Hæstiréttur íslands

Mál nr. 329/2006


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Miskabætur
  • Vextir
  • Fyrning


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2007.

 

Nr. 329/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Ólafi Barða Kristjánssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur. Vextir. Fyrning.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gagnvart stúlkunum Y, Z og Þ. Hann var jafnframt ákærður fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. sömu laga með því að hafa haft í vörslum sínum ljósmyndir sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt og voru þar á meðal myndir af Þ og stúlkunum Æ og Ö. Í Hæstarétti var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu X samkvæmt einstökum köflum ákæru og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Að virtum þeim atriðum, sem greindi í héraðsdómi varðandi ákvörðun refsingar, og að teknu tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar í málum, sem varða hliðstæð brot, var X gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða öllum stúlkunum miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júní 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur að fullu fyrir þau brot, sem honum eru gefin að sök í A. og D. kafla ákæru, niðurstaða héraðsdóms um B. og C. kafla ákæru verði staðfest og refsing ákærða þyngd. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða Y 900.000 krónur með vöxtum frá 1. september 1998, Z 1.000.000 krónur með vöxtum frá 1. janúar 1999, Æ 900.000 krónur með vöxtum frá 18. september 1996 og Ö 200.000 krónur með vöxtum frá 10. október 2001, en staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu ákærða við Þ. Varðandi fjórar fyrstnefndu kröfurnar eru vextir nánar tilgreindir og þeirra krafist til greiðsludags.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt A. og C. kafla ákæru, svo og D. kafla hennar að hluta, og að refsing, sem honum var ákveðin með héraðsdómi, verði milduð. Einnig krefst ákærði þess aðallega að kröfum Y og Þ verði vísað frá héraðsdómi og hann sýknaður af kröfum Æ og Ö, en til vara að þessar kröfur verði allar lækkaðar. Þá unir hann niðurstöðu héraðsdóms um kröfu Z.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt einstökum köflum ákæru og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Að virtum þeim atriðum, sem greinir í héraðsdómi varðandi ákvörðun refsingar, og að teknu tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar í málum, sem varða með hliðstæðum hætti brot gegn 1. mgr. og 2. mgr. 202. gr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, verður ákærða gert að sæta fangelsi í 18 mánuði.

Með þeirri háttsemi, sem ákærði er sakfelldur fyrir, hefur hann bakað sér skyldu til að greiða áðurnefndum brotaþolum miskabætur. Þegar virt eru brot hans gagnvart hverri þeirra ásamt því, sem liggur fyrir í málinu um afleiðingar brotanna í einstökum tilvikum, eru miskabætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur handa Y, 800.000 krónur til Z, 600.000 krónur handa Þ, 200.000 krónur til Æ og 200.000 krónur til Ö. Mál þetta var höfðað við útgáfu ákæru 16. janúar 2006 og eru vextir, sem féllu eftir atvikum á kröfur einstakra brotaþola fyrir 16. janúar 2002, því fyrndir, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en eftir niðurstöðum hins áfrýjaða dóms verður við það að miða að ákærði hafi í héraði líkt og fyrir Hæstarétti haldið fram vörnum á grundvelli fyrningar. Brotaþolar hafa hver um sig krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu fram til þess tíma að mánuður var liðinn frá því að kröfur þeirra voru kynntar ákærða, sbr. 9. gr. sömu laga, en upp frá því dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna. Vextir verða dæmdir þessu til samræmis svo sem í dómsorði segir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ólafur Barði Kristjánsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði Y 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. janúar 2002 til 22. október 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Z 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2002 til 12. september 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Þ 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. mars 2005 til 12. september sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Æ 200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2002 til 22. október 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Ö 200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2002 til 12. september 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 605.712 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Ásu Ólafsdóttur og Sifjar Konráðsdóttur, 124.500 krónur handa hvorri.

                                                                                                                 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. apríl sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 16. janúar 2006 á hendur Ólafi Barða Kristjánssyni, kennitala 231059-6289, Krummahólum 2, Reykjavík, fyrir kynferðisbrot sem hér greinir:

A.

Gagnvart Y, kennitala [...], með því að hafa í júní eða júlí 1998, á tjaldsvæði á Þingvöllum, káfað á kynfærum stúlkunnar innanklæða, látið hana snerta lim sinn og fróa sér.

Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og lög nr. 40/2003.

B.

Gagnvart Z, kennitala [...], með því að hafa að morgni nýársdags 1999, á þáverandi heimili sínu að [...]:

1.             Látið telpuna strjúka á sér liminn.

2.             Síðar sama morgun, girt niður um telpuna og rassskellt hana á beran rassinn.

Er háttsemi ákærða samkvæmt 1. lið talin varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt 2. lið við 2. mgr. sömu lagagreinar.

C.

Gagnvart Þ, kennitala [...], með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 21. mars 2005, á heimili sínu að [...], komið nakinn inn í herbergi þar sem stúlkan lá í rúmi, strokið henni um bak og rass innanklæða, farið með hendi undir nærbuxur hennar, strokið henni á innanverðu læri og klipið hana í mjöðm og innanvert læri.

Er þetta talið varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

D.

Með því að hafa í vörslum sínum, vistaðar á hörðum diski í tölvu, 228 ljósmyndir sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, en myndirnar fundust í tölvu ákærða sem lögregla haldlagði við húsleit á heimili hans að [...] mánudaginn 21. mars 2005.

Sextán ljósmyndanna hafði ákærði tekið sjálfur á heimili sínu, þar af fjórtán myndir af Z, er ákærði lét hana strjúka á sér liminn og rassskellti hana, sbr. B. kafla ákæru og tvær ljósmyndir af Æ, kennitala [...], teknar árið 1995 eða þar um bil, sem sýndu telpuna nakta að leik í garði og í vaðlaug.

Eina ljósmynd hafði ákærði búið til úr tveimur ljósmyndum með því að skeyta saman mynd sem hann hafði tekið á heimili sínu árið 2001 eða þar um bil af Ö, kennitala [...], og ljósmynd af óþekktum nöktum karlmanni svo að til varð mynd sem sýndi telpuna sleikja lim mannsins.

Þetta er talið varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu eftirgreindra er krafist miskabóta að tilgreindri fjárhæð:

Y, bótakrafa að fjárhæð 900.000 krónur.

Z, bótakrafa að fjárhæð 1.000.000 krónur.

Æ, bótakrafa að fjárhæð 900.000 krónur.

Þ, bótakrafa að fjárhæð 600.000 krónur.

Ö, bótakrafa að fjárhæð 200.000 krónur.

Í öllum tilvikum er krafist vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en jafnframt samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 varðandi kröfu Y, Z og Æ.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa vegna háttsemi skv. 1. tl. B kafla og D kafla ákæru, en að hann verði að öðru leyti sýknaður af sakargiftum. Þá krefst hann þess að skaðabótakrafa Z verði lækkuð en að skaðabótakröfum verði að öðru leyti vísað frá dómi. Loks krefst hann þess að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

A. kafli

Með bréfi 19. júlí 2005 beindi Barnavernd Reykjavíkur kæru til lögreglu vegna gruns um að kynferðisbrot hefði verið framið gagnvart Y. Í kærunni kemur fram að Y búi hjá móðursystur sinni A. Faðir hennar, B, fari með forsjá stúlkunnar. Móðir Y hafi átt við vanheilsu að stríða og hafi stelpan ekki verið í sambandi við hana um árabil. Vinkona Y, C, hafi 27. júní 2005 hringt inn tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur. Í þeirri tilkynningu hafi komið fram að Y hafi greint c frá því að fyrir nokkrum árum hafi hún orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ,,perrans” sem búi í [...] en Y og börn viðkomandi manns hafi verið mjög nánir vinir. Y hafi tjáð C að hún hafi farið með manninum og fjölskyldu hans í tjaldútilegu og hafi maðurinn þá sett hönd hennar í klof sitt, auk þess sem hann hafi sett hendi sína í klof Y. Hafi Y látið sem hún væri sofandi en næsta dag þegar aðrir hafi verið í gönguferð hafi maðurinn talað við Y og sagt henni að hann hafi vitað að hún hafi ekki verið sofandi kvöldið áður og að hún ætti ekki að segja neinum frá því sem komið hafi fyrir. Atvikið hafi átt sér stað er Y hafi verið níu ára gömul. Þá hafi hún búið í [...] 4 í Reykjavík en maðurinn í [...]. Y muni hafa greint föður sínum, ömmu og frænku frá atburðinum en þau ekkert viljað vita af honum. Í kærunni kemur fram að Y hafi komið í viðtal hjá Barnavernd Reykjavíkur 19. júlí 2005. Í því viðtali hafi hún staðfest það sem fram hafi komið í tilkynningu C. Hafi Y talið að hún hafi farið í útilegu með manninum og fjölskyldu hans sumarið 1998.

Ragna Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi hefur 1. mars 2006 ritað skýrslu vegna Y. Í skýrslunni kemur fram að Y hafi verið í viðtölum hjá Rögnu frá 1. september 2005 til 13. desember sama ár og hún hitt hana fjórum sinnum. Y sé dugleg stelpa sem eigi gott með að tjá sig um eigin líðan og tilfinningar. Hafi hún verið tilbúin að ræða kynferðisbrot sem hún hafi tjáð að hún hafi orðið fyrir þegar hún hafi verið 9 ára gömul. Hugsi hún ekki mikið um atvikið en þyki óþægilegt að vera nálægt ákærða eftir það. Hafi hún ekki gert sér grein fyrir alvarleika málsins. Líf Y hafi ekki verið einfalt þar sem hún hafi hjá hvorugu foreldri sínu getað búið og það sett mark sitt á hana. Hún sé mjög neikvæð á að góðir hlutir geti gerst í hennar lífi og sjálfsmynd hennar mjög veik. Y hafi verið treg til að ræða ætlað ofbeldi og ekki talið það skipta öllu máli. Hafi hún greint frá því að henni hafi alltaf liðið illa, þó svo það stafi sennilega ekki allt af ætluðum brotum. Henni hafi fundist hún ekki fá viðbrögð frá foreldrum og skyldfólki þegar hún hafi sagt frá ætluðum brotum og geti það mótað viðbrögð hennar. Hún geri lítið úr afleiðingum ætlaðs brots en tali á sama tíma um mikla vanlíðan og lítið sjálfstraust. 

Ákærði kvaðst þekkja Y og kannast við að hún hafi farið með ákærða og börnum hans í útilegu til Þingvalla, annað hvort sumarið 1997 eða 1998. Hafi stúlkan búið að [...] á þessum tíma. Upphaflega hafi ákærði ætlað einn í ferðina. Börn ákærða og Y hafi hins vegar beðið um að fá að fara með. Þau hafi sofið í tjaldi á tjaldstæði við vatnið. Hafi ákærði drukkið nokkra bjóra og viskí um kvöldið áður en þau hafi farið að sofa. Á þessum tíma hafi ákærði glímt við áfengisvanda og átt til að drekka of mikið. Kvaðst hann ekki muna ástand sitt þetta kvöld, en sennilega hafi hann farið ölvaður að sofa. Næsta dag hafi þau vaknað og farið í göngutúr upp á Arnarfell. Kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa áreitt Y kynferðislega í þessari ferð. Við yfirheyrslur hjá lögreglu 2. ágúst 2005 er fært í lögregluskýrslu af þessu tilefni eftir ákærða ,,ég fór auðvitað fullur að sofa þetta kvöld en það er ekkert í þessum dúr sem ég man eftir.” Við skýrslutöku hjá lögreglu 22. september 2005 lýsti ákærði yfir ,,Mér finnst það mjög ósennilegt.“ er hann var spurður út í hvort kæran ætti við rök að styðjast. Fyrir dómi bar ákærði að sér hafi einfaldlega fundist fjarri lagi að þeir atburðir hafi gerst er stúlkan gerði grein fyrir.

Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 2. ágúst 2005 var þess farið á leit að tekin yrði skýrsla af Y. Fór skýrslutakan fram föstudaginn 5. ágúst 2005. Kvaðst Y búa hjá móðursystur sinni, hafa verið í [...] og væri að byrja í [...] haustið 2005. Afi Y hafi á sínum tíma átt heima nærri ákærða og fjölskyldu hans í [...] í Reykjavík og Y oft verið heima hjá afa sínum. Hafi hún þekkt vel D, dóttur ákærða, en þær hafi verið ágætis vinkonur. E, sonur ákærða, hafi einnig verið góður vinur Y. Vinskapurinn hafi staðið allt frá því Y var fjögurra ára og Y hafi oft verið heima hjá fjölskyldunni í [...]. Sumarið 1998 hafi ákærði, D, E og Y farið í tjaldútilegu til Þingvalla og dvalið þar eina nótt. Y hafi nýlega verið orðin 9 ára og ferðin sennilega verið farin í júní eða júlí það sumar. Um kvöldið hafi þau farið að sofa. E hafi sofið úti í enda á tjaldinu og Y verið næst honum. Við hlið Y hafi D legið og ákærði verið hinu megin við D. Af einhverjum ástæðum hafi Y ekki getað sofnað og sagt ákærða frá því. Hafi ákærði þá sagt við Y að hún skyldi koma yfir til hans. Hafi Y þá lagst milli ákærða og D. Allt í einu hafi hún fundið að hendi ákærða hafi verið komin í klof hennar og hann farið með hendi inn fyrir nærbuxur hennar. Hún hafi ekki vitað hvað hún hafi átt að gera og ekki getað farið út úr tjaldinu. Hafi hún látið sem hún væri sofandi. Í framhaldi þessa hafi ákærði tekið hendi Y og látið hana káfa á getnaðarlim sínum. Hafi hann látið Y ,,hreyfa hendina”.  Kvaðst Y muna það mjög vel. Ekki hafi hún vitað hvenær þetta hafi hætt. Kvaðst hún telja að hún hafi í framhaldi sofnað. Næsta dag hafi hún verið úti að ganga er ákærði hafi dregið hana afsíðis og sagt við hana að hún skyldi engum segja frá þessum atburðum. Hafi Y játað því og engum sagt frá þessu. Síðar þetta sama sumar hafi ákærði spurt Y að því hvort hann mætti taka myndir af henni nakinni. Hafi hún neitað því. Y hafi farið vestur til [...] til föður síns. Hún hafi þó komið aftur suður og farið í heimsókn að [...]. Hafi hún ekki hitt börn ákærða mikið eftir þetta. Á þessum tíma hafi móðir Y verið orðin mjög veik og Y flutt til frænku sinnar. Eftir það hafi hún ekkert hitt börn ákærða nema í skólanum.

