Hæstiréttur íslands

Mál nr. 398/2007


Lykilorð

  • Útvarpslög


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. apríl 2008.

Nr. 398/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Bjarka Elíassyni

Guðmundi Margeirssyni

Guðmundi Sigurbergssyni og

Ólafi Halldóri Garðarssyni

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

 

Útvarpslög.

B, GM, GS og Ó voru sakfelldir fyrir brot gegn 32. og 33. gr., sbr. 28. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 fyrir að hafa í starfi sínu fyrir félagið K staðið fyrir því að tekið var á móti læstum útsendingum 8 tilgreindra sjónvarpsstöðva, þær opnaðar með myndlyklum, í þeim tilgangi að veita aðilum sem ekki voru áskrifendur að umræddum útsendingum aðgang að þeim, og dreifa gegn endurgjaldi og án heimildar til allt að 1650 aðila í Reykjanesbæ, allt þar til lögreglan stöðvaði útsendingarnar 14. janúar 2004. Voru þeir dæmdir til að greiða 500.000 krónur í sekt en sæta ella fangelsi í 28 daga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 11. júlí 2007. Ákæruvaldið krefst sakfellingar ákærðu samkvæmt ákæru og refsiákvörðunar.

Ákærðu krefjast staðfestingar héraðsdóms.

Í áfrýjunarstefnu er ekki gerð krafa er lýtur að upptöku hluta er notaðir voru við verknað þann sem ákært er vegna og ekki er haldið uppi skaðabótakröfu. Koma þessi atriði því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.

Upphaf máls þessa er húsleit lögreglu 14. janúar 2004 í húsnæði fyrirtækisins Kapalvæðingar ehf. sem starfrækt var á tveimur stöðum í Reykjanesbæ. Ákærðu voru fyrirsvarsmenn félagsins. Ríkislögreglustjóri fékk heimild til húsleitarinnar með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 13. sama mánaðar. Rannsókn ríkislögreglustjóra hófst í kjölfar kæru Norðurljósa samskiptafélags hf. 18. september 2003 til sýslumannsins í Keflavík vegna meintrar ólögmætrar dreifingar á sjónvarpsefni um kapalkerfi félagsins.

Samkvæmt ákæru 20. júlí 2004 eru ákærðu sakaðir um brot gegn 32. og 33., sbr. 28. gr. útvarpslaga nr. 53/2000. Staðfest er sú niðurstaða héraðsdóms að slík brot geti sætt opinberri ákæru og líta verður svo á að ríkislögreglustjóri hafi haft allt frumkvæði í málinu eftir að sýslumaðurinn í Keflavík framsendi það 23. september 2003.

Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. útvarpslaga fellur refsiábyrgð niður ef sex mánuðir líða frá útsendingu „án þess að … hafin sé opinber rannsókn út af broti ef það á að sæta skilyrðislausri opinberri saksókn.“ Eins og rakið er í héraðsdómi var um samfellda starfsemi ákærðu að ræða sem staðið hafði um nokkurn tíma þar til hún var stöðvuð við húsleitina 14. janúar 2004. Þykir rétt að miða upphaf fyrningarfrests við útsendingu sem þá var í gangi. Ekki liðu fullir sex mánuðir frá því að húsleit fór fram og meint ólögmætt endurvarp var stöðvað og þar til fyrning sakar var rofin með skýrslutöku af ákæru hjá ríkislögreglustjóra 16. og 17. mars 2004.

Einkahlutafélagið Kapalvæðing sem mun hafa verið keypt af DVD Margmiðlun ehf. í lok desember 2003 sá annars vegar um lagningu kapalkerfa í Reykjanesbæ og rak hins vegar endurvarp innlends og erlends sjónvarpsefnis um kapalkerfið gegn endurgjaldi frá áskrifendum. Ákærðu voru einnig fyrirsvarsmenn DVD Margmiðlunar ehf. Áskrifendur voru 1653 í desember 2003, samkvæmt athugun B endurskoðanda á bókhaldi Kapalvæðingar ehf. sem unnin var að ósk ríkislögreglustjóra vegna rannsóknar málsins. Starfsemi Kapalvæðingar ehf. er lýst í gögnum málsins. Samkvæmt henni rak fyrirtækið ekki útvarpsstöð í skilningi b. liðar 1. gr. úrvarpslaga og hafa því ákvæði 2. gr. þeirra laga ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins. Starfsemi félagsins fólst í að endurvarpa viðstöðulaust óstyttri og óbreyttri dagskrá sjónvarpsstöðva um fjarskiptanet fyrirtækisins. Kapalvæðing ehf. annaðist því rekstur sem fjarskiptafyrirtæki stunda og fellur sú starfsemi undir lög um fjarskipti nr. 81/2003. Slík starfsemi er skráningarskyld.

Endurvarp þeirra átta erlendu sjónvarpsrása sem ákæra tekur til var framkvæmt með þeim hætti að rásin var opnuð með áskriftarkorti í eigu félagsins og síðan var dagskrá viðkomandi sjónvarpsstöðvar send út með tækjabúnaði í eigu félagsins um kapalkerfi þess. Við rannsókn málsins upplýstist ekki skýrlega með hvaða hætti áskriftarkortin voru keypt. Ekki er annað í ljós leitt en að ákærðu hafi verið óheimilt að nota kortin til að veita áskrifendum sínum aðgang að því efni sem opnað var með þeim. Gátu ákærðu þannig ekki sýnt fram á að gerðir hefðu verið samningar við rétthafa um endurvarp á efni þessara átta stöðva. Eitt kortið, vegna stöðvarinnar TV-1000, reyndist vera svonefnt „sjóræningjakort“ og upplýstist ekki hvernig það var tilkomið.

Lýsing á þeirri háttsemi, sem bönnuð er með 32. gr. og 1. mgr. 33. gr. útvarpslaga, og ætluð er til verndar höfundarrétti, er nægilega skýr þegar litið er til a., h. og i. liða 1. gr. laganna. Í i. og j. liðum 28. gr. laganna er með ótvíræðum hætti lögð refsing við brotum á þessum ákvæðum. Ákvæðin eru bæði aðgengileg og fyrirsjáanleg þar sem þau koma fram í settum lögum sem birt hafa verið. Verður því talið að um fullnægjandi refsiheimildir sé að ræða.

Sú háttsemi sem hér að framan er lýst í starfsemi Kapalvæðingar ehf. samræmist lýsingu brots í ákæru og fellur undir brot samkvæmt 32. og 33. gr., sbr. i. og j. liði 28. gr. útvarpslaga þar sem hún felur í sér hagnýtingu á útvarpsefni til tekjuöflunar með því að settir voru upp myndlyklar í því skyni að veita einhverjum utan hóps áskrifenda sjónvarpsstöðvanna aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.

