Hæstiréttur íslands

Mál nr. 381/2016

Marinó Pálmason (Hlöðver Kjartansson hrl.)
gegn
Hildu ehf. (Friðbjörn E. Garðarsson hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Veðleyfi
  • Ógilding samnings
  • Aðildarskortur
  • Aðild

Reifun

P gaf út tryggingarbréf til tryggingar öllum skuldum einkafirma síns D með allsherjarveði í fasteign M. Var bú P tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum 17. apríl 2009. Á grundvelli framsals höfðaði H ehf. mál þetta í því skyni að ganga að hinni veðsettu eign M. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 2. gr. laga nr. 142/2010, sem breyttu lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., hefði tveggja ára fyrningarfrestur krafna á hendur P, sem ekki hefðu fengist greiddar við skiptin, án tillits til þess hvort þeim hefði verið lýst við þau byrjað að líða við gildistöku fyrrnefndra laga eða þann 29. desember 2010. Þá kom fram að firmað teldist ekki sjálfstæð lögpersóna sem gæti átt réttindi eða borið skyldur og nyti því ekki aðildarhæfis í skilningi 1. mg. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og gætu því skipti á firmanu ekki farið fram með sjálfstæðum hætti. Í samræmi við það hefðu eignir og skuldir fallið til eiganda þess í samræmi við 72. gr. laga nr. 21/1991 og hefði fjárkrafa H ehf. því verið fallin niður fyrir fyrningu gagnvart skuldara og eiganda firmans þegar málið var höfðað á árinu 2015. Var M sýknað af kröfu H ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 16. mars 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 27. apríl sama ár og var því áfrýjað öðru sinni 19. maí það ár. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi sendi Pálmi Sigurðsson tilkynningu 16. apríl 1980 til firmaskrár Garðabæjar. Þar kom fram að hann hygðist stofna og reka sem einkafirma fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð sinni undir heitinu Dráttarbílar. Tilgangur fyrirtækisins væri rekstur dráttar- og flutningabíla og vinnuvéla, útleiga á slíkum tækjum, mannvirkjagerð og önnur skyld starfsemi.

Hinn 27. nóvember 2003 gaf Pálmi út skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis vegna Dráttarbíla að fjárhæð 58.224.163 japönsk jen. Jafnframt gaf hann út skuldabréf til sama sparisjóðs vegna fyrirtækisins 24. nóvember 2005 að fjárhæð 36.023.887 japönsk jen. Skilmálum þessara bréfa er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar eru einnig raktar skilmálabreytingar sem voru gerðar á skuldabréfunum 20. nóvember 2008.

 Til tryggingar öllum skuldum Dráttarbíla við sparisjóðinn gaf Pálmi út tryggingarbréf 23. október 2003 að fjárhæð 5.000.000 krónur bundið vísitölu og að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði af vanskilum. Með bréfinu var sparisjóðnum sett að allsherjarveði fasteign áfrýjanda að Skrúðási 1 í Garðabæ. Skilmálum bréfsins og hvernig hagað var undirritun á það er nánar lýst í héraðsdómi.

Á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 tók Drómi hf. við eignum sparisjóðsins og tryggingaréttindum sem þeim fylgdu. Með framsali 31. desember 2013 á fyrrgreindu tryggingarbréfi var því og skuldum útgefanda þess ráðstafað til stefnda. Hann höfðaði síðan mál þetta í því skyni að ganga að eigninni, sem sett var að veði með bréfinu, til að leita fullnustu á kröfum samkvæmt áðurgreindum skuldabréfum.

II

Eins og fram kemur í héraðsdómi krafðist áfrýjandi þess að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu hafnaði dómurinn með úrskurði 2. júní 2015. Áfrýjandi gerir sem fyrr segir aðallega sömu kröfu hér fyrir dómi.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um frávísun fyrst í stað á því að fjárkrafa stefnda, sem hann krefst að gert verði fjárnám fyrir, skorti lagastoð bæði gagnvart lántaka og áfrýjanda. Heldur áfrýjandi því fram að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlends gjaldmiðils, en það fari í bága við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Telur áfrýjandi að leysa þurfi úr þessu vegna kröfu sinnar um frávísun, enda óhugsandi að málið verði rekið áfram nema fjárkrafan verði talin gild. Af þessu sökum hafi einnig verið nauðsynlegt að lántaki, Pálmi Sigurðsson, væri annað hvort aðili að þessu máli eða sérstakt mál rekið á hendur honum um þennan ágreining áður en áfrýjanda yrði með dómi gert að þola að fjárnám yrði gert í eign sinni.

Þótt talið yrði að skuldabréf 27. nóvember 2003 og 24. nóvember 2005, sem Pálmi gaf út vegna Dráttarbíla, hefðu verið bundin ólögmætri gengistryggingu gat það ekki valdið því að fjárkröfu samkvæmt bréfunum skorti lagastoð, eins og ítrekað hefur verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Þá var engin þörf á aðild útgefanda bréfanna að máli þessu eða að rekið yrði mál á hendur honum áður en gengið yrði að áfrýjanda með kröfu um að honum yrði gert að þola fjárnám í eign sem stóð að veði til tryggingar fyrir skuldabréfunum. Þessum málsástæðum áfrýjanda fyrir kröfu um frávísun málsins verður því hafnað.

Í annan stað reisir áfrýjandi kröfu sína um frávísun málsins á því að sú fjárkrafa sem stefndi leitar eftir að gert verði fjárnám fyrir hjá sér sé vanreifuð og ruglingsleg. Heldur áfrýjandi því einnig fram að allur málatilbúnaður stefnda sé mjög óglöggur þannig að ekki sé fullnægt áskilnaði d. og e. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran málflutning og fullnægjandi reifun máls.

Með málsókninni krefst stefndi að áfrýjanda verði gert að þola fjárnám í eign sinni vegna áðurgreinds tryggingarbréfs 23. október 2003 sem hvílir á eigninni. Stefndi telur að höfuðstóll fjárkröfunnar nemi samtals 98.941.250 krónum eftir að skuldin hafi verið umreiknuð úr japönskum jenum í íslenskar krónur samkvæmt heimild í skuldabréfunum. Við meðferð málsins í héraði lagði stefndi fram útreikninga á fjárhæð kröfunnar. Verður því ekki fallist á það með áfrýjanda að málið sé svo vanreifað að vísa beri því frá dómi. Þessi röksemd áfrýjanda fyrir frávísun málsins er því einnig haldlaus og verður þeirri kröfu hans hafnað.    

III

Krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að við úrlausn málsins hafi ekki, í samræmi við fyrirmæli f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, verið leyst úr þeim málsástæðum sem áfrýjandi tefldi fram í málinu til stuðnings sýknukröfu sinni. Í þeim efnum vísar áfrýjandi til þess að hann hafi byggt vörn sína á því að Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sem stefndi leiði rétt sinn frá, hafi við lánveitingar og veðsetningar borið að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í þeim efnum hafi sparisjóðnum meðal annars borið að gæta að fyrirmælum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 í lögskiptum við lántaka og áfrýjanda. Um þessa málsástæðu hafi ekki verið fjallað af þeirri ástæðu að dómurinn hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að samkomulagið ætti ekki við vegna þess að áfrýjandi væri ekki ábyrgðarmaður í skilningi þess. Þá heldur áfrýjandi því fram að dómurinn hafi ekki leyst úr þeirri málsástæðu sinni að skuldabréfin 27. nóvember 2003 og 24. nóvember 2005, sem Pálmi Sigurðsson gaf út vegna Dráttarbíla til sparisjóðsins, hafi verið með ólögmætri gengistryggingu.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu á því að víkja beri til hliðar veðsetningu á fasteign hans samkvæmt tryggingarbréfi 23. október 2003 til forvera stefnda á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig. Til stuðnings þessari málsástæðu vísar áfrýjandi meðal annars til þess að ekki hafi við veðsetninguna verið gætt að fyrirmælum fyrrgreinds samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til að fallast á sýknukröfuna á þessum grunni. Var því leyst úr þessari málsástæðu áfrýjanda. Skiptir þá ekki máli þótt dómurinn hafi talið að samkomulagið ætti ekki við þegar þriðji maður samþykkir að eign sín standi að veði fyrir skuld annars manns, en beinlínis er gert ráð fyrir því í síðari málslið 2. greinar samkomulagsins að það gildi um slíkar tryggingar.

Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að fjárkrafa stefnda væri reist á tveimur skuldabréfum í erlendri mynt. Því tók dómurinn afstöðu til og hafnaði þeirri málsástæðu að skuldabréfin hefðu verið með ólögmætri gengistryggingu. Var þetta í samræmi við efni skuldabréfanna þar sem fjárhæð þeirra var tilgreind í erlendum myntum. Þess utan gat umrædd málsástæða ekki haft áhrif á úrslit málsins eins og það liggur fyrir réttinum, enda ekki höfð uppi greiðslukrafa í málinu.

Samkvæmt framansögðu verður krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms ekki tekin til greina.    

IV

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að stefndi sé réttur aðili málsins. Samkvæmt því verður áfrýjandi ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Eins og áður er rakið gaf Pálmi Sigurðsson út skuldabréf 27. nóvember 2003 og 24. nóvember 2005 vegna Dráttarbíla, sem var einkafirma hans. Með þessu stofnaði hann sjálfur til skulda vegna eigin atvinnurekstrar, enda telst slíkt firma ekki sjálfstæð lögpersóna sem getur átt réttindi eða borið skyldur. Af því leiðir að firmað nýtur ekki aðildarhæfis í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 31. janúar 2008 í máli nr. 216/2007.

Með úrskurði 9. október 2008 var bú Pálma tekið til gjaldþrotaskipta, en við það féllu allar kröfur á hendur því sjálfkrafa í gjalddaga, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við skipti á búinu var ekki lýst kröfu vegna skuldabréfanna en skiptum búsins lauk 17. apríl 2009.

Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 142/2010, ber þrotamaður ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskiptin. Hafi kröfu verið lýst við þau og ekki fengist greidd er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma. Umrædd breyting á lögum nr. 21/1991 öðlaðist gildi 29. desember 2010 og tók til krafna við gjaldþrotaskipti sem þá var ólokið. Ef skiptum á þrotabúi var lokið áður en lögin öðluðust gildi fyrndust kröfur, sem þar fengust ekki greiddar og ekki voru fyrndar, á tveimur árum frá gildistökunni nema skemmri tími stæði eftir af fyrningarfrestinum, sbr. 2. gr. laganna. Eftir eðli sínu getur þessi sérregla um fyrningu krafna í kjölfar gjaldþrotaskipta aðeins tekið til skulda einstaklinga, sbr. dóm réttarins 15. desember 2016 í máli nr. 306/2016.

Svo sem áður segir lauk skiptum á þrotabúi Pálma 17. apríl 2009. Af því leiðir að tveggja ára fyrningarfrestur krafna á hendur honum, sem ekki fengust greiddar við skiptin, án tillits til þess hvort þeim var lýst við þau, tók að líða 29. desember 2010 við gildistöku laga nr. 142/2010 og rann út sama dag á árinu 2012. Fjárkrafa stefnda á hendur Pálma samkvæmt skuldabréfunum var því fyrnd þegar málið var höfðað á hendur áfrýjanda 19. janúar 2015.    

Stefndi heldur því fram að fjárkrafa sín hafi ekki fallið niður vegna gjaldþrotaskipta á búi Pálma, enda hafi skuldabréfin verið gefin út af Dráttarbílum. Það firma hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og því sé krafan fyrir hendi gagnvart því. Til stuðnings þessu vísar stefndi til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1991 en þar segir að bú einkafirma manns eða félags verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema bú þess manns eða þeirra sem bera ábyrgð á skuldbindingum firmans eða félagsins sé áður tekið til gjaldþrotaskipta. Svo sem fram kemur í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi til laganna er tilgangur þess að útiloka sjálfstæð gjaldþrotaskipti af ákveðnu tagi. Er þá gert ráð fyrir að skipti nái í senn til hlutaðeigandi lögpersónu og þeirra sem bera ábyrgð á skuldbindingum hennar. Þetta fær hins vegar ekki haggað því að skipti á firma, sem skortir aðildarhæfi samkvæmt því sem áður er rakið, geta ekki farið fram. Af því leiðir að firmað getur ekki átt réttindi og borið skyldur heldur falla bæði eignir og skuldir til eiganda þess í samræmi við 72. gr. laga nr. 21/1991. Í samræmi við þetta féll fjárkrafa stefnda niður við fyrningu gagnvart skuldara og eiganda firmans. Þegar af þeirri ástæðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda um að honum verði gert að þola fjárnám fyrir fjárkröfu samkvæmt skuldabréfunum í eign sinni á grundvelli tryggingarbréfsins 23. október 2003 þar sem veðréttur var veittur í henni.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar er litið til þess að samhliða þessu máli var rekið annað mál um samkynja ágreining.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Marinó Pálmason, er sýkn af kröfu stefnda, Hildu ehf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. nóvember sl., er höfðað 19. janúar 2015.

Stefnandi er Hilda hf., Lágmúla 6, Reykjavík.

Stefndi er Marinó Pálmason, Skrúðási 1, Garðabæ.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að þola að fjárnám verði gert fyrir skuld Dráttarbíla við stefnanda samkvæmt skuldabréfum útgefnum af Dráttarbílum 27. nóvember 2003 númer 9403 og 24. nóvember 2005 númer 9671, samtals að fjárhæð 98.941.250 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 42.521.241 krónu frá 15. maí 2009 til 17. maí 2010 en af 98.941.250 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk kostnaðar, inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi, dagsettu 23. október 2003, upphaflega að fjárhæð 5.000.000 króna áhvílandi á 1. veðrétti á fasteign stefnda að Skrúðási 1, Garðabæ, fnr. 224-4816. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

Upphafleg aðalkrafa stefnda var að málinu yrði vísað frá dómi. Leyst var úr þeirri kröfu með úrskurði dómsins 2. júní 2015. Var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

I

Þann 16. apríl 1980 tilkynnti Pálmi Sigurðsson til firmaskrár Garðabæjar að hann hygðist stofna og reka fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð, einkafirmað Dráttarbíla. Tilkynning um stofnun fyrirtækisins var birt í Lögbirtingablaðinu.

Dráttarbílar gáfu út tvö skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) 27. nóvember 2003 og 24. nóvember 2005.  Bæði skuldabréfin hafa að geyma yfirskriftina: „Veðskuldabréf í erlendri mynt“ og svohljóðandi texta: „Fyrirgreiðsla SPRON er endurlánað erlent lánsfé veitt í formi fjölmyntaláns, þar sem myntir mega á hverjum tíma vera allt að 3 að vali skuldara. Tilskilið er að SPRON hafi aðgang að þeim myntum og Seðlabanki Íslands skrái þær.“ Í skuldabréfinu frá 27. nóvember 2003 er upphafsmyntsamsetning lánsins skráð  JPY 58.224.163 og JPY 36.023.887 í skuldabréfinu frá 24. nóvember 2005. Í báðum skuldabréfunum segir að lánið endurgreiðist á þeim gjalddögum og með þeim kjörum er greini í bréfinu. Greiðslur verði skuldfærðar á tilgreindan reikning á gjalddaga og skuldbindi lántaki sig til að eiga næga innstæðu til ráðstöfunar greiðslu gjaldfallinnar skuldar.

