Hæstiréttur íslands
Mál nr. 220/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. mars 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. apríl 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að honum verði gert að dvelja á viðeigandi stofnun, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. mars 2016.
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur krafist þess að X, kt. [...]-[...] verði með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. apríl 2016 til kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst kærði þess að verði fallist á gæsluvarðhald verði hann vistaður á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun með vísan til 100. gr. laga nr. 88/2008.
Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum í máli lögreglunnar nr. 319-2016-[...] hafi borist tilkynning frá dyravörðum á skemmtistaðnum [...] kl. 03:36 aðfaranótt laugardagsins 12. mars 2016 um að árásarþoli A, kt. [...]-[...]væri þar í tökum dyravarða. Atvikum hafi verið lýst þannig á vettvangi að A hafi verið laminn af þremur mönnum inni á salerni staðarins á efri hæð. Hann hafi síðar ætlað að veitast að einum þeirra, kærða sem hafi staðið í dyrum veitingastaðarins en dyraverðir hafi stöðvað hann og lagt hann í gólfið. Kærði hafi þá komið þar að inn um bakdyr og sparkað í höfuð hans þar sem hann hafi legið. Þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi árásarþoli enn verið á staðnum en sakborningar á bak og burt. Samkvæmt lýsingum vitna hafi það verið kærði sem hafi sparkað í höfuð árásarþola og hafi hann leitað í kjölfarið til læknis. Læknir hafi haft samband við lögreglu að morgni laugardags og lýst alvarlegum og miklum áverkum árásarþola og miklum höfuðkvölum hans og talið árásina alvarlega. Leitað hafi verið að kærða sem hafi verið handtekinn kl. 13.55 þann 12. mars 2016 en vegna annarlegs ástands hans vegna fíkniefnaneyslu hafi ekki verið mögulegt að ræða við hann fyrr en kl. 13 daginn eftir eða þann 13. mars 2016.
Lögregla hafi hafist handa við að afla gagna í málinu og hluti þeirrar gagnaöflunar hafi verið myndbandsupptökur úr eftirlitsvélum á veitingastaðnum. Við skoðun þeirra sjáist síðari hluti árásarinnar þ.e. þegar kærði stappi ofan á höfði A þar sem hann liggi á gólfi í tökum dyravarða. Kærði hafi verið kominn út af staðnum eftir átökin á salerni en árásarþoli verið innandyra. Dyravörður hafi opnað dyr og verið að tala við kærða þegar árásarþoli hafi komið þar að og ætlað að veitast að kærða með glerbrot í hægri hendi en verið stöðvaður af dyravörðum. Dyraverðir hafi lagt A í gólfið, kærði komið að og virðist hafa komið inn um bakdyr og stappað ofan á höfði A með fæti og sé eftir það lagður í gólfið af dyravörðum.
B, kt. [...]-[...], sem sagður er hafa gengið í skrokk á A á salerni staðarins hafi verið handtekinn kl. 17.10 á laugardag og skýrsla tekin af honum vegna málsins. Skýrsla hafi einnig verið tekin af C, kt. [...]-[...], dyraverði staðarins.
Brotaþoli hafi leitað á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja í nótt til aðhlynningar og fylgi myndir af áverkum þolanda frumskýrslu málsins. Meðfylgjandi sé yfirlit yfir nótu læknisins þar sem miklum áverkum árásarþola sé lýst og er vísað til þess er þar komi fram.
Að mati lögreglunnar í Vestmannaeyjum megi ætla að kærði muni halda áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið og ennfremur leiki rökstuddur grunur á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafi verið sett í skilorðsbundnum dómi. Kærði eigi samfellda brotahrinu og þá aðallega líkamsárásir og fíkniefnalagabrot frá því í maí 2014. Hann hafi hlotið fjóra dóma fyrir slík brot auk þjófnaða, gripdeild og nytjastuld. Þau mál sem séu ódæmd á kærða og hann hafi framið frá 07.06.2015 séu eftirtalin:
Mál nr. 319-2016-[...]
