Hæstiréttur íslands
Mál nr. 389/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Föstudaginn 15. júní 2012. |
|
Nr. 389/2012. |
Frjálsi
fjárfestingarbankinn hf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Moax ehf. (Axel Bergmann Svavarsson stjórnarformaður) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Staðfestur var
úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu F hf. um að bú M ehf. yrði tekið
til gjaldþrotaskipta, einkum með vísan til þess að M ehf. hefði með andmælum
sínum hnekkt útreikningi F hf. á kröfu hans og var F hf. ekki talinn hafa sýnt
fram á hver fjárhæð kröfu hans á hendur M væri.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 5. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2012 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um greiðslu málskostnaðar í héraði þegar af þeirri ástæðu ekki til álita.
I
Varnaraðili gerði lánssamning 30. júní 2006 við sóknaraðila. Á forsíðu samningsins var tilgreint að hann væri „lánssamningur myntkarfa“. Í 1. gr. samningsins var kveðið á um það að lánið yrði að „jafnvirði“ 100.000.000 íslenskra króna, sem skyldi vera „samsett úr þremur erlendum gjaldmiðlum (myntkörfu), CHF 40/100 (svissneskur franki), EUR 30/100 (evra) og JPY 30/100 (japanskt jen)“. Í 1. gr. sagði einnig: ,,Lántaki skal undirrita beiðni um útborgun, þar sem tiltekinn sé reikningur sem leggja skal lánshlutann inná. Útborgun skal vera í ÍSK og miðast við kaupgengi Seðlabanki Íslands.“ Samkvæmt 2. og 3. gr. samningsins bar lántaka að endurgreiða lánið með 360 jöfnum afborgunum, á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 10. nóvember 2006. Í 2. gr. segir jafnframt. ,,Á gjalddaga breytir lánveitandi gjaldfallinni fjárhæð, hvort sem höfuðstóll eða vextir eiga í hlut, í íslenskar krónur, miðað við sölugengi Seðlabaka Íslands í ofangreindum myntum, og innheimtir þá fjárhæð hjá lántaka.“ Lánið skyldi bera svokallaða eins mánaðar LIBOR vexti auk 2,15% vaxtaálags frá útgreiðsludegi lánsins. Þá var í 9. gr. samningsins svofellt ákvæði: „Til tryggingar á skuld lántaka samkvæmt lánssamningi þessum, skal lántaki leggja fram eitt tryggingarbréf, að fjárhæð JPY 65.200.000 ... auk CHF 934.000 ... auk EUR 447.000 ... og skal það tryggt með 1. veðrétti (eftir uppgreiðslu) í fasteigninni Hvaleyrarbraut 39, Hafnarfirði, iðnaðarhúsnæði merkt 01-0101, fastanr. 207-6260.“ Í 11. gr. samningsins var ákvæði um gjaldfellingu hans. Samkvæmt því var lánveitanda heimilt að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust af eftirfarandi ástæðum: Í fyrsta lagi ef lántaki greiddi ekki á réttum gjalddaga og í réttum gjaldmiðli og slík vanefnd varaði lengur en 30 daga frá gjalddaga. Í öðru lagi ef lántaki gerði einhverjar ráðstafanir eða léti vera að framkvæma þær ráðstafanir sem að mati lánveitanda hefðu veruleg áhrif á stöðu hans gagnvart lánveitanda og í þriðja lagi meðal annars ef fjárnám yrði gert í hinni veðsettu eign eða öðrum eignum lántakanda eða árangurslaus aðför yrði gerð hjá honum. Í sama ákvæði sagði meðal annars að lánveitandi skyldi tilkynna lántakanda um gjaldfellinguna með sannanlegum hætti og um leið krefjast greiðslu gjaldfallinna eftirstöðva. Skilmálum lánsins var breytt 22. október 2008, en það var þá í skilum. Skyldi það eftirleiðis greitt með 336 afborgunum á eins mánaðar fresti, en þar af yrðu næstu sex afborganir „vaxtagjalddagar“, sá næsti 10. nóvember 2008, en næsta afborgun af höfuðstól 10. maí 2009. Vextir skyldu reiknast frá 10. október 2008.
Óumdeilt er að lánið
hefur verið í vanskilum frá 10. nóvember 2011. Tollstjóri gerði árangurslaust
fjárnám hjá varnaraðila 25. október 2011 fyrir kröfu að fjárhæð 731.999 krónur.