Ákærðu komu að rekstri félagsins með ólíkum hætti og í mislangan tíma á því tímabili sem ákært er vegna, en voru allir í stjórn félagsins og störfuðu í þágu þess þegar húsleit var gerð. Á fundi í félaginu 20. nóvember 2002 er bókað að stjórnin sjái um framkvæmdastjórn félagsins. Ákærðu báru við rannsókn málsins og fyrir dómi að þeir hefðu allir sameiginlega tekið meiri háttar ákvarðanir um framkvæmdir á vegum félagsins og vísuðu í því sambandi sérstaklega til ákvarðana er lutu að því að hefja framkvæmdir við lagningu kapals í ný íbúðarhverfi. Að því er varðaði ákvarðanir um það efni sem sent var út og samskipti við rétthafa fengust ekki skýr svör um hver eða hverjir hefðu annast það. Í hlutverki sínu sem stjórnarmenn báru þeir allir sameiginlega ábyrgð á ólögmætri starfsemi í nafni félagsins, þó að þeir hafi komið að rekstrinum með ólíkum hætti. Engu breyta um þessa niðurstöðu þær varnir ákærðu að slíkt fyrirkomulag um framkvæmdastjórn hafi farið í bága við tilgreind ákvæði laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Eru þeir allir sakfelldir samkvæmt ákæru og eru brot þeirra réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákærðu Bjarki Elíasson, Guðmundur Margeirsson og Guðmundur Sigurbergsson hafa ekki áður sætt refsingu. Ákærði Ólafur Halldór Garðarsson gekkst á árinu 2002 undir viðurlagaákvörðun og greiðslu 50.000 króna sektar vegna brots er varðaði við 231. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur þessi viðurlagaákvörðun ekki áhrif á refsingu ákærða nú. Umrædd starfsemi félaga þeirra er ákærðu tengdust mun hafa varað í um tvo áratugi og einnig var sent út efni sem fullnægjandi heimildir voru fyrir. Við ákvörðun refsingar þykir mega líta til þess að upplýst er að ákærðu höfðu átt samskipti við fulltrúa kærandans, Norðurljósa samskiptafélags hf. um starfsemi sína, og engin gögn eru um að síðastnefnt félag hafi komið kvörtun á framfæri vegna efnis sem það taldi sig hafa einkarétt á að útvarpa fyrr en kæra kom fram. Þá verður ekki fullyrt hversu lengi þær átta stöðvar sem ákært er vegna höfðu hver um sig verið í endurvarpi og þannig hversu umfangsmikil brotastarfsemi ákærðu nákvæmlega var. Loks er rétt að líta til þess að rúm fjögur ár eru liðin frá því að rannsókn málsins hófst og hefur það tafist af ástæðum sem ákærðu verður ekki um kennt. Í ljósi alls þessa er refsing hvers ákærðu um sig ákveðin 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem greiða skal innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, ella sæti ákærðu hver fyrir sig fangelsi í 28 daga.

Ákærðu greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra á báðum dómstigum, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Bjarki Elíasson, greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 28 daga.

Ákærði, Guðmundur Margeirsson, greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 28 daga.

Ákærði, Guðmundur Sigurbergsson, greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 28 daga.

Ákærði, Ólafur Halldór Garðarsson, greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 28 daga.

Ákærði, Bjarki Elíasson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði Gizurar Bergsteinssonar héraðsdómslögmanns 400.000 krónur.

Aðrir ákærðu greiði óskipt skipuðum verjanda sínum í héraði, Friðjóni Erni Friðjónssyni hæstaréttarlögmanni, 600.000 krónur.

Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 789.519 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 747.000 krónur.

 

                        Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. júní 2007.

Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 20. júlí 2004, á hendur ákærðu, Bjarka Elíassyni, kt.071067-5729, Sigurhæð 7, Garðabæ, Guðmundi Margeirssyni, kt. 060552-7469, Drangavöllum 8, Reykjanesbæ, Guðmundi Sigurbergssyni, kt. 210853-5029, Kirkjuteig 9, Reykjanesbæ og Ólafi Halldóri Garðarssyni, kt. 250763-2129, Baugholti 25, Reykjanesbæ, fyrir brot gegn útvarpslögum sem framkvæmdastjórnarmenn einkahlutafélagsins Kapalvæðingar, kt. 650594-2909, ákærði Ólafur Halldór frá árinu 2000, en ákærðu Bjarki, Guðmundur Margeirsson og Guðmundur Sigurbergsson frá nóvember 2002, með því að hafa í starfi sínu fyrir félagið staðið fyrir því að tekið var á móti læstum útsendingum eftirgreindra sjónvarpsstöðva, þær opnaðar með myndlyklum, sem settir voru upp í aðstöðu félagsins við Vallarbraut í Reykjanesbæ í þeim tilgangi að veita aðilum sem ekki voru áskrifendur að umræddum útsendingum aðgang að þeim, og dreift gegn endurgjaldi og án heimildar til allt að 1650 aðila í Reykjanesbæ, allt þar til lögreglan stöðvaði útsendingarnar 14. janúar 2004.

Stöðvarnar voru eftirfarandi:

1.             TV-1000, frá árinu 2000 til 14. janúar 2004.

2.             Sky One, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

3.             Sky Movies, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

4.             Sky Sport 1, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

5.             Sky Sport 2, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

6.             Cartoon Network, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

7.             Comedy Channel, frá júlí 2003 til 14. janúar 2004.

8.             Fox Kids, frá júlí 2003 til 14. janúar 2004.

Háttsemi ákærðu er talin varða við 32. gr. og 33. gr., sbr. 28. gr. útvarpslaga nr. 53/2000.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að einkahlutafélögin Kapalvæðing og DVD-margmiðlun, sem ákærðu eru í fyrirsvari fyrir, verði með vísan til 29. gr. útvarpslaga og 69. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, að auki dæmd til að þola upptöku á 8 myndlyklum, 8 myndmóturum og 8 lykilkortum, sem notuð voru við verknaðinn og hald var lagt á við rannsókn málsins.

Í málinu gerir Gísli Guðni Hall hdl. þá kröfu fyrir hönd Norðurljósa samskiptafélags hf., kt. 520698-2729, að ákærðu Bjarka Elíassyni, Guðmundi Margeirssyni, Guðmundi Sigurbergssyni og Ólafi Halldóri Garðarssyni verði gert að greiða félaginu in solidum 290.096.280 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 01.01.01. til 01.07.01 en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags af eftirgreindum fjárhæðum og gjalddögum, í hverju tilviki til greiðsludags: Af 5.085.000 krónum frá 01.01.01, af 5.085.000 krónum frá 01.02.01, af 5.085.000 krónum frá 01.03.01, af 5.085.000 krónum frá 01.04.01, af 5.085.000 krónum frá 01.05.01, af 5.085.000 krónum frá 01.06.01, af 5.085.000 krónum frá 01.07.01, af 5.085.000 krónum frá 01.08.01, af 5.085.000 krónum frá 01.09.01, af 5.085.000 krónum frá 01.10.01, af 5.085.000 krónum frá 01.10.11, af 5.085.000 krónum frá 01.12.11, af 7.689.000 krónum frá 01.01.02, af 7.689.000 krónum frá 01.02.02, af 7.689.000 krónum frá 01.03.02, af 7.689.000 krónum frá 01.04.02, af 7.689.000 krónum frá 01.05.02, af 7.689.000 krónum frá 01.06.02, af 7.689.000 krónum frá 01.07.02, af 7.689.000 krónum frá 01.08.02, af 7.689.000 krónum frá 01.09.02, af 7.689.000 krónum frá 01.10.02, af 7.689.000 krónum frá 01.11.02, af 7.689.000 krónum frá 01.12.02, af 11.400.690 krónum frá 01.01.03, af 11.400.690 krónum frá 01.02.03, af 11.400.690 krónum frá 01.03.03, af 11.400.690 krónum frá 01.04.03, af 11.400.690 krónum frá 01.05.03, af 11.400.690 krónum frá 01.06.03, af 11.400.690 krónum frá 01.07.03, af 11.400.690 krónum frá 01.08.03, af 11.400.690 krónum frá 01.09.03, af 11.400.690 krónum frá 01.10.03, af 11.400.690 krónum frá 01.11.03, af 11.400.690 krónum frá 01.12.03, auk 7.785.010 vegna innheimtukostnaðar.