Svokallað vökumaraþon hafi verið haldið í [...], en það sé hluti af félagslífi í skólanum. Foreldrar standi vaktir í skólanum, en nemendur séu þar yfir nótt þegar viðburðurinn fari fram. Miðað sé við að nemendur séu komnir í skólann fyrir kl. 20.00 og fari ekki út fyrr en eftir kl. 08.00 næsta morgun. Y hafi verið á slíku maraþoni með vinkonum sínum. Skyndilega hafi hún séð ákærða og henni brugðið mjög við það. Þegar þessi atburður hafi átt sér stað hafi E, sonur ákærða, verið í 10. bekk, D dóttir ákærða í 8. bekk en sjálf hafi Y verið í 9. bekk. Hafi Y sagt vinkonum sínum að hún vildi helst fara heim því hún gæti ekki verið lengur á staðnum. Hafi þær spurt hana hverju það sætti og hún þá sagt vinkonum sínum F og C frá atburðunum úr tjaldútilegunni á Þingvöllum. Hafi Y reyndar áður verið búin að segja vinkonu sinni, G í [...], frá þessum atburðum, en hún hafi eignast þar vinkonu á meðan hún hafi búið hjá föður sínum í [...]. Y kvaðst hafa haldið dagbók á meðan hún hafi búið í [...] og hafi hún skrifað um þessa atburði í dagbókina. Þar hafi hún reyndar ekki skrifað atburðinn allan niður, heldur einungis ritað að ákærði hafi látið hana snerta getnaðarlim sinn, eða eitthvað slíkt. Faðir Y hafi einhverju sinni opnað dagbókina og lesið úr henni um atvikið. Hafi hann spurt Y að því hvort þessir atburðir hafi átt sér stað. Hafi Y svarað því játandi. Engu að síður hafi henni fundist sem faðir hennar tryði sér ekki fyllilega. Hafi faðir Y síðar hringt í frænku Y og spurt hana að því hvort Y hafi greint henni frá þessum atburðum. Y hafi hent nefndri dagbók þar sem henni hafi fundist ófært að faðir hennar hafi lesið úr henni. Hafi hún fengið sér aðra dagbók og fært þessa atburði í þá bók.

Y kvaðst hafa verið hjá sálfræðingi. Hafi hún aldrei rætt beinlínis um þennan atburð við sálfræðinginn þar sem henni hafi fundist það óþægilegt. Hafi hún orðið snertifælin með aldrinum en það hafi hún ekki verið yngri. Henni hafi farið að finnast óþægilegt ef einhverjir væru að taka utan um hana. Kvaðst hún telja að hún myndi aldrei gleyma þessum atburðum.  

B, faðir Y, bar að Y hafi búið hjá móður sinni og móðurafa að [...] í Reykjavík þangað til um áramótin 1998 til 1999. Á heimili móðurinnar hafi verið óregla og hafi eitthvað af ,,liði” komið þangað. Þá hafi móðirin átt það til að verða ofbeldisfull gagnvart föður sínum. Vegna veikinda móðurinnar hafi Y flust til [...] til B. Síðla þann vetur eða um vorið hafi hann verið að skoða stílabók í eigu Y sem hún hafi notað til að skrá niður hugrenningar sínar. Stílabókin hafi venjulega verið læst. Hafi hann skoðað bókina til að átta sig á hvað Y væri að hugsa. Hafi hann ekki sagt henni frá því. Í stílabókina hafi Y ritað um ferð til Þingvalla er hún hafi farið með fjölskyldu sem þá hafi búið við hlið Y og móður hennar. Er B gaf skýrslu hjá lögreglu 5. ágúst 2005 skýrði hann frá því að í dagbókinni hafi komið fram að fjölskyldufaðirinn að [...] hafi í þessari ferð ,,berað sig fyrir Y þannig að hún hafi séð á honum liminn.” Fyrir dómi kvaðst hann hafa lesið í dagbókinni að fjölskyldufaðirinn hafi ,,berað sig” fyrir framan Y í ferðalagi til Þingvalla. Ekki kvaðst B telja að hún hafi ritað í bókina að maðurinn hafi snert Y. Kvaðst hann telja að hann myndi eftir ef eitthvað hafi verið ritað þar um kynferðislega áreitni. Fyrstu mánuðina eftir að hún kom vestur hafi hún virst sátt. Nokkrum mánuðum síðar hafi B greint breytingar í fari hennar og hún farið að loka sig af í meira mæli en áður. Þá hafi hún orðið fráhverfari og sýnt af sér snertifælni sem hann hafi ekki orðið var við áður. Kvaðst B telja að Y hafi verið ,,löskuð” er hún hafi komið vestur, en fjölskylduaðstæður hennar fyrir sunnan hafi verið erfiðar. Hafi hann því ekki viljað ræða þessa hluti við hana en hafa nefnt þá við móðursystur hennar nokkru síðar. Y hafi ekki virst líða vel fyrir vestan og hafi hún flutt suður aftur vorið 2002. Þar hafi hún verið til meðferðar hjá Sólveigu Ásgrímsdóttur sálfræðingi.

A, móðursystir Y, bar að Y hafi verið á heimili hennar frá því hún hafi komið að vestan sumarið 2002. Á árinu 1999 hafi faðir Y greint A frá því að hann hafi komist yfir dagbók sem Y hafi ritað. Þar hafi komið fram að Y hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Ekki kvaðst A hafa séð þessa dagbók. Hafi A spurt Y út í dagbókina en ekki á hvern hátt brotið hafi verið gagnvart henni. Y hafi einungis sagt henni að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti í útilegu með fjölskyldunni [...] í Reykjavík sennilega á árinu 1998. Sagt hafi verið frá einhverjum kynferðisbrotamanni í fjölmiðlum og hafi umræðan þá átt sér stað. Hafi þetta verið er Y hafi búið hjá A í um eitt ár. Hafi Y átt erfitt og verið niðurdregin er hún hafi lesið um kynferðisbrotamanninn í fjölmiðlum. A kvaðst kannast við að Y hafi sótt tíma hjá sálfræðingi bæði á meðan hún hafi verið fyrir vestan sem og eftir að hún hafi komið suður. Hafi hún sótt þessa tíma þar sem henni hafi liðið illa og verið neikvæð á lífið. Eftir að hafa verið í tímum hjá sálfræðingi hafi henni þó farið að líða betur. Kvaðst A muna eftir þeirri útilegu sem málið snérist um, sem hafi verið farin á árinu 1997 eða 1998. Kvaðst hún minnast þess að Y hafi á sínum tíma verið niðurdregin er hún kom úr útilegunni.  

F kvaðst hafa kynnst Y í 2. bekk í [...]. Hafi þær verið saman í bekk þar til þær hafi átt að fara í 5. bekk, en þá hafi Y flust vestur til [...]. Y hafi flutt aftur suður þegar þær hafi byrjað í 8. bekk og þær verið í sama bekk. Í 9. bekk hafi verið haldið svokallað vökumaraþon, en það hafi verið haldið í október eða nóvember 2003. Maraþonið hafi staðið frá kl. 20.00 til kl. 08.00 næsta morgun. Bæði nemendur og foreldrar hafi tekið þátt í því. Þegar Y hafi séð ákærða þar á meðal hafi hún haft á orði að hún vildi ekki koma nálægt honum. Hafi F séð á svip Y að hún hafi verið hrædd við að vera nálægt ákærða og forðast hann. Á tímabili um nóttina hafi Y m.a. rætt um að hún vildi fara heim til sín. Ekki hafi Y á þessum tíma gefið F neina skýringu á framferði sínu. Þær hafi farið í 10. bekk haustið 2004 en þá hafi Y gefið F skýringu á hegðun sinni á vökumaraþoninu. Hafi Y greint frá því að hún hafi farið í veiði- eða tjaldferð með ákærða og börnum hans sumarið 1998. Um nóttina hafi Y gengið illa að sofa og sagt ákærða frá því. Ákærði hafi þá sagt Y að leggjast hjá sér. Hafi hann síðan farið inn á Y og káfað í klofi hennar. Hann hafi síðan lagt hendi Y á getnaðarlim sinn. Y hafi ekki þorað annað en að þykjast vera sofandi á meðan þetta hafi átt sér stað. Næsta dag hafi ákærði sagt við Y að hún skyldi engum segja frá þessum atburði. Síðar sama sumar hafi ákærði farið þess á leit við Y að fá að taka af henni myndir nakinni. Hún hafi ekki orðið við því.  

C kvaðst hafa kynnst Y þegar hún hafi flutt í [...]. Þær væru jafnöldrur og hafi verið í sama bekk. Y hafi verið eitt ár með C í [...] en þá flutt til [...]. Y hafi komið til baka að vestan og þær verið saman í 8. bekk. Þær hafi verið á svokölluðu vökumaraþoni í [...] er þær hafi verið í 9. bekk. Legið hafi vel á Y þetta kvöld og hafi þær verið að ,,fíflast eitthvað” á göngum skólans. Er þær hafi komið inn í leikfimissal hafi Y stífnað öll upp, bent á ákærða og sagt að hann væri ógeðslegur karl. Hafi C gengið á Y og spurt hvað ákærði hafi gert. Hafi Y þá sagt að ákærði hafi snert hana í útilegu þegar Y hafi verið 9 ára gömul. Kvaðst C ekki hafa tekið Y trúanlega í fyrstu og ekki gengið frekar á eftir henni með að segja frá þessu. Y hafi forðast að vera nærri ákærða allt þetta kvöld og um nóttina. Hafi hún verið mjög hrædd og sjokkeruð. Ákærði hafi síðan verið kærður fyrir kynferðisbrot sumarið 2005. Á svipuðum tíma hafi C og Y verið byrjaðar að vinna í unglingavinnunni. Hafi C þá gengið á Y með hvað hafi gerst í útilegunni á sínum tíma. Hafi Y þá greint henni frá því að ákærði hafi farið með hendi inn fyrir nærbuxur Y og káfað á kynfærum hennar. Auk þess hafi hann látið Y ,,fitla við” kynfæri sín. Kvaðst C hafa rætt við Y um að kæra þennan atburð til lögreglu. Hafi Y fundist það erfitt þar sem D og E hafi verið vinir Y. Hún hafi þó leyft C að tilkynna málið til Barnaverndar Reykjavíkur.

G kvaðst hafa kynnst Y er Y hafi flust vestur til [...]. Þá hafi þær verið 7 eða 8 ára gamlar. Y hafi verið að koma í heimsóknir til föður síns vestur áður en hún hafi flutt alfarið vestur. Eftir það hafi þær umgengist og heimsótt hvor aðra talsvert. Þegar G hafi verið 10 eða 11 ára gömul hafi Y sagt henni frá því að hún hafi farið í tjaldútilegu með D, E og pabba þeirra. Faðir D og E hafi káfað á Y og fengið hana til að snerta á sér getnaðarliminn. Hafi G verið með Y þegar Y hafi ritað um atburðina í dagbók. Væri það sama og ritað væri í dagbók er ljósrit lægi frammi af í málinu. Hafi Y farið þess á leit við G að hún segði ekki neinum frá þessum atburðum. Y hafi ekki liðið vel fyrir vestan hjá föður sínum. Hafi henni líkað illa við stjúpu sína og því viljað fara aftur suður til ,,A frænku”. Þá hafi Y ekki heldur liðið vel á meðan hún hafi búið hjá móður sinni í [...]. 

Sólveig Ásgrímsdóttir sálfræðingur kvaðst hafa verið með Y í viðtölum veturna 2003 til 2004 og 2004 til 2005. Tildrög þess hafi verið að Y hafi átt við erfiðleika að etja sem m.a. hafi verið raktir til ágreinings um forsjá yfir henni. Þá hafi komið í ljós að hún hafi átt í erfiðleikum við að mynda traust og tengsl við fólk. Móðir hennar hafi átt við mikil veikindi að stríða. Hafi Sólveig annast gerð yfirmats í tengslum við forsjármál er rekið hafi verið fyrir dómstólum varðandi Y. Í viðtölum við Y hafi komið fram að hún hafi upplifað kynferðisbrot á sínum yngri árum, en á það hafi Y minnst lítillega. Hafi Y rætt um að viðkomandi maður hafi verið einstaklingur sem hún hafi treyst. Engin nöfn hafi verið nefnd á nafn. Hafi Y brugðist þannig við er málið hafi verið rætt að það hafi gert hana reiða. Ekki hafi komið fram hvenær brotið hafi átt sér stað. Það hafi greinilega hvílt á henni og um leið tafið þá vinnu sem Sólveig hafi haft með höndum gagnvart stúlkunni. Þá hafi legið ljóst fyrir að Y hafi komið frá mjög brotinni fjölskyldu. Hún hafi verið búsett hjá móðursystur sinni á meðan hún hafi verið í þessum viðtölum. 

Ragna Guðbrandsdóttir staðfesti fyrir dómi skýrslu sína um Y. Kvað hún erfitt að meta þær afleiðingar sem ætlað brot ákærða hafi haft á Y, þar sem þau hafi gerst á erfiðum tíma í lífi hennar. Móðir hennar hafi verið mjög veik á þessum tíma. Hún hafi verið með mjög brotna sjálfsmynd, verið mjög óframfærin og átt erfitt með félagsleg tengsl.

Niðurstaða:

Ákærði kvaðst hafa farið til Þingvalla annað hvort sumarið 1997 eða sumarið 1998. Með í för hafi verið börn hans, þau E og D, og vinur barnanna og nágranni Y. Þau hafi öll sofið saman í tjaldi eina nótt og næsta dag farið í gönguferð. Að því loknu hafi verið haldið af stað til Reykjavíkur. Ákærði hefur neitað að hafa áreitt Y kynferðislega í þessari ferð.