Í því skuldabréfi sem gefið var út 27. nóvember 2003 er einnig svohljóðandi ákvæði: „Standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana og/eða vaxta; verði gert árangurslaust fjárnám hjá skuldara eða leiti hann nauðasamninga; hinu veðsetta eigi haldið vel við og/eða veðið rýrnar að mun; vátryggingariðgjöld eða önnur gjöld eigi greidd á réttum tíma; fjárnám gert í hinu veðsetta eða veðið auglýst eða selt nauðungarsölu; eigendaskipti verða á hinni veðsettu eign án þess að aflað hafi verið samþykktar lánveitanda til eigendaskiptanna og yfirtöku lánsins, þá er skuldin öll í gjalddaga fallin án uppsagnar eða tilkynningar. Gjaldfallnar fjárhæðir umreiknast ávallt í íslenskar krónur. Ber þá að greiða dráttarvexti af skuldinni þannig reiknaðri í samræmi við 10. gr. sbr. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Heimilt er að reikna dráttarvexti af skuldinni allri frá því hún fyrst fellur í gjalddaga af þessum sökum.“  Samhljóða texti er í skuldabréfinu 24. nóvember 2005 að öðru leyti en því að þar er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  

Eldra skuldabréfið var gefið út í Reykjavík 27. nóvember 2003 og er bréfið undirritað af Pálma Sigurðssyni f.h. Dráttarbíla. Bréfið er ekki áritað af stefnda Marinó Pálmasyni. Yngra skuldabréfið var gefið út í Garðabæ 24. nóvember 2005. Pálmi Sigurðsson undirritar skuldabréfið f.h. Dráttarbíla. Skuldabréfið er með áritun Önnu Lóu Marinósdóttur, sem stefnt er í öðru máli vegna sama skuldabréfs, í reit sem ber yfirskriftina „Veðheimild“ og „Samþ. framangreinda veðsetningu sem þinglýstur eigandi“ og áritun Pálma Sigurðssonar í reit sem ber yfirskriftina „Samþ. maka þinglýsts eiganda“. Skuldabréfin hafa að geyma samhljóða og svohljóðandi áritun: „Skilmálum skuldabréfs breytt skv. yfirlýsingu dags. 20/11 2008“.  

Samkvæmt skuldabréfinu, útgefnu 27. nóvember 2003, var lánstími þess þrjú ár í senn og fyrsti gjalddagi 15. maí 2004. Í skuldabréfinu segir: „Greiða skal 1/24 af höfuðstól ásamt vöxtum á hverjum gjalddaga og eftirstöðvar í einni greiðslu í lokin. Lántaka er heimilt að framlengja láni þessu 3 sinnum til 3 ára í senn ef samkomulag næst um kjör lánsins.“ Í skilmálabreytingu vegna þessa skuldabréfs, dagsettri 20. nóvember 2008, segir að það hafi verið gefið út af Dráttarbílum, upphaflega að fjárhæð 40.000.000 króna í eftirtalinni mynt: JPY 58.224.163. Einnig segir að gjalddagi 17. nóvember 2008 að jafnvirði 4.149.729 króna bætist við höfuðstól í eftirtöldu hlutfalli mynta: JPY 100%. Þá kemur einnig fram að nýir skilmálar bréfsins verði þeir að greiða skuli 1/14 af höfuðstól lánsins á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. maí 2010. Vexti skuli greiða á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. maí 2009, og að lokagjalddagi sé 15. maí 2010. Enn fremur segir að aðrir skilmálar bréfsins haldist óbreyttir. Í stefnu segir að á lokagjalddaga lánsins 15. maí 2010 hafi staða þess verið 56.420.009 krónur.

Samkvæmt skuldabréfi, útgefnu 24. nóvember 2005, var lánstími þess þrjú ár í senn og fyrsti gjalddagi 15. maí 2006. Í skuldabréfinu segir meðal annars að greiða skuli 1/30 af höfuðstól ásamt vöxtum á hverjum gjalddaga og eftirstöðvar í einni greiðslu í lokin. Lántaka sé heimilt að framlengja láni þessu fjórum sinnum til þriggja ára í senn náist samkomulag um kjör lánsins. Í skilmálabreytingu vegna þessa skuldabréfs segir að það hafi verið gefið út af Dráttarbílum, upphaflega að fjárhæð 18.700.000 króna í eftirtalinni mynt: JPY 36.023.997.  Einnig segir að gjalddagi 17. nóvember 2008 að jafnvirði 2.243.509 króna bætist við höfuðstól í eftirtöldum hlutföllum: JPY 100%. Þá kemur einnig fram að nýir skilmálar bréfsins verði þeir að greiða skuli 1/24 af höfuðstól lánsins á sex mánaða fresti í fyrsta sinn 15. maí 2010. Vexti skuli greiða á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. maí 2009, og lokagjalddagi sé 15. nóvember 2011. Lánið mætti framlengja þrisvar sinnum til þriggja ára í senn og einu sinni til eins árs með sama greiðslufyrirkomulagi næðist samkomulag um kjör þess. Enn fremur segir að aðrir skilmálar bréfsins haldist óbreyttir. Í stefnu segir að lánið hafi fallið í gjalddaga 15. maí 2009 vegna vanskila í samræmi við skilmála 2. gr. skuldabréfsins og hafi staða þess þá verið 42.521.241 króna.

Þann 23. október 2003 gaf Pálmi Sigurðsson f.h. Dráttarbíla út tryggingarbréf, samtals að fjárhæð 5.000.000 króna bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 227,9 stig auk vísitöluálags, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem leiða kunni af vanskilum og skuldara beri að greiða að skaðlausu. Tryggingarbréfið hvílir á fasteigninni að Skrúðási 1 í Garðabæ. Bréfið er áritað af stefnda og Guðbjörgu Erlingsdóttur um samþykki þinglýsts eiganda. Í tryggingarbréfinu segir að höfuðstóll veðtryggingar samkvæmt bréfi þessu sé bundinn vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 227,9 stig. Höfuðstóll veðtryggingarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölu til þeirrar vísitölu sem í gildi er þegar reyna kunni á veðið. Einnig að standi skuldari ekki í skilum með einhverja þá skuld er bréfið tryggi, eða verði aðrar vanefndir af hálfu skuldara, verði gert árangurslaust fjárnám hjá skuldara eða ábyrgðarmanni fyrir skuld sem veðinu sé ætlað að tryggja, eða leiti þeir nauðasamnings; hinu veðsetta eigi haldið vel við og eða veðið rýrni að mun; vátryggingariðgjöld eða önnur gjöld eigi greidd á réttum tíma; fjárnám gert í hinu veðsetta eða veðið auglýst eða selt nauðungarsölu; eða eigendaskipti verði á hinni veðsettu eign án þess að aflað hafi verið samþykktar sparisjóðsins til eigendaskiptanna og yfirtöku tryggingarbréfsins, þá sé heimilt að gjaldfella alla skuldina án uppsagnar eða tilkynningar. Verði vanefndir á lánssamningi sem bréfið tryggi beri að greiða dráttarvexti af skuldinni í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá og með gjaldfellingardegi til greiðsludags.

