Hæstiréttur íslands

Mál nr. 128/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sönnunarfærsla
  • Aðild
  • Vanreifun


                                     

Mánudaginn 26. mars 2012.

Nr. 128/2012.

Helgi Þór Bergs

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

Kærumál. Sönnunarfærsla. Aðild. Vanreifun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem meðal annars var hafnað kröfu H um að K hf. yrði gert skylt að veita honum tiltekin gögn. Talið var að beiðni H um afhendingu gagna um fjárhæð og stöðu lána sem K hf. hafði veitt þremur tilteknum hlutafélögum hefði beinst að lántökunum auk K hf. og að hver þeirra um sig ætti sameiginlegra hagsmuna með K hf. að gæta í málinu, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa H um afhendingu skýrslna sem sendar voru Fjármálaeftirlitinu um nánar tiltekin efni var talin ómarkviss og vanreifuð. Var báðum kröfum H því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er sá hluti úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert skylt „að veita“ honum gögn um fjárhæð og stöðu lána sem veitt voru Existu hf., Eglu hf. og Kjalari hf. og afrit skýrslna sem sendar voru Fjármálaeftirlitinu á árunum 2005 til 2008 um stórar áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að afhenda sér fyrrgreind gögn. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila bæri að afhenda þeim fyrrnefnda gögn um fjölda eigin hlutabréfa varnaraðila 1. desember 2005, 28. apríl 2006, 18. desember 2007 og 7. október 2008 sem og ársfjórðungslega síðustu fjögur rekstrarár félagsins, gögn um fjölda eigin hlutabréfa sem varnaraðili hafði að handveði á sömu dögum og gögn um fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafði lánað með veðkvöð, þar sem hlutabréf voru hin endanlega veðsetta eign í eignarhaldsfélagi á framangreindum dögum. Er sá þáttur málsins hér ekki til  endurskoðunar.

Í erindi sóknaraðila til héraðsdóms 20. júlí 2011 beindi hann kröfum sínum aðeins að varnaraðila. Krafan um að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðila gögn um fjárhæð og stöðu lána sem veitt voru Exixtu hf., Eglu hf. og Kjalari hf. 1. desember 2005, 28. apríl 2006, 18. desember 2007 og 7. október 2008 og ársfjórðungslega síðustu fjögur rekstrarár varnaraðila beinist efni sínu samkvæmt að þremur lögaðilum auk varnaraðila, en þessir aðilar eiga hver um sig sameiginlegra hagsmuna með varnaraðila að gæta í málinu, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Ber því að veita þeim öllum kost á að svara til sakar samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Þar sem það var ekki gert verður kröfunni vísað frá héraðsdómi.

Rökstuðningur sóknaraðila fyrir kröfu um að varnaraðila verði gert að afhenda sér afrit af öllum skýrslum sem sendar voru Fjármálaeftirlitinu á árunum 2005 til 2008 um fjölda stórra áhættuskuldbindinga „einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslegra tengdra aðila“, er ómarkviss og vanreifuð og verður þegar af þeirri ástæðu vísað frá héraðsdómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991, verður sóknaraðili dæmdur til að að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfum sóknaraðila, Helga Þórs Bergs, er vísað frá héraðsdómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2012.

Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. júlí sl., óskar Helgi Þór Bergs, kt. 080166-5089, Oberbergstrasse 201, Engelberg, Sviss, þess að Héraðs­dómur Reykjavíkur heimili honum að leita sönnunar um atvik með vitnaleiðslu og öflun skjala, sem varði lögvarða hagsmuni hans og geti ráðið úrslitum um málshöfðun, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Nánar tilekið krefst vitnastefnandi þess að vitnastefndi, Kaupþing hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 26, Reykjavík, verði með úrskurði gert að veita vitna­stefn­anda eftirfarandi upplýsingar og staðfest ljósrit eftirfarandi gagna:

  1. Gögn um fjölda eigin hlutabréfa Kaupþings banka hf., 1. desember 2005, 28. apríl 2006, 18. desember 2007 og 7. október 2008, sem og árs­fjórð­ungs­lega síðustu fjögur rekstrarár félagsins.
  2. Gögn um fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafði að handveði á sömu dag­setn­ing­um og fram koma í 1. tölulið, sem og ársfjórðungslega síðustu fjögur rekstrarár félagsins.
  3. Gögn um fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafði lánað út með veðkvöð (negative pledge) þar sem hlutabréf voru hin endanlega veðsetta eign í eignar­halds­félagi miðað við sömu dagsetningar og fram koma í 1. tölulið, sem og árs­fjórð­ungs­lega síðustu fjögur rekstrarár félagsins.
  4. Gögn um fjárhæð og stöðu lána sem veitt voru Existu hf., Eglu hf. og Kjalari hf. miðað við sömu dagsetningar og fram koma í 1. tölulið, sem og árs­fjórð­ungs­lega síðustu fjögur rekstrarár félagsins.
  5. Afrit af öllum skýrslum, sem sendar voru Fjármálaeftirlitinu á árunum 2005-2008, um stórar áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhags­lega tengdra aðila, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 216/2007.

Vitnastefndi krefst þess aðallega að kröfu vitnastefnanda verði hafnað en til vara að vitnastefnanda verði eingöngu heimilað að leita sönnunar um þau atriði sem hann krefst í 1.-3. lið.

Í báðum tilvikum er þess krafist að vitnastefnanda verði gert að greiða vitna­stefnda málskostnað að mati dómsins.

Málsatvik, málsástæður og lagarök vitnastefnanda

Vitnastefnandi vísar til þess að hann hafi hafið störf hjá vitna­stefnda í sept­em­ber 1997. Árið 2003 hafi hann tekið við starfi hjá dótturfélagi vitna­stefnda í London, en þar hafi hann lengi gegnt stöðu yfirmanns fyrirtækjaráðgjafar. Við fall Kaup­þings banka hf. hafi vitnastefnandi hvorki setið í stjórnum lykil-dóttur­félaga bankans né í lána­nefndum hans. Hann hafi hvorki tekið þátt í ákvörðunum um fyrir­greiðslu við­skipta­vina eða lán­veitinga né komið að viðskiptum með hluta­bréf í vitnastefnda, séu frá talin hans eigin kaup.

Á aðalfundi bankans, 27. mars 2004, hafi verið ákveðin sú stefna um starfs­kjör að kaup- og söluréttir starfsmanna gætu á hverjum tíma numið í heild allt að 9% af útgefnum hlutum í bankanum, eins og fram komi í fréttatilkynningu bankans, 29. mars 2004. Tilgangur þessarar starfskjarastefnu hafi verið að auð­velda vitnastefnda að laða til sín, og halda í, starfsfólk.

Stjórn vitnastefnda hafi innleitt samþykkta starfskjarastefnu með gerð hefð­bund­inna kaup- og söluréttarsamninga við starfsmenn. Í kjölfar innleiðingar alþjóð­legra reikn­ings­skila­staðla (IFRS), árið 2005, hafi verið gerð krafa um að vitnastefndi drægi sölu­rétti frá eiginfjárgrunni sínum. Til þess að söluréttir starfsmanna hefðu ekki nei­kvæð áhrif á eiginfjárgrunn vitnastefnda, hafi stjórnendur hans, ásamt endur­skoð­anda, unnið að því að útfæra hvatakerfið með öðrum hætti. Lausnin hafi falist í því að fella niður kaup- og sölurétti og veita starfsmönnum þess í stað lán til hlutabréfakaupa. Í tengslum við þá breyt­ingu hafi vitnastefnandi fallið frá sölurétti á bréfum sínum í vitna­stefnda og í framhaldi af því tekið lán hjá vitnastefnda fyrir hluta­bréfa­kaupum, í sam­ræmi við starfs­kjara­stefnu hans.

Hinir keyptu hlutir, sem og hlutir vitnastefnanda í Existu hf., hafi verið settir vitna­stefnda að veði til tryggingar greiðslum á lánunum sem veitt voru til kaupanna. Sala hinna veðsettu hluta hafi verið óheimil, nema vitnastefndi veitti sérstakt skriflegt sam­þykki fyrir því.

Hinn 9. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar og hafi skipað skilanefnd yfir vitnastefnda. Vitnastefnandi hafi sent lögmanni vitna­stefnda erindi, 3. júní sl., þar sem hann hafi óskað eftir þeim gögnum sem þetta mál fjalli um. Þeirri umleitan hafi ekki verið svarað og því sé þessi beiðni nauð­syn­leg.

