Hæstiréttur íslands
Mál nr. 228/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá Hæstarétti
|
Þriðjudaginn 17. maí 2011. |
|
|
Nr. 228/2011. |
ALMC hf. (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Frestur. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá dómi.
A hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem L hf. var veittur frestur til 6. apríl 2011 til að leggja fram íslenska þýðingu skjala og gögn um erlendar lagareglur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að kæra og kærumálsgögn hefðu borist réttinum 13. apríl 2011. Hefði þá verið liðinn sá frestur, sem L hf. hefði verið veittur og um væri deilt í málinu. A hf. hefði því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að úrskurðurinn kæmi til endurskoðunar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti án kröfu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. mars 2011, þar sem varnaraðili fékk „frest til miðvikudagsins 6. apríl nk., klukkan 9:30, til að leggja fram íslenska þýðingu skjala og gögn um viðeigandi lagareglur í Lúxemborg.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að láta málflutning fara fram án dráttar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði fór varnaraðili þess á leit við héraðsdóm degi fyrir aðalmeðferð, sem fram átti að fara 23. mars 2011, að málinu yrði frestað til þess að hann gæti aflað íslenskrar þýðingar á ,,framlögðum skjölum“ og gagna um erlendar lagareglur. Er málið var tekið fyrir síðastnefndan dag var bókuð ósk varnaraðila um frest í þessu skyni. Sóknaraðili mótmælti því að frestur yrði veittur. Héraðsdómur féllst á beiðni varnaraðila og veitti honum frest eins og fram kemur í úrskurðarorði.
Þess er áður getið að kæra sóknaraðila og kærumálsgögn hafi borist Hæstarétti 13. apríl 2011. Var þá liðinn sá frestur, sem varnaraðila hafði verið veittur og um er deilt í málinu. Sóknaraðili hefur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að úrskurðurinn komi til endurskoðunar og verður málinu því vísað frá Hæstarétti án kröfu.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, ALMC hf., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. mars 2011.
Beiðni sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., um frestun þessa máls kom óformlega fram í gær, en samdægurs kom fram að varnaraðili, ALMC hf., mótmælti því að á hana yrði fallist. Var fjallað um þetta í upphafi þinghalds í dag, sem ákveðið var til munnlegs málflutnings í þinghaldi 10. mars sl., þegar varnaraðili lagði fram greinargerð. Beiðnin er á því byggð að sóknaraðili þurfi frekara ráðrúm en orðið er til að leggja fram íslenska þýðingu á framlögðum skjölum og gögn um erlendar lagareglur. Í greinargerð varnaraðila er að því fundið að skjöl séu öll á ensku. Þá skorti af hálfu sóknaraðila tilvísun til réttarreglna til stuðnings kröfum sínum, ekki sé byggt á lagareglum í Lúxemborg og því síður risið undir sönnunarbyrði um þær.
Samkvæmt 10. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, er þingmálið íslenska. Skal að jafnaði fylgja skjali þýðing á íslensku á erlendu máli, sé byggt á efni þess, nema dómari telji sér fært að þýða það. Þá er mögulegt að aðilar komi sér saman um rétta þýðingu skjals, allt sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991.
Að máli svo komnu, að í greinargerð varnaraðila er að því fundið að skjöl séu ekki á íslensku, auk þess sem þar er á því byggt m.a. að yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð sé óskýr, þykir dómara varhugavert að telja sér fært að þýða skjöl sem væntanlega verður byggt á. Er rétt að geta þess að sóknaraðila var ekki fyrir það að greinargerð varnaraðila var lögð fram gerð sérstök grein fyrir þessu, en ekki verður á því byggt að honum hafi örugglega átt að vera það ljóst fyrir þann tíma að óhjákvæmilegt væri að afla þýðingar á skjölum. Í ljósi þessa og þess að munnlegur málflutningur var ákveðinn með skömmum fyrirvara þykir rétt að veita sóknaraðila frekara ráðrúm til að leggja fram þýðingu á skjölum sem hann byggir á. Verður honum því veittur tveggja vikna frestur, eins og nánar greinir í úrskurðarorði til að leggja þýðinguna fram. Verður honum þá ekki heldur meinað sérstaklega að nýta þennan frest til að afla gagna um gildandi rétt í Lúxemborg, sem hér kann að skipta máli, en í greinargerð sóknaraðila er sagt vera byggt á ,,efndaskyldu samninga og greiðsluskyldu fjárskuldbindinga.“
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., fær frest til miðvikudagsins 6. apríl nk., klukkan 9:30, til að leggja fram íslenska þýðingu skjala og gögn um viðeigandi lagareglur í Lúxemborg.