Hæstiréttur íslands
Mál nr. 90/2005
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 26. maí 2005. |
|
Nr. 90/2005. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Elimar Tómasi Reynissyni(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Skilorðsrof.
Við húsleit hjá E fannst nokkurt magn fíkniefna og viðurkenndi E við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa keypt 300 grömm af amfetamíni og hafa smyglað því sjálfur til landsins. Kvaðst E hafa drýgt efnið með mjólkursykri og hafa pakkað því í 50 gramma einingar, sem hann hafi ætlað að selja það í. Voru honum sýndar ljósmyndir af efninu, sem haldlagt hafði verið á heimili hans og staðfesti hann að hann væri eigandi þess. Fyrir dómi breytti E framburði sínum og kvaðst þá aðeins hafa haft vörslur efnisins en neitaði að hafa flutt það inn. Héraðsdómur taldi skýringar sem E gaf á breyttum framburði ótrúverðugar og sakfelldi hann í samræmi við verknaðarlýsingu ákæru. Í dómi Hæstaréttar sagði að þar sem ákæruvaldinu hefði ekki tekist með öðrum gögnum að sanna að E hefði flutt efnið inn yrði hann sýknaður af þeirri háttsemi. Hins vegar var talið að E hefði lýst magni efnanna, blöndun og frágangi á þann hátt að ekki samræmdist framburði hans fyrir dómi og var hann því sakfelldur fyrir að hafa blandað framangreint magn amfetamíns með mjólkursykri, hafa haft efnið í vörslum sínum og ætlað að selja það hér á landi. Þrátt fyrir framangreinda breytingu á niðurstöðu héraðsdóms var með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála staðfest niðurstaða hans um 18 mánaða fangelsisrefsingu E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2005 samkvæmt yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins að því er varðar innflutning á 300 g af amfetamíni til sölu hér á landi og jafnframt að refsing verði milduð.
Svo sem nánar greinir í héraðsdómi segir í frumskýrslu lögreglu um leit þá sem gerð var á heimili ákærða 30. janúar 2004, þegar hann lá undir grun um að hafa með höndum sölu og dreifingu fíkniefna, að hann hafi verið rólegur og strax samvinnufús og framvísað þeim fíkniefnum sem á heimili hans voru og mál þetta fjallar um. Hann veitti lögreglu heimild til að leita á heimilinu og vísaði henni á pakka undir rúmi í svefnherbergi, svo og fíkniefni á stofuborði. Pakkinn var opnaður í tæknideild lögreglunnar sama dag og reyndust í honum 527,81 g af amfetamíni sem blandað hafði verið mjólkursykri og pakkað í ellefu poka með um það bil 50 g í hverjum. Við skýrslugjöf hjá lögreglu sama dag kvaðst hann hafa keypt 300 g af hreinu amfetamíni í Kaupmannahöfn í desember og smyglað því sjálfur til landsins til þess að endurselja það með hagnaði. Hann hafi drýgt það með mjólkursykri og pakkað því í 50 g einingar, sem hann hafi ætlað að selja það í, enda ekki ætlað að selja sjálfur í smásölu. Eftir þessa frásögn voru honum sýndar ljósmyndir af því sem í pakkanum var og staðfesti hann að það væru fíkniefnin sem haldlögð voru á heimili hans og að hann væri eigandi þeirra.
Fyrir héraðsdómi dró ákærði til baka játningu sína um innflutning efnanna en viðurkenndi að hafa haft vörslur þeirra. Fyrir héraðsdóm kom vitni sem kvaðst hafa flutt efnin inn og eiga þau en komið þeim fyrir í geymslu hjá ákærða. Fallist er á með héraðsdómi að framburður vitnisins hafi ekki þýðingu í málinu.
