Hæstiréttur íslands

Mál nr. 264/2007


Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot
  • Reynslulausn
  • Gripdeild
  • Upptaka
  • Sönnun
  • Lögreglurannsókn


         

Fimmtudaginn 1. nóvember 2007.

Nr. 264/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Bergi Má Ágústssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Fíkniefnalagabrot. Reynslulausn. Gripdeild. Upptaka. Sönnun Lögregluskýrsla.

 

B var sakfelldur á grundvelli skýrslugjafar sinnar hjá lögreglu, sem ekki varð vefengd,  fyrir að hafa haft í vörslum sínum samtals 69,54 g af amfetamíni og 1,31 g af kókaíni, sem fundust á heimili hans og við líkamsleit á honum í júní 2006. Þá var hann ennfremur sakfelldur fyrir annað fíkniefnalagabrot og gripdeild sem framin voru sama ár. Með brotunum rauf hann skilyrði reynslulausnar á 135 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt eldri dómum og var hún tekin upp og dæmd með. Var refsing hans ákveðin fangelsi í níu mánuði auk þess sem hann var dæmdur til greiðslu skaðabóta og upptöku fíkniefnanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst sýknu af því að hafa haft í vörslum sínum 65,4 grömm af amfetamíni samkvæmt II. kafla ákæru 31. október 2006 og að refsing hans verði að öðru leyti milduð.

Eftir að héraðsdómur gekk var ákærði 16. janúar 2007 dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og svo 28. júní 2007 í sex mánaða fangelsi fyrir skjalafals, fjársvik, nytjastuld, fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot og umferðarlagabrot.

Eins og rakið er í héraðsdómi gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu 6. júní 2006 um að hafa leyft nafngreindum manni að geyma stóra kúlu með amfetamíni í húsakynnum sínum gegn því að fá til eignar 5 grömm af því efni. Óumdeilt er að í kúlunni voru þau 65,4 grömm af amfetamíni sem ákærði neitaði fyrir dómi að hafa haft í vörslum sínum. Í þessu fólst að ákærði játaði brotið hjá lögreglu. Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir þessari játningu við skýrslugjöf hjá lögreglu, en kvaðst þó ekki vefengja að hafa gefið skýrsluna. Kvaðst ákærði hafa viljað við skýrslugjöfina einungis komast í fangaklefa til að sofa og því ekki einu sinni beðið um að verjandi yrði viðstaddur. Skýrslan var tekin um það bil hálfum sólarhring eftir að ákærði var handtekinn og færður í fangageymslu lögreglunar og fyrir dómi staðfesti sá lögreglumaður sem skýrsluna tók að skýrslugjöf hefði farið fram með þeim hætti sem í henni greinir. Samkvæmt þessu hefur verið færð fram fyrir dómi fullnægjandi sönnun um að ákærði hafi játað við skýrslugjöf hjá lögreglu að hafa framið það brot sem um ræðir. Hefur ákærði ekki gefið skýringar á breyttum framburði sem tekið verður tillit til við úrlausn máls. Að þessu sérstaklega gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Um rof reynslulausnar vísaði héraðsdómari til ákvæða 42. gr. almennra hegningarlaga, sem felld höfðu verið úr gildi með lögum nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, en rétt var að vísa frekar til 1. mgr. 65. gr. síðargreindra laga. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður refsiákvörðun hans staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og upptöku fíkniefna eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og standa þau óröskuð.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Bergur Már Ágústsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 240.925 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 31. október 2006 sl. á hendur Bergi Má Ágústssyni, kt. 090784-2939, Hverfisgötu 34, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2006:

I.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 1. apríl í bifreiðinni X við Lækjarvað 8 haft í vörslum sínum 0,77 g af marihuana, sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

II.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 5. júní haft í vörslum sínum samtals 69,54 g af amfetamíni og 1,31 g af kókaíni, sem lögregla fann við leit á þáverandi dvalarstað ákærða að Stórhöfða 15 að undanskildum 4,14 g af amfetamíni sem ákærði framvísaði við líkamsleit utan við húsnæðið.

III.

Gripdeild, með því að hafa mánudaginn 19. júní á bensínstöð Essó við Ártúnshöfða dælt bensíni á bifreiðina Z að verðmæti kr. 512 og ekið á brott án þess að greiða fyrir það.

 

Brotin samkvæmt I. og II. lið teljast varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr., sömu laga, að því er varðar meðferð ákærða á kannabis og kókaíni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001, að því er varðar meðferð ákærða á kókaíni.  Brotið samkvæmt III. lið er talið varða við 245 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Vegna III. ákæruliðar gerir Olíufélagið ehf., kt. 541201-3940, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 512 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Við þingfestingu málsins játaði ákærði sök skv. liðum I og III í ákæru. Með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum liðum ákærunnar og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða.

