Hæstiréttur íslands
Mál nr. 791/2013
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
- Líkamsárás
- Tilraun
- Vopnalagabrot
- Sakhæfi
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2014. |
|
Nr. 791/2013.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Ilja Volkovs (Kristján Stefánsson hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni. Líkamsárás. Tilraun. Vopnalagabrot. Sakhæfi. Skilorð.
I var ákærður fyrir brot gegn vopnalögum með því að hafa borið tvo hnífa á almannafæri og brot gegn valdstjórninni og tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að hafa hótað lögreglumönnum A og B líkamsmeiðingum, kastað hníf í lögreglumanninn A og ráðist með ofbeldi á lögreglumennina C og D. Voru síðargreindu brotin talin varða við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í dómi héraðsdóms kom fram, með vísan til niðurstöðu dómskvadds matsmanns, að ekki væri ástæða til að efast um sakhæfi I og voru brot hans talin sönnuð. Var I því sakfelldur og gert að sæta fangelsi í 12 mánuði. Í dómi Hæstaréttar var staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að I hefði viðhaft þá háttsemi sem greindi í ákæru að öðru leyti en því að talið var ósannað að I hefði framið brot gegn vopnalögum. Kom fram í því sambandi að ekki yrði af myndum, sem fylgdu gögnum málsins, ráðið með fullri vissu að blöð á fyrrgreindum hnífum næðu þeim 12 cm sem áskildir væru í a. lið 2. mgr. 30. gr. laganna. Var I því sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Hvað önnur brot varðaði kom fram í dómi réttarins að I hefði borið skynbragð á eðli umræddra afbrota og verið fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann hótaði viðkomandi lögreglumönnum og veittist að þeim með stórhættulegu móti. Var því fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að I væri sakhæfur og refsing hans ákveðin fangelsi í níu mánuði. Með vísan til matsgerðar hins dómkvadda matsmanns um geðheilbrigði ákærða, haga ákærða og óhæfilegs dráttar á meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi var á hinn bóginn talið rétt að fresta fullnustu refsingarinnar í þrjú ár. Var sú frestun bæði bundin almennu skilorði 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga og því skilyrði að ákærði sætti á skilorðstímanum sérstöku eftirliti, sbr. 3. mgr. 57. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að hann verði sýknaður af I. og III. kafla ákæru. Að því frágengnu krefst hann þess að sér verði ekki gerð refsing eða ákvörðun hennar frestað skilorðsbundið, en ella verði hún milduð.
Sakargiftir í ákæru á hendur ákærða 19. nóvember 2012 eru raktar í héraðsdómi. Í 1. lið I. kafla hennar er ákærða gefið að sök brot gegn 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 með því að hafa borið tvo hnífa á almannafæri 10. apríl 2011. Hnífum þessum er óverulega lýst í gögnum málsins, en af þeim eru þó málsettar ljósmyndir. Af þeim myndum verður ekki ráðið með vissu að blöð á hnífum þessum nái þeim 12 cm, sem áskildir eru í a. lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga til þess að þeir geti átt undir ákvæði þeirra. Þegar af þessari ástæðu verður ákærði sýknaður af sökum samkvæmt þessum lið ákærunnar. Að öðru leyti en þessu verður með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða hans að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem í ákæru greinir.
Undir rekstri málsins í héraði var dómkvaddur matsmaður til þess að meta sakhæfi og ástand ákærða á þeim tíma sem atvik þau er í ákæru greinir áttu sér stað. Í samræmi við 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gaf matsmaðurinn Sigurður Páll Pálsson geðlæknir munnlega skýrslu um niðurstöðu sína fyrir dómi. Sú skýrslugjöf var ekki eins markviss og æskilegt hefði verið en af svörum matsmannsins má þó ráða, að þá er atvik það sem um ræðir í I. kafla ákæru átti sér stað, kunni 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að hafa átt við um ástand ákærða. Svo hafi hins vegar ekki háttað til í þeim tilvikum sem greinir í II. og III. kafla ákæru. Þá kom fram í svörum matsmannsins að refsing kunni að bera árangur en best mundi þó ákærða farnast yrði hann undir eftirliti geðsviðs og héldi sig frá vímuefnum.
