og niður í neðri hluta hennar. Smásjárskoðun á vefsýnum staðfesta sjónskoðun en bætir engum upplýsingum við. Ofangreindar skemmdir eru greinilega áverkar sem eru í samræmi við meðfylgjandi upplýsingar.“

Hannes skýrði athuganir sínar og niðurstöður nánar á þann veg fyrir dómi að við skoðun á heilanum hefði komið í ljós mjög mikil blæðing í heilastofni og að hún hefði tvímælalaust verið dánarorsökin. Hins vegar hefðu verið tiltölulega lítil merki þess að um væri að ræða blæðingu af völdum fyrirferðaraukningar eða heilabjúgs í heilabúinu, sem hefði þá verið svokölluð „sekúnder“ dánarorsök, eða dánarorsök sem kæmi til eftir á. Þyrfti slík blæðing af völdum heilabjúgs að vera verulega mikil til að hún yrði talin dánarorsök í slíkum tilvikum. Sagði vitnið að þrátt fyrir að dánarorsökina mætti þannig rekja beint til hinnar miklu heilablæðingar í heilastofni, sem hefði orðið strax þegar áverkinn varð, þá væri það sjaldnast svo að menn létust samstundis vegna slíkrar heilablæðingar heldur væru þeir yfirleitt með lífsmarki í skamman tíma á eftir, en þó sjaldnast lengur en í eina til tvær klukkustundir.

III.

Með beiðni, dags. 9. mars 2009, fór verjandi ákærða Rimvydasar fram á það að dómkvaddur yrði sérfróður matsmaður til að skoða og meta eftirfarandi atriði í tengslum við andlát A:

Hvern þátt vínandaáhrif fórnarlambsins hafi átt í umfangi áverka á honum.

Hvort fleiri skýringar geti verið á svo miklum og alvarlegum áverkum á heila fórnarlambsins en þær sem fram koma í krufningarskýrslu, sérstaklega m.t.t. framburðar ákærða Rimvydasar um hvernig fall A á gólfið bar að. Kemur fram í matsbeiðninni að tilgangur matsins sé að sanna að fleiri atvik komi til greina sem orsök fyrir hinum alvarlegu áverkum en hin meintu ítrekuðu spörk.

Í þinghaldi hinn 1. apríl 2009 var dómkvaddur í þessu skyni dr. Torleiv Ole Rognum, prófessor í réttarlækningum við Stofnun um réttarlækningar við Oslóarháskóla. Var ákveðið, í samráði við sakflytjendur, að matsmaður myndi skila matsskýrslu sinni munnlega fyrir dómi með vísan til heimildar í 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Gaf matsmaður sína skýrslu í sérstöku þinghaldi vegna þessa hinn 14. maí sl.

Lýsti matsmaðurinn í fyrstu þeim áverkum sem hinn látni hefði verið með á svipaðan veg og gert er í krufningarskýrslu. Matsmaður lýsti því og til hvaða þátta einkum sé horft við mat á því hvenær andlát eigi sér stað. Sé þá einkum horft til tilgreindra ytri ummerkja eins og líkbletta, hitastigs líkama og hvernig vöðvastirðnun líkamans sé háttað. Vöðvastirðnun nái almennt hámarki um 12 klst. eftir andlát en fari síðan aftur minnkandi í framhaldi af því. Kvaðst matsmaður ekki hafa séð nein merki um það í gögnum málsins að sá læknir sem komið hefði á staðinn í greint sinn hefði tekið neitt fram um vöðvastirðnunina. Þegar hins vegar Matthias Voisard hefði skoðað hinn látna, kl. 16.53 hinn 7. nóvember sl., hefði líkamsstirðnunin verið komin í hámark. Út frá þessu taldi matsmaður að andlátið hefði líklega orðið 12 klst. fyrir kl. 16.53, með skekkjumörkum upp á einhverjar klukkustundir. Þá væri og horft til hitastigs líkama, mælt í endaþarmi, heila og á yfirborði líkama, og í því efni stuðst við viðmiðanir varðandi það hvenær hitastig líkamans yrði samsvarandi umhverfishita. Miðað við þær forsendur sem fyrir hefðu legið hvað þetta varðaði hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að andlátið hefði átt sér stað um kl. 5.24 að morgni, (með mjög víðum skekkjumörkum). Kvað matsmaður, að teknu tilliti til allra framangreindra þátta, það vera sitt mat að liðnar hefðu verið 8 til 12 klukkustundir frá andláti mannsins þegar krufning Matthiasar Voisards var framkvæmd, og að það hefði orðið fyrir kl. 7 þá um morguninn.

Matsmaður kvað áverkana á höfði, hálsi og öxlum vera af völdum endurtekinna áfalla sem hefðu stafað af föstum höggum eða falli á fast yfirborð, t.d. gólf. Við slíkar aðstæður gætu svokallaðar brúaræðar yfir heilanum rofnað og það leitt til mikillar blæðingar innan höfuðkúpunnar. Þá gæti heilinn sem slíkur einnig orðið fyrir áverka við slík högg og bólgnað upp vegna þess. Allt þetta gæti orsakað mikinn þrýsting og fyrirferðaraukningu inni í höfuðkúpunni og haft þær afleiðingar að stóri heilinn þrýstist niður í gegnum himnuna, sem skildi hann frá litla heila, og þannig þrýst að litla heilanum. Væri það hans álit að þetta hefði verið orsök andlátsins. Gæti liðið klukkustund eða jafnvel lengri tími frá því viðkomandi yrði fyrir áverka af þessum toga þar til bólgnun heilans og þrýstingur af völdum hans væri orðinn það mikill að andlát yrði.

Meginatriði svara matsmanns við spurningum í matsbeiðni eru eftirfarandi:

Matsspurning 1.

                Matsmaður kvaðst vera sammála þeirri niðurstöðu sem Matthías Voisard komst að í krufningarskýrslu varðandi það að mikil áfengisáhrif kynnu að hafa haft áhrif á áverkana vegna skertrar vöðvastýringar viðkomandi.

Matsspurning 2.

