Hæstiréttur íslands

Mál nr. 604/2016

A (Óðinn Elísson hrl.)
gegn
Tryggingamiðstöðinni hf. (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Viðmiðunartekjur

Reifun

A krafðist bóta úr hendi T hf. vegna varanlegrar örorku sem hún hlaut í umferðarslysi 2012. Í málinu var hvorki deilt um bótaskyldu né metna örorku. Voru aðilar auk þess sammála um að beita skyldi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við útreikning bótanna og stóð ágreiningur þeirra því aðeins um hvaða árslaun ætti að leggja til grundvallar útreikningi þeirra. Í héraðsdómi var fallist á með T hf. að miða ætti við tekjur sem A hefði aflað sér í mars og apríl 2014 sem lausráðinn fulltrúi hjá sýslumanni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefði lokið hátt í 90% af námi í lögfræði þegar slysið varð. Var talið að A hefði ekki sýnt fram á að réttur mælikvarði við ákvörðun á framtíðartekjum hennar væri að miða við sérfræðistörf í lögfræði eins og gert hefði verið í aðal- og varakröfu hennar. Á hinn bóginn var talið sanngjarn og eðlilegur mælikvarði á framtíðartekjur hennar að leggja til grundvallar meðaltekjur félagsmanna í stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012. Var því fallist á þrautavarakröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari, Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. ágúst 2016. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 9.969.959 krónur, til vara 9.268.852 krónur, að því frágengnu 7.363.276 krónur, en loks 6.463.163 krónur í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 7. október 2014 að fjárhæð 4.800.585 krónur og 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 26. nóvember 2012 og var metin til 7 stiga varanlegs miska og 7% varanlegrar örorku, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Ekki er deilt um bótaskyldu stefnda. Við uppgjör sem áfrýjandi gekk til 7. október 2014 var lagt til grundvallar að fyrir hendi væru aðstæður sem um getur í undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miðað við laun hennar hjá Sýslumanninum […] í mars og apríl 2014. Greiddi stefndi henni í samræmi við það 4.800.585 krónur vegna tjóns hennar vegna varanlegrar örorku. Áfrýjandi tók við greiðslunni með fyrirvara þar sem hún féllst ekki á að leggja ætti þetta tekjuviðmið til grundvallar bótum. Auk þess greiddi stefndi henni 534.372 krónur 7. október 2015 vegna tiltekinnar leiðréttingar.

Ágreiningur máls þessa snýst um hvaða árslaun eigi að leggja til grundvallar útreikningi bóta fyrir varanlega örorku áfrýjanda, en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum. Telur áfrýjandi að leggja eigi til grundvallar meðaltekjur lögfræðinga á árinu 2012, eins og þær eru settar fram í aðal- vara- og þrautavarakröfu hennar og nánar er lýst í héraðsdómi. Með honum var fallist á með stefnda að miða ætti við tekjur sem áfrýjandi aflaði sér áðurnefnda tvo mánuði sem lausráðinn fulltrúi hjá Sýslumanninum […].

Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að tekjuviðmið stefnda gefi ekki rétta mynd af áætluðum framtíðartekjum sínum. Hún hafi lokið hátt í 90% af námi í lögfræði við Háskóla Íslands þegar slysið varð og brautskráðst með meistaragráðu í febrúar 2014. Samhliða námi hafi hún starfað við fjölþætt störf meðal annars hjá lögmannsstofu, slitastjórn banka, Umboðsmanni skuldara og velferðarráðuneytinu. Í maí 2014 hafi hún fengið fastráðningu hjá áðurnefndu embætti og hafið störf hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í apríl 2015.

Fallist er á það með stefnda að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að það sé réttur mælikvarði við ákvörðun á framtíðartekjum hennar að miða við sérfræðistörf í lögfræði eins og gert er í aðal- og varakröfu hennar. Á hinn bóginn þykir sanngjarn og eðlilegur mælikvarði á framtíðartekjur hennar að leggja til grundvallar meðaltekjur félagsmanna í stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012, eins og lýst er í þrautavarakröfu hennar, en til þess er að líta að hún var komin mjög langt á veg með meistaranám í lögfræði er slysið bar að höndum og hefur starfað við lögfræðistörf eftir að námi hennar lauk.