Laugardaginn 12. mars 2016 hafi lögreglu borist tilkynning um líkamsárás á veitingastaðnum [...], samkvæmt vitnum hafi kærði og félagi hans gengið í skrokk á A, kt. [...]-[...] inni á salerni staðarins og kærði stappað ofan á höfði hans og séu til myndbandsupptökur af því atviki. Málið sé rannsakað sem brot gegn 1. mgr. 217. gr. alm. hgl. eða 218 eftir atvikum. Málið sé í rannsókn, þegar beiðni þessi hafi verið send héraðsdómi hafi framburður kærða ekki legið fyrir.
Mál nr. 319-2016-[...]
Laugardaginn 12. mars 2016 kl. 23.24 hafi lögreglu borist tilkynning frá D, kt. [...]-[...], [...] ára dreng um að kærði hafi ætlað að ráðast á hann og vin hans, elt hann á bifreið að heimili hans og eftir að hann hafi farið út úr bílnum hafi kærði elt hann upp tröppur að heimili hans og hótað honum líkamsmeiðingum en D komist undan. Drengurinn hafi upplýst að kærði ætti eitthvað sökótt við vin sinn vegna líkamsárásar gegn honum þann 5. júlí 2015 sem sé mál lögreglu nr. 319-2015-[...] og sé komið í ákærumeðferð. Málið sé á frumstigi rannsóknar.
Mál nr. 319-2016-[...]
Þann 9. janúar 2016 kl. 02.59 hafi lögreglu borist tilkynning um líkamsárás á [...] í Vestmannaeyjum þar sem kærði hafi skallað E, kt. [...]-[...] í andlit af tilefnislausu með þeim afleiðingum að hann hafi fallið aftur fyrir sig og lent á borði sem hafi brotnað við höggið. Árásarþoli hafi hlotið mar og yfirborðsáverka á andlit og rifbeinsbrot. Í vottorði hafi læknirinn sagt hendingu ráða því að brotaþoli hafi ekki hlotið höfuðkúpubrot eða innankúpublæðingu, og að rifbrotið hafi ekki rofið brjósthimnu og valdið áverkum á lunga sem séu lífshættulegir áverkar. Rannsókn málsins sé lokið og teljist málið upplýst með framburðum vitna og myndbandsupptöku úr eftirlitsvél staðarins og varði við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl.
Mál nr. 007-2015-[...]
Þann 30.12.2015 hafi kærði verið stöðvaður við akstur bifreiðar í Hafnarfirði og grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, kærði hafi ennfremur aldrei öðlast ökuréttindi. Þvagsýni kærða hafi gefið jákvæða svörun á THC, AMP, COC og MDMA og hafi hann verið handtekinn í þágu rannsóknar málsins. Málið sé í rannsókn og beðið sé niðurstöðu úr blóðrannsókn.
Þann 10. mars sl. hafi ákæra dags. 24. febrúar 2016 verið þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands en kærði ekki mætt við þingfestingu málsins og hafi ekki gefið upp afstöðu sína við brotunum. Ákært sé fyrir sjö eftirtalin brot:
Mál nr. 319-2016-[...]
Fíkniefnalagabrot með því að hafa 7. janúar 2016 haft í vörslum sínum 3,80 gr. af amfetamíni, 2,98 gr. af kókaíni og 12,92 gr. af maríhúana en efnið hafui fundist við leit lögreglu í hliðarhólfi á svartri íþróttatösku í afgreiðslu Herjólfs í Vestmannaeyjum.
Mál nr. 319-2015-[...]
Fíkniefnalagabrot með því að hafa 2. ágúst 2015 haft í vörslum sínum 1,74 gr. af kókaíni en efnið hafi fundist undir kynfærum ákærða við leit lögreglu við hliðið inn í Herjólfsdal á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Mál nr. 319-2015-[...]
Fíkniefnalagabrot með því að hafa 31. júlí 2015 haft í vörslum sínum 0,99 gr. af kókaíni og 2,03 gr. amfetamín en efnið hafi fundist við leit lögreglu í hægri vasa hans fyrir utan skemmtistaðinn [...], Vestmannaeyjum.
Mál nr. 319-2015-[...]
Tollalagabrot með því að hafa 30. júlí 2015 haft í vörslum sínum 18 töflur af lyfinu Anavar, vefaukandi sterum sem ákærði hafi vitað eða mátt vita að hefðu verið ólöglega flutt til landsins en efnið hafi fundist við leit lögreglu í vasa ákærða. Brotið varði við 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005.