Matsmaður kvaðst hafa farið vandlega yfir skýrslur sem ákærði Rimvydas gaf hjá lögreglu. Sérstaklega hefði hann við mat sitt horft til skýrslu hans frá 17. nóvember 2008 sem hann teldi mestu máli skipta í því sambandi. Hann kvaðst vera sammála þeirri meginniðurstöðu krufningarskýrslu að andlátið hefði orðið vegna blæðingar í heilastofni. Hins vegar væri líklegra að hin lífshættulega blæðing inn á heilastofn hefði ekki verið meginástæða dauðans heldur blæðingin innan höfuðkúpunnar og miklir áverkar á heila sem hefðu orsakað heilaþembu eins  að framan hefur verið lýst. Þegar um slíka áverka væri að ræða gæti nokkur tími liðið þar til andlátið ætti sér stað, allt frá klukkustund til nokkurra klukkustunda. Miðað við þessa niðurstöðu um dánarorsökina geti framburður ákærða Rimvidasar mögulega staðist. Aðspurður hvort um það gæti hafa verið að ræða að bæði hefði verið sparkað í og stigið á höfuðið á hinum látna taldi matsmaðurinn það vera vel mögulegt. Kvaðst hann þó telja að alvarlegustu áverkarnir af spörkum hefðu hugsanlega verið á öxl en vissulega á höfði einnig. Taldi hann að blæðingar í mjúkvef handleggsins hefðu verið það miklar að þær gætu ekki hafa orsakast af því einu að stigið hefði verið á hann. Hins vegar væri alltaf hægt að velta fyrir sér hvenær um væri að ræða spark og hvenær stigið væri harkalega eða trampað ofan á viðkomandi. Það sama gilti einnig um höfuðið en hvað það varðaði þá væru einnig á því aðrar skýringar. Hinn látni hefði þannig orðið fyrir þungu hnefahöggi auk þess að hafa fallið í gólfið, en því til viðbótar hefði verið þrýst mjög kröftuglega á háls hans, að gólfinu. Spurður hvort það að sparkað hefði verið í höfuð mannsins eða stigið á það hefði geta valdið slíkum áverkum sem raun beri vitni svaraði matsmaður að sérhver kraftur sem gæti valdið þeirri hröðun eða afhröðun í höfuðkúpunni sem leiði til rofs á brúaræðunum gæti verið orsakavaldur fyrir slíkum höfuðáverkum. Vitnið taldi fyrirliggjandi krufningarskýrslu vera mjög vel unna í alla staði. Eina sem skildi á milli þeirra niðurstaðna sem þar kæmu fram og niðurstaðna hans sjálfs væru aðeins mismunandi skoðanir um blæðinguna í heilastofni. Spurður hvort að staðist gæti sá framburður Rimvydasar að hann hefði einungis gripið um hálsinn á manninum og hent honum niður með auknum þunga auk þess að slá hann í höfuðið kvað matsmaður ljóst að hinn látni hefði verið með áverka á hálsi sem gætu verið eftir slíkt handgrip. Þá hefði hann verið með áverka yfir vinstri augabrún sem að hans mati hefðu hlotist af miklu höggi, hugsanlega eftir hnefa en gætu einnig hafa verið eftir spark.

Matsmaður var spurður hvort leikmaður hefði átt að geta áttað sig á að maður með slík sýnileg meiðsli, sem hinn látni hefði haft, væri í lífshættu. Taldi vitnið að slíkt hlyti ávallt að metast eftir aðstæðum hverju sinni, hvort viðkomandi hefði orðið vitni að þeim höggum sem maðurinn varð fyrir og til dæmis hversu mikið hefði blætt úr honum. Ef viðkomandi hefði orðið vitni að þeim átökum sem þarna hlytu að hafa orðið miðað við áverkana þá hefði hann átt að átta sig á alvarleika málsins. Kvaðst matsmaður hafa ráðfært sig við norska starfsfélaga sína og hafi þeir verið sammála um að mögulega hefði verið hægt að bjarga manninum ef strax hefði verið leitað eftir aðstoð. Ekkert væri þó víst í þeim efnum. Vitnið taldi að mikið alkóhólmagn í blóði gæti almennt séð haft áhrif á blóðstreymi og eins gæti það haft áhrif á vöðvastarfsemi, en í þessu tilviki væri ljóst að þær blæðingar inn á heilann sem um ræddi væru svo miklar að slíkt hefði hér vart einhverja afgerandi þýðingu. Loks kom fram hjá vitninu að mar eins og til dæmis glóðarauga kæmi ekki samstundis eftir högg heldur gæti það tekið einhvern tíma að myndast. Ef maður dæi strax eftir högg í andlit þá væri ekki víst að slíkt mar kæmi fram.

IV.

Ákærði Rimvydas skýrði frá því að hann og meðákærða AU hefðu umrætt kvöld fengið meðákærðu X og D í heimsókn til sín, ásamt litlum syni þeirra. Hefði A einnig komið með þeim og hefði tilefnið verið afmæli ákærða þennan dag. Hefðu þau hafið drykkju og á ákveðnum tímapunkti um kvöldið hefðu þau X og D farið með drenginn út til að svæfa hann en þeir A þá tekið tal saman. Hefði talið meðal annars borist að launum ákærða, því að hann hefði eignast tölvu og einnig bíl sem hann væri að vísu enn að borga af. Hefðu þeir síðan skoðað bílinn. Tók ákærði fram í þessu sambandi að nokkru áður hefðu þau hitt A heima hjá þeim X og D og þá hefðu þau AU boðist til að hjálpa honum við að fá vinnu og jafnvel að hann fengi að dvelja á heimili þeirra. Þau X og D hefðu svo komið til baka með barnið sofandi og þau þá öll farið aftur inn í húsið til að halda veislunni áfram. Nóg hefði verið til af sterku áfengi og bjór og hefðu þau setið við drykkju og hlustað á tónlist í framhaldi. Einhvern tíma um kvöldið hefðu þeir A setið og spjallað saman inni í svokölluðu reykingaherbergi. Hefði A kveikt sér í sígarettu og síðan spurt hann hvort hann greiddi ekki einhverjum verndarpeninga með hliðsjón af því að hann aflaði góðra tekna og hefði t.d. efni á að eiga bíl. Þegar ákærði hefði neitað því og sagt að hann myndi aldrei gera það hefði A hins vegar sagt að hann kæmist ekki hjá því. Sagðist ákærði hafa við það orðið mjög óstyrkur og spurt A háum rómi hvers vegna hann ætti að greiða slíka peninga þar sem þetta væru hans eigin peningar sem hann sjálfur hefði aflað. Hefðu þessar samræður þeirra orðið sífellt háværari þar til ákærði kvaðst allt í einu hafa misst stjórn á skapi sínu og slegið A þungt högg vinstra megin í andlitið þar sem hann hefði setið á stól fyrir framan hann. Hefð A við það fallið til hliðar af stólnum og kvaðst ákærði telja að hann hafi lent með höfuðið í gólfið. Í því hefði A komið hlaupandi inn í reykherbergið til að sjá hvað væri að gerast. A hefði hins vegar bætt við ógnandi röddu: „Við skulum sjá til.“ Hefði AU farið að sinna áverkum sem A fékk við þetta og sagði ákærði jafnframt að AU og D hefðu náð að koma í veg fyrir að hann réðist aftur á A. Í framhaldi kvaðst ákærði hafa farið inn í eldhús til að sinna matarmálum, skera niður brauð og eitthvað þessháttar, og verið „mjög óstyrkur“ og myndi hann þetta því ekki nákvæmlega. Hefði hann farið með mat inn í stofu og A þá setið þar við borðið. Kvaðst ákærði einnig hafa sest þar, beint á móti A, og hafi innan við metersfjarlægð verið á milli þeirra. Búið hefði verið að hella þar snafs í glas fyrir hann sem hann hefði drukkið. Spurður hverjir hefðu setið við borðið taldi hann að alla vega X hefði setið þar. Hefði snafsinn svo gengið hringinn og hefði A þar á meðal fengið sér snafs. A hefði svo skálað í snafsinum og sagt: „Einhvern einn góðan veðurdag þá gæti ég nauðgað vinkonu þinni. Og ég mun gera það einn góðan veðurdag.“ Kvaðst ákærði þá hafa orðið mjög reiður, stokkið á fætur og slegið A þungt högg framan á hálsinn. Hefði A við það nánast tekist á loft og svo fallið harkalega með ennið á gólfið. A hefði svo reynt að standa á fætur til að ráðast á ákærða en ákærði þá haldið honum niðri með því að stíga nokkuð harkalega á brjóstkassa hans. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa trampað á A eða sparkað í hann, en verið gæti að fótur hans hefði eitthvað runnið til á honum vegna þungra högga sem A hefði slegið hann í fótinn. Spurður hvort fótur hans hefði eitthvað lent á höfði A sagði ákærði að hann teldi það ekki vera en hann gæti þó ekki fullyrt um það. Aðspurður um áverka á A og skýringu á því að blóðdropar hefðu fundist sem slettur á sjónvarpi og á gólfi sagðist ákærði telja að A hefði verið með skurð á enni og ef til vill aftan á hnakka. Örlítið hefði blætt úr honum og gæti blóðið hafa slest við það að A féll í gólfið og rúllaði eftir því.