Samkvæmt þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 7.363.276 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir, allt að frádregnum innborgunum 7. október 2014 að fjárhæð 4.800.585 krónur og 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

         Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, A, 7.363.276 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 7. október 2014 að fjárhæð 4.800.585 krónur og 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur.

         Stefndi greiði áfrýjanda 1.800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.         

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2016.

                                                                                  I.

Mál þetta var höfðað 17. september 2015 og dómtekið 19. apríl 2016.

      Stefnandi er A til heimilis að […], en stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.969.959 kr. með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð 4.800.585 kr. þann 7. október 2014 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur.

                Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.268.852 kr., með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð 4.800.585 kr. þann 7. október 201 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur.

                Til þrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.363.276 kr., með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð kr. 4.800.585 kr. þann 7. október 2014 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur.

                Til þrautaþrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.463.163 kr., með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð 4.800.585 kr. þann 7. október 2014 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur.

                Til þrautaþrautaþrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 5.332.713 kr., með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. maí 2013 til 16. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum frá stefnda að fjárhæð kr. 4.800.585 kr. þann 7. október 2014 og þann 7. október 2015 að fjárhæð 534.372 krónur.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar.

                                                                                 II.

Í máli þessu er deilt um hvaða árslaun beri að leggja til grundvallar við útreikning bóta vegna tjóns sem stefnandi hlaut í umferðarslysi 26. nóvember 2012.

                Tildrög slyssins voru þau að stefnandi, sem var ökumaður bifreiðarinnar […], ók henni í veg fyrir jeppabifreiðina […] á gatnamótum Langatanga og Borgartanga í Mosfellsbæ. Um töluvert harðan árekstur var að ræða og kenndi stefnandi verkja og stífleika í hálsi. Leitaði stefnandi sér aðstoðar hjá lækni tveimur dögum eftir umferðarslysið.

                B læknir og C hrl. voru fengnir til að meta líkamlegar afleiðingar umferðarslyssins fyrir stefnanda. Samkvæmt matsgerð þeirra taldist varanlegur miski 7 stig og varanleg örorka 7%.

                Stefnandi lauk BA-námi í lögfræði þann 23. október 2010. Þegar stefnandi slasaðist stundaði hún meistaranám í lögfræði við Háskóla Íslands og hafði þá lokið 78 ECTS einingum af 120. Var hún skráð í 42 ECTS einingar haustið 2012. Stefnandi útskrifaðist í febrúar 2014. Eftir að stefnandi lauk laganámi í febrúar 2014, hóf hún störf hjá Sýslumanninum […]. Í maí 2014 fékk hún fastráðningu hjá embættinu og hefur starfað við embætti sýslumanna síðan, nú hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

                Lögmaður stefnanda sendi stefnda bótakröfu vegna umferðarslyssins með bréfi, dags. 16. apríl 2014. Við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku tók stefnandi mið af töflu Hagstofunnar um meðallaun fyrir sérfræðistörf lögfræðinga á árinu 2012. Ekki náðist samkomulag um bótauppgjörið og var málið gert upp með fyrirvara samkvæmt bótatilboði stefnda, þ.e.a.s. miðað var við þau laun sem stefnandi fékk greidd sem fulltrúi hjá Sýslumanninum […] í mars og apríl 2014, uppreiknuð til 12 mánaða, reiknuð niður til stöðugleikapunkts, að viðbættu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Í kjölfar athugasemda varðandi útreikninginn, sem fram komu í stefnu, gerði stefndi leiðréttingar á uppgjörinu þar sem láðst hafði að taka tillit til persónuuppbótar og orlofsuppbótar, auk þess sem miðað hafði verið við að framlag launagreiðanda í lífeyrissjóð hafði ranglega verið miðað við 8% í stað 11,5%. Einnig var gerð leiðrétting á launavísitölu og hún færð til stöðugleikapunktsins í maí 2013.

                Þann 1. febrúar 2015 tók gildi ný launaákvörðun í samræmi við stofnanasamning og hækkuðu þá laun stefnanda. Með úrskurði gerðardóms samkvæmt lögum nr. 31/2015 frá 14. ágúst 2015 var m.a. kveðið á um launahækkun handa félögum í stéttarfélagi lögfræðinga frá 1. mars 2015. Samkvæmt úrskurðinum munu laun félagsmanna hækka aftur þann 1. júní 2016 auk þess sem mælt er fyrir um sérstaka eingreiðslu þann 1. júní 2017.

                Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2014 námu tekjur stefnanda á árinu 2014, 5.878.296 krónum.

                Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum þegar aðalmeðferð málsins fór fram.

                                                                                 III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að miða beri bætur til hennar við meðalárstekjur lögfræðinga á slysaárinu 2012, eins og þær komi fram á heimasíðu Hagstofu Íslands, að fjárhæð 10.932.000 krónur. Stefnandi hafi verið langt komin með meistaranám í lögfræði þegar slysið átti sér stað. Hún hafi útskrifast í febrúar 2014 og verið lausráðin frá þeim tíma hjá Sýslumanninum […] og fengið fastráðningu í maí 2014. Laun hennar hafi hækkað þann 1. febrúar 2015. Þá vísar stefnandi til úrskurðar gerðardóms samkvæmt lögum nr. 31/2015 frá 14. ágúst 2015 þar sem mælt var fyrir um launahækkun til handa félögum í stéttarfélagi lögfræðinga frá 1. mars 2015. Samkvæmt úrskurðinum munu laun félagsmanna hækka aftur þann 1. júní 2016 og þá er einnig kveðið á um sérstaka eingreiðslu þann 1. júní 2017. Stefnandi sé félagsmaður í stéttarfélagi lögfræðinga.

                Stefnandi telur að námslok hennar, meistarapróf í lögfræði, hafi sannanlega verið fyrirsjáanleg við tjónsatburð og ekkert sem hafi gefið annað til kynna en að hún myndi starfa í kjölfarið sem lögfræðingur, svo sem hún hefur síðan gert. Því beri að leggja til grundvallar bótum meðaltekjur í hlutaðeigandi starfsgrein, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og í samræmi við réttarframkvæmd í sambærilegum málum. Þá beri að líta til þess að í matsgerð, sem lögð var til grundvallar bótauppgjöri, hafi, við mat á varanlegri örorku, verið miðað við að stefnandi starfaði sem lögfræðingur í framtíðinni.

                Stefnandi byggir á því að tekjuviðmið stefnda gefi ekki rétta og raunhæfa mynd af áætluðum framtíðartekjum hennar og að hún fái þannig ekki raunverulegt tjón sitt bætt. Tekjur stefnanda hafi nú þegar hækkað, m.a. þegar hún fékk fastráðningu hjá embættinu í maí 2014. Þær hafi aftur hækkað eftir síðustu kjarabaráttu stéttarfélags lögfræðinga, og fyrirsjáanlegt sé að þær muni taka enn frekari hækkunum í nánustu framtíð, líkt og venja sé, þó að teknu tilliti til þeirrar skerðingar sem hafi orðið á tekjuöflunarhæfi hennar vegna slyssins. Þá telur stefnandi það samræmast illa því meginmarkmiði skaðabótalaga að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir tjón hans, að miða við þær tekjur sem hún aflaði sér eftir að hún hlaut 7% varanlega örorku vegna slyssins til að reikna út tjón hennar til framtíðar vegna sama slyss. Stefnandi telur að réttari mælikvarði felist í upplýsingum um meðaltekjur þeirrar starfsstéttar sem stefnandi hafði því sem næst menntað sig til er slysið varð en Hæstiréttur hefur ítrekað lagt slíkan mælikvarða til grundvallar við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku í sambærilegum málum.

                Varakrafa stefnanda miðast við meðalárstekjur lögfræðinga á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, að fjárhæð 10.336.625 krónur. Tekur stefnandi fram að fyrir slysið hafi ekki annað legið fyrir en að stefnandi starfaði sem lögfræðingur, annað hvort á almennum markaði eða hjá hinu opinbera. Bendir stefnandi á að með þessu launaviðmiði sé horft til tekna fleiri lögfræðinga og til fleiri lögfræðistarfa heldur en miðað sé við í aðalkröfu og þrautavarakröfu stefnanda.