Ekki var mætt við gerðina af hálfu
varnaraðila. Sóknaraðili nýtti sér ekki ákvæði samningsins um gjaldfellingu
hans og tilkynnti því ekki heldur varnaraðila að hann hygðist beita því úrræði,
en lagði þess í stað fram kröfu 23. janúar 2012 um að bú varnaraðila yrði tekið
til gjaldþrotaskipta með vísan til 65. gr. laga nr. 21/1991. Í beiðninni kvað
sóknaraðili skuldina vera vegna lánssamnings í „erlendri mynt, nánar tiltekið
40% CHF, 30% EUR og 30% JPY“. Þá var þess getið að búið væri að „endurútreikna
lánið í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar í málum nr. 471/2010, 603/2010,
604/2010 og 155/2011 svo og lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og
þeim hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010. Þannig reiknað næmi „gjaldfelldur“
höfuðstóll lánsins 154.754.046 krónum, „samningsvextir til 10.11 2011“, 863.397
krónum, „dráttarvextir til 23.01.2012“ 3.685.107 krónum og kostnaður auk
virðisaukaskatts 304.327 krónum, samtals 159.606.887 krónur.
Fyrir héraðsdómi lagði sóknaraðili fram útreikninga á stöðu lánsins eins og hún var 19. janúar 2012. Þar var þess getið að lánsfjárhæð væri 154.754.046 krónur, en eftirstöðvar höfuðstóls þriggja gjaldfallinna greiðslna næmu 1.547.540 krónum, vextir 2.229.987 krónum, dráttarvextir 49.697 krónum og kostnaður 3.300 krónum, eða samtals 3.830.524 krónur. Ógjaldfallnar eftirstöðvar höfuðstóls næmu á hinn bóginn 153.206.506 krónum, vextir 206.829 krónum, eða samtals 153.413.335 krónum. Uppgreiðsluverð lánsins næmi þannig samtals 157.243.859 krónum.
Varnaraðili andmælti kröfunni fyrir dómi og var henni hafnað með hinum kærða úrskurði.
II
Varnaraðili reisir mótmæli sín gegn kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti einkum á því að lánssamningur aðila frá 30. júní 2006 hafi að geyma ákvæði um ólögmæta gengistryggingu sem virða bæri að vettugi samkvæmt dómum Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010 og 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011. Um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum, líkt og sóknaraðili hafi fallist á með útreikningi sínum. Varnaraðili hafi greitt af láninu allan tímann fram að því að vanskil hafi orðið 10. nóvember 2011 miðað við hina ólögmætu gengistryggingu. Hann hafi með vitund sóknaraðila unnið að því að koma hinni veðsettu fasteign í verð með frjálsri sölu og hafi beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti því komið honum verulega á óvart. Í beiðninni vísi sóknaraðili til útreiknings sem hann hafi lagt fram um endurútreikning lánsins í samræmi við ofangreinda dóma. Ekki sé þar tekið tillit til innborgana varnaraðila og forsendur útreikningsins séu ekki skýrar. Telur hann að í ljósi dóms Hæstaréttar í málinu 600/2011 sé verulegur vafi á fjárhæð skuldarinnar auk þess sem útreikningar sem sóknaraðili hafi lagt fram í héraði og fyrir Hæstarétti séu vanreifaðir.
Við þingfestingu málsins í héraði lagði varnaraðili fram mat tveggja fasteignasala frá mars 2011 á verðmæti hins veðsetta fasteignarhluta að Hvaleyrarbraut 39 í Hafnarfirði. Var áætlað mat beggja að fjárhæð um 80.000.000 krónur. Þá lagði hann jafnframt fram kauptilboð sem hann kveður hafa borist í eignina 14. mars 2012 að fjárhæð 90.000.000 krónur. Hann kveðst hafa upplýst sóknaraðila um kauptilboðið og hafi beðið eftir að sóknaraðili, sem veðhafi, tæki afstöðu til þess erindis síns.
