Hæstiréttur íslands
Mál nr. 297/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Fjársvik
- Nytjastuldur
- Vopnalagabrot
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 20. september 2012. |
|
Nr. 297/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Bjarna Leifi Péturssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás. Fjársvik. Nytjastuldur. Vopnalagabrot. Reynslulausn.
B var sakfelldur fyrir líkamsárás, fjársvik, nytjastuld og brot gegn vopnalögum. Með vísan til þess að B hefði allt frá árinu 1975 hlotið mikinn fjölda refsidóma, aðallega fyrir brot gegn hegningarlögum, staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms um 18 mánaða fangelsisrefsingu B, greiðslu skaðabóta og upptöku á hníf sem lögregla lagði hald á, en við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að B hefði með háttsemi sinni rofið skilorð reynslulausnar, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. mars 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu af I., II., og III. kafla ákæru, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi voru ákærði, A og B öll verulega undir áhrifum áfengis er atvik gerðust sem um ræðir í I. kafla ákæru. Er framburður þeirra ekki á eina lund og verður því ekki fullyrt nákvæmlega um atburðarásina. Að virtum framburði þeirra og öðrum gögnum málsins sem rakin eru í héraðsdómi er þó sannað að ákærði réðist á A og veitti honum þá áverka er greinir í ákæru og læknisvottorði sem staðfest hefur verið fyrir dómi. Á hinn bóginn er ekkert fram komið í málinu sem styður fullyrðingu ákærða um að A hafi veist að honum að fyrra bragði. Er framangreind háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru. Þá verður niðurstaða héraðsdóms um háttsemi ákærða samkvæmt öðrum köflum ákærunnar staðfest með vísan til forsendna.
Ákærði hefur með brotum sínum unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 218. gr., 1. mgr. 259. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði allt frá árinu 1975 hlotið mikinn fjölda refsidóma, aðallega fyrir ýmis hegningarlagabrot. Að því virtu og með vísan til þeirra sjónarmiða sem í héraðsdómi greinir verður niðurstaða hans um refsingu ákærða staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur, upptöku og sakarkostnað verða einnig staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 248.679 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. janúar 2012, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 1. nóvember 2011, á hendur Bjarna Leifi Péturssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin hegningar- og vopnalagabrot:
I.
Líkamsárás, með því að hafa, þriðjudaginn 17. ágúst 2010, í íbúð að [...], Reykjavík, veist að A, kt. [...], með ítrekuðum höggum í höfuð og búk, sparkað í andlit hans og hrint honum svo að hann féll niður stiga, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut brot í hægri kinnbeinsboga, skurði á hægri augabrún, bólgu og eymsli á hægra gagnauga og skurð á efri vör vinstra megin.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
II.
Nytjastuld og þjófnað, með því að hafa, laugardaginn 4. september 2010, á bifreiðastæði við [...], [...], tekið bifreiðina [...] (fast númer [...]) heimildarlaust til eigin nota, ekið henni að embætti Sýslumannsins í Reykjavík að Skógarhlíð 6 í Reykjavík, þar sem hann lagði henni í bifreiðastæði, en bifreiðin fannst þar þremur dögum síðar, auk þess að stela sólgleraugum að verðmæti um 120.000 kr. og Ipod að óþekktu verðmæti úr bifreiðinni.
Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 259. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga.
III.
Fjársvik, með því að hafa, laugardaginn 23. október 2010, blekkt starfsfólk í staðgreiðsluviðskiptum, með framvísun á greiðslukorti C, kt. [...], í verslun Krónunnar við Fiskislóð, Reykjavík, og með því svikið út matvörur og sígarettukarton að fjárhæð 14.632 krónur.
Telst brot þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
IV.
Vopnalagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 10. mars 2011, á veitingastaðnum [...] við Laugaveg [...], Reykjavík, borið vasahníf með um 6 cm löngu blaði á almannafæri.
Telst þetta varða við 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er krafist upptöku á hnífi, sem haldlagður var við brot í ákærulið IV., sbr. 1. og 3. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Af hálfu A, kt. [...], er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta, samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 800.000 krónur og lögmannsþóknunar að fjárhæð 232.175 krónur, samtals að fjárhæð 1.032.175 krónur, auk vaxta skv. 8. gr. um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 17. ágúst 2010, en síðan dráttarvaxta skv. 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Áskilinn er réttur til að krefja um bætur vegna útlagðs sjúkrakostnaðar og frekari þóknunar lögmanns komi til aðalmeðferðar.
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af 1., 2. og 3. ákærulið, en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er krafist frávísunar bótakröfu, en til vara er krafist lækkunar bótakröfu. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa.
