Hæstiréttur íslands

Mál nr. 858/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                     

Þriðjudaginn 29. desember 2015.

Nr. 858/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta nálgunarbanni í sex mánuði á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. desember 2015 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 23. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með ákæru 24. nóvember 2015 er varnaraðila gefið að sök að hafa tvívegis á árinu 2014 með tilgreindum netskilaboðum hótað A ofbeldi. Önnur tilvik sem greind eru í hinum kærða úrskurði munu enn vera til rannsóknar hjá lögreglu. Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa brotið á refsiverðan hátt gegn A og raskað friði hans, jafnframt því sem hætta er á að varnaraðili muni ekki láta af þeirri háttsemi sinni. Er því fallist á með héraðsdómi að uppfyllt séu skilyrði a. og b. liða 4. gr. laga nr. 85/2011 um að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

 Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.                            

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. desember 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans frá 23. desember sl. þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt að lagt sé bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 22. desember sl. hafi X óskað eftir nálgunarbanni á A vegna áreitis og ónæðis á undanförnum vikum. Hafi X lýst því að hann hefði orðið fyrir miklu ónæði og hótunum frá A að undanförnu en nýlega hefði verið þingfest mál í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem X sé ákærður fyrir hótanir gagnvart A. Þá hafi lögreglan ítrekað haft afskipti af málum sem tengist X og A og hafi A kært X og fleiri menn m.a. fyrir líkamsárás gegn sér í september sl.

Þau mál sem liggi til grundvallar ákvörðun lögreglustjóra séu:

Mál lögreglu nr. 007-2015-[...] frá 20. desember sl.

Þá hafi lögreglu borist tilkynning um hótanir frá X í garð A. Lögreglan hafi hitt A og dóttur hans fædda [...] við [...] í Reykjavík. Hafi A skýrt lögreglu frá því að X væri ítrekað búinn að hringja í sig og senda sér skilaboð m.a. með hótunum um að mæta fyrir utan heimili A til að taka í hann. Hefði dóttir A orðið vör við hótanir X og orðið mjög hrædd. Fram komi í skýrslu þeirra lögreglumanna sem rætt hafi við X umrætt sinn að dóttir hans hefði verið í mikilli geðshræringu, hún hefði hrokkið við í sífellu og grátið og öskrað upp úr þurru.

Mál lögreglu nr. 007-2015-[...] frá 17. nóvember sl.

Þar hafi A tilkynnt lögreglu um að skotið hefði verið á heimili hans. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá 4 cm stóra skemmd á ytra byrði glers á glugga á íbúð A. Hafi A talið að umrætt atvik hefði gerst nóttina áður meðan hann svaf og hafi hann talið að atvikið tengdist [...] og X en miklar deilur væru á milli þeirra og A.

Mál lögreglu nr. 007-2015-[...] frá 10. september sl.

Þar sé X í félagi við þrjá aðra menn gefið að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás, fimmtudaginn 10 september 2015, utan við [...] í Kópavogi, með því að hafa ráðist á A og slegið hann víðsvegar í líkamann með hættulegum bareflum, þ. á m. járnröri, hafnaboltakylfu og kúbeini með þeim afleiðingum að A hafi hlotið brot á vinstri þvertindum 3. og 4. lendahryggjarliðar, afrifu af fyrsta ristarbeini á hægri fæti, afrifur frá nærkjúku vinstri stóru táar, sár á vinstra eyra, sár á hægri vísifingri, mar á baki og báðum þjóðhnöppum, skrámu á hægri framhandlegg, blæðingu undir nögl á hægri þumalfingri, eymsli í fjærkjúku, sár og eymsli yfir nærlið hægri vísifingurs, eymsli um handarbakið, marbletti á vinstri fótlegg og vinstra læri, eymsli á hægra hné og hnéskel og eymsli á hægri og vinstri rist. Sé háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]/ Mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2015

Þar sé X ákærður fyrir fyrir hótanir, með því að hafa, í tvígang á árinu 2014, hótað A ofbeldi í neðangreindum fésbókarskilaboðum (facebook), sem X sendi á fésbókarsíðu A, en efni umræddra  skilaboða hafi verið til þess fallið að vekja hjá A ótta um líf sitt og velferð.