 

Ákærði Bjarki Elíasson krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins. Ákærði krefst þess jafnframt aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni. Þá kefst ákærði þess að kröfu um upptöku tækja og búnaðar verði hafnað. Loks krefst ákærði  þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Ákærðu Guðmundur Margeirsson, Guðmundur Sigurbergsson og Ólafur Halldór Garðarsson krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, til vara að ákærðu verði sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins, en til þrautavara að ákærðu verði tildæmd vægasta refsing er lög leyfa. Ákærðu krefjast sýknu af upptökukröfu ákæruvalds en til vara að þeirri kröfu verði vísað frá dómi. Þeir krefjast þess að bótakröfu Norðurljósa samskiptafélags hf. á hendur þeim verði vísað frá dómi, en ella að þeir verði sýknaðir af kröfunni. Þá krefjast þeir þess, hver sem málsúrslit verða, að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, verði greiddur úr ríkissjóði.

Mál þetta var áður dæmt í héraði að efni til þann 8. desember 2005. Með dómi Hæstaréttar 8. júní 2006 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar að nýju. Með úrskurði héraðsdóms, 26. október 2006, var kröfu um að dómari viki sæti hafnað. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 22. nóvember 2006.

I.

Upphaf þessa máls má rekja til kæru Norðurljósa samskiptafélags hf. til sýslumannsins í Keflavík, dagsettrar 18. september 2003, á ólögmætri dreifingu á sjónvarpsefni á vegum Kapalvæðingar hf. Í kærunni segir m.a. að kærandi reki sjónvarps­stöðvarnar Stöð 2 og Sýn, sem hafi keypt sýningarrétt hér á landi (einkadreifingar­rétt) að margs konar eftirsóttu efni, svo sem þáttaröðum, kvikmyndum, íþrótta­viðburðum, þ.m.t. að útsendingum knattspyrnuleikja ensku úrvalsdeildarinnar (Premier Leage) og 1. deildar (Nationwide Football Leage 1st devision), ensku bikarkeppnanna, spænsku úrvalsdeildarinnar og Meistarakeppni Evrópu (Champions Leage). Kæranda hafi borist óyggjandi upplýsingar um að í Reykjanesbæ sé rekin kapalsjónvarpsstöð, að öllum líkindum af einkahlutafélaginu Kapalvæðingu ehf., sem stundi það sem nefnt er sjóræningjastarfsemi, þ.e. hún steli efni erlendra sjónvarpsstöðva og dreifi því til eigin áskrifenda í Reykjanesbæ í kapalkerfi gegn gjaldi. Meðal sjónvarpsrása, sem stöðin bjóði upp á, séu Sky Sport 1, Sky Sport 2, Sky bíómyndarásir, Sky One, CNN, Sky News, MTV og íslensku rásirnar. Íslensku rásirnar, þ.á.m. rásir kæranda, séu sendar út ruglaðar, en allar aðrar stöðvar séu óruglaðar. Á erlendu rásunum, einkum rásum Sky, séu sýndir knattspyrnuleikir, þættir og kvikmyndir, sem kærandi eigi einkadreifingarrétt á. Kærandi viti ekki til þess að Kapalvæðing ehf. hafi gert nokkra samninga við hinar erlendu stöðvar, enda gætu hvorki þær né kærandi veitt heimildir til að dreifa hér á landi efni sem kærandi á einkadreifingarrétt að.

Í málinu hefur verið lagður fram listi yfir nokkra sjónvarpsréttarsamninga sem Norðurljós kveðast hafa gert og hafa jafnframt verið lögð fram ljósrit forsíðna og síðustu blaðsíðna slíkra samninga. Þeir hafa ekki verið lagðir fram í heild og mótmæla ákærðu því að á þessum ljósritum verði byggt. Norðurljós byggja á því að samningarnir séu trúnaðarmál og viðskiptaleyndarmál og því verði þeir ekki lagðir fram í heild. Samkvæmt þessum lista taka þessir ætluðu samningar til efnis sem einnig er sýnt á öðrum stöðvum, t.d. Skystöðvunum.

 

Að kröfu ríkislögreglustjóra 13. janúar 2003, heimilaði Héraðsdómur Reykjaness með úrskurði sama dag, að fram færi húsleit í tilgreindum húsakynnum Kapalvæðingar ehf. í Reykjanesbæ og að leggja mætti hald á myndlykla og annan búnað sem notaður hefði verið við ólöglega móttöku og dreifingu á sjónvarpsefni auk bókhaldsgagna er kynnu að tengjast ætluðu sakarefni. Húsleitin var framkvæmd þann 14. janúar 2003 og var þá m.a. lagt hald á 8 móttökutæki og 8 myndmótara, sem fundust í skúr sem Kapalvæðing hafði til umráða. Lögregla lagði ekki hald á móttökutæki og myndmótara fyrir 10 aðrar stöðvar, en þar var um að ræða stöðvar sem starfsmenn Kapalvæðingar ehf. sögðu með frían aðgang eða stöðvar sem Kapalvæðing ehf. hafði gert samninga við um dreifingu efnis. Sama dag var einnig lagt hald á bókhaldsgögn og fleiri gögn á skrifstofu Kapalvæðingar ehf.

Í skýrslu A hjá Kapalþjónustunni, sem tók niður hina 8 myndmótara og móttökutæki segir m.a: “Þar var tekinn niður eftirtalinn búnaður v/gervihnattamóttöku: Átta gervihn.móttakarar með innbyggðum afruglara. Af þeim voru 7 með orginal Sky áskriftarkortum og voru til móttöku á Sky Sports 1, Sky Sports 2, Sky Movies, Sky One, Comedy Channel, Fox kids og Cartoon Network. Áttundi móttakarinn var með sjóræningjakorti fyrir móttöku á TV 1000. Hverjum gervihn.móttakara fylgir móttakari, sem tekur inn á sig hljóð og mynd frá móttakaranum og skilar frá sér sjónvarpsrás, sem hægt er að dreifa á kapalkerfi.”

Í málinu hafa verið lagðir fram samningar Kapalvæðingar ehf. við erlendar stöðvar um endurvarp þeirra svo og bréfaskipti varðandi athugun á að ná samningum við fleiri stöðvar. Þá hafa verið lögð fram gögn sem sýna kaup Kapalvæðingar ehf. á svokölluðum Sky kortum sem gerðu fyrirtækinu kleift að senda út 7 af þeim stöðvum sem í ákæru greinir. Kemur þar fram að einvörðungu var keypt ein áskrift fyrir hverja stöð. 

II.

Að tilhlutan ríkislögreglustjóra var óskað atbeina AT-ráðgjafar ehf. við að kanna hvort hægt væri að finna í bókhaldi Kapalvæðingar ehf. upplýsingar um tekjur félagsins af afnotagjöldum, hversu margir væru að greiða afnotagjöld og hvernig þróunin hefði verið síðustu ár. Einnig að fundið væri út til hvaða erlendra sjónvarpsstöðva Kapalvæðing hefði greitt fyrir leyfi.

Í skýrslu AT-ráðgjafar ehf., dagsettri 11. febrúar 2004, sem B endurskoðandi undirritar, kemur fram að árið 2000 hafi áskriftartekjur Kapalvæðingar ehf. verið 2.006.909 krónur, árið 2001 14.779.491 krónur, aukning milli ára 636%, árið 2002 26.696.210 krónur, aukning milli ára 81% og 2003 35.110.864 krónur, aukning milli ára 32%.

Í skýrslunni kemur fram samkvæmt athugun á greiðslu gíróseðla og Visa og Eurocardgreiðslum, að í desember 2003 hafi áskrifendur verið 1653, þar af 110 vegna TV-1000, í janúar 2003 1483, þar af 90 vegna TV-1000, í desember 2000 488, í janúar 2000 420 og í mars 1999 257. Í skýrslunni kemur fram að út frá veltutölum megi áætla að áskrifendur hafi verið 750 árið 2001 og 1.100 árið 2002.