Vitnastefnandi bendir á að margir hafi rannsakað orsakir falls íslensku bank­anna haustið 2008 þar á meðal Rannsóknarnefnd Alþingis, sér­stakur sak­sókn­ari, Fjár­mála­eftirlitið og slitastjórnir hinna föllnu banka. Í niðurstöðum Rann­sóknar­nefndar Alþingis komi fram að nefndin telji stjórn­endur vitnastefnda, kerfisbundið, hafa sett fjár­hags­legan styrk hans fram á villandi hátt, þvert á kröfur 5. mgr. 84. gr. laga um fjár­mála­fyrirtæki nr. 161/2002, sbr. kafla 21.2.1.4 í skýrslu Rann­sóknar­nefndar Alþingis. Í kaflanum sé jafn­framt fjallað um veikt eigið fé íslensku bankanna síðustu rekstrar­árin fyrir hrun, það er það eigið fé sem bankarnir sjálfir báru áhættu af. Nefndin telji stjórnendur vitnastefnda hafa gefið villandi mynd af styrk hans.

Í skýrslunni sé því enn fremur slegið föstu að inngrip stjórnenda vitnastefnda í við­skipti með hlutabréf í bankanum hafi orðið til þess að skekkja þá mynd sem hlut­hafar og viðsemjendur vitnastefnda hafi haft um verðmæti hlutabréfa sinna. Rann­sókn­ar­nefndin telji stjórnendur vitnastefnda hafa, með inngripi sínu, valdið því að hlut­irnir hafi verið taldir verðmeiri en þeir voru í raun. Því hafi viðskiptamenn orðið fyrir skaða, þar eð þeir töldu verðþróun hlutabréfa í vitnastefnda vera til marks um að staða hans væri betri en síðar kom á daginn.

Í kafla 8.12.4 í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sé fjallað um lán sem vitna­stefndi hafi veitt Existu á árinu 2007. Lánveitingarnar hafi verið jafnt til þess fallnar að valda vitnastefnda verulegum skaða og hylma yfir fjár­hags­lega stöðu Existu, og þannig blekkja hluthafa, aðila á markaði og aðra við­semj­endur. Lána­nefnd vitna­stefnda hafi vitað að skuldbinding Existu næmi 27% af eigin fé vitna­stefnda, en þrátt fyrir það hafi vitnastefndi veitt Existu 30 milljarða lán til viðbótar. Við það hafi skuld­bind­ing Existu farið yfir 36% af eigin fé vitnastefnda, sem sé langt yfir því 25% hámarki sem sé tilgreint í 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki. Þessar ólög­mætu lán­veit­ingar hafi átt að bjarga móðurfélagi Kaupþings banka hf. frá falli, en slíkt sé aug­ljós­lega óeðli­legt og ólög­mætt inngrip á markaði sem komi í veg fyrir eðli­lega verð­myndun hinna veðsettu hluta í Existu.

Enn fremur komi fram í þessum kafla skýrslunnar að hlutfall veiks eigin fjár vitna­stefnda hafi vaxið úr 10% af eiginfjárgrunni í lok árs 2006 í tæplega 30% af eigin­fjár­grunni um mitt ár 2008. Á þeim tíma hafi veikt eigið fé vitnastefnda orðið rúm­lega 60% af grunn­þætti eigin fjár, þ.e. eigið fé hluthafa samkvæmt ársreikningi að frá­dregnum óefnis­legum eignum.

Fréttir af rannsóknum sérstaks saksóknara bendi til þess að hann rann­saki ólög­mæta stjórnarhætti fyrrum stjórnenda vitnastefnda. Gögn málsins virð­ist benda til að hinar ólögmætu aðfarir stjórnenda vitnastefnda hafi verið mun umfangs­meiri og staðið yfir mun lengur en áður var talið. Stjórn­endur vitna­stefnda virðist hafa sent vill­andi upplýsingar á markað og jafnframt hafi vill­andi upp­lýs­ingum verið haldið að hlut­höfum og kaupendum hlutabréfa. Slíkt sé brot gegn lögum og geti þar með valdið því að einstakir hluthafar eigi hugsanlega skaða­bóta­kröfu á hendur stjórnar­mönnum er standi þannig að upplýsingum um rekstur fjár­mála­stofn­unar, sbr. 2. mgr. 134. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.