Ákærði hefur tekið aftur frásögn sína um að hafa flutt inn fíkniefnin. Hann ber því við að hann hafi játað þetta á sig til þess að þurfa ekki að sæta gæsluvarðhaldi með þeirri einangrun sem því fylgdi. Ákæruvaldinu hefur ekki tekist með öðrum gögnum að sanna að ákærði hafi flutt inn efnin og verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi. Ákærði lýsti magni efnanna, blöndun og frágangi á þann hátt að ekki fær samrýmst framburði hans fyrir dómi. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að ákærði hafi gerst sekur um að hafa blandað 300 g af amfetamíni með mjólkursykri eins og í ákæru greinir og haft efnið í vörslum sínum og ætlað að selja það hér á landi, auk þess að hafa haft í vörslum sínum þau fíkniefni önnur sem í ákæru greinir. Eru brot hans réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Þrátt fyrir framangreinda breytingu á niðurstöðu héraðsdóms að því er varðar sakfellingu ákærða er með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum ekki ástæða til að breyta ákvörðun um refsingu ákærða, enda lét hann ekki segjast við skilorðsdóm þann fyrir fíkniefnabrot er hann hlaut skömmu áður en hann framdi þessi brot. Ákvæði um upptöku efna og sakarkostnað verða og staðfest.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Elimar Tómas Reynisson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2004.
Málið, sem var dómtekið 24. f.m., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Keflavík, útgefinni 28. maí 2004, á hendur Elimar Tómasi Reynissyni, [kt.], Bergvegi 17, Reykjanesbæ „fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, í desember 2003, flutt hingað til lands frá Danmörku 300 g af afmetamíni og blandað það með mjólkursykri þannig að úr urðu a.m.k. 527,81 g, en efnið var í vörslum ákærða á heimili hans þegar lögregla handtók hann 30. janúar 2004. Magn amfetamínbasa í þurrkuðu sýni hins blandaða efnis var 8,5%, sem samsvarar 11,6% af afmetamínsúlfati, en ákærði ætlaði að selja efnið hér á landi. Þá er hann ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum í umrætt sinn á heimili sínu 0,86 g af amfetamíni og 5 MDMA pillur [...]“.
Í ákæru er sú háttsemi sem lýst er í ákæru talin varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með áorðnum breytingum og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld lyf, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum.
Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af sakargiftum um innflutning á 300 g af afmetamíni. Þá gerir ákærði þá kröfu að honum verði gerð vægasta refsing sem lög frekast leyfa fyrir að hafa haft þau fíkniefni sem tilgreind eru í ákæru í vörslum sínum aðfaranótt föstudagsins 30. janúar 2004. Loks krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa.
I.
Málsatvik eru þau að aðfaranótt föstudagsins 30. janúar 2004 réðust lögreglumenn til inngöngu á heimili ákærða að Bergvegi 17 í Reykjanesbæ. Lá ákærði þá undir grun um að hafa með höndum sölu og dreifingu fíkniefna. Í frumskýrslu lögreglu segir meðal annars svo: „Elimar var mjög rólegur og strax samvinnufús við lögregluna. Elimar tjáði viðstöddum lögreglumönnum að hann væri með fíkniefni inni á heimili sínu. Hann kvaðst vilja framvísa þeim fíkniefnum sem væru á heimili hans. Hann kvaðst vera með nokkrar e-töflur sem væru á borði í stofunni og að um 500 til 700 grömm af amfetamíni væru undir rúmi í svefnherbergi hans.“
Samkvæmt skýrslu lögreglu um leit á heimili ákærða og handlagningu vísaði ákærði á pakkningu undir rúmi í svefnherbergi sínu og plastpoka á stofuborði sem í reyndust vera 5 töflur. Þá fann lögregla matardisk með hvítu dufti á. Þegar framangreind pakkning var opnuð af lögreglumanni hjá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík sama dag og hald var lagt á hana kom í ljós efni sem við litaprófun greindist sem amfetamín. Var efnið vigtað og reyndist það vera 527,81 g. Var efnissýni, 2,25 g, sent í rannsókn til rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 30. janúar 2004. Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents og Svövu Þórðardóttur lyfjafræðings 10. mars 2004 segir svo um rannsókn á sýninu: „Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og ýmsum efnaprófum fannst að duftið innihélt amfetamín, koffein og laktósu. Efnapróf bentu til þess að amfetamínið væri að mestu á formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínbasa í þurrkuðu sýni var 8,5%, sem samsvarar 11,6% af amfetamínsúlfati. Magn koffeins í sýninu var 17%.“ Í skýrslu tveggja lögreglumanna við tæknideild lögreglunnar í Reykjavík kemur fram að framangreindar töflur hafi við litaprófun greinst sem E-pillur (Ectasy) og hvíta duftið sem amfetamín. Hafi þyngd duftsins við vigtun reynst vera 0,86 g.
