Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Steinbergur Finnbogason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og   Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. janúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. desember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 14. janúar 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.  

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                   

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. desember 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmudagsins 14. janúar nk. kl. 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

 

          Í greinargerð sækjanda kemur fram að kl. 13:22 í gær hafi borist tilkynning um rán í Landsbankanum að Borgartúni í Reykjavík. Skömmu síðar hafi fylgt tilkynning um að gerendur, sem hafi verið tveir, hafi farið af vettvangi á bifreiðinni [...] sem sé hvítur [...] sendibifreið og ekið í áttina að sundlauginni. Einnig hafi borist tilkynning um að umræddri bifreið hefði verið stolið á [...] í Hafnarfirði fyrr þann dag. Á vettvangi hafi lögregla rætt við vitni, bæði viðskiptavini og starfsmenn bankans, sem hafi lýst ráninu þannig að tveir menn sem huldu andlit sitt hafi ruðst inn í bankann vopnaðir byssu og hníf, ógnað starfsfólki og þvingað það til þess að afhenda sér peninga. Mennirnir hafi svo ekið á brott á á bifreiðinni [...] sem sé hvít [...] sendibifreið. Forsvarsmenn bankans hafi talið að um 500.000 til 750.000 krónum hefði verið rænt.

                    Á meðal gagna málsins sé upptaka úr eftirlitsmyndavél bankans þar sem ránið sjáist vel. Sést hverning mennirnir koma inn í bankann með látum, annar þeirra vopnaður skammbyssu en hinn hníf. Þeir séu dökkklæddir og með andlit hulin með klútum. Þeir stökkvi yfir afgreiðsluborðin og ógni og hóti starfsfólki með vopnum sínum og þvingi það til þess að opna peningakassana og afhenda sér peninga, annar þeirra setji byssu að höfði eins starfsmanns og hinn beinir hnífi að starfsmanni. Meðal gagnanna sé einnig hljóðupptaka þar sem heyrist hvernig þeir hafi öskrað á starfsfólkið. Það sjáist einnig á upptökum hvernig hvít sendibifreið aki að bankanum. Örskömmu síðar sjást árásarmennirnir hlaupa inn í bankann.

          Kl. 14:24 hafi verið tilkynnt um að bifreiðin [...] væri fyrir fundin í [...] og einnig hafi fylgt tilkynningu að tveir dökkklæddir karlmenn og annar með bláan bakpoka hafi gengið rösklega á milli húsa suður frá [...].  Kl. 15:08 hafi svo fundist hnífur og fótspor milli húsa við [...] eftir ábendingu vitnis.

          Einnig hafi verið tilkynnt um að vitni hefði séð tvo menn hlaupa í gegnum garða í [...]. Lögregla hafi skoðað innkeyrslur og garða í [...] og [...] og tekið eftir nýlegum fótsporum í snjó sem hafi legið frá bakgarði [...], í gegnum bakgarða [...]. Sporin hafi verið eftir grófan skósóla annars vegar og fíngerðan skósóla hins vegar. Lögregla hafi elt sporin og fundið þau aftur þar sem þau hafi legið í gegnum innkeyrslu og garð fyrir aftan [...]. Sporin hafi verið rakin áfram að [...] og svo meðfram bílastæðum við [...] þar sem þau hafi legið að akbrautinni við [...]. Þar hafi lögregla týnt sporunum tímabundið.  Við [...] sé smurstöð Shell. Lögregla hafi talað við starfsmenn þar og sagði einn þeirra að kl. 13:30 hafi hann séð tvo dökkklædda menn hlaupa yfir planið við smurstöðina í átt að Öskjuhlíð. Þeir hafi stoppað og beygt sig í hvarfi fyrir framan bíla sem sé lagt á bílastæðinu næst Bústaðavegi. Síðan hafi þeir staðið upp og hlaupið í átt að Bústaðavegi. Vitnið hafi lýst þeim þannig að um hefði verið að ræða tvo unga karlmenn, annar klæddur í gallabuxur og loðkragaúlpu.

          Lögregla hafi svo fundið sömu fótspor og hún hafði rakið áður í snjó á milli Bústaðavegar og bílaplansins við smurstöðina. Lögregla hafi farið yfir Bústaðaveginn og fundið sporin suðaustan megin á bílaplani bensínstöðvar Shell á Bústaðavegi [...]. Þaðan hafi sporin legið upp í skóglendið í norðurhlíð Öskjuhlíðar. Vopnaðir lögreglumenn úr sérsveit ríkislögreglustjóra hafi fylgt sporunum inn skóginn í Öskjuhlíð. Stuttu seinna hafi þeir tilkynnt að þeir hefðu fundið svartan bakpoka með fatnaði, tvö pör af hvítum strigaskóm og eftirlíkingu af skammbyssu. Fatnaðurinn og skórnir sé sams konar og ræningjarnir klæddust. Þá hafi bæði skópörin verið með sams konar mynstri og sjáanlegt hafi verið á skófari sem hafi fundist í Landsbankanum.

