Hæstiréttur íslands
Mál nr. 504/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 11. janúar 2005. |
|
Nr. 504/2004. |
Elsa Ævarsdóttir(Einar Páll Tamimi hdl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
E krafðist þess fyrir dómi að felld yrði úr gildi nánar tilgreind höfnun umhverfisráðuneytisins á umsókn hennar um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Fallist var á með héraðsdómi að ekki yrði litið svo á að tekin hafi verið sú ákvörðun, sem dómkrafa E laut að. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála var málinu vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður, en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Í héraðsdómsstefnu krafðist sóknaraðili þess að felld yrði úr gildi „höfnun umhverfisráðuneytisins í bréfi dags. 2. maí 2000, á umsókn hennar, mótt. 30. nóvember 1999, um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar“, svo og málskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að ekki verði litið svo á að tekin hafi verið sú ákvörðun, sem dómkrafa sóknaraðila lýtur að. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Elsa Ævarsdóttir, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2004.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 6. ágúst sl. og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 22. nóvember sl.
Stefnandi er Elsa Ævarsdóttir, Miðbraut 11, Seltjarnarnesi. Stefndi er umhverfisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Skuggasundi 1, Reykjavík.
Í þessum þætti málsins gerir stefndi þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi og honum dæmdur málskostnaður, en ella verði ákvörðun um málskostnað látin bíða efnisdóms.
Stefnandi krefst þess að kröfu stefnda verði hrundið og honum dæmdur málskostnaður.
I.
Málsatvik
Atvikum málsins er lýst í dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2003 í máli nr. 422/2003 og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2003. Eins og þar greinir nánar sótti stefnandi um löggildingu til umhverfisráðuneytisins 30. nóvember 1999 til að mega gera uppdrætti samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Óumdeilt er í málinu að umsókn stefnanda hafi annars vegar beinst að löggildinu fyrir aðaluppdrætti samkvæmt 1. mgr. 49. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hins vegar löggildingu fyrir séruppdrætti samkvæmt 4. mgr. sömu greinar, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 4/2000. Með bréfi ráðuneytisins 2. maí 2000 var stefnanda veitt löggilding til að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar, en ekkert kom þar fram um afstöðu ráðuneytisins til beiðni hennar um löggildingu til að gera aðaluppdrætti. Áður hafði ráðuneytið aflað umsagnar frá Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI) þar sem mælt var með því að stefnanda yrði veitt löggilding „til að leggja aðaluppdrætti á fagsviði innanhússarkitekta, sem og innanhússuppdrætti, fyrir rétt yfirvöld“.
Hinn 19. mars 2003 höfðaði stefnandi mál gegn stefnda og gerði sömu efnislegu kröfu og hann gerir í þessu máli, þ.e. „að felld verði úr gildi með dómi höfnun umhverfisráðuneytisins í bréfi dags. 2. maí 2000, á umsókn hennar, mótt. 30. nóvember 1999, um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar.“ Í framangreindum dómi Hæstaréttar er vísað til þess að í bréfi ráðuneytisins hafi í engu verið vikið að umsókn stefnanda um löggildingu til að gera aðaluppdrætti. Skýr afstaða ráðuneytisins um að hafna erindi stefnanda um slíka löggildingu liggi því ekki fyrir þótt fallast megi á að sjónarmið þess hafi með óbeinum hætti komið fram í bréfi 2. mars 2000 til Félags húsgagna- og innanhússhönnuða þegar leitað var eftir umsögn félagsins. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins staðfest með þessum rökum.