Kæru vegna þessa atburðar var komið á framfæri með þeim hætti að vinkona Y, C, kom tilkynningu um atvikið til Barna­verndar Reykjavíkur í lok júní 2005. Y greindi síðan frá atvikinu þegar tekin var skýrsla af henni fyrir dómi á rannsóknarstigi málsins. Hafði hún þá greint vinkonu sinni í [...], G, frá sama atviki þegar G var 10 eða 11 ára. Hefur það samkvæmt því annað hvort verið á árinu 2000 eða árinu 2001. Einnig greindi hún á haustmánuðum 2003 tveimur vinkonum sínum í Reykjavík frá sama atviki, þeim F og C. Í þessum þremur tilvikum er fullt samræmi í frásögn Y af atvikum og hefur hún alla tíð haldið því fram að ákærði hafi í tjaldinu snert kynfæri hennar innanklæða og látið hana snerta getnaðarlim sinn. Þá hefur hún ávallt borið um að næsta dag hafi verið farið í gönguferð og hafi ákærði þá tekið hana tali og sagt henni að greina engum frá þessu atviki. Kynferðisbrot kom upp í sálfræðiviðtölum er Y var í hjá Sólveigu Ásgrímsdóttur sálfræðingi veturna 2003 til 2004 og 2004 til 2005. Voru engin nöfn nefnd í því tilviki, einungis að sá sem hefði framið brotið hafi verið einhver sem Y hafi treyst. Kom fram það mat Sólveigar að minningar tengdar þessum atburði hafi tafið meðferð hennar í tengslum við deilu um forsjá yfir stúlkunni. Þá hefur móðursystir Y, A, borið að hún kannist við ferð er Y hafi farið í til Þingvalla sumarið 1998 og að stúlkan hafi verið vansæl er hún kom úr þeirri ferð. Þá er komið fram að Y hélt dagbók á sínum yngri árum. Frumrit þeirrar dagbókar er nú glatað, en fram hefur verið lagt ljósrit úr annarri dagbók stúlkunnar þar sem hún getur um þessa atburði. Er framburður stúlkunnar og föður hennar um það er ritað var í frumritið, og varðar sakarefni máls þessa, of óljóst til að á því verði byggt um annað en að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti umrætt sinn. Verður að telja ósennilegt að stúlkan hafi á sínum tíma ritað nákvæma endursögn í dagbókina af kynferðislegum athöfnum ákærða.

Þegar framangreindar samhljóða frásagnir Y er virtar, sem fram komu á mismunandi tímum óháðar hvorri annarri, og mið tekið af trúverðugum fram­burði stúlkunnar, vanlíðan er Sólveig Ásgrímsdóttir skynjaði tengda kynferðis­broti, líðan stúlkunnar við heimkomu frá Þingvöllum og því að ákærði hefur lýst sömu ferð til Þingvalla þar sem hann var á ferð með þrjú ungmenni, er það mat dómsins að unnt sé að leggja til grundvallar frásögn stúlkunnar um að ákærði hafi káfað á kynfærum hennar innanklæða og látið hana snerta lim sinn.

Ákærða er að auki gefið að sök að hafa látið stúlkuna fróa sér. Er Y gaf skýrslu fyrir dómi var hún sérstaklega spurð að því, eftir að hafa lýst því að ákærði hafi tekið hendi hennar og látið hana snerta getnaðarlim sinn, hvort ákærði hafi látið hana hreyfa hendina. Svaraði Y því játandi. Er þetta í eina skiptið sem Y fullyrðir að ákærði hafi látið hana hreyfa hendina. Þegar litið er til þess að stúlkan var einungis 9 ára að aldri er atburðir gerðust og sennilega ekki haft fullan skilning á þýðingu þessa atriðis og þess að 7 ár liðu frá því atburðurinn átti sér stað þar til hún skýrði frá þessu hjá lögreglu, þykir dóminum óvarlegt að miða við að það teljist sannað að ákærði hafi látið stúlkuna fróa sér. Verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi. Það framferði ákærða að káfa á kynfærum stúlkunnar og láta hana snerta getnaðarlim sinn var kynferðisleg misnotkun á líkama stúlkunnar sem var til þess fallið að veita honum kynferðislega fullnægingu. Er sú háttsemi önnur kynferðismök en samræði í skilningi 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt A. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

B. kafli

Mánudaginn 21. mars 2005 framkvæmdi lögregla húsleit á heimili ákærða að [...] í Reykjavík, vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart stúlkunni Z. Við það tilefni lagði lögregla hald á tölvu ákærða. Mánudaginn 9. maí 2005 ritar lögregla upplýsingaskýrslu í kjölfar tölvuskoðunar en þar kemur fram að nokkrar myndir hafi fundist af dökkhærðri ungri stúlku, en myndirnar sýni stúlkuna halda um getnaðarlim karlmanns og karlmanninn rassskella stúlkuna. Grunur hafi vaknað um að stúlkan væri Z. Foreldrar stúlkunnar hafi komið á lögreglustöð. Hafi mynd verið klippt til þannig að út af henni hafi verið tekin kynfæri karlmannsins. Foreldrarnir hafi borið kennsl á dóttur sína og lýst því að hún hafi sennilega verið 5 ára gömul er myndin hafi verið tekin. Föstudaginn 13. maí 2005 lagði H, móðir Z, fram hjá lögreglu kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot.  

Á meðal gagna málsins er skýrsla sem ber yfirskriftina Heilsugæsla í skólum og er frá skólaárinu 2001 til 2002. Hefur H fært inn upplýsingar fyrir skólayfirvöld í [...]. Fram kemur að Z hafi mjög sterka réttlætiskennd og eigi það til að fá mikil grátköst ef henni finnist á sér brotið og sé erfitt fyrir ókunnuga að ná henni niður aftur.

Íris Guðmundsdóttir sálfræðingur hefur 12. ágúst 2005, að beiðni lögreglu, ritað vottorð vegna Z. Fram kemur að Íris hafi verið með Z í sjö stuðningsviðtölum á tímabilinu september til nóvember 2003, vegna áfallaviðbragða í kjölfar skilnaðar foreldra. Viðbrögð Z hafi verð fólgin í nokkuð tíðum grátköstum og reiðiköstum sem hafi birst bæði heima og í skóla. Í viðtölunum hafi Z tjáð sig aðallega um skóla- og fjölskylduhagi sína en hafi aldrei minnst á að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Andlegt ástand hennar á þessum tíma hafi borið vott um áfallaviðbrögð sem hafi legið beinast við að rekja til skilnaðar foreldra. Í tilviki Z hafi hún virst bregðast við áfalli eins og skilnaði með því að tjá reiði og vanlíðan á beinan hátt, þ.e. með reiði og gráti.

Ragna Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi hefur 17. mars 2006 ritað skýrslu vegna Z. Fram kemur að Z hafi sótt 16 viðtöl hjá Rögnu á tímabilinu 31. maí 2005 til 24. febrúar 2006. Hafi hún lítið viljað ræða ætluð brot ákærða gagnvart sér og sagt að hún hreinlega myndi ekki eftir atvikum. Væri stúlkan leið og þætti óþægilegt að ætluð brot hafi átt sér stað. Hafi stúlkan átt við innri vanlíðan að stríða í langan tíma samkvæmt því sem móðir hennar segði og hefði það komið fram í miklum skapsveiflum og vanlíðan. Mikið af þeirri hegðun er Z sýndi væri þekkt hjá börnum sem sætt hafi kynferðisofbeldi og mætti því ætla að hún væri afleiðing þess þó aðrir þættir eins og erfiður skilnaður foreldra hafi gert ástandið enn verra um tíma. Erfitt sé að segja til um hvort Z eigi eftir að muna eftir ætluðu kynferðisofbeldi en víst sé að hún eigi eftir að átta sig á hversu alvarleg brotin hafi verið þegar hún verði eldri. Aukinn skilningur gæti reynst Z erfiður og krafist frekari úrvinnslu.

Er ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu kvaðst hann viðurkenna að hafa fengið stúlkuna Z til að ,,runka sér” eitt sinn. Það hafi verið á nýársdagsmorgun árið 1999. Fyrir dómi kvað hann lögregluskýrsluna rétta um þetta atriði. Hafi ákærði verið einn á heimili sínu umrætt sinn, en aðrir fjölskyldumeðlimir hafi farið í heimsókn til ættingja. Hafi ákærði verið of drukkinn til að fara með. Hafi hann vaknað við að einhver hafi ,,hamast” á dyrabjöllunni. Z hafi viljað komast inn til að leika sér. Hafi ákærði farið með hana inn í svefnherbergi þar sem hann hafi látið hana ,,runka sér” og ákærði tekið ljósmyndir af því. Myndavélin hafi verið á þrífæti frá kvöldinu áður. Hjá lögreglu bar ákærði að hann hafi verið of drukkinn til að hann fengi sáðlát. Fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa örvast við þetta, en hann hafi meira verið að hefna sín á stúlkunni sem hafi verið ,,heimagangur af verstu gerð.” Í framhaldi þessa hafi þau farið niður í hol undir stiga þar sem hann hafi tekið myndir af henni þar sem hann hafi látið sem hann væri að rassskella hana. Myndin hafi verið uppstilling og hendi ákærða ekki snert stúlkuna. Eftir þetta hafi Z farið heim til sín. Hafi hún verið í um eina klukkustund á heimili ákærða. Z hafi komið í nokkur skipti á heimili ákærða eftir þetta, en í þau skipti hafi ákærði hótað að rassskella hana ef hún kæmi aftur. Hafi ákærði skammast sín fyrir gerðir sínar og viljað losna við að hún kæmi á heimilið.

Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2005 var þess farið á leit að tekin yrði skýrsla af Z. Fór skýrslutakan fram miðvikudaginn 18. maí 2005. Greindi hún frá því að hún myndi lítið eftir atvikum í tengslum við kyn­ferðisbrot ákærða þar sem hún hafi verið ung á þeim tíma. Hún myndi þó eftir er ákærði hafi rassskellt sig. Hafi atburðurinn átt sér stað á heimili ákærða.

H greindi frá því að á árinu 2000 hafi Z ekki verið eins að sér eins og hún hafi átt vanda til. Hafi hún verið óvenjulega uppstökk, kvíðin og fengið grátköst. Hún hafi átt erfitt með að slaka á og sífellt verið að kvarta undan magaverkjum. Hafi hún alfarið neitað að fara á heimili vinkonu sinnar I að [...]. Kvaðst hún hafa gengið á Z með þetta og Z loks sagt að ákærði hafi girt niður um hana í nokkur skipti og rassskellt hana. Þá hafi hann hótað henni frekari rassskellingum. Eftir að stúlkan hafi skýrt frá þessu hafi H og faðir stúlkunnar bannað henni að fara heim til ákærða, en þó hafi hún fengið að fara þangað í afmælisveislur og þá í fylgd systur sinnar Æ. Eiginmaður H hafi hringt í ákærða til að fá skýringar hans á framferðinu gagnvart Z. Hafi ákærði þá haft á orði að stúlkan væri uppátektarsöm og ætti skilið refsingu. H hafi orðið vitni að þessu símtali. Atvikið hafi verið sláandi og H ráðfært sig við fagaðila vegna þessa. Ákveðið hafi verið að leggja ekki fram kæru á hendur ákærða þar sem á svipuðum tíma hafi verið fellt niður annað samkynja mál á hendur honum sem kært hafi verið til lögreglu. H kvaðst telja að háttsemi ákærða gagnvart stúlkunni hafi haft talsverð áhrif á hana. Eftir atvikin hafi hún farið að sýna hegðun sem foreldrarnir hafi enga skýringu haft á. Eftir að alvarleiki málsins hafi komið í ljós komi það að hennar mati heim og saman við breytta líðan stúlkunnar á sínum tíma. Sem dæmi um það megi telja að hún hafi ekki fyrr en nýlega mátt faðma hana. Þá hafi hún sótt tíma hjá skólasálfræðingi. Ekkert annað í lífi hennar hafi getað skýrt þá breyttu hegðun sem hún hafi sýnt í kjölfar þessara atvika. Þó hafi Z gengið í gegnum erfiða hluti vegna skilnaðar foreldra. Sá skilnaður hafi ekki haft neinn aðdraganda, en upp hafi komið atvik sem hafi leitt til þess að faðir stúlkunnar hafi flutt út samdægurs.  

Ragna Guðbrandsdóttir staðfesti fyrir dómi skýrslu sína um Z. Kvað hún stúlkuna ekki vera í tengslum við það sem átt hafi sér stað. Væri hún mjög ,,á yfirborðinu” og væri að reyna að passa upp á að allt væri gott. Hún væri ekki í tengslum við sinn innri veruleika og væri líklegt að það ylli henni vandræðum síðar meir. Eftir að málið kom upp haustið 2005 hafi henni farið að ganga illa í ýmsu tilliti og hafi hún farið að sýna hegðun sem ekki hafi verið henni lík. Til að mynda hafi hún orðið uppvís að því að svindla á prófi. Erfiður skilnaður foreldra hafi gert ástand hennar verra um tíma. Þá megi líta til þess að skilnaðurinn hafi orðið erfiðari vegna vanlíðunar sem hafi verið til staðar hjá stúlkunni. Til lengri tíma hefði Z þó alla burði til að líða vel. Hafi stúlkan farið á lyf og við það orðið miklar breytingar á líðan hennar. 

Niðurstaða:

Ákærði hefur viðurkennt háttsemi samkvæmt 1. tl. B. kafla ákæru. Í rann­sóknargögnum málsins eru nokkrar myndir af háttsemi ákærða. Sýna þær Z, sennilega einungis 5 ára að aldri, með fleiri en einum hætti halda um getnaðarlim ákærða. Var limur ákærða í þessum tilvikum að nokkru reistur. Með vísan til játningar ákærða og mynda er frammi liggja í málinu, telst háttsemi ákærða sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði hefur jafnframt viðurkennt að hafa síðar sama morgun girt niður um Z og látið sem hann væri að rassskella hana á beran rassinn. Hafi hann tekið mynd af því. Hann hafi þó aldrei rassskellt stúlkuna. Mynd af þessu framferði er í gögnum málsins. Þó svo ekki verði talið sannað að ákærði hafi rassskellt stúlkuna felst í þeirri háttsemi hans að girða niður um hana, leggja hana á lær sér, leggja hendi á rass hennar og láta sem hann ætli að rassskella hana önnur kynferðisleg áreitni en greinir í 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt 2. tl. B. kafla ákæru

C. kafli

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík fékk lögregla aðfaranótt mánu­dagsins21. mars 2005 kl. 03.16 boð um að fara að [...] 1 í Reykjavík vegna gruns um kynferðisbrot. Í skýrslu er fært að er lögregla hafi knúið dyra hafi J, móðir Þ, komið til dyra. Hafi hún greint frá því að dóttir hennar hafi skömmu áður komið grátandi heim eftir að hafa gist hjá vinkonu sinni handan götunnar. Hafi Þ greint móður sinni frá því að faðir vinkonu sinnar, ákærði í máli þessu, hafi leitað á sig og strokið sér á óæskilegum stöðum þar sem hún hafi legið í rúmi með vinkonu sinni. Hafi Þ verið í miklu uppnámi og grátandi er lögregla hafi rætt við hana, en verið skýr og skipulögð í framburði sínum. Hafi hún í fylgd móður verið flutt á Neyðarmóttöku.