Þá játaði ákærði einnig sök vegna ákæruliðar II að öðru leyti en því að hann neitaði að hafa átt 65,4 g af amfetamíni sem fundust á dvalarstað hans að Stórhöfða 15 hinn 5. júní sl. Fór aðalmeðferð því fram í málinu vegna þess þáttar málsins og verður hér á eftir gerð nánari grein fyrir ákærulið II að þessu leyti.

Málavextir.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu höfðu lögreglumenn tal af ákærða, mánudaginn 5. júní sl. kl. 22.38, þar sem hann var á göngu um Stórhöfða í Reykjavík. Veittu þeir þá athygli hvítri rönd fyrir ofan efri vör hans og spurðu því hvort þeir mættu leita á honum. Afhenti ákærði þá lögreglumönnunum poka sem í var hvítt efni ásamt pillum. Var ákærði handtekinn á staðnum og jafnframt ákveðið að fara á dvalarstað ákærða að Stórhöfða 15. Þar hittu lögreglumenn fyrir A og á borði fyrir framan hann fundu þeir hvítt efni í poka. Við nánari leit í húsnæðinu fundu lögreglumenn, við hliðina á ísskáp, rétt áður en gengið er inn í baðherbergið, stóra kúlu sem búið var að koma fyrir undir gifsvegg. Kemur fram að ákærði hafi í fyrstu þóst ekki kannast við kúluna en síðan hafi hann sagt að B ætti hana. Hafi hann giskað á að innihéldi um 70 g af amfetamíni. Við litaprófsgreiningu lögreglu reyndist efnið sem fannst á ákærða vera 4,14 g af amfetamíni, efnið sem fannst á borðinu reyndist vera 1,31 g af kókaíni og efnið í kúlunni reyndist vera 65,40 g af amfetamíni.

Er skýrsla var tekin af ákærða hjá lögreglu morguninn eftir játaði hann að eiga efnið sem fannst á honum og einnig það sem var á borðinu. Hins vegar neitaði hann eiga kúluna sem fannst í veggnum og sagði að hún væri í eigu B. Hefði B komið með kúluna morguninn áður og beðið ákærða um að geyma hana. Hafi B sagt að þetta væru um 70 g af amfetamíni og að hann myndi ná í þetta síðar um kvöldið. Upplýsti ákærði einnig að amfetamínið sem á honum fannst hafi verið hluti af þessu magni en hann hafi tekið 5 g af efninu fyrir að geyma efnið heima hjá sér. Þegar lögregluskýrsla var tekin af B neitaði hann að eiga umrædda amfetamínkúlu.

Jakob Kristinsson dósent við Rannsóknarstofu í lyfja-og eiturefnafræði vann matsgerð vegna amfetamínsins. Var niðurstaða hans sú að efnapróf bentu til þess að amfetamínið væri að mestu á formi amfetamínsúlfats. Væri styrkur amfetamínbasa í þurru sýni 5,8%, sem samsvari 7,9% af amfetamínsúlfati.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa haft aðsetur að Stórhöfða 15 á umræddum tíma og mánudaginn 5. júní sl. hefðu vinir hans B og A komið þangað í heimsókn til hans. B hafi líklega komið við þarna á staðnum þrívegis þennan dag. Fyrst um morguninn, síðan um daginn og loks um kvöldið. Kvaðst ákærði þá einnig hafa verið á staðnum, allavega um kvöldið. Sagðist ákærði hafa vitað til þess að B væri með mikið af fíkniefnum þegar hann var hjá honum umrætt kvöld, enda hefði hann gefið honum af þeim til að taka í nefið. Hins vegar hefði hann staðið í þeirri trú að B hefði farið með efnin með sér þegar hann fór burt af staðnum. Sagði ákærði að ekki hefði hvarflað að sér að nokkur maður myndi skilja eftir 70 g af amfetamíni á heimili hans. Hafi hann því alls ekki grunað að B hefði skilið efnin eftir þarna á staðnum. Sjálfur sagðist ákærði hafa verið að nota amfetamín á þessum tíma og hafi hann verið búinn að vaka sleitulaust í 7 daga þegar hann var handtekinn. Kvaðst ákærði ekki hafa haft neina beina vitneskju um hvaða fíkniefni hafi verið í pokanum sem fannst í íbúðinni né hvaða magn þar hafi verið um að ræða. Hins vegar hafi hann sjálfur verið í neyslu fíkniefna frá því hann var 12 ára gamall og hafi hann því nokkra reynslu af að áætla magn slíkra efna þegar hann sjái það. Hafi það því eingöngu verið ágiskun þegar hann sagði lögreglunni að í pokanum væru um 70 g af amfetamíni þegar hún fann efnið. Ákærði var spurður út í þann framburð sinn hjá lögreglu að B hefði beðið hann um að geyma fyrir sig stóra kúlu sem væri um 70 g af amfetamíni og þar af hefði hann sjálfur tekið um 5 g til eigin nota sem þóknun fyrir geymsluna. Sagðist hann þá ekki muna eftir að hafa sagt þetta hjá lögreglu en gæti þó ekki þvertekið fyrir það. Hann hafi hins vegar verið orðinn mjög þreyttur þegar skýrslutakan fór fram, eftir langan tíma án svefns dagana á undan, og því hafi hann viljað komast sem fyrst inn í klefann til að hvíla sig. Hið rétta væri því að hann hefði ekki haft vörslur þessarar amfetamínkúlu þótt hún hafi fundist á dvalarstað hans því hann hefði ekki haft neina vitneskju um að B hefði skilið hana þar eftir og því ekki heimilað honum að geyma þar efnið.