 

Þá kemur fram í skýrslunni að verðskrá Kapalvæðingar ehf. hafi breyst þrisvar sinnum frá 1. janúar 2001, en þá var áskriftarverð 1.470 krónur. Þann 1. júní 2001 hafi áskriftin hækkað í 1.795 krónur, 1. mars 2002 í 2.095 krónur og 1. apríl 2003 í 2.125 krónur.

Þá var í skýrslunni gerð grein fyrir greiðslum Kapalvæðingar fyrir áskrift erlendra sjónvarpsstöðva.

Við lögreglurannsókn málsins var þann 24. október 2003 tekin skýrsla af vitninu C. Hún kvaðst hafa byrjað að vinna sem þjónustustjóri hjá Norðurljósum rúmu ári áður. Kvað hún ábyrgð á áskriftarsölu vera meðal þess er félli undir verksvið hennar. Fljótlega hefði verið farið að skoða það að fáir áskrifendur voru í Njarðvík og Keflavík og að Sýn seldist mjög illa á þessu svæði. Markvisst hefði verið farið í að skoða hvað þarna væri á ferðinni. Hún hefði vitað af starfsemi Kapalvæðingar ehf. sem aðallega var í Njarðvík og Keflavík og hefði hún farið í margar ferðir til Keflavíkur á árinu 2003 og þá kannað útsendingu hjá Kapalvæðingu ehf. Í mars 2003 hefði hún farið til Keflavíkur og tekið upp efni sem Kapalvæðing var að senda út og hefði þar m.a. verið sjónvarpsefni sem Norðurljós hafði einkarétt á. Eftir það hefði hún komið fyrir sjónvarpi og myndbandstæki í húsi í Keflavík þar sem tekið hefði verið upp fyrir hana mikið af efni sem Norðurljós hefur einkarétt á. Kvaðst hún telja að flest af því efni sem Norðurljós hefur einkarétt á væri hægt að finna óruglað hjá Kapalvæðingu. Það væru þá bíómyndir, þættir og íþróttaefni. Þeir sýndu frá beinum útsendingum og stórviðburðum sem Norðurljós hefði einkarétt á og væri að greiða stórfé fyrir.

III.

Í skýrslutöku hjá lögreglu kvað ákærði Bjarki þá ákærðu alla hafa verið í stjórn Kapalvæðingar ehf. Kvað hann ákærða Guðmund Margeirsson hafa séð um pappírsvinnu og hefði hann verið í hlutastarfi á skrifstofu fyrirtækisins. Sjálfur hefði hann ásamt ákærðu Guðmundi Margeirssyni og Ólafi séð um samskipti við erlenda aðila. Ákærði Guðmundur Sigurbergsson hefði mest verið í lögnum á dreifikerfi DVD-Margmiðlunar. Allir tækju þeir saman ákvarðanir sem varða félagið.

Ákærði kvað starfsemi Kapalvæðingar ehf. hafa hafist á árinu 1994 og verið endurvarp á erlendu og innlendu sjónvarpsefni. Kapalkerfið hefði upphaflega verið byggt upp sem sem endurvarp fyrir íslensku stöðvarnar sem náist illa í Reykjanesbæ. Síðan hefði starfsemin aukist jafnt og þétt og kaupi fyrirtækið erlent efni og sendi það út í gegnum kapalkerfið og selji fyrirtækið eina áskrift til viðskiptavina þess.

Ákærði kannaðist við að Kapalvæðing hefði dreift í seldri dagskrá þeim stöðvum sem nú er í ákæru getið. Ákærði kvað Ríkissjónvarpið, Stöð 2, Sýn, Skjá 1 og Popp TV vera sendar út óbreyttar eins og þær kæmu frá þessum fyrirtækjum. Eini hagurinn sem fólk hefði af því að fá þessar stöðvar í gegnum kapalkerfið væri að skilyrðin væru betri. Þessum stöðvum hefði verið dreift ókeypis og slyppi fólk við að vera með loftnet.

Ákærði kvað D starfsmann Víkurfrétta, sem sé umboðsmaður Norðurljósa í Reykjanesbæ, hafa komið til þeirra og beðið þá að dreifa Bíórásinni og síðan Stöð2+ og Stöð 3. Hefði þurft að setja upp sérstakan búnað sem hefði kostað 300.000 krónur fyrir utan þjónustu og vinnu. Þeir hefðu sett þennan búnað upp á eigin kostnað til að veita betri þjónustu.

 

Ákærði kannaðist við nokkra samninga sem gerðir hefðu verið við erlendar stöðvar og sagði hann að verið væri að ganga frá samningi við Cartoon Network og þá væru þeir búnir að undirrita samninga við Eurosport og Fox Kids og senda til þeirra en ekki fengið þá undirritaða til baka. Þeir hefðu hins vegar fengið send kort frá þessum aðilum og litu svo á að samningur væri kominn á þó svo ekki væri búið að ganga frá því formlega.

Ákærða minnti að byrjað hafi verið að senda TV-1000 út á árinu 2001 og hefði verið seld sérstök áskrift að henni. Þeir hefðu tekið á móti stöðinni óruglaðri, ruglað hana en látið áskrifendur hafa sérstakan filter til að afrugla stöðina. Hann kvað þá ekki hafa verið með heimild til að dreifa TV-1000.

Ákærði kvað þá hafa sent út rásir sem voru fríar. Hann taldi að þeir hefðu mátt dreifa áfram efni sem var sent út óruglað. Nefndi hann í því sambandi BBC1, BBC2, 3ABN, TCM, CNN, og SKY NEWS. Hann kvað þá hafa verið með kort frá SKY til að taka á móti Sky Sport 1, Sky Sport 2, Sky Movies, Sky One, Comedy Channel, Fox Kids og Cartoon Network. Hann minnti að kortið vegna TV-1000 hefði verið keypt af aðila á Íslandi. Það hefði ekki verið sjóræningjakort. Ákærða minnti að í byrjun hefði Sky kort verið keypt af X í einhverjum tilvikum, en að undanförnu hefðu kortin verið keypt beint frá Bretlandi.

Er ákærða var sýndur listi yfir nokkra sjónvarpsréttarsamninga Norðurljósa kvað hann sér finnast samningarnir mjög skrýtnir. Þeir væru ekki lagðir fram í heilu lagi og ekki hægt að átta sig á efni þeirra.

Er ákærða var sýndur listi sem unninn var af starfsmanni Norðurljósa yfir þætti, þáttaraðir og íþróttaefni í eigu Norðurljósa og erlendar stöðvar sem sýna sama efni og hann spurður hvort ekki væri ljóst að Kapalvæðing hefði verið að sýna hluta þessa efnis án heimildar, kvaðst ákærði draga réttmæti skjalsins í efa.

Er ákærða var kynntur framburður C starfsmanns Norður­ljósa um að hún hefði sannreynt að Kapalvæðing ehf. sendi út efni sem Norðurljós ættu einkarétt á og greiddi stórfé fyrir, kvaðst ákærði draga framburð hennar í efa og sönnunargildi hans. Um framburð C varðandi myndbandsupptökur á 6 mynd­böndum sem hún lét gera og sýna eiga að Kapalvæðing sé að senda út efni sem Norðurljós hafi einkarétt á, kvaðst ákærði mótmæla framburðinum sem röngum, enda hefði C getað tekið þetta efni upp hvar sem er.

Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst ákærði Bjarki kannast við að Kapalvæðing ehf. hefði tekið á móti og sent út í áskrift þær 8 stöðvar er í ákæru greinir. Hann kvaðst ekki muna tímabilin. Í fyrri skýrslu sinni fyrir dóminum vísaði ákærði varðandi tímabil til skýrslu sinnar hjá lögreglu. Hann hefði talið að útsending á TV-1000 hefði byrjað árið 2001. Hann kvaðst þó ekki vilja útiloka að þetta hefði byrjað árið 2000. Ákærði kvað útsendingar á TV 1000 hafa verið samfelldar. Í fyrri dómskýrslu sinni kvað hann Kapalvæðingu ehf. ekki hafa verið með heimild til að senda út þessa stöð og kvaðst hann ekki muna hvort reynt hefði verið að fá heimild fyrir stöðinni. Hann kvaðst ekki muna hvenær byrjað var að senda SKY stöðvarnar út en telur útsendingar á stöðvunum hafi verið samfelldar eftir að útsendingar á þeim hófust. Ákærði kannaðist við að Comedy Channnel og Fox Kids hefði verið útvarpað frá júlí 2002 fram að húsleit. Cartoon Netwok hefði verið útvarpað frá árinu 2003.

 

Ákærði kvaðst hafa talið sig mega dreifa órugluðu efni og hefði hann talið að hann mætti ekki senda áfram ruglað efni hefði hann ekki gert það. Keypt hefði verið áskrift að rugluðu efni. Áskriftin hefði ekki verið keypt á Íslandi. Ákærði gat ekki  svarað spurningum um það hvers vegna fyrirtækið hefði engu að síður verið að reyna að afla samninga. Hann gat þess þó að í tengslum við samningsgerð við erlendar sjónvarpsstöðvar hefði Kapalvæðingu ehf. verið afhent kort til að geta hafið útsendingar en síðar yrðu samningar svo undirritaðir. Þeir hefðu því talið sig hafa heimild til endurvarps. Ákærði taldi áskrifendur stöðvarinnar hafa verið 1500 til 1600 þegar húsleit lögreglu fór fram.

Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarformaður Kapalvæðingar ehf. og einn framkvæmdarstjórnarmanna. Hann kvaðst ekki muna hvort ákvarðanir um val efnis hafi verið teknar sameiginlega af framkvæmdastjórn. Í fyrri dómskýrslu sinni kvað hann ákvarðanir alltaf hafa verið teknar sameiginlega um nýframkvæmdir. Hann kvaðst hafa tekið þátt í að taka ákvarðanir um inntöku nýrra stöðva, ekki allra, en hann hefði þó vitað um stöðvarnar.

Er ákærði var spurður að því hvernig þeir ákærðu hefðu skipt með sér störfum kvaðst hann sjálfur hafa verið í hlutastarfi hjá fyrirtækinu, eða í kvöld- og helgarvinnu og mest haft með að gera tæknivinnu svo og uppsetningu magnara og tengingar, en einnig hefði hann komið að samningsgerð við erlendar sjónvarpsstöðvar. Hann kvað Guðmund Margeirsson hafa starfað á skrifstofu félagsins við bókhald og samskipti við áskrifendur. Hann hefði lítið sinnt tengingum en verið eitthvað í samskiptum við erlenda aðila. Hann kvað Guðmund Sigurbergsson hafa starfað við gröft og lagningu kapla og hefði hann lítið verið í tengingum og ekkert í tæknivinnu. Hann kvað Ólaf Garðar hafa verið “alt muligmann” og hefði hann einnig tekið þátt í tæknivinnu.

Ákærði kvaðst hafa talið starfsemina löglega, en á einhverju tímabili hefðu efsasemdir þó vaknað um lögmætið. Þeir hefðu frétt að Norðurljós hygðust fara í herferð gegn þeim. Þeir hefðu því leitað álits lögfræðings á Suðurnesjum á því hvort þeir væru að brjóta útvarpslög. Hann hefði tjáð þeim að svo væri ekki.

Í skýrslu sem lögregla tók af ákærða Guðmundi Margeirssyni kvað hann þá ákærðu alla fara með framkvæmdastjórn jafnt. Hann sæi um bókhald og skrifstofuvinnu og héldi utan um áskrifendur og sæi um daglegan rekstur. Hann kvaðst hafa komið að fyrirtækinu árið 2001, verið varamaður í stjórn frá 2. febrúar 2001, en komið inn í aðalstjórn á árinu 2002 og í stjórn DVD Margmiðlunar 9. september 2003.  Hann kvað starfsemi Kapalvæðingar vera fólgna í þjónustu með áskriftarsjónvarp í gegnum kapalkerfi. Kvað hann starfsemina á kerfinu hafa byrjað fyrir 20 árum og hefði verið mismunandi hvað sent var út á hverjum tíma. Hann kvað fyrirtækið senda út sjónvarpsefni sem það hefði keypt dreifingarrétt á. Þær stöðvar væru BBC Prime, Animal Planet, MTV, Discovery, National Geographic, Nickelodeon og VH1. Þá hefði fyrirtækið einnig dreift rásum sem væru ókeypis eins og BBC1, BBC 2, 3ABN, TCN, CNN, Sky News, Reality TV, BBC CBEEBIES OG EXTREM. Hann hefði ekki talið neitt athugavert við að dreifa þessum stöðvum. Ákærði kvað DVD Margmiðlun hafa keypt kapalinn og leigði Kapalvæðing ehf. nú afnot af kaplinum.

Ákærði kvað áskrifendur vera í kringum 1400 og væri árgjaldið 2.210 krónur á mánuði. Ákærði kvað Kapalvæðingu hafa dreift efni allra þeirra stöðva sem fram komu á skjali sem lagt var hald á við húsleitina. Hann kvað Kapalvæðingu ekki hafa verið með áskrift af stöðinni TV-1000 sem send hefði verið út rugluð til áskrifenda sem hefðu fengið filtera til að afrugla stöðina.

 

Ákærði Guðmundur Margeirsson skýrði svo frá fyrir dóminum að hann hefði ekki talið þá ákærðu vera að gera neitt sem væri ólöglegt. Hann kvaðst hafa komið inn í stjórn félagsins í nóvember 2002. Hann kvað þær átta stöðvar sem í ákæru greinir hafa verið sendar út á tímabili. Í fyrri dómskýrslu sinni kvað ákærði það geta staðist að TV-1000 hefði verið send út frá 2000 til 2004 og að Sky stöðvarnar hefðu verið sendar út frá 2001 til 2004. Í sömu skýrslu kvað hann ákæru ekki rétta hvað Cartoon Network áhrærir. Þeir hefðu sent Cartoon Boomerang frá 2000 til 2003, en það ár hefði Cartoon Network farið að rugla útsendingar sínar. Þeir hefðu þá leitað samninga um stöðina og keypt áskrift að stöðinni árið 2003. Þeir hefðu samt talið sig þurfa að fá heimild til að senda efni stöðvarinnar út. Ákærði kvað þá hafa sent Comedy Channel og Fox Kids út frá júlí 2002.

Í fyrri skýrslu sinni fyrir dómi kvað ákærði sér hafa verið kunnugt að heimild þyrfti frá læstum stöðvum til útsendinga. Hann kvað þá hafa getað tekið á móti útsendingum Sky með því að kaupa kort. Hið sama ætti við hinar stöðvarnar og Cartoon Netweork, þ.e. að afla hefði þurft heimilda.

Ákærði kvaðst hafa séð um bókhald, innheimtu, gröft og lagningu kapla. Allar ákvarðanir hefðu verið teknar á stjórnarfundum. Það hefðu verið sameiginlegar ákvarðanir allra stjórnarmanna. Hann kvaðst ekki muna hvernig ákvarðanir um val á efni eða að taka nýjar stöðvar inn voru teknar.

