Hæstiréttur íslands
Mál nr. 560/2002
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Fasteign
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 28. maí 2003. |
|
Nr. 560/2002. |
Borghildur Maack(Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Fasteign. Gjafsókn.
B slasaðist er hún hrasaði um brún á gólfi húsnæðis T, en húsnæðið var í eigu Í. Voru aðstæður þannig að í afgreiðslusal voru ljósar steinflísar á gólfi, en innan við salinn var skrifstofurými þar sem voru brúnar korkflísar. Var B á leið sinni út þegar hún hnaut um samskeyti gólfefnanna. Var gangvegur á milli þessara rýma hvor sínu megin við burðarsúlu, en óljóst var hvoru megin við hana B fór þegar hún hrasaði á leið sinni út. Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins var brúnin skörp og u.þ.b. 10 mm. Talið var að litamunur, ólík gerð gólfefnanna og brún á samskeytum þeirra hafi mátt vera augljós hverjum þeim, sem þarna fór á milli rýma í húsnæðinu. Hafi frágangur á samskeytunum ekki brotið í bága við lög eða reglugerðir. Þá lægi ekki fyrir að þar hafi áður orðið slys eða að mönnum hafi verið slysahætta ljós. Verði ekki talið að um vanbúnað hafi verið að ræða sem ljós slysahætta hafi stafað af og slysið því hlotist fyrir óhapp og aðgæsluleysi B. Voru Í og T því sýknuð af kröfu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2002. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.124.684 krónur með 2% ársvöxtum frá 16. apríl 1999 til 4. október 2000 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmd til að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hennar verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Svo sem rakið er í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að áfrýjandi hrasaði um brún á gólfi húsnæðis Tryggingastofnunar ríkisins við Tryggvagötu í Reykjavík 16. apríl 1999 og slasaðist. Hefur hún lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt auk þess að vísa nú til reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða, sem settar hafi verið með heimild í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Telur hún að með frágangi gólfefna í áðurnefndu húsnæði hafi stefndi brotið gegn fyrirmælum þessara reglna. Því til stuðnings er einkum bent á 4. tölulið 3. greinar og 6. lið 6. greinar, en í síðastnefnda ákvæðinu komi fram að ekki megi vera hættulegar upphækkanir, göt eða hallar á gólfum vinnustaða.
Dómendur málsins gengu á vettvang og kynntu sér aðstæður, sem eru óbreyttar frá því sem var þegar málið var dæmt í héraði. Svo sem fram kemur í héraðsdómi hafa afgreiðsluborð og skrifborð, sem áður skildu afgreiðslurými frá vinnusvæði starfsmanna innan við það, nú verið fjarlægð. Af ummerkjum á vettvangi og málflutningi aðila verður ráðið að gangvegir á milli þessara rýma hafi verið hvor sínu megin við burðarsúlu, en óljóst er hvoru megin við hana áfrýjandi fór þegar hún hrasaði á leið sinni út. Ljósar steinflísar eru á gólfinu þar sem afgreiðslan var áður, en innan við það eru brúnar korkflísar og hnaut áfrýjandi um samskeyti gólfefnanna. Litamunur, ólík gerð gólfefnanna og brún á samskeytum þeirra mátti vera augljós hverjum þeim, sem þarna fór á milli rýma í húsnæðinu. Hefur áfrýjandi ekki borið við að lýsingu hafi verið áfátt. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans að slysið hafi hlotist fyrir óhapp og aðgæsluleysi áfrýjanda. Verður héraðsdómur samkvæmt því staðfestur.
Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Borghildar Maack, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. nóvember sl., er höfðað 9. október 2000.
Stefnandi er Borghildur Maack Jónsdóttir, kt. 040543-2959, Sogavegi 103, Reykjavík.
Stefndu eru íslenska ríkið, kt. 540269-6459, og Tryggingastofnun ríkisins, kt. 660269-2669, Laugavegi 114, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða henni skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 2.124.684 með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 16. apríl 1999 til 4. október 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða henni málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndu gera þær dómkröfur aðallega að vera sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað. Til vara gera stefndu þær dómkröfur að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
I.
Hinn 16. apríl 1999 kom stefnandi í þjónustumiðstöð stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, Tryggvagötu 28, Reykjavík, en húsnæðið var í eigu ríkissjóðs. Húsakynni voru þannig að fyrst var komið inn í afgreiðslusal þar sem ljósar steinflísar eru á gólfinu. Innan við afgreiðslusalinn var skrifstofurými með brúnum korkflísum á gólfinu. Afgreiðslusalurinn og skrifstofurýmið var afmarkað með afgreiðsluborði og skrifborðum en hægt var að ganga úr afgreiðslusalnum inn í skrifstofurýmið um mjóa gangvegi beggja megin við súlu á mörkum rýmanna. Stefnandi fékk í umrætt sinn viðtal við þjónustufulltrúa sem staðsettur var innan við afgreiðsluna. Þegar stefnandi var að koma úr viðtalinu kveðst hún hafa rekið tærnar í kant á samskeytum gólfefnanna í gangveginum á milli súlunnar og skrifborðs. Við það hafi hún steypst fram fyrir sig og skollið í gólfið og runnið eftir því. Hún hafi í fallinu borið báðar hendur fyrir sig, þó einkum þá vinstri, og skollið niður á hné og vinstra læri. Hún hafi þegar í stað fundið til verulegra þrauta í höndum, hnjám, vinstra læri og ristum.