Ákæruliður I
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá þriðjudeginum 17. ágúst 2010, barst tilkynning klukkan 20:35 um að sést hefði til blóðugs manns á gangi upp Baldursgötu að Skólavörðustíg. Á Skólavörðustíg óku lögreglumenn fram á A. Hann reyndist vera með áverka í andliti, blóðugur í munni, bólginn og virtist sem nokkrar tennur hefðu brotnað. Kemur fram að A hafi verið mjög ölvaður og erfitt að skilja hann af þeim sökum. Þó hafi komið fram hjá honum að ákærði, Bjarni Leifur Pétursson, væri valdur að áverkunum. Hefði ákærði slegið hann með kúbeini í andlitið, hrint honum og sparkað í andlit hans og líkama. A kvað þetta hafa gerst í íbúð að [...] og var ákærði í kjölfarið handtekinn í íbúðinni, en auk hans var þar stödd B. Ákærði var blóðugur á höndum og var blóð á buxum hans og treyju. Hann neitaði að vera valdur að áverkum A. Skýrslu lögreglu fylgja ljósmyndir, sem teknar voru á vettvangi, þar sem sést að blóðdropar voru á svölum íbúðarinnar og í stigagangi. Þá var blóð á dyrakarmi á milli eldhúss og stofu og merki um blóð, sem hafði verið þrifið, á gólfi stofunnar. Einnig mátti sjá blóð í blómabeði utan við húsið.
Samkvæmt vottorði D, sérfræðings í skurðlækningum, á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, dagsettu 2. nóvember 2010, var A fluttur á slysadeild hinn 17. ágúst 2010, eftir að hafa að sögn orðið fyrir líkamsárás. Reyndist hann vera með brot á hægra kinnbeini og bólgu yfir höfði á gagnauga hægra megin, tvo grunna skurði í hægri augabrún og grunnan skurð í efri vör vinstra megin. Kemur fram að ástand tanna hafi ekki verið gott, en engar lausar tennur fundust.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa komið í íbúðina við Baldursgötu ásamt konu A, B, en hún hefði boðið honum heim með sér. Hefði A slegið B í viðurvist hans. Ákærði kvaðst þá hafa sagt við A að ef hann gerði þetta aftur myndi hann fleygja honum út. A hefði slegið konuna öðru höggi og hefði hann þá látið verða af hótun sinni. Kvaðst hann aðeins hafa verið að grípa inn í slagsmál með þessu. Ákærði kvaðst hafa tekið A þar sem þeir voru staddir í stofunni, dregið hann niður stiga, opnað dyrnar og fleygt honum út. Hann kannaðist ekki við að áverkar hefðu verið á A eftir þetta, en honum hefði þó blætt og hefði verið blóð í fötum hans. Aðspurður neitaði hann að hafa slegið og sparkað í A. Hann kvaðst ekki telja áverka A, sem lýst er í ákæru, vera af sínum völdum.
A kvaðst hafa verið heima hjá B, þegar hún hefði komið heim í fylgd með ákærða. Þau hefðu haft blóm meðferðis, sem þau hefðu ætlað að gefa honum og hefði komið til orðaskipta í því sambandi. Kvað hann ákærða síðan hafa sparkað fyrirvaralaust í andlit sitt. Ákærði hefði sparkað margoft í höfuð hans, tekið í hár hans og skellt andliti hans í gólfið. Kvaðst vitnið hafa kinnbeinsbrotnað við þetta. B hefði skorist í leikinn og stöðvað atlöguna. Hann hefði farið út eftir þetta og hefði hann gengið sjálfur niður stigann. Hann hefði farið heim til sín, í næsta hús, sótt þar handklæði og vafið því um höfuð sér, en síðan farið að kaupa sígarettur. Hefði lögregla haft afskipti af honum á þeirri leið.
B kvaðst muna atvik illa, en hún hefði verið lengi við drykkju þegar þetta var. Hún kvaðst þó muna að ákærði hefði hlaupið að A og sparkað í höfuð hans. Ástæða þessa hefði verið drykkjuþras á milli þeirra út af blómum, sem þau ákærði hefðu komið með í íbúðina. Hún kvaðst ekki minnast þess að ákærði hefði slegið A eða hrint honum svo að hann féll niður stiga.
D gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti læknisvottorð sitt. Fram kom hjá vitninu að við myndatöku af andlitsbeinum A hefði komið í ljós brot í hægri kinnbeinsboga og hefði verið um nýtt brot að ræða.