Ákærði kvaðst ekki vita með vissu hversu lengi A lá í gólfinu en þegar hann róaðist hefði ákærði stigið yfir hann og farið inn í reykherbergið. Lýsti ákærði því að hann hefði í umrætt sinn verið í leðurtöfflum, eins konar inniskóm, og staðfesti að þær væru hinar sömu og sýndar eru á ljósmynd í rannsóknargögnum. Kvaðst hann enga skýringu geta gefið á því blóði sem greinst hefði undir sóla og framan á honum aðra en þá að hann hefði annaðhvort stigið í blóð á gólfinu þar sem A lá í stofunni eða á gólfinu í reykherberginu eftir fyrra atvikið. Spurður út í skó með tveimur gráum röndum á hlið, sem sýndir eru á ljósmynd í rannsóknargögnum og fyrir liggur að bornir voru saman við áverka á enni hins látna í líkhúsi, neitaði ákærði því að þetta væru hans skór. Kvaðst hann ekkert kannast við þá og að hann hefði ekki verið í þeim umrætt kvöld. Auk þess að hafa verið í inniskónum hefði hann brugðið sér í íþróttaskó þegar hann hefði farið út úr húsinu. Kvaðst hann reyndar vera í þeim skóm. Sýndi hann skóna í réttinum og reyndust það vera aðrir skór en þeir sem lögreglan tók í sína vörslu og ljósmyndir liggja fyrir af í rannsóknargögnum.

Eftir atvikið inni í stofunni kvaðst ákærði hafa farið aftur inn í reykherbergið og fengið sér sígarettu. Þegar hann sneri til baka hefði A legið í sófanum en ákærði kvaðst ekki vita hvernig hann komst þangað. Eftir þetta hefðu þau haldið eitthvað áfram drykkju. Á einhverjum tímapunkti hefði A farið inn á snyrtinguna og kastað þar upp, komið svo til baka og lagst á ný í sófann. Sagðist ákærði síðar um kvöldið hafa sest við fætur hans í sófanum og þá heyrt hryglukennt hljóð koma frá honum. Hefði ákærði þá hjálpað honum að setjast upp. A hefði svo lagst í sófann að nýju og hljóðin þá ekki heyrst meir. Kom fram hjá ákærða að hann hefði á þessum tímapunkti nefnt það hvort rétt væri að leita eftir aðstoð vegna ástandsins á A. Einhver úr hópnum hefði þá svarað, hann myndi ekki hver, að engin ástæða væri til þess. Þau skyldu bara fara að sofa og sjá svo til. Mikið hefði blætt úr augabrún A og kvaðst ákærði eitthvað hafa reynt að hreinsa það. Auk hans hefði AU komið að því verki. Sagði ákærði að eftir þetta hefðu þau hin dansað eitthvað stutt áfram en síðan farið að sofa.

Ákærði kvaðst hafa vaknað líklega um kl. 8 um morguninn og þá farið til að huga að því hvernig A liði. Hefði hann tekið eftir að A var ískaldur og andaði ekki. Kvaðst hann þá hafa skynjað að A væri látinn. Hefði hann sagt AU frá þessu. Hefði hún ekki trúað þessu og athugað með púls A og þá komist að raun um að hann væri ekki með púls. Hefði hún þá orðið mjög hrædd. Hefðu þau vakið X og D sem hefðu orðið skelfingu lostin eins og þau öll. Þar sem lítið barn var á staðnum hefði niðurstaðan orðið sú að X færi með barnið á brott. Þegar hann var farinn kvaðst ákærði hafa hringt til lögreglu.

Aðspurður hver hefði verið staddur í stofunni með honum og A þegar atvikið í stofunni átti sér stað svaraði ákærði því til að hann myndi það ekki með vissu en hann héldi að það hefði verið X. Spurður nokkru síðar að því hvort X hefði verið staddur nálægt þegar atvikið í stofunni gerðist sagðist ákærði ekki hafa orðið var við það. Þá myndi hann heldur ekki hvenær hann hefði fyrst séð þær AU og D eftir að það var yfirstaðið. Hann kvaðst hins vegar hafa séð AU setja plástur á sárið á augabrún A. Um það hvort blóð hefði verið hreinsað af gólfum í íbúðinni sagðist ákærði ekki vita um það. Þá kvaðst hann aðspurður ekki kunna neina skýringu á þeim framburði X hjá lögreglu að ákærði hefði sparkað í A, aðra en þá að X hefði séð fótahreyfingu ákærða þegar fótur hans rann af A og ákærði setti fótinn aftur á hann. Kynni X þá að hafa túlkað þetta sem svo að ákærði hefði sparkað í hann.

Ákærði kvaðst aðspurður af verjanda sínum hafa ástæðu til að ætla að A hafi tengst mafíu í Litháen. Til að skýra það frekar lýsti ákærði því fyrir réttinum  að hann hefði fyrst komið til Íslands og dvalið hér í um fimm mánuði. Hefði hann þá fengið kröfu um það, bæði með sms-skilaboðum og síðan einnig símtölum, að hann borgaði 10.000 lita (litháíski gjaldmiðillinn) en að öðrum kosti gæti hann búist við að eitthvað kæmi fyrir þáverandi sambýliskonu hans í Litháen og móður hans eða að kveikt yrði í húsinu hans. Kvaðst hann loks hafa fallist á þetta en þegar hann hefði snúið til baka til Litháen hefði hann einungis getað greitt 5.000 lita. Þremur dögum síðar hefði hann svo lent í bílslysi í Litháen og þurft að vera á sjúkrahúsi í þrjá mánuði á eftir. Eftir að hann útskrifaðist þaðan hefði hann alltaf átt von á símtölum frá þessum aðilum vegna eftirstöðva greiðslunnar en þeir hefðu aldrei hringt. Kvaðst ákærði hafa fljótlega í kjölfarið farið á ný til Íslands til að vinna og eftir að hafa verið þar í um einn mánuð hefði hann fengið símhringingar á ný frá Litháen. Hefðu þessir sömu aðilar þá krafist þess að hann kæmi aftur þangað og greiddi upp skuldina. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa sinnt þessu og ýtt því frá sér. Að liðnum tveimur mánuðum þaðan í frá kvaðst ákærði svo hafa fengið fréttir af því frá Litháen að fyrrverandi sambýliskonu hans hefði verið nauðgað. Aðspurður kvaðst ákærði með hliðsjón af þessari atburðarás allri hafa ástæðu til að ætla að A gæti hafa tengst einhvers konar mafíu. Þá hefði A búið hjá honum um tíma og meðal annars vitað heimilisfang hans.

