- Ærumeiðingar
- Tjáningarfrelsi
- Friðhelgi einkalífs
- Ómerking ummæla
|
Fimmtudaginn 18. október 2012. |
Nr. 673/2011.
|
Heiðar Már Guðjónsson (Reimar S. Pétursson hrl.) gegn Inga Frey Vilhjálmssyni Jóni Trausta Reynissyni og Reyni Traustasyni (Ólafur Örn Svansson hrl.) og gagnsök |
Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Friðhelgi einkalífs. Ómerking ummæla.
H höfðaði mál gegn I, J og R vegna tiltekinna ummæla um hann sem birt voru annars vegar í prentaðri útgáfu DV og hins vegar netútgáfu þess á www.dv.is. Krafðist H þess að ummælin yrðu ómerkt og að I, J og R yrði annars vegar gert að greiða honum miskabætur vegna þeirra og hins vegar að greiða honum tiltekna fjárhæð fjárhæð vegna kostnaðar við birtingu dóms í fjölmiðlum. Í niðurstöðu Hæstaréttar var það rakið að ummæli þau sem krafist var ómerkingar á hefðu verið sett fram í umfjöllun fjölmiðils um stöðu íslensku krónunnar síðustu árin fyrir þau efnahagsáföll sem dunið hefðu yfir í lok árs 2008. Hefði umfjöllunin einkum lotið að ætluðum þætti H í gengislækkun íslensku krónunnar og hún þannig átt brýnt erindi til almennings og væri hluti mikilvægrar þjóðfélagsumræðu. Hvað varðaði ummæli í tveimur fyrstu kröfuliðum H taldi Hæstiréttur að I, J og R yrði ekki gert að leiða frekari sönnur að réttmæti þeirra en þau gögn sem lágu fyrir í málinu. Hvað varðaði ummæli sem birst höfðu í leiðara DV féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að ummælin teldust til svokallaðra gildisdóma. Þótt ummælin hefðu verið sett fram af smekkleysi og með þeim djúpt tekið í árinni yrði á það fallist að þau hefðu nægileg tengsl við staðreyndir sem um hefði verið fjallað af hálfu I, J og R. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu I, J og R af kröfum H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2011. Hann krefst þess í fyrsta lagi að gagnáfrýjendunum Jóni Trausta Reynissyni og Reyni Traustasyni verði gert að þola ómerkingu ummælanna „Plottaði árás á krónuna“ sem birt voru 18. október 2010 á forsíðu DV, 120. tölublaði, 100. árgangi. Í öðru lagi krefst hann þess að gagnáfrýjandanum Inga Frey Vilhjálmssyni verði gert að þola ómerkingu ummælanna „Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Novator, [...] tók stöðu gegn íslensku krónunni á árunum 2006 og 2007“, sem birt voru 18. október 2010 á blaðsíðu 10 í DV, 120. tölublaði, 100. árgangi og á vefsíðunni www.dv.is og í þriðja lagi að gagnáfrýjandanum Jóni Trausta Reynissyni verði gert að þola ómerkingu ummælanna „Krónuníðingurinn“ og „Heiðar hljómar eins og landráðamaður“ sem birt voru 20. október 2010 á blaðsíðu 18 í DV, 121. tölublaði, 100. árgangi og á vefsíðunni www.dv.is. Þá krefst aðaláfrýjandi þess í fjórða lagi að gagnáfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 4.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 7. desember 2010 til greiðsludags og að auki 1.597.560 krónur með dráttarvöxtum frá 7. desember 2010 til greiðsludags, til að kosta birtingu dómsins í tilgreindum fjölmiðlum. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 24. febrúar 2012. Þeir krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað og að þeim verði dæmdur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Í málinu krefst aðaláfrýjandi ómerkingar ummæla, sem tilgreind eru í þremur liðum, en þau komu fram í umfjöllun í prentaðri útgáfu DV og netútgáfu þess á www.dv.is. Telur hann ummælin í tveimur fyrrnefndu liðunum vera ósönn og fela í sér aðdróttun í sinn garð þar sem dylgjað sé um að hann hafi lagt á ráðin um árásir á íslensku krónuna og tekið sjálfur stöðu gegn henni í þeim tilgangi að fella gengi hennar. Hafi ummælin verið til þess fallin að valda virðingu aðaláfrýjanda hnekki. Gagnáfrýjendur hafi birt ummælin á grundvelli takmarkaðra heimilda þrátt fyrir ítrekuð andmæli og útskýringar aðaláfrýjanda. Tilgreindum ummælum, einum og sér eða í samhengi við umfjöllunina í heild sinni, hafi beinlínis verið ætlað að hafa áhrif á orðspor aðaláfrýjanda. Þau hafi verið óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ummælin í þriðja lið hafi falið í sér sérlega grófar ærumeiðingar og aðdróttanir gagnvart aðaláfrýjanda. Þau hafi verið tilefnislaus, byggð á ósönnum fullyrðingum og í fullkominni andstöðu við umfjöllun blaðsins að öðru leyti. Ekkert tilefni hafi verið til þess að viðhafa slík ummæli, auk þess sem ásökun um landráð sé áburður um refsiverða háttsemi sem varðað geti ævilöngu fangelsi.
Auk kröfu um ómerkingu ummæla gerir aðaláfrýjandi, eins og áður greinir, kröfu um bætur fyrir miska og um greiðslu vegna kostnaðar af birtingu dóms í tilgreindum fjölmiðlum.
II
Kröfur aðaláfrýjanda eru á því reistar að gagnáfrýjendur hafi farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsis sem varið er af 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og öðrum reglum og þannig brotið gegn friðhelgi einkalífs og æru aðaláfrýjanda sem njóti verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Við mat á því hvort með ummælunum sé farið yfir framangreind mörk verður annars vegar að líta til þess að ummælin lúta ekki að þeim hluta einkalífs aðaláfrýjanda sem varðar persónulega hagi hans, heimili eða fjölskyldu, heldur tengjast þau atvinnustarfsemi hans sem fjárfestis og þátttöku í starfsemi stórra fyrirtækja þar með talið fjármálafyrirtækja á íslenskum markaði. Hins vegar verður að líta til þess að gagnáfrýjendur settu ummælin fram í umfjöllun fjölmiðils um stöðu íslensku krónunnar síðustu árin fyrir þau efnahagsáföll sem hér dundu yfir í lok árs 2008. Laut umfjöllunin einkum að ætluðum þætti aðaláfrýjanda í gengislækkun íslensku krónunnar vegna ýmiss konar spákaupmennsku og þýðingu þessarar þátttöku hans fyrir áföll þau, sem hér urðu. Umfjöllun um þetta málefni á brýnt erindi til almennings og er hluti mikilvægrar þjóðfélagsumræðu, ekki síst þegar leitað er skýringa á efnahagsáföllunum. Þær takmarkanir sem 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar viðurkennir sérstaklega að gera megi á tjáningarfrelsinu verða meðal annars að réttlætast af vernd heilsu eða siðgæðis manna eða réttindum eða mannorði þeirra enda teljist þær nauðsynlegar í lýðræðisþjóðfélagi. Samkvæmt dómvenju hér á landi hafa þátttakendur í slíkri opinberri umræðu um mikilvæg þjóðfélagsleg málefni rýmra tjáningarfrelsi en ella og hefur það áhrif á mat á því hvaða skorður friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu samkvæmt síðast tilgreindu stjórnarskrárákvæði.
Gagnáfrýjandanum Inga Frey bárust eins og greinir í héraðsdómi, afrit tveggja tölvupósta í október 2010, sem óumdeilt er að aðaláfrýjandi hafði sent í ársbyrjun 2007. Á grundvelli þeirra og samskipta Inga Freys við aðaláfrýjanda var ekki óeðlilegt að hinn fyrrnefndi hæfi þau skrif, sem mál þetta sprettur af.