Í framhaldi af dómi Hæstaréttar ritaði stefnandi umhverfisráðuneytinu bréf 15. nóvember 2003 og óskaði eftir nánari skýringum á afstöðu ráðuneytisins. Með bréfi 12. mars 2004 svaraði umhverfisráðuneytið bréfi stefnanda. Í niðurlagi bréfsins segir eftirfarandi: „Með framangreindu bréfi ráðuneytisins, dags. 2. maí 2000, var máli umbjóðanda yðar lokið og þar með fram komin afstaða til erindisins. Fallist var á að veita umbjóðanda yðar löggildingu til að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar en ekki var fallist á að veita henni löggildingu til að gera aðaluppdrætti.“ Stefnandi taldi að með svari umhverfisráðuneytisins hefðu verið tekin af öll tvímæli um þá afstöðu ráðuneytisins að umsókn stefnanda um löggildingu til að gera aðaluppdrætti hefði verið synjað. Höfðaði hann því mál þetta með sömu efnislegu kröfu og í því máli sem lyktaði með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Efniskröfur sínar reisir stefnandi sem fyrr einkum á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og 65. og 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. og 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Er ekki ástæða til að greina nánar frá efnishlið málsins.
II.
Málsástæður og lagarök aðila í þessum þætti málsins
Stefndi reisir kröfu sína um frávísun málsins á því að vísa beri málinu frá dómi af sömu ástæðum og gert var í áðurgreindum dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2003. Hvergi komi fram í dómi Hæstaréttar að stefnandi hafi sótt um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar eða að slíkri umsögn hafi verið hafnað. Komi ekkert nýtt fram í bréfi ráðuneytisins sem ekki hafi verið ljóst áður. Ósamræmi milli kröfu og málatilbúnaðar stefnanda og þeirrar ákvörðunar sem krafist sé ógildingar á sé því enn fyrir hendi og standi þannig forsendur Hæstaréttar fyrir frávísun málsins óhaggaðar.
Stefndi byggir einnig á því að sakarefni málsins sé sprottið af aðstöðu og skilgreiningum sem löggjafinn hafi ekki tekið afstöðu til eða fram komi í lögum. Ekki hafi verið hægt að veita löggildingu þess efnis sem stefnandi virðist vilja fá viðurkennt, þ.e. löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Sakarefnið sé þannig ímyndað og eigi sér ekki stoð í reglum um löggildingu innanhússarkitekta. Beri að vísa málinu frá með vísan til 24. og 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá liggi ekki fyrir bein ákvörðun stefnda um að synja um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Telur stefndi að vísa eigi málinu frá með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 af þessum sökum. Að lokum telur stefndi að málið sé vanreifað. Hvorki í stefnu né öðrum gögnum málsins sé útskýrt hvað stefnandi telji að felist í „löggildingar til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar“. Þá sé í stefnu að finna ýmsar vangaveltur um afstöðu félaga og baráttu milli þeirra sem engan veginn geti staðið í tengslum við gerðar dómkröfur.
Eins og áður greinir telur stefnandi að með svari umhverfisráðuneytisins 12. mars 2004 hafi verið tekin af öll tvímæli um þá afstöðu ráðuneytisins að umsókn stefnanda um löggildingu til að gera aðaluppdrætti hafi verið synjað. Ekkert tilefni hafi því verið til breytinga á stefnukröfum frá fyrra máli aðila, sem áður greinir. Stefnandi skýrir kröfugerð sína þannig að hann telji að umhverfisráðuneytinu hafi verið óheimilt að synja umsókn stefnanda að öllu leyti. Hafi umhverfisráðuneytið þannig gengið lengra en því var heimilt samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Stefnandi hafi þannig einungis ætlast til þess að fá löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar, en orðið að sækja um löggildingu til að gera alla aðaluppdrætti vegna þess hvernig umsóknareyðublaði umhverfisráðuneytisins var háttað. Þannig sé ekki deilt um hvort ráðuneytinu hafi verið heimilt að synja umsókn stefnanda nema að því er varðar aðaluppdrætti sem falla innan sviðs innanhússhönnunar.