1. Laugardaginn [...]. mars 2014, kl. [...]:

„ þú ert nu meiri fokkking

ræfillinn sökkerpunsar 60

kall og hleypur í burtu

eins og fokkking hræ í

öðrum skónum þetttaa er

fokkking pabbi ég skal

fokkking slatra þer fríkið

þótt ég þurfi að eyða

restinni af æviinni herna

innni ég fokkking slatra

þér fokkkking

kryppplinguirnn þiinnn

það er fokkking loforð “.

2. Fimmtudaginn [...]. apríl 2014,  kl. [...]:

„ [...] þú reðst a pabba

minn af engri helvitis

astæðu ef þið eruð að

plana eh gegn pabba

minum drep eg ykkur alla

og þig first ekki vera

svona heimskur af engri

astæðu nóg að okkur lenti

saman en þetta er komið

gott hvað a pabbi minn

sem er 60 að nenna

þurfa standa í svona

kjaftæði hann er með

fjölskyldu en eg lofa þer

því [...] g ersvo miklli

pabba strakur að eg

hugsa mig ekki tvisar um

16 ara dom fyrir hann svo

þú vitir það bara láttu

þetta kjurt ligggja “.

X sé nú undir rökstuddum grun um að hafa ráðist á A og að hafa í nokkur skipti haft í hótunum við hann, nú síðast þann 20. desember sl. Þá beri gögn lögreglu með sér að A stafi ógn af X og ljóst sé að hann hafi undanfarið orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hálfu X sem hafi með háttsemi sinni raskað mjög heimilisfrið A og fjölskyldu hans.

Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði a og b liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en það sé mat lögreglu að X muni beita A frekara ofbeldi og valda honum ónæði sé hann látinn afskiptalaus. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi A og fjölskyldu hans verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé ítrekað að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

        Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að staðfest verði sú ákvörðun hans frá 23. desember sl. þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt að lagt sé bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

                   Í a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 segir að beita megi nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Í b-lið ákvæðisins segir að beita megi nálgunarbanni ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a-lið. Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá 23. desember sl.

         Í ítarlegri greinargerð lögreglu kemur fram að varnaraðili hafi margítrekað raskað friði A, sbr. a-lið áðurnefnds ákvæðis, með símhringingum, vefskilaboðum, hótunum um ofbeldi og margvíslegum öðrum hætti. Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa ráðist á A og að hafa í nokkur skipti haft í hótunum við hann, nú síðast þann 20. desember sl. Þá beri gögn lögreglu með sér að A stafi ógn af varnaraðila og ljóst sé að hann hafi undanfarið orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hálfu hans sem hafi með háttsemi sinni raskað mjög heimilisfriði A og fjölskyldu hans. Í skýrslu lögreglu kemur fram að dóttir A hafi verið mjög skelkuð vegna atvika.

        Verjandi varnaraðila heldur því fram að varnaraðili hafi aðeins einu sinni haft í hótunum við A og það hafi verið í mars 2014 í framhaldi af árás A á föður sinn, en þá hafi varnaraðili verið á [...]. Aðrar ásakanir séu uppspuni og eigi ekki við rök að styðjast. Varnaraðili hafi ekki átt neitt sökótt við A, en illindi verið á milli hans og föður síns [...].

        Fallast verður á það með lögreglustjóra að fyrirliggjandi rannsóknargögn beri með sér að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa margítrekað raskað friði A, sbr. a-lið áðurnefnds ákvæðis. Þá verður að telja, þegar litið er heildstætt á atvik málsins, gögn þess og fyrri sögu að án nálgunarbanns sé varnaraðili líklegur til að halda áfram háttsemi sinni gagnvart brotaþola, sbr. b-lið áðurnefnds ákvæðis, en fyrir liggur að til rannsóknar hjá lögreglu er mál þar sem varanaraðila í félagi við þrjá aðra menn er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás á varnaraðila fimmtudaginn 10 september sl. og veitt honum  mikla áverka eins og rakið er í greinargerð lögreglu, en þessi háttsemin er talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Mál vegna þessa var nýlega þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

        Með hliðsjón af framangreindu þykja því vera uppfyllt skilyrði a- og b-liðar. 4. gr. og 12. gr. laga nr. 85/2011 til þess að nálgunarbanni verði beitt enda verður ekki talið, eins og málum er háttað, að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Þá þykja ekki vera efni til að marka nálgunarbanni skemmri tíma en krafist er. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um nálgunarbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola og greiðist úr ríkissjóði eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 23. desember sl. þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

Þóknun verjanda varnaraðila, Jóns Egilssonar hrl., og réttargæslumanns brotaþola, Steinbergs Finnbogasonar hdl., 200.000  krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.