Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Mánudaginn 6. júní 2011. |
|
Nr. 343/2011. |
A (Hreinn Pálsson hrl.) gegn Akureyrarbæ (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi sem samþykkt hafði verið af innanríkisráðuneytinu 19. maí 2011.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af innanríkisráðuneytinu 19. sama mánaðar. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að nauðungarvistun verði felld úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 62.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. maí 2001.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag, er tilkomið vegna kröfu sóknaraðila A, kt. [...], [...], [...], um að felld verði úr gildi nauðungarvistun hans á geðdeild Sjúkrahússins á [...], er Innanríkisráðuneytið lét samþykki fyrir þann 19. maí sl.
Varnaraðili, B, krefst þess að ofangreind nauðungarvistun sóknaraðila standi óhögguð.
Hin kærða ákvörðun um nauðungarvistun er reist á læknisvottorði C heilsugæslulæknis, dags. 19. maí 2011 sem ritað var að beiðni varnaraðila B. Í vottorðinu, sem er í samræmi við önnur gögn, er því lýst að sóknaraðili hafi verið lagður inn brátt á geðdeild Sjúkrahússins á [...] hinn 17. maí sl., en hann hafi þá verið í geðrofsástandi. Í vottorðinu er lýst högum og aðstæðum sóknaraðila, þ.á m. læknismeðferðar vegna sjúkdómseinkenna. Þá er því lýst að sóknaraðili hafi hætt töku viðeigandi lyfja sem honum sé nauðsynleg við meðferð á geðsjúkdómi, en hann hafi verið greindur með [...].
Fyrir liggur að af hálfu Innanríkisráðuneytisins var samþykkt hinn 19. maí sl., á grundvelli fyrirliggjandi gagna og beiðni, að sóknaraðili yrði vistaður á sjúkrahúsi samkvæmt heimild í 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.
Kæra sóknaraðila barst dóminum 23. maí sl. Að tilhlutan dómsins ritaði D geðlæknir geðdeildar Sjúkrahússins á [...] vottorð um geðheilsu sóknaraðila og lá það frammi við fyrirtöku málsins fyrr í dag. Í vottorðinu er það áréttað að sóknaraðili hafi lagst inn á geðdeild sjúkrahússins 17. maí sl., en hann hafi komið í fylgt lögreglumanna. Sóknaraðili hafi þá verið metinn í geðrofsástandi, verið æstur og virkað ógnandi, en vegna þessa hafi það verið metið svo að ekki væri hjá því komist að sóknaraðili tæki lyf nauðugur. Lýst er læknismeðhöndlun sóknaraðila á geðdeildinni fram til þessa, en síðan segir í niðurstöðukafla um geðskoðun sóknaraðila:
„ ... Hann þvertekur fyrir það að vera með [...], telur ekki hann þurfi að vera á sjúkrahúsi eða taka inn lyf og telur ekkert í sínu atferli eða sínar upplifanir vera hluti af veikindum. Hann telst því fullkomlega innsæislaus. Hann er áttaður á stað, stund og sjálfum sér.
Álit:
Ég tel engan vafa á því að A sé með [...],[...], skv. greiningarviðmiðum Alþjóða Heilbrigðismálastofnunarinnar, ICD-10. Hann er núna með aðsóknarranghugmyndir, hugsanlega heyrnarofskynjanir og sýnir furðulega hegðun. Hann er einnig með merki um svokölluð neikvæð einkenni [...] sem birtist í því að hann hefur ekki [...][...]. A þarf að taka [...]lyf ella munu veikindin halda áfram. Það er áhyggjuefni að hann hefur viðrað hugmyndir um [...] .... Þar sem A neitar enn að taka lyf í töfluformi er áætlað að hann fái forðasprautu aftur seinna í þessari viku.“
Við þingfestingu málsins fyrr í dag gaf sóknaraðili skýrslu að viðstöddum skipuðum talsmanni sínum. Sóknaraðili ítrekaði kröfur sínar og vísaði m.a. til þess að hann vildi þiggja einhverskonar læknishjálp, en þó ekki á lokaðri geðdeild.
Dómarinn telur ljóst af því sem rakið hefur verið að brýn nauðsyn sé til þess að vista sóknaraðila á geðdeild Sjúkrahússins á [...]. Er þannig fullnægt skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71, 1997. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila, en staðfesta áðurgreinda ákvörðun Innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun.
Samkvæmt 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun talsmanns sóknaraðila, Hreins Pálssonar hrl., 75.300 krónur úr ríkissjóði og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], um að fella úr gildi ákvörðun Innanríkisráðuneytisins frá 19. maí 2011, um nauðungarvistun hans á geðdeild Sjúkrahússins á [...].
Málskostnaður talsmanns sóknaraðila, Hreins Pálssonar hrl., 75.300 krónur greiðist úr ríkissjóði.