Með ákvæði 15. gr. almennra hegningarlaga eru sett þröng skilyrði fyrir sakhæfisskorti og hvílir ekki á ákæruvaldinu að hnekkja staðhæfingum ákærða um að svo hafi staðið á fyrir honum. Verða andlegir annmarkar og geðveiki að vera á háu stigi til þess að slíkt ástand leiði til refsileysis og maður alls ekki verið fær um að hafa stjórn á gerðum sínum þegar hann vann verkið, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 13. október 2011 í máli nr. 198/2011. Ákærði kom fyrir dóm en neitaði að svara spurningum sem lutu að sakarefni málsins. Í málinu liggur hins vegar fyrir greinargóður framburður þriggja lögreglumanna sem báru um líkamsárás þá sem ákærða er gefin að sök í I. kafla ákæru. Að þeim framburði virtum, öðrum gögnum málsins, sem og því að tilvitnað mat dómkvadds geðlæknis á sakhæfi ákærða er ekki vafalaust, er nægilega fram komið að ákærði bar skynbragð á eðli þeirra afbrota sem hann er ákærður fyrir og að hann hafi að því marki verið fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann hótaði viðkomandi lögreglumönnum og veittist svo að þeim með stórhættulegu móti.
Með vísan til þessa verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að ákærði sé sakhæfur og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Að teknu tilliti til þeirra brota, sem ákærði er sakfelldur fyrir, er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Um hana verður að öðru leyti að líta til þess að brot ákærða voru framin 10. apríl 2011, 13. ágúst sama ár og loks 11. september 2012. Ákæra var síðan gefin út 19. nóvember 2012. Dómur í héraði var ekki kveðinn upp fyrr en 29. nóvember 2013 en málsmeðferð dróst þó vegna öflunar gagna um geðheilsu ákærða og mats á sakhæfi hans. Ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu 12. desember 2013 en málsgögn voru ekki afhent Hæstarétti fyrr en 2. júlí 2014. Þessi dráttur á meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi hefur ekki verið skýrður. Þegar þessa er gætt og höfð hliðsjón af mati hins dómkvadda geðlæknis og högum ákærða sjálfs, eins og þeim er lýst í héraðsdómi, er rétt að fresta fullnustu refsingar hans í þrjú ár frá uppsögu þessa dóms. Skal sú frestun bæði bundin almennu skilorði 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga og því skilyrði að ákærði sæti á skilorðstímanum sérstöku eftirliti, umsjón og eftir atvikum meðferð geðlæknis samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 57. gr. sömu laga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Eftir framangreindum úrslitum málsins er rétt að ákærði beri helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talið af málsvarnarlaunum verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Að öðru leyti skal áfrýjunarkostnaður greiðast úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, Ilja Volkovs, sæti fangelsi í níu mánuði en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og sæti að auki eftirliti, umsjón og eftir atvikum meðferð geðlæknis á skilorðstímanum samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 57. gr. sömu laga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals nemur 523.598 krónum að meðtöldum málsvarnarlaunum verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónum, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2013.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 19. nóvember 2012, á hendur Ilja Volkovs, kennitala [ ],[ ],[ ], „fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík:
I.
1. Fyrir brot gegn vopnalögum með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 10. apríl 2011, á Snorrabraut borið tvo hnífa á almannafæri.
Telst þetta varða við 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
2. Fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa, skömmu eftir atvik þau sem lýst er í ákærulið I/1, á Snorrabraut, hótað lögreglumönnunum A og B, sem þar höfðu afskipti af ákærða vegna vopnalagabrotsins, líkamsmeiðingum með hnífunum, en ákærði hélt hnífunum á lofti og beindi þeim að lögreglumönnunum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
3. Fyrir brot gegn valdstjórninni og tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að hafa, skömmu eftir atvik þau sem lýst er í ákærulið I/2, á gatnamótum Auðarstrætis og Flókagötu, kastað öðrum hnífnum af afli í A, en hnífurinn hafnaði flatur í bringuhæð á hnífavesti hans.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa, laugardaginn 13. ágúst 2011, fyrir utan kaffistofu Samhjálpar við Borgartún 1, ráðist með ofbeldi á lögreglumanninn C, sem var þar að gegna skyldustörfum, en ákærði veitti Chnéspark í vinstra lærið, með þeim afleiðingum að C hlaut yfirborðsáverka á mjöðm og læri.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III.
Fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 11. september 2012, í lögreglubifreið á leið frá Norðurfelli að lögreglustöðinni á Hverfisgötu, ráðist með ofbeldi á lögreglumanninn D, sem sat við hlið ákærða, en ákærði veitti D hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að D hlaut roða umhverfis hægra auga.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Með framhaldsákæru, útgefinni 16. september 2013, var þess aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, en til vara að honum verði gert að sæta viðeigandi öryggisráðstöfunum samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ítrekuð krafa um að hann yrði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði svo og málsvarnarlaun verjanda hans.
II
Málavextir varðandi I. kafla ákæru eru þeir að E lögreglumaður var á ferð um Snorrabraut nefndan dag og tók þá eftir manni í annarlegu ástandi sem öskraði að lögreglubílnum. Lögreglumaðurinn stöðvaði bílinn og dró þá maðurinn upp tvo hnífa sem hann sveiflaði út í loftið. Lögreglumaðurinn óskaði eftir aðstoð og komu fleiri lögreglumenn á vettvang. Samkvæmt skýrslunni hlýddi ákærði ekki fyrirmælum um að leggja frá sér hnífana heldur hélt áfram að ógna lögreglumönnunum með þeim. Þeir sprautuðu piparúða á hann en það virtist engin áhrif hafa. Að lokum hugðust tveir þeirra handtaka ákærða en hann kastaði þá öðrum hnífnum af miklu afli, eins og segir í skýrslunni, í A lögreglumann. Lenti hnífurinn í bringu hans. Hann var klæddur hnífavesti og varð ekki meint af. Í framhaldinu var ákærði yfirbugaður og handtekinn.
Málavextir varðandi II. kafla eru þeir að nefndan dag var óskað eftir aðstoð lögreglu að kaffistofu Samhjálpar vegna ölvaðs manns sem þar væri til vandræða. Hér reyndist vera um ákærða að ræða og báðu lögreglumenn hann um að yfirgefa kaffistofuna. Ákærði brást hinn versti við samkvæmt því er segir í lögregluskýrslu. Lögreglumennirnir leiddu hann því út og á leiðinni sparkaði ákærði með hnénu í læri C lögreglumanns. Hann fór á slysadeild og í vottorði þaðan segir að hann hafi ekki verið með sjáanleg áverkamerki en þreifieymsli yfir ofanverðu læri hliðlægt.
Málavextir varðandi III. kafla eru þeir að nefndan dag var óskað eftir aðstoð lögreglu að biðstöð Strætó við Norðurfell. Þar var ákærði ölvaður í strætisvagni og hafði verið að ónáða farþegana. Honum var vísað út úr vagninum og fór hann inn á lóð Fellaskóla og kastaði þar af sér vatni. Lögreglumenn fóru til hans og hugðust ræða við hann um hegðun hans. Var hann færður í lögreglubílinn til viðræðna. Er þangað var komið neitaði ákærði að gefa upp kennitölu og aðrar upplýsingar um sig. Hann var því handtekinn og honum tilkynnt að hann yrði fluttur á lögreglustöð. Á leiðinni þangað hringdi sími ákærða og skipaði lögreglumaður honum að svara ekki. Ákærði sinnti því ekki og tók þá lögreglumaðurinn af honum símann. Við það kýldi ákærði lögreglumanninn í andlitið með krepptum hnefa. Ákærði var í framhaldinu fluttur á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa. Lögreglumaðurinn fór á slysadeild og í vottorði þaðan segir að það hafi verið vægur roði umhverfis hægra auga allan hringinn.
