Hæstiréttur íslands
Mál nr. 454/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Innsetningargerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um innsetningu í umráð bifreiðarinnar HB A37. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til kaupleigusamnings sem G. Árnason ehf. sem leigutaki og SP-Fjármögnun hf. sem leigusali gerðu 26. nóvember 2007 um fyrrnefnda bifreið. Ágreiningslaust er að aðilar máls þessa hafa tekið við þeim samningi og samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá er bifreiðin skráð á nafn sóknaraðila en varnaraðili skráður umráðamaður hennar. Í samningnum var meðal annars mælt fyrir um að fjárhæð greiðslna leigutaka yrði háð breytingum á gengi tveggja erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Umsamdir gjalddagar voru mánaðarlegir. Breytingar voru gerðar á bílasamningnum 21. október 2008, 23. febrúar 2009 og 12. janúar 2010.
Sóknaraðili endurreiknaði stöðu samningsins með tilliti til þess að ákvæði hans um gengistryggingu hafi verið andstæð lögum og tilkynnti varnaraðila það með bréfi 3. júní 2014 og krafði hann um greiðslu ógreiddra vaxta innan 21 dags frá dagsetningu bréfsins.
Sóknaraðili rifti samningi aðila með yfirlýsingu 12. febrúar 2015 vegna vanefnda og krafðist afhendingar á bifreiðinni. Þá skoraði hann á varnaraðila að greiða gjaldfelldan höfuðstól að fjárhæð 3.771.098 krónur auk vaxta og kostnaðar eða semja um skuldina innan tíu daga. Kom fram í yfirlýsingunni að greiðslur samkvæmt samningnum væru í vanskilum frá 1. ágúst 2014. Yfirlýsingin um riftun og greiðsluáskorun var birt af stefnuvotti á lögheimili varnaraðila 23. febrúar 2015 og degi síðar sendi varnaraðili sóknaraðila bréf þar sem hann mótmælti kröfum þess síðarnefnda.
II
Varnaraðili hefur ekki mótmælt því að hann standi í skuld við sóknaraðila vegna samningsins og að vanskilin hafi varað frá 1. ágúst 2014, heldur telur hann að útreikningur kröfunnar sé rangur án þess að tilgreina að hvaða leyti. Hefur varnaraðili borið því við að hann hafi fengið nafngreindan lögmann til að reikna út eftirstöðvar skuldarinnar og sé mikill munur á þeim útreikningi og endurútreikningi sóknaraðila. Þar sem forsendur útreiknings kröfunnar séu rangar hafi hann ekki getað staðið skil á henni. Tilvísaður útreikningur lögmannsins liggur ekki fyrir í málinu en varnaraðili fór þess á leit í desember 2015 að dómkvaddur yrði maður „í því skyni að leysa úr ágreiningi aðila sem risinn er varðandi fyrrgreindan endurútreikning sóknaraðila á ólögmætu gengistryggðu láni.“ Fór dómkvaðning fram 27. maí 2016 en matsgerð liggur ekki fyrir.
Samkvæmt 1. tölulið 14. grein samnings aðila segir að sóknaraðila sé heimilt að rifta samningnum ef varnaraðili innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt honum á umsömdum gjalddögum og vanskil hafa varað í 45 daga. Þá segir í 1. mgr. 15. greinar hans að sé samningnum sagt upp eða honum rift skuli bifreiðinni skilað á þann stað sem sóknaraðili tiltaki. Eins og rakið hefur verið bera gögn málsins með sér að vanskil hafi varað frá gjalddaga lánsins 1. ágúst 2014 og augljóst að sóknaraðili byggði riftun og kröfu sína um afhendingu bifreiðarinnar á framangreindum ákvæðum samningsins.
