Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Sératkvæði


                                     

Miðvikudaginn 28. mars 2012.

Nr. 135/2012.

Þrotabú Baugs Group hf.

(Erlendur Gíslason hrl.)

gegn

Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.

(Jóhann Pétursson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gjaldþrotaskipti. Riftun. Sératkvæði.

Þrotabú B hf. lýsti kröfu við slit sparisjóðsins S hf. vegna riftunar á greiðslu B hf. til sparisjóðsins, en um var að ræða afborgun að fjárhæð 100.000.000 krónur vegna víxilskuldar B hf. Ekki var fallist á með þrotabúi B hf. að uppfyllt væru skilyrði til riftunar greiðslunnar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfu þrotabús B hf. við slit S hf. var því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 1. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laganna. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu hans að fjárhæð 109.011.280 krónur verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorðið greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Baugs Group hf., greiði varnaraðila, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Samkvæmt gögnum málsins gaf Rekstrarfélag SPRON hf. 1. nóvember 2008 út víxil að fjárhæð 828.893.163 krónur með gjalddaga mánuði síðar í tilefni af skuld Baugs Group hf. við hið fyrrnefnda félag. Var Baugur Group hf. greiðandi og samþykkjandi víxilsins. Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði eignaðist varnaraðili kröfu rekstrarfélagsins samkvæmt víxlinum síðar í sama mánuði. Víxillinn var ekki greiddur á gjalddaga og eftir viðræður varð að samkomulagi að Baugur Group hf. greiddi 100.000.000 krónur inn á víxilskuldina til varnaraðila 22. desember 2008, en í tengslum við greiðsluna var gefinn út nýr víxill vegna eftirstöðva skuldarinnar með vöxtum, samtals að fjárhæð 762.424.206 krónur með gjalddaga 2. febrúar 2009. Sóknaraðili krefst riftunar á framangreindri greiðslu að fjárhæð 100.000.000 krónur. Reisir hann kröfu sína á 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt matsgerð tveggja dómkvaddra manna frá 20. febrúar 2012, með þeirri niðurstöðu að eigið fé Baugs Group hf. hafi þegar í júní 2008 verið neikvætt um 9.078.249.000 krónur og innra virði þess hafi einnig verið neikvætt. Varnaraðili hefur andmælt því að líta beri til matsgerðarinnar þar sem hún hafi komið til vegna annarra mála sem hann hafi ekki átt aðild að. Þá telur varnaraðili að grundvelli málsins yrði verulega raskað frá því sem var í héraði ef líta ætti til matsgerðarinnar. Varnaraðili hefur þó ekki andmælt niðurstöðu matsgerðarinnar með þeim hætti er máli skiptir.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.

Frestdagur við skipti á búi Baugs Group hf. var 4. febrúar 2009. Í þessu máli er um að ræða greiðslu á skuld innan sex mánaða fyrir frestdag sem greidd var með eðlilegum greiðslueyri og var skuldin fallin í gjalddaga. Eftir stendur það álitaefni hvort fjárhæð greiðslunnar hafi skert greiðslugetu Baugs Group hf. verulega í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði og samkvæmt bréfi frá endurskoðunarskrifstofunni Ernst & Young 10. júní 2011 reiddi Baugur Group hf. af hendi ýmsar greiðslur á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag og námu þær samtals rúmlega níu milljörðum króna. Vísar varnaraðili til þess að af þeirri fjárhæð hafi rúmlega sex milljarðar króna farið til greiðslu óveðtryggðra krafna.

Í gögnum málsins er Baugi Group hf. lýst sem eignarhaldsfélagi þar sem tekjumöguleikar hafi einkum falist í sölu eigna og arði af þeim. Þegar umrædd greiðsla fór fram voru möguleikar félagsins til að taka lán afar takmarkaðir en helstu viðskiptabankar þess höfðu nokkru áður verið yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu. Þá var eigið fé félagsins neikvætt. Einnig er í gögnum málsins áætlun Baugs Group hf. frá 12. desember 2008 um endurskipulagningu á fjárhag sínum er félagið kallaði „Project Sunrise“ sem að því er virðist átti að felast í að breyta skuldum í hlutafé. Er ómótmælt að varnaraðila var kunnugt um efni þessarar áætlunar. Samkvæmt skýrslu Stefáns Hilmarssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Baugs Group hf., hjá skiptastjóra voru eignir félagsins nánast orðnar verðlausar áður en umrædd greiðsla fór fram. Samkvæmt þessu, skýrslu Evu Maríu Hallgrímsdóttur, fyrrverandi verkefnastjóra á fjármálasviði félagsins, og öðrum gögnum málsins var lausafjárþurrð félagsins svo mikil að það átti ekki reiðufé til að standa straum af útgjöldum í daglegum rekstri þannig að í lok árs 2008 og byrjun árs 2009 tók félagið meðal annars lán hjá ýmsum tengdum aðilum, svo sem Styrktarsjóði Baugs, Hugverkasjóði og Sólarsjóði. Er í hinum kærða úrskurði sérstaklega tiltekið að Norðurljós hf. hafi lánað Baugi Group hf. 100.000.000 krónur 22. desember 2008 og gögn málsins bendi hvorki til að lánið hafi verið endurgreitt né að Norðurljós hf. hafi lýst kröfu í þrotabú Baugs Group hf. Er þar dregin sú ályktun að lánið sýni að umrædd greiðsla hafi engin marktæk áhrif haft á greiðslugetu Baugs Group hf. Ekki verður fallist á þessa ályktun, enda verður ekki séð að Norðurljós hf. hafi verið að greiða þá skuld sem krafist er riftunar á heldur var um að ræða lán sem rann til reksturs Baugs Group hf. Þessu fé ráðstafaði síðarnefnda félagið með framangreindum hætti á þeim tíma sem stór hluti krafna á hendur því var kominn í vanskil.

Samkvæmt framansögðu var fjárhagsleg staða Baugs Group hf. afar slæm er umrædd greiðsla fór fram og fjöldi krafna í vanskilum. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að handbært fé eftir greiðsluna hafi verið 225.100.800 krónur. Sóknaraðili telur það jafnvel hafa verið enn minna, en sú ályktun verður ekki dregin með öruggum hætti af gögnum málsins. Þótt miðað sé við fyrrgreinda fjárhæð er ljóst að verulegur hluti af handbæru fé félagsins var notaður til að greiða upp í þessa einu skuld. Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á með sóknaraðila að uppfyllt sé það skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að umrædd greiðsla hafi skert greiðslugetu Baugs Group hf. verulega.