Í ljósi þess að stjórnendur vitnastefnda hafi að öllum líkindum misfarið með vald sitt og þannig valdið vitnastefnanda, sem og öðrum hluthöfum, verulegu tjóni sé vitna­stefnanda nauðsynlegt að kynna sér þau gögn sem hann telji upp í kröfugerð.

Vitnastefnandi byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá umbeðin gögn í hendur og upplýsingar, þar sem þau geti ráðið úrslitum um það hvort hann höfði mál á hendur fyrrum stjórnarmönnum vitnastefnda og/eða eigendum hans vegna þess tjóns sem þeir hafi valdið honum, sbr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hluta­félög, 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 79. gr. sömu laga. Í ljósi aðstæðna í þessu máli, verði ákvæðum 91. gr. laga nr. 2/1995 beitt í því, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 64/2011.

Málavextir, málsástæður og lagarök vitnastefnda

Vitnastefndi tekur fram að vitnastefnandi hafi verið einn af fram­kvæmda­stjórum Kaupþings banka hf. Starf hans hafi falist í að byggja upp tengsl við æðstu yfir­menn fyrir­tækja og eigendur þeirra og veita þeim ráðgjöf um sam­ein­ingu og kaup á fyrirtækjum svo og fjármögnun þeirra. Um mitt ár 2003 hafi hann flutt til Bret­lands og orðið framkvæmdastjóri Kaupþings Limited, dóttur­félags Kaup­þings banka hf. í Lundúnum. Á árinu 2005 hafi hann jafnframt og samhliða tekið við stöðu fram­kvæmda­stjóra fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings á sam­stæðu­grunni. Hann hafi því verið í stöðu fruminnherja í bankanum á þessum tíma.

Vitnastefnandi hafi gert tvo lánasamninga við Kaupþing banka hf. í tengslum við kaup á hlutabréfum, sem hafi báðir átt rætur sínar að rekja til starfa vitnastefnanda hjá Kaup­þingi, en kröfur vitnastefnda, á grundvelli samninganna, hafi verið fram­seldar Arion banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 22. október 2008, um ráð­stöfun eigna og skulda Kaup­þings banka hf., kt. 560882-0419, til Nýja Kaupþings banka hf., kt. 581008-0150, nú Arion banki hf.

Vitnastefndi hafnar öllum kröfum vitnastefnanda. Hann hafnar því að vitna­stefn­andi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá umbeðin gögn og upp­lýs­ingar, þar sem þau geti ráðið úrslitum um hvort hann höfði mál á hendur fyrrum stjórn­ar­mönnum Kaup­þings banka hf. og/eða eig­endum hans vegna ætlaðs tjóns sem þeir eigi að hafa valdið vitnastefnanda, sbr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 79. gr. sömu laga.

Vegna 1.-3. kröfuliðar vitnastefnanda vísar vitnastefndi til þess að í þeim dómi Hæsta­réttar, í máli nr. 64/2011, sem vitnastefnandi vísi til í beiðni sinni, hafi verið fallist á að tjón hluthafa vegna þess að hlutafé hans í Glitni banka hf. hafi farið for­görðum væri ein­staklings­bundið tjón hans sjálfs og að hann ætti lögvarða hags­muni í mál­inu. Breytti engu hvort aðrir hluthafar kynnu einnig að eiga sam­bæri­legar kröfur á hendur fyrri stjórnendum Glitnis banka hf. Hafi verið lagt fyrir héraðs­dóm að taka 1.-4. lið í kröfugerð vitnastefnanda í því máli til meðferðar, en fyrstu þrír kröfu­lið­ir­nir í því máli hafi um margt verið sambærilegir fyrstu þremur kröfuliðunum í þessu máli. Vitna­stefndi fái hins vegar ekki ráðið að vitnastefnandi hafi lögvarða hags­muni af umbeðnum gögnum samkvæmt 1.-3. kröfulið. Í öllu falli séu þeir hags­munir van­reif­aðir og/eða ósannaðir, eins og nánar verði vikið að.