Án tillits til þess hvort áðurnefndur útreikningur varnaraðila 3. júní 2014 hafi verið í samræmi við lög og dómaframkvæmd er ljóst að varnaraðili stóð í skuld við sóknaraðila þegar sá síðarnefndi rifti samningi þeirra og var riftunin því lögmæt og ljóst á hverju hún byggðist. Þá verður ekki fallist á að málatilbúnaður sóknaraðila hafi verið til þess fallinn að takmarka möguleika varnaraðila á að halda upp vörnum í málinu. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 fyrir því að umbeðin aðfarargerð nái fram að ganga.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðila, Landsbankanum hf., er heimilt með beinni aðfarargerð að fá bifreiðina HB A37, tekna úr umráðum varnaraðila, Gunnars Árnasonar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2016.
Mál þetta hófst með innsetningarbeiðni sem barst dóminum 19. október 2015. Sóknaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Varnaraðili er Gunnar Árnason, Brekkugötu 14, Hafnarfirði. Sóknaraðili hafði áður krafist innsetningar vegna sama máls þann 13. mars 2015. Það mál var fellt niður vegna útivistar sóknaraðila 16. október 2015.
Sóknaraðili krefst úrskurðar um að honum verði með aðfarargerð veitt umráð bifreiðarinnar HB A37, Land Rover Discovery 3. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila verði hafnað og að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar.
SP fjármögnun sem leigusali og G. Árnason ehf. sem leigutaki gerðu með sér samning um kaupleigu greindrar bifreiðar þann 26. nóvember 2007. Varnaraðili tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á efndum leigutaka samkvæmt samningnum.
Síðar tók sóknaraðili yfir allar eignir SP fjármögnunar 1. janúar 2011.
Samningsverð var 5.295.306 krónur. Leigutími var frá 1. janúar 2008 til 1. desember 2014. Mánaðarleg leigugreiðsla var 73.832 krónur, gengistryggð miðað við gengi tveggja gjaldmiðla.
Samið var um skuldbreytingu þann 21. október 2008 og síðan um aðilaskipti, þann 30. desember 2008, þannig að varnaraðili varð leigutaki í stað G. Árnasonar ehf. Samið var um skilmálabreytingu þann 23. febrúar 2009 og loks var samið um skuldbreytingu þann 12. janúar 2010.
Sóknaraðili lét endurreikna skuld varnaraðila. Tilkynnti hann varnaraðila niðurstöður sínar með bréfi dags. 3. júní 2014. Í bréfinu segir að vegna dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011, 464/2012 og 50/2013 hafi sóknaraðili þurft að endurreikna lánið öðru sinni. Segir að staða lánsins eftir leiðréttingu sé 3.984.989 krónur.
Sóknaraðili rifti samningi aðila með yfirlýsingu dags. 12. júlí 2015. Í riftunaryfirlýsingu er öll skuld varnaraðila sögð hafa verið gjaldfelld og að höfuðstóll hennar nemi 3.771.098 krónum. Sagt er að samningnum sé rift vegna verulegra vanefnda, án frekari útskýringa. Í beiðni er sömuleiðis vísað til vanefnda varnaraðila án útskýringa.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að hann sé eigandi umræddrar bifreiðar. Varnaraðili hafi haft hann á leigu, en vanefnt skyldur sínar svo að samningnum hafi verið rift. Því eigi hann ekki lengur rétt á að hafa vörslur bifreiðarinnar.
Sóknaraðili segir rétt sinn svo skýran að aðför sé heimil samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili segir að skilyrðum laga nr. 90/1989 og nr. 91/1991 sé ekki fullnægt. Hann kveðst mótmæla málatilbúnaði sóknaraðila sem röngum og ósönnuðum.
Varnaraðili vísar til þess að hann hafi þann 10. desember 2015 krafist þess fyrir dómi að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta endurútreikning sóknaraðila á skuld samkvæmt samningnum.
Varnaraðili byggir á því að útreikningur sóknaraðila á skuldinni sé rangur í veigamiklum atriðum. Fjárhæð kröfunnar sé röng og órökstudd. Ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989. Varnaraðili kveðst hafa látið óháðan aðila reikna skuldina og sé mikill munur á hans niðurstöðu og því sem sóknaraðili haldi fram. Mótmælir hann sérstaklega að sóknaraðili geti alls ekki um innborganir á höfuðstól skuldarinnar á árunum 2014 og 2015.
