Hæstiréttur íslands
Mál nr. 210/2017
Lykilorð
- Ökutæki
- Líkamstjón
- Slysatrygging ökumanns
- Skaðabætur
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Arngrímur Ísberg héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hann nýtur hér fyrir dómi.
I
Samkvæmt gögnum málsins mun stefndi hafa keypt 29. maí 2014 sex ára gamalt torfæruvélhjól af gerðinni […] með skráningarnúmeri […] og voru eigendaskipti skráð í ökutækjaskrá 4. júní sama ár. Stefndi keypti hjá áfrýjanda 3. júní 2014 lögboðnar vátryggingar vegna vélhjólsins, þar á meðal slysatryggingu ökumanns. Mun stefndi áður hafa átt annað viðlíka vélhjól, sem hann hafi látið af hendi ásamt milligjöf í skiptum fyrir það fyrrnefnda, en ekkert liggur fyrir um hvar eldra vélhjól stefnda hafi verið vátryggt.
Í málinu hefur verið lögð fram útskrift úr sjúkraskrá stefnda, sem nær frá miðju ári 2013 fram til janúar 2015. Þar verður meðal annars séð að stefndi hafi í mars 2014 leitað til læknis á heilsugæslunni […] vegna verkja í vinstri hné, en röntgenmynd af því hafi ekkert leitt óeðlilegt í ljós. Næst hafi stefndi komið 8. september 2014 á sömu heilsugæslu til læknis, sem færði þá meðal annars eftirfarandi í sjúkraskrána: „Verkur í hnjám. 2012 hnéskel úr lið. Lenti svo í motorhjólaslysi fyrir nokkrum mánuðum síðan. Er aumur nú í báðum hnjám. Verkur þegar hann er að hlaupa. Sk – Aðeins vökvi. Mikill verkur við fulla flexion.“ Þess var getið að fengin yrði segulómunarrannsókn á hnjám stefnda. Af sjúkraskránni verður ráðið að sú rannsókn hafi farið fram 10. september 2014 og niðurstöður fengist úr henni 12. sama mánaðar. Þær hafi verið samhljóða varðandi bæði hnén og lýst þannig að „eðlilegt signal“ væri frá beini, enginn aukinn vökvi væri í liðum og væru liðþófar, krossbönd og „önnur hné ligament“ heil.
Stefndi fyllti út 2. desember 2014 eyðublað frá áfrýjanda um tjónstilkynningu vegna umferðarslyss, sem hann kvaðst hafa orðið fyrir „ca 10. júní“. Kom þar fram að slysið hafi orðið í Bolöldu á eftirfarandi hátt: „Var á krossara, datt og meiddist á hné.“ Lögregla hafi ekki komið á vettvang, en sjónarvottur að slysinu hafi verið B. Merkt var í viðeigandi reiti á eyðublaðinu að stefndi teldi engan annan bera ábyrgð á slysinu og hafi hann hvorki verið undir áhrifum áfengis né lyfja. Stefndi hafi leitað eftir læknismeðferð vegna slyssins „ca 20. júní 2014 ... fyrst á LSH svo á Heilsug. […] svo til sérfræðings“, sem væri nafngreindur bæklunarskurðlæknir. Um afleiðingar slyssins sagði að komið hafi í ljós eftir „ítarlegar rannsóknir ... slitið krossband á hné (hægra)“. Stefndi hafi ekki orðið óvinnufær vegna slyssins, en það myndi hafa áhrif á tekjur hans á tímabilinu frá janúar til mars 2015, sem yrði skýrt síðar. Samhliða þessari tilkynningu undirritaði stefndi umboð handa áfrýjanda til gagnaöflunar, þar á meðal til að leita upplýsinga og gagna frá læknum og sjúkrastofnunum.