                Þrautavarakrafa stefnanda miðast við meðaltekjur félagsmanna í stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012 samkvæmt úttekt Bandalags háskólamanna um laun starfsmanna ríkisins eftir bandalögum og stéttarfélögum. Samkvæmt úttektinni hafi árstekjur verið 6.977.412 krónur. Vísar stefnandi til þess að allt frá útskrift hafi hún starfað hjá hinu opinbera sem fulltrúi hjá Sýslumanninum […] og Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins.

                Þrautaþrautavarakrafa stefnanda styðst við laun stefnanda hjá Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins í dag, eftir úrskurð gerðardóms samkvæmt lögum nr. 31/2015 frá 14. ágúst  2015, sbr. einnig síðasta launaseðil stefnanda. Samkvæmt úrskurðinum séu mánaðarlaun stefnanda nú 492.921 króna, föst yfirvinna 102.380 krónur, orlof af fastri yfirvinnu 11.866 krónur eða samtals 607.167 krónur í heildarmánaðarlaun. Þá sé persónuuppbót stefnanda á árinu 2015 78.000 krónur og orlofsuppbót 42.000 krónur. Árslaun stefnanda nemi því 7.406.004 krónum. Telur stefnandi að þessar tekjur endurspegli betur líklegar framtíðartekjur hennar en þær tekjur sem stefndi hafi lagt til grundvallar. Hér sé tekið tillit til tillögu stefnda sem vilji miða við þau laun sem stefnandi hafi aflað sér. Stefnandi telur þó að þetta viðmið eigi ekki vel við enda sé ljóst að tekjur hennar muni hækka töluvert í framtíðinni með hækkandi starfsaldri og reynslu, líkt og venja sé. Þetta viðmið sé því ekki góður mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hennar. Þá sé einnig ljóst að tekjur hennar muni hækka á næstu árum samkvæmt áðurgreindum úrskurði gerðardóms. Því sé réttara að miða við meðaltekjur lögfræðinga eins og gerð er grein fyrir í aðal-, vara- og þrautavarakröfu.

                Þrautaþrautaþrautavarakrafa stefnanda styðst, að mati stefnanda, að mestu við bótatilboð stefnda, dags. 30. júní 2014 og 7. október 2014, þ.e. að miða við laun stefnanda sem hún hefur sem fulltrúi Sýslumannsins […] í mars og apríl 2014 og að teknu tilliti til þeirra leiðréttinga sem gerðar voru á útreikningi bótanna í kjölfar stefnu.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi fengið greiddar fullar bætur og eigi ekki frekari kröfur á hendur stefnda.  

                Í aðalkröfu stefnanda sé þess krafist að tjón stefnanda verði gert upp á grundvelli meðaltekna við sérfræðistörf í lögfræði á almennum vinnumarkaði árið 2012 samkvæmt heimasíðu Hagstofu Íslands. Útreikningur dómkröfunnar leiði til hærri skaðabóta en lögbundið hámark skv. 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þessi viðmiðun stefnanda geti undir engum kringumstæðum komið til greina að mati stefnda. Stefndi tekur fram að lögfræðimenntaðir sérfræðingar á almennum vinnumarkaði hafi í flestum tilvikum aflað sér viðbótarmenntunar eða starfsréttinda, s.s. héraðsdómsmálflutningsréttinda eða Hæstaréttarmálflutningsréttinda. Þá reka lögfræðingar á almennum vinnumarkaði margir eigin lögfræðistofur, hafi í flestum tilvikum umfangsmikinn rekstur með höndum og fulltrúa og aðra starfsmenn á launaskrá. Þrátt fyrir að hafa lokið meistaranámi í lögfræði hefur stefnandi ekki aflað sér héraðsdómslögmannsréttinda, sem er almenn krafa til þeirra sem sækjast eftir atvinnu sem sérfræðingar í lögfræði á almennum vinnumarkaði. Laun sérfræðinga á almennum vinnumarkaði séu almennt hærri en laun ríkisstarfsmanna en á þeim vettvangi hafi stefnandi kosið að vinna. Ljóst sé að ef stefnandi yrði fyrir tjóni í dag kæmi ekki til greina að miða bætur hennar við laun sérfræðinga í lögfræði á almennum vinnumarkaði. Viðmiðið yrði laun stefnanda sem lögfræðings í störfum hjá ríkinu.