Mál nr. 319-2015-[...]
Líkamsárás þann 5. júlí 2015 þar sem kærði hafi veist að F, kt. [...]-[...], slegið hann hnefahögg í höfuð og skallað hann í andlit með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið eymsli yfir brjóskhluta nefs, eymsli yfir kinnbeinsbrún og yfir mastoid process (fyrir neðan og aftan eyra) vinstra megin og eyrnablöðku, þreifieymsli sitt hvoru megin við miðlínu háls vinstra megin og brot úr ysta enda á tönnum 11 og 41 og mar á tanngóm við tönn 21. Brotið varði við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl.
Mál nr. 319-2015-[...]
Líkamsárás þann 5. júlí 2015 þar sem kærði hafi veist að G, kt. [...]-[...], [...] ára dreng fyrir utan skemmtistað, sparkað hann niður þannig að hann hafi fallið í jörðina og slegið hann hnefahöggum í höfuðið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið kúlu á hægra gagnauga, bólgu á hægra kinnbein, tognun á báðum úlnliðum, tognun á vinstri öxl og mar á vinstra hné. Brotið varði við 1. mgr. 217. gr. alm. hgl. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Mál nr. 319-2015-[...]
Líkamsárás þann 7. júní 2015 fyrir utan skemmtistaðinn [...] þar sem kærði hafi veist að H, kt. [...]-[...], slegið hann hnefahögg í andlit með krepptum hnefa en við árásina hafi H fallið í jörðina og skollið með höfuðið í götuna. Við þetta hafi H hlotið sár í vinstri augnkrók og augabrún þar sem sauma hafi þurft 8 spor, sár á vinstri hlið höku þar sem sauma hafi þurft 5 spor, fleiðrusár á hnakka, sár á nef og bólgu á vinstri ökkla. Brotið varði við 1. mgr. 217. gr. alm. hgl.
Framangreindum brotum samtals 11 talsins sé ólokið í réttarvörslukerfinu en lögreglustjóri telji mögulegt að afgreiða málin hratt og örugglega fyrir dómstólum verði kærði vistaður í gæsluvarðhaldi á meðan þau eru afgreidd. Nauðsynlegt sé að stöðva brotahrinu hans en hann hafi átt samfleytta brotahrinu líkamsárása frá því sumarið 2015. Af ofangreindum 11 brotum séu 5 líkamsárásir, þar af tvær sem varði við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl. og tvö skallabrot. Tvö brot, líkamsárás annars vegar og hótun um líkamsmeiðingar hins vegar, beinist gegn [...] ára börnum og séu auk þess að vera hegningarlagabrot, brot á barnaverndarlögum. Þar líti ennfremur út að kærði sé með háttsemi sinni að reyna að hafa áhrif á vitni í máli sem þegar hafi verið þingfest.
Kærði hafi hlotið fjölmarga refsidóma þrátt fyrir ungan aldur en kærði verði [...] ára gamall þann [...]. Kærði hafi gengist undir viðurlagaákvörðun vegna fíkniefnalagabrots 26.06.2013, hlotið dóm þann 26.05.2014 þar sem refsingu hafi verið frestað fyrir þjófnað, nytjastuld og akstur án ökuréttinda. Þann 17.02.2015 hafi kærði gengist undir sátt vegna fíkniefnalagabrots hjá lögreglustjóranum á Höfuðborgarsvæðinu.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags [...] í máli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 245. gr. alm. hgl. auk fíkniefnalagabrots. Í máli þessu hafi kærði gripið veski ófrjálsri hendi úr bifreið [...] gamals manns sem sat í framsæti bifreiðarinnar og þegar gamli maðurinn hafi elt hann uppi hafi kærði veist að honum, ýtt í andlit hans og legið ofan á honum á meðan þeir hafi tekist á með þeim afleiðingum að gamli maðurinn hafi hlotið yfirborðsáverka á andliti, hnjám, vinstri olnboga, tognun á vinstri baugfingri og hjartaáfall. Ákvörðun refsingar frestað.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags [...] í máli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir þjófnað með því að hafa farið í félagi við annan mann inn í hús um nótt og tekið þar hluti ófrjálsri hendi, kærði hafi verið sýknaður af húsbroti. Ákvörðun refsingar frestað.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands dags [...] í máli nr. [...]/2015 hafi kærði verið ákærður fyrir líkamsárás í félagi við I og B en dæmdur fyrir líkamsárás gegn J, kt. [...]-[...] með því að hafa slegið hann ítrekað í andlit með krepptum hnefum beggja handa og hafi brotið verið heimfært undir 1. mgr. 217. gr. alm. hgl. Kærði hafi hlotið 3 mánaða skilorðsbundinn dóm í 2 ár, dómurinn hafi verið birtur kærða þann 23.09.2015.
