Hæstiréttur íslands

Mál nr. 405/2011


Lykilorð

  • Málskostnaður
  • Ómerking héraðsdóms
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 9. febrúar 2012.

Nr. 405/2011.

 

Þór Kolbeinsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Haraldur Örn Ólafsson)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.

Soffía Jónsdóttir hdl.)

 

Málskostnaður. Ómerking héraðsdóms. Gjafsókn.

Þ höfðaði mál gegn Í til greiðslu skaðabóta. Dómur héraðsdóms var ómerktur, enda var þar ekki tekin afstaða til krafna sem aðilar gerðu hvor á hendur hinum um málskostnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 12.917.089 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. desember 2005 til 23. september 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum. Hann krefst þess að auki að málflutningsþóknun sem ákveðin var í héraði verði hækkuð.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Áfrýjanda var veitt gjafsókn í héraði 20. janúar 2011. Fyrir héraðsdómi krafðist hann málskostnaðar úr hendi stefnda án tillits til gjafsóknarinnar, svo sem áskilið var í gjafsóknarbréfi, sbr. og 2. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi krafðist þess jafnframt í héraði að áfrýjanda yrði gert að greiða sér málskostnað. Í hinum áfrýjaða dómi var engin afstaða tekin til þessara krafna, sem aðilarnir gerðu hvor á hendur hinum um málskostnað. Er þetta slíkur annmarki á dóminum að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsuppkvaðningar á ný, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 9. nóvember 1995 í máli nr. 133/1994, sem birtur er í dómasafni 1995 á bls. 2580, og 20. desember 2011 í máli nr. 383/2011.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Þórs Kolbeinssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars sl., var höfðað 23. september 2009, af Þór Kolbeinssyni, Granaskjóli 17, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu. 

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 13.119.396 krónur með skaðabótavöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2005 til stefnubirtingardags en dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og að gjafsóknarkostnaður stefnanda verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin gjafsóknarlaun lögmanns stefnanda.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi lenti í vinnuslysi 28. júlí 2001 er hann var í vinnu hjá Ístaki hf. við að einangra og setja milliloft í austurenda verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar.  Stefnandi hlaut varanlega örorku og höfðaði mál á hendur Ístaki hf. og tryggingar­félagi þess, Sjóvá Almennum tryggingum hf., til réttargæslu. Ístak hf. hafnaði bóta­skyldu og lauk málinu með dómi Hæstaréttar 20. desember 2005 í máli nr. 246/2005:  Þór Kolbeinsson gegn Ístaki hf. og gagnsök þar sem Ístak hf. var sýknað af kröfum stefnanda. 

Stefnandi hefur höfðað málið í tilefni af því að hann telur að sýknudómurinn sé bein afleiðing þess að tilskipanir Evrópusambandsins hafi annaðhvort ekki verið réttilega leiddar inn í íslenskan rétt eða að Hæstiréttur hafi fyrir mistök túlkað íslenskan rétt í andstöðu við tilskipanir Evrópusambandsins og þar með í andstöðu við 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Stefnandi telur sig hafa af þessum sökum orðið fyrir tjóni sem samsvari þeim fjármunum sem hann hafi krafið Ístak hf. um í framan­greindu máli. Stefnandi heldur því fram að á þessu beri stefndi ábyrgð, sbr. Hrd. mál nr. 236/1999: Íslenska ríkið gegn Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur og gagn­sök.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnandi geti átt kröfu á hendur stefnda á þeim lagagrundvelli sem stefnandi vísar til. 

Með úrskurði dómsins 17. febrúar 2010 var í tilefni af beiðni stefnanda ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um tiltekin atriði er varða sakarefni málsins. Úrskurðurinn var af hálfu stefnda kærður til Hæstaréttar og þess krafist að hann yrði felldur úr gildi. Með dómi Hæstaréttar 23. mars sama ár var fallist á að efni væru til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau grunnatriði sem mála­tilbúnaður stefnanda hvíldi á enda hefði þeim ekki verið ráðið til lykta með dómi Hæstaréttar 20. desember 2005. Með beiðni dómsins 26. sama mánaðar var leitað ráð­gefandi álits EFTA-dómstólsins samkvæmt dómi Hæstaréttar. Með dómi EFTA-dómstólsins 10. desember síðastliðinn var veitt ráðgefandi álit af þessu tilefni.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísaða til þess að íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð séu reglur Evrópska efnahagssvæðisins ekki réttilega innleiddar í íslenska löggjöf, eins og fram komi í Hæstaréttardómi í máli nr. 236/1999. Með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið heimilað að fullgilda EES-samninginn fyrir Íslands hönd og samkvæmt 1. mgr. 2. gr. hafi hann fengið lagagildi á Íslandi. Í 7. gr. samningsins komi fram hvernig gerðir og tilskipanir skuli færðar inn í landsrétt við­kom­andi ríkja. Þar taki þau á sig skyldur þess efnis. 

EES-samningurinn feli ekki í sér framsal löggjafarvalds heldur beri að haga lög­gjöf hvers ríkis og lagaframkvæmd til samræmis við samninginn, ella baki ríkið sér skaðabótaábyrgð gagnvart einstaklingum sem verði fyrir tjóni af slíkri vanrækslu.  Þetta leiði af lögum nr. 2/1993 og meginreglum og markmiðum EES-samningsins og hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 236/1999. 

Stefnandi byggi á að tilskipun ráðsins nr. 89/391/EBE og sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. þeirrar tilskipunar, þ.e. nr. 92/57/EBE, hafi ekki verið réttilega inn­leiddar í íslenskan rétt eða lagaframkvæmd hafi orðið í andstöðu við þær. Á þessu beri stefndi ábyrgð. Hefðu tilskipanirnar verið innleiddar í íslenskan rétt hefði stefnandi fengið fullar bætur vegna tjónsins sem hann varð fyrir í vinnuslysinu.