Þar eð vafi þótti leika á um sakhæfi ákærða var Sigurður Páll Pálsson yfirlæknir dómkvaddur 8. maí 2013 til að leggja mat á geðheilsu hans. Fyrir hann var lagt að meta eftirtalin atriði: „1. Lagt verði mat á það hvort Ilja Volkovs hafi verið sakhæfur á þeim tíma sem hann er ákærður fyrir (10. apríl 2011 11. september 2012) í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga.
2. Lagt verði mat á það hvort ástand Ilja Volkovs hafi á ofangreindum tíma/tímabili verið með þeim hætti að 16. gr. almennra hegningarlaga hafi átt við um hann og hvort refsing geti borið árangur.
3. Lagt verði mat á geðrænt heilbrigði Ilja Volkovs nú og hvort refsing geti borið árangur samkvæmt 16. gr. almennra hegningarlaga eins og hagir hans eru í dag.
4. Lagt verði mat á það, ef talið verður að 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um Ilja Volkovs, sbr. 1. 3. tölulið hvort nauðsynlegt þyki vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til að varna því að háski verði af Ilja Volkovs með því að hann sæti öruggri gæslu, eða hvort beita skuli vægari ráðstöfunum eða vistun á hæli, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.“
Matsmaðurinn kom fyrir dóm 13. september 2013 og skýrði frá niðurstöðum sínum, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008. Hann kvaðst hafa hitt ákærða tvisvar og hefði rússneskur geðlæknir túlkað fyrir hann. Hann kvað vitað að ákærði hefði fengið geðrofseinkenni í heimalandi sínu. Hann hefði komið til Íslands fyrir um 6 árum með móður sinni. Í fyrstu hefði allt gengið vel og hann verið í vinnu en síðar hefði hann misst hana vegna hegðunarvanda og eins áfengisvanda. Þá kvað matsmaðurinn ákærða hafa legið inni á geðdeildum þrisvar sinnum. Í framhaldi af fyrstu innlögninni hefði ákærði verið settur á lyf, en hann hefði verið lagður inn vegna þess atviks sem um er fjallað í fyrsta kafla ákæru. Hann kvað ástand ákærða hafa þá verið þannig að verið gæti að 15. gr. almennra hegningarlaga ætti við en alls ekki varðandi þau tilvik sem um getur í II. og III. kafla ákæru. Í þeim tilvikum hefði áfengisneysla og reiði út í lögregluna ráðið gerðum hans. Í framhaldi af atvikinu, sem um er fjallað í I. kafla, hafi ákærði verið lagður inn á geðdeild.
Matsmaðurinn lýsti ákærða sem misþroska og barnalegum manni sem misnotaði áfengi og stundum hefði hann og misnotað fíkniefni. Hann væri ekki alvarlega vangefinn og gæti lært þótt greind hans lægi undir 70. Þá stundaði hann vinnu stopult, enda þyrfti hann aðhald og stýringu. Hann taldi líklegt að ákærði hefði fengið geðrof en væri ekki með geðklofa. Þá kvað hann ákærða hafa orðið fyrir heilaskaða við fæðingu og gerði það hann viðkvæmari fyrir geðrofi. Núna væri það hins vegar félagslegi þátturinn sem væri honum erfiðastur og hjá honum örlaði á andfélagslegri hugsun. Hann ætti aldrei peninga og ætti í vandræðum með áfengisneyslu. Þá kvað hann ákærða vera kærulausan og hann gerði sér ekki grein fyrir því hversu alvarleg ákæran væri.
Þá kvað matsmaðurinn að strangt til tekið gæti refsing borið árangur og hann myndi þola hana. Ákærða væri hins vegar ágætlega borgið ef hann væri í geðlæknismeðferð og gæti haldið sig frá áfengi.
III
Ákærði neitaði sök við þingfestingu. Hann sótti ekki þing fyrr en aðalmeðferð var hafin. Þá ítrekaði hann neitun sín en kvaðst að öðru leyti ekki ætla að tjá sig og skömmu síðar yfirgaf hann dómsalinn.