II.
Tekin var skýrsla af ákærða á lögreglustöðinni í Reykjanesbæ laust eftir hádegi föstudaginn 30. janúar 2004. Þar viðurkenndi hann skýlaust að hafa í lok árs 2003 flutt hingað til lands 300 g af amfetamíni. Hann hafi staðið einn að þessum innflutningi. Lögregla hafi lagt hald á þessi fíkniefni við húsleit á heimili hans hina umræddu nótt. Var ákæra í málinu, sem eins og fram er komið var gefin út 28. maí 2004, grundvölluð á þessum framburði ákærða. Fyrir dómi hefur ákærði gengist við því að það amfetamín sem hér um ræðir hafi verið í vörslum hans. Hann hefur hins vegar neitað því að hann hafi átt efnið og hafnað aðild að innflutningi á því. Hafi maður að nafi A komið til ákærða og beðið hann um að geyma umrædda pakkningu. Kveðst ákærði hafa haft grun um að pakkningin innihéldi fíkniefni.
Í framangreindri skýrslu sinni hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að hann hafi farið til Kaupmannahafnar í lok árs 2003, að líkindum rétt fyrir jól. Þar hafi hann keypt 300 g af amfetamíni fyrir 300.000 krónur og smyglað því hingað til lands. Aðspurður kvaðst hann ekki vilja upplýsa með hvaða hætti hann hefði komið fíkniefnunum til landsins. Efnin hafi hann keypt til að endurselja þau hér á landi. Hafi hann blandað amfetamíninu saman við mjólkursykur þannig að á móti hverjum skammti af amfetamín hafi komið tveir skammtar af mjólkursykri. Hafi hann ætlað sér að selja fíkniefnin í 50 g einingum fyrir 125.000 krónur. Þannig hafi hann ætlað að hagnast um 1.500.000 (sic) krónur á þessum innflutningi. Hafi hann ákveðið að verða sér úti um fjármagn með innflutningi fíkniefna og sölu þeirra hér á landi, en með því gæti hann staðið undir eigin fíkniefnaneyslu og einnig greitt gamlar fíkniefnaskuldir sínar. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði hafa staðið einn að þessum fíkniefnainnflutningi og að hann hafi einn verið eigandi efnanna.