Stefnandi fór samdægurs í læknisskoðun til Gísla Þórarnar Júlíussonar heimilislæknis. Í vottorði læknisins, sem dagsett er 19. maí 1999, kemur fram að stefnandi hafi við slysið tognað í vinstri og hægri höndum og einnig í vinstra læri. Þá hafi hún hlotið mar á hnjám og á vinstri framhandlegg. Þá sé hún verri í hægri öxl. Hún hafi verki í baki, leiðni utanvert á vinstri mjöðm niður í vinstri fót og ökkla. Einnig verki öðru hverju í vinstri úlnlið og vinstri framhandlegg. Hún sé undirlögð af verkjum í allri vinstri hliðinni öðru hverju. Við skoðun sé stirðleiki í mjóbaki og eymsli utan á vinstri mjöðm. Væg eymsli í vinstri úlnlið og vinstri framhandlegg. Í áverkavottorði læknisins vegna slyssins, sem dagsett er 28. mars 2000, segir að stefnandi hafi hlotið mar á vinstra læri, svo og tognanir í lærinu, mjóbaki, hægri hendi, vinstri framhandlegg og hendi og einnig mar. Hún finni enn öðru hverju fyrir verkjum í mjóbakinu og sé nokkuð slæm yfir "trochanter" og þar í kring. Batahorfur séu óljósar.
Stefnandi kveðst ítrekað hafa verið í skoðun hjá lækninum vegna áverkanna, þá einkum vegna verkja í mjóbaki, mjöðm og vinstri handlegg.
Fyrir liggur að stefnandi varð aftur fyrir slysi 19. maí 1999 og leitaði til læknisins þann dag. Í vottorði læknisins um þá komu segir m.a.: Borghildur kom á stofu fyrst u.þ.b. 2 klst. eftir slys. Þ. 19.05.1999 kl. 09 ók strætisvagn aftan á bíl hennar við gatnamót Vegmúla og Suðurlandsbrautar. Var hún strax slæm af verkjum í hálsi með leiðni út í vi. öxl og dofa í 2. - 5. fingri vi. megin. Öll lurkum lamin í baki og vi. læri. virðist við áreksturinn hafa fengið heilahristing, jafnvel dottið út í nokkrar sekúndur.
Slysið í Tryggingastofnun ríkisins var tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins sem gerði skýrslu, sem dagsett er 23. apríl 1999. Í skýrslunni segir orðrétt: Borghildur mun hafa hrasað um brún á samskeytum gólfefna við afgreiðsluborð. Við skoðun á vettvangi kom í ljós að samskeyti þessi voru með skarpri brún ca 10 mm sem auðsætt skapar hættu á að hnjóta um. Krafa: Búa þarf svo um samskeyti þessi að komið verði í veg fyrir fallhættu vegna gangandi umferðar gesta og starfsfólks.
Stefnandi tilkynnti slysið í Tryggingastofnun ríkisins til lögreglu þann 29. júní 1999.
Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkislögmanns, dags. 28. september 1999, var óskað eftir afstöðu hans til bótaskyldu vegna slyssins í Tryggingastofnun ríkisins. Með svarbréfi ríkislögmanns, dagsettu 23. nóvember 1999, var bótaskyldu hafnað. Í bréfinu er vísað til þess að ósannað sé talið að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni við fallið í Tryggingastofnun. Jafnframt er vísað til þess að talið sé að fall stefnanda sé óhappatilvik og að aðstæður í Tryggvagötu 28 séu ekki með þeim hætti að ábyrgð verði lögð á húseiganda.
Júlíus Valsson læknir var fenginn til að meta örorku stefnanda vegna slyssins í Tryggingstofnun ríkisins. Örorkumat hans er dagsett 18. ágúst 2000. Þar segir orðrétt: Slysið hefur að mati undirritaðs leitt til viss varanlegs miska. Um er að ræða mar og tognunaráverka og hafa einkenni frá vinstra mjaðmarsvæði orðið mjög þrálát. Einkennin hafa skert göngugetu tjónþola og valda henni margvíslegum óþægindum í daglegu lífi. Hún er með óþægindi við að liggja á vinstri hliðinni og hún á í erfiðleikum með langar setur og stöður. Þessi óþægindi hafa enn aukið á óvinnufærni hennar... Niðurstaða matsins er að tímabundið atvinnutjón stefnanda vegna slyssins samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 teljist vera 100% í fjórar vikur. Varnalegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 teljist hæfilega metinn 10% og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 teljist hæfilega metin 10%. Stefnandi teljist hafa verið veik í skilningi skaðabótalaga án þess að vera rúmliggjandi í einn mánuð, þ.e. þar til hún lenti í slysi 19. maí 1999.