E lögreglumaður kvaðst hafa verið einn í bíl á akstri eftir Snorrabraut þegar hann hafi orðið var við ákærða sem hafi öskrað að lögreglubílnum. Ákærði hefði svo tekið upp tvo hnífa og sveiflað þeim út í loftið. Hann hefði síðan nálgast lögreglubílinn öskrandi. E kvaðst hafa ekið á brott til að koma í veg fyrir að ákærði kæmist að bílnum. Ákærði hefði þá snúið við og tekið reiðhjól er var þarna. E óskaði eftir aðstoð og hafði auga með ákærða þar til hún barst. Þegar fleiri lögreglumenn komu var reynt að ræða við ákærða og fá hann til að leggja frá sér hnífana, en það gekk illa vegna þess að hann var í annarlegu ástandi. Meðan á þessu stóð hélt ákærði á hnífunum og var að ógna lögreglumönnunum með þeim með því að ota hnífunum í átt að þeim. Lögreglumennirnir sprautuðu piparúða á ákærða, en það hafði ekki mikil áhrif á hann. Ákærði hefði svo hlaupið á brott og skömmu síðar hefðu lögreglumenn náð að yfirbuga hann. E kvaðst hafa séð ákærða kasta hníf í bringu lögreglumanns og hlaupa svo á brott.
A lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang, en tilkynning hefði borist um að þar væri maður að veifa hnífum. Á vettvangi hefði ákærði verið á reiðhjóli og kvaðst A hafa talað við hann en hann hefði þá dregið upp hníf. A kvaðst hafa beðið ákærða um að leggja frá sér hnífinn og dregið upp kylfu um leið en þá hefði ákærði dregið upp annan hníf. A kvaðst hafa ítrekað skipun sína til ákærða um að leggja frá sér hnífana og jafnframt dregið upp úðabrúsa, en ákærði hefði engu hlýtt fyrirmælum hans heldur hörfað undan. Lögreglumenn hefðu fylgt honum eftir og ítrekað fyrirmæli til hans um að leggja frá sér hnífana. Jafnframt hefði piparúða verið úðað á ákærða, en það hefði lítil áhrif haft á hann. Ákærði hefði haldið á brott og lögreglumennirnir fylgt honum eftir og úðað meiru á hann auk þess að ítreka fyrirmæli sín um að hann legði frá sér hnífana, en hann hefði engu sinnt. Að endingu hefði ákærði grýtt öðrum hnífnum í sig og hefði hann lent í vinstra brjósti sínu. Eftir þetta hefði ákærði hlaupið inn í húsagarð þar sem hann hefði fest sig í runna og þar hefði hann verið handtekinn. A kvað ákærða hafa sveiflað hendinni aftur fyrir sig og kastað hnífnum þannig í sig. Hnífurinn hefði lent flatur í sér og hefði hann fundið fyrir högginu, en hann hefði verið í hnífaheldu vesti. Ákærði hefði verið mjög æstur en A kvaðst ekki geta staðfest að hann hefði verið undir einhvers konar áhrifum.
B lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang og þá hafi annar lögreglumaður verið þar að reyna að tala við ákærða og fá hann til sleppa hnífunum, en hann hefði haldið á tveimur. B kvað manninn ekki hafa viljað sleppa þeim og verið mjög ógnandi og otað hnífunum í áttina að lögreglumönnunum og gert sig líklegan til að beita þeim. Þeir hefðu því úðað piparúða á ákærða sem hefði brugðist við með því að kasta öðrum hnífnum í átt að hinum lögreglumanninum og hefði hnífurinn lent í brjóstkassa hans. B kvað ákærða hafa horft á lögreglumanninn og kastað hnífnum. Hann hefði ekki kastað honum blint. Hann hefði haldið höndunum fyrir aftan sig og kastað hnífnum fram. Eftir það hefði ákærði hlaupið á brott og þeir á eftir og úðað meiru á hann. Á endanum hefði ákærði fest sig í runna og þar hefði hann verið handtekinn.
C lögreglumaður kvað lögreglumenn hafa verið kvadda að kaffistofu Samhjálpar vegna ölvaðs manns, sem reyndist vera ákærði. Á vettvangi bað starfsfólkið um að honum yrði vísað út vegna þess að hann hefði verið með dólgslæti. C kvað lögreglumenn hafa tekið undir hendur ákærða og fært hann út. Þegar út var komið kvað hann ákærða hafa sparkað í lærið á sér með hnénu og hefði hann verið handtekinn í framhaldinu. C kvaðst hafa verið aumur á eftir en ekki hafa borið nein ummerki um sparkið.