Við meðferð málsins í héraði taldi sóknaraðili að um lánssamning í erlendri mynt væri að ræða og ákvæði hans því ekki ógild. Fyrir Hæstarétti hefur hann hins vegar fallið frá því að lánið sé „löglegt erlent lán“, en telur hins vegar að dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 hafi ekki þýðingu í málinu þar sem í fyrsta lagi liggi engar fullnaðarkvittanir fyrir og í öðru lagi sé niðurstaða „Hæstaréttar í málinu nr. 600/2011 ... í andstöðu við lög nr. 151/2010.“ Helgist það af beitingu réttarins á 72. gr stjórnarskrárinnar, sem varnaraðili hafi ekki borið fyrir sig í málinu, og verði því að miða útreikning lánsfjárhæðarinnar við fyrirmæli laga nr. 151/2010.
Með kæru til Hæstaréttar lagði sóknaraðili fram gögn sem hann kveður vera nýja útreikninga á stöðu lánsins miðað við tilteknar dagsetningar. Þar kemur meðal annars fram að krafan er sundurliðuð með sambærilegum hætti og áður, en nú var gjaldfelldur höfuðstóll talinn nema 154.754.046 krónum, samningsvextir þeir sömu og getið var í beiðni um gjaldþrotaskipti, en dráttarvextir reiknaðir til 29. maí 2012. Ógjaldfelldur höfuðstóll var á hinn bóginn talinn nema 3.610.929 krónum, samningsvextir reiknaðir til 10. maí 2012 og dráttarvextir til 29. sama mánaðar. Auk þess var í báðum tilvikum sundurliðaður ýmiss kostnaður vegna gjaldþrotaskiptameðferðarinnar. Jafnframt lagði sóknaraðili fram skjöl sem varða annað lán, sem ekki var um fjallað í hinum kærða úrskurði.
III
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði byggir sóknaraðili kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila á því að fjárnám hafi verið gert hjá varnaraðila með stoð í 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Í 1. tölulið 3. mgr. sömu greinar kemur hins vegar fram að slík krafa verði ekki gerð sé hún nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eigu skuldarans. Til þess er að líta sem á undan er rakið að lánssamningur málsaðila 30. júní 2006 var upphaflega að fjárhæð 100.000.000 krónur og hefur varnaraðili greitt af láninu með vöxtum samkvæmt gögnum, sem sóknaraðili hefur lagt fram 30.499.430 krónur. Útreikningar þeir á fjárhæð lánsins sem sóknaraðili hefur lagt fram með kæru eru sama marki brenndir og þeir sem lágu fyrir héraðsdómi. Verður ekki af þeim ráðið að nýr útreikningur taki tillit til þess að lánið fór í bága við bann 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 við gengistryggingu lánsfjár í íslenskum krónum. Ekki verður heldur séð af þeim hvaða vexti sóknaraðili telur að lánið beri, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 603/2010. Þá verður heldur ekki séð hvernig sóknaraðili tekur tillit til innborgana varnaraðila. Þykir varnaraðili með andmælum sínum hafa hnekkt útreikningi sóknaraðila á fjárhæð kröfu hans og verður því útreikningurinn ekki lagður til grundvallar. Sóknaraðili hefur því ekki sýnt fram á hver fjárhæð kröfu hans er. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., greiði varnaraðila, Moax ehf. kærumálskostnað, 350.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2012.
Með bréfi er barst
dóminum 25. janúar 2012 krafðist sóknaraðili, Frjálsi fjárfestingarbankinn hf.,
kt. 691282-0829. Lágmúla 6, Reykjavík, þess að bú
varnaraðila, Moax ehf., kt.
500297-2209, Eirhöfða 11, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili krefst ennfremur
málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess
að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Við
munnlegan málflutning krafðist hann einnig málskostnaðar, en sú krafa kom ekki
fram í greinargerð hans.
Sóknaraðili vísar í
beiðni sinni til 65. gr. laga nr. 21/1991.
Að kröfu Tollstjóra var gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 25.
október 2011.
Sóknaraðili kveðst eiga
kröfu á hendur varnaraðila. Hefur hann
lagt fram ljósrit af lánssamningi, sem gerður var 30. júní 2006. Orðrétt segir í beiðni: „Skuld þessi er vegna lánssamnings í erlendri
mynt, nánar tiltekið 40% CHF, 30% EUR
og 30% JPY, undirritaður í Reykjavík þann 30.06.2006
að jafnvirði íslenskra kr. 100.000.000,00.
Láninu var skilmálabreytt 22.10.2008.
