Hæstiréttur íslands
Mál nr. 751/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. nóvember 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að ákvæði hins kærða úrskurðar um einangrunarvist hans verði fellt úr gildi. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2016.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag með vísan til a og d liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og b liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. nóvember 2016, kl. 16:00, og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess að henni verði hafnað, til vara að kröfu um einangrun verði hafnað og til þrautavara að kröfunni verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögreglustjórinn hafi undanfarið haft til rannsóknar lögreglumál nr. 008-2016-13836 er varði innflutning á ætluðum ávana- og fíkniefnum hingað til lands. Hinn 27. október hafi tilkynning borist frá tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um að kærði, X, hefði verið stöðvaður í komusal, vegna gruns um að hann kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum í við komu til landsins með flugi [...] frá [...]. Hafi hann greint frá að innvortis hefði hann 41 pakkningu af kókaíni. Í kjölfarið hafi kærði verið handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var vistaður á lögreglustöð.
Kærði hafi skilað af sér efnunum og hafi tæknirannsókn leitt í ljós að um var að ræða 275,97 af kókaíni en óljóst er um styrkleika á þessari stundu.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og miði út frá því að kærði hafi flutt töluvert magn ætlaðra ávana- og fíkniefna hingað til lands og að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Beinist rannsóknin að því að rannsaka nánar skipulagningu og hlutverk kærða í innflutningnum, aðdraganda hans og loks fjármögnun ferðarinnar hingað til lands. Á þessum tímapunkti sé unnið að því að hafa hendur í hári vitorðsmanna kærða hér á landi, sbr. nánar rannsóknargögn málsins. Telji lögregla sig þurfa svigrúm til að vinna nánar úr þeim gögnum sem hún hefur undir höndum og upplýst geta um framangreind atriði auk þess sem fyrirliggjandi eru rannsóknaraðgerðir til að hafa hendur í hári vitorðsmanna kærða, sbr. nánar rannsóknargögn málsins. Sé því nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi og í ljósi þess sem fram hefur komið við rannsóknina sé að sama skapi nauðsynlegt að honum verði gert að sæta einangrun.
Verið sé að rannsaka innflutning á hættulegum ávana- og fíkniefnum sem að mati lögreglu hafi verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst brotlegur við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Að mati lögreglustjóra séu lagaskilyrði uppfyllt fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar. Telji lögreglustjóri að ætla megi að kærði kunni að torvelda áframhaldandi rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Séu þannig uppfyllt skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt telji lögreglustjóri, í ljósi þess sem fram hafi komið við rannsókn málsins, að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja kærða fyrir árásum eða áhrifum samverkamanna.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. nóvember 2016, kl. 16.00.
Þess sé einnig krafist að kærða verði gert að sæta einangrun, sbr. b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á meðan gæsluvarðhaldi stendur með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna.
Með úrskurði 27. október var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Rannsakandi hefur gert grein fyrir gangi rannsóknarinnar og verður fallsit á með honum, sem er í samræmi við framlögð gögn í málinu, að enn sé þörf á áframhaldandi gæsluvarðhaldi og einangrun kærða svo ljúka megi rannsókn málsins. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins. Með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. nóvember 2016, kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.