Loks kemur til athugunar hvort telja skuli greiðsluna venjulega eftir atvikum í skilningi 1. mgr. 134. gr. laganna. Verður vart talið að greiðsla eins og sú sem hér um ræðir hafi verið í samræmi við framangreinda áætlun „Project Sunrise“ þar sem greiðslan leiddi meðal annars hvorki til þess að eignir losnuðu úr veðböndum né að lánalínur opnuðust. Fram kom við skýrslugjöf áðurnefnds Stefáns Hilmarssonar hjá skiptastjóra að varnaraðila hafi verið kunnugt um fjárhagsstöðu félagsins er greiðslan átti sér stað. Í gögnum málsins er einnig tölvubréf frá framkvæmdastjóra varnaraðila 20. janúar 2009 þar sem meðal annars kemur fram að sparisjóðnum var kunnugt um bága fjárhagsstöðu Baugs Group hf. og framangreinda áætlun félagsins um endurskipulagningu, en sú áætlun bar með sér bága stöðu félagsins. Samkvæmt þessu verður ekki talið að varnaraðili hafi sýnt fram á að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum í skilningi framangreinds ákvæðis.

Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfu sóknaraðila og samkvæmt framansögðu tel ég að fallast eigi á kröfu hans við slit varnaraðila og dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2012.

I

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. (hér skammstafað SPRON) slitastjórn 23. júní 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 22. júlí sama ár. Sóknaraðili, þrotabú Baugs Group hf., lýsti kröfu á hendur varnaraðila, alls að fjárhæð 109.011.280 krónur, vegna riftunar á þeirri ráðstöfun Baugs Group hf. að greiða varnaraðila 100.000.000 króna 22. desember 2008, sem innborgun á víxilskuld, auk vaxta og dráttarvaxta til 23. júní 2009. Kröfunni til stuðnings var vísað til 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009. Var kröfunni lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Að auki krafðist sóknaraðili 100.000 króna vegna ritunar kröfulýsingar, og var þeirri kröfu lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfum sóknaraðila með þeim rökum að ekki væru fyrir hendi skilyrði fyrir riftun samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 26. október 2010.

Í greinargerð sinni til dómsins krefst sóknaraðili þess að krafa hans, að fjárhæð 109.111.280 krónur, verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við skipti varnaraðila. Að auki krefst hann dráttarvaxta af fjárhæðinni frá 23. júní 2009 til greiðsludags, og að sú krafa verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 1. tl. 114. gr. sömu laga. Loks krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila, að mati dómsins.

Málið var tekið til úrskurðar 18. janúar sl.

II

Helstu atvik eru þau að 1. nóvember 2008 gaf Rekstrarfélag SPRON út víxil að fjárhæð 828.893.000 krónur, með gjalddaga 1. desember sama ár. Greiðandi og samþykkjandi var sóknaraðili, Baugur Group hf. Víxillinn var til greiðslu á skuld sóknaraðila við varnaraðila samkvæmt skuldabréfi með auðkennið BAUG 07 3, en gjalddagi skuldabréfsins var 1. nóvember 2008.

Víxillinn greiddist ekki á gjalddaga. Eftir viðræður aðila varð að samkomulagi að sóknaraðili greiddi 100.000.000 króna inn á víxilskuldina og varð sóknaraðili við því 22. desember 2008. Að ósk varnaraðila var fjárhæðin lögð inn á bankareikning SPRON-Eignastýringardeildar. Samhliða var gefinn út nýr víxill vegna eftirstöðva skuldarinnar, ásamt vöxtum, samtals að fjárhæð 762.424.206 krónur, og var gjalddagi hans 2. febrúar 2009.

Samkvæmt greinargerð sóknaraðila átti hann í miklum erfiðleikum með að fjármagna greiðsluna til varnaraðila og þurfti að slá lán fyrir henni hjá Norðurljósum ehf. Fyrir vikið kvaðst hann einnig hafa þurft að fjármagna daglegan rekstur og launagreiðslur næstu mánuði með því að sækja með ólögmætum hætti fjármuni til sjálfstæðra styrktarsjóða, þar sem stjórnendur sóknaraðila voru stjórnarmenn. Þá bendir hann á að fyrir liggi í skýrslum, sem skiptastjóri hafi tekið af forsvarsmönnum sóknaraðila, að hart hafi verið gengið á eftir greiðslunni og hafi öllum tilboðum um framlengingu víxilsins eða um aðra fjármögnun verið hafnað. Fullyrðir hann einnig að varnaraðili hafi við sama tækifæri hótað fjárnámsaðgerðum, sem hefðu eyðilagt tilraunir sóknaraðila til að ná samningum við aðra kröfuhafa.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2009 var sóknaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar til 4. mars sama ár. Fundur var haldinn með helstu kröfuhöfum sóknaraðila 27. febrúar, þar sem þeim var kynnt fjárhagsstaða sóknaraðila og aflað fylgis við beiðni hans um framlengingu greiðslustöðvunar. Í kjölfarið óskaði sóknaraðili eftir framlengingu greiðslustöðvunar, en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri beiðni. Eins og áður greinir var bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009, en frestdagur við skiptin er 4. febrúar það ár. Með bréfi 24. mars 2009 lýsti sóknaraðili yfir riftun á áðurnefndri greiðslu til varnaraðila og krafðist um leið endurgreiðslu fjárhæðarinnar með vísan til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

Fjármálaeftirlitið vék stjórn SPRON frá 21. mars 2009 og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðinn. Eins og áður er komið fram skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur varnaraðila slitastjórn 23. júní 2009. 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dóminum vitnin Stefán H. Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Baugs Group hf., og Eva María Hallgrímsdóttir, fyrrverandi verkefnastjóri á fjármálasviði félagsins.

Í máli Stefáns H. Hilmarssonar kom fram að um jólin 2008 hafi stjórnendur félagsins verið að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu í samstarfi við stóru bankana, Landsbankann hf., Glitni hf., Kaupþing hf. og Straum-Burðarás hf. Fjárhagsstaðan hafi verið veik og eigið fé neikvætt, enda hafi þá stærstu eignir félagsins, svo sem í FL-Group og fleiri stórum félögum, verið glataðar. Lausafjárstaðan hafi heldur ekki verið góð, en sjóðflæði félagsins hafi yfirleitt verið söluandvirði á eignarhlutum í öðrum félögum. Slíkur markaður hafi hins vegar verið frosinn á þessum tíma. Félagið hafi því átt lítið handbært fé og yfirhöfuð ekki verið að greiða af lánum. Á sama tíma hafi verið í gildi munnlegt samkomulag við stóru bankana um að félagið greiddi ekki af lánum þess, svokallað „Stand-still agreement“, á meðan félagið ætti í viðræðum við bankana um fjárhagslega endurskipulagningu. Nefndi vitnið í því sambandi verkefnið „Project Sunrise“, sem gekk einkum út á það að öllum skuldum Baugs yrði breytt í hlutafé í félaginu.