Bú Pálma Sigurðssonar var tekið til gjaldþrotaskipta 9. október 2008. Engar eignir fundust í búinu og var skiptum á því lokið 17. apríl 2009 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Lýst var átta kröfum í þrotabúið, samtals að fjárhæð 21.043.235 krónur. Samkvæmt kröfuskrá skiptastjóra lýsti Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis fimm kröfum í þrotabúið. Í skýrslu skiptastjóra, sem tekin var af Pálma 31. október 2008, segir að fyrirtækið Dráttarbílar hafi verið stofnað 1980 í tengslum við jarðvinnuverk og þungaflutninga og að ástæður gjaldþrots hans hafi verið erfiður rekstur Dráttarbíla. Undir gjaldþrotaskiptunum freistaði Pálmi Sigurðsson þess að leita nauðasamnings um skuldir sínar og sendi meðal annars Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis bréf vegna þess 2. apríl 2009.

Samkvæmt því sem greinir í stefnu nemur höfuðstóll skulda Dráttarbíla, sem Pálmi Sigurðsson er sagður í ótakmarkaðri ábyrgð fyrir samkvæmt umræddum skuldabréfum, stefnufjárhæðinni 98.941.250 (56.420.009 + 42.521.241) krónum auk vaxta og kostnaðar. Dráttarbílum og stefnda voru send innheimtubréf vegna skuldabréfanna 1. og 2. október 2014, sem ekki var svarað. Á þeim degi nam skuld Dráttarbíla samtals 184.530.503 krónum með dráttarvöxtum og kostnaði. Stefndi og Dráttarbílar fengu einnig sent innheimtubréf vegna skuldarinnar 16. júní 2010. Þann 7. september 2011 var greiðsluáskorun birt fyrir stefnda vegna vanskila á skuldabréfi, útgefnu 24. nóvember 2005. Tekið er fram að bréfið hafi verið í vanskilum frá 15. maí 2009. Námu vanskilin miðað við gjaldfellingu 16. júní 2010 57.081.362 krónu að meðtöldum dráttarvöxtum og kostnaði.

Skuldabréf, víxlar, tryggingarbréf og önnur lánaskjöl í eigu Dróma hf. og Frjálsa hf. voru framseld til stefnanda með umboði 31. desember 2013. Tryggingarbréf, útgefið 23. október 2003, sem hvílir á 1. veðrétti í eign stefnda að Skrúðási 1 í Garðabæ var framselt frá Dróma hf. til stefnanda með áritun á bréfið 31. desember 2013.  

II

Stefnandi krefst dóms um að stefnda verði gert að þola að fjárnám verði gert í fasteign hans, Skrúðási 1 í Garðabæ, vegna skulda Dráttarbíla, sem sé einkafirma með ótakmarkaðri ábyrgð Pálma Sigurðssonar. Skuldin sé reist á tveimur skuldabréfum, tryggð með veði í fasteigninni samkvæmt tryggingarbréfi sem hvíli á 1. veðrétti eignarinnar. Stefnandi kveður höfuðstól skulda samkvæmt fyrrnefndum skuldabréfum vera 98.941.250 krónur auk dráttarvaxta og kostnaðar.

Bæði skuldabréfin hafi verið gefin út til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON). Í kjölfar þess að Fjárnálaeftirlitið hafi vikið stjórn SPRON frá og skipað skilanefnd yfir sparisjóðinn 21. mars 2009 hafi verið stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., sem hafi tekið við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingaréttindum, þar með talið öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem hafi tengst kröfum SPRON. Skuldabréf og tryggingarbréf þau sem málið varði hafi verið framseld stefnanda 31. desember 2013.

Stefnandi kveður tryggingarbréf vera til tryggingar framangreindri skuld, sem tryggð séu með 1. veðrétti í fasteign stefnda. Um sé að ræða tryggingarbréf númer 5326, útgefið af Dráttarbílum 23. október 2003. Tryggingarbréfið sé til tryggingar öllum skuldum Dráttarbíla að höfuðstól 5.000.000 króna auk dráttarvaxta og alls kostnaðar. Sé höfuðstóll bréfsins bundinn vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 227,9 stig. Tryggingarbréfinu hafi verið þinglýst 30. október 2003.

Stefnda hafi verið sent innheimtubréf 1. og 2. október 2014 sem hann hafi ekki brugðist við. Skuld Dráttarbíla á þeim degi hafi verið samtals 184.530.503 krónur með dráttarvöxtum og kostnaði. Stefndi sé eigandi hinnar veðsettu eignar. Þar sem skuld Dráttarbíla við stefnanda hafi ekki verið greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir stefnanda sé stefnanda nauðsynlegt að höfða málið til að fá aðfararhæfan dóm til að gera fjárnám inn í veðrétt samkvæmt fyrrgreindu tryggingarbréfi, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og eftir atvikum í kjölfarið að selja hina veðsettu eign nauðungarsölu til fullnustu kröfu stefnanda. Aðalskuldarinn, Dráttarbílar, sé einkafirma Pálma Sigurðssonar sem beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum firmans.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til almennra reglna veðréttarins auk laga nr. 90/1989 um aðför, en samkvæmt lögunum sé stefnanda nauðsynlegt að fá dóm um heimild til aðfarar svo að fullnusta megi veðið með aðför og síðar nauðungarsölu. Þá vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. sömu laga.

III

Stefndi kveður kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi reista á því að stefnandi sé ekki réttur aðili að þessu máli og hafi ekki gilt framsal á skuldabréfunum til sín. Því beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda vegna aðildarskorts stefnanda, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi byggi kröfur sínar í málinu á því að Pálmi Sigurðsson beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldum einkafirma síns, Dráttarbíla, og sé það ágreiningslaust. Stefnandi geri hins vegar aðeins kröfu um að fá aðfararhæfan dóm á hendur stefnda fyrir stefnufjárhæðinni auk vaxta og kostnaðar. Hvorki séu gerðar kröfur í málinu á hendur Pálma né Dráttarbílum. Bú Pálma og þar með einkafirma hans Dráttarbíla hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2008. Við það hafi allar kröfur á hendur þrotabúi Pálma og Dráttarbíla sjálfkrafa fjallið í gjalddaga án tillits til þess sem áður kunni að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með lögum nr. 142/2010 um breytingu á nefndum lögum hafi verið gerð sú breyting á 2. mgr. 165. gr. nefndra laga að hafi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau sé fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum sé lokið, sem í tilviki Pálma og Dráttarbíla og hér um ræði hafi verið 17. apríl 2009. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin eins og hér eigi við um fjárkröfu stefnanda gildi þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma. Þessi breytingalög hafi tekið gildi 29. desember 2010 og samkvæmt 2. gr. laganna taki þau til krafna við gjaldþrotaskipti sem þá hafi verið ólokið og einnig til krafna í þrotabú sem skiptum hafði verið lokið á fyrir gildistöku laganna eins og hér eigi við í tilviki Pálma og Dráttarbíla, skuldara umræddra skuldabréfa. Fyrnist kröfur í þau þrotabú á tveimur árum frá gildistöku laganna nema skemmri tími stæði þá eftir af fyrningarfresti. Stefnandi hafi ekki með málssókn slitið fyrningu fjárkrafna sinna í málinu á grundvelli umræddra skuldabréfa með þeim hætti sem honum hafi verið unnt að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 1. gr. nefndra breytingalaga.  Samkvæmt þessu sé því haldið fram af hálfu stefnda að stefnukröfurnar séu fallnar niður fyrir fyrningu. Fjárkrafa stefnanda sé því ógild og hafi stefnandi sökum þess glatað rétti sínum til efnda samkvæmt skuldabréfunum bæði á hendur skuldaranum og stefnda. Því verði stefnanda ekki með aðfararhæfum dómi veitt heimild til þeirrar fjárnámsgerðar sem hann krefst í málinu í fasteign stefnda að Skrúðási 1 í Garðabæ samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.  Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Samkvæmt 4. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á fjórum árum frá þeim degi, er krafan var gjaldkræf, sbr. 1. málslið 5. gr. nefndra laga.  Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. sömu laga slítur málsókn fyrningu. Nefnd lög gildi um þær kröfur sem stefnandi hafi uppi í þessu máli, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, þar sem kveðið sé á um að þau lög öðlist gildi 1. janúar 2008 og gildi einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna, sem hér sé ekki raunin. Stefnandi byggi kröfur sínar á því að greiðslufall það á skuldabréfunum sem að framan sé lýst hafi orðið 15. maí 2009. Lánin hafi þá verið gjaldfelld í samræmi við skilmála skuldabréfanna, en eins og áður segi féllu hins vegar allar kröfur, þar með taldar kröfur samkvæmt skuldabréfunum, á hendur þrotabúi Pálma og Dráttarbíla sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar um töku bús hans til gjaldþrotaskipta 9. október 2008. Stefnufjárhæðin sé vanreifuð, en á því byggt af stefnanda að hún standi saman af gjaldföllnum höfuðstól lánanna 15. maí 2009, umreiknuðum í íslenskar krónur, ásamt samningsvöxtum til þess dags og hafi þá orðið gjaldkræf í samræmi við framangreinda skilmála skuldabréfanna auk dráttarvaxta af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð, 42.521.241 króna, frá 15. maí 2009 vegna skuldabréfsins frá 24. nóvember 2005, og að viðbættum 56.420.009 krónum frá 17. maí 2010 vegna skuldabréfsins frá 27. nóvember 2003. Þrátt fyrir það hafi stefnandi eða þeir sem hann leiði rétt sinn frá ekki hafið innheimtuaðgerðir sem slitið gætu fyrningu fyrr en með stefnu í þessu máli sem þingfest hafi verið 28. janúar 2015. Hafi þá verið liðin meira en fjögur ár frá því að krafan hafi orðið gjaldkræf og hún því fyrnd samkvæmt 4. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905.  Krefjist stefndi einnig sýknu af öllum kröfum stefnanda á þeim grunni.