Á grundvelli framangreinds umboðs aflaði áfrýjandi vottorða frá heilsugæslunni […] og áðurnefndum bæklunarskurðlækni. Í vottorði heilsugæslunnar 12. desember 2014 var greint frá upplýsingum, sem þar hafi legið fyrir um „slys sumarið 2014 án dagsetningar“, og voru það þær sömu og fram komu í færslum í sjúkraskrá, sem áður var getið. Í vottorði bæklunarskurðlæknisins 17. mars 2015 kom meðal annars fram að stefndi væri 19 ára að aldri, hann legði stund á nám við tiltekinn framhaldsskóla og hafi unnið á […] samhliða því. Hafi stefndi leitað til læknisins 25. nóvember 2014 „vegna afleiðinga slyss sem hann varð fyrir 06.06.2014.“ Að sögn stefnda hafi slysið orðið á þann hátt að „hann keyrði torfærumótorhjól á braut við Bolöldu“, hann hafi dottið þar „líklega á 70-80 km hraða“ og strax fengið verki í hægra hné, en ekki meiðst að öðru leyti. Hann hafi leitað á slysadeild daginn eftir slysið, en þar hafi honum verið tjáð að „það væri um það bil sólarhrings bið eftir skoðun“. Með því að stefndi hafi ekki verið sárþjáður hafi hann ákveðið „að panta sér tíma á Heilsugæslunni […] og var skoðaður þar einhverjum dögum síðar.“ Hann hafi þá verið „með mjög bólgið hné“ og hafi segulómunarrannsókn á því farið fram 10. september 2014. Hafi sú rannsókn verið „upprunalega metin neikvæð m.t.t. áverka.“ Stefndi hafi unnið um sumarið í stálsmiðju og við leiðsögn við laxveiðar. Hann hafi ekki misst úr vinnu vegna slyssins, en samt verið „alltaf með verki í hnénu“, sem honum hafi fundist gefa eftir. Þegar stefndi hafi komið til læknisins 25. nóvember 2014 hafi sá síðarnefndi skoðað segulómunarmyndirnar, sem teknar voru 10. september sama ár, og fundist „eins og fremra krossbandið sé slitið“. Hafi hann haft „samband við röntgenlækni í Domus Medica sem skoðar myndirnar upp á nýtt og kemur í ljós að krossbandið er greinilega slitið.“ Vegna þessa hafi stefndi gengist undir „enduruppbyggingaraðgerð“ á krossbandi í hægra hné hjá bæklunarskurðlækninum 21. janúar 2015. Stefndi hafi síðan verið í þjálfun og „allur framgangur eðlilegur“, en endurhæfing við aðstæður sem þessar tæki oft um níu mánuði til þess að sjúklingur kæmist „á sama stað og hann var fyrir slysið.“ Stefndi hafi ekki misst úr vinnu eftir slysið, en það hafi hann á hinn bóginn gert um fjögurra vikna skeið vegna aðgerðarinnar. Teldi læknirinn að stefndi myndi ná sér að fullu.
Áfrýjandi tilkynnti stefnda 25. mars 2015 að hafnað væri bótaskyldu úr lögboðinni ökutækjatryggingu sökum þess að ósönnuð væru orsakatengsl milli ætlaðs slyss stefnda og þeirra meiðsla hans, sem greint væri frá í læknisfræðilegum gögnum. Vísaði áfrýjandi sérstaklega til þess að stefndi leitaði „sannanlega ekki til læknis fyrr en 08.09.2014 eða þremur mánuðum eftir meint slys.“ Stefndi óskaði eftir því með bréfi 4. júní 2015 að áfrýjandi endurskoðaði þessa afstöðu sína á grundvelli þriggja vottorða, sem stefndi hafi aflað. Var þar í fyrsta lagi um að ræða vottorð B, sem kvaðst hafa verið með stefnda „þegar hann datt á hjólinu sínu ... í byrjun júní 2014 í Bolöldu“, en stefndi hafi „greinilega meitt sig illa í hnénu og var mjög kvalinn“ og hafi þeir haldið heim í framhaldi af því. Í öðru lagi var vottorð frá móður þáverandi kærustu stefnda, sem lýsti því að hann hafi komið á heimili hennar eftir mótorhjólaferð með vinum sínum, þar sem hann hafi dottið og meitt sig illa. Hún hafi sent stefnda á bráðamóttöku, þar hafi verið löng bið og hann því komið aftur, en hann hafi farið „nokkru seinna á Heilsugæsluna […] þar sem hann var skoðaður.“ Í þriðja lagi var vottorð frá manni, sem kvaðst hafa unnið með stefnda sumarið 2014, en stefndi hafi sagt honum í júní á því ári að hann hafi „dottið illa í Bolöldubrautinni við litlu kaffistofuna og meitt sig á hné.“ Hafi sést greinilega að stefndi væri meiddur, hann hafi kveinkað sér af og til og verið haltur allt sumarið. Áfrýjandi tilkynnti stefnda 25. júní 2015 að fyrri afstaða sín til bótaskyldu stæði óbreytt. Höfðaði stefndi því mál þetta 16. desember sama ár og krafðist þess að viðurkennd yrði bótaskylda áfrýjanda vegna tjóns stefnda af völdum umferðarslyss, sem hann hafi orðið fyrir 6. júní 2014. Með hinum áfrýjaða dómi var sú krafa tekin til greina.