III
Ummæli þau, sem aðaláfrýjandi krefst ómerkingar á í fyrsta lið kröfu sinnar, ,,Plottaði árás á krónuna“ voru í upphafi reist á tölvupósti, sem aðaláfrýjandi sendi 31. janúar 2007, en efni tölvupóstsins er rakið í héraðsdómi. Gagnáfrýjendur hafa síðar freistað þess að renna frekari stöðum undir réttmæti ummælanna og vísa í því sambandi einkum til minnisblaðs, sem gagnáfrýjandanum Inga Frey barst í hendur eftir að ummælin voru sett fram. Ekki er umdeilt að minnisblað þetta er ritað af aðaláfrýjanda, en hann kveður ljóst af texta þess að það hafi ekki verið fullklárað. Hann hefur í málflutningi sínum lagt áherslu á að skýra verði hugtökin skortsala og stöðutaka rétt og sé það gert verði ekki ráðið af minnisblaðinu að hann hvetji til árása á íslensku krónuna. Af minnisblaðinu verður ekki séð að hugtök þessi séu notuð í skýrt aðgreindri merkingu. Þar segir meðal annars: ,,Straumur, Landsbanki og Samson skortselja ISK, hver fyrir sig sem samsvarar 30-50 milljörðum eftir því á hvaða verðum við fáum það gert. Búast við 20% hagnaði af 100 milljarða stöðu, eða 20 milljörðum. Kaupa verðtryggingu fyrir 20-30 milljarða á íslenskum skuldabréfamarkaði. Kaupa einnig verðtryggð skuldabréf fyrir svipaða fjárhæð. Búast við 10 % verðhækkun á 40 milljarða stöðu, eða 4 milljörðum. Í heildina væri í mesta lagi um ríflega 30 milljarða hagnað af skortstöðum að ræða. Þetta væri hreinn hagnaður, óháður áhættustýringarsjónarmiðum. Langmest hagnaðartækifæri er í íslensku krónunni.“ Síðar í minnisblaðinu segir: ,,Novator tekur skortstöðu fyrir tæplega 50 milljarða króna.“ Af því sem segir síðar í minnisblaðinu verður ekki annað séð en þessi ,,skortstaða“ hafi átt við um íslensku krónuna enda sérstaklega gerð grein fyrir því að aðrar fjárfestingarheimildir Novators séu háðar takmörkunum. Verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að þessi gögn séu, í ljósi þess tjáningarfrelsis sem játa verður gagnáfrýjendum um málefnið, nægilegur grundvöllur fyrir ummælunum og að gagnáfrýjendum verði ekki gert að færa fyrir þeim frekari sönnur.
Í öðru lagi lýtur krafa aðaláfrýjanda um ómerkingu á ummælum, sem birtust sama dag og eru eftirfarandi: ,,Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri Novator, [...] tók stöðu gegn íslensku krónunni á árunum 2006 og 2007.“ Reistu gagnáfrýjendur þessi ummæli upphaflega á tölvupósti aðaláfrýjanda 27. mars 2007 til ótilgreinds manns, en hafa síðar leitast við að sýna frekar fram á réttmæti ummælanna meðal annars með skírskotun til ársreiknings einkahlutafélags í eigu aðaláfrýjanda og ályktana sem af upplýsingum þar verði dregnar. Ummælin lúta ekki að ætlaðri ólögmætri háttsemi aðaláfrýjanda, þótt þau varði að sönnu háttsemi sem gagnáfrýjendur telja siðferðilega neikvæða í umfjöllun sinni. Í ljósi eðlis háttseminnar og framangreindra gagna verður gagnáfrýjendum ekki gert að leiða frekari sönnur að réttmæti ummælanna.
Samkvæmt framansögðu er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að sýkna beri gagnáfrýjendur af þessum kröfuliðum.
IV
Fallist er á með héraðsdómi að ummæli þau, sem aðaláfrýjandi krefst ómerkingar á og koma fram í þriðja lið kröfugerðar hans, ,,Krónuníðingurinn“ og ,,Heiðar hljómar eins og landráðamaður.“ feli í sér gildisdóma, sem ekki verði gerð krafa um að leiddar verði sönnur að. Þótt svigrúm manna sé rýmra til að setja fram slíka gildisdóma en ummæli er fela í sér staðreyndir, sem unnt er að sanna, verður að gera þá kröfu að gildisdómar, settir fram með þessum hætti, hafi einhverja stoð í staðreyndum málsins. Fallist er á með héraðsdómi að ummælin séu sett fram af smekkleysi og með þeim djúpt tekið í árinni. Þrátt fyrir það og þótt engin þörf hafi verið á svo ósmekklegu orðfæri í umræðunni, verður fallist á að ummælin hafi nægileg tengsl við staðreyndir, sem um er fjallað af hálfu gagnáfrýjenda, til þess að hafna beri kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu þeirra.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða aðilar látnir bera hver sinn hluta kostnaðar af málinu.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. ágúst 2011, er höfðað 3. desember 2010 af Heiðari Má Guðjónssyni, Hägnistrasse 14, Zollikon, Sviss, á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni, Sæviðarsundi 27, Reykjavík, Jóni Trausta Reynissyni, Vesturgötu 73, Reykjavík, og Reyni Traustasyni, Aðaltúni 20, Mosfellsbæ. Málið var þingfest 7. desember 2010.
Í málinu gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndu verði dæmdir til að þola ómerkingu ummæla samkvæmt eftirfarandi:
A. Stefnandi gerir þá kröfu að stefndu, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, verði dæmdir til að þola ómerkingu eftirfarandi ummæla sem birt voru hinn 18. október 2010 á forsíðu DV, 120. tbl., 100. árg., og á www.dv.is, sem hér eru feitletruð: „Plottaði árás á krónuna“ en til vara að stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, verði dæmdur til að þola ómerkingu framangreindra ummæla.
B. Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, verði dæmdur til að þola ómerkingu eftirfarandi ummæla sem birt voru hinn 18. október 2010 á bls. 10 í DV, 120. tbl. 100. árg., og á www.dv.is, sem hér eru feitletruð: „Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Novator, [...] tók stöðu gegn íslensku krónunni á árunum 2006 og 2007.“
C. Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi, Jón Trausti Reynisson, verði dæmdur til að þola ómerkingu eftirfarandi ummæla sem birt voru hinn 20. október 2010 á bls. 18 í DV, 121. tbl. 100. árg., og á www.dv.is, sem hér eru feitletruð: „Krónuníðingurinn“ og „Heiðar hljómar eins og landráðamaður“.
Ennfremur krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 4.000.000 króna í miskabætur ásamt dráttarvöxtum frá þingfestingardegi málsins.
Að auki krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 1.597.560 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og DV og á eftirtöldum vef-fréttamiðlum: www.dv.is, www.visir.is, www.pressan.is og www.eyjan.is. Beri hin dæmda fjárhæð dráttarvexti frá þingfestingardegi málsins.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefjast þeir málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
I.
Hinn 18. október birti DV á forsíðu blaðsins, 120. tbl., 100. árg., stóra mynd af stefnanda undir fyrirsögninni: „Plottaði árás á krónuna“. Á forsíðunni voru jafnframt eftirfarandi ummæli: „Heiðar Már Guðjónsson leitaði til George Soros, sem felldi breska pundið“, „Það freistar þeirra að ráðast á krónuna“, „Ég hreinlega skil ekki hvers vegna hún hangir“, og „Reynir nú að kaupa Sjóvá“. Forsíðan birtist samdægurs á vef blaðsins, www.dv.is og var þar í nokkra daga. Vísaði forsíðan til fréttar stefnda, Inga Freys Vilhjálmssonar blaðamanns, sem birtist í sama blaði á bls. 10-12 og á www.dv.is sama dag. Höfundur að ummælunum á forsíðu var ekki tilgreindur en ritstjórar blaðsins voru stefndu, Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson.
