Hæstiréttur íslands
Mál nr. 210/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2012. |
|
Nr. 210/2012. |
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X
skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. apríl 2012 klukkan 16 „eða þar til mat dómkvadds geðlæknis liggur fyrir í málinu um andlega heilsu kærða.“ Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. apríl 2012 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2012.
Lögreglustjórinn á
Suðurnesjum krafðist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness, aðallega með vísan
til d. liðar 1 mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en til vara
með vísan til 2. mgr. 95. gr. sömu laga og til þrautavara 1. mgr. 100. gr.
laganna, að X, kt. [...], [...], [...], verði gert
að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. apríl 2012, kl. 16:00, eða þar
til mat dómkvadds geðlæknis liggur fyrir í málinu um andlega heilsu X, sbr, úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-105/2012.
Kærði mótmælti kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn
vopnalögum nr. 16/1996 og XI., XII. og XIII. kafla almennra hegningarlaga nr.
19/1940.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur m.a. fram að þann 26. febrúar
2012 hafi lögregla fengið tilkynningu um afbrigðilegt háttalag kærða á facebook síðu hans. Í framhaldi af tilkynningunni hafi facebook síðan verið skoðuð af lögreglu en þar hafi m.a.
mátt sjá myndir af kærða handleika skotvopn, þ.e. riffil og haglabyssu. Þá hafi
einnig mátt sjá myndir af sprengju og efni sem notuð hafi verið til
sprengjugerðar.
Lögregla hafi aflað húsleitarúrskurðar 26. febrúar 2012, sbr. mál
R-103/2012. Rétt fyrir miðnætti hafi lögregla ásamt sérsveit
Ríkislögreglustjóra farið inn í íbúð kærða. Kærði hafi tekið á móti lögreglu
vopnaður hníf er hann hafi otað að lögreglumönnum á vettvangi. Við húsleitina
hafi lögregla m.a. lagt hald á 22 cal. skammbyssu sem
hafi verið hlaðin, skotfæri fyrir 22 cal. skotvopn,
eftirlíkingu af skammbyssu, nokkuð magn hnífa, handjárn auk sprengju og efni
til sprengjugerðar auk annarra muna.
Við leit lögreglu hafi ennfremur komið í ljós að kærði virðist hafa
beitt skammbyssunni inn í íbúð sinni. Þannig hafi mátt sjá að hleypt hafi verið
af skammbyssunni eða öðru sambærilegu skotvopni. Svo virðist sem að skotið hafi
verið úr skammbyssunni í gegnum svefnherbergishurð, þaðan hafi kúlan farið í
gegnum hurð á fataskáp og loks í hillu í fataskápnum þar sem kúlan hafi
staðnæmst. Lögreglu hafi ekki tekist að finna kúluna en telji allt benda til
þess að um 22 cal. byssukúlu hafi verið að ræða. Við
nánari rannsókn lögreglu á skammbyssunni hafi komið í ljós að henni hafi verið
stolið úr bifreið við [...]
í [...] þann
19. júní 2006, sbr. lögreglumál nr. 019-2006-330.
Rannsókn lögreglu hafi einnig leitt í ljós að svo virðist sem að kærði
hafi unnið að skrifum á ævisögu sinni og einnig að hann hafi unnið að skrifum á
skáldsögu. Við skoðun á skrifum kærða megi m.a. finna lýsingar hans á árásum á
alþingi, þingmenn og starfsmenn þingsins. Þá megi einnig finna lýsingar á
háttsemi sem virðist benda til þess að kærði hafi um skeið skipulagt
ofbeldisfullar aðgerðir sem hafi átt að beinast gegn nafngreindum aðilum.
Lögregla telji að sú háttsemi sem kærði hafi lýst í skrifum sínum sé með þeim
hætti að taka verði skrif hans mjög alvarlega. Kærði hafi við yfirheyrslur hjá
lögreglu haldið því fram að um skáldskap sé að ræða sem hafi verið settur fram
í þeim tilgangi að auka sölu bókarinnar þegar hún kæmi út. Lögregla hafi einnig
unnið að því að bera saman skrif kærða við framburð hans og annarra sem hafi
verið teknir til skýrslutöku vegna þessa máls. Sá samanburður hafi m.a. leitt í
ljós að ýmislegt í skrifum kærða, sem hann greini frá að sé annað hvort
skáldskapur eða ævisaga sín, eigi sér stoð í raunveruleikanum og hafi kærði
m.a. staðfest það við skýrslutöku hjá lögreglu.
Þá hafi rannsókn lögreglu einnig leitt í ljós að kærði virðist hafa
tengsl við samtökin SOD á Suðurnesjum en samtökin séu
nátengd Hells Angels
glæpasamtökunum.