II
Við úrlausn málsins er þess að gæta að sem fyrr segir var lögregla ekki kvödd á vettvang slyssins, sem stefndi kveðst hafa orðið fyrir 6. júní 2014 við akstur á torfæruvélhjóli sínu við Bolöldu skammt frá Suðurlandsvegi austan við Sandskeið, en þar mun vera aðstaða fyrir svonefndar akstursíþróttir í torfærum. Eins og málið liggur fyrir virðast ekki aðrir hafa verið staddir á vettvangi en stefndi og félagi hans B. Lýsing þeirra fyrir dómi á nánari atvikum að slysinu var um margt óljós, en stefndi kvað þá B hafa tekið hringi á akstursbraut og undir lok þess hafi hann misst stjórn á hjóli sínu á moldarhólum, dottið og fundið strax fyrir verkjum „í löpp“. Hafi hann þá ekið á um 50 til 60 km hraða á klukkustund, en eins og áður var getið hafði fyrrnefndur bæklunarskurðlæknir eftir stefnda í vottorði sínu að hraðinn hafi verið á milli 70 og 80 km á klukkustund. Ekki hefur komið fram hvar þetta hafi nákvæmlega gerst á svæðinu fyrir torfæruakstur. Skortir því mjög á að unnt sé að meta hvort stefndi hafi sýnt nægilega aðgæslu við akstur, en á það ber áfrýjandi brigður og getur ekki annar en stefndi borið af því halla. Verður jafnframt að líta til þess að gögn málsins bera ekki annað með sér en að stefndi hafi fyrst leitað til læknis vegna meiðsla, sem hann kveðst hafa hlotið í þessu slysi, rúmum þremur mánuðum síðar eða 8. september 2014, en eins og ráðið verður af áðursögðu greindi stefndi ranglega frá þessu bæði í tjónstilkynningu til áfrýjanda og frásögn, sem bæklunarskurðlæknir hafði eftir honum í vottorði sínu. Þrátt fyrir þetta báru vitni, sem stefndi leiddi fyrir dóm, að hann hafi kvartað undan verkjum og eftir atvikum gengið haltur allt frá því að atvik þetta hafi gerst. Stefndi tilkynnti ekki áfrýjanda um ætlað tjón fyrr en 2. desember 2014, þegar liðið var nærri hálft ár frá því að hann kveður slysið hafa orðið, en ekkert hefur komið fram um að hann hafi leitað á því stigi eftir lögreglurannsókn á slysinu þótt um síðir væri. Öll þessi atriði leiða af sér óvissu um hvort fullnægt sé skilyrðum fyrir bótaskyldu áfrýjanda, en fyrir því ber stefndi sönnunarbyrði.
Án tillits til þess, sem nú hefur verið getið, er til þess að líta að þegar stefndi leitaði loks til læknis 8. september 2014 var sem áður greinir haft eftir honum að hann hafi orðið fyrir slysi á vélhjóli „fyrir nokkrum mánuðum síðan“ og í tjónstilkynningu til áfrýjanda 2. desember sama ár sagði að þetta hafi gerst „ca 10. júní“. Í vottorði bæklunarskurðlæknisins var á hinn bóginn í fyrsta sinn haft eftir stefnda að slysið hafi orðið 6. júní 2014 og hefur verið byggt á því í málatilbúnaði stefnda, þar á meðal í dómkröfu hans, svo og í aðilaskýrslu hans fyrir dómi. Fyrrverandi kærasta stefnda bar fyrir dómi að hann hafi orðið fyrir slysinu 6. júní 2014, en nánar spurð um hvernig hún gæti verið fullviss um þá dagsetningu svaraði hún: „Ég man bara eftir að þetta gerðist í byrjun júní, eftir mína útskrift. Ég útskrifaðist 30. maí.“ Fyrir dómi kvað móðir hennar atvikið hafa gerst í júní 2014, en ekki minntist hún hvenær það hafi nánar verið í þeim mánuði. Faðir stefnda sagðist í vitnaskýrslu ekki muna nákvæmlega hvenær slysið hafi orðið, en stefndi hafi keypt vélhjólið í lok maí 2014 og hafi þetta gerst „fljótlega eftir það ... kannski viku síðar.“ B, sem var að eigin sögn og eftir framburði stefnda á vettvangi þegar slysið á að hafa orðið, sagði fyrir dómi að þetta hafi gerst 6. júní 2014, en það styddi hann við að hann væri „með Facebookfærslu þennan dag“ og hafi hann verið „bara að finna það áðan.“ Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi lagt fram svonefnda „útprentun af facebook síðu [B]“. Samkvæmt því, sem þar kemur meðal annars fram, færði B á þessa síðu upplýsingar 5. júní 2014 um að hann væri þá á förum frá Keflavíkurflugvelli til Palma de Mallorca á Spáni og verður ekki annað séð af öðrum færslum á síðunni en að hann hafi enn verið erlendis 17. sama mánaðar. Ekki var þar minnst á nokkuð, sem að öðru leyti gæti tengst atvikum þessa máls. Að þessu virtu getur ekki staðist að stefndi hafi orðið fyrir slysi 6. júní 2014 á þann hátt, sem hann hefur byggt á í málinu, en eftir áðurgreindum framburði fyrrverandi kærustu hans og föður verður jafnframt að miða við að það gæti heldur ekki hafa verið eftir 17. sama mánaðar. Veldur þetta ekki aðeins óvissu um hvort ætlað slys geti hafa orðið eftir að vátrygging stefnda hjá áfrýjanda tók gildi 3. júní 2014, heldur varpar þetta einnig í þeim mæli rýrð á trúverðugleika alls málatilbúnaðar stefnda að óhjákvæmilegt er að sýkna áfrýjanda af kröfu hans.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verður látinn falla niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda verður látið standa óraskað, en um þann kostnað hans hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfu stefnda, A.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefnda skal vera óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður hans fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 700.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2017.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 21. nóvember sl., var höfðað fyrir dómþinginu af A, […], á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., með stefnu áritaðri um birtingu 16. desember 2015.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði bótaskylda stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., úr slysatryggingu ökumanns hjá stefnda, á tjóni stefnanda vegna umferðarslyss sem hann lenti í 6. júní 2014. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og máið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Stefnandi kveður málavexti vera þá að hann hafi, hinn 6. júní 2014, verið staddur á skipulögðu mótorkrosssvæði í Bolöldu í Jósepsdal ásamt félaga sínum, B. Stefnandi hafi ekið nokkra hringi á mótorkrossbraut svæðisins er hann hafi skyndilega misst stjórn á bifhjóli sínu nr. […] með þeim afleiðingum að hann hafi fallið af bifhjólinu og fengið þungt högg á hægra hnéð. Stefnandi kveðst samstundis hafa kennt til í hægra hnénu og hafi í kjölfarið snúið heim, þar sem verkirnir hafi haldið áfram að aukast.
Daginn eftir, 7. júní 2014, hafi stefnandi kennt svo mikið til í hnénu að hann hafi leitað á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Þar hafi stefnanda verið tjáð að sólarhringsbið væri eftir læknisaðstoð og hafi hann því farið heim en í kjölfarið pantað tíma hjá lækni á Heilsugæslunni […]. Eftir beiðni heimilislæknis við Heilsugæsluna […] hafi stefnandi verið sendur í segulómunarrannsókn hinn 10. september 2014. Sú rannsókn hafi ranglega leitt í ljós að ekki væri um neina varanlega ákverka að ræða á hægra hné stefnanda líkt og stuttlega sé reifað í læknisvottorði C heilsugæslulæknis. Í því vottorði kemur fram að árið 2012 hafi hnéskel stefnanda farið úr lið. Sá atburður hafi átt sér stað í fótboltaleik og hafi leitt til tjóns á hnéskel vinstri fótar líkt og fram komi í læknabréfi D frá 31. maí 2012.
Um haustið 2014 hafi stefnandi haldið áfram að finna fyrir miklum verkjum í hægra hné ásamt máttleysi. Hann hafi fundið fyrir greinilegum einkennum um óstöðugleika og hafi reglulega misst mátt í hægri fæti.
Stefnandi fór í læknisskoðun hjá E 25. nóvember 2014 og var það mat hans að fremra krossband í hægra hné væri slitið. Í kjölfarið voru myndir úr segulómskoðuninni frá 10. september 2014 skoðaðar að nýju og kom í ljós að krossbandið hefði þá verið slitið.
Stefnandi fór í framhaldinu í aðgerð á hnénu hinn 21. janúar 2015. Stefnandi kveðst hafa misst fjórar vikur úr vinnu eftir aðgerðina, en hann hafi unnið í hlutastarfi í […]. Stefnandi var í sjúkraþjálfun frá því að aðgerðin var gerð og fram á haust 2015.
Stefnandi tilkynnti stefnda um slysið 2. desember 2014. Stefndi hafnaði greiðsluskyldu úr slysatryggingu ökumanns í tölvuskeyti til stefnanda 25. mars 2015, á þeim grundvelli að skortur væri á gögnum sem sýndu nægilega fram á orsakatengsl milli bifhjólaslyssins og líkamstjóns stefnanda.