Í skýrslu vegna réttarlæknisfræðilegrar skoðunar á Þ er færð frásögn stúlkunnar af atburðum. Fram kemur að káfað hafi verð á kynfærum og rasssvæði aftanverðu. Hafi hún lýst atvikum þannig að hún hafi sofið heima hjá vinkonu sinni en ekki verið sofnuð er faðir vinkonunnar hafi komið nakinn inn í herbergið. Hafi hann slökkt á lampa og síðan farið að káfa á henni. Hafi hún fundið að hann hafi strokið á sér bakið. Síðan hafi hann farið undir nærbuxur hennar og káfað á læri. Hún hafi þá fært sig til og sagt eitthvað. Hafi hann þá farið. Stúlkan hafi í framhaldinu sent móður sinni sms skilaboð um síma, klætt sig og farið heim. Stúlkan hafi gefið góða frásögn, vandað sig og sýnt trúnað. Hafi hún verið búin að gráta nokkuð en verið í jafnvægi er hún hafi sagt frá atburðum. Hafi hún lýst hræðslu og ótta við atburðinn og átt erfitt með andardrátt vegna ótta. Samkvæmt skoðun hafi hún verið með eymsli á hægri mjöðm og innanvert á hægra læri um 2 cm frá nára. Hafi þeir áverkar komið heim og saman við lýsingu stúlkunnar af atburðum. 

Ragna Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi hefur 17. mars 2006 ritað skýrslu vegna Þ. Fram kemur að Þ hafi verið í viðtölum hjá Rögnu í 22 skipti og væri meðferð ekki lokið. Hafi hún átt mjög erfitt síðan hin ætluðu brot hafi átt sér stað. Hafi þau verið mjög alvarleg þar sem traust og trúnaður barns hafi verið brotinn. Mikil ógnun og hjálparleysi hafi falist í hinum ætluðu brotum þar sem Þ hafi ekki getað stöðvað atburðarásina eða komist í burtu. Hafi hún fengið góðan stuðning frá foreldrum sínum og nýtt sér vel viðtöl við Rögnu. Hafi hún greinst með alvarlega áfallaröskun og einkenni þunglyndis sem hún hafi verið að vinna með. Hafi hún átt mjög erfitt með að takast á við ætluð brot og komi þar einnig til fyrri reynsla en Þ hafi sætt grófu kynferðisofbeldi þegar hún hafi verið 6 ára. Sjálfsmynd Þsé mjög brotin og finnist henni erfið öll umfjöllun um kynferðislegt ofbeldi. Hafi hún ekki lokið meðferðinni og gæti tekið nokkurn tíma að ná betri líðan. Ennfremur gæti hún þurft á frekari meðferð að halda þegar hún verði fullorðin. Hafi hún fengið fræðslu og þjálfun í fyrirbyggjandi þáttum sem tengist kynferðisbrotum í samræmi við aldur sinn. Mikilvægt sé að hún nái að vinna með afleiðingar ætlaðra brota áður en þeir hafi frekari truflun á líf hennar. Hafi hún sýnt mikinn persónustyrk í meðferðinni þrátt fyrir að hafa liðið illa. Sé það von að hún nái að fullu stjórn á tilfinningum sínum og líðan í tengslum við ætluð brot og fái aftur trú á sjálfa sig og framtíðina.

Ákærði bar að Þ hafi fengið að gista hjá dóttur sinni að kvöldi sunnudagsins 20. mars 2005. Seint um kvöldið hafi Þ og dóttir ákærða verið að leika sér með ilmvatn sem hafi leitt til þess að ,,pest” af því hafi lagt um allt húsið. Um kvöldið hafi ákærði loftað út og hafa talið að það hafi tekist. Þ og dóttir ákærða hafi farið að sofa um kl. 00.30 en ákærði farið í rúmið um kl. 01.00. Hafi hann ekki getað sofnað vegna ilmvatnslyktarinnar. Um kl. 03.00 um nóttina hafi hann farið inn í herbergi dóttur sinnar til að opna glugga og lofta út. Hafi hann þá verið nakinn. Um leið hafi hann togað sæng yfir stúlkurnar. Þ hafi þá vaknað og spurt ákærða að því hvað hann væri að gera. Hafi ákærði sagt henni að fara að sofa og farið út úr herberginu. Ákærði hafi verið frekar hranalegur við Þ, enda ,,fúll” vegna ilmvatnslyktarinnar. Um 2 til 3 mínútum síðar hafi hann heyrt er Þ hafi farið út úr húsinu. Kvaðst ákærði ekki hafa áreitt Þ kynferðislega. Hafi hann verið nokkuð ,,slompaður” er hann hafi farið inn til stúlknanna, en hann hafi þá sennilega verið búinn að drekka fjóra bjóra.  

Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2005 var þess farið á leit að tekin yrði skýrsla af Þ. Fór skýrslutakan fram miðvikudaginn 23. mars 2005. Greindi Þ frá því að hún hafi gist heima hjá vinkonu sinni að [...] í Reykjavík. Hafi hún komið þangað um kl. 10.00 um kvöldið. Þ og vinkona hennar hafi leigt myndband og horft á það í herbergi vinkonunnar en á meðan hafi vinkonan úðað ilmvatni út í loftið. Faðir hennar, ákærði í máli þessu, hafi komið að og orðið reiður vegna þess. Hafi hann hent ilmvatninu. Eftir að myndinni lauk hafi þær rætt saman og síðan ætlað að reyna að sofna. Það hafi gengið illa og eftir að þær hafi legið vakandi í rúminu hafi þær heyrt ákærða koma upp stiga upp á efri hæðina. Þær hafi þá snúið sér við og látið sem þær svæfu. Þ hafi tekið eftir að ákærði var nakinn. Hafi hann slökkt á lampa í herberginu og gengið að rúminu. Þá hafi hann tekið til við að strjúka Þ um bakið. Hafi hún verið í náttbuxum og bol. Ákærði hafi tekið sængina niður en Þ legið á hliðinni með höfuð upp að vegg. Ákærði hafi strokið henni niður eftir baki og farið með hendi niður á rass. Hún hafi verið mjög hrædd og reynt að halda í sér andanum. Hún hafi hins vegar farið að anda mjög hratt sökum hræðslunnar. Í framhaldi þessa hafi ákærði strokið henni um lærin. Er ákærði hafi strokið henni um bak hafi hann strokið innanklæða og er hann hafi strokið um rass hafi hann farið undir nærbuxur. Hún hafi spurt hann að því hvað hann væri að gera. Hafi hann í framhaldi hrópað hranalega á Það hún ætti að fara að sofa. Síðan hafi hann yfirgefið herbergið. Þ kvaðst þá hafa farið að gráta. Vinkona hennar hafi þá spurt hvað hafi gerst. Þ hafi varla þorað að segja henni frá því en sent móður sinni sms skilaboð um síma með skilaboðunum ,,Mamma”. Móðir hennar hafi hins vegar ekki vaknað við skilaboðin. Þ hafi þá farið í buxur og sagt vinkonu sinni að hún ætlaði heim. Hafi hún í framhaldi yfirgefið húsið og hlaupið öskrandi heim. Svaladyr heima hjá henni hafi verið opnar og hún farið þá leið inn í húsið. Foreldrar hennar hafi vaknað og hún greint þeim frá því er komið hafi fyrir. Móðir hennar hafi í framhaldi hringt í lögreglu.    

J kvað dóttur sína hafa verið vinkonu dóttur ákærða. Hafi þær stundum fengið að gista heima hjá hvor annarri. Hafi Þ farið heim til dóttur ákærða um kl. 21.30 að kvöldi sunnudagsins 20. mars 2005 til að gista. Upphaflega hafi hún farið yfir til að horfa á myndband en síðan fengið leyfi til að gista. J hafi þó ekki rætt sérstaklega við ákærða og konu hans um það. Þ hafi komið hlaupandi heim til sín um kl. 03.00 um nóttina en hún hafi komið inn um dyr á verönd. Hafi hún verið hágrátandi og öskrað margoft ,,hann kom allsber inn og hann káfaði á mér.” Jafnframt hafi hún bent á rasssvæði á sér og mjaðmir. Hafi J áttað sig á að dóttir hennar hafi sennilega orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Hafi hún hringt á lögreglu, sem komið hafi skömmu síðar. Þá hafi verið farið yfir hluti og J og dóttir hennar í kjölfarið verið sendar á Neyðarmóttöku. Kvaðst J seinna hafa uppgötvað að dóttir hennar hafi sent henni sms símaskilaboð þessa nótt með boðunum ,,Mamma”. J hafi ekki innt dóttur sína frekar eftir því hvað ákærði hafi gert. Það hafi ekki verið fyrr en síðar sem það hafi verið en þá hafi hún greint frá því að hún hafi umrædda nótt sofið í sama rúmi og dóttir ákærða. Hafi hún sofið upp við vegg í rúminu. Um nóttina hafi hún orðið vör við er ákærði hafi komið nakinn inn í herbergið. Hafi hún þá snúið sér á grúfu, haldið niðri í sér andanum og látið sem hún svæfi. Hafi ákærði káfað á henni innanklæða með því að fara með hendi um bak hennar, rass og innanverð læri. Þá hafi hann klipið í læri hennar innanklæða. Hafi Þ jafnframt greint frá því að ákærði hafi komið aftur inn í herbergið og byrjað að káfa á henni á ný. Hafi hann verið kominn með hendi mjög nálægt kynfærum hennar þegar hún hafi snúið sér við og spurt hann hvað hann væri að gera. Hafi ákærði þá hrokkið við eins og hann hafi haldið að hún væri sofandi. Hafi hann orðið mjög reiður og sagt við hana að hún skyldi fara að sofa. Við svo búið hafi hann farið út úr herberginu. Þ hafi þá klætt sig í föt og farið heim. Um líðan eftir þessa atburði bar J að dóttir hennar væri allt annað barn eftir þá. Hafi hún orðið mjög hrædd, fengið kvíðaköst, hljóðað upp í svefni og orðið að sofa uppi í rúmi hjá móður sinni. Hún hafi orðið mjög óörugg og ekki þorað að vera ein heima hjá sér þar sem ákærði hafi búið beint á móti henni. Dóttir hennar hafi orðið fyrir alvarlegu kynferðisbroti í æsku, er hún hafi verið 5 til 6 ára. Þá hafi hún verið mjög lítil og myndi óljóst eftir brotinu. Það brot hafi ekki verið kært til lögreglu. Dóttirin hafi greint frá því atviki nokkrum árum síðar og hafi verið unnið með það mál í Barnahúsi. Sú hegðun er Þ hafi sýnt eftir að hafa gist á heimili ákærða væri þó alfarið tengd því atviki. 

Jóhann Karl Þórisson lögreglumaður kvaðst hafa sinnt útkalli lögreglu að [...] 1 aðfaranótt mánudagsins 21. mars 2005. Þ hafi setið í sófa í stofu og verið grátandi er lögreglu hafi borið að garði. Hafi hún lýst því að hún hafi sofið heima hjá vinkonu sinni en faðir vinkonunnar komið nakinn inn í herbergið til stúlknanna. Hafi hann strokið henni um líkamann. Hafi hún lýst því að strokur hafi verið um bak og ,,niðri”. Hafi hann fært lýsingu hennar í frumskýrslu lögreglu.

Jónatan Guðnason rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa hitt Þ og móður hennar á Neyðarmóttöku aðfaranótt mánudagsins 21. mars 2005. Hafi Þ þá verið hrædd eða óttaslegin. Hafi tekið nokkurn tíma að ná til hennar. Hafi hann fært lýsingu hennar af atburðum í lögregluskýrslu. Kvaðst Jónatan minnast þess að Þ hafi ekki rætt um að ákærði hafi snert kynfæri hennar, heldur hafi hann farið inn undir nærbuxur að aftanverðu og snert innanverð læri. Þ hafi verið skýr í frásögn sinni. 

Ragna Guðbrandsdóttir staðfesti fyrir dómi skýrslu sína um Þ. Bar hún að stúlkan hafi átt gríðarlega erfitt, en hún hafi orðið fyrir miklu áfalli greint sinn. Hafi hún greinst með röskun og þunglyndi. Sumarið 2005 hafi verið henni nánast óbærilegt og henni fundist sem hún ætti nánast ekkert líf. Hafi hún ekki ráðið við neitt og læst sig inni heima hjá sér með hníf í hendi. Hafi hún fengið mjög alvarleg kvíðaköst og oföndun. Líðan hennar hafi samrýmst þeim atburðum sem stúlkan hafi lýst. Ragna kvaðst hafa unnið með eldra mál er Þ hafi orðið fyrir. Viðbrögð hennar við brotum ákærða gætu hafa orðið sterkari vegna fyrra brots. Hafi hún sennilega komið til Rögnu 10 sinnum vegna hins fyrra máls. Viðbrögð hennar við því máli hafi alls ekki verið þau sem hún hafi sýnt vegna ætlaðra brota ákærða. Þroski hennar og skilningur á þeim tíma sem fyrri brot hafi verið framin hafi ekki verið slíkur. Viðtölum vegna þess máls hafi lokið á sínum tíma. Hafi Þ þá verið í tiltölulegu jafnvægi. 