Stefnandi byggi á því að stefndi sé ábyrgðarmaður á umræddum skuldum Pálma Sigurðssonar og einkafirma hans Dráttarbíla, en því sé þó mótmælt af hálfu stefnda, enda hafi hann ekki samþykkt ábyrgðina – veðsetningu fasteignar sinnar – sem þinglýstur eigandi. Verði ekki á það fallist byggi stefndi á því að hann sé ábyrgðarmaður í skilningi 2. og 3. mgr. 2. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og stefnandi og forverar hans, það er þeir sem hann leiði rétt sinn frá, lánveitendur í skilningi 1. mgr. 2. gr. þeirra. Þeir hafi ekki tilkynnt stefnda um framsal réttinda sem reist séu á ábyrgðinni eða lánum þeim sem ábyrgðin standi til tryggingar á, svo sem þeim hafi verið skylt samkvæmt 3. gr. laganna. Hafi stefndi því ekki sem ábyrgðarmaður glatað mótbárurétti gagnvart framsalshafa sem sé stefnandi þessa máls.  Með vísan til framangreinds hafi Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, svo og Drómi ehf. og Frjálsi ehf., vitað eða átt að vita um gjaldþrot Pálma og þar með einkafirma hans Dráttarbíla.

Lögin um ábyrgðarmenn hafi tekið gildi 4. apríl 2009 og taki samkvæmt 12. gr. þeirra til ábyrgða sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra að frátalinni 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. Tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna hafi aldrei verið sendar stefnda frá því að lögin hafi tekið gildi 4. apríl 2009, og hann aldrei móttekið allan þann tíma, né heldur frá því að hann hafi gengist í meinta ábyrgð sína með útgáfu tryggingarbréfsins á árinu 2003. Stefnda hafi bæði verið ókunnugt um gjaldþrot Pálma Sigurðssonar og Dráttarbíla og lok á skiptum þess þrotabús og hafi einnig verið ókunnugt um vanefndir hans á greiðslu framangreindra skuldabréfa þar til stefnan í málinu hafi verið birt honum. Ábyrgðarmaður skuli samkvæmt 2. mgr. 7. gr. nefndra laga vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. og ef vanræksla sé veruleg skuli ábyrgð falla niður. Byggi stefndi á því að þessi vanræksla sé veruleg í þessu máli eða í nær sex ár frá gildistöku nefndra laga 4. apríl 2009 og því skuli greind ábyrgð hans falla niður. Krefjist stefndi einnig sýknu á þeim grunni.

Verði stefndi ekki sýknaður af framangreindum ástæðum kveðst hann krefjast sýknu á þeim forsendum að hann sé ekki með réttu og á skuldbindandi hátt ábyrgðarmaður á skuldunum samkvæmt skuldabréfunum þar sem stefnandi eða réttara sagt sá sem hann leiði rétt sinn frá hafi ekki, þegar stefndi hafi undirgengist meinta ábyrgð sína með veðsetningu fasteignar sinnar samkvæmt tryggingarbréfinu, farið að reglum um mat á greiðslugetu o.fl. samkvæmt Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga 1. nóvember 2001 milli Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Sambands íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda, sbr. áður Samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða frá 27. janúar 1998, og almennum reglum um kröfuábyrgð. Stefndi haldi því fram að bæði við lánveitingarnar til Pálma og Dráttarbíla og sérstaklega áður en hann hafi undirgengist hina meintu veðábyrgð, sbr. 2. gr. samkomulagsins, hafi lánveitanda borið að meta greiðslugetu greiðanda og skuldara, Pálma Sigurðssonar persónulega og vegna einkafirma hans Dráttarbíla, í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 3. gr. nefnds samkomulags og fyrirmæli annarra ákvæða 3. gr., enda hafi það verið skylt þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi meira en 1.000.000 króna, sem hér hafi samtals verið að fjárhæð 58.700.000 krónur upphaflega og með þeirri miklu áhættu sem hafi fylgt því að lánin voru gengistryggð miðað við erlenda mynt. Lánveitandi hafi ekki framkvæmt slíkt greiðslumat sem honum hafi verið skylt og hafi hann engar upplýsingar veitt stefnda í samræmi við fyrirmæli 4. gr. samkomulagsins áður en til veðsetningarinnar var stofnað né heldur eftir það þegar lánin voru veitt með útgáfu skuldabréfanna. Þá hafi stefnandi vanrækt að tilkynna stefnda um vanskil á skuldabréfunum, sem skyldi gert innan 30 daga frá greiðslufalli skuldara, og einnig algjörlega vanrækt skyldu um að tilkynna honum við hver áramót skriflega um hvaða kröfum hann væri í ábyrgð fyrir, hverjar eftirstöðvar þeirra væru, hvort þær væru í vanskilum og hversu mikil vanskil væru ef um þau væri að ræða. Samkvæmt því ákvæði hafi lánveitandi og brotið gegn því banni að breyta ekki skilmálum lánanna sem tryggð voru með meintu veði stefnda, nema með samþykki hans sem ábyrgðarmanns. Samkvæmt þessu hafi lánveitandinn ekki við meinta veðsetningu stefnda vísað í samkomulagið í samræmi við fyrirmæli 9. gr. samkomulagsins né heldur tilgreint fjárhæðir skuldbindinga stefnda samkvæmt skuldabréfunum. Þá hafi lánveitandinn vanrækt að beita sér fyrir endurnýjun þeirrar meintu veðsetningar stefnda 23. október 2003 sem ekki heldur tilgreindi skuldbindingu stefnda samkvæmt skuldabréfunum sem stofnað var til með útgáfu þeirra eftir það tímamark eða 27. nóvember 2003 og 24. nóvember 2005. Sé því haldið fram af hálfu stefnda að engin skilyrði samkomulagsins gagnvart stefnda sem ábyrgðarmanni hafi verið uppfyllt af hálfu lánveitanda eða réttartaka hans. Byggi stefndi á því að ekkert greiðslumat hafi farið fram í samræmi við umrætt samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga til grundvallar þeirri veðábyrgð sem stefnandi reisi kröfur sínar á, hvorki skuldabréfunum tveimur, né tryggingarbréfinu.