Á meðal rannsóknargagna málsins eru tvær lögregluskýrslur um komu A á lögreglustöðina í Reykjanesbæ. Í þeirri fyrri, sem rituð er af Lofti Guðna Kristjánssyni rannsóknarlögreglumanni, kemur fram að A hafi komið sjálfviljugur á lögreglustöðina 13. febrúar 2004 og viljað játa á sig fíkniefnabrot. Hafi hann staðhæft að hann væri eigandi þeirra fíkniefna sem lögregla hafi haldlagt á heimili ákærða 30. janúar 2004. Frásögn A hafi hins vegar ekki samræmst fyrirliggjandi staðreyndum í málinu og hafi því ekki þótt ástæða til að taka af honum formlega skýrslu. Í seinni lögregluskýrslunni, sem er rituð af Rúnari Fossádal Árnasyni rannsóknarlögreglumanni 8. mars 2004, kemur fram að A hafi komið á lögreglustöð 12. febrúar 2004 eftir að hafa hringt ítrekað í lögreglumanninn. Sökum ástands hans hafi ekki verið unnt að taka af honum skýrslu, en hann hafi komið því á framfæri að hann væri eigandi þeirra fíkniefna sem lögregla hafi lagt hald á hjá ákærða. Hafi A verið bent á að hafa samband við lögmann og mæta ásamt honum til skýrslutöku vegna málsins. Hinn 17. febrúar 2004 hafi verið ætlunin að taka skýrslu af A og hafi lögmaður af því tilefni mætt á lögreglustöð. A hafi hins vegar ekki látið sjá sig og engin forföll boðað. A hafi síðan haft samband við lögreglu 8. mars 2004 og þá viljað mæta með nafngreindum lögmanni til skýrslutöku. Hafi honum þá verið tjáð að gerð yrði skýrsla um samskipti hans við lögreglu vegna málsins. Jafnframt hafi verið haft samband við lögmanninn, sem lýst hafi sig reiðubúinn til að koma að málinu með A á síðari stigum málsins. Aldrei kom þó til þess að lögregla tæki skýrslu af A vegna hugsanlegrar aðildar hans að innflutningi þeirra fíkniefna sem um ræðir í málinu.
Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að A hefði komið á heimili hans einhverjum dögum áður en lögregla fann fíkinefni þar. Hafi A haft böggul meðferðis sem hann hafi rétt ákærða og beðið hann um að geyma fyrir sig. Kvaðst ákærði hafi verið undir áhrifum lyfja og áfengis þá er þetta gerðist og reyndar næstu daga á undan og öll atvik af þeirri ástæðu óljós í huga hans. Hann hafi ekkert þekkt til A á þessum tíma. Engu að síður hafi hann grunað að böggullinn innihéldi fíkniefni. Hann hafi ekki opnað böggulinn en líklega fært hann til og að endingu sett hann undir rúm í svefnherbergi sínu. Fyrir dómi las ákærði yfir skýrslu sínu hjá lögreglu og kvað þar rétt eftir sér haft. Að auki kom fram hjá ákærða að hann hafi aldrei haft orð á því við lögreglu að hann væri ekki eigandi fíkniefnanna. Þá staðfesti hann að honum hefði verið gefinn kostur verjanda, en afþakkað það. Þegar ákærði var í ljósi framburðar síns fyrir dómi inntur eftir ástæðu þess að hann gekkst afdráttarlaust við því hjá lögreglu að vera eigandi umræddra fíkniefna og að hafa flutt þau til landsins kvaðst ákærði hafa viljað gera allt til að forðast gæsluvarðhald og einangrun sem því fylgir, en legið hafi ljóst fyrir að hann yrði úrskurðaður í varðhald ef hann játaði ekki. Hann hafi sætt gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn á öðru máli og ekki getað hugsað sér að lenda í þeirri aðstöðu aftur. Hræðsla við gæsluvarðhald hafi síðan orðið til þess að hann hafi ekki skýrt lögreglu frá hinu rétta. Fram kom hjá ákærða að hann hafi farið til Danmerkur í desember 2003. Er þetta í samræmi við vitnisburð tollvarðar fyrir dómi, en samkvæmt honum kom ákærði hingað til lands frá Kaupmannahöfn 3. desember 2003. Fram kom hjá tollverðinum að framkvæmd hafi verið leit á ákærða og í farangri hans, en hún hafi ekki gefið tilefni til frekari afskipta.