III.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir að með umsókn 30. nóvember 1999 sótti stefnandi annars vegar um löggildingu til að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar samkvæmt 4. mgr. 49. gr. laga nr. 73/1997 skipulags- og byggingarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 4/2000, en hins vegar til að gera aðaluppdrætti samkvæmt 1. mgr. sömu greinar. Í dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2003 var talið að skýr afstaða umhverfisráðuneytisins, um að hafna erindi stefnanda um löggildingu til að gera aðaluppdrætti, lægi ekki fyrir og var málinu vísað frá héraðsdómi af þeim sökum. Tekið er undir það með stefnanda að með áðurgreindu bréfi umhverfisráðuneytisins 12. mars 2004 hafi ráðuneytið skýrt afstöðu sína að þessu leyti, en í niðurlagi bréfsins kemur ótvírætt fram að í bréfi ráðuneytisins 2. maí 2000 hafi ekki verið fallist á að veita stefnanda löggildingu til að gera aðaluppdrætti svo sem hann hafði sótt um. Við úrlausn málsins verður þannig lagt til grundvallar að 30. nóvember 1999 hafi stefnandi meðal annars sótt um löggildingu til að gera aðaluppdrætti samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga nr. 73/1997 og hafi umhverfisráðuneytið synjað þessari umsókn stefnanda með bréfi 2. maí 2000.
Efnislegar kröfur stefnanda í máli þessu eru ekki þær að felld verði úr gildi synjun umhverfisráðuneytisins við beiðni stefnanda um löggildingu til að gera aðaluppdrætti og viðurkennd verði skylda ráðuneytisins til að veita stefnanda slíka löggildingu á öðru og takmarkaðra sviði, þ.e. „á sviði innanhússhönnunar“. Þvert á móti krefst stefnandi þess „að felld verði úr gildi höfnun umhverfisráðuneytisins í bréfi dags. 2. maí 2000, á umsókn [hans], mótt. 30. nóvember 1999, um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar“. Af útskýringum stefnanda á ætluðu inntaki „löggildingar til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar“ er ljóst að stefnandi lítur svo á að hér sé um að ræða löggildingu sérstaks eðlis sem sé ekki afmörkuð sérstaklega með settum lagareglum. Nánar tiltekið telur stefnandi að skipta megi löggildingu til að gera aðaluppdrætti upp í einstök undirsvið og sé innanhússhönnun eitt slíkra undirsviða. Dómari lítur til þess að af málatilbúnaði stefnanda verður hvorki ráðið að stefnandi hafi sótt um „löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar“, eftir atvikum með nánari rökstuðningi eða útskýringum á inntaki slíkrar löggildingar, né að beiðni um slíka löggildingu hafi beinlínis verið hafnað með áðurgreindu bréfi ráðuneytisins 2. maí 2000. Samkvæmt þessu telur dómari ekki unnt að líta svo á að í ákvörðun umhverfisráðuneytisins 2. maí 2004 hafi falist synjun við því að veita stefnanda „löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar“. Verður því ekki séð að umhverfisráðuneytið hafi tekið þá stjórnvaldsákvörðun sem stefnandi krefst að verði felld úr gildi. Standa því eftir vangaveltur stefnanda um líklega afstöðu ráðuneytisins til hugsanlegrar beiðni stefnanda um að öðlast „löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar“.
Dómstólar eru til þess bærir samkvæmt 2. gr. og 1. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, að skera úr um gildi stjórnvaldsákvarðana. Eðli málsins samkvæmt geta dómstólar hins vegar ekki skorið úr um gildi ákvarðana sem ekki hafa verið teknar af stjórnvöldum og kunna aldrei að verða teknar. Krafa stefnanda í máli þessu beinist að gildi stjórnvaldsákvörðunar sem aldrei hefur verið tekin, enda þótt hún kynni að hafa verið tekin, ef umsókn stefnanda hefði verið með öðrum hætti. Er það álit dómara að kröfugerð stefnanda sé að þessu leyti beiðni um álit á lögfræðilegu efni og þar með andstæð 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður málinu af þessum ástæðum vísað frá dómi.
Í ljósi atvika og aðdraganda málsins verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnda flutti málið Einar Karl Hallvarðsson hrl.
Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Páll Tamimi hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.