Stefndi byggi einnig á því að hafi slíkt greiðslumat verið framkvæmt hafi það ekki verið kynnt honum sjálfum eins og borið hafi að gera og áður greinir.  Lánveitandinn hafi því á þessum tíma vanrækt að gæta að reglum samkomulagsins um mat á greiðslugetu og fleira beint og persónulega gagnvart stefnda. Það samrýmist ekki tilgangi og markmiðum samkomulagsins að skuldarinn afli ábyrgðanna utan starfstöðvar lánveitandans eins og tilfellið sé hér. Lánveitandanum hafi sjálfum borið að fara eftir skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu með persónulegum og beinum samskiptum við stefnda. Það hafi hann vanrækt og meinta veðábyrgð stefnda samkvæmt tryggingarbréfinu beri því að virða að vettugi. Stefndi haldi því einnig fram að skuldarinn Pálmi Sigurðsson, ásamt Dráttarbílum hefði ekki staðist greiðslumat hefði slíkt mat farið fram á grundvelli fullnægjandi og réttra upplýsinga um greiðslugetu skuldarans. Byggi stefndi á því að stefnandi verði að bera hallann af allri þeirri óvissu sem um þetta sé, svo og því hvort stefndi hefði gengist í ábyrgðina ef réttilega hefði verið staðið að gerð greiðslumats. Með vísan til framangreinds byggi stefndi á því að meint ábyrgð hans sé ógild. Það sé á ábyrgð stefnanda að hafa látið hjá líða að meta greiðslugetu útgefanda skuldabréfanna og eftir atvikum gera stefnda sem ábyrgðarmanni grein fyrir því ef niðurstaða mats benti til að skuldarinn gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Stefndi hafi mátt treysta því að lánveitandinn, sem stórt fjármálafyrirtæki með fjölda sérfræðinga og mikla þekkingu í lánsviðskiptum á sínu sviði, gætti að skyldum sínum um gerð vandaðs og trúverðugs greiðslumats og að hagsmunir viðskiptavina almennt og lántaka, og þess sem veitti veð til tryggingar umræddum lánum, væru þá sérstaklega hafðir að leiðarljósi, sbr. til hliðsjónar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og reglur um góða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja og venjur, sbr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Af framangreindum ástæðum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Samkvæmt framangreindu, og miðað við þær skyldur sem hafi hvílt á lánveitanda sem fjármálafyrirtæki og samsamaðar verði stefnanda og hann beri ábyrgð á sem réttartaki hans, sé með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga því haldið fram að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnanda að bera fyrir sig og byggja rétt á fyrrgreindri meintri ábyrgð stefnda samkvæmt tryggingarbréfinu vegna framangreindra atvika og efnis lánssamninganna og hins meinta veðsamnings. Eins og hér standi á verði stefnandi að bera hallann af óvissu um hvort stefndi hefði veitt veðheimild í fasteign sinni hefði hann fengið þær upplýsingar sem lánveitandanum hafi borið með réttu að veita um greiðslugetu skuldarans og þýðingu meintrar ábyrgðar hans. Sé í þessu sambandi einnig lögð áhersla á að samningsstaða aðila hafi verið mjög ójöfn bæði við lántökurnar og útgáfu tryggingarbréfsins, enda lánveitandinn stórt og sérhæft fjármálafyrirtæki sem starfaði á grundvelli opinbers leyfis og til þess hafi mátt gera ríkar kröfur um sérfræðiþekkingu á sviði lánastarfsemi og vönduð vinnubrögð samkvæmt óskráðum reglum og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 og 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003. Skyldur stefnanda hafi því verið enn ríkari en ella að misnota ekki aðstöðu sína til þess að ná óeðlilega hagstæðum kjörum fyrir sig gagnvart stefnda. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að gæta að því að ekki væri brotið á rétti stefnda með ólögmætum samningsákvæðum eða samningsskilmálum lánssamninganna sem hann felli undir meinta veðábyrgð stefnda. Það sé andstætt góðum viðskiptaháttum SPRON, forvera stefnanda, sem sparisjóðs og lánveitanda og auk þess ósanngjarnt og verulega íþyngjandi fyrir stefnda. Stefndi hafi aftur á móti ekki búið yfir neinni sérstakri menntun eða þekkingu á því sviði sem hér um ræði. Samningarnir sem um sé deilt í þessu máli hafi verið liður í starfsemi annars aðilans, lánveitandans sem fjármálafyrirtækis, en ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytandans, stefnda í þessu máli. Af hálfu stefnda sé ítrekað að allar forsendur að baki lánssamningsgerðunum og hinum meinta veðtryggingarsamningi í upphafi hafi breyst stefnda í óhag og valdið því að hann sé mun verr settur en hann hafi verið þá og staða aðila breyst í verulegum mæli frá því að samningarnir hafi verið gerðir. Það sé því einnig bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera ákvæði þeirra fyrir sig vegna atvika sem síðar hafi komið til og valdið því að verulega hallar á stefnda hvað þetta varði. Samkvæmt öllu framangreindu sé skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 til að ógilda veðsetninguna fullnægt. Krefjist stefndi sýknu á þeim grunni verði ekki á áðurgreindar sýknuástæður fallist.

Til stuðnings ógildis málsástæðum sínum kveðst stefndi vísa til hins sérstaka lagaboðs sem fram komi í ákvæði til bráðabirgða í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og athugasemdum með því ákvæði í frumvarpi til þeirra laga, að heimilt sé að víkja ábyrgð til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og að í tilviki ábyrgðarmanna við beitingu framangreindrar almennrar ógildingarreglu samningalaganna verði litið til þeirra aðstæðna á fjármálamarkaði sem hafi verið undanfari laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. nr. 125/2008 og þeirra atvika er hafi leitt til setningar laganna. Þau sérstöku atvik hafi orðið við efnahags- og gengishrunið í landinu árið 2008 að lánasamningarnir og meint veðábyrgð stefnda leiði til ósanngjarnar niðurstöðu bæri stefnda að efna lánssamningana og meinta veðábyrgð samkvæmt efni sínu. Forsendur fyrir efndum hans samkvæmt efni þeirra hafi brostið. Þessi löggjafarvilji eigi einnig við varðandi skuldarann sjálfan og skýringu þá- og núgildandi ógildingarreglu samningalaga um réttarstöðu stefnda.