 Niðurstaða:

Ákærði hefur viðurkennt að hafa farið nakinn inn í herbergi dóttur sinnar aðfaranótt mánudagsins 21. mars 2005 þegar Þ dóttur svaf í rúmi í herberginu ásamt dóttur ákærða. Hefur hann borið að hann hafi hagrætt sæng yfir stúlkunum en ekki áreitt Þ kynferðislega. Hann hafi verið talsvert ölvaður. Þ hefur hins vegar skýrt frá því að ákærði hafi strokið henni um bak og rass innanklæða og að hann hafi strokið henni um innanverð læri. Þ hefur alla tíð greint með sama hætti frá því með hvaða hætti ákærði hafi strokið henni um líkamann. Hefur hún verið staðföst og trúverðug í framburði sínum. Ástand stúlkunnar er hún kom á heimili sitt um kl. 3.00 að nóttu bar þess augljós merki að eitthvað alvarlegt hafði komið fyrir hana, en hún var grátandi og óttaslegin. Um þessi atriði nýtur framburðar J Ragnarsdóttir sem og lögreglumannanna Jóhanns Karls Þórissonar og Jónatans Guðnasonar. Þá hefur líðan hennar eftir atvikið verið slæm og borið merki þunglyndis og áfallaröskunar. Slæma líðan hennar má reyndar að einhverju leyti rekja til eldra atviks sem félagsráðgjafi telur að geri viðbrögð stúlkunnar sterkari vegna þess verknaðar sem hér er dæmt um. Með vísan til greinargóðs framburðar stúlkunnar, sem studdur er skýrum merkjum um áfall í kjölfar atburðar og ótvíræðum einkennum um andlegar afleiðingar kynferðisbrots, er að mati dómsins ekki varhugavert að leggja framburð hennar til grundvallar niðurstöðu. Ákæra miðar við að ákærði hafi klipið stúlkuna í mjöðm og innanvert læri. Stúlkan greindi ekki frá því við skýrslugjöf fyrir dómi og verður í niðurstöðu ekki við það miðað. Að því gættu verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum lið ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. 

D. kafli

Ákærði var handtekinn mánudaginn 21. mars 2005 vegna gruns um kyn­ferðisbrot. Í kjölfar handtöku fór lögregla þess á leit að hann heimilaði leit á heimili sínu. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var lagt hald á tölvu og tölvugögn úr skrifstofu í herbergi á neðri hæð hússins.

Ágúst Edvald Ólafsson lögreglufulltrúi hefur 9. maí 2005 ritað skýrslu vegna tölvuskoðunar. Fram kemur að í tölvu er haldlögð var á heimili ákærða hafi verið 5 harðir diskar. Á einum þeirra, sem merktur hafi verið nr. 2, hafi fundist töluvert af klámefni, þar af 228 ljósmyndir er lögregla hafi talið vera ,,barnaklám.” Léki grunur á um að ákærði hafi sjálfur tekið nokkrar af myndunum, en þær hafi allar verið í einni og sömu möppunni.

Myndir undir ákæruefni D kafla ákæru varða hafa verið prentaðar út og úr þeim gerð sérstök mappa. 

Ragna Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi hefur 7. mars 2006 ritað skýrslu vegna Æ. Fram kemur að Æ hafi mætt í 8 viðtöl hjá Rögnu á tímabilinu 21. júní 2005 til 2. mars 2006. Hafi Æ talið ætlað ofbeldi ekki trufla sig að ráði í daglegu lífi, en þó alltaf verið meðvituð um hvað hafi gerst. Hafi hún haft áhyggjur af Z, systur sinni, og líðan hennar í tengslum við ætluð brot. Æ hafi fengið góðan stuðning og skilning frá móður sinni sem hafi hvatt hana til að vinna með mál sín. Að mati Rögnu séu ætluð brot vissulega hluti af reynsluheimi Æ þó svo henni takist bærilega að lifa með þeim. Telji Ragna ekki líklegt að Æ þurfi að vinna frekar með sína reynslu en eins og öll erfið reynsla geti hún valdið henni vanlíðan síðar í lífinu ef um frekari áföll verði að ræða. 

Ákærði kvaðst hafa tekið ýmsar myndir af krökkum í afmæli dóttur sinnar árið 2001 eða 2002. Hafi hann m.a. tekið myndir af Ö, en hún hafi þá verið að borða íspinna. Hafi hann sótt námskeið í að vinna með forritið Photoshop og ákveðið að skeyta saman myndum. Hafi hann tekið mynd af internetinu af manni sem hafi verið með reistan getnaðarlim og skeytt þessum myndum saman. Hann hafi ekki gert þetta í kynferðislegum tilgangi. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis er hann hafi gert þessar breytingar á myndinni.

Ákærði kvaðst á árinu 1996 eða 1997 hafa tekið myndir af Æ á heimili ákærða. Hafi hún þá verð nakin, en hún hafi verið úti í vaðlaug ásamt eldri dóttur ákærða. Þær myndir hafi ekki verið teknar í kynferðislegum tilgangi. Ekki hafi ákærði spurt Æ um leyfi til að fá að mynda hana.

Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa geymt í tölvu sinni vistaðar á hörðum diski nokkurn fjölda ljósmynda sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Kvaðst hann þó efast um að þær væru alls 228, svo sem ákæra miðaði við. Kvaðst hann mótmæla því að eftirtaldar myndir féllu undir að sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt:

-               Blaðsíða 1, mynd nr. 003.

o        Blaðsíða 2, myndir nr. 005, 006, 007, 011, 012, 04, 04-32, 04-30-99-early024, 09 og 092. B 

-               Blaðsíða 3, myndir nr. 118(1), 11stri-4, 14, 15, 1809, 1810, 1827, 1833 og 1835.

-               Blaðsíða 4, myndir nr. 20, 21, 23, 3, 4, 6, 7 og 8.

-               Blaðsíða 5, myndir nr. ac05, ac07, ac09, ac13, ac14, adl0425 og adc0609.

-               Blaðsíða 6, myndir nr. et01, et02 og et021.

-               Blaðsíða 7, allar myndir sem hefðu að geyma upphafsmerkinguna hpmynte.

-               Blaðsíða 8, fyrstu sex myndir á blaðsíðunni og mynd nr. jlm018.

o        Blaðsíða 9, myndir nr. loli3, loli5, loli 8, loli9, pao015 og allar myndir á blaðsíðunni eftir það.

-               Blaðsíða 10, myndir nr. pao040, pica6, pica7, pica8 og picday1.

-               Blaðsíða 11, myndir nr. r01, r06, r09, r11, r12, r18, r19, rus02 og rus12.

  Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2005 var þess farið á leit að tekin yrði skýrsla af Ö. Fór skýrslutakan fram miðvikudaginn 18. maí 2005. Fram kom að Ö myndi eftir því er ákærði hafi verið að taka mynd af henni í barnaafmæli sem haldið hafi verið á heimili ákærða í tilefni af afmæli dóttur hans.

Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2005 var þess farið á leit að tekin yrði skýrsla af Æ. Fór skýrslutakan fram miðvikudaginn 18. maí 2005. Greindi Æ frá því að hún hafi eitt sumarið verið að leika sér heima hjá ákærða. Veður hafi verið gott og börnin einungis verið í nærfötum. Ákærði hafi leitt Æ afsíðis og spurt hvort hann mætti taka myndir af henni nakinni. Hafi hún svarað því neitandi. Fjölskyldan að [...] hafi verið með litla vaðlaug úti í garði sem börnin hafi verið að leika sér í. Ekki kvaðst Æ viss um hvort ákærði hafi þá tekið myndir af þeim, en hann hafi oft verið með myndavél á lofti.

H kvaðst hafa spurt dóttur sína, Æ, að því hvort ákærði hafi gert eitthvað við hana. Fát hafi komið á Æ og hún lítið viljað tjá sig um það. Þó hafi komið fram að ákærði hafi margoft beðið hana um að fá leyfi til að taka myndir af henni nakinni. Hún hafi þó neitað honum um það.

Ragna Guðbrandsdóttir staðfesti fyrir dómi skýrslu sína um Æ. Greindi hún frá því að á fundum með stúlkunni hafi verið rætt um myndir sem fundist hafi af henni í tölvu ákærða. Hafi Æ verið leið vegna þessa en fundist erfiðast það sem komið hafi fyrir systur hennar. Hafi samband þeirra systra verið erfitt í langan tíma vegna þessa. Myndir af Æ væru þó ekki að trufla hana. Hluti af viðbrögðum hennar gætu verið vegna samsömunar við systur sína. Æ hafi gengið í gegnum erfiðan skilnað foreldra og verið eitthvað undir áhrifum hans.

Niðurstaða: 

Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft í vörslum sínum 138 ljósmyndir sem sýni börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Hefur hann synjað fyrir að 89 myndanna feli í sér brot gegn 4. mgr. 210. gr. laga nr. 19/1940. Tvær þeirra 228 ljósmynda sem sakarefnið varðar eru tvítaldar, en það eru  myndir á bls. 2 merktar nr. 09 og 092 og myndir á bls. 6 merktar et02 og et021. Dómurinn hefur farið yfir myndir samkvæmt ákæru með hliðsjón af afstöðu ákærða. Að mati dómsins verður ekki fullyrt að eftirtaldar myndir sýni myndir af börnum.

-               Blaðsíða 1, myndir nr. 292, 297, 298 og 300.

-               Blaðsíða 3, myndir nr. 14 og 15.

-               Blaðsíða 4, myndir nr. 20, 21, 23, 4-12-99-05 og 4-12-99-06.

-               Blaðsíða 6, mynd nr. CY004.

-               Blaðsíða 8, mynd nr. ir0026.

-               Blaðsíða 9, myndir nr. loli 5 og loli 8.

-               Blaðsíða 10, mynd merkt nr. pica6.

Alls eru þetta 16 myndir. Þar sem skynsamlegur vafi leikur á um aldur stúlkna á þessum myndum verður ákærði sýknaður af því að í þessum myndum felist brot gegn 4. mgr. 210. gr. laga nr. 19/1940.

Þegar aðrar myndir eru virtar í heild sinni sýna þær allar börn með einum eða öðrum hætti á kynferðislegan máta. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum 210 myndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Eru fjórtán þessara mynda af Z og ein af Æ. Ein mynd er af Ö, en þá mynd hefur ákærði búið til úr tveimur ljósmyndum. Með þessu framferði sínu hefur ákærði gerst brotlegur við 4. mgr. 210. gr. laga nr. 19/1940. Verður hann því sakfelldur samkvæmt þessum kafla ákæru.

Ákærði er fæddur í október 1959. Hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Brot ákærða eru alvarleg, en hann hefur verið sakfelldur fyrir misjafnlega gróf kynferðisbrot gagnvart fimm ungum stúlkum. Eru brotin trúnaðarbrot, en þau hafa beinst að stúlkum er honum var beint og óbeint treyst fyrir þegar þær voru litlar. Þá hefur ákærði skýrt háttsemi sína gagnvart Z og Þ þannig að hann hafi verið að hefna sín á stúlkunum. Er sú háttsemi ákærða sérlega ámælisverð þar sem þær voru einungis börn er atvikin áttu sér stað. Með hliðsjón af þessu og með vísan til 1. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár.  

Ása Ólafsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur krafist skaðabóta fyrir hönd brotaþolanna. Krafa Y hefur verið rökstudd þannig að stúlkan hafi verið ung að aldri þegar umrædd atvik hafi átt sér stað og reynslan henni af þeim sökum þungbær. Hið ætlaða brot hafi haft í för með sér neikvæð áhrif á geðheilsu og félagslega aðlögun stúlkunnar og jafnframt leitt til neikvæðrar sjálfsmyndar hennar og lítils sjálfstrausts. Atburðirnir hvíli á henni, þó hún hafi að eigin sögn reynt að útiloka þá og gleyma. Í skýrslu Rögnu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa kom fram að stúlkan væri mjög neikvæð á að góðir hlutir gætu gerst í lífi hennar og að sjálfsmynd hennar væri mjög veik. Þó svo Y búi við aðra röskun í lífi sínu hefur brot ákærða gagnvart henni vissulega verið til þess fallið að valda henni miska. Eru bætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir. Er þá tekið tillit til þess að almennir vextir af kröfunni eru fyrndir.

Krafa Z hefur verið rökstudd með þeim hætti að stúlkan hafi orðið óvenjulega uppstökk, kvíðin og grátgjörn. Hafi hún átt erfitt með að slaka á og sífellt verið að kvarta undan magaverkjum. Þessa líðan megi rekja til háttsemi ákærða. Í skýrslu Rögnu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa kom fram að mikið af þeirri hegðun er Z sýndi væri þekkt hjá börnum sem sætt hafi kynferðisofbeldi og mætti því ætla að hún væri afleiðing þess þó aðrir þættir eins og erfiður skilnaður foreldra hafi gert ástandið enn verra um tíma. Erfitt væri að segja til um hvort Z ætti eftir að muna eftir ætluðu kynferðisofbeldi en víst væri að hún ætti eftir að átta sig á hversu alvarleg brotin hafi verið þegar hún yrði eldri. Aukinn skilningur gæti reynst Z erfiður og krafist frekari úrvinnslu. Með vísan til alvarleika háttsemi ákærða var brot hans til þess fallið að valda Z miska. Með vísan til þess er hér að framan greinir eru bætur til hennar hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir. Eru almennir vextir hér einnig fyrndir.

Krafa Æ hefur verið rökstudd með þeim hætti að stúlkan hafi verið ung að aldri er atburðir hafi átt sér stað og reynslan henni því þungbær. Atburðurinn sæki mjög á stúlkuna og trufli daglegt líf hennar. Brotin hafi haft í för með sér neikvæð áhrif á geðheilsu og félagslega aðlögun stúlkunnar og jafnframt leitt til neikvæðrar sjálfsmyndar hennar og lítils sjálfstrausts. Hin ætluðu brot hafi átt sér stað á viðkvæmum aldri stúlkunnar í kynþroska. Óvissa um hvort myndir sem teknar hafi verið af henni hafi verið dreift á veraldarvefnum sé stúlkunni óbærileg. Í skýrslu Rögnu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa kom fram að ætluð brot væru vissulega hluti af reynsluheimi Æ þó svo henni tækist bærilega að lifa með þeim. Ekki væri líklegt að Æ þyrfti að vinna frekar með sína reynslu en eins og öll erfið reynsla gæti hún valdið henni vanlíðan síðar í lífinu ef um frekari áföll yrði að ræða. Brot ákærða olli Æ miska. Með hliðsjón af því er hér að framan er rakið og verknaði ákærða eru bætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Ber sú fjárhæð vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir. Eru almennir vextir fyrndir.