Rúnar Fossádal Árnason rannsóknarlögreglumaður var einn þeirra lögreglumanna sem fóru inn á heimili ákærða aðfaranótt föstudagsins 30. janúar 2004. Í skýrslu hans fyrir dómi kom fram að ástæða þessara afskipta hafi verið rökstuddur grunur um ákærði hefði fíkniefni í fórum sínum. Í þann mund sem ráðist hafi verið til inngöngu á heimili ákærða hafi hann hlaupið í átt að svefnherbergi í húsinu, en staðnæmst þegar lögreglan skipaði honum að gera það. Hann hafi síðar vísað lögreglu á böggul undir rúmi í þessu herbergi, en hann hafi reynst innihalda fíkniefni. Eftir húsleit, sem ákærði hafi heimilað, hafi hann verið færður á lögreglustöð. Í fangaklefa á lögreglustöðinni hafi Rúnar rætt við ákærða, sem strax hafi lýst þeim vilja sínum að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ákærði hafi á þessu stigi gert sér grein fyrir því í ljósi umfangs málsins að krafist yrði gæsluvarðhalds yfir honum ef þörf væri talin á því vegna rannsóknarhagsmuna. Við yfirheyrslu þennan sama dag, sem Rúnar hafði með höndum, hafi ákærði síðan gengist við því að eiga fíkniefnin og að hafa flutt þau til landsins. Frásögn hans hafi verið trúverðug, hann hafi greint skilmerkilega frá öllum atvikum. Hafi hann aldrei haft orð á því allt frá handtöku og þar til honum var sleppt úr haldi að hann ætti ekki þessi efni. Varðandi aðkomu A að málinu skýrði Rúnar svo frá að hann hafi í nokkur skipti rætt við A í síma vegna málsins. Þá hafi A í eitt skipti komið á lögreglustöð, en ekki hafi verið unnt að taka af honum skýrslu þá sökum ástands hans.
Guðjón Grétar Aðalsteinsson lögreglumaður tók þátt í lögregluaðgerðum á heimili ákærða hina umræddu nótt. Í vitnisburði hans fyrir dómi kom fram að ákærði hafi hafi auk böggulsins, sem var undir rúmi í svefnherbergi hans, vísað lögreglu á þær fimm töflur sem lagt var hald á við húsleitina. Þá hafi fundist duft á matardiski. Hafi ákærði haft orð á því þegar hann var spurður um duftið að hann hefði gleymt því að þetta væri þarna.
A kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Þar gekkst hann við því að hafa verið eigandi þeirra fíkniefna sem fundust á heimili ákærða aðfaranótt 30. janúar 2004. Kvaðst hafa fengið ónafngreindan vin sinn til þess að kaupa fíkniefnin fyrir sig í Þýskalandi og senda þau hingað til lands á „hreina kennitölu“ eins og hann orðaði það. Um hafi verð að ræða 200 g af amfetamíni. Kvaðst A sjálfur hafa fjármagnað fíkniefnakaupin, meðal annars með sölu fíkniefna. Kaupverðið hafi numið um það bil 3.000 evrum. Fíkniefnin hafi verið send hingað til lands í niðursuðudós og sendingin verið afgreidd á pósthúsi í Kópavogi. Þegar hann hafi fengið sendinguna í hendur hafi hann byrjað á því að taka 50 g frá til eigin neyslu, en þeim 150 g sem eftir voru hafi hann blandað saman við mjólkursykur í hlutföllunum einn á móti þremur. Þannig hafi hann fengið út um það bil 600 g, sem hann hafi síðan ætlað að koma í sölu. Hafi hann sett þetta efni í nokkra litla plastpoka og þá í stóran plastpoka (innkaupapoka). Utan um innkaupapokann hafi hann vafið svörtu límbandi. Efninu hafi hann fljótlega komið í geymslu hjá vini sínum í Kópavogi. Hann hafi síðan haft í hyggju að koma því í sölu á Suðurnesjum. Hafi hann haldið til Keflavíkur stuttu eftir að honum bárust fíkniefnin og hafi ætlunin verið að hitta þar mann sem hefði átt að taka fíkniefnin í sínar vörslur. Sá hafi þá verið staddur á Akureyri. Hafi A verið í fylgd annars manns í Keflavík og sá farið með hann heim til ákærða. Þangað hafi þeir komið seinnipart dags og dvalið þar fram yfir