Verði stefndi talinn bundinn af þeirri veðábyrgð sem hér sé til umfjöllunar sé greiðslubyrði stefnda samkvæmt henni honum óviðráðanleg og þá sérstaklega eftir hrun íslensku bankanna í október 2008 og í framhaldi af því og setningu laga nr. 125/2008. Haldi stefndi því fram að lánveitandinn hafi, þegar er hann hafi veitt umrætt lán og einnig síðar, vitað eða mátt vita um að þróunin yrði þessi og stefnda svo mjög í óhag sem raun ber vitni og lánveitanda í hag að sama skapi. Við þeirri áhættu hafi lánveitanda borið að vara stefnda. Það hafi hann ekki gert og sé það andstætt góðum viðskiptaháttum banka og sparisjóða. Lánveitandinn hafi á þessum tíma eins og aðrar fjármálastofnanir tekið stöðu gegn íslensku krónunni, en samt ráðlagt lántakanum að taka lán með gengistryggingu gagnvart erlendum myntum. Á því sé byggt af hálfu stefnda að lánveitandanum hafi borið að leita sérstaks samþykkis stefnda fyrir því að meint veðábyrgð hans samkvæmt tryggingarbréfinu sem Pálmi Sigurðsson pr. pr. Dráttarbílar gaf út 23. október 2003 stæði til tryggingar síðar útgefnum skuldabréfum Dráttarbíla 27. nóvember 2003 og 24. nóvember 2005. Fyrst hann hafi ekki gert svo beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Sömuleiðis beri stefnanda því að aflétta tryggingarbréfinu af fasteign stefnda.

Stefndi kveðst mótmæla öllum málsástæðum stefnanda í stefnu sem röngum og þýðingarlausum. Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt sem vanreifaðri og órökstuddri og þess krafist að dráttarvextir verði ekki dæmdir frá fyrra tímamarki en uppkvaðningu héraðsdóms. Stefnandi hafi ekki virt þá lagaskyldu að eftir gjalddaga skuli kröfuhafi senda eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan 10 daga frá sendingu viðvörunar og að láta koma fram í viðvörun meðal annars sundurliðun kröfu, hver sé höfuðstóll og hverjar séu viðbótarkröfur, svo sem dráttarvextir og innheimtuþóknun. Auk þessa sé vísað til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins um stofnun, efndir, ábyrgð, loforð og lok kröfuréttinda og reglna um kröfuábyrgð og skyldur lánveitanda gagnvart ábyrgðarmanni, þar með talið um tillitsskyldu lánveitanda gagnvart ábyrgðarmanni, ógildingarreglna samningaréttar og óskráðra réttarreglna um brostnar forsendur. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. og 2. mgr. 130. gr. 

IV

Í máli þessu leitar stefnandi dóms um heimild til að fá gert fjárnám í fasteign stefnda fyrir skuld Dráttarbíla. Skuldin er byggð á tveimur skuldabréfum í erlendri mynt. Skuldari bréfanna er einkafirmað Dráttarbílar. Krafa stefnanda lýtur ekki að því að stefndi greiði umræddar skuldir, en málið varðar veðkröfu án persónulegrar ábyrgðar veðsalans.

Þann 23. október 2003 undirritaði stefndi tryggingarbréf til tryggingar öllum skuldum Dráttarbíla við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis að höfuðstól 5.000.000 króna, auk dráttarvaxta og kostnaðar við innheimtuaðgerðir. Höfuðstóll bréfsins skyldi bundinn vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 227,9 stig. Með tryggingarbréfinu var fasteign stefnda að Skrúðási 1 í Garðabæ sett að veði, en bréfið hvílir nú á 1. veðrétti.

Dráttarbílar gáfu út tvö skuldabréf í erlendri mynt til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Hið fyrra er númer 9403 og var gefið út 27. nóvember  2003, upphaflega að fjárhæð 58.228.163 japönsk yen. Hið seinna er númer 9671 og var gefið út 24. nóvember 2005, upphaflega að fjárhæð 36.023.887 japönsk yen. Bæði skuldabréfin báru svokallaða LIBOR vexti auk nánar tiltekins álags. Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra frá 26. júní 2015 eru Dráttabílar einkafirma Pálma Sigurðssonar en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 9. október 2008. Vanskil urði á skuld samkvæmt báðum skuldabréfunum  og voru bæði stefnda og Dráttarbílum send innheimtubréf vegna þessa 1. og 2. október 2014. Enn fremur voru stefnda og Dráttarbílum sent innheimtubréf 16. júní 2010 og stefnda birt greiðsluáskorun 7. september 2011 vegna vanskila á skuldabréfi útgefnu 24. nóvember 2005. 

Krafa stefnda um sýknu af kröfu stefnanda er meðal annars byggð á því að stefnandi sé ekki réttur aðili málsins og hafi ekki gilt framsal á skuldabréfunum til sín. Því beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts stefnanda, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Fyrir liggur í málinu að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 var stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON hf.) vikið frá störfum og skilanefnd skipuð yfir sparisjóðinn. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var byggð á heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Í kjölfarið var stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., sem tók við öllum eignum og skuldum sparisjóðsins, þar með töldum kröfum samkvæmt skuldabréfum og tryggingaréttindum. Af dómi Hæstaréttar Íslands í málinu númer 672/2013 verður ráðið að ekki sé að lögum nauðsynlegt að áritun um sérstakt framsal fari fram í hverju einstöku tilviki milli aðila, í þessu tilviki frá SPRON hf. til Dróma hf. og síðar til stefnanda málsins. Þó liggur fyrir að tryggingarbréf það sem hvílir nú á 1. veðrétti í eign stefnda að Skrúðási 1 í Garðabæ var framselt frá Dróma hf. til stefnanda með áritun á bréfið 31. desember 2013. Einnig voru skuldabréf, víxlar, tryggingarbréf og önnur lánaskjöl í eigu Dróma hf. og Frjálsa hf. framseld til stefnanda samkvæmt umboði 31. desember 2013. Samkvæmt þessu verður stefndi ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts stefnanda.

Stefndi byggir sýknukröfuna einnig á því að stefnukrafan sé fallin niður fyrir fyrningu. Byggt er á því að fjárkrafa stefnanda sé ógild og stefnandi hafi glatað rétti sínum til efnda samkvæmt skuldabréfunum bæði á hendur skuldaranum og stefnda. Verði stefnanda ekki veitt heimild til þeirrar fjárnámsgerðar sem hann krefjist í fasteign stefnda með aðfararhæfum dómi. Þá vísar stefndi til 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og byggir á því að kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum fyrnist á fjórum árum frá því krafan varð gjaldkræf. Byggir stefndi á því að greiðslufall hafi orðið á skuldabréfunum 15. maí 2009 og hafi þau þá verið gjaldfelld í samræmi við skilmála þeirra. Einnig vísar stefndi til þess að allar kröfur á hendur þrotabúi Pálma Sigurðssonar og einkafirma hans, Dráttarbílum, þar með taldar kröfur samkvæmt skuldabréfunum, hafi fallið sjálfkrafa í gjalddaga við töku bús hans til gjaldþrotaskipta með úrskurði 9. október 2008.  Innheimtuaðgerðir sem slitið gætu fyrningu hafi ekki verið hafnar fyrr en með stefnu í málinu sem þingfest hafi verið 28. janúar 2015, en þá hafi meira en fjögur ár verið liðin frá því að krafan varð gjaldkræf og hún því fyrnd samkvæmt 4. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905.