Í frétt stefnda, Inga Freys, sem birtist á bls. 10-12 í fyrrnefndu tölublaði, 18. október, lét hann eftirfarandi ummæli falla, sem krafist er ómerkingar á: „Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Novator, [...] tók stöðu gegn íslensku krónunni á árunum 2006 og 2007.“ Birtust ummælin sömuleiðis á www.dv.is sama dag.
Hinn 20. október kom út 101. tbl. DV, 100. árg. Þar var á bls. 18 birtur leiðari eftir stefnda, Jón Trausta, undir fyrirsögninni „Krónuníðingurinn“, sem krafist er ómerkingar á. Í leiðaranum féllu svo eftirfarandi ummæli sem jafnframt er krafist ómerkingar á: „Heiðar Már hljómar eins og landráðamaður.“ Ritstjórinn vísaði að öðru leyti til tölvupósts stefnanda frá 2007 sem DV hefði birt. Leiðarinn birtist jafnframt á vef blaðsins www.dv.is sama dag.
Áður en fyrrgreind ummæli voru birt eins og að framan greinir hafði stefndi, Ingi Freyr, samband við stefnanda með tölvuskeyti hinn 15. október 2010. Lagði hann fyrir stefnanda lista af spurningum. Stefnandi svaraði samdægurs með tölvuskeyti þar sem sagði m.a.: „Ég tók ekki stöðu á móti krónunni í nafni Novator eða annarra. [...] Ég hef aldrei stjórnað hópi, eða sett saman slíkan hóp, til að ráðast á íslensku krónuna. Þetta svarar öllum þeim spurningum sem á eftir koma.“
Í tölvuskeytum fyrir birtingu forsíðufréttarinnar 18. október hvatti stefnandi stefnda, Inga Frey, til að birta ekki rangar fullyrðingar í blaðinu. Framangreind ummæli voru birt og andmælti stefnandi ummælunum m.a. með opinberri fréttatilkynningu 18. október, sem var send á ritstjórn DV. Þar sagði m.a.: „DV kaus að halda fram röngum og meiðandi fullyrðingum þrátt fyrir að undirritaður hafi ítrekað hrakið sömu fullyrðingar í samskiptum við blaðamann DV dagana áður en fréttin var birt. Verði þessar fullyrðingar ekki dregnar tilbaka á undirritaður ekki annars kost en að höfða meiðyrðamál gegn DV til að fá ummælin ómerkt og tjón sitt bætt.“
Stefndu urðu ekki við kröfum stefnanda um leiðréttingu og kveðst hann því ekki eiga annan kost en að leita réttar síns fyrir dómi.
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar um ómerkingu ummæla í A- og B- lið dómkrafna á því að ummælin séu ósönn. Þau feli í sér aðdróttanir í garð stefnanda, þar sem stefndu dylgi um stefnanda á þann veg að hann hafi lagt á ráðin um árásir á íslensku krónuna og tekið stöðu gegn henni í þeim tilgangi að fella hana. Hafi ummælin jafnframt verið til þess fallin að verða virðingu stefnanda til hnekkis. Stefndu hafi dregið ályktanir af takmörkuðum upplýsingum og birt fyrrgreindar aðdróttanir, gegn eindregnum og ítrekuðum andmælum og útskýringum stefnanda.
Hagsmunir stefnanda og aðila tengdra honum hafi verið svo samofnir innlendum hagsmunum, m.a. vegna þeirra eigna sem þeir áttu hér á landi í íslenskum krónum en voru fjármagnaðar í erlendum gjaldeyri, að árásir á krónuna og stöðutaka gegn henni hefðu verið til þess fallnar að valda þeim sjálfum mestu tjóni. Stefnandi hafi fjárfest í gengisvörnum og reynt að leggja fram hugmyndir til að draga úr mögulegu tjóni sem leiða kynni af versnandi stöðu í íslensku efnahagslífi. Hefði það verið útilokað að árásir á krónuna eða stöðutaka gegn henni hefðu getað orðið honum eða tengdum aðilum ábatasamar. Fram hjá þessu hafi verið litið í umfjöllun stefndu.
Stefnandi telji jafnframt að líta verði á ummælin í samhengi við umfjöllunina um hann í DV og á www.dv.is í heild sinni, sem bersýnilega hafi verið ætlað að hafa áhrif á orðspor hans. Ummælin hafi verið tekin upp í fjölda annarra frétta bæði í DV og á www.dv.is, án þess að nokkurs staðar í þeirri umfjöllun hafi verið færð fullnægjandi rök fyrir eða sönnur á réttmæti þeirra staðhæfinga sem birtust í ummælunum.
Byggir stefnandi á því að hvort heldur sem litið sé á ummælin sjálfstætt eða í samhengi við alla umfjöllun blaðsins um hann, hafi þau verið óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og skilyrði uppfyllt til ómerkingar þeirra.
Ummælin í A-lið hafi birst á forsíðu 120. tbl. DV 18. október en nafngreinds höfundar sé þar ekki getið. Venja sé að telja fyrirsagnir á forsíðu til ritstjórnarefnis. Af framangreindum ástæðum sé kröfu um ómerkingu ummæla aðallega beint að stefndu, Jóni Trausta og Reyni, sem báðir séu ritstjórar blaðsins og ábyrgðarmenn þess, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt. Verði ekki fallist á að hinir stefndu ritstjórar beri ábyrgð á ummælunum í A-lið, sé kröfu um ómerkingu beint til vara að stefnda, Inga Frey, sem ritað hafi fréttaskýringu þá er ummælin á forsíðu vísi til, sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga.
Stefnandi byggir kröfu sína um ómerkingu ummæla í C-lið dómkrafna á því að í þeim felist sérlega grófar ærumeiðingar og aðdróttanir gagnvart stefnanda. Hafi ummælin verið tilefnislaus, byggst á ósönnum fullyrðingum og hafi þar að auki verið í fullkominni andstöðu við umfjöllun blaðsins að öðru leyti. Í áður tilvitnaðri frétt blaðsins frá 18. október á bls. 10 segi m.a.: „Tekið skal fram að stöðutaka gegn krónunni er ekki ólögleg og ekkert bendir til að Heiðar og aðrir sem tóku stöðu gegn krónunni á árunum fyrir hrun hafi gerst brotlegir við lög.“ Ekkert tilefni hafi verið til þess fyrir stefnda, Jón Trausta, að fjalla með svo niðrandi hætti um stefnanda eða líkja honum við mann, sem sekur sé um landráð, glæp sem varðað getur ævilangri refsingu samkvæmt X. kafla almennra hegningarlaga.
Telji stefnandi ummælin samkvæmt framansögðu óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og skilyrði uppfyllt til ómerkingar þeirra.
Stefnandi vísar til þess, að frá hruni íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 hafi verið mikil ólga og reiði í íslensku samfélagi. Við þessar sérstöku aðstæður geti aðdróttanir um að maður hafi skipulega unnið að stöðutöku gegn gjaldmiðli landsins og falli hans með þeim ósköpum sem af kynnu að leiða, og móðganir í hans garð byggðar á slíkum aðdróttunum, leitt til alvarlegs álitshnekkis fyrir hann. Sú umfjöllun, sem m.a. sé vísað til að framan, sýni með óyggjandi hætti fram á að linnulaus umfjöllun um stefnanda, sem einkum byggði á þeim ósönnu ummælum sem krafist sé ómerkingar á, hafi ekki verið neitt annað en herferð blaðsins gegn honum sem hafi verið til þess fallin að rýra trúverðugleika hans.