Aðspurt sagði vitnið að greiðslan til SPRON 22. desember 2008 hafi verið langstærsta einstaka greiðsla til lánardrottins í þeim mánuði. Fram kom einnig í máli vitnisins að SPRON hafi ekki átt aðild að áðurnefndu samkomulagi um að Baugur greiddi ekki af lánum félagsins á meðan viðræður stæðu yfir um endurskipulagningu þess. Hins vegar taldi vitnið sig minnast þess að hafa átt fund með starfmönnum SPRON, m.a. sparisjóðsstjóra og aðstoðarsparisjóðsstjóra, um miðjan desember 2008, þar sem kynnt var verkefnið „Project Sunrise“, um leið og óskað var stuðnings SPRON við það verkefni. Loks taldi vitnið fullvíst að starfsmenn SPRON hafi vitað að Baugur ætti ekki fé til að greiða skuldir, enda hefði þess verið óskað á sama fundi að „Stand-still“ samkomulagið gilti einnig um skuldir félagsins við SPRON.

Eva María Hallgrímsdóttir lýsti fjárhagsstöðu Baugs Group hf. um jólin 2008 á svipaðan hátt og Stefán Hilmarsson. Ástandið hafi verið erfitt, í nokkra mánuði hafi verið reynt að velta lánum áfram með endurfjármögnun þeirra, en um leið reynt að afla rekstrarfjár, svo sem með eignasölu, sem þó hafi ekki borið mikinn árangur. Ekki hafi mikið verið um peninga, en reynt hafi þó verið að greiða það nauðsynlegasta, eins og laun, leigu og rekstrarkostnað. Um flest lán hafi gilt það sama; reynt hafi verið að semja um þau á gjalddaga, annað hvort með því að velta þeim áfram eða borga eitthvert „smotterí“ inn á þau, svo sem vexti.

Sérstaklega spurð um greiðslu á 100.000.000 króna til SPRON 22. desember 2008 sagði vitnið að á þessum tíma hafi verið óvenjulegt að svo há greiðsla væri innt af hendi, enda hafi félagið þá ekki átt þá peninga til.

III

Sóknaraðili byggir á því að umrædd greiðsla til varnaraðila sé riftanleg ráðstöfun á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem um sé að ræða greiðslu skuldar innan sex mánaða frá frestdegi, greidd hafi verið fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu sóknaraðila verulega og hafi greiðslan ekki verið venjuleg eftir atvikum. Þessu til stuðnings bendir sóknaraðili á að handbært fé hafi nánast verið uppurið á þeim tíma sem greiðslan var innt af hendi, og hafi hún af þeim sökum falið í sér ráðstöfun sem ekki sé í neinu samhengi við þá fjármuni sem þá voru til ráðstöfunar til greiðslu skulda. Greiðslan hafi einnig verið stærsta einstaka uppgjör ótryggðrar kröfu sem átt hafi sér stað á þessum tíma. Á sama tíma hafi hins vegar háar kröfur á hendur félaginu verið gjaldfelldar vegna vanskila og fjöldi annarra krafna verið fallinn í gjalddaga, án þess að þær væru greiddar. Í sumum tilvikum hefði gjalddögum annarra krafna verið frestað eða nýir samskonar fjármálagerningar gerðir til framlengingar skuldanna. Verði að skoða fjárhæð greiðslunnar og greiðslugetu sóknaraðila í þessu samhengi.

Sóknaraðili leggur einnig áherslu á að eigið fé félagsins hafi farið þverrandi frá haustmánuðum 2007, en þá hafi þegar verulega verið tekið að halla undan fæti í rekstri þess. Fjármögnun hafi þá verið orðin mjög þung og staða félagsins orðin afar slæm á fyrri hluta ársins 2008. Eignasafn hafi jafnframt rýrnað mikið veturinn 2007-2008. Allt hafi þetta, ásamt samdrætti á fjármagnsmörkuðum, gert það að verkum að sóknaraðili átti mjög erfitt með endurfjármögnun og þar með greiðslu vaxta og uppgreiðslu skammtímaskuldbindinga. Í raun hafi félagið verið orðið ógreiðslufært og ógjaldfært fyrir mitt ár 2008 eða jafnvel fyrr. Við hrun íslensku bankanna í október 2008 hafi síðan endanlega lokast á alla möguleika sóknaraðila til endurfjármögnunar og eignasölu, enda hafi íslensku bankarnir verið helstu kaupendur eigna af sóknaraðila fyrir hrun þeirra, svo og eina uppspretta félagsins á lánsfé. Á sama tíma og umrædd greiðsla átti sér stað til varnaraðila hafi sóknaraðili um lengri tíma hvorki getað staðið við skuldbindingar sínar þegar þær féllu í gjalddaga, né þótti þá líklegt að úr rættist um fjárhag félagsins í náinni framtíð. Þvert á móti hafi rekstur félagsins bókstaflega verið í andarslitrunum og einungis tímaspursmál hvenær að gjaldþroti þess kæmi. Tekur sóknaraðili fram að engir endurskoðaðir árshlutareikningar séu til fyrir félagið eftir 1. janúar 2008. Hins vegar liggi fyrir óendurskoðaður árshlutareikningur sem miðist við 30. júní 2008, ásamt upplýsingum úr efnahagsreikningi sóknaraðila, sem sýnt hafi verið kröfuhöfum á fundi 27. febrúar 2009. Að dómi sóknaraðila gefi þau gögn þó ekki rétta mynd af fjárhag hans á þeim tíma. Til að mynda telur sóknaraðili það ekki standast að óskráðar eignir félagsins hafi hækkað verulega í verði frá árslokum 2007, eins og fram komi í árshlutareikningi 30. júní 2008, á sama tíma og skráðar eignir félagsins hafi hrapað í verði. Vekur sóknaraðili sérstaka athygli á því að engin óháð verðmöt liggi fyrir á óskráðum eignum félagsins, en látið nægja að styðjast við eigið mat stjórnenda og starfsmanna sóknaraðila sjálfs, sem átt hafi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Jafnframt veki athygli að eigin hlutir sóknaraðila, um 26% af hlutafé félagsins, séu eignfærðir, en slíkt sé háð ströngum skilyrðum, sem ekki hafi verið fyrir hendi í tilviki sóknaraðila. Þrátt fyrir að gögn þessi gefi skakka mynd af fjárhag félagsins, byggir sóknaraðili á því að sú mynd sem þar sé dregin upp sé engu að síður sönnun um hagstæðustu mögulegu sýn á efnahag félagsins. Verði þau lögð til grundvallar telur hann ljóst að fjárhagur félagsins, þegar umrædd greiðsla til varnaraðila var innt af hendi, hafi verið slíkur að greiðslan hafi verulega skert greiðslugetu þess.