Samkvæmt málavaxtalýsingu vitnastefnanda hafi hann tekið lán til að kaupa hluta­bréf hjá Kaupþingi banka hf. eftir að kaup- og sölu­rétt­ar­kerfi hjá bank­anum hafi verið fellt niður á árinu 2005. Í málsástæðum vitnastefnanda séu rakin ýmis dæmi úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til stuðnings ætluðum brotum Kaup­þings banka hf., þar á meðal dæmi er lúti að ætlaðri óraunsærri mynd á verðmæti og verð­þróun hluta í bankanum. Vitnastefnandi láti hins vegar hjá líða að reifa og um leið sýna fram á ætlaða lögvarða hagsmuni af aðgangi að þeim upplýsingum er fyrstu þrír kröfu­liðirnir lúta að, þar á meðal í tengslum við ætluð brot. Nánar tiltekið þá sýni vitna­stefn­andi ekki í neinu fram á hvort og þá hvernig aðgangur hans að þessum upp­lýs­ingum geti orðið grundvöllur að hugsanlegri skaðabótakröfu vitnastefnanda, sem hlut­hafa í Kaupþingi banka hf., á hendur fyrrverandi stjórnarmönnum og/eða til­teknum hlut­höfum. Á grundvelli málatilbúnaðar vitnastefnanda sjálfs verði ekki ráðið að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá afhent umbeðin gögn í skiln­ingi 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Vitnastefnandi beri allan halla af ann­mörkum á mála­til­búnaði sínum í þessu tilliti.

Í þessu sambandi bendir vitnastefndi jafnframt á að enda þótt hugs­an­legar ólög­mætar aðgerðir stjórnarmanna í hlutafélögum geti bakað þeim bótaskyldu gagn­vart hlut­höfum, samkvæmt almennum skaðabótareglum og ákvæði 134. gr. laga nr. 2/1995, sé síður en svo sjálfgefið að ólögmæt háttsemi valdi hluthöfum tjóni þótt slíkt sé ekki heldur útilokað. Af málatilbúnaði vitnastefnanda fái vitnastefndi einna helst ráðið að vitna­stefnandi telji verðmyndum og verðþróun hluta í Kaupþingi banka hf. hafa verið óeðli­lega. Hins vegar verði ekki ráðið af málatilbúnaði vitnastefnanda sjálfs hvaða orsaka­tengsl eigi að vera á milli meintrar háttsemi og hugsanlegs tjóns sem hann telji sig hafa orðið fyrir sem hluthafi. Til að mynda byggi vitnastefnandi ekki á því að tilteknar athafnir eða athafnaleysi vitnastefnanda hafi byggst á upp­lýs­ingum um verð og verð­myndum bréfa í Kaupþingi banka hf. Jafnframt sé til þess að líta að þær upplýsingar sem vitnastefnandi óski aðgangs að séu þess eðlis að honum eigi að vera í lófa lagið að sýna fram á af hverju og með hvaða hætti þær geti orðið grund­völlur máls­höfðunar.

Vitnastefndi bendir jafnframt sérstaklega á að vegna stöðu vitnastefnanda hjá Kaup­þingi banka hf., sé hann tæplega í sambærilegri aðstöðu, þar á meðal varðandi hugsan­legan bótarétt á hendur fyrri stjórnarmönnum og/eða eig­endum, og sá hluthafi sem veittur var aðgangur að til­teknum upplýsingum með dómi Hæstaréttar í máli nr. 64/2011. Slíkt hafi ótvíræða þýðingu við mat á því hvort vitnastefnandi geti talist hafa lög­varða hagsmuni af því að fá aðgang að umbeðnum gögnum, að mati vitnastefnda.