miðnætt. Talverður hópur fólks hafi þá verið á heimili ákærða. Kvaðst A hafa falið framangreindan böggul innan klæða í nokkra stund en síðan afráðið að koma honum fyrir í frystigeymslu á heimili ákærða. Hafi hann gert þetta með leynd og ekkert rætt málið við ákærða. Ákærði hafi þannig ekki verið kunnugt um fíkniefnin. Kvaðst A hafa ætlað að nálgast böggulinn tveimur dögum seinna, en þá haft af því fregnir að lögregla hefði lagt hald á hann í millitíðinni. Aðspurður kvaðst A ekki hafa þekkt ákærða á þessum tíma, einungis heyrt hann nefndan. Þegar A var inntur eftir tímasetningum kvaðst hann í fyrstu telja að hann hefði flutt umrædd fíkniefni hingað til lands í mars 2003, svo og að hann hefði komið þeim í geymslu hjá ákærða fyrir sumarbyrjun. Annars var framburður A lítt afdráttarlaus hvað þetta varðar allt þar til honum var bent á að lagt hefði verið hald á fíkniefnin við leit á heimili ákærða 30. janúar 2004. Skýrði hann þá svo frá að hann hefði lokið afplánun 6 mánaða fangelsisvistar 8. janúar 2004 og þá strax byrjað að vinna í því að kaupa fíkniefni erlendis frá. Gekk framburður ákærða út á það eftir þetta að hann hefði fengið fíkiefnin í hendur stuttu eftir að framangreindri afplánun hans lauk og komið þeim fyrir í frystigeymslu á heimili ákærða ekki seinna en 28. janúar 2004. Sérstaklega aðspurður kvaðst A ekki vilja nafngreina nokkurn þann sem borið gæti um framangreinda frásögn hans. Þá fullyrti A að hann hefði ekkert rætt við ákærða um fíkniefnin og kvaðst hafa komið þeim fyrir í frystigeymslu á heimili hans með leynd og þannig án þess að ákærði hefði um það vitneskju.
Ákærði var ekki viðstaddur þá er A gaf framangreinda skýrslu sína. Þegar skýrslan var borin undir hann í þinghaldi 24. þ.m. áréttaði ákærði fyrri framburð sinn þess efnis að hann hefði verið undir áhrifum lyfja og áfengis á þeim tíma sem um ræðir og hann gæti þar af leiðandi ekki borið með vissu um samskipti sín við A. Framburð hans yrði að meta í þessu ljósi. Var ákærði helst á því þegar honum hafði verið kynntur framburður A að hann hefði fundið umræddan böggul í frystigeymslu á heimili sínu, tekið hann þaðan og falið hann undir rúmi í svefnherbergi sínu. Hafði ákærði á orði að hann hefði ekki viljað hafa böggulinn á glámbekk.
Fyrir liggur í málinu að A var með dómi Hæstaréttar 23. september 2004 dæmdur til að sæta fangelsi í 3 ár og sex mánuði fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. og 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eignaspjöll og þjófnað 31. maí 2003 og tvo þjófnaðarbrot 24. og 28. júní 2003. Með dómi sínum staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. mars 2004. Var ákæra vegna fyrri brotanna gefin út 10. desember 2003, en 14. janúar 2004 vegna umræddra tveggja þjófnaðabrota.
III.
Sakargiftir á hendur ákærða taka aðallega til þess að hann hafi í desember 2003 flutt hingað til lands 300 g af amfetamíni og að hafa ætlað að selja efnið hér á landi. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 30. janúar 2004 gekkst ákærði skýlaust við þessum sakargiftum. Allt fram að þingfestingu málsins, eða í rúma fimm mánuði, stóð þessi játning ákærða óhögguð. Þá hefur hann fyrir dómi staðfest að í þeirri skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu og rakin er í kafla II hér að framan hafi í einu og öllu verið réttilega eftir honum haft. Við dómsmeðferð málsins hefur ákærði hins vegar staðhæft að hann hafi verið að geyma fíkniefnin fyrir annan mann og ekkert haft með innflutning eða fyrirhugaða sölu þeirra hér á landi að gera.