Vitnið B kvaðst muna eftir að hafa komið í heimsókn umræddan dag til ákærða. Hann kvaðst þó ekki minnast þess að hafa haft meðferðis kúlu af amfetamíni þótt hann gæti ekki útilokað það.

Vitnið A kvaðst hafa verið staddur að Stórhöfða 15 þegar lögreglan kom á staðinn. Kvaðst hann ekkert vita um hver átti amfetamínkúluna sem þarna fannst. Eina sem hann gæti sagt væri að hvorki hann sjálfur né ákærði hefðu átt nein fíkniefni því þeir hefðu verið algjörlega blankir. Kvaðst vitnið ekki heldur vita til þess að ákærði hafi leyft B eða einhverjum öðrum að geyma umrædda kúlu þarna á staðnum. Ákærði hafi virst hissa þegar lögreglan fann kúluna enda hafi hann í fyrstu haldið að þetta væri mjólkursykur.

Vitnið C lögreglumaður staðfesti frumskýrslu sem hann vann vegna málsins. Kvaðst hann, ásamt fleiri lögreglumönnum, hafa gert húsleit að Stórhöfða 15, með samþykki ákærða. Hefðu þeir fundið umrædda amfetamínkúlu þar sem henni hafði verið troðið uppundir vegg milli salernis og svefnrýmis. Þegar hún fannst hefði ákærði strax sagt að þetta væru 70 g af amfetamíni og að B væri eigandinn.

Vitnið D lögreglumaður kvaðst hafa fundið hnefastóra kúlu af hvítu efni inni í gifsvegg að Stórhöfða 15. Hafi sér virst sem ákærða væri brugðið þegar hann var spurður hvort hann kannaðist við þetta efni. Hann hafi hins vegar neitað að hafa átt það.

Vitnið E lögreglumaður kvaðst hafa yfirheyrt ákærða vegna málsins. Kvaðst vitnið hafa reynt að bóka efnislega sem nákvæmast eftir ákærða. Hafi ákærði skýrt sjálfstætt frá á þann veg sem í skýrslunni greini. Sjálfur kvaðst vitnið ekki hafa haft neina vitneskju um hvernig málið væri vaxið. Hafi ákærði sagt sér að fundist hefði heima hjá honum stór kúla og minnti vitnið að ákærði hefði sagt að um væri að ræða um 70 g af amfetamíni. Þegar ákærði nefndi þetta kvaðst vitnið ekki vita til að ákærði hefði á neinn hátt verið upplýstur um efnisinnihald og þyng kúlunnar enda væri það regla að slíkt væri ekki gert áður en skýrsla væri tekin af viðkomandi.   

Niðurstaða.

Ákærði hefur fyrir dómi neitað að hafa haft í vörslum sínum þau 65,4 g af amfetamíni sem fundust í kúluformi falin í vegg að Stórhöfða 15 hinn 15. júní 2006. Kvaðst hann ekki hafa haft hugmynd um að efninu hefði verið komið þar fyrir. Ákærði var á tilgreindum tíma umráðamaður íbúðarinnar að Stórhöfða 15 en hann hélt því fram fyrir dómi að kunningi sinn, B, sem komið hafi í heimsókn til hans fyrr um daginn, hafi átt efnið og hljóti hann að hafa komið því þarna fyrir án sinnar vitneskju. Er skýrsla var tekin af ákærða hjá lögreglu morguninn eftir handtöku hans bar ákærði á sama veg, að umrædd kúla væri í eigu nefnds B. Hins vegar sagði hann þá að B hefði komið með hana til sín morguninn áður og beðið sig um að geyma kúluna. Hafi B þá sagt að þetta væru um 70 g af amfetamíni og að hann myndi ná í það síðar um kvöldið. Upplýsti ákærði einnig að amfetamínið sem á honum fannst hafi verið hluti af þessu magni en hann hefði sjálfur tekið 5 g af efninu fyrir að geyma það heima hjá sér.

