Hæstiréttur íslands

Mál nr. 548/2014


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Ómerking
  • Málsástæða


                                     

Fimmtudaginn  12. mars 2015.

Nr. 548/2014.

Jóhann Jónas Ingólfsson

(sjálfur)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

Skuldamál. Ómerking. Málsástæða.

Í hf. krafði J um greiðslu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi. Héraðsdómur tók kröfu Í hf. til greina og vísaði m.a. til þess að málsástæða J, til stuðnings varakröfu sinni, um að vextir og þjónustugjöld sem gjaldfærð hefðu verið á reikning hans væru fyrnd hefði verið of seint fram komin. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að í héraði hefði J aðallega krafist sýknu en til vara lækkunar á dómkröfu Í hf. Því til stuðnings hefði J vísað til viðskiptayfirlits Í hf. og laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Eins og málið lá fyrir taldi Hæstiréttur að varakrafa J væri studd rökum um fyrningu og þá einnig um fyrningu vaxta. Þar sem héraðsdómari hefði ekki tekið efnislega afstöðu til þeirrar málsástæðu var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2014. Hann krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu birtri 26. nóvember 2013 til heimtu skuldar á tékkareikningi áfrýjanda hjá sér. Í stefnunni sagði það eitt um málsástæður og önnur atvik að skuld áfrýjanda væri „til komin vegna skuldar á tékkareikningi nr. ... að fjárhæð kr. 1.906.014,00 í Íslandsbanka hf., en stefnda var ekki heimilt að yfirdraga reikninginn. Þar sem stefndi hefur ekki greitt kröfuna þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir er málssókn þessi nauðsynleg.“ Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti gerði stefndi þá leiðréttingu að áfrýjanda hafi verið heimilt að yfirdraga tékkareikninginn. Sú heimild hafi fallið niður 15. maí 2009 sökum þess að áfrýjandi hafi ekki sótt um endurnýjun hennar.

Í héraði krafðist áfrýjandi aðallega sýknu en til vara lækkunar á dómkröfu stefnda. Því til stuðnings vísaði hann til framlagðs viðskiptayfirlits stefnda og laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Greinargerð áfrýjanda í héraði er ekki skýr um samhengi málsástæðna, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en við mat á þýðingu þess verður þó litið til að stefna í héraði er einnig að nokkru sama marki brennd, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laganna. Líkt og stefndi skýrði kröfu sína við flutning málsins hér fyrir dómi skýrði áfrýjandi kröfur sínar við flutning málsins í héraði, svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi. Eins og málið liggur fyrir verður talið að varakrafa áfrýjanda sé studd rökum um fyrningu og þá einnig um fyrningu vaxta. Þar sem héraðsdómari tók ekki efnislega afstöðu til málsástæðu áfrýjanda til stuðnings varakröfu hans verður með hliðsjón af f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. Verður málinu vísað heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2014.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 9. maí sl., er höfðað af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, á hendur Jóhanni Jónasi Ingólfssyni, með lögheimili í Danmörku, með stefnu birtri 26. nóvember sl.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.906.014 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 8. mars 2010 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefnanda verði heimilað að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti í fyrsta skipti 8. mars 2011, sbr. 12. gr. sömu laga.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til varða að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar úr hans hendi.

II

Málavextir

Mál þetta er tilkomið vegna yfirdráttar stefnda á reikningi hjá stefnanda, áður Byr sparisjóði og BYR hf. Skuld stefnda við stefnanda nam skv. framlögðu reikningsyfirliti 1.906.014 kr. hinn 8. mars 2010.

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefnda hafi ekki verið heimilt að yfirdraga reikninginn. Hann hafi ekki greitt skuld sína við stefnanda þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir.

Stefnandi vísar um lagarök til almennra reglna kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga. Vaxtakröfu sína styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 10. og 12. gr. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefnandi til 130., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt að krafa stefnanda sé fyrnd. Stefndi vísar til þess að af reikningsyfirliti megi ráða að dagsetning vanskila hafi verið 31. desember 2008. Krafan fyrnist á fjórum árum og sé því fyrnd sé horft til þeirrar dagsetningar.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, aðallega 2., 3. og 24. gr. laganna. Þá byggir hann á almennum reglum réttarfars og lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað er vísað til XX. kafla laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um hvort krafa stefnanda á hendur stefnda vegna yfirdráttarláns sé fyrnd.

Stefnandi hefur til stuðnings kröfu sinni lagt fram yfirlit sem var prentað út 26. mars 2010. Nær það yfir tímabilið 1. desember 2008 til 8. mars 2010, upphafsstaðan er mínus 1.501.589 kr. en lokastaða mínus 1.906.014. Samkvæmt öðru reikningsyfirliti („reikningaskrá“) stofnaði stefndi reikning sinn hjá forvera stefnanda, Byr sparisjóði, 27. nóvember 2007. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvenær heimild stefnda til að yfirdraga reikninginn féll úr gildi. Hins vegar er ljóst að krafa stefnanda á hendur stefnda stofnaðist í fyrsta lagi við stofnun reikningsins.

Um fyrningu kröfuréttinda fer nú eftir lögum nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda sem tóku gildi 1. janúar 2008. Gilda þau um kröfur sem stofnað varð til eftir gildistöku þeirra. Áður giltu um fyrningu lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Krafa stefnanda á hendur stefnda telst vera peningalán og fyrnist því á tíu árum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007, áður 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905. Er því ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda að krafa stefnanda á hendur honum sé fallin niður fyrir fyrningu. Í munnlegum málflutningi tefldi stefndi fram þeirri málsástæðu, til stuðnings varakröfu sinni, að vextir og þjónustugjöld sem gjaldfærð hefðu verið á reikning stefnda væru fyrnd. Málsástæðu þessari var mótmælt sem of seint fram kominni af hálfu stefnanda og kemur því ekki til frekari skoðunar. Verður því fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.906.014 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 8. mars 2010 til greiðsludags. Rétt stefnanda til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti má leiða beint af ákvæðum 12. gr. sömu laga og er því óþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu í dómsorði eins og stefnandi krefst.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda samtals 250.000 kr. í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Auðunn Jónsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Guðmundur Jónsson hdl.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Jóhann J. Ingólfsson, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 1.906.014 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 8. mars 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 250.000 kr. í málskostnað.