Í 4. kröfulið krefjist vitnastefnandi þess að fá gögn um fjárhæð og stöðu lána sem hafi verið veitt Existu hf., Eglu hf. og Kjalari hf. miðað við nánar tilgreindar dag­setn­ingar, sem og ársfjórðungslega síðustu fjögur rekstrarár Kaupþings banka hf. Vitna­stefndi fái, sem fyrr, ekki ráðið af beiðni vitnastefnanda af hverju hann hafi lög­varða hags­muni af aðgangi að þessum gögnum vegna hugsanlegs skaðabótamáls á hendur fyrri stjórn­ar­mönnum og, eða eigendum Kaupþings banka hf. Málatilbúnaður vitna­stefnanda, vegna þessa kröfuliðar, sé með öllu vanreifaður. Til dæmis sé hvergi minnst á félögin Eglu hf. og Kjalar hf. í beiðni vitnastefnanda. Að því er varði lán­veit­ingar til Existu hf. sé í beiðni vitnastefnanda meðal annars vikið að því að umræddar lán­veit­ingar hafi verið til þess fallnar „að valda vitnastefnda verulegum skaða“. Ljóst sé, meðal annars samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 64/2011, að að því marki sem hinn eiginlegi tjónþoli teljist vera vitnastefndi sjálfur, frekar en ein­stakir hlut­hafar hans, það er, sé tjónið í reynd ekki einstaklingsbundið, þá geti hlut­hafi og þar með vitnastefnandi ekki talist eiga lögvarða hagsmuni í skilningi 2. máls. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991.

Vitnastefndi telji ljóst að hvers konar tjón vegna lánveitinga, og því um líks, sé í grunn­inn tjón félagsins, en tjón einstakra hluthafa sé afleitt, það er ekki ein­stak­lings­bundið. Að því er varði sérstaklega það sjónarmið vitnastefnanda að tilteknar lán­veit­ingar hafi komið í veg fyrir eðlilega verðmyndun hluta í Existu hf., en vitnastefnandi hafi átt hluti í Existu hf., sem hafi verið veðsettir Kaupþingi banka hf., samkvæmt því sem segir í beiðni hans, þá fái vitnastefndi ekki ráðið af málatilbúnaði vitnastefnanda hvernig lán­veit­ingar Kaup­þings banka hf. til Existu hf., sem vitnastefnandi telur að hafi meðal annars brotið í bága við tiltekin ákvæði laga nr. 161/2002, eigi að geta orðið grund­völlur bótakröfu vitnastefnanda, sem hluthafa í Existu hf., á hendur fyrr­ver­andi stjórn­ar­mönnum Kaupþings banka hf. og, eða eigendum hans.

Vitnastefnandi telur jafnframt, hvað sem öðru líði, að umbeðnar upplýsingar lúti reglum um bankaleynd, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Þær upplýsingar sem vitna­stefn­andi krefjist varði í eðli sínu viðskipta- og einkamálefni þessara þriggja lögaðila, enda fjár­hags­legs eðlis, og eftir atvikum fleiri aðila. Telji vitnastefndi að sú óljósa og órök­studda beiðni, sem felist í kröfu vitnastefnanda samkvæmt tilvísuðum kröfulið, geti fráleitt rétt­lætt að slíkar upplýsingar séu látnar af hendi. Hvers konar undan­tekn­ingar frá megin­reglu laga um bankaleynd verði að túlka þröngt. Vitnastefnda beri þannig, ekki síst eins og mála­tilbúnaður vitnastefnanda sé fram settur að því er þennan kröfu­lið varðar, engin laga­skylda til að láta umbeðnar upplýsingar af hendi. Telur vitna­stefndi jafnframt að ákvæði 77. gr. laga nr. 91/1991 geti yfirhöfuð ekki orðið grund­völlur afhendingar upp­lýsinga sem lúti ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um banka­leynd. Í málatilbúnaði sínum hafi vitnastefnandi ekki vísað til neinna laga­ákvæða sem gætu réttlætt að lög­bund­inni þagnar­skyldu sé vikið til hliðar, en sam­kvæmt tilvísuðu ákvæði laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr., gildi þagnarskylda „nema skylt sé að veita upp­lýs­ingar samkvæmt lögum“.

Vitnastefndi hafnar 5. kröfulið með sömu rökum og 4. kröfulið, að breyttu breyt­anda. Nánar tiltekið fái vitnastefndi ekki ráðið, af beiðni vitnastefnanda, af hverju hann hafi lögvarða hagsmuni af aðgangi að umbeðnum gögnum vegna hugsanlegs skaða­bóta­máls á hendur fyrri stjórnarmönnum Kaupþings banka hf. og/eða eigendum. Mála­til­bún­aður vitnastefnanda, að því er þennan kröfulið varðar, sé van­reif­aður, auk þess sem leiða megi líkur að því að hvers konar tjón vegna stórra áhættu­skuldbindinga einstakra við­skipta­manna eða fjárhagslega tengdra aðila sé tjón félags­ins, þ.e. vitna­stefnda, en ekki vitnastefnanda. Þá lúti umbeðnar upplýsingar reglum um bankaleynd og verði þegar af þeirri ástæðu ekki heldur afhentar vitnastefnanda, sbr. og fyrri umfjöllun að breyttu breyt­anda.

