Hæstiréttur íslands

Mál nr. 342/2007


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. nóvember 2007.

Nr. 342/2007.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

Halldóri Agli Kristjánssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skaðabætur.

 

H var gefið að sök að hafa slegið A með glerflösku í andlitið, en við þetta hefði flaskan brotnað með þeim afleiðingum að A hlaut tvo alldjúpa skurði fyrir ofan vinstra auga. Fyrir Hæstarétti var því lýst af hálfu H að hann undi niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu að öðru leyti en því að hann neitaði að hafa slegið A í andlitið með glerflösku. Með vísan til framburðar tveggja vitna og vottorð læknis var talið sannað að H hefði slegið A með glerflösku. Hins vegar þar sem aðeins annað vitnið bar að flaskan hefði brotnað þótti það ósannað. H var ekki talinn eiga sér neinar málsbætur og þegar þess var gætt að hann hefði neitað öllum sakargiftum við rannsókn málsins og fyrir héraðsdómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að H yrði gert að greiða A skaðabætur og sæta fangelsi í sex mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 390.921 krónu með vöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og bætur lækkaðar.

Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu ákærða að hann uni niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu að öðru leyti en því að hann neiti að hafa slegið A í andlitið með glerflösku. Í ákæru er því lýst að flaskan hafi brotnað við atlögu ákærða. Ekki er öðru til að dreifa um það en framburði eins vitnis. Telst þetta því ósannað. Með þessari athugasemd verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða. Hann á sér engar málsbætur og neitaði öllum sakargiftum við rannsókn málsins og fyrir héraðsdómi. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

          Ákærði, Halldór Egill Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 331.884 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

                                                                                                                 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 13. desember 2006 á hendur Halldóri Agli Kristjánssyni, kt. 170376-5799, Andrésbrunni 14, Reykjavík, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006, á veitingastaðnum Hressingarskálanum í Austurstræti, Reykjavík, slegið A með glerflösku í andlitið, en við þetta brotnaði flaskan með þeim afleiðingum að A hlaut tvö 2 sm löng og alldjúp skurðsár á vinstri augabrún og varð að sauma hvort sár með 6 til 7 sporum.

Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 390.921 króna auk vaxta frá 20. apríl 2006, en síðan dráttarvaxta frá 2. desember 2006 til greiðsludags, samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð.

 

Samkvæmt skýrslu lögreglu var lögreglumaður á vakt á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006. Fram kemur að kl. 06.28 hafi A kom á deildina. Í skýrslunni er rakið að A hafi verið blóðugur og með tvo skurði fyrir ofan vinstra auga. Þá hafi augað verið bólgið. Hefur lögreglumaður skráð eftir A að hann hafi verið á dansgólfi veitinga­staðarins Hressingarskálans í Austurstræti í Reykjavík. Með honum á dans­gólfinu hafi verið bróðir A, kona bróður síns og vinkona hennar. Hafi A ekki vitað fyrr en maður hafi gengið að honum og slegið hann einu sinni. Hafi A ekki verið viss um hvort maðurinn hafi verið með flösku í hendi eða hvort maðurinn hafi einungis notað hnefa. Eftir höggið hafi fólk á staðnum gengið á milli þeirra. Hafi A lýsti því að hann hafi þekkt árásarmanninn sem Halldór, ákærða í máli þessu, eiganda tiltekins fyrirtækjareksturs. Ekki hafi A vitað af hverju nefndur Halldór hafi slegið sig.