Ákærða AU lýsti því að þau sem í samkvæminu voru hefðu skemmt sér og á einhverjum tímapunkti hefðu þau farið inn í reykherbergið. Rimvydas og A hefðu orðið eftir þar inni. Þegar Rimvydas hefði komið þaðan út á ný kvaðst ákærða hafa farið þar inn aftur. Kvaðst hún hafa hitt A á ganginum og tekið eftir að það blæddi úr augabrún hans. Hefðu þau X svo hugað að þessum meiðslum hans. Kvaðst hún hafa hreinsað blóðið úr andliti hans og sett plástur á sárið við augabrúnina. Hefði henni ekki verið sagt í neinum smáatriðum hvað gerst hefði, einungis að A hefði verið kýldur fyrir að viðhafa ákveðin orð um mánaðargreiðslur. Er ákærða var spurð nokkru síðar hvort A hefði getað gengið úr reykherberginu án vandræða svaraði hún því játandi og að eftir að þau hefðu hugað að augabrún hans hefðu þau A farið saman út úr reykherberginu. Að því loknu hafi þau farið á ný inn í stofu til að skemmta sér.

Nokkru síðar hefði hún svo farið aftur inn í reykherbergið og reykt þar eina sígarettu. Þegar hún svo kom til baka inn í stofu hefði A legið þar á gólfinu, líklega á hliðinni. Sagði hún eina sjáanlega áverkann á honum hafa verið skurðinn á augabrúninni. Hefði plásturinn þá verið orðinn laus frá sárinu og því hefði blætt. Hefði blóðblettur myndast á gólfinu við höfuð A. Lýsti hún því nánar svo að það hefði verið: „Ekki mjög mikið, það var svolítið blóð þó.“ Lýsti ákærða stærð blóðblettsins með höndunum þannig að þvermál hans hefði verið um 15 cm. Hún og D hefðu svo aðstoðað A að komast í sófann. Áður kvaðst hún hafa hjálpað honum að klæða sig úr bolnum svo hún gæti þvegið úr honum blóðið. Er sækjandi benti henni á að hún hefði ekki munað eftir því hjá lögreglu hvort hún hefði klætt A úr bolnum áður en hann lagðist í sófann eða á eftir þá sagðist hún muna þetta betur nú. Kvaðst hún telja að A hafi þá verið með meðvitund því hann hefði muldrað eitthvað, reynt að segja þeim eitthvað. Þær hefðu þó ekkert athugað A sérstaklega þarna á gólfinu. Sagði hún A hafa getað staðið í fæturna og hefði hann sjálfur lagst í sófann með þeirra aðstoð. Nánar spurð hvort hann hefði notað sínar eigin fætur og verið með meðvitund kvaðst hún ekki vera fullviss um það. Þá kom og fram hjá henni að heyrst hefðu hljóð frá A þegar þær voru að lyfta honum frá gólfinu og hefðu þau líkst hrotum sem heyrðust frá fólki, sérstaklega drukknu fólki, sem sé við það að falla í svefn. Engin slík hljóð hefðu hins vegar heyrst eftir að hann var lagstur í sófann. Spurð hvort hún hefði ekki hugað að meiðslum A eftir að hann kom í sófann kvaðst hún ekki minnast þess en þó hefði hún líklega sett á hann plástur þarna fyrst á eftir. Hún hefði hins vegar ekkert hugað að honum frekar þar til þau fóru að sofa. Aðspurð hvort ekki hefði verið ástæða til þess í ljósi áverka og blóðs á A sagðist ákærða ekki hafa neitt heyrt um að eitthvað hefði gerst þarna í stofunni til viðbótar við það sem gerst hefði í reykherberginu. Þá hefði enginn sjáanlegur munur verið á meiðslum hans, einungis meira blóð. Kvaðst hún hafa staðið í þeirri trú að hann hefði einungis dottið út vegna áfengisneyslu. Spurð hvort eitthvað hefði verið rætt um að kalla eftir læknisaðstoð sagðist hún ekki minnast þess að um slíkt hefði verið rætt þá en hins vegar kvaðst hún hafa spurt A að því eftir fyrra atvikið, inni í reykherberginu, og þá hefði hann stoppað hana af. Hefði hann sagst hafa séð það verra, þetta væri ekkert. Er ákærða var spurð hver hefði þrifið upp blóð á gólfinu í bústaðnum svaraði hún því svo: „Já, það kann að hafa verið ég sem gerði það.“

Þegar þau vöknuðu morguninn eftir kvaðst ákærða hafa komið við andlit A og hefði það þá verið kalt. Hefði hún og reynt að finna einhver merki um púls hjá honum. Henni hefði hins vegar ekki þótt sem stirðnun væri komin í líkama hans.

Ákærði X lýsti atvikum svo að nokkrum klukkustundum eftir að þau hefðu borðað saman, drukkið og dansað hefði hann orðið var við einhver hljóð innan úr reykherberginu. Kvaðst hann hafa farið til að athuga málið og hitt þar A og spurt hann hvað hefði gerst. Hefði A þá svarað um hæl og sagt: „Það er allt í fínu, þetta er allt ókey núna.“ Þar sem blætt hefði úr augabrún A kvaðst ákærði hafa farið út í bíl til að ná þar í sjúkrakassa og hefðu hann og AU sett plástur á sár A. Lýsir ákærði áverkunum á A svo að fyrst og fremst hafi verið um að ræða skurð við augabrún en einnig einhverja marbletti. Einnig fyndist honum eins og vörin hafi verið bólgin og jafnvel eilítil blæðing í  vinstra munnviki.