Sóknaraðili bendir einnig á að í upplýsingum úr efnahagsreikningi, sem sýndur var kröfuhöfum á fundi 27. febrúar 2009, komi fram að um áramótin 2008/2009, örfáum viðskiptadögum eftir að greiðslan til varnaraðila átti sé stað, hafi skuldir félagsins verið hærri en ofreiknaðar eignir. Handbært fé hafi þá aðeins verið 1.280.000 bresk pund, eða 225.100.800 krónur, miðað við sölugengi bresks punds 31. desember 2008. Ljóst sé því að greiðsla sóknaraðila til varnaraðila, að fjárhæð 100.000.000 króna, 22. desember 2008 hafi verið verulegur hluti af handbæru fé. Er á því byggt að aðrir fjármunir hafi ekki verið aðgengilegir til greiðslu skulda sóknaraðila á þessum tíma sökum vandkvæða á sölu eigna, auk þess sem eignir sóknaraðila hafi að langmestu leyti verið veðsettar fyrir hærri fjárhæðum en mögulegu söluverði þeirra.

Til marks um hve þungbær greiðsla sóknaraðila var, vekur sóknaraðili athygli á að hann hafi ekki átt nægilegt reiðufé til að inna greiðsluna af hendi, og hafi því þurft að taka lán hjá Norðurljósum ehf. sama dag að sömu fjárhæð. Þá er jafnframt á það bent að stuttu eftir greiðsluna þurfti sóknaraðili að slá ólögmæt lán hjá Hugverkasjóði, Sólarsjóði og Styrktarsjóði til þess að fjármagna daglegan rekstrarkostnað. Sú staðreynd að framangreind lán höfðu ekki að fullu verið endurgreidd þegar sóknaraðili var tekinn til skipta, þykir sóknaraðila eindregið benda til þess að greiðslan til varnaraðila hafi skert greiðslugetu hans verulega.

Að mati sóknaraðila getur umrædd greiðsla til varnaraðila ekki talist venjuleg eftir atvikum. Í því efni er bent á að sambærilegar kröfur annarra kröfuhafa hafi ekki verið greiddar með reiðufé á þessum tíma. Greiðslan hafi fyrst og fremst verið viðbrögð við hótun varnaraðila um aðfarargerðir, og innt af hendi í þeim tilgangi að kaupa tíma til þess að reyna að ná samkomulagi við aðra kröfuhafa um áframhaldandi fjármögnun skulda sóknaraðila. Þessar tilraunir sóknaraðila hafi þó verið óraunhæfar, og ekki í neinu samhengi við raunverulega skuldastöðu hans.

Þótt unnt sé að sýna ráðstöfunum, sem eru hluti af því að endurskipuleggja fjárhag félags, nokkurn skilning, telur sóknaraðili að um leið verði að meta af skynsemi hvort unnt sé að bjarga fjárhag þess og að félagið hafi til þess eignir eða ótvíræð tækifæri. Í tilviki sóknaraðila hafi svo ekki verið, og beri úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. mars 2009 þess vitni. Félagið hafði verið í ferli endurskipulagningar um langa hríð og löngu orðið ógreiðslufært vegna stöðu á lánsfjármarkaði. Þrot félagsins hafi verið óhjákvæmilegt 22. desember 2008. Telur sóknaraðili að í þessum efnum sé ekki unnt að leggja til grundvallar mat stjórnenda sóknaraðila á því hvort enn hafi verið möguleiki á að endurskipuleggja fjárhag félagsins. Óumdeilt sé að stjórnendur félaga í miklum fjárhagserfiðleikum, sérstaklega ef þeir eigi mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta, bresti oft dómgreind til þess að meta stöðu þess af skynsemi og skipuleggja endurreisn rekstrarins eða fjármála að öðru leyti.

Krafa sóknaraðila byggist einnig á því að uppfyllt séu skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 til þess að rifta umræddri greiðslu til varnaraðila. Í því efni leggur sóknaraðili áherslu á að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg, enda hafi gjaldþrot sóknaraðila verið óumflýjanlegt á sama tíma og varnaraðili knúði fram greiðsluna með hótunum um aðfarargerðir og að eyðileggja tilraunir fyrirsvarmanna sóknaraðila til endurskipulagningar, vitandi að aðrir kröfuhafar með sambærilegar kröfur fengju ekki greitt reiðufé inn á sínar kröfur. Þurfi aðrir kröfuhafar nú að lúta því að eiga eingöngu kröfu í þrotabú sóknaraðila. Staðhæfir sóknaraðili að varnaraðili hafi vitað um ógjaldfærni hans, enda hafi sóknaraðili á sama tíma og greiðslan var innt af hendi átt í  viðræðum við varnaraðila um framlengingar á skuldum sínum, þ. á m. um framlengingu á eftirstöðvum umrædds víxils.

Til stuðnings kröfu sinni um endurgreiðslu í kjölfar riftunar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 vísar sóknaraðili til 1. mgr. 142. gr. laganna, og þá aðallega 3. málsliðar, enda hafi varnaraðili verið grandsamur um riftanleika ráðstöfunarinnar. Tjón sóknaraðila af ráðstöfununum nemi þeirri fjárhæð sem hefði að öðrum kosti komið til úthlutunar úr þrotabúinu, enda dugi eignir búsins ekki til þess að greiða upp lýstar kröfur í þrotabúið. Til vara er byggt á 1. málslið 1. gr. 142. gr., enda ljóst að varnaraðili hafi óumdeilanlega haft hag af hinni riftanlegu ráðstöfun, sem jafngildi þeirri greiðslu sem hann hafi fengið. Ekki sé endurgjaldi til að dreifa, sem draga eigi frá greiðslu sóknaraðila.

Verði fallist á riftunarkröfu samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991, byggist krafa sóknaraðila á 3. mgr. 142. gr. laganna. Slík krafa sé skaðabótakrafa og sé fjárhæð hennar sú sama og fjárhæð kröfu um tjónsbætur. Að auki er krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi er ráðstafanir þrotamanns áttu sér stað og þar til krafa hafi verið gerð um endurgreiðslu, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Sóknaraðili byggir loks á því að skipa eigi kröfu hans í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila, enda sé krafan skaðabóta og/eða endurgreiðslukrafa, sem orðið hafi til og krafist var greiðslu á áður en úrskurður gekk um að bú varnaraðila skyldi tekið til skipta. Krafa um greiðslu dráttarvaxta af fjárhæðinni sé hins vegar eftirstæð krafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 114. gr. sömu laga. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en krafa hans um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Varnaraðili mótmælir því að krafa sóknaraðila nái fram að ganga, enda hafi umrædd greiðsla hvorki skert greiðslugetu sóknaraðila verulega, né teljist hún óvenjuleg eftir atvikum, eins og áskilið sé í 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Leggur hann áherslu á að sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að þessum skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt.