Lögreglumennirnir E, F og G, sem komu á vettvang í umrætt sinn, komu fyrir dóminn sem vitni. E og G lýstu aðkomunni og kom fram að talsvert blóð hefði verið á vettvangi, í íbúðinni og stigaganginum. E sagði þetta hafa verið ferskt blóð, sem aðeins hefði verið byrjað að storkna. F kvaðst hafa fylgt A á slysadeild og hefði hann verið æstur og illviðráðanlegur. Hún sagði að komið hefði til tals að kúbein hefði verið notað við atlöguna, en slíkt verkfæri hefði ekki fundist á vettvangi.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök, en játar þó að hafa dregið A út úr íbúðinni, niður stiga að útidyrum, lyft honum þar upp og varpað honum á dyr. Þá kannast ákærði við að A hafi blætt þegar þetta átti sér stað. Vitnunum A og B ber saman um að ákærði hafi einnig sparkað í andlit eða höfuð A. Fyrir liggur að A bar nokkra áverka eftir þetta og voru ummerki í íbúðinni til marks um að þar hefði komið til átaka. Með vísan til framangreinds er að mati dómsins fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi veist að A, sparkað í andlit hans og dregið hann, eða hrint svo að hann féll niður stiga, með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir og lýst er í læknisvottorði. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar brot hans við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður II
Laugardaginn 4. september 2010 mætti H á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna nytjastuldar bifreiðarinnar [...] af Toyota [...] gerð, sem einkahlutafélagið I var skráður eigandi að. H kvað bifreiðina hafa horfið frá heimili sínu að [...] í [...] þá um nóttina og grunaði hann mann að nafni Bjarna eða J, sem hann hefði boðið til sín í samkvæmi, um að hafa tekið hana. Bifreiðin fannst þremur dögum síðar á bifreiðastæði við Skógarhlíð, en skipt hafði verið um skráningarplötur á henni. Var bifreiðin afhent föður H, K, sem kvað ýmsa muni hafa horfið úr henni, nánar tiltekið sólgleraugu og Ipod. Fljótlega beindist grunur að ákærða um að hafa tekið bifreiðina ófrjálsri hendi. Við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi hann að hafa ekið bifreiðinni frá heimili kæranda þangað sem hún fannst síðar og vísaði á kveikjuláslykil, sem var falinn undir steini þar skammt frá.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið í samkvæmi í framangreindu húsi ásamt J. Hefði húsráðandi boðið þeim heim með sér og boðist til að aka þeim heim um morguninn. Hann hefði hins vegar ekki vaknað þegar þau hugðust fara heim og kvaðst ákærði því hafa tekið bifreiðina og ekið henni þangað sem hún fannst síðar. Hefði maðurinn áður haft á orði að hann mætti aka bifreiðinni ef hann vaknaði ekki um morguninn. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa stolið sólgleraugum og Ipod úr bifreiðinni.
H kvaðst hafa verið að skemmta sér „svolítið mikið“ nóttina sem um ræðir. Hefði hann verið í miðbæ Reykjavíkur og hitt þar karl og konu, sem hann hefði boðið að gista í bílskúrnum á heimili sínu. Vitnið kvaðst vera myndlistarmaður og hefði hann ætlað að teikna fólkið. Hann hefði síðan lagst til svefns þegar heim kom og hefðu lyklar að bifreið móður hans þá legið á borði í herbergi hans. Hefði bifreiðin verið horfin þegar hann vaknaði morguninn eftir. Vitnið sagðist hafa neytt áfengis þetta kvöld og hefði ástand hans ekki verið gott. Hann kvaðst þó efast um að hann hefði lánað fólkinu bifreiðina, ef þau hefðu beðið hann um það. Þá kvaðst hann ekki muna til þess að einhverja muni hefði vantað í bifreiðina þegar hún fannst aftur.
J gaf skýrslu fyrir dóminum, en hún kvaðst ekki muna eftir atvikinu sem um ræðir.
K kom fyrir dóminn sem vitni, en bifreiðin sem um ræðir var skráð á fyrirtæki í hans eigu. Vitnið kvað einhverjum munum, sem hefðu verið í eigu dóttur hans, hafa verið stolið úr bifreiðinni. Ekki mundi vitnið hvaða munir það voru, en vísaði um nánari tilgreiningu til skýrslu sinnar hjá lögreglu.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Kveðst hann hafa fengið bifreiðina lánaða til að komast heim um morguninn, enda hefði verið afráðið að gestgjafi þeirra J myndi aka þeim heim. Hann neitar alfarið að hafa stolið munum úr bifreiðinni. Að mati dómsins er framburður ákærða um að H hafi heimilað honum notkun bifreiðarinnar ótrúverðugur, enda hefur H vísað þeirri skýringu á bug. Í því sambandi er til þess að líta að ákærði hlutaðist ekki til um að skila bifreiðinni, en hún fannst nokkrum dögum síðar við eftirgrennslan lögreglu. Með hliðsjón af framansögðu er það mat dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi tekið bifreiðina ófrjálsri hendi og ekið henni heimildarlaust eins og rakið er í ákæru. Verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga.
