Hæstiréttur íslands

Mál nr. 670/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009. 

Nr. 670/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. desember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 18. desember 2009 kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að morgni sunnudagsins 15. nóvember 2009 kl. 04.02 hafi lögreglu borist tilkynning um að fyrir utan húsið að M væru staddir menn með skotvopn. Hafi lögregla haft samband við íbúa í húsinu, A, árásarþola, sem hafi tjáð þeim að búið væri að skjóta á húsið með haglabyssu. Hafi lögregla farið strax á vettvang en þá hafi árásarmenn verið farnir af vettvangi. Skotgöt hafi verið á útihurð og á steindu gleri við hliðina á útihurðinni. Á gagnstéttinni fyrir framan hafi verið fimm tóm haglabyssuskothylki. Þegar lögreglan hafi komið inn í íbúðina hafi komið í ljós að fataskápar og gler í anddyri sem og hurðastafir í innri hurð anddyrisins voru einnig með skotgötum og mátti sjá glerbrot og að minnsta kosti eitt forhlað á gólfi anddyrisins. Brotaþoli og nágranni hans, B, hafi báðir verið inni í íbúðinni og A með hringlaga sár á enninu. Blóðslóð hafi verið á gólfi fyrir innan anddyri og inn á baðherbergið.

Lögreglumenn hafi rætt við brotaþola A á vettvangi og hann greint frá því að bankað hefði verið á útidyrnar og þegar hann hafi opnað hafi grímuklæddur maður með haglabyssu staðið fyrir utan.  Hafi A enga skýringu getað gefið á áverkum sínum. B hafi sagst hafa verið í íbúð sinni á neðri hæð hússins þegar hann hafi heyrt tvo skothvelli og svo eins og bifreið væri verið ekið í burtu. Hafi hann sótt eigin byssu og hlaðið hana og farið upp til að gá að A.

Brotaþoli, A, hafi í skýrslutöku hjá lögreglu borið að hafa umrædda nótt verið að skemmta sér ásamt B, C og D. Eftir að hann hafi verið kominn heim síðar um nóttina hafi verið bankað á útidyrnar, hann farið til dyra og um leið og hann hafi opnað hafi hann séð mann með lambhúshettu og skotvopn. Hafi maðurinn rekið hlaupið á byssunni í ennið á honum. Brotaþoli hafi skellt hurðinni aftur um leið, og svo heyrt byssuhvelli og hafi hann lýst því hvernig ryk, drasl og glerbrot þyrluðust upp í kringum hann. Aðspurður hafi hann sagst hafa verið staddur í anddyri hússins, ekki meira en hálfan metra frá hurðinni, þegar skotin hafi dunið yfir. Hafi hann heyrt þrjá skothvelli. Brotaþoli segist hafa verið í lífshættu umrætt sinn og vera heppinn að vera á lífi. Áverkar brotaþola séu í samræmi við lýsingu hans á atvikum. Ljósmyndir lögreglu sem teknar hafi verið í forstofu hússins og sýni ummerki eftir skot inni í íbúðinni styðji einnig ofangreinda frásögn brotaþola. 

Vitnið, B, hafi í skýrslutöku hjá lögreglu borið að hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld ásamt áðurnefndum mönnum. Þegar heim hafi verið komið hafi hann vaknað við mikla hvelli. Í kjölfarið hafi brotaþoli hringt í hann og sagt honum að einhver væri að skjóta á sig.  B beri að fyrr þetta kvöld hefði E hringt í hann en móðir hennar hefði kært C bakara fyrir kynferðisbrot gegn E (sjá mál lögreglu nr. 007-2009-40481) er E hafi starfað í bakaríinu. Rannsókn hafi verið hætt í málinu. B hafst sagst vita til þess að kærasti E hafi verið ósáttur við C vegna þessa. Hafi E spurt B í símann hvar þeir væru þar sem hún vildi hitta þá.

Kærði hafi í skýrslutöku hjá lögreglu játað að hafa farið í umrætt sinn að M með svarta lambhúshettu, vopnaður skotvopni og að hafa skotið á útidyrnar. Hafi hann borið að hann hafi einungis ætlað að hræða mennina en ekki að skaða neinn. Kærði hafi gefið þær skýringar á áverkum brotaþola að hann hafi stungið hlaupi byssunnar inn um brotinn glugga og þá rekið hlaupið í enni brotaþola. Kærði segist hafa verið mjög reiður þessa nótt. Hann hafi verið búin að drekka mikið áfengi og verið búinn að taka inn stera sem hann hafi tekið reglulega síðustu tvo mánuði í sprautuformi.