Við mat á því hvort greiðslan hafi skert greiðslugetu sóknaraðila verulega, telur varnaraðili að skoða verði fjárhæð greiðslunnar í samhengi við heildarskuldbindingar þrotamannsins á þeim tíma sem hún átti sér stað. Styðjist sú aðferðafræði bæði við skrif fræðimanna og dómaframkvæmd Hæstaréttar. Samkvæmt kröfuskrá þrotabúsins nemi heildarfjárhæð lýstra krafna í bú sóknaraðila samtals 319.433.710.437 krónum, og umdeild greiðsla til varnaraðila, að fjárhæð 100.000.000 króna, því aðeins 0,0313% af þeirri fjárhæð. Því telur varnaraðili býsna langsótt að halda því fram að greiðslan hafi skert greiðslugetu sóknaraðila verulega.

Varnaraðili byggir einnig á því að tilgangur riftunarreglu 134. gr. laga nr. 21/1991, eins og greininni var breytt frá áður gildandi gjaldþrotaskiptalögum, hafi ekki verið sá að reglan tæki til greiðslna sem næmi jafn lágu hlutfalli af heildarskuldum viðkomandi þrotamanns og í máli þessu. Í því sambandi bendir hann á að í athugasemdum sem fylgdu með frumvarpi til núgilandi gjaldþrotaskiptalaga segi t.a.m. að þess sé „ekki að vænta að reglunni yrði oft beitt til að rifta ráðstöfunum þrotamanns“. Hér sé því um þrönga heimild að ræða, sem aðeins verði beitt þegar greiðslur séu metnar verulegar í ljósi efnahags þrotamannsins, hlutlægt metið. Í þessu samhengi telur varnaraðili einsýnt að umþrætt greiðsla sé óveruleg.

Verði ekki fallist á framangreint er á því byggt að umþrætt greiðsla hafi engu að síður verið venjuleg eftir atvikum, í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991, og því verði henni ekki rift á grundvelli þess ákvæðis. Til stuðnings þeirri málsástæðu áréttar varnaraðili að greiðslan hafi aðeins verið hlutagreiðsla upp í gjaldfallna skuld, og í öllu tilliti eðlileg. Varnaraðili hafi tekið við víxli sem greiðslu vegna skuldabréfa í flokknum BAUG 07 3, að nafnvirði 690.000.000 króna, auk vaxta. Víxillinn hafi ekki greiðst á gjalddaga, 1. desember 2008, en 22. sama mánaðar hafi sóknaraðili greitt varnaraðila 100.000.000 króna inn á víxilskuldina, og eftirstöðvarnar verið greiddar með nýjum víxli til tveggja mánaða. Þar sem fram komi í greinargerð sóknaraðila að félagið hafi greitt einstaka vaxtagjalddaga til kröfuhafa á árinu 2008, telur varnaraðili að allt eins megi líta á greiðsluna sem vaxtagreiðslu, enda hafi greiðslan vart náð upp í vexti af skuldabréfum í flokknum BAUG 07 3, auk vaxta af víxlinum sem gefinn var út 1. nóvember 2008. Jafnframt er vakin á því athygli að í greinargerð sóknaraðila segi að greiðsla hans til varnaraðila hafi verið „stærsta einstaka uppgjör ótryggðrar kröfur sem fram fór á þessum tíma“. Verði af því ekki annað ráðið en að álíka eða stærri veðtryggðar kröfur hafi verið greiddar. Þótt víxilskuldbinding njóti ekki tryggingarverndar í eignum víxilskuldara njóti víxilhafi um margt betri stöðu en kröfuhafar sem eigi almennar óveðtryggðar kröfur á viðkomandi skuldara, og skýrist það af því að víxilhafinn eigi aðfararheimild á grundvelli 8. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Í því ljósi verði einnig að skoða umrædda greiðslu. Því hljóti að teljast eðlilegt að sóknaraðili hafi greitt upp í gjaldfallna víxilskuld, á sama hátt og greitt hafi verið af skuldum sem nutu trygginga í eigum félagsins. Við mat á því hvað teljist venjulegt eftir atvikum, telur varnaraðili að ekki verði jafnað saman greiðslu af víxilskuld og greiðslu af almennri ótryggðri kröfu.

Varnaraðili byggir einnig á því að við mat á því hvaða greiðslur teljist venjulegar eftir atvikum í skilningi tilvitnaðs ákvæðis, verði að líta til aðstæðna sóknaraðila á þeim tíma sem greiðslan var innt af hendi. Þannig hafi sóknaraðili í desember 2008 unnið að áætlun um endurskipulagningu félagsins, nefnd „Project Sunrise“, í samstarfi við stærstu kröfuhafa þess. Varnaraðili hafi að vísu ekki átt aðild að þeirri áætlun. Á sama tíma hafi varnaraðili hins vegar átt gjaldfallna víxilkröfu á hendur sóknaraðila, að fjárhæð 828.893.163 krónur, og sætt sig við greiðslu að fjárhæð 100.000.000 króna, eða um 12% af heildarskuldinni, um leið og hann tók við nýjum víxli vegna eftirstöðvanna til tveggja mánaða. Telur varnaraðili að sú greiðsla geti ekki talist hátt gjald fyrir tveggja mánaða greiðslufrest á ríflega 720 milljón króna skuld, á sama tíma og unnið hafi verið að endurskipulagningu fjárhags félagsins. Að mati varnaraðila sé greiðslan eðlileg og venjuleg miðað við þá stöðu sem uppi var.

Að dómi varnaraðila hefur sóknaraðili í engu fært rök  fyrir þeirri málsástæðu sinni að greiðslan sé riftanleg samkvæmt 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Minnir hann á að um huglægt riftunarákvæði sé að ræða, þar sem sýna þurfi fram á að kröfuhafi, í þessu tilviki varnaraðili, hafi „vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg“. Eins og áður hvíli sönnunarbyrðin hér á sóknaraðila, og telur varnaraðili að sú sönnun liggi ekki fyrir. Á hinn bóginn fullyrðir varnaraðili að hann hafi ekki vitað af ógjaldfærni sóknaraðila í desember 2008, eða að einhverjar aðstæður væru þá uppi sem eigi að leiða til þess að ráðstöfunin teljist ótilhlýðileg.

