Hæstiréttur íslands

Mál nr. 220/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 3. apríl 2012.

Nr. 220/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

Y

(Ingi Freyr Ágústsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að Y skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. apríl 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni eða halda sig innan ákveðins svæðis eða á ákveðnum stað, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði Y, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. apríl nk., kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan hafi haft til rannsóknar alvarleg líkamsárásarmál sem kærði sé sterklega grunaður um að eiga aðild að ásamt öðrum nafngreindum mönnum. Umrædd mál séu:

Mál 007-2012-665: Málið varði ætluð brot þeirra X kt.[...], Y kt. [...], A kt.[...], B kt[...], C kt.[...] , D kt. [...], E kt.[...], F kt. [...], G kt.[...] á hendur A, B, C, D, E, F og G fyrir húsbrot, og á hendur öllum fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 4. janúar 2012, ruðst í heimildarleysi inn í íbúðarhús við [...] í [...] og, í félagi, veist þar að H, I og J, sem þar hafi verið staddir og slegið þá ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkama með hættulegum vopnum og bareflum, þ. á m. golfkylfum, plastkylfu, hafnaboltakylfu, handlóðum og tréprikum.

Afleiðingar af árásinni hafi orðið þær að H hafi hlotið þverbrot á hægri sköflungi, brot á hægri hnéskel, 6 cm opinn og gapandi skurð á framanverðum hægri sköflungi, bólgur og mar á hægri fótlegg, úlnliðum og höndum. J hafi hlotið skurð á enni og I hafi hlotið 3 cm, stjörnulaga sár á hnakka, brot á ölnarbol skrapsár á báðum öxlum, stórt mar á upphandlegg vinstra megin, mar á báðum framhandleggjum yfir öln, mar á miðjum framhandlegg og mar á vísifingri hægri handar. Sé háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Mál nr. 007-2012-13402: Málið varði ætluð brot þeirra X kt.[...], Y kt[...], A kt.[...], B kt[...], C kt. [...] fyrir hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung, í félagi, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 14. desember eða aðfaranótt 15. desember 2011, í íbúðarhúsnæði að[...] í [...], ráðist á K og L, sem þar hafi verið staddir, meðal annars með eftirfarandi háttsemi, Y með því að slá K í hnakkann með tréspýtu, rifið í vinstra eyra hans og slegið hann í vinstri kjálkann og að lokum neytt M, sem hafi verið gestkomandi í íbúðinni, til að kasta af sér þvagi yfir höfuð K með því að hafa hótað að beita hann ofbeldi ef hann gerði það ekki. Þá hafi Y slegið L, sem einnig hafi verið staddur í íbúðinni, aftanvert í höfuðið með tréspýtu í stofu íbúðarinnar svo hann hafi fallið í gólfið og þar sem hann hafi legið á gólfinu, í félagi við fleiri, sparkað í bak hans og dregið hann inn á salerni íbúðarinnar þar sem X hafi slegið hann í andlitið og X og Y höfðu í hótunum við hann að senda á hann menn ef hann kærði árásina, með þeim afleiðingum að L hafi hlotið stóran skurð hliðlægt á höfði vinstra megin.háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. og 225 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í framhaldi af handtöku kærða þann 14. mars sl. hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðahald til dagsins í dag á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b- liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga, fyrst með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 15. mars sl., sem hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 171/2012, og síðan með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 21. mars sl., sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 195/2012.

Kærði neiti sök en í öllum þremur málunum liggi fyrir framburðir brotaþola og vitna um þátt kærða og jafnframt séu framburðir brotaþola studdir áverkavottorðum. Þá liggi einnig fyrir framburðir annarra sakborninga um þátt kærða. Í máli 007-2012-665 liggi einnig fyrir upptaka úr öryggismyndavél við [...] og þá hafi fundust ummerki eftir blóð á stofugólfi íbúðarinnar að [...] sem styðji framburð brotaþola. Nánar um framburð brotaþola, vitna og annarra sakborninga sé vísað til meðfylgjandi greinagerðar og gagna málsins.

Rannsókn málanna sé nú lokið og hafi þau verið send Ríkissaksóknara sem hyggst gefa út ákæru á næstu dögum.

Kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um aðild að og að hafa staðið fyrir  framangreindum líkamsárásum þar sem brotaþolar hafi verið m.a. á ófyrirleitinn hátt slegnir í höfuð og líkama með golfkylfum, plastsleggjum og spýtum og látnir kasta þvagi hver yfir annan.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og það sé mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna enda megi sjá á framburði brotaþola, vitna og annarra sakborninga að þeir óttist kærða og meðkærða X mjög og litist framburður þessara aðila af því. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings gengi kærði laus. Brot kærða sé talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem kann að varða fangelsi allt að 16 árum.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála uppfyllt og sé því ítrekuð sú krafa að kærða verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 27. apríl nk., kl. 16:00.

Með vísan til alls þess sem rakið er að framan og gagna málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Enn fremur er fallist á það að brot þau sem kærði er grunaður um að hafa framið séu mjög alvarleg, þannig að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykir fært að beita úrræðum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eða marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma.

Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, Y, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. apríl 2012, kl. 16:00.