Krafa Þ hefur verið rökstudd með þeim hætti að stúlkan sé enn mjög hrædd og geti varla verið ein heima. Hafi hún sofið illa og verið með sífelldar martraðir. Þá hafi hún fengið mjög slæm kvíðaköst í kjölfar atburða. Atburðurinn hafi því haft gríðarleg áhrif og röskun á líf og líðan stúlkunnar. Í skýrslu Rögnu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa kom fram að stúlkan hafi átt mjög erfitt síðan hin ætluðu brot hafi átt sér stað. Hafi þau verið mjög alvarleg þar sem traust og trúnaður barns hafi verið brotinn og mikil ógnun og hjálparleysi falist í hinum ætluðu brotum. Hafi hún greinst með alvarlega áfallaröskun og einkenni þunglyndis sem hún hafi verið að vinna með. Hafi hún átt mjög erfitt með að takast á við ætluð brot og kæmi þar einnig til fyrri reynsla en Þ hafi sætt grófu kynferðisofbeldi þegar hún hafi verið 6 ára. Sjálfsmynd Þ væri mjög brotin og fyndist henni erfið öll umfjöllun um kynferðislegt ofbeldi. Hafi hún ekki lokið meðferðinni og gæti tekið nokkurn tíma að ná betri líðan. Ennfremur gæti hún þurft á frekari meðferð að halda þegar hún yrði fullorðin. Brot ákærða var til þess fallið að valda Þ miska. Þó svo hún glími við afleiðingar annars tilviks er ljóst að brot ákærða skiptir mestu um líðan hennar í dag. Eru bætur til hennar ákveðnar 600.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir. 

Krafa Ö hefur verið rökstudd með þeim hætti að stúlkan hafi einungis verið 9 ára að aldri er mynd af henni hafi fundist og hún af þeim sökum ekki verið upplýst um eðli myndarinnar. Brotið sé hins vegar til þess fallið að valda tjóni og verði að miða ákvörðun bóta við það. Í ljósi þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni á hún rétt á miskabótum úr hendi hans, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Örðugt er að ákvarða bætur þar sem afleiðingar brotsins eru lítt komnar fram í dag. Bætur verða því ákvarðaðar að álitum og með hliðsjón af því að framferði ákærða var mjög ófyrirleitið. Er fjárhæð miskabóta ákveðin 100.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakar­kostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum vegna meðferðar málsins fyrir dómi. Að auki greiði ákærði laun réttargæslumanns brotaþolanna. Þessar fjárhæðir eru til­dæmdar, að viðbættum virðis­aukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragnheiður Harðardóttir vararíkis­saksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari, sem dómsformaður, Jónas Jóhannsson héraðsdómari

og Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Ólafur Barði Kristjánsson, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði greiði Y, 800.000 krónur í skaða­bætur, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. september 2005 til greiðsludags.

Ákærði greiði Z, 500.000 krónur í skaða­bætur, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. september 2005 til greiðsludags.

Ákærði greiði Æ, 300.000 krónur í skaða­bætur, ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. október 2005 til greiðsludags.

Ákærði greiði Þ, 600.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. mars 2005 til 12. september 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Ö, 100.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2001 til 12. september 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 1.651.149 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, 520.410 krónur og þóknun til réttargæslumanns brotaþolanna Ásu Ólafsdóttur hæstaréttar­lögmanns, 311.250 krónur.

 

Sératkvæði

Jónasar Jóhannssonar

Ég er sammála niðurstöðum dómenda um sakfellingu ákærða, þó þannig að brot samkvæmt A kafla telst ekki sannað að fullu og fyrir­vari er gerður um sakfellingu samkvæmt C og D köflum ákærunnar. Ég er hins vegar ósammála röksemda­færslu fyrir sakfellingu, sem og fjárhæð dæmdra miskabóta og upphafstíma vaxta og tel að skipta beri sakar­kostnaði í málinu. Loks er ég ósammála hvernig málsatvik eru reifuð, án þess að skilið sé skýrt á milli framburðar ákærða og vitna, annars vegar hjá lög­reglu og hins vegar fyrir dómi og tel að slík reifun gefi hæpna mynd af stað­reyndum málsins, ákærða í óhag. Þar sem aðrir dómendur eru ekki sammála síðastgreindum athugasemdum geri ég ekki einstakar athuga­semdir við dómasamninguna fyrr en vikið er að röksemdum og niðurstöðum varðandi A kafla ákæru. Þar tel ég að svo eigi að hljóða: 

 Niðurstöður.

Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu röksemdir dómara lúta að því hvað teljist sannað og með hverjum hætti. Um sönnun fer annars eftir reglum 45.-48. gr. laganna. Í því sam­bandi ber að meta skynsamlegan vafa til hagsbóta fyrir ákærða, bæði um atriði er varða sekt hans og önnur, sem telja má honum í óhag. Sönnunarbyrði hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr., en sönnunar­­mat dómara er frjálst, þó þannig að dómur skal fyrst og fremst reistur á sönnunar­­­gögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr.

Í máli því, sem hér er til meðferðar, veltur niðurstaða á því hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi káfað á kyn­færum Y innanklæða, látið hana snerta getnaðar­lim hans og fróa honum í tjaldútilegu á Þingvöllum í júní eða júlí 1998. Í því sambandi er óumdeilt að ferðin var farin, líklegast í júní eða júlí samkvæmt vitnis­burði Y, en ákærði telur útileguna hafa verið í byrjun júnímánaðar. Þar sem ekki nýtur annarra gagna um nánari tímasetningu ferðarinnar verður við framburð ákærða að styðjast, sbr. 45. og 47. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Ákærði hefur frá upphafi neitað sök, en engu síður gefið óljósan ádrátt um að ekki sé útilokað að hann hafi gert eitthvað á hlut stúlkunnar í útilegunni, en hann muni þá ekki eftir því sökum ölvunar. Er áður getið framburðar ákærða um þetta atriði hjá lögreglu og lýsingar hans á því að hann hafi verið „mjög drukkinn“ þegar hann fór að sofa í tjaldinu umrætt kvöld eða nótt. Ákærði lýsti ástandi sínu með svipuðum hætti fyrir dómi, kannaðist við að hafa drukkið mikið og illa á árinu 1998 og jafnvel átt til að missa úr minni sökum áfengisneyslunnar. Hann kvaðst þó ekki halda að slíkt hefði komið fyrir hann í útilegunni, en langt væri um liðið og hann hefði nú að minnsta kosti útilokað í huga sínum að fótur væri fyrir frásögn stúlkunnar.

Ákærði hefur á hinn bóginn aldrei hvikað frá þeim framburði sínum að rangt sé, sem Y heldur fram, að hann hafi rætt við hana um kyn­ferðis­lega áreitni í hennar garð, þegar þau hafi verið í göngu­túr um Þing­velli næsta dag. Er óumdeilt að sú ganga var farin, en ekkert liggur fyrir um að ákærði hafi þá verið undir áhrifum áfengis og gæti af þeim sökum átt að muna þetta atriði síður en stúlkan.

Þegar framburður ákærða er metinn einn sér og hlutlægt er ekkert sem rýrir trú­verðug­leika framburðarins, svo langt sem hann nær, annað en frásögn Y. Eins og áður greinir hefur ákærði ekki aftekið með öllu að mögulegt sé að hann hafi gert eitthvað á hlut stúlkunnar í tjaldinu. Í þeim framburði getur falist vísbending um sekt ákærða, en hann verður fráleitt metinn sem játning af hans hálfu og sjálfstæður grund­völlur fyrir sakaráfelli í málinu. Þarf hér fleira að koma til.

Í málinu liggur fyrir að Y greindi fyrst frá ætluðu kynferðisbroti eftir að hún flutti vestur á [...] til föður síns í desember 1998. Fyrir þann tíma hafði stúlkan átt afar erfitt uppdráttar og búið við áralanga vanrækslu af hálfu móður sinnar. Faðir Y lýsti því fyrir dómi að stúlkan hefði virst alsæl með flutninginn vestur. Á því hefði ekki orðið breyting fyrr en nokkrum mánuðum síðar, þ.e.a.s. snemma árs 1999, en þá hefði Y orðið snertifælin, sérstaklega í samskiptum við föðurinn. Óháð því hvort samband sé milli þessa og þeirrar hnýsni föðurins að kíkja í leyfisleysi í dagbók dóttur sinnar, virðist ljóst að hvoru tveggja hafi gerst á svipuðum tíma.

Faðirinn hefur verið stöðugur í þeim vitnisburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi lesið í dagbókinni lýsingu á því að ákærði eigi að hafa berað sig fyrir framan Y í ferðalagi til Þingvalla. Enn fremur, að hann minnist þess hvorki að hafa lesið í bókinni aðra lýsingu á kynferðislegri áreitni ákærða í garð stúlkunnar né heldur um nektarmyndatökur af henni, og að hafi verið um eitthvað slíkt að ræða myndi hann nær örugglega muna eftir því. Faðirinn skoðaði í þessu samband hina rauðu dag­bók, sem lögreglu var afhent 5. ágúst 2005 og var kynntur eftirfarandi texti úr bókinni fyrir dómi, án þess að hann hvikaði frá vitnisburði sínum:              

„3. FEBRÚAR 2001 E og K í Rvk byrjuðu saman og hættu saman daginn eftir. Örugglega út af pabba hans. Hann er algjör dóni. Einu sinni spurði hann mig hvort hann mætti taka mynd af mér allsberri. Svo fór ég með E og D í útileigu og hann lét mig káfa á tippinu.“

Með hliðsjón af greindum vitnisburði föðurins, sem telja verður trúverðugan og engin rök eru til að ætla að skeiki, svo nokkru nemi, verður á því að byggja, ákærða til hagsbóta, sbr. 45. og 47. gr. laga um meðferð opinberra mála, að þegar Y hafði hent dagbókinni, sem faðir hennar laumaðist í og útvegað sér nýja, skráði hún í rauðu bókina frásögn af atburðum í útilegu með ákærða og öðrum samskiptum þeirra í milli, sem var um margt frábrugðin lýsingu hennar í fyrri dagbók. Hefur þessi staðreynd óneitanlega áhrif á sönnunarmat í málinu.

Af vitnisburði föðurins verður ekki ráðið að fundur eldri dagbókarinnar hafi gefið tilefni til kæru eða annarra viðbragða af hans hálfu og ekki verður séð að feðginin hafi rætt efni dagbókarinnar, svo orð sé á hafandi. Má þó ætla að ríkt tilefni hefði verið til einhverra viðbragða hefði faðirinn, sem er lögreglustjóri í [...], lesið um það í dagbókinni að karlmaður hefði misnotað dóttur hans kyn­ferðis­lega með því að láta hana káfa á getnaðarlim hans.

Dagbókarfærslan getur eftir atvikum stutt þá frásögn Y að ákærði hafi látið hana káfa á lim hans í tjaldinu á Þingvöllum. Sé þetta rétt er þeirri spurningu ósvarað af hverju stúlkan færði ekki nánari lýsingu á atburðum í dagbókina, sér í lagi um að ákærði hefði einnig káfað á kynfærum hennar.

Y varð 9 ára vorið 1998. Af vitnisburði hennar er ljóst að hún greindi fyrst vin­konu sinni, G, frá ætluðu kynferðisbroti, einhvern tíma eftir að Y flutti vestur. Að sögn Y hefði G bara hlegið. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 20. september 2005 bar G að hún hefði hlýtt á frásögn Y á árinu 2000 eða 2001 og stúlkan greint frá því að ákærði hefði farið með henni í tjaldútilegu, káfað þar á henni og látið hana snerta getnaðarlim hans. Þegar G kom fyrir dóm sjö mánuðum síðar bar hún hins vegar að Y hefði greint frá atburðum á þann veg að ákærði hefði reynt að láta hana káfa á kynfærum hans. G kvaðst ekki muna hvort Y hefði rætt um snertingu í þessu sambandi og bar að Y hefði ekki rætt um að ákærði hefði káfað á henni. Í kjölfar þessa vitnisburðar var lesið fyrir G vætti hennar hjá lögreglu og stað­festi stúlkan að svo búnu þá frásögn sína.

Þrátt fyrir að G hafi í lok vitnisburðarins fyrir dómi staðfest fyrri endur­sögn á lýsingu Y á atburðarás vekur athygli að stúlkan skuli í fyrstu hafa greint frá sömu atburðum, í sjálfstæðri frásögn, með jafn ólíkum hætti og raun ber vitni. Voru þó ekki liðnir nema sjö mánuðir frá fyrri skýrslugjöf, en á hinn bóginn liðin 5-6 ár frá því að G á að hafa hlýtt á frásögn vinkonu sinnar. Óháð því hver sé skýringin á þessu misræmi í vitnisburði G dregur það óneitanlega úr trú­verðug­leika hans. Þá verður ekki horft framhjá því við sönnunarmatið að endursögn G á atburðum er afar knöpp og óljós um hvaða líkamshluta Y ákærði eigi að hafa káfað á, sem og um öll nánari atvik og aðstæður í kringum ætluð brot hans gagn­vart henni. Er þetta atriði til þess fallið að rýra sönnunargildi vitnis­burðarins.     

Samkvæmt vitnisburði Y greindi hún næst tveimur vinkonum sínum í 9. bekk [...]frá atburðum, þá er stúlkurnar voru saman á vökumaraþoni í skólanum snemma vetrar 2003. Voru þá liðin rúm 5 ár frá tjaldútilegunni með ákærða. Vin­konurnar, F og C, hafa borið um aðdraganda að frásögn Y umrætt sinn með líkum hætti. Hins vegar er ljóst af vitnisburði stúlknanna, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að endursögn þeirra á því sem Y á að hafa greint þeim frá umrætt sinn er ólík, auk þess sem misræmis gætir í vitnisburði F. Þannig bar hún hjá lögreglu um helstu atvik með sama hætti og Y gerði fyrir dómi, en fyrir dómi minntist F ekki á að ákærði eigi að hafa látið Y koma við getnaðarlim hans. C hefur hins vegar verið sjálfri sér samkvæmt í þeim vitnis­burði að hún hafi hlýtt á Y segja frá því á vökumaraþoninu að hún hefði verið í útilegu með ákærða og hann snert hana eða gert „svona hluti“ við hana. Að sögn C hafi hún ekki trúað Y á þeim tímapunkti. Á hinn bóginn segist C hafa fært atburði í tal við Y sumarið 2005, í kjölfar óskyldrar kynferðisbrotakæru á hendur ákærða. Endursögn C af því samtali, sem fram fór rúmum 7 árum eftir útileguna á Þing­völlum, samrýmist vitnisburði Y fyrir dómi, sem gefinn var um svipað leyti.