                Stefndi vísar til þess að til greina hafi komið að sækja launaviðmið til þeirrar háskólagráðu sem stefnandi hafði öðlast á slysdegi, þ.e. BA-gráðu í lögfræði. Hefðu bætur til hennar þá tekið mið af meðallaunum sérfræðinga með BA háskólanám á árinu 2012. Þess í stað hafi stefndi ákveðið að reikna bæturnar á grundvelli þeirra tekna sem stefnandi aflaði sér fyrstu mánuðina eftir lok meistaranámsins á árinu 2014. Samkvæmt þessu hafi stefndi sýnt stefnanda fulla sanngirni við útreikning skaðabótanna.

                Í fyrstu varakröfu stefnanda sé þess krafist að tjón stefnanda verði gert upp á grundvelli meðaltekna við sérfræðistörf í lögfræði á almennum vinnumarkaði annars vegar og störf lögfræðinga hjá hinu opinbera hins vegar. Dómkrafan sé þannig sett fram að lagðar séu saman meðaltekjur við sérfræðistörf í lögfræði á almennum vinnumarkaði árið 2012 samkvæmt heimasíðu Hagstofu Íslands og meðaltekjur félagsmanna í Stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012 samkvæmt úttekt BHM um laun starfsmanna ríkisins. Síðan er deilt í summu talnanna með 2 og sú tala færð til stöðugleikapunktsins í maí 2013. Telur stefndi að þessi viðmiðun stefnanda geti ekki með nokkru móti komið til greina. Rök stefnda fyrir höfnun þessarar framsetningar stefnanda eru þau sömu og sett hafi verið fram varðandi aðalkröfu og þrautavarakröfu stefnanda og á þá leið að stefnandi geti ekki heimfært stöðu sína á slysdegi eða eftir að meistaranámi var lokið til starfa sérfræðinga í lögfræði á almennum vinnumarkaði. Þá sé krafan sett fram á grundvelli launa sérfræðinga við lögfræðistörf á almennum vinnumarkaði árið 2012 sem hafi verið hærri en hámarksviðmið 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá hafi stefndi sýnt fram á að stefnandi hafi aldrei haft laun sem samsvari meðallaunum lögfræðinga hjá hinu opinbera og geti ekki sótt launaviðmið sitt þangað.

                Önnur varakrafa stefnanda, þ.e. þrautavarakrafa stefnanda, sé sett fram á grundvelli meðaltekna félagsmanna í Stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012 samkvæmt úttekt BHM um laun starfsmanna ríkisins. Samkvæmt þessu viðmiði reiknist árslaunaviðmiðið á stöðugleikapunkti í maí 2013 við 8.211.527 krónur. Stefndi hafnar þessu viðmiði. Árslaun stefnanda í dag, eftir úrskurð gerðardóms, með fastri yfirvinnu, orlofi á yfirvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót og framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð séu 8.257.694 krónur. Árslaunin færð til stöðugleikapunktsins í maí 2013 nema þá 7.207.720 krónum. Þessi útreikningur sýnir að laun stefnanda séu vel undir meðallaunum lögfræðinga hjá ríkinu og geti stefnandi ekki sótt viðmið til launa þeirra sem í reynd hafi mun hærri tekjur en hún. Þá sé rétt að hafa í huga að samkvæmt staðgreiðsluyfirliti stefnanda fyrir árið 2014 hafi tekjur hennar frá ríkissjóði það ár numið 5.878.296 krónum. Að því gefnu að stefnandi hafi starfað hjá ríkinu í 11 mánuði eftir útskrift, eins og stefnan beri með sér, námu meðalmánaðarlaun stefnanda sem ríkisstarfsmaður á árinu 2014 534.390 krónum. Tólf mánaða tekjur gera þá 6.412.686 krónur. Þegar þessar tekjur eru færðar frá meðaltalsvísitölu launa 2014 (júlí  484,7 stig) til stöðugleikapunktsins í maí 2013 (456,5 stig) nemi árslaunin 6.039.594 krónum sem er umtalsvert lægri upphæð en þrautavarakrafa stefnanda sé byggð á.