Með dómi Héraðsdóm Suðurlands dags [...] í máli nr. [...]/2015 hafi kærði verið dæmdur fyrir fjórar líkamsárásir og fíkniefnalagabrot og hlotið 5 mánaða skilorðsbundinn dóm í 2 ár. Dómurinn hafi verið birtur fyrir kærða 13. mars 2016. Líkamsárásirnar sem kærði hafi verið dæmdur fyrir í þessum dómi hafi verið eftirtaldar:
Mál nr. 319-2015-[...]
Með því að hafa í félagi við I, á veitingastaðnum [...]14.02.2015 ráðist með höggum og spörkum á K, kt. [...]-[...] með því að kærði hafi slegið hann hnefahögg í höfuð og háls og báðir ákærðu sparkað í hann þar sem hann lá. Brotið hafi varðað við 1. mgr. 217. gr. Báðir hafi játað brot sín.
Mál nr. 319-2015-[...]
Líkamsárás 15. febrúar 2015 á skemmtistaðnum [...] ráðist á L, kt. [...]-[...], með því að skalla hann í andlitið og slá hann tvö hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið mar og bjúg í kringum vinstra auga. Brotið hafi varðað við 1. mgr. 217. gr. alm. hgl. og kærði játað brot sitt.
Mál nr. 32-2014-[...]
Líkamsárás 5. júlí 2014 fyrir utan skemmtistaðinn [...] skallað M, kt. [...]-[...], í andlitið með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið bólgur, sár og þreifieymsli. Brotið hafi varðað við 1. mgr. 217. gr. og kærði neitað sök. Aðalmeðferð hafi farið fram í málinu 10.12.2015, 28.12.2015 og 11. febrúar 2016.
Mál nr. 32-2014-[...]
Líkamsárás þann 27. desember 2014 á skemmtistaðnum [...] skallað N, kt. [...]-[...] í andlitið með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið skurð og bólgu neðan við hægra auga. Brotið hafi varðað við 1. mgr. 217. gr. og kærði neitað sök. Aðalmeðferð hafi farið fram í málinu 10.12.2015, 28.12.2015 og 11. febrúar 2016.
Langan tíma hafi tekið að ljúka þessum málum þar sem erfitt hafi verið að ná í kærða og eins og að framan greini hafi þrjár tilraunir verið gerðar til þess að ljúka aðalmeðferð þar sem kærði hafi ekki mætt fyrir dóm þrátt fyrir löglegar boðanir og þrátt fyrir mætingu verjanda hans í öll skiptin. Erfiðlega hafi tekist að ljúka málum sem kærði eigi til meðferðar þar sem erfitt sé að ná í hann og hann mæti ekki þrátt fyrir boðanir.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins kveðst lögreglustjóri telja að skilyrði séu uppfyllt til að úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli c og d- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Þegar litið sé til ástands kærða en hann sé eins og fram komi í upplýsingaskýrslu lögreglu í mikilli neyslu fíkniefna og ýmissa lyfja. Upplýsingar frá móður hans hermi að hann hafi verið í Reykjavík í nokkrar vikur þar sem hann hafi verið í mikilli neyslu og hafi foreldrar hans fengið upplýsingar um það frá íbúum fjölbýlishúss þar sem hann hafi haldið sig hversu alvarlegt ástand hans hafi verið vegna fíkniefnaneyslu. Kærði hafi komið til Vestmannaeyja 9. mars sl. og hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna og lyfja síðan, móðir hans hafi upplýst um að hún skilji hann ekki þegar hann talar vegna vímuástands, hann sé þvoglumæltur og í alvarlega annarlegu ástandi.