Eins og fram er komið var ákærði umráðamaður húsnæðisins að Stórhöfða 15 á greindum tíma. Hann hefur viðurkennt að hafa þá sjálfur verið í neyslu fíkniefna og játað að hafa haft vörslur annarra þeirra fíkniefna sem tilgreind eru í þessum ákærulið. Telur dómurinn með nokkrum ólíkindum að slíku magni fíkniefna sé komið fyrir til geymslu á heimili annars manns án þess að viðkomandi hafi hugmynd um það. Þegar til framangreinds er litið, vitnisburðar lögreglumannanna C og E um umsagnir ákærða á vettvangi og skýrslugjöf hans hjá lögreglu, og loks þess að ákærði hefur engar haldbærar skýringar gefið fyrir breyttum framburði sínum fyrir dómi varðandi vitneskju sína um umrædda amfetamínkúlu, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að umrædd 65,4 g af amfetamíni hafi verið í vörslum ákærða. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi og einnig vörslur annarra þeirra fíkniefna sem tilgreind eru í II. lið ákæru með vísan til játningar hans hvað þau varðar. Þykir háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var ákæru á hendur honum frestað skilorðsbundið í eitt ár frá 14. september 1999 vegna brots gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var 10. apríl 2001 dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Þá var hann dæmdur 1. júní 2001 í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir rán. Með dómi  24. júní 2002 var ákærði aftur dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr., 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og fíkniefnabrot. Þá var ákærði dæmdur 15. júlí 2002 í fjórtán mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var dæmdur til sektargreiðslu 26. nóvember 2002 fyrir umferðarlagabrot og sviptur ökurétti í þrjá mánuði vegna uppsafnaðra punkta. Þá hlaut ákærði 18 mánaða fangelsi, þar af voru 15 mánuðir skilorðsbundnir, með dómi 9. apríl 2003 fyrir fíkniefnabrot, vopnalagabrot, hylmingu og þjófnað. Hinn 3. október 2003 var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir, fyrir fíkniefnabrot og var skilorðshluti dómsins frá 9. apríl 2003 dæmdur upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi. Ákærða var með dómi 15. október 2003 gert að greiða sekt fyrir umferðarlagabrot og var hann þá jafnframt sviptur ökurétti í 3 mánuði frá 9. nóvember 2004. Með dómi Hæstaréttar 28. október 2004 var ákærði dæmdur í 12 mánaða fangelsi og var þá dómurinn frá 3. október 2003 tekinn upp og dæmdur með. Með dómi 3. nóvember 2004 var ákærði sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot en honum var þá ekki gerð sérstök refsing og 9. nóvember 2004 gekkst hann undir sektargreiðslu vegna fíkniefnabrots. Hinn 18. nóvember 2004 var ákærði dæmdur til sektargreiðslu vegna umferðarlagabrota og var þá jafnframt sviptur ökurétti í 4 mánuði frá 15. janúar 2005 og 5. janúar 2005 gekkst hann undir sektargreiðslu vegna fíkniefnabrots. Loks var ákærði dæmdur hinn 4. mars 2005 í 45 daga fangelsi fyrir brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga og ákvæðum vopnalaga. Var honum veitt reynslulausn 6. ágúst 2005, skilorðsbundið í 1 ár, vegna 135 daga óafplánaðrar refsivistar.

Með brotum þeim sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilyrði reynslulausnarinnar og ber því að dæma eftirstöðvar þeirrar refsingar ásamt refsingu fyrir brot hans nú, sbr. 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að því virtu, sakaferli ákærða að öðru leyti, en að teknu tilliti til játningar hans að hluta, þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð, með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, fangelsi í 9 mánuði.

Ákærði hefur fallist á bótakröfu Olíufélagsins ehf. og verður hann dæmdur til að greiða því 512 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. júní 2006 til 14. september 2006 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Upptæk eru gerð 0,77 g af marihuana, 69,54 g af amfetamíni og 1,31 g af kókaíni.

Ákærði greiði 72.158 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar og þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 144.420 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

                                                    D ó m s o r ð :

Ákærði, Bergur Már Ágústsson, sæti fangelsi í  9 mánuði.

Ákærði greiði Olíufélaginu ehf. 512 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. júní 2006 til 14. september 2006 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Upptæk eru gerð 0,77 g af marihuana, 69,54 g af amfetamíni og 1,31 g af kókaíni.

Ákærði greiði 216.578 krónur í sakarkostnað þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 144.420 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.