Við mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði til ómerkingar ummæla og til greiðslu miskabóta beri að hafa hugfast, að stefnandi sé sérfræðingur á sviði fjármála og hafi lífsviðurværi sitt af sérþekkingu sinni á því sviði. Í því felist m.a. að takast á hendur stjórnunar- og ábyrgðarstörf hjá eftirlitsskyldum aðilum í fjármálastarfsemi, svo sem fjármálafyrirtækjum eða vátryggingarfélögum. Fram hafi komið að stefnandi hafi átt í samningaviðræðum við eigendur Sjóvár-Almennra trygginga hf. um kaup á félaginu. Strangar kröfur séu gerðar til eigenda og stjórnenda slíkra félaga, ekki síst nú eftir umrót á fjármálamörkuðum á síðustu árum. Samkvæmt 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, skuli Fjármálaeftirlitið við mat á hæfi þess, sem vill eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki eða auka við hann, líta til orðspors hans. Sömuleiðis beri Fjármálaeftirlitinu við þetta mat að líta til orðspors þess sem veita muni fjármálafyrirtækinu forstöðu. Sömu reglur sé að finna í lögum nr. 56/2010, um vátryggingarstarfsemi. Sambærilegar reglur sé að finna um fjármálafyrirtæki á evrópska efnahagssvæðinu og víðar en stefnandi sé búsettur í Sviss og starfi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar sem orðspor vegi þungt í slíkri starfsemi, hvíli rík skylda á þeim, sem ábyrgð beri á útgefnu efni í fjölmiðlum, að ekki sé þar farið með ósannindi eða trúverðugleiki manna rýrður án tilefnis. Hafi stefndu verið vel meðvitaðir um þessar mögulegu afleiðingar umfjöllunar sinnar, sbr. ítarlega umfjöllun blaðsins í 126. tbl. DV þar sem stefndi, Ingi Freyr, hafi fjallað sérstaklega um möguleg áhrif umfjöllunarinnar á mat Fjármálaeftirlitsins á orðspori stefnanda í tengslum við mat á hæfi hans til að fara með virkan eignarhlut í Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Stefnandi gerir kröfu um að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 4.000.000 króna í miskabætur, ásamt dráttarvöxtum frá þingfestingardegi málsins. Er á því byggt að ummæli stefndu og umfjöllunin í heild sinni hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn stefnanda þannig að skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu uppfyllt. Um sé að ræða tjón fyrir stefnanda, sem ekki verði metið eftir almennum peningalegum mælikvarða, og sé fjárhæðin hæfileg með hliðsjón af eðli málsins. Byggi krafa um solidaríska ábyrgð stefndu á því að ummælin, sem ómerkingar sé krafist á, hafi verið hluti af yfirgripsmikilli umfjöllun stefndu um stefnanda, sem þeir allir hafi komið að og allir borið ábyrgð á, þannig að ekki verði auðveldlega sundurgreint. Stefndi, Ingi Freyr, beri ábyrgð sem höfundur ummælanna og fjölda greina, sem hann hafi ritað og byggst hafi á ummælunum, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt. Stefndi, Jón Trausti, beri ábyrgð sem höfundur ummælanna, sbr. sömu lagagrein. Og stefndu, Jón Trausti og Reynir, beri ábyrgð á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar sinnar sem ritstjórar á ummælum, sem ómerkingar sé krafist á, og ábyrgðar sinnar á öðru ritstjórnarefni og fjölda ónafngreindra greina og pistla í DV og á www.dv.is, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt.
Krafa stefnanda um að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 1.597.560 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og DV og á eftirtöldum vef-fréttamiðlum: www.dv.is, www.visir.is, www.pressan.is og www.eyjan.is, byggist á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og VI. kafla laga um prentrétt nr. 57/1956. Hún byggist á því að mikil almenn umfjöllun hafi verið í fjölmiðlum á meðan á herferð DV hafi staðið. Hafi aðdróttanir blaðsins hlotið mikla útbreiðslu, m.a. í auglýsingatímum útvarps, í prentmiðlum og á vefmiðlum. Stefnandi telji nauðsynlegt til að tryggja nægjanlega útbreiðslu dóms, að birtingin fari fram víðar en einvörðungu í DV og á www.dv.is svo hann fái uppreist æru. Fjárhæðin byggi á almennu, uppgefnu verði á auglýsingum hjá framangreindum miðlum. Vísist um málsástæður um solidaríska ábyrgð þessarar kröfu til framangreindrar umfjöllunar um solidaríska ábyrgð á greiðslu miskabóta.
Málskostnaðarkrafa stefnanda sé reist á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfu um virðisaukaskatt byggi stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.
Dráttarvaxtakröfur stefnanda byggist á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um heimild til að beina kröfum að öllum stefndu í þessu máli vísist til 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en um varnarþing til 42. gr. sömu laga.
III.
Stefndu mótmæla öllum málsástæðum stefnanda sem lúta að ómerkingu tilgreindra ummæla.
Stefndu mótmæla því, að umstefnd ummæli í kröfuliðum A og B séu ósönn og feli í sér aðdróttanir í garð stefnanda. Engar aðdróttanir séu fólgnar í ummælunum og þau hafi ekki verið óviðurkvæmileg í skilningi 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Byggi stefndu á meginreglunni um að sönn ummæli séu hvorki refsiverð né bótaskyld en sú meginregla sé alkunn, sbr. t.d. gagnályktun frá 2. mgr. 238. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin sem hér um ræðir feli það í sér annars vegar að stefnandi hafi tekið stöðu gegn íslensku krónunni og hins vegar að stefnandi hafi „plottað“ árás á íslensku krónuna.
Hvað varðar þau ummæli, að stefnandi hafi tekið stöðu gegn íslensku krónunni, sé augljóst af gögnum málsins að ummælin séu sönn. Vísist að þessu leyti til tölvupósts stefnanda frá 27. mars 2007 og staðfesti skjalið réttmæti ummælanna. Í póstinum fjalli stefnandi um möguleg atriði, sem veikt geti krónuna, s.s. kosningar til Alþingis o.fl. Í kjölfarið segi stefnandi:
„Eg hreinlega skil ekki hvers vegna hun hangir“ og „Ef einhver hefdi sagt mer i upphafi ars ad [...] Tha hefdi eg verid viss um 20% laekkun gengis. Allt thetta hefur gerst en samt hangir kronan. Islendingar, med sitt gullfiskamynni, eru nuna ad endurfjarmagna husnaedi sitt erlendis. Eg trui ekki odru en thetta breytist en mer blaedir a hverjum degi. Thetta er eins og kinversk pyntingaradferd. 2% tap a hverjum manudi, jafnt og thett. Kv. Heidar.“
Af þessum pósti sé ljóst að á þessum tíma hafði stefnandi tekið stöðu gegn íslensku krónunni. Ekki sé hægt að skilja textann öðruvísi en svo, að stefnandi hafi gert samninga þar sem staða hafi verið tekin gegn krónunni. Tap hans felist í því að gengið hafi ekki lækkað með þeim hætti sem hann hafði reiknað með. Ekki verði séð hvaða aðrar ástæður gætu legið að baki þessum orðum stefnanda. Stefnanda hafi ítrekað verið gefinn kostur á að svara fyrir og útskýra mál sitt, m.a. hvað varðar þennan tölvupóst, en hann hafi kosið að gera það ekki. Samskipti stefnanda og stefnda, Inga Freys, sýni að stefnandi hafi ekki getað gefið neinar aðrar skýringar á orðum sínum og sé því sannað að stefnandi hafi tekið stöðu gegn krónunni.
