Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Miðvikudaginn 13. janúar 1999.
Nr. 2/1999. Fróði hf.
(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)
gegn
Carl Allers Etablissement A/S
(Árni Vilhjálmsson hrl.)
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.
Útgefandi erlends tímarits krafðist þess að tveir matsmenn yrðu dómkvaddir á ný til að meta tiltekin atriði varðandi útlit og innihald íslensks tímarits. Með dómi Hæstaréttar 14. ágúst 1998 hafði verið fallist á dómkvaðningu matsmannanna, en matsgerð þeirra, dags. 13. október sama ár reyndist gölluð að því leyti að ekki var gætt ákvæða 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um rétt aðila til að tjá sig við matið. Fallist á kröfu matsbeiðanda um að matsmennirnir yrðu dómkvaddir að nýju enda var ekki talið að matsmennirnir hefðu við þetta orðið vanhæfir til frekari matsstarfa.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 1998, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 1998, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að Gísli B. Björnsson og Jens Einarsson yrðu dómkvaddir á ný til að meta tiltekin atriði varðandi tímaritið Séð og heyrt, sem sóknaraðili gefur út. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krefst sóknaraðili þess að synjað verði beiðni varnaraðila um dómkvaðningu nefndra matsmanna. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með dómi Hæstaréttar 14. ágúst 1998 í máli nr. 260/1998 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að dómkvaddir yrðu tveir menn til að leggja mat á þar tilgreind atriði varðandi útlit og efni tímaritsins Séð og heyrt. Voru áðurnefndir matsmenn dómkvaddir í þessu skyni 13. október 1998. Meðal gagna málsins er skjal, sem frá þeim stafar, dagsett 19. nóvember 1998 og ber fyrirsögnina „Matsgerð dómkvaddra matsmanna ...”. Verður ráðið, að matsmennirnir hafi gefið hvorugum málsaðila kost á að skýra sjónarmið sín sérstaklega, áður en þeir afhentu varnaraðila umrætt skjal. Gættu matsmenn þannig ekki ákvæða 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 við framkvæmd starfa síns, svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði.
Ekki verður fallist á með sóknaraðila að matsmennirnir hafi orðið vanhæfir til frekari matsstarfa vegna þeirra mistaka, sem þeim urðu á, og áður er getið. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að heimilt sé að fá þá dómkvadda til að meta að nýju það, sem þeir voru dómkvaddir til að meta 13. október 1998, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1990, bls. 1041. Hefur sóknaraðili þá færi á að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd matsins með þeim rökum, sem hann kýs að tefla fram.
Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 1998
Málavextir eru þeir að 13. október sl. voru dómkvaddir þeir Gísli B. Björnsson og Jens Gíslason til að meta tiltekin atriði varðandi útlit og innihald tímaritsins Séð og heyrt.
Með bréfi til dómsins 23. nóvember sl. óskaði matsbeiðandi eftir því að matsmennirnir yrðu dómkvaddir á ný þar eð þeir hefðu ekki gefið aðilum málsins færi á að tjá sig á matsfundi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málið var tekið fyrir 27. nóvember sl. og mótmælti þá matsþoli, Fróði hf., beiðni matsbeiðanda, krafðist úrskurðar um hana og jafnframt málskostnaðar.
Matsþoli byggir á því að matsmennirnir hafi lokið störfum sínum og svarað þeim spurningum, sem fyrir þá voru lagðar. Endurmat eða endurskoðun matsgerðarinnar komi ekki til greina nema með yfirmati og eigi matsbeiðandi ekki annars kost en að krefjast þess, sætti hann sig ekki við matsgerðina. Enn fremur byggir matsþoli á því að matsmennirnir séu hlutdrægir. Fyrir þeim hafi legið einhliða sjónarmið matsbeiðanda og þeir hafi hvorki haft undir höndum gögn frá matsþola né hlýtt á sjónarmið hans, þrátt fyrir að fyrir þá hafi verið lagt í dómkvaðningunni að tilkynna lögmönnum aðila hvenær matið ætti að fara fram. Vísar matsþoli til c og g liðar 5. gr. einkamálalaganna máli sínu til stuðnings.
Óumdeilt er að matsmennirnir héldu ekki fund með aðilum málsins áður en matið fór fram svo sem lögskylt er samkvæmt 2. mgr. 62. gr. einkamálalaganna og ákveðið hafði verið í dómkvaðningunni. Af þessu leiðir að aðilar hafa ekki getað komið sjónarmiðum sínum á framfæri við matsmennina og er matsgerðin þar af leiðandi ekki þannig úr garði gerð að fullnægjandi sé samkvæmt ákvæðum einkamálalaganna. Þegar af þessari ástæðu, sbr. 1. mgr. 66. gr. einkamálalaganna, verður að fallast á beiðni matsbeiðanda og dómkveðja matsmennina á ný.
Þegar matsmennirnir voru upphaflega dómkvaddir komu ekki fram athugasemdir um hæfi þeirra og matsþoli hefur ekki fært annað fram gegn því að þeir verði dómkvaddir á ný, en það að hann telur matsgerðina, í þeim búningi sem hún er nú, halla undir sjónarmið matsbeiðanda. Matsgerð er ekki dómur heldur sönnunargagn, sem væntanlega verður síðar metið af dómi og koma þá til skoðunar öll atriði varðandi hana, þ.m.t. hæfi matsmannanna og hvernig þeir stóðu að matinu. Það er niðurstaða dómsins að þrátt fyrir þann formlega ágalla, sem er á matsgerðinni, hafi matsmennirnir ekki gert sig vanhæfa til að taka hana upp aftur, hlýða á sjónarmið aðila. og semja nýja matsgerð. Má benda á það í þessu sambandi að löng venja er fyrir því hér á landi að héraðsdómari telst ekki vanhæfur til að dæma mál á ný sem Hæstiréttur hefur ómerkt og vísað heim. Af framrituðu leiðir að dómurinn hafnar því að matsmennirnir hafi gert sig vanhæfa til verksins með samningu matsgerðarinnar án þess að halda matsfund.
Samkvæmt framansögðu eru þeir Gísla B. Björnsson, teiknari, Úthlíð 3, Reykjavík og Jens Einarsson, ritstjóri, Álfhólsvegi 25, Kópavogi, dómkvaddir á ný til þess að framkvæma hið umbeðna mat, eins og því er nánar lýst í matsbeiðninni.
Ber þeim að semja skriflega og rökstudda matsgjörð, vanda hana eftir bestu þekkingu og samvisku og vera reiðubúnir til að gefa skýrslu um hana fyrir dómi.
Matsmennirnir haldi matsfund og tilkynni eftirtöldum aðilum um hann og hvenær matið eigi að fara fram :
1) Árna Vilhjálmssyni hrl., Borgartúni 24, Reykjavík s. 562 7611,
f.h. matsbeiðanda.
2) Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl., Skólavörðustíg 6b, Reykjavík, s. 561 1020
f.h. matsþola.
Matsmennirnir skuli hafa lokið matinu eigi síðar en 31. desember nk.
Ekki er tilefni til að kveða á um málskostnað og skal hann falla niður.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Gísli B. Björnsson og Jens Einarsson eru dómkvaddir á ný til að meta framangreint.
Málskostnaður fellur niður.