A hefur fyrir dómi gengist við því að vera eigandi þess amfetamíns sem lögregla lagði hald á við húsleit á heimili ákærða aðfaranótt föstudagsins 30. janúar 2004, en efninu, sem vó 527,81 g, hafði verið komið fyrir í plastpoka og fannst undir rúmi í svefnherbergi ákærða. Þá hefur A staðhæft að hann hafi staðið einn að innflutningi fíkniefnanna hingað til lands og að hann hafi komið þeim fyrir í frystigeymslu á heimili ákærða án vitneskju hans. Fyrir liggur í ransóknargögnum málsins að A hafði í nokkur skipti samband við lögreglu á fyrr hluta árs 2004 og kom því á framfæri við hana að hann væri eigandi umræddra fíkniefna. Aldrei kom þó til þess að tekin væri af honum skýrsla af þessu tilefni.
Í skýrslu ákærða hjá lögreglu kom fram að hann hafi keypt 300 g af amfetamíni í Kaupmannahöfn í lok árs 2003. Hann hafi sjálfur smyglað þessum fíkniefnum til landsins, en neitaði að upplýsa með hvaða hætti hann hefði gert það. Með vitnisburði Þorsteins Haraldssonar yfirtollvarðar hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli er upplýst að ákærði kom hingað til lands frá Kaupmannahöfn 3. desember 2003. Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði ákærði upphaflega svo frá að A hefði afhent honum böggul sem hann hefði beðið ákærða um að geyma. Kvaðst ákærða hafa grunað að fíkniefni væru í bögglinum. Svo sem fram er komið hefur A skýrt svo frá að hann hafi komið böggli sem innihélt fíkniefni fyrir í frystigeymslu á heimili ákærða og án vitundar hans. Fá skýrslur ákærða og A ekki samrýmst að þessu leyti. Þegar þessi frásögn A var borin undir ákærða var hann hins vegar helst á því að framburður sinn um þetta væri rangur. Hið rétta væri að hann hefði fundið böggulinn og komið honum fyrir undir rúmi í svefnherbergi sínu.
Fram er komið að áður en ákærði gaf skýrslu sína hjá lögreglu var honum kynntur réttur hans til að fá tilnefndan verjanda. Kaus hann að nýta sér ekki þennan rétt sinn. Þá hefur ekkert komið fram um það að ástand ákærða hafi verið með þeim hætti þá er hann gaf þessa skýrslu sína að það geti skipti máli þegar lagt er mat á gildi hennar við úrlausn málsins. Ber í því sambandi að hafa í huga að skýrslutaka hófst rúmum 12 klukkustundum eftir að ákærði var handtekinn og um það bil 10 klukkustundum eftir að hann var vistaður í fangaklefa.
Framburður A um tímasetningar var upphaflega mjög á reiki. Þegar honum var bent á að lagt hefði verið hald á fíkniefnin á heimili ákærða 30. janúar 2004 gekk framburður hans út á það að hann hefði látið kaupa fíkniefnin fyrir sig í Þýskalandi í kjölfar þess að hann lauk afplánun refsidóms 8. janúar 2004. Hið rétta er að samkvæmt bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins 22. nóvember 2004 hóf A afplánun 6 mánaða fangelsisrefsingar 30. júní 2003 og lauk henni 27. desember sama árs. Á fjármögnun til kaupa á umræddum fíkniefnum, kaup og innflutningur þeirra frá Þýskalandi og sú meðhöndlun hans á þeim sem að hans sögn átti sér stað fram til þess að fór með þau heim til ákærða þannig að hafa gerst á um það bil fjögurra vikna tímabili, en af framburði A mátti upphaflega ráða að þetta ferli hefði tekið mun lengri tíma. Loks er til þess að líta að A hefur ekki viljað nafngreina nokkurn þann sem borið gæti um frásögn hans, en ekki verður séð að hann væri með nafngreiningu að bendla þá alla við refsiverða háttsemi.