          Af upptökum af öryggismyndavélum bensínstöðvarinnar Shell á Bústaðavegi kl. 13:30 sáust tveir menn, annar á gangi og hinn á hlaupum, á bílaplani bensínstöðvarinnar þar sem sporin fundust. Hafi annar þeirra verið dökkklæddur í hvítum strigaskóm með dökkan bakpoka en hinn í gallabuxum, gulum Timberland kuldaskóm og í svartri úlpu með loðkraga.

          Birtar hafi verið myndir af mönnunum úr framangreindum upptökum í fjölmiðlum í gærkvöldi og óskað eftir upplýsingum um þá og þeir beðnir um að setja sig í samband við lögreglu. Í kjölfarið fékk lögregla ábendingu frá tveimur aðilum sem tengjast kærða um að hann væri annar aðilinn á myndinni, þ.e. sá í Timberland skónum. Að mati lögreglu komi útlit kærða heim og saman við útlit þess aðila. Kærði hafi komið í kjölfar myndbirtingarinnar sjálfur á lögreglustöð í Hafnarfirði ásamt föður sínum. Hafi hann verið klæddur svartra úlpu með loðkraga og í Timberland kuldaskóm er hann kom.  Kærði hafi verið handtekinn síðastliðna nótt kl. 4:31.

          Tvær tilkynningar um að kærði væri annar geranda bárust lögreglu líka fyrr um daginn eftir að birt hafi verið mynd í fjölmiðlum af ræningjunum að koma inn í bankann og kallað eftir upplýsingum um þá.

          Gerður hafi verið samanburður á Timberland kuldaskóm kærða við skóför á vettvangi í [...]. Sams konar skóför hafi verið rakin frá bifreiðinni við [...] upp að bifreiðarstæði við [...]. Hafi þau einnig fundist við fundarstað hnífs og í námunda við ofangreindan bakpoka. Samanburðurinn hafi leitt í ljós að mynstur skófaranna sé sams konar og stærðin sú sama.

          Kærði hafi í skýrslutökum alfarið neitað að tjá sig. Hann hafi ekki viljað gera grein fyrir ferðum sínum í gær og neitað að tjá sig um öll þau atriði sem hann hafi verið spurður um. Hann hafi neitað að heimila lögreglu húsleit og að afla upplýsinga um símanotkun hans.

          Annar aðili sem einnig sé undir rökstuddum grun um aðild á málinu hafi verið handtekinn.

          Að mati lögreglu liggi kærði undir rökstuddum grun um rán, með því að hafa í gær ruðst í félagi við annan aðila inn í Landsbankann í Borgartúni í Reykjavík, vopnaðir gerviskammbyssu og hníf og hótað þar starfsfólki og þvingað það til þess að afhenda sér peninga. Um sé að ræða verknað sem varði allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins sé á frumstigi og krefjast rannsóknarhagsmunir þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Lögregla þurfi  m.a. að taka skýrslur af kærða og meðkærða aftur og sé brýnt að þeir geti ekki rætt saman og haft áhrif á framburð hvors annars. Þá þurfi að taka skýrslur af fjölda vitna og framkvæma húsleitir í því skyni að leggja hald á möguleg sönnunargögn en kærði hafi ekki heimilað húsleit. Afar mikilvægt sé að kærði geti ekki haft áhrif á framburð vitna eða komið undan sönnunargögnum. Þá þurfi jafnframt að rannsaka síma- og tölvugögn kærða og afla gagna úr eftirlitsmyndavélum af stöðum sem kærðu séu taldir hafa verið á fyrir og eftir ránið. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

          Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, og b. liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

 

Niðurstaða:

             Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er á það fallist að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að ráni í Landsbankanum í Borgartúni sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga. Rannsókn er skammt á veg komin og má ætla að kærði muni torvelda rannsókn málsins svo sem með því að skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni fái hann að ganga laus. Skilyrðum 1. málsliðar og a-liðar 2. málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fullnægt. Í ljósi þess sem ætla má um umfang þeirrar rannsóknar sem í hönd fer og með vísan til skyldu lögreglu til að láta sakborning lausan um leið og ástæður gæslu eru ekki lengur fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, þykir ekki óhæfilegt að kærði sæti gæslu í tvær vikur eins og lögreglustjórinn gerir kröfu um. Með vísan til sömu sjónarmiða og að framan greinir er lúta að rannsóknarhagsmunum er einnig fallist á kröfu um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmudagsins 14. janúar nk. kl. 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.