Eftir atvikið í reykherberginu hefðu þau sest aftur við borðið, borðað, drukkið, dansað og spjallað saman. Hefði A tekið fullan þátt í því. Líklega um einum og hálfum tíma síðar hefðu þeir svo setið saman í sófanum í stofunni ákærði Rimvydas og A. AU hefði þá annað hvort verið að fá sér að reykja eða verið á snyrtingunni en D hefði líklega verið inni í herbergi hjá barninu. A hefði verið orðinn mjög drukkinn en þó alveg getað gengið. Hefðu A og Rimvydas deilt um eitthvað varðandi verndarpeninga en ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa heyrt AU nefnda í því samtali. Kvaðst ákærði hafa setið í miðjunni á milli þeirra. Skyndilega hefði Rimvydas þá rokið í A, yfir lærin á ákærða, og dregið A í gólfið með því að grípa harkalega í hálsmálið á fötum hans. Við þetta hefði Rimvydas rekist fyrir slysni í tönn í munni ákærða. Hefði þetta allt gerst mjög hratt, á nokkrum sekúndum. Kvaðst hann ekki hafa séð greinilega hvernig A lenti á gólfinu þar sem bakið á stólnum á móti hefði hindrað honum sýn, auk þess sem hann hefði verið að huga að því hvort tennurnar í honum væru í lagi. Rimvydas hefði bölvað mjög mikið og notað fætur sína til að halda A á gólfinu. Þegar ákærði var beðinn um að lýsa því nákvæmlega sagði hann: „Ég sá hvar hann hélt honum niðri með fætinum, ég sá hvar fóturinn lyftist af og til og var síðan þrýst niður aftur, ég sá hins vegar ekki hvar fóturinn lenti á líkama A.“ Ákærði neitaði aðspurður að hafa sagt við yfirheyrslur hjá lögreglu að Rimvydas hefði sparkað í A, heldur hefði hann talað um að hann hefði barið hann. Spurður nánar út í hvað gerðist sagði ákærði: „... þá sá ég ekki Rimvydas sparka af einhverju afli í A, ég sá einungis þar sem að fóturinn á honum fór upp og niður til að halda A á gólfinu.“ Spurður hvort verið gæti að Rimvydas hefði trampað á A svaraði ákærði: „Ég veit það ekki.“

Ákærði kvaðst hafa staðið upp, en hann myndi ekki hvernig þetta hefði gengið fyrir sig lið fyrir lið. En þeir Rimvydas hefðu báðir farið út. Hvert hann fór myndi hann ekki, hugsanlega út eða á snyrtingu, en þegar hann hefði á ný komið inn í stofuna hefðu þær AU og D verið að bera A í sófann. Hefði hann ekki getað gengið heldur hefðu þær haldið undir sitthvora öxlina á honum. Taldi hann sig þá hafa farið og náð í sjúkrakassann. Hefði A legið á bakinu í sófanum, með hnén kreppt. Hann hefði andað en engin hljóð hefðu heyrst frá honum. Kvaðst hann ekki hafa tekið eftir að áverkar á A hefðu aukist en að blæðing úr sárinu á augabrúninni hefði verið meiri. Kannaðist hann aðspurður við þá lýsingu sem hann gaf í yfirheyrslu hjá lögreglu á útliti A að hann hefði litið mjög illa út. Þegar ákærði var spurður hvort ekki hefði hvarflað að honum að A væri meðvitundarlaus neitaði hann því enda hefði hann einungis litið svo á að hann væri drukkinn. Hann hefði umgengist A í þrjú og hálft ár áður en þetta kom upp og vissi hann því vel um drykkjuvenjur hans. Ákærði sagði AU hafa hugað að meiðslum A, hreinsað blóðið og skipt um plástur eða plástra. Kvaðst hann ekki vita hvort Rimvydas eða D hefðu eitthvað hugað að ástandi A. Í kjölfarið hefðu þau fjögur síðan fengið sér einhverja snafsa og fljótlega þar á eftir, kannski að liðnum tíu til fimmtán mínútum, hafi þau svo farið að sofa. Kannaðist ákærði ekki við að þau hefðu dansað á þeim tíma. Hann hefði svo komist að því um áttaleytið morguninn eftir að A væri látinn. Þau hefðu þá séð fyrir sér að þarna á staðinn kæmu margir lögreglumenn  og hefðu þau því ákveðið að hann færi með barnið af vettvangi.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa tekið eftir því að A færi á salerni og kastaði upp um nóttina. Ákærða var sýnd ljósmynd sem liggur fyrir í gögnum málsins, en hún kom í ljós á minniskorti úr myndavél sem fannst í leikfangabangsa barns hans og D. Sýnir myndin A liggjandi í sófanum og staðfesti ákærði að ljósmyndin sýndi ástandið á A þegar þau fóru að sofa um nóttina. Kvaðst hann sjálfur hafa tekið myndina og hefði ástæða myndatökunnar hugsanlega verið sú að hann vildi að A sæi sjálfur þegar af honum rynni hvernig hann liti út þegar hann væri fullur. Ákærði minntist þess ekki að einhver hefði rætt um nóttina hvort rétt væri að kalla á læknisaðstoð.

Ákærða D skýrði frá því að eftir að eitthvað var liðið á kvöldið hefðu Rimvydas, AU og A farið inn í reykherbergið til að fá sér að reykja. Sjálf hefði hún ekki farið með þeim vegna þess að hún reykti ekki og X eiginmaður hennar hefði verið með henni. Rimvydas hefði svo komið fyrstur út þaðan aftur og sagt frá því A hefði viljað krefja hann um einhvers konar þóknun. Hefði A svo komið út úr herberginu með skurð við augabrún. Náð hefði þá verið í sjúkrakassa út í bíl og AU síðan hreinsað sárið og sett á það plástur. Eftir það hefðu þau setið og spjallað saman. Hún hefði þó nokkru seinna farið inn á snyrtingu til að fjarlægja af sér andlitsmálningu til að undirbúa sig undir að fara í rúmið en þegar hún hefði snúið til baka hefði hún séð aftan á Rymvidas. Hefði hann bölvað mikið og talað reiðilega til A sem hefði þá legið á gólfinu. Kvaðst vitnið þó ekki muna hvað þar var sagt. Enginn hefði hins vegar sagt henni frá því að átök hefðu orðið og hefði hún ekki getað áttað sig á aðstæðum. Sjálf kvaðst hún einskis hafa spurt því hún hefði fundið að einhver spenna var í loftinu. Þannig hefði Rimvydas verið æstur, pirraður og reiður. Hefðu þær AU síðan hjálpast að við að færa A yfir í sófann með því að taka undir sitt hvorn handlegg hans. Aðspurð sagði hún hringlaga blóðblett, ekki mjög stóran, hafa verið á gólfinu. Sagðist hún ekki hafa talað við A og hann hefði heldur ekkert sagt. Kvaðst hún telja að hann hefði verið með meðvitund, enda hvorki verið bláleitur né kaldur. Þá hefði hann ekki virkað eins og hann myndi falla eftir að þær  reistu hann við. Spurð hvort A hefði eitthvað hjálpað til með því að beita eigin vöðvaafli kvaðst vitnið ekki muna það nákvæmlega en maðurinn hefði verið fíngerður og léttur. Ítrekað spurð um þetta taldi hún að A hefði ekki dregið fæturna. Hann hefði alla vega virst mjög drukkinn. Sagði hún A hafa verið með skurð við augabrún og að honum hefði blætt en vissi þó ekki hvaðan blóðið kom. Kvaðst hún ekki hafa heyrt neitt torkennilegt hljóð koma frá honum og hún hefði ekki athugað sjálf neitt sérstaklega með hann þar sem hún hefði talið að hann væri eingöngu ofurölvi. AU hefði hins vegar eitthvað hlúð að honum og meðal annars klætt hann úr bolnum og sett hann undir höfuð hans. Minntist vitnið þess ekki að rætt hefði verið um það, hvorki á þessum tímapunkti né fyrr, að kalla á læknishjálp.