Búið er að endurreikna lánið í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar í
málum 471/2010, 603/2010 og 155/2011 og lög nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu eins og þeim var breytt með lögum 151/2010. Lánið er í vanskilum frá 10.11.2011.“
Síðan segir að lýst sé
kröfu sem sundurliðuð er, en hún er sögð nema samtals 159.606.877 krónum. Stærsti hluti hennar er höfuðstóll lánsins,
sem sagður er nema 154.754.046 krónum.
Sóknaraðili lagði fram
endurrit fjárnámsgerðar frá 25. október 2011.
Þar var gert fjárnám hjá varnaraðila að kröfu Tollstjóra. Ekki var mætt af hálfu varnaraðila og var
gerðinni lokið sem árangurslausri.
Umræddur lánssamningur er
upphaflega að höfuðstól 100.000.000 króna, en hann er dagsettur 30. júní 2006.
Samkvæmt skilmálabreytingu dags. 22. október 2008 skyldi skuldin endurgreidd
með 336 afborgunum á eins mánaðar fresti.
Tekið er fram í skjalinu að lánið sé í skilum. Í beiðni segir að skuldin hafi verið í
vanskilum frá 10. nóvember 2011.
Varnaraðili segir að hann
hafi tekið 100 milljóna króna lán hjá sóknaraðila í júní 2006. Féð hafi hann nýtt til að fjármagna kaup á
fasteign í Hafnarfirði og hafi leigutekjur átt að standa undir afborgunum af
láninu. Vegna erfiðleika hafi hann hætt
að geta greitt 10. nóvember 2011.
Varnaraðili segir að
vegna þess hve mikið hann greiddi sóknaraðila hafi aðrar skuldir farið í
vanskil. Hafi það leitt til þess að gert
var árangurslaust fjárnám 25. október 2011.
Hafi Tollstjóri þar verið að innheimta fyrirframgreiddan tekjuskatt, sem
byggst hafi á áætlunum.
Varnaraðili heldur því
fram að umrætt lán hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Hann hafi greitt af láninu frá lántökudegi
allt il 10. nóvember 2011. Telur hann í
ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 að líklegt sé að hann eigi fjárkröfu
á hendur sóknaraðila vegna þess sem ofgreitt hafi verið.
Varnaraðili mótmælir
tilvísun sóknaraðila til 1. tl. 2. mgr. 65. gr. 1aga nr. 21/1991.
Segir hann að aukin greiðslubyrði vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar
hafi beinlínis verið orsök þess að árangurslaust fjárnám var gert hjá
honum. Kveðst hann geta leitt að því
líkur að undantekningarregla 1. mgr. 65. gr. eigi hér við. Ef sóknaraðili endurgreiði það sem ofgreitt
hafi verið geti hann staðið í skilum með skuldbindingar sínar.
Varnaraðili kveðst hafa unnið að því í góðri sátt við sóknaraðila að
koma eignum félagsins í verð. Hafi hann
komið á kaupsamningi um fasteign félagsins, en bíði þess nú að sóknaraðili taki
afstöðu til samningsins. Telur
varnaraðili óeðlilegt að bú félagsins verði tekið til gjaldþrotaskipta áður en
sóknaraðili hafi í það minnsta svarað kauptilboðinu.
Varnaraðili segir að kröfur sóknaraðila séu rangt reiknaðar í
beiðni. Vísar hann hér til
hæstaréttardóms í máli nr. 600/2011. Þá
bendir hann á tilmæli er Fjármálaeftirlitið beindi til fjármálastofnana með
bréfi 27. febrúar 2012, um tiltekin viðbrögð við þessum dómi.
Varnaraðili mótmælir skjali því sem sóknaraðili lagði fram og sagði vera
endurútreikning á umræddu láni. Segir varnarðili að skjalið sé alls ófullnægjandi, hér sé ekki
tekið tillit til innborgana og í raun sé þetta ekki útreikningur, heldur stöðuútprentun.
Niðurstaða
Sóknaraðili hefur sýnt
fram á að árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila á síðustu þremur
mánuðum áður en gjaldþrotabeiðni hans barst dóminum. Sú fullyrðing varnaraðila, að fjárnámsgerð
þessi hafi orðið árangurslaus vegna þess að hann hafi greitt of háar afborganir
til sóknaraðila, hefur enga þýðingu.