Af hálfu stefnda hafi því verið haldið fram að framan­greindar tilskipanir hafi rétti­lega verið innleiddar í íslenskan rétt en hafi misbrestur orðið á því sé um mistök Hæstaréttar að ræða sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á. Þessu hafni stefnandi enda skipti ekki máli af hvaða ástæðum EES-samningurinn sé brotinn. Niðurstaða Hæsta­réttar í málinu nr. 246/2005 sé í andstöðu við þjóðréttarlegar skyldur Íslendinga samkvæmt EES-samningnum og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því. Þá skipti ekki máli hvaða þáttur ríkisvaldsins eigi í hlut. Um þetta vísist til Affaire C-224/01, Gerhard Köbler v. Austria, 30.9.2003, Recueil de jurisprudence 2003 p. I-10239, Celex 62001J0224.

Með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið heimilt að full­gilda EES-samninginn fyrir Íslands hönd. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna hafi meginmál samningsins lagagildi á Íslandi. Í 7. gr. samningsins segi að gerð, sem sam­svari tilskipun EBE, skuli veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina, þegar þær væru teknar upp í landsrétt. Af þessu leiði að framan­greindar tilskipanir væru bindandi fyrir Ísland og hafi borið að taka þær réttilega upp í landsrétt í samræmi við b-lið 7. gr. samningsins. Í 3. gr. samningsins skuldbindi samnings­aðilar sig til að gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem leiði af samningnum. Af lögum nr. 2/1993 og meginreglum og markmiðum EES-samningsins leiði að stefndi verði skaða­bóta­skyldur að íslenskum rétti ef tilskipanirnar eru ekki réttilega innleiddar eða virtar í réttarframkvæmdinni. Hæstiréttur hafi talið í málinu nr. 236/1999 að skaða­bóta­ábyrgð á þessum grundvelli hefði næga lagastoð í íslenskum rétti og um bóta­ábyrgð færi eftir almennum reglum um bótaábyrgð hins opinbera. 

Um málavexti vísi stefnandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 246/2005: Þór Kol­beinsson gegn Ístaki hf. og gagnsök og eftirfarandi atvika. Stefnandi hafi verið við störf sem starfsmaður Ístaks hf. 28. júlí 2001 í nýbyggingu verslunarmiðstöðvarinnar í Smáralind. Stefnandi hafi unnið við að einangra með steinull á milli gólfbita og klæða milligólf ofan við fyrirhugað verslunarrými ásamt tveimur öðrum starfs­mönnum Ístaks hf. Komið hafði verið upp svokallaðri skæralyftu til að komast upp á milligólfið sem hafi verið í 5 m hæð. Stefnandi hafi stiklað frá skæralyftunni eftir gólfbitunum sem legið hafi í sömu stefnu og gönguleið hans. Bilið á milli bitanna hafi verið 57 cm. Stefnandi hafi ætlað yfir á svæði þar sem klæðning var komin á milligólfið en þar hafi steinullin, sem starfsmennirnir notuðu við einangrunarvinnu sína, verið geymd. Milli­gólfið hafi verið klætt með gifsplötum. Á leiðinni hafi stefnandi fallið af gólf­bitanum í gegnum gifsklæðninguna með þeim afleiðingum að hann féll niður á stein­gólf um 5 m fyrir neðan og slasaðist mikið. Við fallið hafi stefnandi hlotið fjöláverka, m.a. opið beinbrot á vinstri upphandlegg og millikjúkulið á sömu hendi, fjögur rif hafi brotnað og hann hafi fengið blæðingu í brjóstholi og fleiri minni áverka, mar og sár. 

Guðmundur Björnsson læknir og Birgir G. Magnússon hdl. hafi metið afleiðingar slysins 30. janúar 2003. Samkvæmt matsgerðinni hafi tímabundið atvinnutjón stefnanda verið metið 100% í níu mánuði, tímabil þjáninga níu mánuði frá slysdegi, þar af 4 dagar í rúmlegu, varanlegur miski 20% og varanleg örorka 15%.  Stöðugleika­punktur hafi verið settur 28. apríl 2002. 

Stefnandi vísi til þess að hættustigið hafi verið hátt og vinnu­svæðið stórt í Smára­lind. Samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins hafi vinnuveitanda sjálfum borið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að varna hættu. Hann hafi m.a. átt að sinna for­vörnum og láta fara fram áhættumat. Vinnuveitandinn hafi átt að sinna fræðslu og þjálfun starfsmanna, vinna að nauðsyn­legri skipulagningu á viðbúnaði, laga vinnuferli að einstaklingum og tryggja þeim við­eig­andi tilsögn. Ekkert af þessu hafi verið gert svo vitað sé. Í þessu tilfelli hafi atvinnurekandinn þurft að sýna sérstaka natni því starfs­mennirnir hafi ekki talað tungumál hver annars og þeir hafi haft mis­munandi vinnu­lag og venjur við störfin. Ekki sé vitað til að atvinnu­rekandi hafi gert neitt til að forðast að hætta gæti skapast við störfin. Til að mynda hafi ekki verið gert ráð fyrir líflínu og ekki fallvörnum. Erfiðleikarnir við að koma við fallvörnum hafi ekki verið svo miklir að það hefði verið óyfirstíganleg hindrun. Aðeins efnahags­sjónarmið atvinnu­­rekanda hafi mælt þessu mót. Samkvæmt Evrópu­tilskipununum séu þau sjónar­­mið ekki heimil. Á vinnusvæðinu hafi enginn þeirra þriggja sem þar unnu haft tilskipunarvald yfir hinum, hver hafi farið sínar leiðir og aðstæður til að aðilar gætu komið sér saman um skynsamlegt og öruggt vinnulag hafi verið slæmar. Starf þessara þriggja manna hafi ekki verið skipulagt með tilliti til öryggis. 

Brot stefnda hvað varðar að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins hafi falist í því að Hæstiréttur hafi reist niðurstöðu sína í framangreindu máli á því að það hafi „verið í verkahring aðaláfrýjanda sjálfs [stefnanda] að bregðast við þessu, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980“. Hæstiréttur hafi ekki talið að „slysið verði rakið til atvika sem gagnáfrýjandi [Ístak] ber ábyrgð á“. Í þessu máli hafi allri ábyrgð verið létt af atvinnurekandanum en öll lögð á stefnanda. 