Eftir þetta kvaðst vitnið muna atburði svo að hún hefði farið mjög fljótlega að sofa. Hugsanlega hefði eitthvað verið spjallað stutt þar á eftir en enginn hefði dansað. „Það liggur þarna manneskja í sófa, hver getur dansað?“ Vitninu var sýnd ljósmynd af A liggjandi í sófanum og staðfesti vitnið að hann hefði litið eins út þegar hún fór að sofa að öðru leyti en því að hún kvaðst ekki minnast þess að hafa séð merki þess að hann hefði misst þvag í buxur sínar eins og ljósmyndin virtist sína. Vitnið kvaðst hafa vaknað morguninn eftir við einhver hljóð fyrir utan herbergisdyrnar. Hefði hún þá farið fram og hitt þar Rimvydas og AU og hafi þau þá sagt henni að A væri dáinn. Í fyrstu hefði hún ekki trúað þessu en þau þá sagt henni að það væri sannarlega raunin. Kvaðst hún sjálf ekkert hafa athugað með A. Þegar þetta hefði legið fyrir hefði X farið heim til þeirra með barnið. Eftir það  hefðu þau hringt og óskað eftir sjúkrabíl og lögreglu. Á meðan þau biðu hefði henni virst Rimvydas líða mjög illa en hann hefði þó sagt fátt.

Aðspurð lýsti D því að A hefði starfað með X og hefði hún kynnst honum í gegnum það. Hefði hún meðal annars heimsótt hann á heimili hans í nokkur skipti. Hefði hann allt frá því að þau kynntust honum fyrst drukkið mjög mikið og hefði það að lokum leitt til þess að hann hefði misst vinnuna. Í síðustu heimsókn þeirra til hans hefði hann orðið svo ofurölvi að hann hefði legið rænulaus og einhver vökvi runnið upp úr honum án þess að hann gerði sér nokkra grein fyrir því.

V.

Davíð Ómar Gunnarsson og Ágúst Rafn Einarsson lögreglumenn lýstu komu sinni á vettvang og frásögn ákærða Rimvydasar af því sem gerst hefði á svipaðan hátt og segir í frumskýrslu og að ofan er lýst. Eftirtektarvert hefði verið hversu yfirveguð og róleg ákærðu hefðu virst, miðað við að látinn maður lægi þar uppi í sófa. Ekkert blóð hefði sést eða önnur ummerki eftir átök. Hefði þeim þótt þetta sérkennilegt miðað við þá áverka sem augljóslega hefðu verið á hinum látna.

Elís Kjartansson lögreglumaður kvaðst hafa stjórnað rannsókn málsins og séð um margar af þeim yfirheyrslum sem fram fóru yfir ákærðu. Sagði hann að svo hefði virst í byrjun sem þau hefðu einungis viljað lýsa því sem gerðist inni í reykherberginu en þegar þeim hefði orðið ljóst að lögreglan legði ekki trúnað á þá frásögn eins og hún kom fyrir hefðu þau einnig lýst þeim atvikum sem áttu að hafa gerst inni í stofunni. Eftir það hefði framburður þeirra að hans mati virkað mjög trúverðugur. Fram kom hjá vitninu að engar myndir hefðu fundist á myndkortunum í þeim myndavélum sem fundust á vettvangi. Hins vegar hefði stuttu síðar borist tilkynning frá Barnavernd Kópavogs, sem tekið hefði barn þeirra X og D í sína umsjá, um að fundist hefði myndkort í  bangsa barnsins. Hefði þar síðan reynst vera mynd af hinum látna. Varðandi sviðsetningu atburða á vettvangi taldi vitnið að hún hefði að mestu leyti verið í samræmi við framburð ákærðu. Spurður um skófatnað ákærða Rimvydasar sagði vitnið í fyrstu að hald hefði verið lagt á skó sem hann hefði verið í við handtöku. Hefðu þeir svo verið sendir til tæknideildar og í framhaldi hefði verið gerð athugun í líkhúsi í þeim tilgangi að kanna hvort áverkafar á andliti hins látna gæti passað við skóinn. Sjálfur hefði hann ekki verið viðstaddur þá athugun en Björgvin hjá tæknideild hefði sýnt sér í framhaldi að það far gæti verið eftir umræddan skó. Vitnið sagði svo að hann væri ekki viss um hvort ákærði hefði verið handtekinn í umræddum skóm, sem hefðu verið svartir íþróttaskór, eða hvort hann hefði þá verið í inniskóm og að lögreglan hefði fengið þá senda til sín eftir á. Í framhaldi þessa var vitninu sýnd mynd úr rannsóknargögnum af svörtum skóm með tveimur gráum röndum, óreimuðum, og kvað hann það vera skóna sem athugaðir hefðu verið í líkhúsinu með tilliti til áverkanna á hinum látna.

Gylfi Haraldsson læknir kvaðst hafa komið á vettvang rétt fyrir kl. 9 að morgni. Hefði maður þá legið í sófa í stofunni og hefði vitnið talið greinilegt að hann hefði látist fyrir líklega nokkrum klukkustundum. Hefði maðurinn verið með töluverða áverka á höfði. Glóðarauga vinstra megin og augað sokkið, meiri áverka hægra megin frá kjálka og upp á höfuð, og á vinstra eyra. Ekki að sjá áverkamerki á brjóstkassa. Skynjaði að hálsliður hefði farið í sundur. Líkið hafi eitthvað verið farið að kólna. Hefðu því líklega liðið nokkrar klukkustundir í mesta lagi frá andláti.

Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður, sem aflað hefur sér sérþekkingar á því rannsóknarsviði sem hér um ræðir, ritaði skýrslu, dagsetta 28. nóvember 2008. Kemur fram í henni að leitað hafi verið að ummerkjum um átök inni í íbúðinni. Í suðurhluta stofunnar hafi verið nokkrir blóðblettir sjáanlegir, á utanverðum sjónvarpsskápnum og neðstu hillu hans og á gólfinu vestan við sjónvarpsskápinn. Þá hafi ummerki um þrif á stofugólfinu verið sjáanleg framan við nefndan sjónvarpsskáp, sem útskýri hversu fáir blóðblettir hafi fundist á gólfinu. Sjónvarpsskápurinn hafi mælst 54 sm á hæð, 38 sm að breidd og 50 sm að  dýpt. Þá segir svo í samantekt skýrslunnar:

„Einu ummerkin um að manneskju hafi blætt í íbúðinni eru í stofunni, en ummerkin eru tvenns konar, þ.e. annars vegar nokkrir sjáanlegir blóðblettir sem eru einkennandi fyrir blóðbletti sem framkallast þegar krafti hefur verið beitt, s.s. með höggum og spörkum. Hins vegar eru ummerki um að blóð hafi verið þrifið upp, kom í ljós þegar Luminol vökva var sprautað yfir stofugólfið þar sem reynt hefur verið að afmá ummerki um blæðingu. Látni, A, bar áverka sem blætt hefur úr, þ.e. tvo litla skurði ofan og við vinstra auga. Lögun og dreifing ofangreinda blóðbletta er í rökréttu samhengi við að höfuð látna hafi hvílt á gólfinu nálægt sjónvarpsskáp í stofunni þegar látni hlaut högg og spörk í höfuðið. Áfallshorn blóðbletta er á bilinu 19,26° til 30° sem er í samræmi við mælingar á höfði látna sem er upprunastaður blóðferlanna. Þá eru blóðblettirnir einnig í rökréttu samhengi við áverka þá sem látni bar, þ.e. opið sár við vinstra auga og blæðingar í heila.