Varnaraðili mótmælir loks ýmsum staðhæfingum sóknaraðila í greinargerð hans fyrir dómi, enda séu þær ekki studdar neinum gögnum. Eigi þetta m.a. við um meintar ólögmætar lántökur sóknaraðila, fullyrðingar um ógjaldfærni og ógreiðslufærni Baugs Group hf. um mitt ár 2008, meinta erfiðleika við sölu eigna, fullyrðingar um yfirveðsetningu eigna og að félagið hefði ekki með sölu eigna getað aukið við handbært fé sitt. Kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á kröfu vegna ritunar kröfulýsingar, að fjárhæð 100.000 krónur, er einnig mótmælt, enda ósannað að sóknaraðili hafi borið þann kostnað.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991, einkum 134. gr. og 141. – 144. gr. Málskostnaðarkrafa styðst við 130. og 131. gr. laga nr. 21/1991, um meðferð einkamála.

V

Eins og rakið er hér að framan gaf Rekstrarfélag SPRON út víxil að fjárhæð 828.893.000 krónur 1. nóvember 2008. Greiðandi og samþykkjandi víxilsins var Baugur Group hf., og var gjalddagi 1. desember 2008. Víxillinn var til greiðslu á skuld sóknaraðila vegna skuldabréfa í flokknum BAUG 07 3, að fjárhæð 690.000.000 króna, auk vaxta, en gjalddagi þeirra var 1. nóvember 2008. Eigandi skuldabréfanna var Peningamarkaðssjóður SPRON, sem rekinn var af Rekstrarfélagi SPRON.

Með bréfi Fjármálaeftirlitsins 17. október 2008 var þeim tilmælum beint til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að peningamarkaðssjóðum félaganna yrði slitið. Í kjölfarið, eða 10. nóvember sama ár, ákvað stjórn SPRON að sparisjóðurinn keypti eignir Peningamarkaðssjóðs SPRON samkvæmt verðmati óháðra aðila, og mun ofangreindur víxill hafa verið meðal þeirra eigna sem SPRON keypti.

Víxillinn greiddist ekki á gjalddaga, 1. desember 2008, en af framlögðum tölvubréfum milli Brynjars Kristjánssonar, starfsmanns SPRON, og sparisjóðsstjóra og aðstoðarsparisjóðsstjóra frá 10. desember það ár, má sjá að Stefán Hilmarsson, fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Baugs Group hf., óskaði eftir fundi með stjórnendum sparisjóðsins í því skyni að kynna þeim næstu skref, „og taldi að þar með yrðu heimtur okkar meiri“, eins og orðrétt segir í tölvubréfi áðurnefnds starfsmanns SPRON. Í sama tölvubréfi kveðst starfsmaðurinn hafa sagt Stefáni að „við myndum keyra á víxilinn þar sem þeir myndu ekki greiða amk 100 milljónir til að sýna viðleitni“. Í svarbréfi aðstoðarsparisjóðsstjóra kemur fram að ekkert mál sé að hitta Stefán, og bætir við: „en ég tel að við eigum að keyra þetta áfram ef þeir borga ekki þessar 100 m. kr. (sem ekki er há tala m.v. heildardæmið og forsögu málsins)“. Sama dag var Stefáni kynnt sú ákvörðun að víxillinn yrði settur í innheimtu. Lýsti hann vonbrigðum með þá ákvörðun og taldi hana gera málið allt miklu erfiðara.

Í samræmi við ofanritað greiddi sóknaraðili 100.000.000 króna inn á bankareikning varnaraðila 22. desember 2008. Samhliða var gefinn út nýr víxill fyrir eftirstöðvum skuldarinnar, ásamt vöxtum, alls að fjárhæð 762.424.206 krónur, með gjalddaga 2. febrúar 2009. Fram kemur í gögnum málsins að Norðurljós ehf. lánaði sóknaraðila umrædda fjárhæð. Af yfirliti yfir bankareikninga sóknaraðila verður ekki séð að fjárhæðin hafi verið endurgreidd Norðurljósum ehf. Ekki verður heldur séð að Norðurljós ehf. hafi lýst kröfu þessari í þrotabú sóknaraðila.

Samkvæmt endurriti af skýrslutöku skiptastjóra þrotabús Baugs Group hf. af Stefáni Hilmarssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra fyrirtækisins, frá 13. maí 2009, sem liggur frammi í málinu, er eftirfarandi skráð eftir Stefáni þegar hann er spurður um háar greiðslur sem félagið innti af hendi til SPRON, Íslenskra verðbréfa hf. og Glitnis hf. á síðustu mánuðum fyrir gjaldþrot: „Við fall bankanna í október 2008 þá féllu 3 stærstu viðskiptabankar Baugs og hafði [það] veruleg áhrif á daglegan rekstur Baugs. Á þeim tíma hætti Baugur að greiða til þessara fjármálafyrirtækja sem voru fallin, en í staðinn var lögð áhersla á það að halda öðrum skuldbindingum í skilum eins og hægt væri og við lögðum mikla áherslu á það að vera í góðu sambandi þá við starfandi fjármálafyrirtæki og eigendur skuldabréfa á Baug […]. Það var lögð mikil áhersla [á] að halda góðum samskiptum við aðra lánadrottna sérstaklega minni fjármálafyrirtækin og það var kappkostað að borga af öllum skuldum Baugs og reynt að halda öllum skuldbindingum félagsins í skilum eins og hægt væri. Lánadrottnar Baugs gerðu misjafnar kröfur til okkar um greiðslur og það voru skuldabréfaflokkar á gjalddögum í október, nóvember og desember og ljóst að […] við yrðum að inna talsverðar greiðslur af hendi til að […] gera þessa lánadrottna ánægða. […] Minni minnstu lánadrottnarnir, sérstaklega einstaklingar sem áttu skuldabréf, þá reyndum við bara að gera upp við þá og koma þeim bara í raun og veru frá borði. Við fórum í samningaviðræður við stærri fjármálafyrirtækin eins og SPRON, BYR, Íslensk verðbréf og fleiri um framlengingar á skuldabréfunum gegn því að þeir (sic) yrðu að borga einhverjar greiðslur, vextir og jafnvel einhverja innáborgun inn á bréfin. Þannig að þetta fólst mjög mikið í því að við vorum að semja bara við fjármálafyrirtækin um tilteknar lágmarksgreiðslur inna á skuldirnar gegn því að eftirstöðvunum yrði framlengt. Auðvitað voru þessi fjármálafyrirtæki misjafnlega erfið í horn að taka og SPRON voru nokkuð harðir við okkur í desember um tiltekna 100 milljóna kr. greiðslu inn á víxil gegn því að eftirstöðvunum yrði framlengt á sama tíma [og] kannski aðrir aðilar voru að framlengja öllu. […] Það var bara sagt við þessa að er enginn peningur til til að borga inn á skuldir.“