Helstu greinar tilskipana Evrópusambandsins, efni þeirra og í hverju brot gegn þeim voru fólgin séu eftirfarandi:

Tilskipun ráðsins 89/391/EBE:

Í formála ákvæða tilskipunarinnar komi fram að umbætur er varði öryggi á vinnustöðum megi ekki víkja fyrir hreinum efnahagssjónarmiðum. Í dómi Hæstaréttar hafi atvinnurekanda verið virt það til vorkunnar að erfitt væri að gera öryggis­ráðstafanir. Líflínu hafi mátt koma við þótt hafa þyrfti fyrir því. Fallvörnum hafi auðveldlega mátt koma við á gólfi vinnustaðarins þannig að ef einhver hryndi niður úr milliloftinu þá myndi hann lenda á slíku öryggisneti. Sú niðurstaða að íslenskur réttur leyfi slík efnahagsleg sjónarmið á kostnað öryggis sé brot gegn þessu ákvæði til­skipunar­innar.

Í 5. gr. sé gert ráð fyrir að atvinnurekandi tryggi öryggi og heilsu starfsmanna við allar aðstæður í vinnu. Í máli stefnanda hafi verið talið að íslensk lög legðu þær skyldur á stefnanda sjálfan að huga að öryggi sínu en ekki á atvinnuveitanda hans. Þetta sé í andstöðu við 1. og 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.

Vinnuveitanda beri samkvæmt 6. gr. hennar að gera sjálfur nauðsynlegar ráð­stafanir til varnar hættu og væru forvarnir nefndar sérstaklega í því sambandi. Í þessu sambandi sé sérstaklega nefnd fræðsla og þjálfun, nauðsynleg skipulagning og við­búnaður. Ekkert af þessu hafi verið í lagi þegar stefnandi þurfti að vinna með tveimur öðrum sem höfðu sitt eigið vinnulag, tungumálaörðugleikar hafi verið fyrir hendi, enginn hafi haft tilskipunarvald yfir hinum og enginn hafi lagt á ráðin um hvernig að vinnunni yrði staðið. Viðbúnaður hafi enginn verið en sérstaklega sé nefnt að vinnu­veitandi skuli vera vakandi í þessum efnum. 

Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að atvinnurekanda beri að forðast áhættu, sem hafi ekki verið gert, og sporna gegn því að áhætta geti skapast. Honum beri að laga vinnuferli að einstaklingnum og tryggja starfsmönnum viðeigandi tilsögn. Á þessu hafi orðið mis­brestur en allir starfsfélagarnir þrír hefðu þurft að fá tilsögn í stað þess að láta þá koma sér saman um tilhögun verksins með tilheyrandi tungumála­örðug­leikum og mismun­andi venjum frá mismunandi löndum um hvernig ætti að bera sig að. 

Í 9. gr. væru tilgreindar skyldur vinnuveitanda sem væru að meta áhættu en það hafi ekki verið gert og því síður ákveðið hvaða verndarráðstafanir skyldi gera og hvaða hlífðarbúnað skyldi nota. Einnig sé vísað í 11. gr. um samráð við starfsmenn og 12. gr. um þjálfun en hvorugu hafi verið fyrir að fara umrætt sinn. 

Tilskipun ráðsins 92/57/EBE:

Í samræmi við 16. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE hafi verið gerð sértilskipun um framkvæmd lágmarkskrafna um öryggi og hollustuhætti á bráðabirgða- eða færan­legum byggingarsvæðum. Hún eigi því við um störf stefnanda í Smáralind. Í formála tilskipunarinnar sé sérstaklega tekið fram að ófullnægjandi ákvarðanir um fyrirkomu­lag og/eða skipulagskosti eða slæmt vinnu­skipulag á undirbúningsstigi verks hafi átt sinn þátt í meira en helmingi vinnu­slysa sem orðið hafi á byggingarsvæðum í bandalaginu. Síðan segi:

                Meðan á framkvæmd verks stendur geta orðið mörg vinnuslys sem stafa af ónógri samræmingu, einkum ef ýmis fyrirtæki starfa samtímis við verk eða hvert á eftir öðru á sama bráðabirgða- eða færanlega byggingarsvæðinu. 

Reglur á grundvelli þessara sjónarmiða virtust ekki hafa verið réttilega innleiddar í íslenskan rétt eins og framangreindur Hæstaréttardómur staðfesti. Hvorki hafi verið tekin ákvörðun um fyrirkomulag verksins né gætt nægilegrar samræmingar eða með nokkrum hætti hugað að öryggi þeirra manna sem voru að vinna á umræddu millilofti.  Ljóst sé að skyldur vinnuveitanda samkvæmt 9. gr. hefðu verið brotnar. Sömuleiðis 12. gr. um samráð og þátttöku starfsmanna í ráðstöfunum til að innleiða öryggi, tryggja tilhlýðilega samhæfingu starfsmanna og hafa hliðsjón af hættustigi og stærð vinnusvæðis. Í tilfelli stefnanda hafi hættu­stigið verið mikið og vinnusvæðið stórt. Í 4. gr. viðauka sé fjallað um lágmarkskröfur sem hafi í ýmsum atriðum verið brotnar, svo sem í B. hluta 1. þætti lið 1 um stöðugleika og traustleika og 10. gr. um umferðar­leiðir. Í máli stefnanda hafi vinnuveitandi ekki farið eftir reglum um öryggiskröfur. Íslenskar lagareglur leggi þyngri skyldur á launþega en gert sé í framangreindum til­skip­unum. Reglunum hafi verið beitt þannig í úrlausn Hæstaréttar að brotið hafi verið gegn alþjóðlegum samningum og þar með hafi skapast bótaréttur að lögum gagnvart stefnda. 

Um bótagrundvöll og tjón vísi stefnandi til þess að stefndi hafi fyrir mistök eða vanrækslu í lagasetningu eða lagaframkvæmd valdið því að stefnandi hafi fengið niður­stöðu í umræddu Hæstaréttarmáli í andstöðu við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði og tilskipanir settar samkvæmt honum eins og að framan greini. 