Þá vísa stefndu til minnisblaðs, dagsetts 17. janúar 2006, sem útbúið var af stefnanda fyrir fyrirtæki fjárfestisins Björgólfs Thors Björgólfssonar, meðal annars Landsbankann, Samson, Novator og Straum. Minnisblaðið hafi meðal annars verið kynnt fyrir nokkrum stjórnarmönnum Landsbanka Íslands. Í minnisblaðinu komi ítrekað fram ráðleggingar stefnanda til fyrirtækja Björgólfs Thors um að þau taki skortstöðu í íslensku krónunni og veðji þannig gegn henni eða með gengislækkun. Auk þess komi fram í minnisblaðinu hugmyndir um skortsölu á hlutabréfum íslenskra fyrirtækja, til að mynda fyrirtækja í eigu Baugs. Ef fyrirtæki Björgólfs Thors hefðu farið eftir þessum ráðleggingum stefnanda, megi fullyrða að það hefði getað haft umtalsverð áhrif á krónuna, hlutabréfamarkaðinn og jafnframt á hag almennings á Íslandi, einkum þó lántakendur. Kerfislæg áhrif hugmynda stefnanda hefðu því getað orðið veruleg. Til að undirstrika kerfislæga áhættu fjármálakerfis af stöðutöku gegn gjaldmiðli megi benda á að lækkun krónunnar 2006 sé meðal annars talin hafa orsakast af stöðutöku erlendra vogunarsjóða gegn henni. Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segi til dæmis í bók sinni Why Iceland um íslenska efnahagshrunið, að vogunarsjóðirnir erlendu hafi í reynd fellt krónuna. Stöðutaka gegn gjaldmiðli geti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ríki og íbúa þess. Þessi staðreynd renni enn frekar stoðum undir réttmæti umfjöllunar fjölmiðla um stöðutöku gegn gjaldmiðlum og hugmyndir um slíkar atlögur. Af orðum stefnanda að dæma í minnisblaðinu til stjórnar Landsbankans, hafi hann stungið upp á stöðutöku gegn krónunni 2007, um ári eftir að erlendu vogunarsjóðirnir græddu á falli hennar. Þannig segi t.d. í minnisblaði stefnanda á bls. 4 þar sem fjallað er um líklegan hagnað af tillögunni:
„Straumur, Landsbanki og Samson skortselja ISK, hver fyrir sig sem samsvarar 30-50 milljörðum eftir því á hvaða verðum við fáum það gert. Búast við 20% hagnaði af 100 milljarða stöðu, eða 20 milljörðum.“
Þá segi á bls. 5:
„Í heildina væri í mesta lagi um ríflega 30 milljarða hagnað af skortstöðum að ræða. Þetta væri hreinn hagnaður, óháður áhættustýringarsjónarmiðum. Langmest hagnaðartækifæri er í íslensku krónunni.“
Einnig segi á bls. 6:
„Novator tekur skortstöðu fyrir tæplega 50 milljarða króna.“
Telja verði að minnisblaðið renni enn styrkari stoðum undir sönnun stefndu á því að stefnandi hafi tekið stöðu gegn íslensku krónunni og mælt með henni við vinnuveitanda sinn, Björgólf Thor Björgólfsson. Stefnandi hafi verið hlynntur stöðutöku gegn krónunni á þessum tíma og hafi sjálfur tekið stöðu gegn henni og mælt með því að bæði Landsbankinn og Straumur gerðu slíkt hið sama til þess að hagnast á lækkun hennar. Sérstaklega beri að undirstrika ívitnað orðalag stefnanda hér að ofan þar sem hann segi að stöðutakan sé óháð ,,áhættustýringarsjónarmiðum“. Sú vörn stefnanda að stöðutakan hafi verið í varnarskyni, þ.e. að hann hafi viljað verja sig fyrir falli krónunnar, en ekki í sóknarskyni, þ.e.a.s. að hann hafi viljað græða á falli krónunnar, gangi því ekki upp þegar litið sé til þessara ummæla.
Varðandi þau ummæli að stefnandi hafi „plottað“ árás á íslensku krónuna, megi í fyrsta lagi vísa til framangreinds minnisblaðs og tilvitnaðra ummæla í því. Eins og fram komi í minnisblaðinu, hafi stefnandi lagt til við nokkra af fjársterkustu aðilum íslensks efnahagslífs að þeir tækju í auknum mæli stöðu gegn íslensku krónunni í hagnaðarskyni og hafi hann talið gríðarleg hagnaðartækifæri felast í slíkri stöðutöku. Það sé án efa háð mati hvað felist í orðunum að „plotta árás á krónuna“. Stefndu telji ljóst að sú háttsemi, sem felist í framangreindum ráðleggingum stefnanda, falli innan ramma þessarar setningar en orðið ,,plotta“ sé óformlegt og vísi m.a. til ,,ráðagerðar“ einhvers. Með orðinu ,,árás“ sé einfaldlega átt við að stefnandi hafi skipulagt ,,atlögu“ gegn krónunni. Formlegri texti hefði mögulega verið ,,ráðgera atlögu gegn krónunni“. Mjög hefðbundið sé að taka svo til orða að þeir, sem taki stöðu gegn gjaldmiðli eða leggi á ráðin um að gera slíkt, undirbúi atlögu að honum eða geri árás á hann. Hér beri sérstaklega að hafa í huga stærðargráðu þeirra viðskiptagerninga sem stefnandi leggi til að farið verði út í í umræddu minnisblaði.
Til stuðnings framangreindu megi í öðru lagi vísa til tölvupósts stefnanda, dagsetts 31. janúar 2007, en þar segi orðrétt:
„Ja eg er.I NYC og hitti Soros aðan og BRuce Kovner. Thad freistar theirra ad radast a kronuna.“
Þegar þessi póstur hafi verið sendur, hefði stefnandi þegar lagt til við stóra fjárfesta á Íslandi að taka stöðu gegn krónunni. Pósturinn sanni að stefnandi fundaði með umræddum fjárfestum og að efni fundarins hafi verið að minnsta kosti að hluta til árás á íslensku krónuna. Soros og Kovner reki tvo stærstu vogunarsjóði Bandaríkjanna og geti með fjárfestingum sínum haft gríðarleg áhrif á gengi gjaldmiðla. Til að mynda sé Soros oft kallaður maðurinn sem felldi breska pundið og sé með því vísað til þess að hann græddi einn milljarð dollara á falli pundsins 1992. Með því að senda póstinn hafi stefnandi jafnframt miðlað þessari hugmynd áfram, þótt ekki liggi fyrir hver viðtakandinn var. Stefnandi hafi haldið því fram að viðtakandinn hafi verið Róbert Wessmann, fjárfestir og þáverandi viðskiptafélagi Björgólfs Thors. Þá þurfi að skoða þessar staðreyndir í samhengi við póstinn, sem stefnandi hafi sent um tveimur mánuðum síðar, 27. mars, þar sem hann hafi lýst áhyggjum sínum af því að gengi krónunnar hefði ekki fallið. Hafi stefnandi líkt þessu við kínverska pyntingaraðferð.
Með vísan til framangreinds megi sjá að stefnandi hafði umtalsverða persónulega hagsmuni af því að gengi krónunnar félli á þessum tíma. Við skoðun á ársreikningum eignarhaldsfélags stefnanda, Ursusar ehf., fyrir hrunið verði ráðið að félagið hagnaðist þegar gengi krónunnar féll en tapaði peningum þegar gengið var sterkt. Til að mynda hafi félag stefnanda grætt 105 milljónir króna 2008 þegar gengi krónunnar féll eins og fjallað hafi verið um í blaðagrein DV, dagsettri 5. nóvember 2010. Tilgangur félagsins sé að fjárfesta í afleiðum en með slíkum fjármálaafurðum veðji menn meðal annars á lækkun eða hækkun gjaldmiðla og hafi stefnanda verið sendar spurningar um eðli fjárfestinga Ursusar ehf. en þeim pósti hafi ekki verið svarað. Þegar stefnandi hafi talað um að honum blæddi, hafi hann líklega meðal annars verið að vísa til fjárfestinga eignarhaldsfélagsins gegn krónunni. Einnig beri að geta þess að ársreikningur Samsonar, eignarhaldsfélags Landsbankans, sem meðal annars hafi verið í eigu Björgólfs Thors, hafi sýnt mikið tap á gjaldeyrisvörnum 2007, rúmlega 15 milljarða króna. Ekki verði annað séð en að félagið hafi haft hagsmuni af falli krónunnar 2007. Megi því fullyrða að Samson hafi veðjaði á fall krónunnar 2007 og tapað fjármunum vegna þess að gengi hennar hélst hærra en stefnandi hafði áætlað. Í ársreikningi félagsins fyrir það ár segi: „Félagið færir afleiðusamninga á markaðsvirði og því kemur fram gjaldfærsla að fjárhæð 15.632 m. kr. sem að stórum hluta er vegna styrkingar íslensku krónunnar á árinu. Sem alþjóðlegt fjárfestingafélag beitir félagið gengisvörnum til að styðja við eign félagsins í Landsbanka Íslands hf. og draga úr gengisáhrifum á eignir félagsins í evrum talið.“ Þetta beri að skoða í ljósi þess að árið áður hefði stefnandi kynnt framangreint minnisblað fyrir Björgólfi Thor þar sem hann mælti með því að Samson tæki stöðu gegn íslensku krónunni.