Stefnandi aflaði í kjölfarið frekari gagna í því skyni að sýna fram á orsakatengsl og óskaði í framhaldinu eftir að stefndi endurskoðaði afstöðu sína til bótaskyldunnar. Stefndi hafnaði bótaskyldu í tölvuskeyti til stefnanda, dagsettu 25. júní 2015, með sömu rökum.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi beri ábyrgð á slysi sem hann hafi orðið fyrir hinn 6. júní 2014. Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi á þeim tíma verið tryggður lögboðinni slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga hjá stefnda og hafi sú trygging verið keypt hjá stefnda. Stefnandi hafi fallið af bifhjóli sínu, sem verið hafi í gangi og á ferð, þ.e. í notkun samkvæmt skilgreiningu 88. gr. umferðarlaga. Við slysið hafi stefnandi orðið fyrir líkamstjóni. Hann hafi hvorki verið undir áhrifum áfengis né annarra vímugjafa eða hafi hann viðhaft gáleysislegan akstur þegar slysið hafi átt sér stað. Samkvæmt öllu framangreindu hafi stefnandi því hlotið meiðsl við stjórn og notkun hins vátryggða bifhjóls en tjónsatburðurinn falli undir hugtaksskilgreiningu um slys.
Samkvæmt 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga og grein 10.1 í vátryggingarskilmálum tryggingarfélagsins tryggi slysatrygging ökumanns, sem stefnandi hafi haft, stefnanda bætur fyrir líkamstjón sem hljótist af slíkri notkun samkvæmt 88. gr. umferðarlaga. Um ákvörðun bóta fari eftir almennum reglum íslensks skaðabótaréttar samkvæmt 2. gr. og 12. gr. sömu skilmála.
Stefnandi byggir á því að hann hafi leitað sér frekari læknisaðstoðar og tilkynnt um tjónið um leið og hann hafi gert sér grein fyrir að það hefði haft svo umtalsverðar afleiðingar. Þá verði það ekki metið stefnanda í óhag að ranglega hafi verið lesið úr myndgreiningu sem hann fór í haustið 2014
Stefnandi hafi sýnt fram á slysið með yfirlýsingum vitna, en ákverka og afleiðingar hafi verið sýnt fram á með læknisvottorðum og niðurstöðum myndgreiningarrannsókna. Orsakatengslin eigi stuðning í fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum, framburði meðferðarlækna og framburði vitna, m.a. B, sem hafi orðið vitni að slysinu sjálfu. Af öllu framangreindu leiði að uppfyllt séu skilyrði fyrir greiðslu stefnda á bótum úr slysatryggingu ökumanns og verði því að fallast á viðurkenningarkröfu stefnanda.
Tjón stefnanda felist í þeim útlagða kostnaði sem hann hafi orðið fyrir vegna læknisheimsókna, aðgerðar og sjúkraþjálfunar. Þetta fjártjón nemi samtals 132.156 krónum. Þá hafi stefnandi verið frá vinnu í fjórar vikur eftir aðgerðina 21. janúar 2015. Samkvæmt meðalárstekjum stefnanda síðustu þrjú ár nemi tímabundið atvinnutjón miðað við þann tíma 54.628 krónum, sbr. grófa samantekt á því tjóni stefnanda sem hann hafi þegar orðið fyrir. Þá hafi liðið samtals 229 dagar frá slysi og fram að aðgerðinni 21. janúar 2015. Frá aðgerðinni og þar til skipulagðri endurhæfingu, samkvæmt vottorði F, hafi lokið, hafi liðið 273 dagar. Ef stefnandi verði talinn hafa verið veikur en ekki rúmliggjandi þennan tíma nemi tjón hans 910.000 krónum. Stefnandi hafi nú lokið skipulagðri endurhæfingu, en hafi ekki náð fullum bata. Mögulega þurfi stefnandi að undirgangast aðra aðgerð vegna slyssins. Varanlegar afleiðingar séu enn óljósar og muni stefnandi óska eftir að þær verði metnar af hálfu stefnda verði fallist á dómkröfu stefnanda í máli þessu, ásamt þjáningartímabili, tímabundnu atvinnutjóni og mögulegum framtíðarsjúkrakostnaði, reynist t.d. nauðsynlegt að gera aðra aðgerð á hnénu. Fyrirséð sé því að tjónið sé meira að umfangi en að framan greini.