Aðallega sé byggt á því að framangreindur dómur, forsendur hans og niður­staða, sé sönnun þess að umræddar tilskipanir hafi ekki réttilega verið innleiddar í íslenskan rétt. Til vara sé byggt á því að Hæstiréttur hafi fyrir mistök dæmt um efni íslensks réttar í andstöðu við framangreindar tilskipanir og EES-samninginn þrátt fyrir 3. gr. laga nr. 2/1993. Hefði verið leyst úr málinu til samræmis við hina þjóðréttarlegu skuld­bindingar Íslands myndi stefnandi hafa fengið allar kröfur sínar teknar til greina í framangreindu Hæstaréttarmáli. Hér sé um að ræða reglur, sem ætlað sé að veita borgurum tiltekin réttindi við vinnu sína.

Til að fella bótaábyrgð á stefnda þurfi tilskipanirnar að veita einstaklingsbundinn rétt, orsakasamband verði að vera fyrir hendi og brot nægilega alvarlegt. EFTA-dómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að öll þess skilyrði væru fyrir hendi í málinu. Þar sem tilskipanirnar hafi ekki verið réttilega innleiddar í íslenskan rétt hafi stefnandi ekki fengið bætur fyrir tjónið sem hann hefði ella fengið. Það sé alvarlegt brot að stefnandi fái ekki að njóta þeirra og bein orsakatengsl séu á milli þessa brots á skuldbindingum stefnda og þess að stefnandi hafi ekki fengið dæmdar slysabætur í umræddu máli.

Komist dómurinn að gagnstæðri niðurstöðu sé af hálfu stefnanda byggt á því að Hæstiréttur hafi gert alvarleg mistök við túlkun lagareglna í máli stefnanda gegn Ístaki hf. Réttinum hafi borið að túlka lögin til samræmis við framangreindar tilskipanir. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem nemi stefnukröfunni í máli þessu. Sök stefnanda hafi verið ranglega metin af Hæstarétti og hafi stefnandi verið látinn bera allt tjónið sjálfur vegna eigin sakar en það samrýmdist ekki þeim tilskipunum sem þar hafi átt að taka tillit til. Hugsanlega sök stefnanda hafi í mesta lagi átt að meta sem einfalt gáleysi.

Fjárhæð kröfu stefnanda, sbr. leiðrétta kröfugerð fyrir Hæstarétti í málinu nr. 246/2005, sé eftirfarandi:

         Tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur og varanlegur miski 2.738.897  krónur
Varanleg örorka           6.563.868   
Samtals                    9.302.765  
4,5% vextir til 28. febrúar 2003               444.527   
Samtals                                  9.747.292 krónur
Dráttarvextir frá 28. febrúar 2003 til dómsuppsögu (20.12.2005) 4.979.479      

         Frádregið 4. mars 2003 v/eingreiðslu úr slysatryggingu launþega  -930.386 krónur
Frádregið 26. mars 2003 v/eingreiðslu frá TR           -676.989   
Samtals                                                                                         13.119.396 krónur

 

Stefnandi vísi til laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, tilskipana ráðsins nr. 89/391/EBE og 92/57/EBE, almennra reglna um bóta­ábyrgð ríkis­sjóðs, almennu skaðabótareglunnar og stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, einkum 2. gr. Einnig sé vísað til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnu­stöðum, skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu. Vísað sé til dóms Hæstaréttar í máli nr. 236/1999:  Íslenska ríkið gegn Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur og gagnsök.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að dómur hafi gengið í Hæstarétti Íslands 20. desember 2005 í málinu nr. 246/2005 þar sem stefnandi hafi sótt kröfu um skaðabætur á hendur Ístaki hf., en stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttar­gæslu. Kröfuna hafi stefnandi byggt á því að Ístak hf. bæri sem vinnuveitandi hans skaðabótaábyrgð á slysi sem hann varð fyrir við vinnu sína. Stefnandi hafi byggt á því að verkstjórn hafi verið áfátt og öryggisráðstafanir af hálfu Ístaks hf. ekki fullnægj­andi. Fyrir héraðsdómi hafi bótaskylda verið lögð á Ístak hf., en helming tjónsins hafi stefnandi átt að bera sjálfur. Stefnandi hafi áfrýjað dóminum til Hæsta­réttar sem hafi snúið honum við og sýknaði Ístak hf. af öllum kröfum stefnanda. Í for­sendum hæsta­réttar­dómsins komi fram að stefnandi hafi þekkt vel til aðstæðna, tækja og þess byggingarefnis sem hann vann með auk þess að vera lærður húsasmíða­meistari með allnokkra reynslu. Hann hafi mátt vita hverra ráð­stafana væri þörf við aðstæður á vinnu­­staðnum og hver sú hætta væri sem stafaði af þeim, en slysið hafi borið að þegar hann stiklaði eftir þverbitum til að komast leiðar sinnar. Í dómi Hæstaréttar komi einnig fram að ekki hefði verið þörf á því að stefnandi fengi sérstakar leiðbein­ingar af hálfu Ístaks hf. og að fremur hafi mátt telja að hafi verið í verkahring hans sjálfs að bregðast við þannig að hætta stafaði ekki af, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Stefndi í þessu máli hafi enga aðild átt að hæstaréttarmálinu nr. 246/2005. Á hinn bóginn byggi stefnandi málshöfðun sína nú á þeim grundvelli að Hæstiréttur hafi ekki beitt réttarheimildum á þá lund að stefnandi uppskæri bætur vegna vinnuslyssins. Stefnandi haldi því fram að með dómi Hæstaréttar hafi verið gerð mistök við beitingu réttar­heimilda og varði ríkið bótaskyldu. Stefnandi byggi á því að dómstólnum hafi borið að beita tilskipun ráðsins nr. 89/391/EBE og nr. 92/57/EBE. Þótt rök­semdir fyrir þessu komi fram í stefnu sé ekki ljóst hvort byggt sé á því að reglum EES-réttar hafi ranglega verið komið fyrir eða ekki komið fyrir í íslenskum rétti eða hvort stefnandi telji dómsvaldið hafa horft fram hjá þeim við úrlausn málsins eða túlkað þær ranglega. Málsreifun stefnanda sé að þessu leyti afar óljós og málsástæður van­reifaðar.