Svo sem að framan er rakið neitar ákærði að hafa tekið sólgleraugu og Ipod úr bifreiðinni. Í málinu er engum gögnum til að dreifa um þessa muni og var ekki tekin skýrsla af stúlku sem sögð er eigandi þeirra. Þykir ósannað að ákærði hafi stolið umræddum munum úr bifreiðinni eins og honum er gefið að sök og verður hann sýknaður af ákæru að því leyti.
Ákæruliður III
Laugardaginn 23. október 2010 var lögregla kölluð að verslun Krónunnar við Fiskislóð í Reykjavík, en tilkynnt var um að viðskiptavinur hefði notað stolið greiðslukort við kaup á vörum. Reyndist um að ræða ákærða, sem hafði framvísað greiðslukorti í eigu C til að greiða fyrir matvöru og sígarettukarton.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa fengið greiðslukortið afhent frá manni, sem hefði heimilað honum notkun þess. Ekki kvaðst ákærði muna hver þessi maður væri og ekki heldur vita hvort hann væri eigandi greiðslukortsins. Aðspurður kvaðst hann kannast lítillega við C. Nánar aðspurður sagði hann rétt vera sem komið hefði fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði fundið greiðslukortið utan við veitingastað í miðborginni.
C kvaðst hafa tapað veski með greiðslukorti sínu á skemmtistað og taldi hann að því hefði verið stolið. Daginn eftir hefði verið hringt til hans úr verslun Krónunnar og honum sagt að starfsfólk þar væri með kortið. Hann kvaðst ekki þekkja ákærða og hefði hann ekki veitt honum heimild til að nota kortið. Hann kvað 12 til 14.000 krónur hafa verið teknar út af kortinu, en sú fjárhæð hefði síðar verið bakfærð af greiðslukortafyrirtækinu.
Vitnin L og M, sem afgreiddu ákærða í verslun Krónunnar í umrætt sinn, komu fyrir dóminn sem vitni. Þau kváðust hafa séð að ljósmynd á greiðslukortinu var ekki af ákærða og hefði lögreglu verið gert viðvart. Kvað M kortinu hafa verið rennt í gegn áður en þetta uppgötvaðist. L kvaðst hafa hringt í eiganda greiðslukortsins og hefði hann ekki kannast við að verið væri að versla fyrir hann, en ákærði hefði komið með þá skýringu á staðnum.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Kvaðst ákærði fyrir dóminum hafa haft heimild til að nota greiðslukortið, en síðar að hann hefði notað kortið eftir að hafa fundið það í miðborginni. Eigandi greiðslukortsins kvaðst hafa glatað kortinu og hefur hann alfarið hafnað því að ákærði hafi haft heimild til notkunar þess. Er framburður ákærða að þessu leyti reikull og ótrúverðugur og verður honum hafnað. Ákærði notaði greiðslukort til að svíkja út vörur í matvöruverslun, svo sem í ákæru greinir. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar brot hans við 248. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður IV
Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt samkvæmt IV. ákærulið. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur árið 1958. Hann á sér langan sakaferil, allt aftur til ársins 1975. Hefur hann hlotið 44 refsidóma, aðallega fyrir hegningarlagabrot. Ákærði hefur hlotið dóma fyrir á þriðja tug auðgunarbrota, þ.m.t. vegna þriggja ránsbrota. Þá hefur hann hlotið fjóra refsidóma fyrir líkamsárásir. Árið 2006 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir þjófnaðarbrot og gekkst síðar undir lögreglustjórasátt vegna fíkniefnalagabrots. Síðast var ákærði dæmdur í héraðsdómi í Kaupmannahöfn 10. desember 2007 í tveggja ára fangelsi fyrir tilraun til ráns, nauðungarbrot, hótun og vopnalagabrot. Hinn 3. janúar 2009 var ákærða veitt reynslulausn í 2 ár á 240 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt síðastnefndum dómi. Með þeim brotum sem ákærði er nú sakfelldur fyrir rauf hann skilorð reynslulausnarinnar. Ber að taka reynslulausnina upp og dæma með í þessu máli, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005, og 60. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða verður jafnframt litið til 72. gr., 77. gr., 255. gr. og 1. mgr. 218. gr. b., sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur auk málskostnaðar. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur ásamt vöxtum sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 175.000 krónur í málskostnað, vegna lögmannsaðstoðar við að halda bótakröfunni fram, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði verður dæmdur til að sæta upptöku á hníf, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, samkvæmt lagaákvæðum sem í ákæru greinir.
Loks ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 213.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 30.599 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Ólöf Einarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Bjarni Leifur Pétursson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði A 300.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 17. ágúst 2010 til 21. desember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 175.000 krónur í málskostnað.
Upptækur er gerður hnífur, sem lögregla lagði hald á.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 213.000 krónur, og 30.599 krónur í annan sakarkostnað.