Krafist sé viðurkenningar á bótaskyldu þar sem ekki liggi fyrir nákvæmt mat á tjóni stefnanda. Samkvæmt gögnum málsins eigi þó að vera ljóst að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni og fjárhagslegu tjóni sem stefndi beri ábyrgð á og hafi stefnandi af því lögvarða hagsmuni að fá viðurkenningu á bótaskyldu stefnda, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi hafi þannig sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni, gert grein fyrir því í hverju tjón hans felist og enn fremur hver tengsl þess séu við slysið.
Um lagarök vísar stefnandi til umferðarlaga nr. 50/1987, aðallega 92. gr., sbr. 88. gr. þeirra laga, laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, hlutaðeigandi vátryggingarskilmála, sem og skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttarins. Þá vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að tjón stefnanda sé ósannað og að ósannað sé að orsakatengsl séu milli þeirra líkamlegu einkenna sem stefnandi hafi og mótorhjólaslyss við Bolöldu í júní 2014. Sönnunarbyrði um tjón, umfang tjóns og orsakatengsl hvíli á stefnanda. Þá krefjist stefndi einnig sýknu á þeim grundvelli að stefnandi hafi í umrætt sinn verið í aksturskeppni og að slysatrygging ökumanns nái ekki til aksturskeppna. Loks krefjist stefndi sýknu á þeim grundvelli að stefnandi hafi í umrætt sinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem hafi orðið til þess að hann hafi fallið og því sé ábyrgð félagsins fallin niður.
Engin samtímagögn liggi fyrir sem staðfesti áverka stefnanda eftir slysið og takmarkað magn af gögnum hafi verið lagt fram til stuðnings málatilbúnaði hans. Áverki stefnanda hafi verið slitið fremra krossband á hægra hné. Slíkur áverki sé algengur og geti komið við minni háttar hnjask. Algengast muni vera að fremra krossbandið slitni við íþróttaiðkun en geti einnig orðið við venjubundin störf.
Stefnandi hafi fyrst leitað til læknis rúmum þremur mánuðum eftir að hann hafi dottið af mótorkrosshjóli sínu við Bolöldu. Engin læknisfræðileg gögn styðji að stefnandi hafi hlotið áverkann við þetta fall. Ýmislegt hefði getað valdið áverkanum fyrir fallið í júní eða eftir það. Til að sýna fram á orsakatengsl hefði stefnandi þurft að leita sér læknishjálpar strax eftir slysið. Raunar liggi engin samtímagögn fyrir um þetta slys, nákvæmlega hvenær það átti sér stað og með hvaða hætti. Lögregla hafi hvorki verið kölluð á vettvang né sjúkrabifreið. Í þeim vottorðum sem liggi fyrir, bæði vottorð C og vottorði E, sé tekið fram að stefnandi hafi lent í mótorhjólaslysi einhverjum mánuðum áður. Í þessum vottorðum séu læknarnir að hafa eftir stefnanda það sem hann telji vera orsök áverkanna en ekki að taka sjálfstæða afstöðu til þess hvort áverkana sé að rekja til þessa tiltekna umferðarslyss eða ekki. Stefndi telur að of langt hafi liðið frá slysi og þess tíma er hann hafi leitað til læknis vegna einkenna frá hné til að unnt sé að tengja einkennin slysinu. Sönnun um líkamstjón og orsakatengsl verði ekki byggð á einhliða frásögn stefnanda. Stefnandi hafi verið með lögboðna ökutækjatryggingu og slysatryggingu ökumanns hjá stefnda. Stefnandi hafi tekið trygginguna hjá stefnda þann 3. júní 2014 og tryggingin hafi fyrst tekið gildi þann dag. Þar sem mjög sé á reiki nákvæmlega hvenær stefnandi hafi orðið fyrir slysinu þá sé ekki einu sinni sannað að stefnandi hafi verið með tryggingu hjá stefnda á slysdegi.
Sönnunarbyrðin um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, á þann hátt að falli undir lögbundnar ökutækjatryggingar, hvíli á stefnanda. Stefnandi hafi hvorki getað sýnt fram á eða sannað að hann hafi orðið fyrir slysi að Bolöldu né nákvæmlega hvenær það slys hafi átt sér stað. Stefnandi beri einnig sönnunarbyrðina fyrir því að orsakatengsl séu á milli áverka og hins bótaskylda atviks. Stefnandi hafi ekki leitað til læknis fyrr en rúmlega þremur mánuðum eftir hið meinta slys og kvartað þá undan verkjum í báðum hnjám. Það liggi fyrir að stefnandi hafi átt við meiðsl að stríða í vinstra hné allt frá 2012. Engin gögn hafi verið lögð fram um ástand hægra hnés og hvort stefnandi hafi áður orðið fyrir hnjaski á því. Skorað sé á stefnanda að leggja fram sjúkraskrá.