F lögreglumaður kom á vettvang í kaffistofu Samhjálpar ásamt C. Þeir hefðu fært ákærða út og í anddyrinu hefði hann sparkað í læri C af afli og að tilefnislausu. Í framhaldinu hefði ákærði verið handtekinn og færður á lögreglustöð.
G lögregluvarðstjóri kvað sig og D lögreglumann hafa handtekið ákærða, sem var ölvaður, og fært í lögreglubifreið. Þar hefði sími ákærða hringt og hefði D gefið honum fyrirmæli um að svara ekki en ákærði ekki sinnt því þótt D hefði ítrekað fyrirmæli sín. D hefði þá ætlað að taka símann af ákærða og hefði komið til handalögmála milli þeirra í bílnum og í þeim átökum hefði D fengið högg í andlitið frá ákærða. G, sem var ökumaður, kvaðst hafa séð þá takast á en hann kvaðst ekki hafa séð þegar ákærði sló D. Þá kvað G D hafa verið með gleraugu sem hefði sést á eftir átökin. Eins hefði sést á honum sjálfum og hefði hann farið á slysadeild.
D lögreglumaður kvað að tilkynnt hefði verið um ákærða ölvaðan í strætisvagni. Eftir að hafa rætt við hann hefði honum verið leyft að fara en þá hefði hann kastað af sér vatni á skólalóð og verið handtekinn. Lögreglumennirnir hefðu verið á fólksbíl og kvaðst D hafa setið afturí ásamt ákærða. Sími ákærða hefði hringt og kvaðst D ítrekað hafa skipað honum að svara ekki en ákærði hefði engu að síður svarað símanum. D kvaðst þá hafa tekið símann af ákærða sem við það hefði kýlt hann einu höggi í andlitið. Höggið hefði lent í kringum hægra auga. Eftir þetta hefði ákærði verið tekinn lögreglutökum og færður á lögreglustöð.
Læknarnir, sem rita framangreind læknisvottorð, staðfestu þau. Læknirinn, sem skoðaði D, kvað áverka hans geta samrýmst því að hann hefði fengið hnefahögg í andlitið og væri það reyndar langlíklegast.
IV
Ákærði neitar sök en hefur að öðru leyti ekki tjáð sig um ákæruefnin eins og rakið var. Með framburði lögreglumannanna, sem rakinn var hér að framan er sannað að ákærði hafi borið tvo hnífa á almannafæri eins og honum er gefið að sök í 1. lið I. kafla ákæru. Með framburði lögreglumannanna er á sama hátt sannað að ákærði hafi hótað lögreglumönnum á þann hátt sem lýst er í 2. lið sama kafla ákærunnar. Loks er sannað með framburði lögreglumannanna að ákærði hafi kastað hníf í lögreglumann eins og honum er gefið að sök í 3. lið. Meðal gagna málsins er mynd af hnífnum. Hann er oddhvass og rúmlega 20 cm langur. Blaðið er rúmlega 11 cm.
Með framburði lögreglumanna, sem rakinn var hér að framan, er sannað að ákærði hafi veist að lögreglumönnum með ofbeldi eins og honum er gefið að sök í II. og III. kafla ákæru. Fær framburður þeirra stuðning af læknisvottorðum sem rakin voru.
Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákærunni og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Hér að framan var gerð grein fyrir niðurstöðu dómkvadds matsmanns sem lagði mat á geðhagi ákærða. Með vísun til þess, sem þar kemur fram, er ekki ástæða að efast um sakhæfi ákærða. Við ákvörðun refsingar verður að hafa í huga að ákærði réðst með ofbeldi að lögreglumönnum í þrjú skipti. Í eitt skiptið gerði hann tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að kasta hnífnum, sem lýst er hér að framan í lögreglumann. Verður refsing hans því ákveðin 12 mánaða fangelsi.
Ákærði verður dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Ilja Volkovs, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði 144.400 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 429.837 krónur.