Krafa sóknaraðila er
tryggð með veði í fasteign. Í
greinargerð sinni orðar varnaraðili ekki skýrt þá málsástæðu að krafa
sóknaraðila sé nægilega tryggð með veðinu.
Hefur gagnaöflun hans þó öðrum þræði snúist um þetta atriði. Er í greinargerðinni vísað til þess að ekki
hafi verið reynt að sýna fram á „verðmæti undirliggjandi eigna“. Verður að leysa úr því hvort krafa
sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði, sbr. 1. tl.
3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Skuldin er tryggð með 1.
veðrétti í fasteigninni Hvaleyrarbraut 39 í Hafnarfirði. Varnaraðili hefur lagt fram tvenns konar gögn
um verðmæti þessarar eignar. Annars
vegar hefur hann lagt fram kauptilboð, dags. 14. mars 2012, þar sem tiltekið
einkahlutafélag býður 90.000.000 króna í eignina. Hins vegar hefur hann lagt fram verðmat löggilts
fasteignasala, sem metur markaðsverð eignarinnar 80.000.000 króna.
Sóknaraðili segir kröfuna
nema nærri 160.000.000 króna. Sé sá
útreikningur réttur er krafan augljóslega ekki nægilega tryggð með veðinu. Sóknaraðili kveðst hafa endurreiknað kröfu
sína í samræmi við tilgreinda dóma Hæstaréttar og lög nr. 151/2010 um breytingu
á lögum nr. 38/2001. Hann skýrði þessa
fullyrðingu hins vegar ekki nánar og greinargerð um slíkan endurútreikning og
forsendur hans hefur hann ekki lagt fram.
Fram kom í munnlegum málflutningi að hann teldi að dómur Hæstaréttar í
máli nr. 600/2011 hefði hér ekki fordæmisgildi, þar sem hér lægi ekki fyrir
fullnaðarkvittun. Í þessum dómi sló
Hæstiréttur því föstu að greiðslutilkynningar og fyrirvaralaus móttaka á
greiðslum í samræmi við þær tilkynningar hefðu jafngilt
fullnaðarkvittunum. Er ósennilegt að
öðru vísi hátti til í þessu máli, en sóknaraðili segir að vanskil hafi staðið
frá því í nóvember 2011.
Sóknaraðili segir að um
sé að ræða lánssamning í erlendri mynt, en hann reiknar kröfu sína samt í
íslenskum krónum. Kom fram í munnlegum
málflutningi að hann teldi ákvæði lánssamningsins ekki ógild.
Í lánssamningi aðila eru
nokkur atriði sem skipta máli þegar síðastgreint atriði er metið. Á forsíðu er notað orðið Myntkarfa. Lánsfjárhæðin er einungis tilgreind sem
jafnvirði ákveðinnar fjárhæðar í íslenskum krónum og hana skyldi greiða út í
íslenskum krónum. Sömuleiðis skyldi
endurgreitt í íslenskum krónum. Með því
að efna átti meginskyldur aðila samkvæmt samningnum með greiðslu í íslenskum
krónum, verður að telja að í lánssamningnum hafi falist verðtrygging miðað við
gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Skiptir ekki máli hér hvort lántaki er einstaklingur
eða einkahlutafélag.
Að fenginni þessari
niðurstöðu er ekki forsenda til þess að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila
eftir þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn. Blasir við að sú fjárhæð sem sóknaraðili
tilgreinir getur ekki verið rétt. Þótt
varnaraðili beri eftir almennum reglum sönnunarbyrðina fyrir því að krafa sé
nægilega tryggð með veði, verður í þessu tilviki að gera undantekningu, þar sem
málsreifun af hálfu sóknaraðila er ábótavant.
Verður því að byggja niðurstöðu á þeirri fullyrðingu varnaraðila að
krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði.
Verður að hafna kröfu sóknaraðila um töku bús varnaraðila til
gjaldþrotaskipta, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga
nr. 21/1991.
Varnaraðili krafðist ekki
málskostnaðar fyrr en í munnlegum málflutningi, en ekki í greinargerð
sinni. Verður því að fella málskostnað
niður.
Jón Finnbjörnsson
héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu
sóknaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankans hf., um að bú varnaraðila, Moax ehf., verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður fellur
niður.