Eina lýsingin sem liggi fyrir um tildrög slyssins sé að finna í læknisvottorði E, en þar segi: „Að sögn [stefnanda] muni slysið hafa orðið með þeim hætti að hann keyrði torfærumótorhjólið á braut við Bolöldu. Hann datt í brautinni, líklega á 70-80 km hraða“. Í gögnum málsins sé að finna myndir af Bolöldu. Stefndi telur að stefnandi hafi í umrætt sinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann hafi keyrt mótorkrosshjól á miklum hraða við þær aðstæður sem séu í Bolöldu. Nákvæmlega hversu hratt stefnandi hafi ekið eða hvar hann hafi verið í brautinni þegar hann féll liggi ekki fyrir enda hafi lögregla ekki verið kölluð á vettvang eða hafi verið fyllt út tjónaskýrsla um slysið. Stefnandi verði að bera hallann af þeim sönnunarskorti sem uppi sé um aðstæður á brautinni og aðdraganda slyssins. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. í skilmálum um slysatryggingu ökumanns falli ábyrgð félagsins niður eða lækki ef vátryggingaratburði hafi verið valdið af stórkostlegu gáleysi vátryggðs.
Samkvæmt grein 23.2 í skilmálum um slysatryggingu ökumanns taki vátryggingin ekki til aksturskeppni nema um annað sé samið gegn viðbótargjaldi og áritað á skírteini. Stefndi telji líkur á að stefnandi hafi verið í aksturskeppni á brautinni við Bolöldu er slysið hafi átt sér stað. Ómögulegt sé hins vegar fyrir stefnda að sanna slíka fullyrðingu þar sem ekki hafi verið tilkynnt um slysið fyrr en sex mánuðum síðar. Stefndi telji því að snúa beri sönnunarbyrðinni við og það sé stefnanda að sanna að hann hafi ekki í umrætt sinn verið í aksturskeppni og að hann hafi í umrætt sinn ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við að aka allt of hratt á moldarbraut sem á séu margar krappar beygjur.
Stefndi byggir varakröfu sína á sömu röksemdum og aðalkröfu sína.
Stefndi mótmælir því ekki að stefnandi eigi rétt á því, á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að fá skorið úr um tilvist og efni kröfu sinnar. Hins vegar mótmæli stefndi þeirri fullyrðingu í stefnu að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni er hann hafi verið frá vinnu í fjórar vikur eftir aðgerð á hné sem framkvæmd hafi verið þann 21. janúar 2015. Í stefnu komi fram að stefnandi hafi á þessum tíma verið í hlutastarfi hjá […] með námi. Engin gögn hafi verið lögð fram um þetta starf stefnanda eða staðfesting á að hann hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni þar sem tekið sé mið af meðaltekjum stefnanda síðustu þrjú árin fyrir slys. Slíkir útreikningar hafi enga lagastoð. Einnig mótmæli stefndi því mati stefnanda að hann eigi rétt á þjáningabótum í 502 daga eftir slysið.
Um lagarök vísar stefndi til reglna skaðabótaréttar, umferðarlaga nr. 50/1988 og laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga og vátryggingaskilmála.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að bótaskyldu stefnanda. Aðila greinir á um hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi þann 6. júní 2014 við það að falla af mótorhjóli sínu.
Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að stefndi sé greiðsluskyldur. Honum ber að sanna að hann hafi orðið fyrir slysi sem rakið verði til notkunar bifhjólsins samkvæmt 88. gr., sbr. 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hér er ekki öðrum sönnunargögnum teflt fram en aðilaskýrslu stefnanda, vitnaskýrslum og skriflegum vottorðum lækna af meiðslum hans.
Stefnandi sleit krossband árið 2014. Kveður hann að það hafi gerst við það að hann féll af bifhjóli sínu við akstur þess í Bolöldu 6. júní 2014. Stefndi hefur hafnað bótaskyldu þar sem ósannað sé að orsakatengsl séu á milli bifhjólaslyssins og líkamstjóns stefnanda.
Meiðslum stefnanda er lýst í gögnum málsins.
Samkvæmt framlögðu læknisvottorði E læknis, dagsettu 17. mars 2015, liggur fyrir að með segulómmyndun af hnénu, sem tekin var 10. september 2014 hafi komið í ljós að stefnandi hafði slitið fremra krossbandið í hægra hné.