Með hliðsjón af öllu þessu verði að telja sannað að stefnandi hafi ráðgert atlögu gegn krónunni. Stefndi, Ingi Freyr, hafi borið þetta sérstaklega undir stefnanda fyrir birtingu fréttarinnar og gefið honum færi á að skýra mál sitt en engin efnisleg svör eða fullnægjandi skýringar hafi hins vegar borist frá stefnanda. Hafi því lýsing stefndu verið fullkomlega sanngjörn og eðlileg með hliðsjón af atvikum öllum.
Eins og fram komi í stefnu, byggi stefnandi kröfur sínar um ómerkingu ummælanna „Krónuníðingurinn“ og „Heiðar hljómar eins og landráðamaður“ á því að í þeim felist sérlega grófar ærumeiðingar og aðdróttanir gagnvart stefnanda. Jafnframt segi að ummælin hafi verið tilefnislaus og byggð á ósönnum fullyrðingum. Þá byggi stefnandi á því að ummælin hafi verið óviðurkvæmileg í skilningi 241. gr. almennra hegningarlaga.
Stefndu vekja sérstaka athygli á því, að um leiðara sé að ræða. Leiðarinn sé viðhorfsgrein ritstjóra en ekki venjuleg frétt blaðamanns og beri að skoða ummælin í því ljósi.
Varðandi ummælin „krónuníðingurinn“ vísist í fyrsta lagi til þess að stefnandi virðist misskilja efni leiðarans með því að ganga út frá því sem vísu að ummælin eigi við um hann. Leiðarinn bjóði í raun upp á þrenns konar túlkun á því hver sé krónuníðingurinn, þ.e.a.s. stefnandi, Davíð Oddsson eða krónan sjálf. Í þessu sambandi megi vísa til þess sem segi í leiðaranum: „Maðurinn sem eyðilagði krónuna á endanum er auðvitað ekki Heiðar Már Guðjónsson heldur Davíð Oddsson seðlabankastjóri“ og jafnframt: „Krónan er krónískur sjúkdómur sem hrjáir íslenskan almenning [...]“ Samkvæmt þessu sé það niðurstaða leiðarans að skaðvaldurinn sé krónan sjálf og sé það tilgangur leiðarans að vekja fólk til umhugsunar um hvernig breyta megi því ástandi.
Verði hins vegar talið að ummælin „krónuníðingurinn“ eigi beint við um stefnanda, vísist til þess sem áður segi um sannanir fyrir stöðutökum stefnanda gegn íslenska gjaldmiðlinum og þeirri árás sem stefnandi hafi ráðgert gegn krónunni. Í ljósi þessara málavaxta verði að telja að ekki sé óeðlilegt að ritstjóri hafi tekið til orða með þeim hætti sem hann gerði. Verði á annað borð talið sannað að stefnandi hafi viðhaft umrædda háttsemi, verði ekki talið ofsagt að nota fyrirsögnina „krónuníðingurinn“ á grein, þar sem ætlunin sé að fjalla um slíka ráðagerð. Krónuníðingur vísi til þeirra, sem níðist á krónunni, og hljóti stöðutaka gegn gjaldmiðlinum og ráðagerð um eftirfarandi atlögu með hjálp stórra fjárfesta, í þeim tilgangi að fella gengi krónunnar, að geta fallið undir það að níðast á krónunni.
Með setningunni „Heiðar hljómar eins og landráðamaður“ láti ritstjóri í ljós skoðun sína á því hvernig stefnandi hljómar í ljósi þeirra upplýsinga, sem fram hafi komið um háttsemi hans. Ritstjórinn haldi því ekki á nokkurn hátt fram að stefnandi sé landráðamaður eða hafi gerst sekur um brot sem teljist til landráða í skilningi almennra hegningarlaga. Sé ekki hægt að halda því fram að um aðdróttun sé að ræða eins og stefnandi byggi á. Þá beri að líta til setningarinnar, sem komi þar á undan, þar sem vitnað sé í tölvupóst stefnanda um menn, sem þekktir séu fyrir árás á gjaldmiðla: „það freistar þeirra að ráðast á krónuna.“ Það sé þessi ráðagerð sem fái stefnanda til að „hljóma eins og landráðamaður“ að mati ritstjóra. Efni leiðarans sé því í stuttu máli það að stefnandi hljómi eins og landráðamaður en hinn raunverulegi skaðvaldur okkar sé stefna seðlabankastjórans og gjaldmiðillinn sjálfur.
Framangreind ummæli verði að flokka sem gildisdóma en ekki staðhæfingar. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í ærumeiðingarmálum flokkað ummæli í tvo meginflokka þegar meta skuli hvort þau verði réttlætt, þ.e. annars vegar staðhæfingar um staðreyndir (facts) og hins vegar gildisdóma (value-judgements). Þau ummæli, sem fjallað hafi verið um í 1.1. hér að framan (liðir A og B í stefnu), verði að teljast til staðreynda, þótt halda megi því fram að öðrum þræði felist jafnframt í þeim gildisdómar. Hins vegar falli ummælin í C-lið án efa í flokk gildisdóma.
Að mati Mannréttindadómstólsins njóti gildisdómar aukinnar verndar umfram ósannaðar staðreyndir. Rök fyrir þessari afstöðu séu þau, að staðhæfingar um staðreyndir sé unnt að sanna með þeim aðferðum, þ.e. sönnunargögnum, sem almennt séu viðurkenndar í réttarfari, en gildisdómar verði ekki sannaðir með sambærilegum hætti. Í gildisdómi felist mat á staðreynd en ekki miðlun staðreynda, og mat hljóti alltaf að vera huglægt og engin yfirvöld geti stýrt huglægu mati manna. Kröfu um sannanir fyrir gildisdómum sé ekki unnt að fullnægja og felist þar af leiðandi í henni óheimil skerðing tjáningarfrelsis.
Sé því byggt á meginreglunni um tjáningarfrelsi, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, og jafnframt á 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Verði stefndu því ekki gert að sanna að stefnandi sé „krónuníðingur“ eða að hann „hljómi eins og landráðamaður“ með öðrum hætti en því að sanna þær fullyrðingar eða staðreyndir sem þessir gildisdómar séu byggðir á. Í þessu tilviki séu gildisdómarnir byggðir á því að stefnandi hafi tekið stöðu gegn krónunni og í kjölfarið ráðlagt öðrum fjárfestum að gera hið sama í von um að gengi hennar myndi lækka.
Að lokum árétti stefndu að efni þeirra greina, sem þetta mál fjalli um, varði gengi íslensku krónunnar en gjaldmiðillinn hafi hrunið í kjölfar bankahrunsins með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir almenning á Íslandi. Hafi það margsinnis komið fram, m.a. í Rannsóknarskýrslu Alþingis, að a.m.k. hluti af ástæðunni fyrir gengishruninu hafi verið sú að umsvifamiklir aðilar í viðskiptalífinu hafi, í miklum mæli, tekið stöðu gegn krónunni. Í ljósi þessa verði að telja að efni blaðagreinanna hafi átt fullt erindi við almenning sem innlegg í þá mikilvægu þjóðfélagsumræðu að gera upp bankahrunið og afleiðingar þess. Með vísan til þessa verði að telja að stefnandi verði að þola gagnrýnni umræðu en ella og að blaðamenn njóti í þessum tilvikum svokallaðs „rýmkaðs tjáningarfrelsis“. Þá beri að líta til þess að áður en hinar umdeildu blaðagreinar voru birtar, hafi stefnanda verið gefinn kostur á að skýra mál sitt og hafi verið borin undir hann þau gögn, sem stefndu hefðu haft undir höndum, sbr. framangreinda tölvupósta og minnisblað, en þessi gögn hafi gefið sterklega til kynna að stefnandi hefði tekið stöðu gegn krónunni, lagt á ráðin um árás á krónuna og ráðlagt Björgólfi Thor Björgólfssyni að taka stöðu gegn krónunni. Þær skýringar, sem stefnandi hafi gefið, hafi verið ófullnægjandi og standist ekki nánari skoðun. Í ljósi þessa hafi verið eðlilegt fyrir stefndu að byggja blaðagreinarnar á umræddum gögnum enda hefði stefnandi staðfest að þau væru frá honum komin.