Að lokum ber að taka tillit til frásagnar X við sviðsetningu atburða þann 26.11.2008, en X staðsetti látna á þeim stað þar sem blóðblettir fundust og að grunaði Rimvydas hafi sparkað eða trampað á höfði látna a.m.k. tvisvar sinnum.

Það er mat rannsóknara að A hafi látist í stofu íbúðarinnar eftir að hafa fengið þar þung högg í höfuðið af manna völdum.“

Ragnar kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti rannsókn sína. Hann skýrði grundvallaratriði blóðferladreifingar og sagði blóðblettina á vettvangi hafa verið nokkurn veginn einkennandi fyrir meðalhröð og meðalþung högg. Benti það til þess að afli hefði verið beitt. Högg á höfuð sem hlytist af falli viðkomandi til jarðar nægði ekki til að mynda slíka bletti. Tók hann og fram varðandi viðmiðanir sem horft væri til við kraft högga eða atvika að hnefahögg og löðrungar teldust vera veitt með litlum krafti, spörk og tramp með meðalkrafti en loks væri talað um æðri kraft og væri þá átt við undir blóðspýtingu sem væri eins og mistur sem gætir þá t.d. komið þegar byssukúla hæfi mann eða menn yrðu fyrir kraftmiklu tæki eins og t.d. flugvélahreyfli. Þá sagði hann að magn þeirra blóðbletta sem fundist hefðu í stofunni hefði ekki verið það mikið að hægt væri að fullyrða með óyggjandi hætti að þeir hefðu myndast við að hinn látni hlaut högg eða spörk í höfuðið þar sem hann lá á gólfinu nálægt sjónvarpsskápnum. Ef hins vegar einnig væri í þessu sambandi horft til niðurstöðu Luminol-rannsóknarinnar um að blóð hefði verið hreinsað þar upp úr gólfinu, og eins fyrirliggjandi framburðar og uppstillingar ákærða Rimvidasar á vettvangi, styddi þetta allt hvað annað og leiddi til þessarar niðurstöðu.

VI.

Niðurstöður

Ákæruliður 1

Ákærði Rimvydas neitar sök. Hann hefur þó kannast við að hafa slegið A hnefahöggi í höfuðið svo hann féll í gólfið. Hafi þetta átt sér stað í svokölluðu reykherbergi hússins. Skömmu síðar, er þeir voru staddir inni í stofu, hafi hann gripið um A og ýtt honum svo hann féll á gólfið, af stól sem hann sat á. Ákærði neitar hins vegar að hafa ítrekað sparkað í höfuð A. Hann hefur nánar lýst seinna atvikinu svo fyrir dómi að hann hafi slegið A þungt högg framan á hálsinn og hafi A við það nánast tekist á loft og svo fallið harkalega með ennið á gólfið. A hafi svo reynt að standa á fætur til að ráðast á ákærða en ákærði þá haldið honum niðri með því að stíga nokkuð harkalega á brjóstkassa hans. Gæti verið að fótur hans hefði eitthvað runnið til á honum vegna þungra högga sem A hefði slegið hann í fótinn. Spurður hvort fótur hans hefði eitthvað lent á höfði A sagði ákærði að hann teldi það ekki vera en hann gæti þó ekki fullyrt um það. Fram kom hjá ákærða að X hefði einnig setið við borðið með þeim A þegar seinni atlaga hans að A átti sér stað.

Þegar X var yfirheyrður um atvik hjá lögreglu í fyrstu yfirheyrslunum kom ekkert fram hjá honum um það, frekar hjá hinum ákærðu, að einhver átök hefðu átt sér stað í stofunni. Í yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 19. nóvember 2008 skýrði hann síðan frá því að hann hefði setið með ákærða Rimvydas og A við borð í stofunni þegar Rimvydas hefði snöggreiðst, rokið á A og skellt honum í gólfið. Lýsti hann því svo að Rimvydas hefði sparkað í höfuðið á A. Hefði þetta allt gerst mjög hratt og hefði hann sparkað „alla vega tvisvar. Ég get ekkert treyst mér að nefna hvað mörgum sinnum var sparkað í hann en það var sparkað í hann.“ Við sviðsetningu sem fram fór 26. nóvember sl. lýsti X því svo á brotavettvangi hvernig Rimvydas hefði beitt fótum gagnvart höfði A. Verður af myndupptöku ráðið að um eins konar tramp hafi verið að ræða. Er X var spurður um þetta atvik við aðalmeðferð málsins dró hann nokkuð í land með fyrri lýsingar á atburðinum. Neitaði hann þá að hafa sagt hjá lögreglu að Rimvydas hefði sparkað í A heldur hefði hann talað um að hann hefði barið hann. Sagði hann þá: „Ég sá hvar hann hélt honum niðri með fætinum, ég sá hvar fóturinn lyftist af og til og var síðan þrýst niður aftur, ég sá hins vegar ekki hvar fóturinn lenti á líkama A.“ Sagðist hann þá ekki hafa séð fót Rimvydasar lenda af neinu afli í A en þegar hann var spurður hvort verið gæti að Rimvydas hefði trampað á A svaraði ákærði: „Ég veit það ekki.“

Vísað er til þess sem rakið var um niðurstöðu blóðblettarannsóknar Ragnars Jónssonar rannsóknarlögreglumanns á vettvangi og vættis hans um að áfallshorn blóðbletta sem fundist hefðu í stofunni og ummerki um að blóð hefði verið hreinsað upp af stofugólfi benti til þess að A hefðu þar verið veitt þung högg. Högg á höfuð sem hlytist af falli viðkomandi til jarðar nægði ekki til að mynda slíka bletti.

Þá er hér og vísað til niðurstöðu réttarkrufningarskýrslu Matthiasar Xavier Voisard og vættis hans um að skýringar ákærða Rimvydasar á árásinni í stofunni, það er hvernig hann hafi fellt A í gólfið með handahreyfingu og síðan haldið honum niður við gólf með því að setja fæturna á öxl hans, standist ekki miðað við umfang þess líkamstjóns sem greinst hafi á hinum látna. Lýsti hann því svo að einfalt fall til jarðar úr eigin líkamshæð gæti ekki hafa valdið svo alvarlegum og miklum áverkum á heila. Þá hefði áverki á axlarvöðvanum mjög líklega verið eftir spark, frekar en þrýsting við hart yfirborð, eins og Rimvydas héldi fram. Hlytu áverkarnir því að stafa af fleiri en einu höggi þegar til þess væri litið hversu umfangsmikið tjónið hefði orðið. Taldi hann einu mögulegu orsökina, með hliðsjón af framangreindum framburði ákærða A hjá lögreglu um spörk, vera þungt spark eða spörk í höfuð hins látna.