Samkvæmt framburði B vinar stefnanda, hér fyrir dómi, var hann með stefnanda umrætt sinn. Staðfesti hann að stefnandi hefði fallið af bifhjólinu þar sem þeir hefðu verið að hjóla í Bolöldu í byrjun júní 2014. Kvað hann stefnanda hafa verið mjög kvalinn eftir fallið.
Við aðalmeðferð málsins gaf og skýrslu G, sjúkraliði og móðir fyrrverandi kærustu stefnanda. Kvað hún stefnanda hafa komið á heimili hennar eftir mótorhjólaferð með vini sínum. Stefnandi hafi sagt að hann hefði dottið og meitt sig illa á fæti. Hún kvaðst hafa sagt honum að fara á bráðamóttöku Landspítalans, þar sem henni hafi litist illa á þetta. Hann hafi komið aftur þar sem biðtíminn þar hefði verið svo langur. Hann hafi svo seinna leitað á Heilsugæsluna […].
H, fyrrverandi kærasta stefnanda, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hún hafa farið með stefnanda á bráðamóttöku Landspítalans, eftir að hann hefði lent í mótorhjólaslysi 6. júní 2014. Þar hafi þeim verið sagt að sólarhringsbið væri eftir læknisþjónustu og hefði stefnandi því ákveðið að fara heim og sjá til hvort verkirnir myndu lagast. Hún kvaðst geta staðfest að þetta hefði verið í byrjun júní, þar sem hún myndi eftir því að þetta hefði verið eftir að hún útskrifaðist úr skóla, sem hefði verið 30. maí 2014.
Þá gaf og skýrslu fyrrverandi vinnufélagi stefnanda, I. Kvað hann stefnanda hafa sagt sér í júní 2014 að hann hefði dottið illa af mótorhjóli sínu í Bolöldu og meitt sig á hné.
Frásögn stefnanda af fyrrgreindu slysi og meiðslum af þess völdum hefur frá upphafi verið söm. Stefnandi kveðst hafa farið á bráðamóttöku Landspítalans eftir slysið en þar hafi honum verið sagt að sólarhrings bið væri eftir læknaþjónustu svo að hann hafi ákveðið að fara heim og bíða og sjá til hvort hann myndi jafna sig, en sú hafi ekki orðið raunin. Samkvæmt frétt sem birtist á mbl.is 11. júní 2014, kemur fram að yfirlæknir bráðalækninga hefði sagt að föstudaginn 6. júní hafi aðsókn á bráðavaktina verið 40% yfir meðallagi, sem og að mikil aðsókn hafi verið þar alla þá helgi. Staðfestir fyrrverandi kærasta stefnanda, sem og móðir hennar, þessa frásögn hans. Samkvæmt skráðum gögnum leitaði stefnandi ekki læknis fyrr en í september 2014, eins og áður greinir. Stefnandi reyndi ekki að afla sönnunargagna um atvikið, t.d. með því að kalla til lögreglu. Sú skýring hans að hann hafi talið að hann myndi jafna sig af meiðslunum er í sjálfu sér trúverðug og verður hann ekki látinn bera hallann af því.
Meiðslum stefnanda er lýst í gögnum málsins og verður ekki dregið í efa að þau geti hafa hlotist við óhapp það sem stefnandi lýsir, en töluverðan slink þarf til að krossband slitni.
Þegar þessi atriði eru virt verður einkum að horfa til þess samræmis sem er í atvikalýsingu stefnanda, sem og framburði vitna, og þess að ekkert er fram komið sem veikir trúverðugleika hans. Hefur hann leitt nægar líkur að því að hann hafi slasast umræddan dag af völdum skráningarskylds ökutækis og að þær líkur séu nægilega miklu meiri en líkur fyrir hinu gagnstæða til þess að fallist verði á kröfu hans, en ekkert er fram komið í málinu sem bendir til að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi umrætt sinn.
Bótaskylda stefnda verður því viðurkennd eins og krafist er.
Stefnandi hefur gjafsókn til reksturs málsins fyrir héraðsdómi, samkvæmt gjafsóknarleyfi innanríkisráðherra, dagsettu 16. október 2015.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, og rennur í ríkissjóð. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 700.000 krónur.
Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum læknunum Guðna Arinbjarnar og Ríkarði Sigfússyni.
D Ó M S O R Ð:
Viðurkennd er bótaskylda stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., úr slysatryggingu ökumanns hjá stefnda, á tjóni stefnanda, A vegna umferðarslyss sem hann lenti í 6. júní 2014.
Stefndi greiði 700.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun 700.000 krónur.