A mætti á lögreglustöð næsta dag og lagði fram kæru á hendur ákærða. Við það tækifæri greindi A svo frá að hann hafi farið á veitingastaðinn Hressingar­skálann í Austurstræti aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006. Með honum í för hafi verið bróðir A og kona bróður A. A kvaðst hafa neytt áfengis þessa nótt en ekki hafa verið ofurölvi. Á dansgólfi staðarins hafi A hitt fyrir ákærða. Kvaðst A hafa þekkt hann þar sem ákærði hafi verið meðeigandi að fyrirtæki sem A hafi nýtt sér í sambandi við rekstur á eigin fyrirtæki. Kvað A þau viðskipti hafa verið án vandkvæða og A ekki kunnugt um nein ágreiningsmál vegna þeirra. Hafi A kastað kveðju á ákærða á dansgólfinu og spurt hann hvernig gengi. Um klukkustund hafi liðið frá því A hafi komið inn á staðinn þar til hann hafi orðið fyrir árásinni. Hafi hann verið búinn að dansa nokkrum sinnum á dansgólfinu og þá m.a. við B. A hafi síðan staðið úti í horni á dansgólfinu og snúið að bróður sínum. Hafi ákærði þá komið á vinstri hlið A og hafi hann slegið A þungt högg á höfuðið, líklegast með flösku. Höggið hafi lent vinstra megin á enni við augabrún. Einungis hafi verið um eitt högg að ræða. Sprungið hafi fyrir og mikið blætt. Hafi ákærði verið rifinn frá af einhverju fólki á staðnum. Ekki kvaðst A vita hvað orðið hafi af ákærða. Hafi B, sem ekki hafi verið búin að drekka áfengi, ekið A upp á slysadeild. Á slysadeild hafi allmörg spor verið tekin til að loka tveim sárum við vinstri augabrún A. Er fært í skýrsluna að A sé við skýrslugjöfina með sáraumbúðir við augað og með áberandi glóðar­auga.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu fimmtudaginn 2. nóvember 2006. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið kvaðst ákærði ekki kannast við umrætt atvik ,,í fljótu bragði, en það er langt síðan þetta var.” Kvaðst ákærði muna eftir að hafa farið nokkrum sinnum á veitingastaðinn Hressingarskálann í Austurstræti, en ekki kvaðst ákærði kannast við að hafa lent í átökum við neinn. Undir ákærða var borin lýsing er A og vitni gáfu á atvikum hjá lögreglu. Kvaðst hann eftir sem áður ekki kannast við atvikið. Er undir hann var borin lýsing B á atvikum hjá lögreglu, þar sem hún bar m.a. að ákærði hafi lamið A, kvaðst ákærði ekki hafa farið út með henni.

Fyrir dómi greindi ákærði svo frá að hann kannaðist við að hafa verið á veitingastaðnum Hressingarskálanum í Austurstræti í Reykjavík aðfaranótt fimmtu­dagsins 20. apríl 2006. Kvaðst ákærði muna talsvert eftir atvikum þessarar nætur. Hann hafi ekki lamið A í andlitið með flösku, svo sem honum væri gefið að sök, né hafi hann séð einhverja aðra gera slíkt hið sama. Ákærði kvaðst hafa komið á veitingastaðinn um kl. 2.00 um nóttina, en honum samferða hafi verið B og C. Þá kvaðst ákærði kannast við A, en ákærði hafi einhverju sinni unnið verk fyrir A. Einnig kvaðst ákærði vita hver D, bróðir A væri.  Kvaðst ákærði muna eftir að hafa hitt A stutt á staðnum og hafi engin leiðindi verið á milli þeirra. Kvaðst ákærði hafa yfirgefið staðinn um kl. 4.00 til 4.30 um nóttina. Ákærði kvaðst hafa verið ölvaður um nóttina. Hafi hann dansað eitthvað inni á staðnum. Þá hafi hann hitt tiltekna kunningja sína á staðnum, þá F, G og H. Kvaðst ákærði ekki hafa munað eftir kvöldinu er hann hafi gefið lögregluskýrslu vegna málsins, en hafa rifjað það upp eftir að málið hafi komið fyrir dóminn. Væri það ástæða þess hvernig hann hafi borið við skýrslugjöf hjá lögreglu.