Með vísan til framangreinds sé því mótmælt að stefndu hafi með ummælum sínum gerst brotlegir við lög. Þá sé því mótmælt að stefndu hafi gerst sekir um ólögmæta meingerð gegn stefnanda, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Miskabótakröfu stefnanda sé því með öllu hafnað. Þá sé hún úr hófi og beri því að lækka hana verulega, verði fallist á að í umþrættum ummælum felist ólögmæt meingerð gegn stefnanda sem leiði til þess að hann eigi rétt á miskabótum.
Öllum málsástæðum og málsatvikalýsingum stefnanda, sem snerti fyrirhuguð kaup hans á Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sé hafnað. Í fyrsta lagi sé því mótmælt að stefndu hafi með nokkrum hætti brotið gegn rétti stefnanda eða skaðað orðspor hans með ólögmætum hætti. Verði hins vegar talið að brotið hafi verið gegn rétti stefnanda, sé byggt á því að ósannað sé með öllu að það hafi haft nokkur áhrif á möguleika hans til að kaupa tryggingafélagið og því hafi ekki verið sýnt fram á orsakatengsl milli umfjöllunarinnar og ætlaðs tjóns. Stefndu hafi farið þess á leit við Seðlabankann að hann útskýri af hverju salan á Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til stefnanda hafi tafist en bankinn hafi hafnað beiðni um upplýsingar með vísan til 35. greinar laga um Seðlabanka Íslands. Stefndu hafni því alfarið sem röngu og ósönnuðu að umfjöllun blaðsins hafi valdið töfum á söluferlinu. Sé ástæða til að ætla að umfjöllunin hafi engin áhrif haft, enda afar ótrúverðugt að Seðlabankinn hafi látið slíka umfjöllun hafa áhrif á sig. Líklegri skýring sé rannsókn Seðlabankans á aflandskrónuviðskiptum stefnanda og/eða tilboð stefnanda. Teljist því með öllu ósannað að umfjöllun blaðsins hafi valdið stefnanda tjóni en um þá fullyrðingu beri stefnandi sönnunarbyrði. Sé miskabótakröfu stefnanda því alfarið hafnað sem og kröfu um dráttarvexti og kröfu um upphafstíma dráttarvaxta.
Þá beri til þess að líta að stefnandi krefji stefndu um greiðslu miskabóta in solidum vegna þeirra ummæla sem krafist sé ómerkingar á. Stefndu geti hins vegar ekki borið óskipta ábyrgð á þeim, enda hafi kröfum ekki verð beint gegn sömu aðilum vegna allra ummælanna, auk þess sem þeir geti ekki orðið bótaskyldir vegna ummæla, sem þeir beri ekki ábyrgð á samkvæmt lögum. Þannig beri annar en ritstjóri ekki ábyrgð á efni ritstjórnargreinar og blaðamaður ábyrgist ekki efni fyrirsagna. Sé nánar á því byggt að krafa um miskabætur sé vanreifuð og ódómtæk. Fullt tilefni sé til þess að vísa kröfunni frá dómi ex officio, enda samræmist hún ekki ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfu stefnanda um að stefndu verði gert að greiða 1.597.560 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu sé mótmælt, þar sem 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga eigi ekki við og stefndu hafi ekki gerst sekir um ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda, eins og rakið hafi verið. Verði ekki fallist á það, sé fjárhæðinni mótmælt sem allt of hárri og þess krafist að hún verði lækkuð umtalsvert. Þá sé, líkt og að framan greinir, því mótmælt að unnt sé að krefja stefndu in solidum um kostnað af birtingu dóms, enda beinist kröfur stefnanda að mismunandi ummælum, sem geti ekki verið á ábyrgð allra stefndu. Sé því fullt tilefni til að vísa kröfu stefnanda að þessu leyti frá dómi ex officio enda krafan bæði vanreifuð og ódómtæk.
Stefnandi kjósi að beina kröfum á hendur þremur aðilum vegna þriggja ummæla, sem birst hafi í fyrsta lagi á forsíðu 120. tbl. DV hinn 18. október 2010, í annan stað vegna ummæla sem birst hafi í blaðagrein í sama tbl. og í þriðja stað vegna ritstjórnargreinar sem birst hafi í 121. tbl. DV hinn 20. október 2010. Á því sé byggt af hálfu stefndu að ekki séu skilyrði að lögum til að beina kröfum á hendur öllum stefndu í sama máli vegna allra krafnanna, enda eigi þær ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings í skilningi 19. gr. laga nr. 91/1991. Verði vart komist hjá því að vísa málinu frá dómi ex officio.
IV.
Af hálfu stefndu er vísað til þess að skilyrði 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, leiði til þess að málinu verði vísað frá dómi ex officio þar sem kröfur stefnanda beinist að þrennum ummælum sem hafi birst í fyrsta lagi á forsíðu tiltekins tölublaðs DV, í annan stað í blaðagrein í sama tölublaði og í þriðja lagi í ritstjórnargrein í næsta tölublaði þar á eftir. Eigi ummælin því ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings í skilningi ákvæðisins og leiði það til frávísunar málsins frá dómi. Ummæli þau, sem krafist er ómerkingar á í máli þessu, birtust öll í dagblaðinu DV og jafnframt á vefsíðunni www.dv.is. Þótt ummælin séu ekki öll sett fram með sama hætti í blaðinu, verður ekki á þetta fallist með stefndu. Sýnist ljóst að ummælin á forsíðu vísi til efnis blaðagreinarinnar og að ritstjórnargreinin sé sprottin af efni blaðagreinarinnar. Verður því að telja ummælin eiga rætur í sömu aðstöðu í skilningi 19. gr. laga nr. 91/1991
Í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, er mælt fyrir um tjáningarfrelsi en þar segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 3. mgr. ákvæðisins er að finna ákvæði um takmarkanir á tjáningarfrelsi manna en þar segir að því megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.
Af hálfu stefnanda er á því byggt, að ummælin í kröfuliðum A og B séu ósönn og að hann hafi hvorki lagt á ráðin um árásir á íslensku krónuna né tekið stöðu gegn henni í þeim tilgangi að fella hana. Ummælin hafi jafnframt verið til þess fallin að verða virðingu hans til hnekkis. Byggir stefnandi á því að stefndu hafi með framsetningu ummælanna gerst sekir um brot gegn 235. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af hálfu stefndu er kröfum stefnanda í þessum kröfuliðum mótmælt með vísan til þess að engar aðdróttanir séu fólgnar í tilgreindum ummælum og að þau hafi ekki verið óviðurkvæmileg í skilningi 241. gr. sömu laga. Byggja stefndu á því að sönn ummæli séu hvorki refsiverð né bótaskyld.