Ákærði kvaðst fyrst hafa unnið hjá félaginu árið 2001 og þá sem verktaki. Hann hefði orðið einn eigenda félagsins um mitt ár 2001 en fyrst komið inn í stjórn 2002. Hann hefði ekki komið að neinum ákvörðunum fyrr en hann kom inn í stjórnina

Ákærði kvað fjölda áskrifenda hafa verið 1500 til 1600 í lokin. Hann kvað 6 af stöðvunum er í ákæru getur hafa verið komnar í endurvarp er hann kom inn í stjórnina. Hann kvaðst hafa komið að bréfaskriftum varðandi stöðvarnar Fox Kids og Comedy Channel. Þeir hefðu byrjað á því að fá kort af Sky stöðvunum og hefðu þeir litið svo á að samningar væru komnir langleiðina í gegn á þessum tíma.

Ákærði kvaðst ekki vita hvort seljendum umræddra korta hefði verið tjáð við kaupin að Kapalvæðing ehf. ætlaði að nota kortin til að senda efni stöðvanna út til sinna áskrifenda.

Ákærði Guðmundur Sigurbergsson skýrði svo frá fyrir dóminum, að hann hefði komið að félaginu árið 2002. Hann kvaðst vita að stöðin TV-1000 hefði verið send út til ársins 2004 en um upphafið vissi hann ekki. Hann hefði lítið fylgst með stöðvunum, en séð um jarðvinnu. Hann kvað allar ákvarðanir hafa verið teknar sameiginlega á fundum. Hann kannaðist við að allar stöðvarnar 8 sem í ákæru greinir hefðu verið sendar út. Hann kvaðst í fyrri dómskýrslu sinni hafa komið inn í fyrirtækið þar sem honum hefði þótt uppbygging kapalkerfa áhugaverð. Í þeirri skýrslu kvaðst hann hafa vitað að eitthvað af Sky var sent út, t.d. fótbolti og þá kvað hann tímabil þau er í ákæru greinir geta staðist. Hann viti ekki annað réttara. Þá var undir ákærða borið það sem haft var eftir honum hjá lögreglu þar sem hann sagði: “Þekki ekki samninga en telur að varpa megi út free to air stöðvum.” Kvað ákærði þá hafa átt kort af öðrum stöðvum, sem þeir hefðu keypt. Hann hefði treyst því og vitað að kort þyrfti. Stöðvarnar hefðu ekki verið sendar út ókeypis. Hann hefði talið þá vera búna að borga fyrir stöðvarnar til að koma útbúnaðinum af stað. Annars hefði hann haft lítinn skilning á þessum tæknihliðum.

Ákærði Ólafur Halldór Garðarsson kvaðst lítið sem ekkert muna er tekin var skýrsla af honum fyrir dóminum. Í skýrslu sinni við fyrri meðferð málsins skýrði ákærði hins vegar svo frá að vel gæti staðist að útsending á TV-1000 hefði hafist árið 2000 og útsending Sky stöðva frá 2001. Cartoon Network hefði verið útvarpað frá 2001. Gerður hefði verið samningur við Cartoon Network um mitt ár 2004. Þetta hefði áður verið ólæst stöð, sem hefði verið læst frá miðju ári 2003. Hann kvað stöðvarnar Comedy Channel og Fox Kids hafa verið sendar út frá júlí 2003. Hann kvað reynt hafa verið að hafa efni fyrir sem flesta. Efni hefði verið valið af handahófi. Sumar stöðvar séu reknar á auglýsingum og séu þær þá fríar. Kaupa þurfi aðgang að öðrum stöðvum. Honum hefði ekki verið kunnugt um að afla þyrfti samninga við læstar stöðvar. Þeir hefðu þó vitað að samning þurfti við Cartoon Network, en ekki vissi hann þó af hverju samningur var gerður við Cartoon Network. Þeir hefðu keypt kort vegna hinna stöðvanna. Aðspurður hvort ekki hefði þurft að gera samning við þær, kvaðst ákærði ekki vita það. Hann kvað þá hafa keypt áskrift af Cartoon Network og dreift efni hennar en síðan reynt að fá heimild og fengið hana. Ákærði kvað áskriftargjöld hafa verið ákvörðuð á fundum. Fjöldi áskrifenda hefði verið um 1600 í lokin.

Ákærði kvaðst hafa gegnt víðtækri stöðu innan fyrirtækis. Hann hefði grafið skurði, svarað í síma o.fl. Allar ákvarðanir hefðu verið teknar sameiginlega á fundum.

Vitnið C, kvaðst hafa verið yfir áskriftarsölu og dreifingu sjónvarpsefnis hjá Norðurljósum. Ástæða könnunar á Kapalvæðingu hefði verið sú, að hún var úr Keflavík og fór að spyrjast fyrir er hún hóf störf 2002 að Kapalvæðing ehf. væri að sýna efni er Norðurljós hefur einkarétt á. Verið að sýna frá HM o.fl. Henni hefði verið kunnugt um þetta sem Keflvíkingi. Hún kvað sölu á Sýn og áskrift að Stöð 2 hafa verið minni í Njarðvíkum en annars staðar. Þá hefði sala á Fjölvarpi einnig verið minni. Hún kvað E, móðurbróður hennar hafa tekið útsendingar Kapalvæðingar ehf. upp fyrir hana á þær 6 spólur sem lagðar voru fram í málinu. Móðir hennar hefði verið í áskrift hjá Kapalvæðingu ehf.

C kvaðst hafa hafið störf hjá Stöð 2 árið 2000, en farið í nám og hafið aftur störf 2002. Hún hefði vitað af útsendingum Kapalvæðingar ehf. og hefði verið rætt í Stöð 2 um tekjumissi á Suðurnesjum í lok júlí 2002. Þá hefði farið fram endurmat. Hún kvaðst þá hafa gert yfirmönnum sínum grein fyrir þessu. Leitað hefði verið upplýsinga um málið eftir það. Hún kvaðst hafa staðið fyrir því að upptökur á útsendingum Kapalvæðingar ehf. færu fram.

Vitnið D bar fyrir dómi að hann kannaðist við þær 8 stöðvar sem Kapalvæðing ehf. sendi út á árunum 2000-2004. Hann væri úr Reykjanesbæ og hefði því horft á einhverjar af stöðvunum en þó ekki allar. Hann kannaðist ekki við að að hafa séð útsendingar frá Sky movies en hins vegar hefði hann horft e-ð á Sky sport í útsendingu Kapalvæðingar ehf. Hann kvaðst hafa unnið hjá Víkurfréttum sem hafði umboð fyrir Stöð 2. Hann hefði verið þjónustufulltrúi fyrir Stöð 2 f.h. Víkurfrétta.

Hann kvað fund hafa verið haldinn með fyrirsvarsmönnum Kapalvæðingar ehf. á árinu 2002. Tilefnið hefði verið að viðra hugmynd Stöðvar 2 um hvort hægt væri að kaupa Kapalvæðingu ehf. Áður hefði hann verið búinn að ræða þetta við C og F hjá Norðurljósum. Þetta hefði verið rætt á Stöð 2. Þeir hefðu beðið hann að koma á fundi með Kapalvæðingu ehf. og ræða málin. Það hefði hann gert og fundur verið haldinn. Hann kvað merki frá Stöð 2 sjást illa víða á Suðurnesjum ef sent er með venjulegum hætti. Kapalvæðing ehf.  endurvarpi merki frá Stöð 2 og Sýn að ósk þessara stöðva. Hann kvað þá hafa fengið margar ábendingar frá áskrifendum Kapalvæðingar ehf., áskrifendum er höfðu öðlast M-12 fríðindi hjá Stöð 2, hvort hægt væri að fá Kapalvæðingu til að útvarpa til þeirra þessum sendingum ókeypis. Fallist hefði verið á þetta og hefði Kapalvæðing ehf. sent þetta áfram til M-12 áskrifenda Stöðvar 2 án endurgjalds. Þetta hefði verið sent út ruglað. Hann kvaðst vera með áskrift hjá Stöð 2 og Sýn og sjái hann útsendingar þeirra stöðva  í gegnum Kapalvæðingu ehf. án endurgjalds til þess félags með afruglara.