Stefnandi byggi á því að stefndi hafi fyrir mistök eða vanrækslu í lagasetningu eða lagaframkvæmd orðið til þess að hann fékk niðurstöðu í hæstaréttarmálinu í andstöðu við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Dómur Hæstaréttar sé sönnun þess að tilskipanirnar hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt. Stefndi mótmæli þessu. Dómur Hæsta­réttar feli í sér endanleg úrslit sakarefnis, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sú regla eigi sér einnig stoð í dómstólalögum nr. 15/1998, stjórnarskipun landsins og stjórnarskrá. Þá vísi stefndi einnig til Hrd. 18. júní 2009 í málinu nr. 604/2008. Þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að dómstóll hefði ekki beitt réttar­reglum eða beitt þeim ranglega sé niðurstaða Hæstaréttar endanleg og bindandi. Úrræði til að leita endurskoðunar á dómi Hæstaréttar sé í reynd aðeins endurupptaka á grundvelli 169. gr. laga nr. 91/1991. Sakarefnið, sem stefnandi hafi borið upp við dómstóla í máli sínu gegn Ístaki hf., hafi endanlega verið til lykta leitt með dómi Hæstaréttar og standi gildi dómsins því óhaggað, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Engin heimild sé til þess að lögum að endurskoða þann dóm að efni til. Að sama skapi sé hafnað þeim málsástæðum stefnanda að hann geti átt rétt til skaðabóta úr hendi stefnda á þeim grundvelli að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið röng, sbr. forsendur í tilvitnuðum dómi réttarins í hæstaréttarmálinu nr. 604/2008.

Af dómi Hæstaréttar verði ekki betur séð en að beitt hafi verið réttar­heimildum hins almenna skaðabótaréttar á sama hátt og áður. Lagt sé út frá hinni almennu reglu um að menn beri tjón sitt sjálfir og að ekki hafi verið skilyrði til að færa það yfir á ábyrgð vinnuveitanda af ýmsum ástæðum. Stefnandi hafi í reynd haft verkstjórn með höndum og tjón hans verði rakið til eigin sakar. Ekkert í nefndum tilskipunum koll­varpi þeirri almennu reglu skaðabótaréttar að menn kunni að bera tjón sitt sjálfir. Til­skipanirnar hefðu verið settar til að uppfylla lágmarkskröfur á vinnustöðum um öryggi. Þær lúti ekki að skaðabótaskyldu eða skaðabótaábyrgð. Um hana gildi almennar reglur þótt löggjöf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnu­stöðum sé vissulega viðmið þegar metið er hvort bóta­grundvöllur sé fyrir hendi að íslenskum og norrænum rétti. Með tilskipununum sé hvergi kveðið á um að vinnu­veitandi sé bótaábyrgur. Um bótaábyrgð fari því eftir almennum reglum eins og dómur Hæsta­réttar beri með sér.

Ekkert annað hafi komið fram en að nefndar tilskipanir hafi verið innleiddar í íslenskan rétt. Breyting á lögum nr. 46/1980 með lögum nr. 68/2003 sé meðal annars sprottin af tilskipun nr. 89/391/EBE og hafi ákvæði hennar verið réttilega innleidd. Ekkert ákvæði í henni eða öðrum tilskipunum, sem stefnandi vísi til, mæli fyrir um bótarétt sem stefnandi geti byggt á. Vegna þessa meðal annars sé grund­vallar­munur á sakarefni þessu og því sem leyst var úr með dómi Hæstaréttar 16. desember 1999 í málinu nr. 236/1999. Engin skilyrði bótaábyrgðar að EES-rétti væru uppfyllt hér. Engri vanrækslu sé til að dreifa á innleiðingu reglna, hvorki almennt né verulegri, ekki sé um að tefla tiltekin afmörkuð réttindi sem einstaklingur eigi tilkall til og skilyrði um orsakatengsl ekki uppfyllt.

Þótt vinnulöggjöfin sé að miklu leyti á sviði opinbers réttar verði ekki fram hjá því horft að í skaðabótamáli milli einkaaðila gildi máls- og sakarforræðisregla fullum fetum. Stefnandi hafi ekki byggt fyrri málsókn sína sérstaklega á tilvitnuðum tilskip­unum. Engu að síður sé hin íslenska vinnulöggjöf í fullu samræmi við tilskipanir þær sem innleiddar hafi verið og í reynd hafi dómstóllinn vegið þær réttarreglur og metið við úrlausn málsins. Verði ekki á málsástæður stefnda um þetta fallist sé á því byggt að þar sem aðilar hafi haft fullt forræði á röksemdum í málinu sé það á ábyrgð stefnanda sjálfs að hafa ekki byggt á eða lagt sömu áherslur á mál sitt gegn Ístaki hf. og hann geri hér.

Í umræddum tilskipunum komi ekkert fram sem standi í vegi fyrir því að byggja á eigin sök stefnanda í dómi Hæstaréttar og úr málinu leyst í samræmi við almennar skaðabótareglur. Ekki sé unnt að skilja dóm Hæstaréttar þannig að þar hafi efnahags­leg sjónarmið ríkt ofar vinnuvernd. Í dóminum komi fram að aðilar málsins hafi verið sammála um tiltekna erfiðleika, t.d. að festa menn með líflínum. Þá virtist mega túlka forsendur dómsins þannig að aðbúnaður sé gagnrýndur. Hvergi sé komið fram að Hæsti­réttur hafi ekki dæmt málið á grundvelli réttarheimilda, þ.á m. allra þjóðréttar­legra skuldbindinga sem stefndi hafi undirgengist og innleitt í íslenskan rétt í samræmi við skyldur þar að lútandi.