Að lokum fái vitnastefndi ekki ráðið af málatilbúnaði vitnastefnanda af hverju eigi að beita ákvæðum 91. gr. laga nr. 2/1995 í þessu máli enda taki ákvæðið, sam­kvæmt efni sínu, til annarrar aðstöðu en þeirrar sem sé í fyrirliggjandi máli. Í öllu falli sé þessi málsástæða vitnastefnanda vanreifuð og órökstudd.

Máli sínu til stuðnings vísar vitnastefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, sbr. einkum 77. gr. laganna, og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. einkum 58. gr. Kröfu sína um málskostnað styður hann við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Vitnastefnandi höfðar þetta mál með stoð í 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. málslið ákvæðisins er aðila heimilað að leita sönn­unar, um atvik sem varðar lögvarða hagsmuni hans, með vitnaleiðslu eða öflun skjals eða annars sýnilegs sönnunargagns, þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu í tengslum við atvikið í dómsmáli. Samkvæmt 2. málslið er aðila með sama hætti heim­ilt að leita sönn­unar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niður­stöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra.

Vitnastefnandi óskar upplýsinga um þá staðreynd hver var fjöldi eigin bréfa Kaup­þings banka hf. á nánar tilgreindum dögum síðustu fjögur rekstrarár félagsins, hversu mörg þeirra bankinn hafði að handveði á sömu dögum og hversu mörg hluta­bréf hann hafði lánað út með veðkvöð þar sem hlutabréf voru hin endanlega veðsetta eign í eignar­halds­félagi, einnig þá sömu daga sem tilgreindir eru í fyrsta lið kröfu hans.

Enda þótt rökleiðsla vitnastefnanda í beiðni hans hefði að ósekju mátt vera mark­vissari og betur hnýtt saman þykir hann hafa gert nægilega grein fyrir því að við rannsóknir opinberra stofnana á starfsemi vitnastefnda, Kaupþings banka hf., fram að falli bankans hafi komið fram sterkar vísbendingar um að stjórnendur og eigendur Kaupþings banka hf. hafi ekki virt ákvæði laga og eigin samþykkta, meðal annars um eigið fé og með því gefið villandi upplýsingar út á fjármagnsmarkaðinn um stöðu fél­ags­ins. Þar með hafi kaupendur hlutabréfa og hluthafar einnig fengið villandi upp­lýs­ingar um verð­mæti hlutabréfa í bankanum. Sterkar líkur séu fyrir því að vegna þessara ólög­mætu stjórnarhátta hafi hlutafé í bank­anum, þar á meðal hlutafé vitnastefnanda, glatað verð­gildi sínu. Þannig hafi stjórn­endur bankans valdið honum tjóni. Til þess að hann geti metið hvort hann höfði mál gegn fyrrum stjórnendum bankans þurfi hann að kynna sér gögnin.

Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 64/2011 er fallist á að tjón vitna­stefn­anda vegna þess að hlutafé hans í vitnastefnda fór forgörðum sé einstaklings­bundið tjón hans sjálfs og að hann eigi lögvarða hagsmuni í málinu. Hér þykir ekki skipta máli þótt hann hafi ekki byggt á því að hann hafi gert, eða látið hjá líða að gera, einhverjar ráðstafanir á grundvelli þeirra röngu og villandi upplýsinga sem stjórnendur Kaupþings banka veittu um verðmæti hlutafjár bankans. Vitnastefnandi í máli Hæsta­réttar nr. 64/2011 bar því ekki heldur við, í röksemda­færslu sinni fyrir héraðs­dómi, að hann hefði hreint og beint gert ein­hverjar ráðstafanir á grundvelli rangra og villandi upplýsinga stjórnenda Glitnis banka.

Því verður fallist á að vitnastefnda beri að afhenda vitnastefnanda þau gögn sem hann tilgreinir í 1.-3. lið kröfu sinnar.