Meðal gagna málsins er einnig yfirlit frá endurskoðanda um greiðslur Baugs Group hf. á afborgunum lána og vaxta á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, þ.e. frá 4. ágúst 2008 til 4. febrúar 2009, sem inntar voru af hendi með handbæru fé. Endurskoðandinn tekur þó fram að ekki sé tryggt að allar greiðslur hafi verið bókaðar í bókhaldi félagsins frá 1. janúar 2009 til 4. febrúar það ár. Samkvæmt yfirliti þessu námu greiðslur félagsins á umræddu tímabili alls um 9.154.555.500 krónum. Af þeirri fjárhæð voru 8.408.812.140 krónur greiddar inn á lán, skuldabréf eða víxil, samtals með 16 millifærslum af reikningi félagsins, en um 745.743.360 krónur voru vaxtagreiðslur, samtals með 29 millifærslum. Með fáeinum undantekningum runnu greiðslurnar til innlendra og erlendra banka eða annarra fjármálastofnana, ýmist sem greiðslur á lánum eða skuldabréfaflokkum félagsins. Ef litið er sérstaklega til nóvember og desember 2008 námu heildargreiðslur félagsins til lánardrottna um 612.786.996 krónum. Síðasta bókfærða greiðsla, sem innborgun á lán, skuldabréf eða víxil, er sú greiðsla sem hér er um deilt og innt var hendi 22. desember 2008 til SPRON, að fjárhæð 100.000.000 króna. Sama dag voru hins vegar greiddir vextir til Bank of Scotland, 3.553.465,31 króna, svo og vextir af „Fons láni“, 10.000.000 króna. Daginn eftir, 23. desember, voru einnig greiddir vextir af „Fons láni“, 20.000.000 króna, og er það síðasta færsla vegna vaxtagreiðslna félagsins.

Í kynningargögnum, sem aðstoðarmaður Baugs Group hf. í greiðslustöðvun félagsins lagði fyrir kröfuhafa á fundi 27. febrúar 2009, kemur m.a. fram að eignir félagsins séu að langmestu leyti hlutafé í erlendum félögum, en vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum heimsins sé bæði erfitt og flókið að endurskipuleggja rekstur slíks félags. Engu að síður hafi stjórnendur félagsins á undanförnum mánuðum leitað leiða til koma nýrri skipan á fjárhag þess, og þá einkum í gegnum verkefnið „Project Sunrise“. Taldi aðstoðarmaðurinn af þessum sökum nauðsynlegt að óska eftir framlengingu á heimild til greiðslustöðvunar félagsins. Af efnahagsreikningi félagsins, sem fylgdi kynningargögnunum, má sjá að veruleg umskipti urðu í efnahag félagsins á árinu 2008. Þannig rýrnuðu heildareignir úr 2.538,49 milljónum breskra punda í upphafi ársins í 1.305,69 milljónir breskra punda í árslok. Á sama tíma lækkaði handbært fé úr 34,81 milljón breskra punda í 1,28 milljónir breskra punda. Í árslok námu heildarskuldir félagsins 1.484,82 milljónum breskra punda og var eigið fé félagsins því orðið neikvætt. Fram er komið að bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009. Samkvæmt kröfuskrá nema lýstar kröfur í búið alls 319.433.710.437 krónum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hve mikið muni greiðast upp í lýstar kröfur.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Krafa sóknaraðila í máli þessu er aðallega á því reist að umrædd greiðsla hafi skert greiðslugetu hans verulega, og hafi hún heldur ekki verið venjuleg eftir atvikum. Því séu uppfyllt skilyrði ákvæðisins um riftun greiðslunnar. Varnaraðili byggir hins vegar á því að greiðslan hafi ekki skert greiðslugetu sóknaraðila verulega, né teljist hún óvenjuleg eftir atvikum. Ekki er hins vegar um það deilt að greiðslan var innt af hendi innan þeirra tímamarka sem ákvæðið mælir fyrir um.

Af gögnum málsins er ljóst að umþrætt greiðsla til varnaraðila 22. desember 2008 var hæsta einstaka greiðsla til lánardrottins í þeim mánuði. Sé hins vegar litið til fyrri mánaða, og allt til 4. ágúst það ár, má í áðurnefndu yfirliti endurskoðanda um greiðslur Baugs Group hf. á afborgunum lána og vaxta á tímabilinu frá 4. ágúst 2008 til 4. febrúar 2009, finna allt að 10 millifærslur þar sem greidd var hærri fjárhæð en 100.000.000 króna, og í nokkrum tilvikum margföld sú fjárhæð. Ágreiningslaust er að á sama tíma rýrnuðu heildareignir félagsins verulega og handbært fé dróst saman. Í árslok 2008 var eigið fé félagsins orðið neikvætt, þrátt fyrir að heildarskuldir hefðu lækkað nokkuð frá upphafi ársins, eins og sjá má af efnahagsreikningi félagsins, sem lagður var fram á kynningarfundi með kröfuhöfum 27. febrúar 2009. Á sama tíma var handbært fé 1,28 milljónir breskra punda, eða 225.100.800 krónur, miðað við sölugengi bresks punds 31. desember 2008. Telur sóknaraðili það sýna, svo ekki verði um villst, að greiðslan til varnaraðila hafi falið í sér ráðstöfun sem ekki hafi verið í neinu samhengi við þá fjármuni sem félagið átti til greiðslu skulda.