                Þrautaþrautavarakrafa stefnanda er byggð á launum stefnanda hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í dag, eftir úrskurð gerðardóms samkvæmt lögum nr. 31/2015 frá 14. ágúst 2015. Stefnandi krefst þess að bætur verði þannig reiknaðar á grundvelli launa hennar eftir úrskurð gerðardóms, þ.e. á grundvelli launa 1. september 2015. Samkvæmt þessu viðmiði reiknast árslaunaviðmiðið á stöðugleikapunkti í maí 2013 við 7.207.720 krónur. Kröfugerð þessi sýni að þegar tekjur stefnanda nú séu færðar aftur til stöðugleikapunktsins í maí 2013 þá séu þær 538.693 krónur, (7.406.004x456,5/523/12) og séu lægri en meðaltekjur félagsmanna í Stéttarfélagi lögfræðinga, sem hafi numið í maí 2013 612.966 krónum samkvæmt úttekt BHM um laun starfsmanna ríkisins. Þessi liður kröfugerðarinnar sýni að þau launaviðmið sem aðal-, vara- og þrautavarakrafa stefnanda byggjast á séu fjarri raunverulegum tekjum stefnanda. Þá telur stefndi fráleitt að miða við nýgerðan úrskurð gerðardóms sem kveðinn hafi verið upp tæpum þremur árum eftir umferðarslysið og einu og hálfu ári eftir að stefnandi lauk meistaranámi í lögfræði. Laun samkvæmt úrskurðinum eigi eftir að hækka enn frekar á næstu misserum og mætti því búast við breyttri kröfugerð stefnanda á nokkurra mánaða fresti.

                Stefndi kveðst hafa fallist á þrautaþrautaþrautavarakröfu stefnanda og greitt bætur í samræmi við þann útreikning sem gerð er grein fyrir í málavaxtalýsingu og fram komi í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda, og á uppgjörskvittun. Tekur stefndi einnig fram að í kjölfar þess að stefnandi hafi í stefnu vakið athygli á því að við árslaunaviðmið hafi stefndi ekki tekið tillit til persónuuppbótar að fjárhæð 73.600 krónur og orlofsuppbótar að fjárhæð 39.500 krónur og að framlag launagreiðanda, ríkisins, í lífeyrissjóð stefnanda nemi 11,5% en ekki 8% eins og fram kemur á skaðabótakvittun hafi stefndi endurreiknað skaðabæturnar miðað við þessar forsendur þannig: 453.547 x 12 + 73.600 + 39.500 = 5.555.664. Þá hafi stefndi leiðrétt launavísitölu og fært hana til stöðugleikapunktsins í maí 2013 og leiðrétt framlag launagreiðanda í lífeyrissjóð í 11,5%. Þannig reiknist bæturnar: 5.555.664 x 456,5/475,3 x 1,115 = 5.949.546. Stefndi hafi því greitt stefnanda mismun þessa útreiknings og þess sem greitt var 7. október 2014 ásamt vöxtum. Að mati stefnda sé uppgjörstillagan í alla staði sanngjörn og hafi stefnandi því fengið fullar bætur. Í ljósi framangreinds beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

                                                                                IV.

Í máli þessu eru deilt um hvaða árslaun beri að leggja til grundvallar bótagreiðslum til stefnanda vegna varanlegrar örorku sem hún hlaut í umferðarslysi í nóvember árið 2012. Eru aðilar málsins sammála um að beita beri 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við útreikning bóta.

                Þegar slysið átti sér stað hafði stefnandi lokið BA námi í lögfræði og hafði jafnframt lokið 78 ECTS einingum af 120 í meistaranámi í lögfræði. Hún brautskráðist með meistaragráðu í lögfræði rúmum tveimur árum síðar í febrúar árið 2014. Að loknu námi hóf stefnandi störf hjá Sýslumanninum […] sem löglærður fulltrúi og hefur starfað við embætti sýslumanna síðan, nú hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

                Stefnandi setur dómkröfur sínar fram sem aðalkröfu, varakröfu og þrjár þrautvarakröfur. Í fyrstu þremur dómkröfum stefnanda er byggt á mismunandi meðaltekjum lögfræðinga á árinu 2012. Aðalkrafa stefnanda byggir á því að miða beri bætur til hennar við meðaltekjur lögfræðinga á slysaárinu 2012 eins og þær komi fram á heimasíðu Hagstofu Íslands. Varakrafa stefnanda tekur mið af meðaltekjum lögfræðinga á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Fyrsta þrautavarakrafa miðast við meðaltekjur félagsmanna í stéttarfélagi lögfræðinga árið 2012 samkvæmt úttekt Bandalags háskólamanna um laun starfsmanna ríkisins eftir bandalögum og stéttarfélögum. Í annarri þrautavarakröfu telur stefnandi rétt að miða við laun sín hjá Sýslumanni höfuðborgarsvæðis eins og þau eru í dag, en í þriðju og síðustu þrautavarakröfu er þess krafist að stuðst verði að mestu við bótatilboð stefnanda sem tók mið af launum stefnanda í mars og apríl 2014.