A bar fyrir dómi um atvik í aðalatriðum með sama hætti og er hann haf skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst A hafa verið að dansa við B á dansgólfinu um nóttina. Hafi hann drukkið áfengi þessa nótt en ástand hans samt sem áður verið eðlilegt. Hafi ákærði gengið að A og slegið hann í höfuðið. Á þeirri stundu hafi A snúið að hálfu að bróður sínum og að hálfu á móti ákærða, sem hafi komið aðvífandi. Hafi A séð ákærða rétt áður en ákærði hafi slegið A. Um hafi verið að ræða eitt högg og hafi A ekki tekið eftir því hvort flaska hafi verið notuð. Hann hafi hins vegar séð gler er hann hafi snúið sér að ákærða. Hafi A fallið í gólfið við höggið. Bróðir A hafi þá ætlað að rjúka í ákærða. Því hafi hins vegar verið afstýrt. Ákærði hafi horfið á brott og B ekið A, D og E á slysadeild. A kvaðst ekki hafa þekkt B fyrir þennan atburð. Hafi hann verið frá vinnu eftir atburðinn, en hann hafi fengið tvo slæma skurði á höfuðið. Sárið grói vel, en lýtalæknir hafi greint A frá því að ekkert væri unnt að aðhafast varðandi skurðina fyrr en ári eftir að áverkinn hafi komið til.   

D kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt sinn með kærustu sinni, E, og bróður sínum. Hafi D drukkið áfengi um kvöldið og nóttina en ekki orðið mjög ölvaður. Á veitingastaðnum Hressingar­skálanum hafi D séð mann er hann hafi kannast við. Viðkomandi hafi verið að vinna hjá tilteknu fyrirtæki sem hafi tekið að sér verk á vinnustað A. D hafi ekkert rætt við manninn, einungis kastað kveðju á hann, en A heilsað honum og rætt lítillega við hann. D, A og E hafi einhverju síðar verið á dansgólfinu og verið búin að vera þar um stund. Hafi vinkona mannsins, B, dansað við D og A. Þá hafi viðkomandi maður komið aðvífandi og slegið A í höfuðið með flösku sennilega undan bjór sem maðurinn hafi verið með í hendi. Um hafi verið að ræða eitt högg. Hafi atburðarásin átt sér stað beint fyrir framan D og hann séð hana mjög vel. Kvaðst D þegar hafa snúið sér að manninum, en þá hafi E gengið á milli þeirra. Auk þess hafi vinir mannsins gripið í manninn og leitt hann í burtu. Þá hafi hann séð hvar A hafi hallað sér upp að vegg og haldið um höfuðið. Eftir árásina hafi maðurinn staðið rétt utan við dansgólfið en stuttu síðar látið sig hverfa. B hafi í framhaldinu ekið A, D og E upp á slysadeild. B hafi verið að skemmta sér á veitingastaðnum ásamt árásarmanninum og vitað full deili á honum.

B kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld ásamt vinafólki sínu, þeim C og ákærða. Hafi þau farið á nokkra skemmtistaði um kvöldið og nóttina og síðan farið á Hressingarskálann. Kvaðst B ekki hafa drukkið áfengi þetta kvöld, en hún hafi ekið bifreið um kvöldið. Er þau hafi verið búin að vera inni á veitingastaðnum Hressingarskálanum í stuttan tíma hafi hún og C farið á dansgólfið. Stuttu síðar hafi ákærði komið þangað einnig. Á dansgólfinu hafi hún hitt D, E og A. Hafi hún rætt nokkuð við þau og C orðið pirruð við það. Þá hafi C og ákærði farið að ,,kýta” eitthvað og hafi B þá snúið sér við og dansað áfram við D, E og A. Á einum tímapunkti hafi hún séð C benda ákærða á A með fingri. Hafi hún því næst séð ákærða ganga að A, taka upp tvær flöskur undan bjór, og hafi hann reitt þær til höggs og slegið A. Hafi ákærði misst eina flöskuna en hin hafi hafnað í andliti A. Hafi hún strax séð að A hafi verið með skurð í andliti og hafi fossblætt úr honum. A hafi gripið strax um andlitið og hnigið niður. Ákærði hafi gengið út af staðnum strax eftir höggið og C fylgt honum eftir. Hafi B ekki farið með honum og C þar sem henni hafi ekki fundist það rétt sem ákærði hafi gert. Hafi B séð allt sem fram hafi farið á milli ákærða og A og hafi árásin verið með öllu tilefnislaus. Eftir þetta hafi hún, ásamt A, D og E, farið upp á slysadeild. Hafi B ekið þeim þangað. Allan þann tíma hafi C verið að reyna að hringja í B, en hún ekki viljað taka það símtal. Á slysadeild hafi hún loks svarað C, sem hafi spurt hana hvað hún væri að gera. Hafi hún tjáð henni að hún hafi ekið A á slysadeild.