Vitnið, F, hafi í skýrslutöku hjá lögreglu borið að hún hafi hitt E og kærða í miðbæ Reykjavíkur umrætt kvöld. Hafi kærði spurt hana um starfsmenn bakarísins, þ.e. B, C, A og D. Hafi kærða verið í nöp við C vegna ætlaðs brots hans gegn E og við B vegna sms skilaboða sem hann hafi sent E. Hafi kærði greint F frá áætlun hans um að eyðileggja eigur C og brjótast inn til B. Hafi E verið í símasambandi við B og sagst vilja hitta hann. Hafi E svo greint kærða frá því að B væri að skemmta sér með þremur öðrum mönnum. Kærði hafi þá sagst þurfa að vera „þungur“ og hafi E samsinnt því. F kvaðst hafa spurt E hvað þetta þýddi og hafi E svarað: „byssur“. Síðar um nóttina hafi hún hitt kærða aftur og hafi hann þá lýst því að hann hafi farið að húsi brotaþola, hann hafi barið á dyr og sköllóttur maður komið til dyra. Hann hafi svo skotið einu skoti á hurðina.

Vitnið G hafi í skýrslutöku hjá lögreglu borið að hún hefði farið heim til E og kærða umrædda nótt að beiðni E. Er kærði hafi komið heim hafi hann sagt frá því að hann hefði farið að heimili mannsins og ekki ætlað að gera neitt. Svo hafi hann séð bíl mannsins sem hefði brotið gegn E fyrir utan húsið. Hafi kærði þá bankað upp á, enginn svarað og kærði þá skotið upp hurðina. Hafi hún spurt kærða hvers vegna hann hefði gert þetta og hafi hann svarað: „Það kemur enginn svona fram við kærustuna mína og kemst upp með það.“

E, sem einnig hafi stöðu sakbornings í málinu, hafi í skýrslutöku hjá lögreglu borið að umrædda nótt hafi hún heyrt kærða segja G frá því að hann hefði farið í M því hann hafi ætlað að tala við B fyrir F. Hafi hann séð bifreið C á staðnum, orðið ósáttur og bankað á efri hæðina til að ná í hann. Sköllóttur maður hafi komið til dyra, kærði slegið manninn með byssunni og einnig skotið úr henni.

Í málinu liggi því fyrir að kærði hafi játað að hafa farið vopnaður að íbúðarhúsi um miðja nótt og skotið af byssu á útidyrnar.  Framburður brotaþola um að kærði hafi vitað af honum innan við dyrnar er skothríðin hófst fái stoð í framburðum E og F og verði að leggja það til grundvallar í málinu. Framburður kærða um atvik verði hins vegar að teljast ótrúverðugur, m.a. um að brotaþoli hafi ekki opnað dyrnar og hvernig brotaþoli hafi hlotið áverka umrætt sinn. Með vísan til alls þess sem hér hafi  verið rakið sé það mat lögreglustjórans að kærði sé undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um tilraun til manndráps með því að hafa umrætt kvöld skotið úr haglabyssu á útidyr og rúðu á heimili brotaþola. Kærði skirrtist ekki við að skjóta þótt langlíklegast væri að brotaþoli væri innan við hurðina og honum hafi því mátt vera ljóst að líftjón gæti hlotist af atlögunni. 

Að mati lögreglustjórans sé kærði því undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem geti varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi.  Verið sé að rannsaka mál þar sem kærði hafi játað að hafa beitt stórhættulegri aðferð gegn brotaþola. Telji lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum sé gefið að sök. Þyki brot kærða vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að hann gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar.

                Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði sé sakaður um, teljist uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, enda geti brotið varðað að lögum 10 ára fangelsi og sé þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi.  

Með úrskurði 16. nóvember sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna allt til kl. 16:00 í dag vegna þess brots sem hér um ræði.

                Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað allt að ævilöngu fangelsi ef sök sannist. Að mati lögreglu sé framkominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem geti varðað 10 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Verjandi kærða kvað að við mat á því hvort skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 væru fyrir hendi, bæði hvað varðar að brot það sem um ræðir geti að lögum varðað 10 ára fangelsi og hvort gæsluvarðhald sé nauðsynlegt vegna almannahagsmuna, beri að líta til þess að hér hafi verið um eitt afmarkað tilvik að ræða og að kærði hafi ekki brotaferil að baki. Verjandinn benti á að í tilgreindum dómum hæstaréttar hefði refsing mest verið dæmd 5 ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Því sé skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki fullnægt.

Eins og rannsóknargögn sýna er fyrir hendi sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem talið er varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Er þess krafist að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 16. nóvember sl. Brot það sem kærði er grunaður um getur varðar allt að 16 ára fangelsi skv. 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er fallist á að gæsluvarðhald kærða sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 um áframhaldandi gæsluvarðhald. Verður því krafa Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 18. desember 2009 kl. 16:00.