Handbært fé sóknaraðila í árslok 2008 gefur aðeins vísbendingu um fjárhagsstöðu félagsins á þeim tíma, en ræður ekki úrslitum við mat á því hvort umrædd greiðsla til varnaraðila hafi skert greiðslugetu sóknaraðila verulega, þegar hún var innt af hendi 22. desember 2008. Hinu sama gegnir um eigið fé félagsins, þótt það hafi verið neikvætt á sama tíma. Við slíkt mat þarf því að horfa til margra annarra atriða, svo sem fjárhæðar greiðslunnar í samanburði við aðrar kröfur á hendur félaginu, en einnig til tekna félagsins, annarra eigna þess, útistandandi krafna, sem og möguleika þess til að bregðast við aðsteðjandi lausafjárskorti, annað hvort með lánsfé, sölu eða veðsetningu eigna, eða aðgerðum í rekstri. Mat á síðasttöldum atriðum er þó vandkvæðum bundið í máli þessu, þar sem ekki nýtur við nægilegra upplýsinga um tekjur félagsins og sjóðflæði á þeim tíma sem hér skiptir máli, né um möguleika þess til annarrar fjármögnunar, þótt ekki sé dregið í efa að erfitt hafi verið að fjármagna starfsemina eftir fall stærstu íslensku bankanna í október 2008. Hins vegar má í þessu samhengi minna á að þrátt fyrir versnandi afkomu og þverrandi handbært fé á árinu 2008 greiddi sóknaraðili engu að síður lánardrottnum rúma níu milljarða króna inn á lán sín á tímabilinu frá 4. ágúst til 23. desember það ár, allt með handbæru fé, þar af tæpar 613 milljónir króna eftir 30. september, þótt handbært fé félagsins hafi þá aðeins verið litlu meira en í árslok 2008, eða 1,32 milljónir breskra punda. Verður því ekki séð að sú fullyrðing sóknaraðila að félagið hafi í raun verið ógreiðslufært á þessum tíma eigi við rök að styðjast. Ef litið er hins vegar á fjárhæð greiðslunnar sem hlutfall af öðrum kröfum á hendur félaginu, hvort sem þá er tekið mið af greiddum kröfum á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, gjaldföllnum kröfum á sama tíma eða heildarkröfum í þrotabú sóknaraðila, má taka undir þau sjónarmið varnaraðila að örðugt er að sjá að greiðslan hafi haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu sóknaraðila á þeim tíma sem hún var innt af hendi. Um leið er minnt á að greiðslan var aðeins hluti af gjaldfallinni víxilkröfu varnaraðila að fjárhæð 828.893.000 krónur, en fyrir eftirstöðvum var gefinn út nýr víxill með gjalddaga 2. febrúar 2009. Greiðslan var því þannig í samræmi við áform stjórnenda sóknaraðila um að greiða smærri lánardrottnum einhverjar greiðslur, vexti og jafnvel innborgun á skuldabréf, gegn því að eftirstöðvar yrðu framlengdar, enda voru þeir ekki aðilar að munnlegu samkomulagi sóknaraðila og stærstu bankanna um að ekki skyldi greitt af lánum á meðan unnið væri að endurskipulagningu félagsins undir heitinu „Project Sunrise“. Að þessu virtu, og þá um leið í ljósi þeirra gagna sem þó liggja fyrir í málinu og lúta að fjárhag sóknaraðila á þeim tíma sem umrædd greiðsla var innt af hendi, er það álit dómsins að ekki hafi verið færðar sönnur á að greiðslan hafi skert greiðslugetu sóknaraðila verulega. Um leið er ástæða til að benda á að þrátt fyrir greiðsluna var handbært fé sóknaraðila engu að síður 225.100.800 krónur í árslok 2008. Vert er einnig að minna á þá staðreynd að samkvæmt gögnum málsins lánaði Norðurljós ehf. sóknaraðila umrædda fjárhæð, 100.000.000 króna, 22. desember 2008. Engin gögn benda þó til þess að sóknaraðili hafi endurgreitt þá fjárhæð, né verður séð að Norðurljós ehf. hafi lýst þeirri kröfu í þrotabú sóknaraðila. Því er fremur nærtæk sú ályktun að greiðslan hafi engin áhrif haft á greiðslugetu sóknaraðila á þeim tíma sem hún var innt af hendi. Með sömu rökum og að ofan greinir verður einnig að telja að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum. Eru því ekki skilyrði til að rifta greiðslunni til varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

 Krafa sóknaraðili byggist einnig á því að uppfyllt séu skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 til þess að rifta umræddri greiðslu. Ákvæði þetta mælir fyrir um að heimilt sé að krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Að auki eru þau skilyrði sett fyrir beitingu reglunnar að þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og að sá sem hag hafði af henni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að rástöfunin væri ótilhlýðileg.

Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir tölvupóstsamskiptum aðila 10. desember 2008, sem leiddu til þess að sóknaraðili greiddi 100.000.000 króna inn á víxilkröfu varnaraðila 22. desember 2008. Eins og áður er fram komið nam víxilkrafan 828.893.000 krónum og var gjalddagi víxilsins 1. desember það ár. Við greiðsluna var gefinn út nýr víxill fyrir eftirstöðvum kröfunnar og var gjalddagi hans 2. febrúar 2009. Fram er einnig komið að víxillinn var upphaflega gefinn út 1. nóvember 2008 og var til greiðslu á skuld sóknaraðila vegna skuldabréfa í flokknum BAUG 07 3, að fjárhæð 690.000.000 króna, auk vaxta, en gjalddagi skuldabréfanna var 1. nóvember 2008.

Þótt fyrrgreind tölvubréf aðila staðfesti vissulega að sóknaraðili hafi á þeim tíma átt í erfiðleikum með að greiða kröfu varnaraðila að fullu, geta þau engan veginn talist sönnunargögn fyrir því að varnaraðili hafi vitað eða mátt vita um yfirvofandi ógjaldfærni sóknaraðila. Það eitt, að varnaraðili hafi samþykkt að aðeins hluti víxilkröfunnar yrði greiddur og nýr víxill gefinn út fyrir eftirstöðvum, þykir þvert á móti gefa vísbendingu um að varnaraðili hafi ekki gert sér grein fyrir að fjárhagsstaða sóknaraðila væri jafn slæm og raun bar vitni. Þá verður ekki séð að fullyrðingar sóknaraðila, um að gjaldþrot hafi verið óumflýjanlegt á sama tíma og varnaraðili knúði fram umrædda greiðslu, og að varnaraðili hafi þá vitað að aðrir kröfuhafar fengju á sama tíma ekki kröfur sínar greiddar, eigi við rök að styðjast. Í því sambandi er minnt á að sóknaraðili fékk heimild til greiðslustöðvunar 11. febrúar 2009 og stóð þá yfir vinna við endurskipulagningu á fjárhag félagsins. Af kynningargögnum, sem aðstoðarmaður við greiðslustöðvun félagsins lagði fram á fundi með kröfuhöfum 27. febrúar það ár, má sjá að bæði stjórnendur félagsins og kröfuhafar, þ. á m. fulltrúi varnaraðila, töldu raunhæft að halda þeirri vinnu áfram. Hins vegar hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur beiðni sóknaraðila um framlengingu greiðslustöðvunar og var bú félagsins í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009, eins og áður greinir.

Samkvæmt öllu framanrituðu er það álit dómsins að ekki séu skilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila um að rift verði þeirri ráðstöfun hans að greiða varnaraðila 100.000.000 króna 22. desember 2008. Leiðir sú niðurstaða til þess að einnig er hafnað kröfu hans um viðurkenningu kröfunnar sem almennrar kröfu við slitameðferð varnaraðila, alls að fjárhæð 109.111.280 krónur. Vakin er á því athygli að umkrafin fjárhæð er 100.000 krónum hærri í greinargerð sóknaraðila en í kröfulýsingu hans. Í úrskurðarorði er miðað við fjárhæð kröfunnar eins og henni var lýst á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 í kröfulýsingu sóknaraðila.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, þrotabús Baugs Group hf., sem lýst var sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., alls að fjárhæð 109.011.280 krónur, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.