Hæstiréttur íslands

Mál nr. 25/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


           

Mánudaginn 24. janúar 2000.

Nr. 25/2000.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarki H. Diego hdl.)

                                              

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var undir rökstuddum grun um umfangsmikil tollalagabrot. Var X gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 26. janúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 20. janúar 2000. Hann krefst þess að gæsluvarðhald yfir varnaraðila standi allt til 28. janúar nk. kl. 16.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa með skipulögðum hætti framið umfangsmikil tollalagabrot við innflutning bifreiða um nokkurt skeið. Af gögnum málsins má ráða að nokkrir aðrir kunni að hafa komið að þessum innflutningi, en eftir er að rannsaka frekar þeirra þátt í því, auk þess að kanna verulegan fjölda skjala, sem hald hefur verið lagt á. Má fallast á að hætta sé á að varnaraðili geti torveldað rannsókn ef hann fer frjáls ferða sinna. Er þannig fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Verður því markaður tími til föstudagsins 28. janúar nk. kl. 16.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. janúar 2000 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2000.

Ár 2000, þriðjudaginn 18. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.

Ríkislögreglustjórinn hefur krafist þess að X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 28. janúar nk. kl. 16.00, vegna gruns um brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 126. gr. tollalaga nr. 55,1987.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði synjað, en til vara, verði orðið við henni, að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. 

Ljóst er af gögnum málsins að þegar hefur farið fram umfangsmikil rannsókn á innflutningi þeirra bifreiða sem áður greinir.  Rannsóknin er þó eigi að síður enn á frumstigi.  Að kærða frátöldum hafa engar skýrslutökur átt sér stað af mönnum hér á landi sem sýnast tengjast málinu, en nauðsyn ber til að þeir verði yfirheyrðir.  Þá er og ljóst að frekari gagnaöflun þarf að fara fram auk úrvinnslu þeirra gagna sem haldlögð voru.  Þegar allt framanritað er virt þykja vera komnar fram nægar ástæður til að verða við kröfu ríkislögreglustjórans um gæsluvarðhald yfir kærða.  Verður kærða samkvæmt því og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991,  gert að sæta gæslu­varðhaldi, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. janúar nk. kl. 16.00.

Júlíus B. Georgsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 26. janúar nk. kl. 16.00.