Loks er hér vísað til munnlegrar matsskýrslu dr. Torleiv Ole Rognum, prófessors í réttarlækningum, þar sem fram kom að hann teldi áverkana á höfði, hálsi og öxlum hins látna vera af völdum endurtekinna áfalla sem hefðu stafað af föstum höggum eða falli á fast yfirborð, t.d. gólf. Taldi hann að alvarlegustu áverkarnir af spörkum hefðu hugsanlega verið á öxl en vissulega á höfði einnig. Þannig hefðu blæðingar í mjúkvef handleggs verið það miklar að þær gætu ekki hafa orsakast af því einu að stigið hefði verið á hann.

Þegar allt framangreint er virt saman telur dómurinn fram komna sönnun um að ákærði Rimvydas hafi í greint sinn viðhaft þá háttsemi gagnvart A sem lýst er í ákæru með þeirri athugasemd þó að um hafi verið að ræða alla vega tvö spörk sem gefin hafi verið með þeim hætti að fótum hafi verið spyrnt harkalega niður.

Með vísan til réttarkrufningarskýrslu Matthiasar Xavier Voisard og matsskýrslu dr. Torleiv Ole Rognum er og sannað að A hafi látist af völdum áverka sem hann hlaut við framangreinda atlögu ákærða og nánar er lýst í ákæru. Þykir engu breyta í því sambandi hvort dánarorsökin hafi eingöngu verið miklar blæðingar í heilastofni, sem er niðurstaða Matthiasar, eða hvort þar hafi jafnframt og kannski enn frekar komið til svokölluð „sekúnder“ blæðing, það er blæðing innan höfuðkúpunnar og miklir áverkar á heila, sem hafi leitt til heilaþembu, sem er niðurstaða Torleiv Ole.

Líkamsárás ákærða Rimvydasar er brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, eins og í ákæru greinir.

Ákæruliður 2

Ákærðu AU, D og X hafa öll neitað sök. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið með óyggjandi hætti hvenær lát A bar að höndum. Fram er komið að A hafi verið við áfengisdrykkju frá því fyrr um daginn. Í blóði hans mældust 2,89‰ alkóhóls og í þvagi 4,54‰, sem að mati dr. Jakobs Kristinssonar dósents þýddi að A hefði á einhverjum tímapunkti fyrir andlátið verið með vínandamagn í blóði sem næmi um eða yfir 3,6‰. Væri um að ræða mjög mikið áfengismagn og gæti slíkt magn eitt út af fyrir sig leitt til dauða. Þegar til þessa er litið og til vitnisburða þeirra Matthiasar og Torleiv Ole um að erfitt gæti hafa verið fyrir leikmenn, þrátt fyrir sýnilega áverka á A, að átta sig á raunverulegu ástandi hans í greint sinn, sérstaklega ef þeir hefðu ekki verið viðstaddir umræddar árásir, þykir ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu AU og D hefðu átt að geta áttað sig á að ástand hans stafaði af lífshættulegum áverkum hans en ekki mikilli ölvun. Verða þær því sýknaðar af ákæru. Hins vegar verður að telja, með hliðsjón af því að ákærði X varð vitni að framangreindum árásum ákærða Rimvydasar á A eins og að framan hefur verið nánar lýst, að honum hafi ekki getað dulist að A hafi verið í lífsháska í greint sinn. Hafi X því með athafnaleysi sínu í því að útvega A læknishjálp brotið gegn 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga.                                         

VII.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærða Rimvydas tvívegis á árinu 2008 verið gerð refsing, í bæði skiptin fyrir ölvunarakstur, en í síðara tilvikinu einnig fyrir að hafa ekið ökutæki sviptur ökurétti. Hefur þessi sakaferill ákærða engin áhrif á ákvörðun refsingar hans nú. Hann hefur borið því við að hann hafi í greint sinn reiðst snögglega vegna ummæla og hótana A í hans garð í tengslum við greiðslu á einhvers konar verndarþóknun og að til þess gæti komið að hann myndi nauðga AU vinkonu hans, eins og nánar hefur verið lýst. Fær framburður hans varðandi verndarþóknunina stoð í framburði annarra ákærðu og þykir mega horfa til þess við ákvörðun refsingar hans. Til refsiþyngingar horfir hins vegar hversu harkaleg líkamsárás ákærða var og þær alvarlegu afleiðingar sem hlutust af henni. Þegar framanritað er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár, en til frádráttar henni skal koma gæsluvarðhald sem hann hefur sætt óslitið frá 8. nóvember 2008. Í ljósi alvarleika brots ákærða eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ákærða X hefur hann ekki áður sætt refsingu svo vitað sé. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin sex mánuðir, en til frádráttar henni komi gæsluvarðhald sem hann sætti frá 8. til 27. nóvember 2008.

Ákærði Rimvydas og ákærði X skulu greiða óskipt 309.418 króna útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara

Ákærði Rimvydas skal greiða 1.206.985 króna útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara. Við ákvörðun þess kostnaðar hefur verið tekið tillit til þess að skilja verður ákv. 2. mgr. 216. gr., sbr. 12. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála svo að kostnaður við þýðingu málsskjala fyrir dómkvaddan matsmann teljist ekki til sakarkostnaðar. Þá ber og, með vísan til ákv. 2. mgr. 217. gr. sömu laga, að hafna sakarkostnaði sem ekki lá fyrir við upphaf aðalmeðferðar málsins. Auk framangreinds útlagðs sakarkostnaðar greiði ákærði Rimvydas málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 970.000 krónur.

Ákærði X greiði 490.979 króna útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hrl., 700.000 krónur.

Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 760.000 króna málsvarnarþóknun Óskars Sigurðssonar hrl., skipaðs verjanda ákærðu AU, og 976.000 króna réttargæslu- og málsvarnarþóknun Christiane L. Bahner hdl., skipaðs verjanda D.

Við ákvörðun sakarkostnaðar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Dómsuppsaga hefur dregist nokkuð vegna umfangs málsins og anna dómsformanns.

Dóm þennan kveða upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari, sem dómsformaður, og Finnbogi Alexandersson héraðsdómari og Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Rimvydas Stasiulionis, sæti fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar komi gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt óslitið frá 8. nóvember 2008.

Ákærði, X Teterevas, sæti fangelsi í sex mánuði. Til frádráttar komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 8. til 27. nóvember 2008.

Ákærðu, AU og D, eru sýkn af ákæru.

Ákærði Rimvydas og ákærði X greiði óskipt 309.418 króna útlagðan sakarkostnað.

Ákærði Rimvydas greiði alls 2.176.985 krónur í sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 970.000 krónur.

Ákærði X greiði 1.190.979 krónur í sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hrl., 700.000 krónur.

Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 760.000 króna málsvarnarþóknun Óskars Sigurðssonar hrl., skipaðs verjanda ákærðu AU, og 976.000 króna réttargæslu- og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda D, Christiane L. Bahner hdl.

Ásgeir Magnússon

Finnbogi Alexandersson

Ragnheiður Harðardóttir.