Ósannað sé að stefnandi hafi ekki fengið tilsögn en skilja verði dóm Hæstaréttar þannig að stefnandi hafi búið yfir sérstakri þekkingu á vinnustaðnum með tilliti til öryggis og vinnuverndar. Í málsgögnum og fullyrðingum Ístaks hf. í því máli komi fram að stefnanda hafi verið gefin skýr fyrirmæli um að fara ekki út á bitana heldur velja aðra leið. Kysi hann að fara yfir bitana skyldi hann leggja plötur á milli þeirra til að varna falli. Öryggisbelti og líflínur hafi verið tiltæk sem hann hafi átt að nota í ljósi menntunar sinnar og reynslu. Hæstiréttur hljóti að hafa talið að gáleysi stefnanda hafi verið stórfellt. Í ljósi alls þessa eigi stefnandi réttilega að bera tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar.

Um efni tilskipunar nr. 92/57/EBE sé stefnan afar óljós. Í þeim hluta byggi stefnandi á að svo megi virðast af dómi Hæstaréttar að tilskipunin hafi ekki verið innleidd. Engin umfjöllun sé að öðru leyti um gildi hennar eða samþýðanleik íslenskra laga við hana.

Íslensk lög og reglur séu í fullu samræmi við skuld­bindingar að EES-rétti. Máls­ástæður stefnanda gangi hins vegar út á að dómur Hæstaréttar verði endurskoðaður. Hér virðist teflt fram nýjum málsástæðum um aðstæður á vinnustað stefnanda sem stefnandi telji Ístak hf. ekki hafa uppfyllt.

Af hálfu stefnda sé því mótmælt að hann hafi valdið stefnanda tjóni. Því sé einnig mótmælt að dómur Hæstaréttar frá 20. desember 2005 falli að þeim viðmiðunum sem gengið sé út frá í áliti EFTA-dómstólsins. Þar sé því ekki svarað hvort dómur Hæstaréttar endurspegli ranga innleiðingu EES-reglna sem gildi um skaðabótaábyrgð á vinnuslysum. Í álitinu sé því heldur ekki svarað hvort dómur Hæstaréttar sé réttur eða rangur með tilliti til þeirra tilskipana sem stefnandi vísi til. Ekki hafi verið sýnt fram á að Hæstiréttur hafi á einhvern hátt metið sök í málinu án tillits til þeirra sjónarmiða sem taka beri mið af samkvæmt áliti EFTA-dómstólsins. Dómur Hæsta­réttar sé ekki byggður á því að tilskipanirnar hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt og álit EFTA-dómstólsins gefi heldur ekki til kynna að reglurnar hafi ekki verið innleiddar. Í álitinu sé ekkert mat lagt á það hvað felist í dómi Hæstaréttar. Dómurinn sé alveg í samræmi við tilskipanirnar og álit EFTA-dómstóls­ins. Hins vegar sé ekki sagt rétt frá í álitinu í lið 50 en hvergi segi í dómi Hæstaréttar að komist sé að þeirri niðurstöðu að vegna eigin sakar starfsmanns bæri að hafna kröfum hans á hendur vinnuveitenda um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss sem starfsmaðurinn hefði að öllum líkindum ekki orðið fyrir ef vinnuveitandinn hefði að eigin frumkvæði farið að reglum um öryggi á vinnustað. EFTA-dómstóllinn hafi ekki metið aðstæður á vinnustað og álitið fjalli ekki um það hvort reglum hafi verið ranglega beitt af Hæstarétti við mat á aðstæðum og úrlausn málsins.

Stefndi mótmæli því að fram hafi komið í málinu að í íslenskan rétt vanti reglu sem leiði til þess að stefnandi hafi eignast bótakröfu á hendur stefnda. Öll innleiðing á reglum hafi verið fullnægjandi og hvergi komi fram að vinnuverndarreglu vanti. Íslensk lög, sem hér skipti máli og dæmt hafi verið eftir í máli stefnanda á hendur Ístaki hf., séu í samræmi við umræddar tilskipanir. Í þeim séu lagðar skyldur á laun­þega um að gæta öryggis. Í áliti EFTA-dómstólsins komi ekki fram að skaðabóta­skylda hafi stofnast á hendur stefnda. Meta verði aðstæður, eins og gert hafi verið í dómi Hæstaréttar 20. desember 2005. Ekki hafi komið fram að það mat hafi verið rangt eða brot á tilskipunum sem stefnandi vísi til.         

Til stuðnings lækkunarkröfu byggi stefndi einnig á sömu málsástæðum og Ístak hf., þ.e. að skipta beri sök og að stefnandi beri stærstan hluta tjóns síns sjálfur. Stefnandi hafi ekki verið óvinnufær lengur en til 1. mars 2002 og launaviðmiðun sé mótmælt á sama grundvelli og áður. Þjáningabótakröfu stefnanda sé mótmælt sem of hárri þar sem hann hafi aðeins verið veikur í skilningi skaðabótalaga til 1. mars 2002. Þá sé því mótmælt að 7. gr. skaðabótalaga geti átt við og því séu aðeins rök til að miða við meðaltalstekjur. Stefndi mótmæli vaxta- og dráttar­vaxta­kröfu stefnanda, einkum upphafstíma. Krafan hafi aldrei verið í vanskilum en stefnda hefði aldrei verið stætt á því að greiða hana án dóms. Einnig sé mótmælt að dráttarvextir geti verið hluti af höfuð­stólskröfu, eins og hún sé sett fram í stefnu, að fjárhæð 4.979.479 krónur. Auk þess eigi frádráttarliðir að dragast frá áður en vextir eru reiknaðir. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga um meðferð einkamála. Stefndi mótmæli málskostnaðarreikningi stefnanda sem allt of háum.