Við samanburð á framangreindum vitnisburði F og C er ljóst að þeim ber ekki saman um með hvaða hætti Y skýrði þeim frá atburðum á vökumara­þoninu. Óháð því hver kunni að vera ástæðan fyrir misræminu, sem og innbyrðis mis­ræmi í vætti F, verður vart dregin önnur, rökstudd ályktun, en að misræmið sé til þess fallið að veikja frásögn Y um atburði í útilegunni með ákærða og hvað eigi í raun að hafa gerst inni í tjaldinu.

Vitnisburður Sólveigar Ásgrímsdóttur og Rögnu Guðbrandsdóttur, sem áður er rakinn, veitir ekki haldbæra vísbendingu um sekt ákærða og verður sak­­felling ekki studd vætti þeirra, sbr. 45. og 47. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Stendur þá eftir mat á trúverðugleika vitnisburðar Y og rýni í vætti A, sem stúlkan hefur búið hjá frá því vorið 2002.

Við mat á vitnisburði A er til þess að líta að hún greindi lögreglu frá því að Y hefði tjáð henni, líklega vorið 2003, að hún hefði sætt kynferðisbroti af hálfu ákærða, án þess þó að skýra nánar frá atvikum. Fyrir dómi, sjö mánuðum síðar, bar A á hinn bóginn að Y hefði, að því er virðist í sama skipti, greint frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu ákærða í útilegu, hann káfað á kyn­færum hennar og látið hana gera hið sama við hann. Óháð því hver kunni að vera ástæðan fyrir þeim stíganda, sem greina má með skýrum hætti í frásögn A, á vitnis­­burður hennar það sammerkt við vætti C að frásögn Y sjálfrar af atburðum í tjaldútilegunni virðist hafa færst í aukana eftir því sem árin hafa liðið, ekki síst eftir að í ljós kom að ákærði var grunaður um fleiri kynferðisbrot. Fær sú ályktun og stoð í mismunandi dagbókarfærslum stúlkunnar, en sem fyrr segir hefur lýsing hennar þar á atburðum tekið nokkrum breytingum, ákærða veru­lega í óhag.

Er þá loks komið að því að meta trúverðugleika vitnisburðar Y fyrir dómi, en í ljósi þess sem áður er rakið verður að meta hann með hliðsjón af framburði ákærða og vætti annarra vitna. Eftir að hafa skoðað grannt upptöku af framburði Y þykir vætti hennar trúverðugt, eitt sér. Stúlkan býður af sér góðan þokka, hún er róleg og yfirveguð í allri frásögn, jafnt um atburði í tjaldútilegunni sem aðra og hvergi hallar á ákærða, af reiði eða æsingi, þegar hann ber á góma. Er ekki haldbær ástæða til að efast um þá frásögn Y að ákærði hafi greint sinn brotið gegn henni á kynferðislegan máta, enda engin ytri skýring fram komin um það af hverju stúlkan ætti að bera á hann kolrangar sakir. Dómari er hins vegar með böggum hildar þegar meta á hvað teljist sannað að ákærði hafi gert á hlut stúlkunnar.

Y greindi sjálf frá því fyrir dómi að hún hefði umrætt sinn átt erfitt með að sofna í tjaldinu og því þegið boð ákærða um að færa sig til hans. Í kjölfar þess hefði ákærði farið með aðra hönd sína inn fyrir nærbuxur og í klof hennar. Y hefði ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við þessu og hún því ákveðið að þykjast vera sofandi. Í framhaldi hefði ákærði tekið um aðra hönd Y, látið hana káfa á getnaðar­lim hans og hreyfa höndina. Eftir að hafa skoðað upptökuna af þessum fram­burði Y þykir enginn vafi leika á því að eitthvað alvarlegt hafi gerst í samskiptum Y og ákærða í tjaldinu.

Sem fyrr segir voru liðin rúm 7 ár frá atburðum þegar Y greindi frá þeim á framan­greindan veg. Ekkert þeirra vitna, sem fyrr getur, hefur lýst atvikum með sama hætti og Y, til að mynda um að hún hafi verið látin hreyfa hönd sína á getnaðarlim ákærða, en í ákæru er þetta orðað á þann veg að hún hafi verið látin fróa honum. Þá skortir lýsingu vitna á því hvernig ákærði eigi að hafa borið sig að við ætlað ódæði og sum þeirra hafa alls ekki borið um þá atburðarás, sem Y lýsir í dómskýrslu sinni. Þannig bar F aðeins fyrir dómi að ákærði eigi að hafa káfað á kynfærum Y, en minntist ekki á hitt, að ákærði hefði einnig látið hana snerta getnaðarlim hans. G bar á hinn bóginn fyrir dómi að ákærði hefði aðeins reynt að láta Y snerta ­lim hans, en kvað Y ekki hafa rætt um að ákærði eigi að hafa káfað á kyn­færum hennar. Við sönnunarmat breytir litlu um þennan vitnisburð G fyrir dómi þótt hún hafi síðar horfið frá honum og staðfest fyrri frásögn sína hjá lögreglu, enda ber ákærða að njóta alls vafa um áreiðanleika vættis hennar og annarra vitna í málinu, sbr. 45., 46. og 48. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Y hefur greint frá því að hún hafi umrætt sinn lagst til svefns í tjaldinu, í svefnpoka og íklædd síðbuxum og að ákærði hafi einnig verið í síðbuxum. Y verður ekki um það kennt, en fyrir dómi var hún hvorki spurð hvort hún hefði farið úr svefn­pokanum þegar hún færði sig yfir til ákærða né heldur hvernig ákærði eigi að hafa farið með hönd sína á ber kynfæri hennar og látið hana gera slíkt hið sama við hann, á meðan þau voru bæði svo klædd. Ef til vill hefði aldrei fengist framburður Y um þetta atriði, enda langt um liðið frá hinum kærða atburði. Hitt er ljóst, að frásögn hennar er um margt óskýr um aðdraganda að því að ákærði eigi að hafa mis­notað hana kynferðislega, með þeim hætti sem honum er gefið að sök í ákæru.

Y lýsti því í dómskýrslu sinni að þegar hún hefði fyrst greint frá atburðum í tjaldinu hefði viðmælandi hennar og góð vinkona, G, hlegið og ekki trúað henni. Næst hefði hún skýrt tveimur öðrum góðum vinkonum sínum frá atburðum, F og C og fannst henni sem hvorug þeirra hefði viljað trúa henni. Hefur C staðfest þann skilning Y fyrir dómi. Faðir Y las um atburði í dagbók, sem stúlkan henti strax í kjölfarið. Sú lýsing á atburðum, sem þar kom fram, vakti ekki viðbrögð af hálfu föðurins. Y greindi síðar móður­systur sinni frá atburðum, án þess að konan teldi ástæðu til viðbragða. Að virtum þessum atriðum er fráleitt unnt að útiloka að Y hafi, ómeð­vitað og í tímans rás, fært frásögn sína í stílinn, annars vegar í dagbókinni rauðu og hins vegar í sam­tölum við nákomna vini og ættingja, ef ekki til annars en að einhver tæki hana loks trúanlega. Það gerði C vinkona hennar sumarið 2005, eftir að grunur vaknaði um að ákærði hefði misnotað önnur börn kynferðislega. Viðbrögð C við því samtali hennar og Y leiddi síðan til kæru í málinu. Eins og áður segir voru þá liðin 7 ár frá tjaldútilegunni.

Þegar vitnisburður Y og ákærða er metinn heildstætt og til þess er litið, að ákærði hefur ekki treyst sér til að útiloka í raun og sanni að hann hafi gert eitthvað á hlut stúlkunnar í tjaldútilegunni forðum daga, að ákærði hefur gengist við því að hafa verið mjög drukkinn þegar hann lagðist til svefns í tjaldinu, að Y hefur enga ytri ástæðu til að bera á ákærða upplognar sakir og sverta mannorð hans að ósekju og loks þess, að stúlkan þykir trúverðug í þeirri frásögn sinni að ákærði hafi káfað á kyn­færum hennar innanklæða, velkist dómari ekki í vafa um að atvik hafi raunveru­lega verið með þeim hætti. Er ákærði því sannur að þeirri sök í málinu. Telst hátt­semin kyn­­ferðis­­leg áreitni í skilningi 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003 og varðar refsingu samkvæmt því.

Á hinn bóginn leikur meiri vafi á því hvort ákærði teljist, sannanlega, hafa látið Y snerta kynfæri hans og fróa honum. Um hið síðarnefnda liggur aðeins fyrir óljós vitnisburður Y og um hið fyrrnefnda hafa önnur vitni ekki verið sammála hvort þau hafi hlýtt á stúlkuna bera um. Að þessu virtu, með hliðsjón af því er áður segir um að svo virðist sem frásögn Y hafi heldur færst í aukana á umliðnum árum og loks því að vitnis­burður hennar fyrir dómi var gefinn rúmum 7 árum eftir að atvik gerðust, verður að telja óvarlegt að fullyrða, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi látið hana snerta getnaðarlim hans og fróa honum í tjaldinu. Með vísan til 45., 46. og 48. gr. laga um meðferð opinberra mála ber því að sýkna ákærða af þeirri háttsemi, sbr. og til hliðsjónar hæstaréttardómur 8. maí 2003 í máli réttarins nr. 4/2003.

Samkvæmt greindum málsúrslitum er ákærði uppvís að broti gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sem varðað getur fangelsi allt að 4 árum. Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. hegningarlaganna fyrnist sök á 5 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 4 ára fangelsi. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laganna telst fyrningar­frestur frá þeim degi er refsiverðum verknaði lauk. Í ljósi þessa ákvæðis myndi sök ákærða hafa fyrnst eigi síðar en í júní 2003. Með lögum nr. 63/1998 um breyting á fyrningarreglum almennra hegningarlaga var 1. mgr. 82. gr. breytt á þann veg að fyrningarfrestur vegna kynferðisbrota á borð við það sem ákærði er uppvís að hefjist aldrei fyrr en brotaþoli nær 14 ára aldri. Umrædd breytingarlög tóku gildi 18. júní 1998 og gilda því ekki um kynferðisbrot framin fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Eins og áður er rakið leikur vafi á því hvenær í júní 1998 ákærði braut gegn Y í útilegunni á Þingvöllum. Með hliðsjón af því sem fyrr segir, um að meta beri allan skynsamlegan vafa um tímasetningu atburðarins ákærða í hag, verður að leggja til grundvallar þann framburð ákærða að ferðin hafi verið farin fyrri hluta júní mánaðar. Vegna þessa ber að sýkna ákærða af refsingu fyrir brotið gagnvart stúlkunni.

Með sama fyrirvara um reifun málsatvika tel ég að röksemdir fyrir sakfellingu ákærða samkvæmt B kafla ákæru eigi að hljóða svo:

Niðurstöður.

Með hliðsjón af skýlausri játningu ákærða fyrir dómi, sem samrýmist fram­burði hans hjá lögreglu og öðrum rannsóknargögnum málsins, er sannað að hann hafi, að morgni nýársdags 1999, þá er Z var tæpra 4 ára að aldri, látið hana strjúka getnaðarlim hans, svo sem honum er gefið að sök í 1. tölulið B kafla ákæru. Ákærði hefur ekki dregið dul á að hann hafi örvast kynferðislega við þá athöfn, en fyrir ákærða vakti að láta barnið „runka“ honum, þótt ekki yrði honum sáð­lát að eigin sögn, fyrst og fremst vegna bágborins ástands síns um morguninn.

Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst sekur um kynferðisbrot samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003. Er lögð allt að 12 ára fangelsisrefsing við slíku broti.

Ákærði hefur og viðurkennt að hafa, í framhaldi af ofangreindum verknaði, girt niður um Z, í þeim tilgangi að sviðsetja ljósmyndir af honum rassskella hana á beran afturendann. Hefur ákærði kannast við að hafa í því skyni snert afturenda telpunnar, en þrætir fyrir að hafa rassskellt hana. Áður­nefndar tvær ljósmyndir, sem nánar verður vikið að í umfjöllun um D kafla ákærunnar, sýna ákærða fullklæddan, sitja í stól og telpuna hvíla með bringu í kjöltu hans. Sokkabuxur barnsins eru dregnar niður undir hnésbætur. Á fyrri myndinni sést hvar opinn lófi hægri handar ákærða er par sentimetra frá berum afturenda telpunnar og á hinni seinni hvílir lófinn á þjó­hnöppum hennar.

Það er að áliti dómara deila um keisarans skegg hvort ákærði hafi umrætt sinn rassskellt þriggja ára barn, sem var gestkomandi á heimili hans, í eiginlegum skilningi þess orðs eða einungis sviðsett svo niðurlægjandi hirtingu, honum til and­legrar fróunar, enda liggur fyrir að ákærði hóf hönd sína á loft yfir berum afturenda telpunnar og lauk þeirri athöfn með því að leggja höndina á rass hennar. Að þessu virtu velkist dómari ekki í vafa um að sakfella beri ákærða í samræmi við verknaðar­lýsingu 2. töluliðar B kafla ákærunnar. Varðar háttsemin ákærða refsingu samkvæmt 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003.

Með sama fyrirvara um reifun málsatvika tel ég að röksemdir fyrir sakfellingu ákærða samkvæmt C kafla ákæru eigi að hljóða svo:

Niðurstöður.

Dómari hefur skoðað upptöku af framburði Þ og metur frásögn stúlkunnar einkar trúverðuga þegar hún lýsti því fyrir dómi hvernig ákærði hefði komið inn í svefnherbergi D dóttur sinnar umrædda nótt og strokið Þ um bak og rass innanklæða og káfað á lærum hennar. Vitnis­burður Þ og þær alvarlegu sakir, sem hún ber á ákærða, samrýmast vætti annarra vitna í málinu, ekki síst lýsingu móður hennar og Jóhanns Karls Þórissonar lögreglu­manns, en þessi vitni hlýddu á stúlkuna skýra frá atburðum örfáum mínútum eftir að hún hljóp öskrandi og grátandi út af heimili ákærða um miðja nótt, þar sem hún hafði þó áður ákveðið að gista í svefnherbergi dóttur hans. Framburður ákærða þykir að sama skapi afar ótrúverðugur, ekki aðeins um atvik að ætluðu broti inni í svefn­her­berginu heldur einnig um ætlaða óþefjan af ilmvatninu, sem hafi haldið vöku fyrir ákærða, drukknum, leitt hann til þess að fara nakinn inn í herbergið um miðja nótt og opna þar glugga, að eigin sögn vegna ofnæmis fyrir anis, sem ekkert liggur fyrir um að geti verið ofnæmisvaldandi og því síður að ákærði hafi ofnæmi fyrir. Óháð slíkum vangaveltum er skýringum ákærða á næturbrölti hans og lýsingu á atburðum inni í svefn­­herberginu hafnað sem fráleitum og ekki í nokkru samræmi við önnur gögn málsins.