E kvaðst umrædda nótt hafa verið að skemmta sér með D og A. Þau, ásamt stúlku að nafni B, hafi verið á dansgólfi veitingastaðarins Hressingarskálans. Hafi henni verið litið yfir til A og þá séð hvar flaska hafi lent á andliti hans. Höggið hafi greinilega verið þungt og hafi A gripið um andlitið. Kvaðst E ekki viss um hvort flöskunni hafi verið hent í andlit A eða hvort hann hafi verð laminn með henni. Hafi hún ekki séð árásarmanninn fyrr en rétt eftir að A hafi fengið flöskuna í andlitið. Þá hafi árásarmaðurinn staðið rétt hjá þeim. Hafi hún gengið á milli mannsins og D til að varna því að til frekari átaka kæmi. Hafi maðurinn látið sig hverfa mjög fljótlega. B hafi síðan ekið þeim upp á slysadeild þar sem A hafi verið skoðaður og gert að sárum hans.

C kvaðst einungis einu sinni hafa farið út að skemmta sér með B og ákærða. Hafi þau farið á veitinga­staðinn Hressingarskálann. Þar hafi hún, ákærði og B verið að dansa saman. Ákærði hafi þar hitt einhverja vini sína. B hafi á einhverjum tíma horfið. Eftir það hafi þau farið á veitingastaðinn Gauk á Stöng. Hafi C ekki séð ákærða lenda í átökum þetta kvöld. Hafi hún þó ekki séð ákærða í einhverja stund á meðan hún hafi verið að dansa. 

F, G og H kváðust hafa hitt ákærða á veitingastaðnum Hressingarskálanum aðfaranótt fimmtudagsins 20. apríl 2006. Kváðust þeir hafa komið á staðinn um kl. 2.00 um nóttina og verið þar í um eina til eina og hálfa klukkustund. Hafi þeir allir, sem og C, setið við borð og drukkið áfengi. Ekki kváðust þeir hafa séð ákærða æsa sig eða lenda í átökum þessa nótt. Hann hafi að mestu leyti verið með þeim, þó svo hann og þeir hafi farið á barinn eða á snyrtinguna. Þá hafi ákærði sennilega fari að dansa á einhverjum tíma. Þeir hafi farið með ákærða út af staðnum síðar um nóttina og þau öll farið á veitingastaðinn Gauk á Stöng.

Theodór Friðriksson læknir staðfesti læknisvottorð er frá honum stafar og er í rannsóknargögnum málsins. Theodór kvað erfitt að fullyrða eftir hvað sár á höfði A hafi verið. Það hafi þó getað komið heim og saman við sögu sjúklings. Sárið hafi verið eins og eftir þungt högg. Gæti höggið hafa verið eftir hnefa eða flösku.

 

                                                                  Niðurstaða:

Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa veitt A þá áverka er um getur í ákæru.