Við rannsókn málsins hafi
lögregla tekið skýrslur af fjölda aðila. Um sé að ræða 24 aðila sem tengist
kærða fjölskylduböndum og með öðrum hætti. Þá hafi kærði einnig verið
yfirheyrður í þrígang vegna málsins. Eftir að hafa farið yfir framburði þessara
aðila og kærða sjálfs og borið þá saman við þau gögn er lögregla haldlagði við
leit á heimili kærða, telji lögregla að kærði kunni að vera hættulegur sjálfum
sér og samfélagi sínu. Þá hafi lögregla einnig aflað úrskurðar
Héraðsdóms Reykjaness, sbr. mál nr. R-105/2012, um að kærði sæti rannsókn í
samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. A
geðlæknir vinni nú að þeirri rannsókn á kærða. Samkvæmt framburði hennar telji
hún að mat á andlegu ástandi kærða verði ekki tilbúið fyrr en í síðasta lagi
eftir viku. Lögreglan telji að mat A geðlæknis sé afar mikilvægt við alla
meðferð málsins og geti reynst mikilvægt gagn við rannsókn málsins, t.d. við
það að greina á milli þess í skrifum kærða hvenær um skáldskap sé að ræða og
hvenær um raunverulega atburði sé að ræða sem annað hvort hafa átt sér stað eða
kærði skipuleggur. Lögregla telji því nauðsynlegt að mat A geðlæknis liggi
fyrir áður en kærða verði sleppt úr gæsluvarðhaldi.
Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 27. febrúar s.l. en hann hafi
síðast verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi 8. mars sl. til dagsins í
dag, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 148/2012. Sé vísað nánar til
meðfylgjandi gagna málsins.
Rannsókn máls þessa telst nú lokið að mestu. Það sem eftir standi
varðandi rannsóknina sé að lögregla bíði þess nú að A geðlæknir skili af sér
geðmati vegna kærða. Lögregla telji að áður en að matið liggi fyrir sé afar
brýnt, með tilliti til þeirra lagaákvæða sem krafa þessi sé reist á, að kærða
verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Lögregla telji að háttsemi
kærða kunni að fela í sér brot á vopnalögum nr. 16/1996 og brot gegn ákvæðum
XI., XII og XIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Telji lögregla að sérstaklega verði að líta til þess að í skrifum
kærða sé að finna nokkuð ítarlegar lýsingar á háttsemi, er lögregla telji að
kunni að vera skipulagning á árásum á helstu valdastofnanir í íslensku
þjóðfélagi, þ. á m. árás á Alþingi. Að þessu sögðu telji lögregla að kærði hafi
lagt á ráðin að framkvæma háttsemi gæti fallið undir 100., 100. gr. a. og 106.
gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í ljósi alvarleika skrifa kærða og
þeirrar háttsemi sem hann lýsi í skrifum sínum, telji lögregla að taka verði
mál þetta alvarlega.
Með vísan til alls framangreinds, d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála, 2. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. sömu laga,
ákvæða vopnalaga nr. 16/1996 og XI., XII. og XIII. kafla almennra hegningarlaga
nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að
kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. apríl 2012, kl.
16:00.
Samkvæmt rannsóknargögnum fundust við húsleit á heimili kærða
óhugnanleg skrif, bæði á handskrifuðum blöðum og í rafrænu formi sem beinast
meðal annars að æðstu stjórn ríkisins og nafngreindum einstaklingum. Þá var
lagt hald á hlaðna skammbyssu, rörasprengju og efni til sprengjugerðar. Fyrir
liggur að kærði sætir nú rannsókn samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála og framkvæmir A geðlæknir þá rannsókn. Mun rannsókninni verða
lokið innan viku. Fallist er á það með lögreglustjóra að mat geðlæknis sé
mikilvægt fyrir meðferð málsins og að það liggi fyrir áður en kærða verður
sleppt lausum.
Þá er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið
háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Samkvæmt mati greiningardeildar
ríkislögreglustjóra, dagsettu 2. mars sl. er kærði hættulegur og geti
almenningi stafað ógn af honum. Sé til staðar ásetningur hans til að fremja
voðaverk. Skilyrði d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamál
eru því uppfyllt í málinu og verður krafa Lögreglustjórans á Suðurnesjum um
gæsluvaðhald því tekin til greina eins og hún er fram sett. Því verður kærða
gert að sæta gæsluvaðhaldi allt til mánudagsins 2. apríl nk., kl. 16:00, eða
þar til mat dómkvadds matsmanns liggur fyrir um andlega heilsu kærða.
Úrskurð þennan kveður upp
Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, er gert
að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. apríl 2012, kl. 16:00, eða þar
til mat dómkvadds geðlæknis liggur fyrir í málinu um andlega heilsu kærða.