Kærði hafi frá upphafi verið uppvís að 11 líkamsárásum, þar af séu þrjár framdar í félagi, tvær þeirra varði við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl. og í fimm tilvikum hafi kærði skallað menn í andlitið að tilefnislausu. Kærði eigi nú 11 málum ólokið í refsivörslukerfinu, hafi þegar hlotið 5 skilorðsbundna dóma þar sem hann hafi ítrekað rofið skilorð. Nú með nýjustu líkamsárásunum frá því 9. janúar 2016 og 12. mars 2016 hafi hann rofið skilorð dóms frá 17.09.2015 þar sem hann hafi hlotið 3 mánaða skilorðsbundinn dóm.
Kærði sé ungur að árum en engu að síður telur lögreglustjóri nauðsynlegt að hann verði vistaður í síbrotagæslu til þess að koma í veg fyrir að hann haldi brotum sínum áfram á meðan málum hans er ekki lokið auk þess sem enginn vafi leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafi verið sett í skilorðsbundnum dómum. Auk þess kveðst lögreglustjóri telja að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum hans enda hafi hann framið slíkan fjölda líkamsárása þar sem háttsemin sé sérstaklega ofbeldisfull, ítrekaðir skallar í andlit, spörk í höfuð liggjandi manna, árásir unnar í félagi, árás gegn [...] ára gömlum manni, tvær þeirra varði við 1. mgr. 218. gr. alm. hgl. og allar séu þær tilefnislausar.
Telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að stöðva afbrot hans og ljúka málum sem hann eigi ólokið auk þess sem nauðsynlegt þyki að verja aðra fyrir árásum hans, sbr. c og d- liðir 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til alls framangreinds, samfelldrar brotahrinu frá því í júní 2015 með fimm líkamsárásum, tveimur gegn 1. mgr. 218. gr., tveimur skallabrotum, tveimur brotum gegn [...] ára börnum, hótun um líkamsmeiðingar, fíkniefnaakstri, þremur fíkniefnalagabrotum og einu tollalagabroti. Kærði beiti jafnan ofbeldisfullum líkamsárásum þar sem alvarleg líkamstjón hafi hlotist af og sé talin nauðsyn að stöðva brotahrinu kærða, klára mál hans fyrir dómstólum og verja aðra fyrir árásum hans, sbr. c og d- liður 1. mgr. 95. gr. sml. með því að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. apríl 2016, kl. 16:00.
Forsendur og niðurstaða
Í þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn kemur fram að kærði hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna undanfarið. Staðfesti kærði þetta við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar og lýsti því að neyslan hafi vaxið hröðum skrefum eftir síðustu áramót.
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa, í janúar og mars á þessu ári, þrívegis framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 sem öll geta varðað hann fangelsisrefsingu, en öll þau ætluðu brot eru framin eftir að kærða var birtur skilorðsbundinn dómur sem hann hlaut 17. september 2015. Þá er kærði auk þess undir rökstuddum grun um allnokkur sérrrefsilagabrot, auk hegningarlagabrota frá sumrinu 2015.
Með vísan til ofangreinds og þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu verður að fallast á það með lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið og að rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, sbr. c lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Eru skilyrði til gæsluvarðhalds samkvæmt nefndu ákvæði uppfyllt. Ekki þykir hins vegar vera unnt að fullyrða að nauðsyn beri til að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að verja aðra fyrir árásum hans.
Varakrafa kærða lýtur að því að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 verður gæsluvarðhaldi ekki markaður lengri tími en 4 vikur í senn. Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 8. apríl 2016 kl. 16:00. Þá hefur kærði krafist þess að dómari mæli fyrir um vistun hans á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun í stað gæsluvarðhalds. Ekkert liggur fyrir um að kærði sé ófær um að sæta gæsluvarðhaldi í fangelsi og ekkert liggur fyrir um að hann geti fengið pláss á meðferðarstofnun, svo sem hann kveðst vilja. Verður þessari kröfu kærða hafnað.
Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. apríl 2016 kl. 16:00.