                Stefndi tekur fram að þegar hafi verið fallist á síðustu þrautavarakröfu stefnanda. Stefndi hafi við uppgjör bóta til stefnanda litið til þeirra tekna sem stefnandi hafi aflað sér á fyrstu tveimur mánuðum sem lögfræðingur eftir að hún lauk meistaranámi í lögfræði í febrúar árið 2014. Bætur hafi því verið greiddar að fullu til stefnanda í samræmi við þrautaþrautaþrautavarakröfu stefnanda og að hún eigi ekki rétt á frekari bótagreiðslum úr hendi stefnda.

                Í 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga er mælt fyrir um að þegar tjón vegna örorku sé metið skuli líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við.

                Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna skulu árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

                Ákvæði 2. mgr. 7. gr. setur samkvæmt framansögðu tvö skilyrði fyrir því að árslaun skuli ákveða sérstaklega. Annars vegar er það skilyrði að aðstæður hafi verið óvenjulegar. Hins vegar er það skilyrði að hinar óvenjulegu aðstæður leiði til þess að aðrir mælikvarðar séu réttari en þau árslaun þau sem meginreglan í 1. mgr. 7. gr. miðar við um líklegar framtíðartekjur tjónþola.  Er það tjónþola að færa sönnur á að framangreind skilyrði séu fyrir hendi og þar með hvaða árslaun það séu sem teljast betri mælikvarði á framtíðartekjur hans.

                Eins og áður segir var stefnandi í laganámi þegar hún varð fyrir umferðarslysi á árinu 2012. Hún hóf starfsferil sinn sem lögfræðingur hjá Sýslumanninum […] að loknu meistaranámi í lögfræði í febrúar árið 2014 og hefur starfað sem löglærður fulltrúi við embætti sýslumanna síðan, nú við embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi hefur ekki aflað sér viðbótarmenntunar að loknu laganámi eða sýnt fram á að slíkt standi fyrir dyrum. Þá liggja ekki fyrir gögn um að launakjör stefnanda komi til með að breytast með þeim hætti að launakjör hennar muni jafnast á við meðaltekjur lögfræðinga hjá hinu opinbera eða á almennum markaði eins og gerð er grein fyrir í fyrstu þremur dómkröfum stefnanda. Er því fallist á það með stefnda að meðaltekjur lögfræðinga á árinu 2012 eins og þær eru settar fram í aðal- vara- og þrautavarakröfu stefnanda, geti ekki talist réttur mælikvarði á framtíðartekjur stefnanda.

                Víkur þá að síðustu tveimur varadómkröfum stefnanda. Sú fyrri tekur mið af launum stefnanda hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eins og þau er í dag og eftir úrskurð gerðardóms frá árinu 2015, en hin síðari miðast við laun stefnanda fyrstu tvo mánuði hennar í starfi hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í febrúar og mars árið 2014.

                Árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku skal, eins og áður segir, miða við þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, sbr. meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ekki er því unnt að fallast á með stefnanda að miða bætur við laun hennar hjá Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins eins og þau eru í dag að viðbættum framtíðarhækkunum samkvæmt úrskurði gerðardóms sem kveðinn var upp þremur árum eftir að tjón varð. Hafnar því dómurinn þrautaþrautavarakröfu stefnanda.

                Stefndi hefur fallist á að miða við árslaun stefnanda eins og þau voru fyrstu tvo mánuði stefnanda í starfi hjá Sýslumanninum […] á árinu 2014. Er það því niðurstaða dómsins að stefndi hafi þegar fallist á og greitt bætur samkvæmt síðustu þrautavarakröfu stefnanda. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari

                                                                               DÓMSORÐ:

                Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.