Niðurstaða

Krafa stefnanda í málinu er reist á því að tjón hans verði rakið til þess að framan­greindar tilskipanir frá 12. júní 1989 um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum (89/391/EBE) og frá 24. júní 1992 um framkvæmd lágmarkskrafna um öryggi og hollustuhætti á bráðabirgða- eða færan­legum byggingarsvæðum (áttunda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE, þ.e. 92/57/EBE) hafi ekki verið réttilega innleiddar í íslenskan rétt og því hafi stefnandi með dómi Hæstaréttar frá 20. desember 2005 verið ranglega látinn bera tjón sitt sjálfur vegna vinnuslyssins sem hann varð fyrir. Þessi málsástæða stefnanda er studd þeim rökum að úrlausn Hæstaréttar, um að stefnandi skyldi bera tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar, fari í bága við tilskipanirnar eins og lýst er hér að framan. Einnig heldur stefnandi því fram að í áliti EFTA-dómstólsins, sem aflað var í málinu, felist niður­staða um að stefnanda verði ekki vegna tilskipananna gert að bera tjón sitt sjálfur.

Stefnandi vísar til þess að í formála tilskipunar 89/391/EBE komi fram að um­bætur er varði öryggi á vinnustöðum megi ekki víkja fyrir hreinum efnahagssjónar­miðum. Stefnandi telur að þessi regla hafi verið brotin með því að í dómi Hæstaréttar hafi atvinnurekandanum verið virt til vorkunnar að erfitt væri að gera öryggis­ráðstafanir. Stefnandi heldur því fram að líflínu hafi mátt koma við þótt hafa þyrfti fyrir því og fallvörnum hafi auðveldlega mátt koma við á gólfi vinnustaðarins þannig að ef einhver hryndi niður úr milliloftinu þá myndi hann lenda á slíku öryggisneti. Sú niðurstaða að íslenskur réttur leyfi slík efnahagsleg sjónarmið á kostnað öryggis sé brot á þessu ákvæði tilskipunarinnar. Af hálfu stefnda er vísað til þess að niðurstaða í dómi Hæstaréttar frá 20. desember 2005 sé bindandi samkvæmt 116. gr. laga um meðferð einkamála. Samkvæmt máls- og sakarforræðisreglunni hefði stefnandi getað byggt málssóknina gegn Ístaki hf. á tilvitnuðum tilskipunum en það hafi hann ekki gert. Úr því verði ekki bætt með málssókninni nú.

Við úrlausn á þessu ágreiningsefni verður að líta til þess að í framangreindum dómi Hæstaréttar kemur fram að [stefnandi] hafi reist kröfu sína á því að verkstjórn hafi verið áfátt og öryggisráðstafanir af hálfu [vinnuveitanda] ekki verið fullnægjandi. Í dóminum kemur einnig fram að málsaðilar hafi þó verið sammála um að erfitt hafi verið að koma því við að láta menn fara um svæðið á loftinu, festa með líflínum, en margir metrar hafi verið upp í þak hússins þar sem [stefnandi] telji að þurft hefði að festa slíkar línur. Þá segir í dóminum að ekki verði heldur séð hvernig koma hefði átt við sérstökum fallvörnum undir gólfbitunum og gips­plötunum. Hér verður að líta til meginreglunnar sem fram kemur í 116. gr. laga um meðferð einkamála, um að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnisins og hafi fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greini þar til hið gagnstæða er sannað. Enn fremur verður að leysa úr framan­greindu álitaefni með tilliti til reglunnar um að dómsúrlausn er ávallt háð því hvernig mál hefur verið lagt fyrir dóminn í samræmi við fyrirmæli í 2. mgr. 111. gr. sömu laga. Af dómi Hæstaréttar verður ekki ráðið að ókleift hafi verið að leggja til grund­vallar við úrlausn málsins þau markmið sem stefnandi vísar til í formála tilskipunar­innar vegna þess að hún hefði ekki verið innleidd í íslenskan rétt. Að þessu virtu er ekki fallist á þau rök stefnanda að með dómi Hæstaréttar hafi verið sýnt fram á að framangreint ákvæðið hafi ekki verið réttilega innleitt í íslenskan rétt. Röksemdum stefnanda fyrir því að með þessu hafi verið sýnt fram á brot, sem stefnandi lýsir og telur að leiði til skaðabótaskyldu stefnda gagnvart honum, er því hafnað.

Þá er af hálfu stefnanda talið að það sé í andstöðu við 1. og 3. mgr. 5. gr. sömu til­skipunar að telja að íslensk lög legðu þær skyldur á stefnanda sjálfan að huga að öryggi sínu en ekki á atvinnurekandann. Stefnandi vísar til álits EFTA-dóm­stólsins þar sem segir að aðeins í undantekningartilvikum samræmdist það tilskipunum ráðsins nr. 89/391/EBE og nr. 92/57/EBE að gera starfsmann ábyrgan fyrir öllu eða meginhluta tjóns sem hann hafi beðið vegna vinnuslyss á grundvelli skaðabótareglna landsréttar um eigin sök þegar fyrir liggi að vinnuveitandi hafi ekki að eigin frumkvæði farið að reglum um öryggi og heilsu á vinnustað. Meðal undantekninga megi nefna þegar starfs­maður hafi sjálfur valdið slysi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Jafnvel í slíkum tilvikum myndi alger höfnun skaðabóta þó eigi síður vera úr hófi íþyngjandi og ekki í samræmi við tilskipanirnar, nema svo sérstaklega hátti til að starfsmaður hafi átt talsvert meiri sök á slysi en vinnuveitandinn.

Af hálfu stefnda er í þessu sambandi vísað til þess að því sé ekki svarað í áliti EFTA-dómstólsins hvort dómur Hæstaréttar endurspegli ranga innleiðingu EES-reglna sem gildi um skaðabótaábyrgð á vinnuslysum. Í álitinu segi heldur ekki hvort dómur Hæstaréttar sé réttur eða rangur með tilliti til þeirra tilskipana sem stefnandi vísi til. Ekki hafi verið sýnt fram á að Hæstiréttur hafi á einhvern hátt metið sök í málinu án tillits til þeirra sjónarmiða sem taka beri mið af samkvæmt áliti EFTA-dómstólsins. Dómur Hæstaréttar sé heldur ekki byggður á því að tilskipanirnar hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt og álit EFTA-dómstólsins staðfesti heldur ekki að reglurnar hafi ekki verið innleiddar. Öll innleiðing á reglum hafi verið fullnægjandi og hvergi komi fram að vinnuverndarreglu vanti. Íslensk lög, sem hér skipti máli og dæmt hafi verið eftir í máli stefnanda á hendur Ístaki hf., séu í samræmi við umræddar tilskipanir. Í þeim séu lagðar skyldur á launþega um að gæta öryggis. Í áliti EFTA-dómstólsins komi ekki fram að skaðabóta­skylda hafi stofnast á hendur stefnda. Meta verði aðstæður, eins og gert hafi verið í dómi Hæstaréttar 20. desember 2005. Ekki hafi komið fram að það mat hafi verið rangt eða brot á tilskipunum sem stefnandi vísi til.