Vitnið B endurskoðandi staðfesti framangreinda skýrslu sína um athugun á bókhaldi Kapalvæðingar ehf. fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa farið yfir bókhald fyrirtækisins fyrir árin 2001-2003. Reynt hefði verið að sjá þar hvaða tekjur hefðu verið færðar og grein gerð fyrir því í skýrslunni. Fram hefði komið að færðar tekjur 2003 námu um 35.000.000 krónum. Reynt hefði verið að afla gagna um fjölda áskrifenda og áskriftargjöld. Hefði komið fram við athugun að árið 2003 voru áskrifendur 1656. Farið hefði verið yfir gíróseðla, Visa nótur og Eurocard nótur o.fl. Þá hefði verið farið yfir verðskrár og breytingar. Kannað hefði verið hvað Kapalvæðing greiddi í áskriftargjöld af erlendum stöðvum.

Vitnið A bar fyrir dóminum að hann hefði farið í húsakynni Kapalvæðingar við húsleit. Myndmótar og kort hefðu verið fjarlægð.

Hann lýsti tækjabúnaði Kapalvæðingar vegna dreifingarinar. Þarna hefðu verið lykilkort. Einhver höfðu verið búin til. Allt hefðu þetta verið læstar stöðvar. Hann kvaðst ekki muna hvaða stöðvar voru með heimatilbúnum kortum. Hann átti ekki að skipta sér af öðrum stöðvum, en hann hefði fengið lista yfir þær stöðvar sem hann átti að kanna. Hann kvað mun á upprunalegum kortum og heimatilbúnum kortum. Upprunalegu kortin séu alltaf merkt framleiðendum með óafmáanlegri áletrun. Ómerkt kort séu því ekki upprunaleg.

Vitnið H lögreglumaður staðfesti skýrslu sína hjá lögreglu. Vitnið kvaðst hafa farið á heimili einstaklings í Keflavík og horft á leik Liverpool og Newcastle. Hann hefði séð merki SKY í horninu á sjónvarpsskjánum. Hann hefði séð að verið var að sýna þennan leik beint á Sky Sport og einnig á Stöð 2. Hann kvaðst þó hvorki geta staðfest né fullyrt hvernig þessi útsending barst inn á þetta tiltekna heimili.

Vitnið E kvaðst vera móðurbróðir vitnisins C. Hann kvað 15 ára dóttur sína hafa annast að taka upp á myndband fyrir C útsendingar Kapalvæðingar ehf. Hann kvaðst vera með kapalinn á sínu heimili. Þá sé heimili hans einnig í áskrift hjá Stöð 2 og Sýn. Hann kvað upptökurnar hafa verið teknar upp á einni viku. Hann hefði verið viðstaddur einhverja upptökuna.

IV.

Í máli þessu þykir leitt í ljós og sannað að Kapalvæðing ehf. tók á móti læstum útsendingum þeirra 8 sjónvarpsstöðva sem í ákæru greinir og voru útsendingarnar opnaðar með myndlyklum sem settir höfðu verið upp í aðstöðu félagsins. Sannað þykir að Kapalvæðing ehf. hafði ekki aflað sér heimilda þessara stöðva til að senda þær út til áskrifenda félagsins sem ekki höfðu greitt áskrift af þessum stöðvum. Fram er komið að Kapalvæðing ehf. keypti kort að sjö þessarra stöðva til að opna útsendingu þeirra en kort að stöðinni TV-1000 mun hafa verið útbúið hér á landi. Samkvæmt þessu þykir sannað að ákærðu hafi sem framkvæmdastjórnarmenn einkahlutafélagsins Kapalvæðingar ehf., ákærði Ólafur Halldór frá árinu 2000, en ákærðu Bjarki, Guðmundur Margeirsson og Guðmundur Sigurbergsson frá nóvember 2002, í starfi sínu fyrir félagið, staðið fyrir því að tekið var á móti læstum útsendingum neðangreindra sjónvarpsstöðva, þær opnaðar  með myndlyklum sem settir höfðu verið upp í aðstöðu félagsins við Vallarbraut í Reykjanesbæ í þeim tilgangi að veita aðilum sem ekki voru áskrifendur að umræddum útsendingum aðgang að þeim og dreift gegn endurgjaldi og án heimildar til allt að 1650 aðila í Reykjanesbæ, allt þar til lögreglan stöðvaði útsendingarnar 14. janúar 2004.

Stöðvarnar voru eftirfarandi:

9.             TV-1000, frá árinu 2000 til 14. janúar 2004.

10.          Sky One, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

11.          Sky Movies, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

12.          Sky Sport 1, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

13.          Sky Sport 2, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

14.          Cartoon Network, frá árinu 2001 til 14. janúar 2004.

15.          Comedy Channel, frá júlí 2003 til 14. janúar 2004.

16.          Fox Kids, frá júlí 2003 til 14. janúar 2004.

Ákærðu hlaut að vera það ljóst, að til þess að mega opna þessar stöðvar og senda útsendingar þeirra áfram til áskrifenda Kapalvæðingar ehf., þurfti að afla sérstakrar heimildar stöðvanna. Upplýst er í málinu að slíkra heimilda hafði verið aflað varðandi nokkrar stöðvar aðrar en þær er ákæra tekur til áður er húsleitin fór fram hjá Kapalvæðingu ehf. og þá voru jafnframt í gangi viðræður við aðrar stöðvar um slíkar heimildir og liggur fyrir að fyrirtækið hefur gert samninga við sjónvarpsstöðvar eftir áðurnefnda húsleit. Þetta bendir eindregið til þess að ákærðu hafi verið meðvitaðir um að þeir þyrftu heimild til að opna og senda áfram til áskrifenda sinna læstar útsendingar sjónvarpsstöðva. Samkvæmt framansögðu þykir mega slá því föstu að ákærðu hafi á vegum Kapalvæðingar ehf. í heimildarleysi endurvarpað til áskrifenda sinna efni framangreindra sjónvarpsstöðva, sem fyrirtækið hafði tekið á móti rugluðu en afruglað með lykilkortum sem  í sjö tilvikum höfðu verið keypt í einni áskrift fyrir hverja stöð og í einu tilviki með svokölluðu sjóræningjakorti. Á hinn bóginn  er ekki þar með sagt að slíkt ólögmætt og heimildarlaust endurvarp sé refsivert. Verður vikið að því síðar.

Ákærðu voru allir skráðir sem framkvæmdastjórnarmenn einkahlutafélagsins Kapalvæðingar ehf. og hafa þeir borið fyrir dómi að þeir hafi alltaf tekið sem slíkir sameiginlegar ákvarðanir um málefni félagsins. Þykja ákvæði hlutafélagalaga ekki standa því í vegi að sækja megi þá alla til sakar í máli þessu. Þá er ekki fallist á þá málsvörn ákærðu að vísa beri málinu frá dómi þar sem rannsókn málsins hafi verið ábótavant og því annmarkar á ákæru þar sem þáttur hvers hinna fjögurra ákærðu hafi ekki verið rannsakaður sérstaklega.