Sem fyrr segir var bú Pálma Sigurðssonar var tekið til gjaldþrotaskipta 9. október 2008. Lauk skiptum í búinu 17. apríl 2009. Samkvæmt 5. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. verður bú einkafirma manns ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema bú þess manns eða þeirra sem ábyrgð bera á skuldbindingum firmans hafi áður verið tekin til gjaldþrotaskipta. Þrátt fyrir að bú Pálma Sigurðssonar hafi verið tekið gjaldþrotaskipta á hið sama ekki við um einkafirma hans, Dráttarbíla, en samkvæmt fyrrnefndu vottorði fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra 26. júní 2015 er einkafirmað Dráttarbílar á fyrirtækjaskrá og er því ennþá til. Því liggur fyrir að kröfur á hendur Dráttarbílum hafa ekki fallið sjálfkrafa í gjalddaga við gjaldþrot Pálma Sigurðssonar, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti eins og stefndi heldur fram, enda um sjálfstæðan lögaðila að ræða. Einkafirmað Dráttarbílar hefur samkvæmt þessu hvorki verið tekið til gjaldþrotaskipta né verið afskráð úr firmaskrá. Ekki er því unnt að fallast á það með stefnda að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir fyrningu, hvorki samkvæmt 3. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, né samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en stefndi hefur einnig vísað til þess til stuðnings sýknukröfu sinni, að tveggja ára fyrningarfrestur frá skiptalokum á búi Pálma Sigurðssonar eigi að gilda um kröfur stefnanda.

Fjárkröfur stefnanda á hendur Dráttarbílum eru sem fyrr segir samkvæmt tveimur skuldabréfum, útgefnum 27. nóvember 2003 og 24. nóvember 2005. Slíkar kröfur fyrnast á 10 árum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905, sbr. nú 1. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Fram er komið að firmað Dráttarbílar hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og því gilda fyrningarreglur gjaldþrotaskiptalaga ekki um kröfur stefnanda á hendur Dráttarbílum. Dómkrafa stefnanda á hendur stefnda varðar eins og fram er komið að stefnda verði gert að þola að fjárnám verði gert í fasteign hans fyrir skuld Dráttarbíla samkvæmt fyrrnefndu tryggingarbréfi útgefnu 23. október 2003. Fyrir liggur að stefndi undirritaði tryggingarbréfið. Með þeirri undirritun veitti stefndi forvera stefnanda, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, heimild til að setja að veði tilgreinda fasteign sína til að tryggja skaðleysi sparisjóðsins, en bakaði stefnda ekki greiðsluskyldu gagnvart stefnanda. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist slíkur réttur ekki, óháð fyrningu þeirrar skuldar sem að baki veðréttinum stendur. Stefndi er bundinn af veðrétti stefnanda í eign sinni, enda eru réttindi hans ekki fallin niður fyrir fyrningu.

Sýknukrafa stefnda er ennfremur á því byggð að hann sé ábyrgðarmaður í skilningi 2. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, en stefnandi hafnar því að lögum nr. 32/2009 verði beitt til þess að víkja til hliðar lögum um samningsveð nr. 75/1997.

Undirritun stefnda á tryggingarbréfið frá 23. október 2003 fól ekki í sér ábyrgð á skuld Dráttarbíla og verður ekki jafnað við slíka skuldbindingu. Í athugasemdum með 2. gr. í frumvarpi til laga nr. 32/2009 um ábyrgðamenn segir að frumvarpið taki bæði til þess þegar einstaklingur gengst í persónulega ábyrgð og þegar hann veitir veð í eignum sínum til tryggingar efndum. Þegar um persónulega ábyrgð er að ræða standa að meginstefnu til allar eignir viðkomandi til tryggingar efndum lánsins. Þegar veitt er veð er á hinn bóginn tilgreind eign eða eignir sem standa til tryggingar efndum. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð öðlast veðréttur réttarvernd við þinglýsingu í fasteignabók í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga. Af fyrrnefndum athugasemdum í frumvarpi til laga um ábyrgðamenn þykir ljóst að veðréttindi og persónuleg ábyrgð veðsala þurfa ekki að fara saman eða fylgjast að. Ekki er gerð fjárkrafa á hendur stefnda í málinu en við það miðað að stefndi sé veðsali sem hafi samþykkt veðsetningu eignar sinnar án persónulegrar ábyrgðar til tryggingar skuld Dráttarbíla við stefnanda. Er niðurstaða dómsins því sú að um sé að ræða veðréttindi án persónulegrar ábyrgðar veðsala. Af því leiðir að stefndi er ekki ábyrgðarmaður í skilningi laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og verður ekki fallist á þau sjónarmið stefnda. Sama á einnig við um sjónarmið stefnda að baki sýknukröfu hans að forverar stefnanda hafi ekki farið eftir reglum um mat á greiðslugetu samkvæmt Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga 1. nóvember 2001. Ákvæði samkomulagsins geta ekki komið til álita við úrlausn á ágreiningi aðila.

Af hálfu stefnda er enn fremur byggt á því að miðað við skyldur stefnanda sem fjármálafyrirtækis sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af honum að bera fyrir sig og byggja rétt á ætlaðri ábyrgð stefnda samkvæmt tryggingarbréfinu. Sé það vegna atvika sem byggt sé á af hálfu stefnda, efni skuldabréfanna og hins meinta veðsamnings, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísar stefndi að auki til þess að samningsstaða aðila hafi verið ójöfn, bæði við sjálfar lántökurnar og útgáfu tryggingarbréfsins. Gera hafi mátt ríkar kröfur til stefnanda um sérfræðiþekkingu til lánastarfsemi og vönduð vinnubrögð samkvæmt óskráðum reglum og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. og 6. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.

Samkvæmt því sem rakið er að framan hefur dómurinn hafnað þeirri málsástæðu stefnda að hann sé ábyrgðarmaður í skilningi 2. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að því er tekur til persónulegrar ábyrgðar á skuldum Dráttarbíla. Með vísan til þess fær dómurinn ekki séð að nokkur efni séu til þess að fallast á síðastnefndar málsástæður stefnda sem teflt er fram með skírskotun til nefndra laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þágildandi laga nr. 33/2003 verðbréfaviðskipti. Að mati dómsins hefur stefndi ekki rennt haldbærum rökum undir fullyrðingar sínar og koma þær ekki til álita. 

Samkvæmt öllu framanröktu er ekki fallist á að stefndi hafi fært haldbær rök fyrir kröfu sinni um sýknu í málinu. Til þess er að líta að krafa stefnanda er reist á fjárkröfu samkvæmt tveimur skuldabréfum í erlendri mynt. Slík krafa fyrnist á 10 árum. Aðalskuldari er einkafirmað Dráttarbílar, sem hvorki hefur verið slitið né tekið til gjaldþrotaskipta. Til tryggingar fjárkröfum stefnanda er veðréttur í fasteign stefnda, sem er gildur að lögum. Veðkrafan er án persónulegrar ábyrgðar veðsalans, enda er stefndi ekki krafinn um greiðslu skuldarinnar. Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að taka beri til greina kröfu stefnanda í málinu og verður stefnda gert að þola að fjárnám verði gert fyrir skuld Dráttarbíla inn í veðrétt samkvæmt fyrrnefndu tryggingarbréfi frá 23. október 2003 eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið mið af því að samhliða þessu máli hefur stefnandi rekið dómsmál á hendur tengdum aðila um sambærilegt álitaefni, málið númer E- 78/2015.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Marinó Pálmason, skal þola að fjárnám verði gert fyrir skuld Dráttarbíla við stefnanda, Hildu ehf., samkvæmt skuldabréfum útgefnum af Dráttarbílum 27. nóvember 2003 númer 9403 og 24. nóvember 2005 númer 9671, samtals að fjárhæð 98.941.250 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 42.521.241 krónu frá 15. maí 2009 til 17. maí 2010 en af 98.941.250 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk kostnaðar, inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi, dagsettu 23. október 2003, upphaflega að fjárhæð 5.000.000 króna áhvílandi á 1. veðrétti á fasteign stefnda að Skrúðási 1, Garðabæ, fastanúmer 224-4816.

Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.