Í máli þessu liggur fyrir framburður nokkurra aðila sem telja sig hafa verið vitni að atburðinum. A kveður sig hafa borið kennsl á ákærða, auk þess sem B, sem vel þekkti ákærða og var að skemmta sér með honum þessa nótt, hefur fullyrt að ákærði hafi veist að A á veitingastaðnum. Þá liggur fyrir framburður D, sem einnig fullyrti að hann hafi kannast við ákærða frá fyrri tíð. Framburður þessara þriggja vitna er á einn veg um að ákærði hafi veist að A þessa nótt og valdið honum áverkum. A hefur sjálfur ekki getað fullyrt hvort ákærði hafi verið með flösku í hendi er hann hafi slegið A, en borið að hann hafi séð gler í hendi ákærða rétt í þann mund er hann hafi slegið sig. B og D fullyrða hins vegar að ákærði hafi verið með flösku í hendi við atlöguna. Framburður B er einkar áreiðanlegur þar sem hún var ekki undir áhrifum áfengis þessa nótt, auk þess sem hún var í vináttutengslum við ákærða. Áverkar A samkvæmt ákæruskjali eru í samræmi við læknisvottorð sem ritað hefur verið eftir að A leitaði á slysadeild Landspítala háskjólasjúkrahúss í framhaldi af árásinni. Þegar virt eru þessi atriði sem hér að framan eru rakin er að mati dómsins sannað að ákærði hafi valdið A þeim áverkum er um getur í ákæru. Fær framburður ákærða og annarra vitna þessu ekki haggað, enda áttu flest hin vitnin ekki órofna samverustund með ákærða á veitinga­staðnum þessa nótt. Þá verður ekki fram hjá því litið að framburður ákærða í málinu hefur verið nokkuð á reiki. Vildi hann ekki kannast við að hafa verið að skemmta sér með B er tekin var af honum lögregluskýrsla eða að hafa hitt A á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir dómi mundi ákærði þetta skýrt og bar þá á annan veg. Dregur þetta nokkuð úr trúverðugleika framburðar hans. Í ljósi þess að ákærði beitti flösku sem vopni var árásin sérstaklega hættuleg. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 

Ákærði er fæddur í mars 1976. Á árunum 1997 til 2000 var hann þrisvar sinnum dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Þá gekkst hann tvisvar sinnum undir sáttir fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni annars vegar og umferðarlögum hins vegar. Á árinu 2004 gekkst ákærði undir sátt vegna ölvunar­aksturs. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun á árinu 2005 fyrir samskonar brot. Loks gekkst hann undir sátt 13. júlí 2006 fyrir akstur sviptur ökurétti. Brot ákærða í þessu máli var framið áður en ákærði gekkst undir síðastgreindu sáttina. Ber því að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. laganna. Árás ákærða á A var með öllu tilefnislaus. Var hún fyrirvaralaus, harkaleg og gat leitt til mjög alvarlegra varanlegra meiðsla. Á ákærði sér engar málsbætur. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Í ljósi framgöngu ákærða umrætt sinn verður refsingin ekki bundin skilorði.

Af hálfu A hefur verið krafist skaðabóta að fjárhæð 390.921 króna, auk vaxta. Er krafist miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur, útlagðs kostnaðar að fjárhæð 23.400 krónur og kostnaðar við lögmannsaðstoð að fjárhæð 67.521 króna. Um miskabótakröfu er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þess að A hafi orðið fyrir töluverðum meiðslum vegna tilhæfulausrar árásar. Hafi hann þurft að taka sér frí frá vinnu til að jafna sig eftir árásina. Hafi hann verið mjög kvalinn og þurft að jafna sig bæði líkamlega og andlega. Árás ákærða á A var til þess fallin að valda honum miska. Eru bætur vegna háttseminnar hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Að því er varðar kröfu um bætur vegna útlagðs kostnaðar þá hafa verið lögð fram gögn vegna læknisvottorðs. Þá hefur verið lagt fram afrit af kvittun vegna fatnaðar. A fullyrðir að skyrta, bindi og skór hafi eyðilagst vegna blóðs. Er þessi kröfuliður að mati dómsins fullnægjandi rökstuddur og verður allur tekinn til greina.

Niðurstaða alls þessa er því sú að ákærði greiði skaðabætur að fjárhæð 273.400 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða A kostnað sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 með áorðnum breyting­um. Lögmannskostnaður telst hæfilega ákveðinn 60.000 krónur.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra. Þá greiði hann málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, með þeim hætti er í dómsorði greinir.

          Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson fulltrúi lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

          Ákærði, Halldór Egill Kristjánsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði greiði A, 273.400 krónur í skaða­bætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 20. apríl 2006 til 2. desember 2006, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags og 60.000 krónur í lögmannskostnað.

          Ákærði greiði 284.660 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Herdísar Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanns 258.960 krónur.