Varnaraðili segir að sér sé gert ókleift að standa skil á skuldinni þar sem forsendur útreikninga sóknaraðila séu rangar í veigamiklum atriðum.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki framkvæmt endurútreikning í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar fjárskuldbindinga í íslenskum krónum. Skuldin hafi ekki verið endurreiknuð af matsmönnum samkvæmt lögum nr. 91/1991.
Varnaraðili mótmælir því að riftun sóknaraðila hafi verið heimil. Segir hann hana ranga og órökstudda. Vísar hann til 14. gr. samnings aðila og almennra reglna kröfuréttar.
Loks byggir varnaraðili á því að fjárkrafa sóknaraðila sé fyrnd samkvæmt lögum nr. 150/2007 og almennum reglum kröfuréttar.
Niðurstaða
Aðilar málsins hafa gerst aðilar að samningi um kaupleigu bifreiðar, sem aðrir gerðu með sér á árinu 2007. Sóknaraðili byggir á því að hann hafi rift samningnum vegna verulegra vanefnda varnaraðila. Varnaraðili eigi ekki rétt á að hafa bifreiðina lengur í sínum vörslum.
Sóknaraðili segir í beiðni sinni að skuld varnaraðila nemi 4.842.362 krónum. Er þar miðað við höfuðstól og áfallna vexti og kostnað þann 19. október 2015, þegar beiðnin var rituð. Sóknaraðili rifti samningnum með yfirlýsingu með heitinu Riftun samnings og greiðsluáskorun, sem var birt varnaraðila þann 23. febrúar 2015. Þar segir að samningnum sé „rift vegna verulegra vanefnda“. Skuldin er þar sögð nema að höfuðstól 3.771.098 krónum, en hann hafi verið gjaldfelldur.
Ekki kemur fram hvenær skuldin var gjaldfelld og samkvæmt hvaða heimild. Þá er ekki ljóst á hvaða vanefndum varnaraðila sóknaraðili vill byggja. Ekki kemur fram í gögnum málsins hvort varnaraðili hafi ekki staðið í skilum með greiðslu leigugjaldsins, eða hvort sóknaraðili hafi vanefnt skyldur sínar á annan hátt. Þess er að gæta að í 14. gr. samningsskilmála sóknaraðila eru vanefndatilvik talin í sex töluliðum. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 16. gr. skilmálanna nemur sú skuld sem hann krefur varnaraðila um þeim leigugreiðslum sem ekki höfðu verið inntar af hendi þegar samningnum var rift, auk leigugreiðslna allt til loka leigutíma. Ekki er unnt að sjá af gögnum málsins hvernig þessi skuld skiptist, eða hvort einhver hluti hennar hafi verið í vanskilum þegar samningnum var rift. Gera hefði þurft skýra grein fyrir þessu í aðfararbeiðni. Mótbárur varnaraðila við riftunarmálsástæðu sóknaraðila eru að sönnu óskýrar, en mótmæli eru höfð uppi. Þar sem ekki segir neitt í beiðni um hvernig varnaraðili á að hafa vanefnt skyldur sínar, er útilokað að haldið verði uppi eðlilegum vörnum. Málið er vanreifað af hálfu sóknaraðila og verður að hafna beiðni hans um aðför, án þess að leyst verði úr öðrum ágreiningi aðila.
Varnaraðili krefst þess sérstaklega að verða sýknaður af kröfum sóknaraðila. Sú krafa kemst ekki að í þessu máli þar sem einungis er leyst úr því hvort aðför sé heimil, en ekki fjallað endanlega um réttmæti fjárkröfu sóknaraðila.
Eftir þessum úrslitum verður að gera sóknaraðila að greiða varnaraðila 175.000 krónur í málskostnað.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Beiðni sóknaraðila, Landsbankans hf., um innsetningu í umráð bifreiðarinnar HB A37 er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Gunnari Árnasyni, 175.000 krónur í málskostnað.