Meginreglan, sem vísað er til í framangreindu áliti EFTA-dómstólsins, er meðal annars reist á því að vinnuveitandi hafi ekki að eigin frumkvæði farið að reglum um öryggi og heilsu á vinnustað. Í álitinu er enn fremur lagt til grundvallar að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu í dómi Hæstaréttar 20. desember 2005 að vegna eigin sakar starfsmanns bæri með öllu að hafna kröfum hans á hendur vinnuveitanda um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss, sem starfsmaðurinn hefði að öllum líkindum ekki orðið fyrir, ef vinnuveitandinn hefði að eigin frumkvæði farið að reglum um öryggi á vinnustað. Hér verður að líta til þess að ekki var komist að þeirri niðurstöðu í dómi Hæstaréttar að stefnandi hefði að öllum líkindum ekki orðið fyrir slysinu ef vinnuveitandinn hefði að eigin frumkvæði farið að reglum um öryggi á vinnustað. Niðurstaða Hæstaréttar var þvert á móti á þann veg að ekki verði talið að slysið verði rakið til atvika sem [vinnuveitandi] beri ábyrgð á, eins og segir í dóminum. Álit EFTA-dómstólsins veitir því ekki viðhlítandi tilsögn um það hvort dómur Hæstaréttar teljist að þessu leyti vera í andstöðu við umrætt tilskipunarákvæði og sé þar með staðfesting á því að tilskipunin hefði ekki verið réttilega innleidd í íslensk lög. Með vísan til þessa ber að hafna því að álit EFTA-dómstólsins og úrlausn Hæstaréttar staðfesti að reglan um ábyrgð atvinnu­veitanda samkvæmt framangreindum ákvæðum tilskipunarinnar hafi ekki verið rétt innleidd í íslenskan rétt á þann hátt sem málatilbúnaður stefnanda er reistur á.

Með sömu rökum ber að hafna því að af dómi Hæstaréttar verði ráðið að önnur ákvæði í sömu tilskipun hafi ekki verið réttilega innleidd í íslenskan rétt. Hvorki verður af dóminum né áliti EFTA-dómstólsins ráðið að slysið verði rakið til þess að forvörnum, skipulagningu eða leiðbeiningum og tilsögn vinnuveitenda hafi ekki verið sinnt sem leitt hafi til þess að stefnandi hafi ranglega verið látinn bera tjón sitt sjálfur, eins og haldið er fram af hans hálfu. Ályktanir stefnanda um að ákvæði tilskipunar­innar, sem hann vísar til, hafi ekki verið réttilega innleidd að þessu leyti í íslenskan rétt eru því ekki á nægum rökum reistar og verða því ekki lagðar til grundvallar við úrlausn sakarefnisins. Staðhæfingar stefnanda um skort á samráði og þátttöku starfs­manna í ráð­stöfunum til að innleiða öryggi, tryggja tilhlýðilega samhæfingu starfs­manna og hafa hliðsjón af hættustigi og stærð vinnusvæðisins styðja heldur ekki þá málsástæðu hans að dómur Hæstaréttar staðfesti að tilskipun ráðsins 92/57/EBE hafi ekki verið réttilega innleidd í íslenskan rétt.           

Samkvæmt framangreindu ber að hafna því að dómur Hæstaréttar frá 20. desember 2005, forsendur hans og niðurstaða verði talin sönnun þess að umræddar tilskipanir hafi ekki verið réttilega innleiddar í íslenskan rétt.

Bótakrafa stefnanda er jafnframt studd þeim rökum að Hæstiréttur hafi fyrir mistök dæmt um efni íslensks réttar í andstöðu við framangreindar tilskipanir og EES-samninginn þrátt fyrir 3. gr. laga nr. 2/1993 sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnanda sem stefnda beri að bæta honum. Telja verður að réttarfarsskilyrði standi ekki til þess að bætur verði dæmdar á þessum grundvelli. Mistök hafa ekki verið sannreynd hvað varðar niðurstöðu Hæstaréttar í umræddu máli. Dómurinn á þess heldur ekki kost að leysa úr því í þessu máli hvort mistök hafi verið gerð en samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga um dómstóla verður dómsathöfn ekki endurskoðuð af öðrum nema með málsskoti til æðra dóms. Með vísan til þess ber að hafna bótakröfu stefnanda að því leyti sem hún er reist á þessum grunni.

Samkvæmt framangreindu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að bótakrafa hafi stofnast á hendur stefnda gagnvart stefnanda af ástæðum sem vísað er til af hálfu stefnanda. Með vísan til þess ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfu stefnanda í málinu.

Stefnanda var veitt gjafsókn 20. janúar 2011 vegna málsins og 8. febrúar s.á. vegna útlagðs kostnaðar af rekstri málsins fyrir EFTA-dómstólnum. Gjafsóknar­kostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði en hann er annars vegar útlagður kostnaður vegna mál­flutnings fyrir EFTA-dómstólnum, samtals 1.961.959 krónur, og hins vegar vegna annars reksturs málsins, sem er ákveðinn samtals 1.703.900 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.700.000 krónur án virðisaukaskatts. Útlagður kostnaður vegna stefnu­birtingar er 3.900 krónur.   

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Þórs Kolbeinssonar, í máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 3.665.859 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., 1.700.000 krónur, en útlagður kostnaður er samtals 1.965.859 krónur.