Hæstiréttur íslands

Mál nr. 245/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


                                     

Þriðjudaginn 31. mars 2015.

Nr. 245/2015.

A

(Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Lögræði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í eitt ár. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2015, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Að virtum læknisfræðilegum gögnum málsins um geðhagi sóknaraðila, sem getið er um í hinum kærða úrskurði, verður fallist á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 4. gr. lögræðislaga til að sóknaraðili verði svipt sjálfræði. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2015.

Ár 2015, fimmtudaginn 19. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, í lögræðismálinu nr. 22/2015: Velferðarsvið Reykjavíkurborgar gegn A, kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

                Með beiðni, dagsettri 17. mars 2015, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess með vísan til a- og b- liðar 4. gr. og 1. tl. 5. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, að varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...], verði svipt sjálfræði í eitt ár, svo unnt sé að veita henni  læknismeðferð við geðsjúkdómi, en hún sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna sjúkdómsins.  Um aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. 

Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt. 

Í málinu er vottorð B geðlæknis, sem hann hefur staðfest fyrir dóminum.  Mælir læknirinn þar með því að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í 12 mánuði.  Í skýrslu fyrir dóminum kveður læknirinn varnaraðila vera haldinn geðrofssjúkdómi en endanleg sjúkdómsgreining liggi þó ekki fyrir.  Þá segir hann sjúkdóminn geta verið tengdan fíkniefnaneyslu.  Einkennin séu ofskynjanir og ranghugmyndir.  Varnaraðili hafi margsinnis áður vistast á geðdeild af þessum sökum en ekki hafi hingað til verið fyrir að fara nægilegu innsæi eða meðferðarheldni hjá henni, þótt hún hafi yfirleitt verið jákvæð og samvinnufús.  Skorti hana ef til vill getu til þess að halda sér við meðferð.  Eftir að hún hafi farið af geðdeild hafi hún búið við óviðunandi geðhagi og svo endað með því að vera vistuð á ný á geðdeild.  Sé nú fullreynt með hana og nauðsynlegt að hún verði svipt sjálfræði í lengri tíma en sex mánuði.  Þurfi hún að fara í endurhæfingu á Kleppsspítala og einnig þurfi að greina sjúkdóminn til fulls.

Dómurinn álítur vafalaust af því sem að framan var rakið að A sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi og af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum.  Sé jafnframt nauðsynlegt að vista hana á sjúkrahúsi.  Ber að ákveða að hún skuli af þessum sökum vera svipt sjálfræði í eitt ár.

                Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði kostnað af málinu, þ.m.t. þóknun talsmanns varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 75.000 krónur.  Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...], er svipt sjálfræði í eitt ár.

                Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl.,  75.000 krónur, svo og annar kostnaður af málinu, 60.368 krónur, greiðist úr ríkissjóði.