Í fjórða lagi krefst vitnastefnandi þess að vitnastefndi afhendi honum gögn um fjárhæð og stöðu lána sem voru veitt Existu hf., Eglu hf. og Kjalari hf. miðað við sömu dagsetningar og fram koma í 1. tölulið kröfu hans, sem og ársfjórðungs­lega síðustu fjögur rekstrarár félagsins.

Sé tjón, sem stjórnendur fjármálafyrirtækis valda því með því að halda uppi sýndar­verði á hlutafé fyrirtækisins, jafnframt talið einstaklingsbundið tjón sérhvers hlut­hafa þá verður tjón, sem stjórnendur fjármálafyrirtækis valda því með stórum áhættu­skuld­bind­ingum sem veikja eigið fé fyrirtækisins, jafnframt talið ein­stakl­ings­bundið tjón sérhvers hluthafa. Vitnastefnandi hefur því lögvarða hagsmuni af því að fá þau gögn sem hann tilgreinir í fjórða kröfulið sínum.

Félögin Exista, Egla og Kjalar eru öll í rekstri, en Egla fékk nauðasamning við kröfuhafa sína staðfestan 29. júní 2009 og Existu 10. október 2010. Ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 verður því talið eiga við um lán sem þessi félög fengu frá Kaupþingi banka hf.

Vitnastefnanda hefur þegar verið veittur aðgangur að þeim gögnum sem eru til­greind í 1.-3. kröfulið og hann telur sig þurfa til að undirbyggja hugsanlega máls­höfðun á hendur stjórnendum bankans. Þegar litið er til þess og þess að vitnastefnandi hefur ekki haldið því fram að honum séu ekki neinir aðrir vegir færir til að undir­byggja hugsanlega skaðabótakröfu sína en að fá þessar tilteknu upplýsingar um lán­veit­ingar bankans til framangreindra þriggja félaga þykir réttur hans til gagnanna ekki geta vegið þyngra en réttur félaganna til að njóta leyndar um fjárhagsmálefni sín. Af þeim sökum verður ekki fall­ist á fjórða lið kröfu hans.

Í fimmta kröfulið krefst vitnastefnandi afrita af öllum skýrslum, sem sendar voru Fjármálaeftirlitinu á árunum 2005-2008, um stórar áhættuskuldbindingar ein­stakra viðskiptamanna eða fjárhags­lega tengdra aðila. Í þessum skýrslum kunna að vera upplýsingar sem kynnu að varða mun fleiri lántaka en Exista, Eglu og Kjalar. Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir svo­nefnd banka­leynd koma í veg fyrir að þessi gögn verði afhent enda þótt einhver þeirra lán­taka sem tilgreindir eru í þessum skýrslum kunni að hafa verið tekinn til gjald­þrota­skipta og þyrfti af þeim sökum ekki að njóta bankaleyndar.

Ekki þykir rétt, á þessu stigi málsins, að taka afstöðu til þess hvort staða vitna­stefn­anda hjá bankanum kunni að hafa þýðingu í því skaðabótamáli sem hann mun hugsanlega höfða á hendur stjórnendum bankans.

Eins og atvikum þessa máls er háttað og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Vitnastefnda, Kaupþingi hf., er skylt að veita vitnastefnanda, Helga Þór Bergs, gögn um fjölda eigin hlutabréfa Kaupþings banka hf., 1. desember 2005, 28. apríl 2006, 18. desember 2007 og 7. október 2008, sem og árs­fjórð­ungs­lega síðustu fjögur rekstrarár félagsins, svo og gögn um fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafði að hand­veði á áðurnefndum dögum, sem og ársfjórðungslega síðustu fjögur rekstrarár félagsins og jafnframt gögn um fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafði lánað út með veðkvöð (negative pledge) þar sem hlutabréf voru hin endanlega veðsetta eign í eign­ar­halds­félagi á framangreindum dögum, sem og árs­fjórð­ungs­lega síðustu fjögur rekstrarár félagsins.

Vitnastefnda er hvorki skylt að veita vitnastefnanda gögn um fjárhæð og stöðu lána sem veitt voru Existu hf., Eglu hf. og Kjalari hf. né afrit af öllum skýrslum, sem sendar voru Fjármálaeftirlitinu á árunum 2005-2008, um stórar áhættuskuldbindingar ein­stakra viðskiptamanna eða fjárhags­lega tengdra aðila.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.