Dómurinn telur að brot samkvæmt 32. gr. og 33. gr. útvarpslaga sæti opinberri ákæru án þess að fyrir hendi þurfi að vera refsikrafa þess sem misgert er við. Þá verður að telja að ákvæði 2. mgr. 27. gr. útvarpslaga um brottfall refsiábyrgðar að liðnum sex mánuðum frá útsendingu hafi tilteknar ráðstafanir ekki verið gerðar, taki ekki til 32. og 33. gr. laganna. Umrætt ákvæði er í IX. kafla sem fjallar sérstaklega um ábyrgð á útvarpsefni. Ber því að hafna þeirri vörn ákærðu að ekki hafi verið gerð refsikrafa af hálfu þess sem misgert var við eða að refsiábyrgð hafi verið að öllu leyti eða að hluta fyrnd samkvæmt 27. gr. útvarpslaga.

   Í 2. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 er kveðið á um lögsögu yfir sjónvarpsstöðvum. Í 1. mgr. segir að lögin gildi um útsendingar á sjónvarpsdagskrám ef sendingu verður náð á Íslandi og/eða í einhverjum öðrum þeim sem bundin eru af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (“EES-ríkjum”), sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, og sú sjónvarpsstöð sem í hlut á: a. hefur staðfestu á íslandi samkvæmt skilgreiningu 3. mgr. Eru síðan í stafliðum b-e talin upp önnur skilyrði. Þá er í 3. mgr. stafliðum a-c kveðið á um það hvenær sjónvarpsstöð teljist hafa staðfestu á Íslandi samkvæmt lögunum. Í máli þessu hefur ekki verið sýnt fram á að þær sjónvarpsstöðvar sem í ákæru greinir falli undir lögsögu útvarpslaganna. Ber því að byggja á því að umræddar sjónvarpsstöðvar, sem ákæra tekur til, falli utan lögsögu útvarpslaga samkvæmt 2. gr. laganna. Í fyrri dómi í máli þessu var á því byggt að jafnvel þótt fallist væri á að þær sjónvarpsstöðvar sem ákæra tekur til féllu utan lögsögu útvarpslaganna samkvæmt 2. gr. þeirra, væri ekki þar með girt fyrir að slíkar sjónvarpsstöðvar gætu notið refsiverndar samkvæmt lögunum. Var í því sambandi vísað til athugasemda með frumvarpi til laga um breytingu á útvarpslögum þar sem vísað var til athugasemda með frumvarpi um bann við gerð og notkun myndlykla til þess að fá aðgang að læstum útvarpssendingum án greiðslu. Þar er tekið fram að tekin séu af tvímæli um að sú háttsemi sem lýst sé í 2. gr. teljist brot sem hin opinbera réttarvarsla taki til. Sömu háttsemi er lýst í 2. gr. laga um breytingu á útvarpslögum. Í athugasemdum með nefndri breytingu á útvarpslögum sagði ennfremur: „Telja verður að sú skylda hvíli á löggjafarvaldinu að það tryggi lögmætri atvinnustarfsemi sem mesta vernd gegn því að hún verði fyrir tjóni af ólögmætri starfsemi. Útvarpsstöðvum er heimilað að afla tekna með áskrift og því verður það að vera ótvírætt í lögum að móttaka slíks efnis án heimildar útvarpsstöðvarinnar og án greiðslu tilskilins áskriftargjalds sé ólögmæt. Hafa ber í huga að hundruð manna hafa atvinnu og lífsframfæri sitt af þessari starfsemi. Óheimil móttaka felur jafnframt í sér brot gegn hagsmunum annarra en útvarpsstöðvarinnar, ekki síst þeirra aðila sem eiga höfundarrétt að því efni sem sent er út. Gildandi löggjöf veitir ekki vernd í þessu efni. Af þeim ástæðum er frumvarp þetta flutt.“

Í ljósi þess að gera verður strangar kröfur um að refsiheimild í lögum sé óyggjandi fyrir hendi og sé skýr og á grundvelli nánari skoðunar hefur dómurinn nú komist að annarri niðurstöðu en í fyrri dómsúrlausn um það álitamál hvort refsiákvæðum útvarpslaga verði beitt í þessu máli. Eins og ráða má af lögskýringargögnum var ákvæði 33. gr. útvarpslaga fyrst og fremst sett til verndar íslenskum sjónvarpsstöðvum sem voru með læsta dagskrá og innheimtu áskriftargjöld. Með lagasetningunni var verið að bregðast við því að eigendur sjónvarpstækja gætu ekki notað svonefnd sjóræningjakort eða sjóræningjaafruglara til að taka á móti læstri útsendingu án þess að greiða áskriftargjaldið. Hafði talsvert verið um það fyrir setningu lagaákvæðisins. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu um að samkvæmt 2. gr. útvarpslaga falli engin þeirra sjónvarpsstöðva sem ákæra tekur undir gildissvið útvarpslaga er það niðurstaða dómsins að ákvæði 33. gr. útvarpslaga taki ekki til útsendingar umræddra stöðva. Ber því að sýkna alla ákærðu fyrir brot gegn 33. gr. útvarpslaga.

Með sömu rökum og að ofan getur verða ákærðu ekki sakfelldir fyrir brot gegn 32. gr. útvarpslaga, en auk þess er fallist á þau sjónarmið ákærðu að umrætt lagaákvæði sem hljóðar svo: „Óheimilt er útvarpsnotanda að hagnýta sér útvarpsefni til tekjuöflunar, t.d. með upptöku þess, útgáfu eða með því að selja aðgang að tæki sínu“, taki ekki til Kapalvæðingar ehf., sem stundi endurvarp sjónvarpsefnis og geti ekki talist útvarpsnotandi í skilningi lagaákvæðisins. Er því niðurstaða dómsins að sýkna beri alla ákærðu fyrir brot gegn 32. gr. útvarpslaga.               

Með hliðsjón af framansögðu telst ósannað að ákærðu hafi gerst sekir um refsiverðan verknað eins og þeim er gefið að sök í ákæru og ber því að sýkna þá alla af refsikröfu ákæruvaldsins.

 

Eftir þessum úrslitum ber að sýkna einkahlutafélögin Kapalvæðingu ehf. og DVD-margmiðlun, sem ákærðu eru í fyrirsvari fyrir, af  kröfu um að félögin verði dæmd til að þola upptöku á 8 myndlyklum, 8 myndmóturum og 8 lykilkortum, sem hald var lagt á við rannsókn málsins.

Eftir þessum úrslitum ber að vísa bótakröfu Norðurljósa samskiptafélags hf. á hendur ákærðu frá dómi.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma ríkissjóð til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda Bjarka Elíassonar, Gizurs Bergsteinssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Guðmundar Margeirssonar, Guðmundar Sigurbergssonar og Ólafa Halldórs Garðarssonar, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 600.000 að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan sakarkostnað leiddi ekki af málsmeðferðinni

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.    

D ó m s o r ð :

Ákærðu, Bjarki Elíasson, Guðmundur Margeirsson, Guðmundur Sigurbergsson og Ólafur Halldór Garðarsson, eru sýknaðir af refsikröfu ákæruvaldsins á hendur þeim.

Einkahlutafélgögin Kapalvæðing og DVD Margmiðlun eru sýknuð af kröfu ákæruvaldsins um upptöku til ríkissjóðs á 8 myndlyklum, 8 myndmóturum og 8 lykilkortum sem lagt var hald á við rannsókn máls þessa.

Bótakröfu Norðurljósa samskiptafélags hf. á hendur ákærðu, að fjárhæð 290.096.280 krónur auka vaxta og kostnaðar, er vísað frá dómi.

Málsvarnarlaun Gizurar Bergsteinssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða Bjarka Elíassonar, 400.000 krónur og málsvarnarlaun Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærðu Guðmundar Margeirssonar, Guðmundar Sigurbergssonar og Ólafs Halldórs Garðarssonar, 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.