Ákærði hefur gefið þá einu skýringu á játningu sinni hjá lögreglu 30. janúar 2004 að hann hafi óttast að hann yrði að öðrum kosti úrskurðaður í gæsluvarðhald og látinn sæta einangrun. Vegna reynslu sinnar af slíkri vist hafi hann ákveðið að játa. Í þessu felst að ákærði hafi alfarið horft framhjá því á þessum tíma að játning hans gæti orðið til þess að honum yrði gert að sæta fangelsisvist um lengri tíma. Er þá jafnframt til þess að líta að honum var með dómi 21. nóvember 2003 gert að sæta fangelsi í 6 mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir fíkniefnabrot. Er það mat dómsins að þessi skýring ákærða sé harla ótrúverðug og þá ekki hvað síst í ljósi þess að hann gerði engan reka að því að koma því á framfæri meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu að hann hefði gengist við verknaði sem hann hefði ekki framið.
Svo sem fram er komið var gefin út ákæra á hendur A 10. desember 2003 fyrir alvarlegar sakargiftir. Urðu lyktir þess máls þær að honum var með dómi Hæstaréttar 23. september 2004 gert að sæta fangelsi í 3 ár og 6 mánuði, en með dómi sínum staðfesti rétturinn dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2004. Komi til þess að A verði gerð refsing vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur nú gengist við ber að ákveða hana sem hegningarauka við framangreindan dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þótt varast beri að leggja of mikið upp úr þessari aðstöðu við sönnunarmat er hún frekar en ekki til þess fallin að rýra gildi framburðar A. Eftir sem áður verður þó engu slegið föstu um það hvað hafi í raun orðið til þess að A kýs að gangast við því að hafa einn flutt hingað til lands það amfetamín sem ákæra tekur aðallega til.
Þegar allt framangreint er virt er það mat dómsins að ekki sé varhugavert að telja nægar sönnur komnar fram fyrir því, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að ákærði hafi flutt 300 g af amfetamíni hingað til lands í desember 2003, svo og að hann hafi haft í hyggju að selja efnið hér á landi.
Með framangreindri háttsemi sinni braut ákærði gegn 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með áorðnum breytingum og og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerðir um breyting á henni nr. 248/2001 og 490/2001.
Ákærði hefur við dómsmeðferð málsins viðurkennt að hafa haft fimm E-töflur og 0,86 g af amfetamíni í vörslum sínum aðfaranótt föstudagsins 30. janúar 2004. Er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þessa háttsemi, en játning hans þar að lútandi samræmist framkomnum sakargögnum. Með þessari háttsemi sinni braut ákærði ennfremur gegn tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 65/1974.
Svo sem fram er komið var ákærða með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2003 gert að sæta fangelsi í 6 mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974. Með brotum þeim sem hann er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð þessa dóms. Verður refsing ákærða vegna allra umræddra brota ákveðin í einu lagi, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði, sem engin efni eru til að binda skilorði. Refsingunni til frádráttar kemur með fullri dagatölu 16 daga gæsluvarðhald sem ákærði sætti í tengslum við rannsókn á því máli sem var til lykta leitt með framangreindum héraðsdómi.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, er fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku á þeim fíkniefnum sem tilgreind eru í ákæru og lögregla lagði hald á 30. janúar 2004.
Þá verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Þorgeir Ingi Njálsson, Gunnar Aðalsteinsson og Sveinn Sigurkarlsson. Er dómurinn fjölskipaður með vísan til heimildar í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
D ó m s o r ð :
Ákærði Elimar Tómas Reynisson sæti fangelsi í 18 mánuði, en frá refsivistinni skal draga 16 daga gæsluvarðhald sem hann sætti árið 2002.
Ákærði sæti upptöku á þeim fíkniefnum sem lögregla lagði hald á við húsleit 30. janúar 2004 og tilgreind eru í ákæru.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.