Stefndi, Ingi Freyr Vilhjálmsson, kveður tilefni blaðagreinar sinnar í DV 18. október 2010 vera tvo tölvupósta stefnanda og minnisblað sem frá stefnanda stafi. Um er að ræða tölvupóst stefnanda frá 31. janúar 2007 þar sem hann segist vera í New York og hafa hitt fjárfestana Soros og Kovner. Síðan segir hann að það hafi freistað þeirra að ráðast á krónuna. Í tölvupósti frá 27. mars sama ár segir stefnandi að hann hefði verið viss um 20% lækkun gengis „en samt hangir krónan“. Síðan segist hann ekki trúa öðru en að þetta breytist en að honum blæði á hverjum degi, þetta sé eins og kínversk pyntingaraðferð, 2% tap í hverjum mánuði. Í framlögðu minnisblaði, dagsettu 17. janúar 2006, sem viðurkennt virðist vera að stefnandi hafi átt þátt í að semja, er farið yfir stöðuna á fjármálamarkaði. Kemur þar fram að spenna á íslenskum fjármálamarkaði sé gríðarleg og leiðrétting óhjákvæmileg. Síðar í minnisblaðinu eru m.a. gefnar þær ráðleggingar að loka áhættu strax og „síðan byggja upp skortstöður í þeim sem helst yrðu fyrir barðinu á ástandinu“ og jafnframt segir að hagnaður yrði af skortstöðum óháð áhættustýringarsjónarmiðum. Í blaðagrein sinni leggur stefndi, Ingi Freyr, út af framangreindum gögnum og kemst að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi, eins og kemur fram í umstefndum ummælum í A-lið kröfugerðar stefnanda, tekið stöðu gegn íslensku krónunni á árunum 2006 og 2007. Blaðamaðurinn telur líklegt að stefnandi sé að vísa til þess að krónan styrktist í upphafi 2007 þegar hann segi í tölvupósti frá 31. janúar 2007 að honum blæði. Kemst blaðamaðurinn því að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi tekið stöðu gegn krónunni í þeirri von að gengið lækkaði og hann græddi. Á hinn bóginn byggir stefnandi á því að í minnisblaðinu hafi einungis verið fjallað um gengisvarnir og því rangt að þar hafi verið lagt á ráðin um að gera árás á krónuna.
Við mat á því hvort farið hafi verið út fyrir mörk tjáningarfrelsis verður að taka mið af því að tryggja þarf þjóðfélagslega umræðu. Í kjölfar bankahrunsins hefur orðið mikil umræða um íslensk efnahagsmál og stöðu krónunnar, þ. á m. um viðskipti fyrirtækja og annarra með íslenskar krónur og áhrif þeirra á gjaldmiðilinn.
Upplýsingar þær, sem stefndi, Ingi Freyr, fjallar um í grein sinni í tilgreindu tölublaði DV og á vefsíðu DV og sem fyrirsögnin á forsíðu vísar til, lúta að umfjöllun stefnanda um viðskipti með íslenskar krónur nokkru fyrir bankahrunið. Verður því að telja að upplýsingarnar og umfjöllun um þær varði almenning. Blaðamaðurinn vísaði til þeirra upplýsinga sem lágu að baki fréttinni þegar hún var samin. Þótt hann kunni að hafa lagt rangt mat á heimildir við vinnslu fréttarinnar, sem ákveðnar líkur hafa verið leiddar að, hefur ekki verið sýnt fram á að fullyrðingar hans í umstefndum ummælum í kröfuliðum A og B hafi verið settar fram í vondri trú.
Verður hér einnig að líta til þess að með fyrirsögninni „[P]lottaði árás á krónuna“ á forsíðu er vísað til fréttarinnar á bls. 10-11 í blaðinu þar sem ummæli samkvæmt B-lið kröfugerðar stefnanda koma fram. Í fréttinni er sérstaklega tekið fram að „stöðutaka gegn krónunni er ekki ólögleg og ekkert bendir til að Heiðar og aðrir sem tóku stöðu gegn krónunni á árunum fyrir hrun hafi gerst brotlegir við lög“. Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að framangreind ummæli í kröfuliðum A og B feli í sér brot gegn ákvæðum 235. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Breytir ekki þeirri niðurstöðu þótt stefnandi sé sérfræðingur á sviði fjármála og hafi lífsviðurværi sitt af sérþekkingu sinni á því sviði.
Ummælin, sem krafist er ómerkingar á í kröfulið C, eru annars vegar „Krónuníðingurinn“ og hins vegar „Heiðar hljómar eins og landráðamaður“. Þau birtust í leiðara DV 20. október 2010, sem óumdeilt er að er saminn af ritstjóra blaðsins, stefnda Jóni Trausta Reynissyni. Af hálfu stefnanda er á því byggt að í ummælum þessum felist sérlega grófar ærumeiðingar og aðdróttanir gagnvart honum, auk þess sem þau hafi byggst á ósönnum fullyrðingum og verið sett fram í fullkominni andstöðu við umfjöllun blaðsins að öðru leyti. Vísar stefnandi til þess að í blaðagrein stefnda, Inga Freys, frá 18. sama mánaðar hafi sérstaklega verið tekið fram að stöðutaka gegn krónunni væri ekki ólögleg og því hafi stefndi, Jón Trausti, ekkert tilefni haft til hinnar niðrandi umfjöllunar í leiðara sínum.
Af hálfu stefndu er á það bent að skoða verði ummælin í ljósi þess að þau voru sett fram í leiðara DV og hann sé viðhorfsgrein ritstjóra en ekki venjuleg frétt blaðamanns. Þá sé ekki sjálfgefið að með ummælunum „krónuníðingurinn“ sé átt við stefnanda, heldur geti hér einnig verið átt við fyrrverandi seðlabankastjóra eða krónuna sjálfa. Í skýrslu sinni fyrir dóminum, kvað stefndi, Jón Trausti, þetta orðalag vísa til hvers sem gerði árás á krónuna og því væri ekki sérstaklega verið að fjalla um stefnanda.
„Krónuníðingurinn“ er fyrirsögn á leiðara ritstjóra, stefnda Jóns Trausta, í DV framangreindan dag. Undir fyrirsögninni er ljósmynd af stefnanda og hefst leiðarinn á orðunum: „Maður að nafni Heiðar Már Guðmundsson leitaði til George Soros, sem felldi breska pundið á sínum tíma.“ Skömmu síðar koma fyrir í texta leiðarans hin ummælin, sem krafist er ómerkingar á í þessum kröfulið, þ.e. „Heiðar hljómar eins og landráðamaður“. Þótt síðar í leiðaranum sé fjallað almennt um veikleika krónunnar og vikið að seðlabankastjóra í lok hans, verður að fallast á það með stefnanda að framsetning leiðarans með mynd af stefnanda undir fyrirsögninni „Krónuníðingurinn“ vísi frekar til stefnanda en til annarra umfjöllunarefna leiðarans.
Hins vegar er einnig ljóst, eins og reyndar kom fram í skýrslu stefnda, Jóns Trausta, að efni leiðarans er útlegging ritstjórans á því, sem fram kom í umræddri umfjöllun stefnda, Inga Freys, í framangreindri blaðagrein í sama tölublaði, þ.e. að stefnandi hafi tekið stöðu gegn krónunni og í kjölfarið ráðlagt öðrum fjárfestum að gera hið sama í von um að gengi hennar myndi lækka. Felst í leiðaranum og hinum umstefndu ummælum gildisdómur höfundar og verða því ekki gerðar strangar kröfur til sönnunar þeirra staðreynda sem hann er reistur á. Þótt ummælin í kröfulið C séu sett fram af smekkleysi þar sem djúpt er tekið í árinni og viðhaft ósmekklegt orðfæri, er það, að öllu framangreindu virtu, mat dómsins að ekki verði fallist á það með stefnanda, að í þeim felist ærumeiðandi aðdróttun eða óviðurkvæmileg ummæli í því samhengi og á þeim vettvangi sem þau voru sett fram. Staða stefnanda sem sérfræðings á sviði fjármála þykir engu breyta um það mat. Eru því ekki efni til að ómerkja ummælin.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verða stefndu sýknaðir af miskabótakröfu stefnanda og kröfu hans um að stefndu verði dæmdir til að kosta birtingu dóms í máli þessu.
Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu er það mat dómsins að með hliðsjón af málsatvikum sé rétt að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, eru sýknir af kröfum stefnanda, Heiðars Más Guðjónssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.