Með vísan til framanritaðs þykir hafið yfir minnsta vafa að ákærði hafi umrætt sinn farið nakinn inn í svefnherbergi til Þ, strokið henni um bak og rass innan­klæða og káfað á lærum hennar. Er ákærði því sannur að þeirri sök, sbr. 45.-48. gr. laga um meðferð opinberra mála. Hins vegar liggur ekki nægjanlega fyrir að ákærði hafi jafnframt klipið stúlkuna í mjöðm og innanvert læri og verður honum því ekki gerð refsing fyrir slíka háttsemi. Þá verður ákærði, eins og ákæra er orðuð, sak­felldur fyrir að hafa strokið henni „á innanverðu læri“, en ekki lærum. Ber engu síður að heimfæra háttsemi ákærða undir 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.            

Með sama fyrirvara um reifun málsatvika tel ég að röksemdir fyrir sakfellingu ákærða samkvæmt D kafla ákæru eigi að hljóða svo:

Niðurstöður.

Í málinu er upplýst að ákærði hafði í vörslum sínum 226 ólíkar ljósmyndir af börnum og ungmennum, ýmist nöktum eða hálfnöktum, á hörðum diski tölvu sinnar, sem lögregla lagði hald á 21. mars 2005. Ákærði hefur kannast við, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hafa varslað umræddar myndir á tölvunni. Meirihluti myndanna eru af óþekktum útlendum börnum, en þær liggja allar frammi í málinu. Þó eru, eins og áður segir, 14 ljósmyndir af Z, þar af 12 sem sýna telpuna halda utan um getnaðarlim ákærða og 2 sem sýna, ef ekki annað, sviðsetta hirtingu hennar. Þá eru 2 ljósmyndir, sem sýna systur Z, Æ, annars vegar nakta að leik í garði ákærða og hins vegar nakta í vaðlaug. Auk þessa liggur fyrir samkvæmt játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann skeytti saman ljósmynd tekna af Ö, líklegast á árinu 2001 og aðra af ókunnum nöktum karlmanni, þannig að úr varð fölsk mynd, sem ranglega sýnir Ö sleikja getnaðarlim viðkomandi manns.

Fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa gerst sekur um vörslur á barnaklámi með því að vista myndir af börnum á hörðum diski tölvu sinnar. Honum var gefinn kostur að tilgreina hverjar 226 myndanna hann teldi ekki falla undir skil­greiningu hegningarlaga á barnaklámi og tilgreindi þar 89 myndanna. Dómari hefur grann­skoðað allar myndirnar og verður, í ljósi alls vafa, sem meta skal ákærða í hag, sbr. 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála, að fella utan við skilgreiningu 4. mgr. 210. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 14/2002, ljós­myndir í rannsóknargögnum lögreglu merktar nr. 00292, 00297, 00298, 00300, 14, 15, 20, 21, 23, 3, 4-21-99-05, 4-21-99-06, CY004, ir0026, loli5, loli8, loli9, pao040, pica6 og loks picday1, eða samtals 20 ljósmyndir. Leikur hér aðeins vafi á aldri viðkomandi stúlkna og hvort þær, í ljósi líkamsvaxtar, falli utan skilnings hegningarlaga á börnum.

Að þeim myndum slepptum þykir vafalaust að ákærði hafi, með vörslu 206 annarra ljósmynda á hörðum diski tölvu sinnar, gerst brotlegur við 4. mgr. 210 gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum, en í því felst mat dómara að um myndir sé að ræða, sem allar sýni börn á kynferðislegan eða klám­fenginn hátt. Ber að refsa ákærða fyrir þá háttsemi, en um alvarleika brotanna verður fjallað hér á eftir.

Í ljósi framangreindra niðurstaðna tel ég að ákvarða beri ákærða refsingu og dæma hann til greiðslu miskabóta með svohljóðandi rökum:

Refsing og önnur viðurlög.

Sem fyrr segir verður ákærða, í ljósi fyrningarreglna almennra hegningarlaga, ekki gerð refsing fyrir saknæma háttsemi sína gagnvart Y. Brot ákærða gagnvart Z eru alvarlegs eðlis. Að mati dómara brást hann ekki aðeins trúnaðartrausti 3 ára telpu, sem mátti sín einskis þegar hún umrætt sinn knúði dyra á heimili ákærða, í barnslegu sakleysi, heldur ákvað ákærði að hefna sín á barninu fyrir að trufla svefnfrið hans, með því að mis­nota það kynferðis­lega, á ófyrirleitinn og svívirðilegan hátt. Til að bæta gráu ofan á svart ljósmyndaði ákærði misbeitingu sína á barninu og varslaði á hörðum diski tölvu sinnar um margra ára skeið. Ákærði brást einnig, með alvar­legum hætti, trausti Þ, sem og móður hennar, þegar hann axlaði ábyrgð á velferð stúlkunnar með því að leyfa henni, tæp­lega 12 ára að aldri, að gista á heimili hans. Er ljóst af gögnum málsins að verknaður ákærða hafi haft alvar­leg áhrif á líðan stúlkunnar. Þá dregur það síður en svo úr refsinæmi verknaðarins, í ljósi fyrri ályktunar dómara, að ákærði sagðist hafa verið pirraður á saklausri stúlkunni umrædda nótt. Líkt og með Z verður vart annað ráðið af slíkum fram­burði en að ákærði réttlæti eigin gjörðir með vísan til þess að saklaus börnin hafi gert eitthvað á hans hlut, sem réttlæti afbrot hans að einhverju leyti. Um vörslur ákærða á barnaklámi skal ekki fjölyrt. Er áður fjallað um myndir þær sem hann tók og varslaði af Z. Auk þess tók ákærði ekki aðeins virkan þátt í dreifingu og útbreiðslu á barna­klámi, sem er alvarlegt og sívaxandi alþjóðlegt vanda­mál, þegar hann varslaði útlendar barnaklámsmyndir á tölvu sinni, heldur tók hann annars vegar ljósmyndir af Æ, án heimildar og vitneskju foreldra hennar og svívirti Ö og foreldra hennar, með því að skeyta saman tveimur ljósmyndum og búa til falska mynd af barninu sleikja getnaðar­lim karlmanns.

Að virtum öllum sakargögnum er ljóst að ákærði á sér engar málsbætur. Við mat á refsingu ber þó að taka tillit til þess að hann hefur ekki áður gerst sekur um refsi­verða háttsemi, svo kunnugt sé. Í ljósi þessa og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.

Eins og áður greinir er ákærði sýkn af refsikröfu ákæruvaldsins samkvæmt A kafla ákæru, á grundvelli fyrningarákvæða almennra hegningarlaga, þrátt fyrir að hann sé sannur að kynferðisbroti gagnvart Y. Með vísan til hæsta­réttardóma 28. febrúar 2002 í máli nr. 420/2001, 8. maí 2003 í máli nr. 4/2003 og 10. febrúar 2005 í máli nr. 334/2004 breytir engu um þá niðurstöðu að Y á ekki aðeins rétt til miskabóta úr hendi ákærða samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, heldur er slík krafa ófyrnd, sbr. 16. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Þótt ekki liggi fyrir ítarleg gögn um afleiðingar kynferðisbrots ákærða gagnvart Y og ljóst sé að stúlkan hefur átt um sárt að binda vegna erfiðra uppeldisaðstæðna, er jafn ljóst að háttsemi sú, sem ákærði er fundinn sekur um, er til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum og ómælanlegu andlegu tjóni. Í ljósi þessara sam­verkandi atriða og með skírskotun til atvika að broti ákærða þykja miskabætur til Y hæfilega ákveðnar 400.000 krónur.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot, sem bitnað hafa með ólíkum hætti á Z, Æ og Ö. Í ljósi þessa og með vísan til 2. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að ákvarða stúlkunum miskabætur úr hendi ákærða, að uppfylltum lagaskilyrðum b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Eru þau skilyrði í öllum tilvikum uppfyllt að mati dómara.

Um bætur til Z og Æ er til þess að líta að faðir stúlknanna hvarf af sameiginlegu heimili þeirra og móður fyrirvaralaust eftir hjúskaparbrot á árinu 2003. Samkvæmt vitnisburði móðurinnar fyrir dómi, sem studdur er vætti Rögnu Guð­brands­­dóttur félags­ráð­gjafa í Barnahúsi, hafði skilnaðurinn djúpstæð áhrif á líðan stúlknanna. Verður ekki litið framhjá þessari staðreynd við ákvörðun miskabóta, enda liggur og fyrir vætti Rögnu um að áhrif erfiðs skilnaðar á börn geti haft í för með sér svipuð einkenni og kynferðisbrot. Með hliðsjón af því sem rakið er í tveimur álits­gerðum Rögnu um viðtöl og greiningu á vanda stúlknanna, dagsettum 7. og 17. mars 2006, má þó fráleitt gera lítið úr áhrifum verknaðar ákærða á andlega líðan stúlknanna og þeim sálrænu erfiðleikum, sem þær hafa hvor um sig glímt við undan­farin ár. Þá ber að hafa í huga ljósmyndir þær sem ákærði tók af systrunum, sér í lagi einkar meiðandi myndir af Z. Með framangreind atriði öll í huga þykja miska­­bætur til Z hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og bætur til Æ 100.000 krónur.     

Við ákvörðun bóta til handa Þ er þess að gæta að stúlkan varð fyrir alvarlegu kynferðisbroti af hendi frænda síns þegar hún var 6 ára gömul og við­komandi reyndi að nauðga henni. Af ókunnum ástæðum var sá atburður ekki kærður til lögreglu og hefur samkvæmt vitnisburði Rögnu Guð­brands­dóttur aldrei verið útræddur í fjölskyldunni, þannig að tekist hafi að „loka“ málinu, en stúlkan var einnig í meðferð hjá Rögnu í kjölfar umrædds verknaðar. Samkvæmt álitsgerð Rögnu 17. mars 2006, sem rituð var í þágu meðferðar þessa máls, hafði Þ sótt 22 viðtöl hjá Rögnu á tímabilinu frá 10. maí 2005. Er þar ítarlega lýst ætluðum áhrifum af kyn­ferðisbroti ákærða gagnvart stúlkunni, meðal annars við­varandi hræðslu, svefn­truflunum, kvíðaköstum og brotinni sjálfsmynd, en samkvæmt álits­gerðinni eiga brot ákærða að hafa haft gríðarleg áhrif og röskun á líf og líðan stúlkunnar. Þannig hafi Þ greinst með alvarlega áfallastreituröskun og ein­kenni þung­lyndis, sem hún hafi verið að vinna úr í meðferðinni hjá Rögnu. Að áliti Rögnu er óljóst hvenær þeirri meðferð ljúki og hvort stúlkan þurfi á frekari meðferð að halda á fullorðinsárum. Ragna var þráspurð fyrir dómi hvort afleiðingar þær sem hún hefði greint í fari Þ og áður eru nefndar megi með vissu rekja til verknaðar ákærða fyrst og fremst eða hvort um sé að ræða samverkandi afleiðingar af hátt­semi hans og þess verknaðar, sem stúlkan varð fyrir af hendi frænda síns. Ragna játti, með semingi, að um samverkandi orsakir væri að ræða, en þó teldi hún að verknaður ákærða réði mestu um þær afleiðingar, sem Þ byggi nú við. Jafn­framt bætti Ragna því við að áhrifin af broti ákærða á líðan stúlkunnar hefðu að öllum líkindum magnast og orðið mun verri en ella vegna fyrri reynslu stúlkunnar. Að öllu því virtu, sem nú hefur verið rakið og að teknu tilliti til réttmæts vafa um afleiðingar verknaðar ákærða á andlega líðan og hagi Þ þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. 

Krafa Ö er studd þeim rökum að stúlkan hafi verið 9 ára þegar ljósmynd af henni fannst í vörslum ákærða. Af þeim sökum hafi hún enn ekki verið upplýst um eðli myndarinnar, en samkvæmt vitnisburði móður hennar, L, liggur fyrir að hún verði í náinni framtíð að láta stúlkuna vita af broti ákærða gagnvart henni. Sé brotið til þess fallið að valda henni sál­rænu tjóni og beri að miða ákvörðun bóta við það. Þótt afleiðingar af umræddu broti ákærða gagnvart Ö séu samkvæmt framansögðu ekki fram komnar í dag þykir hann engu síður bera ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn friði hennar, æru og persónu í skilningi a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, enda er sú háttsemi ákærða ófyrirleitin að búa til falska mynd af stúlkunni sleikja getnaðarlim karlmanns og ekki fyrirséð að myndin hafi ekki þegar hlotið útbreiðslu á veraldarvefnum. Ber af þeim sökum að fallast á bóta­skyldu ákærða og dæma Ö miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 150.000 krónur.

Í ákæru er ekki tilgreindur upphafsdagur vaxta af bótakröfum þeirra fimm stúlkna, sem eiga hlut að máli. Óháð því er ljóst að hluti almennra vaxta, sem krafist er vegna brota gagnvart Y, Z, Æ og að líkindum Ö er fyrndur samkvæmt ákvæðum 2. töluliðar 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Fer annars um þá vexti og almenna vexti af kröfu Þ samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu. Um dráttarvexti er fjallað í 9. gr. sömu laga og þar skírskotað til 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt meginreglu fyrrnefnds lagaákvæðis skulu skaða­bóta­kröfur bera dráttar­vexti að liðnum einum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannan­lega leggur fram þær upplýsingar, sem þörf er á til að meta tjónsatvik og fjár­hæð bóta. Ber hér að miða við þau tímamörk og ákveða upphaf dráttarvaxta að liðnum mánuði frá þeim degi er bótakröfur stúlknanna hverrar um sig voru birtar ákærða. Samkvæmt því bera kröfur Z, Þ og Ö dráttarvexti frá 12. september 2005, en kröfur Y og Æ frá 22. október 2005, allar til greiðsludags.

Þar sem aðrir dómendur eru ósammála um framangreindar röksemdir og niður­stöður er óþarft að elta ólar við ákvörðun sakarkostnaðar í málinu.