Með bréfi lögmanns stefnanda til ríkislögmanns, dags. 4. september 2000, var gerð bótakrafa á grundvelli matsgerðarinnar og annarra gagna. Með bréfi ríkislögmanns, dags. 18. s.m., var bótakröfu hafnað og fyrri afstaða embættisins ítrekuð.
Stefndu fóru fram á að örorkunefnd fjallaði um varanlega örorku og miskastig stefnanda vegna líkamstjóns af völdum slyssins í Tryggingastofnun ríkisins. Ályktarorð álitsgerðar nefndarinnar, sem dagsett er 4. júlí 2001, eru þau að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins sé metinn 5% og að stefnandi teljist ekki hafa hlotið varanlega örorku vegna afleiðinga slyssins.
Samkvæmt beiðni stefnanda voru dómkvaddir matsmenn til að meta afleiðingar slyssins í Tryggingastofnun ríkisins. Í niðurstöðu matsmannanna Brynjólfs Y. Jónssonar dr. med. bæklunarlæknis og Magnúsar Thoroddsen hrl. frá 5. október 2001 kemur fram að matsmenn telji að stefnandi hafi að fullu verið óvinnufær frá 16. apríl 1999 til 19. maí sama ár og talist vera veik án rúmlegu í sama tíma. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins teljist vera 10% og varanleg örorka 5%.
Lögmaður stefnanda krafðist yfirmats. Í niðurstöðu yfirmatsgerðar þeirra Yngva Ólafssonar bæklunarskurðlæknis, Brynjólfs Jónssonar bæklunarskurðlæknis og Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, sem dagsett er 13. maí 2002, kemur fram að stefnandi teljist hafa verið óvinnufær vegna slyssins frá slysdegi 16. apríl 1999 og, eins og hér stóð á, til 19. maí 1999. Stefnandi teljist hafa verið veik, án þess að vera rúmföst, til 3. ágúst 1999, eða í tæpa fjóra mánuði frá slysdegi. Varanlegur miski stefnanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga teljist vera 5% og varanleg örorka teljist hæfilega metin 5%.
II.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndu, íslenska ríkið og Tryggingastofnun ríkisins, beri óskipta skaðabótaábyrgð á slysi því sem hún varð fyrir í húsakynnum Tryggingastofnunar ríkisins þann 16. apríl 1999. Frágangur á gólfi hafi verið til þess fallinn að valda slysi eins og því sem hún varð fyrir, enda kveðið á um það í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins að frágangur hafi verið með þeim hætti að auðsætt væri að hann skapaði hættu. Gara megi ráð fyrir að verulegur fjöldi þeirra hundruða viðskiptavina sem komi daglega í stofnunina sé líkamlega illa á sig kominn og því sé meiri hætta en ella á að þeir falli um mishæð eins og þá sem var á gólfinu. Þess vegna verði að gera enn meiri kröfur en ella til þess að gólf stofnunar eins og Tryggingastofnunar ríkisins séu ekki þannig að viðskiptavinir geti átt von á því að falla um misfellur á þeim.
Húseigendur og leigutakar beri samkvæmt reglum íslensks skaðabótaréttar um húseigendaábyrgð ábyrgð á tjóni sem hljótist vegna vanbúnaðar á húsnæði. Þeim beri að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu sem stafað geti af húsnæðinu fyrir þá sem þar búa eða þá sem þar eiga leið um. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda Tryggingastofnun ríkisins hafi húsnæðið verið í eigu ríkissjóðs á slysdeginum og telur stefnandi því rétt að krefja stefnda, íslenska ríkið, sem eiganda húsnæðisins og stefnda, Tryggingastofnun ríkisins, sem leigutaka, óskipt um greiðslu stefnukröfunnar.
Dómkröfur stefnanda sem byggjast á örorkumati Júlíusar Valssonar læknis, dags. 18. ágúst 2000, sundurliðast þannig:
1. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón
71.429 x 1 = 71.429 kr. 71.429
2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. kr. 25.200
30 x 840 = 25.200
3. Bætur fyrir varanlegan miska skv. 4. gr. skbl. kr. 480.050
10% af kr. 4.800.050 = 480.050
4. Bætur fyrir varanlega örorku skv. 5.-7. gr. skbl. kr. 1.548.005
2.266.794 x 6% = 136.007
2.402.801/ 3661 x 3931
2.650.008 x 10 x 10% = 2.580.008
lækkun v/ aldurs 2.580.008 x 40% = 1.032.003
2.580.008 - 1.032.003 = 1.548.005
Samtals kr. 2.124.684
Stefnandi byggir kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón á 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Vísar stefnandi til örorkumats Júlíusar Valssonar læknis þar sem fram komi að stefnandi hafi verið óvinnufær í fjórar vikur. Viðmiðunartekjur vegna kröfunnar um tímabundið atvinnutjón eru reiknað endurgjald stefnanda við eigin atvinnurekstur á árinu 1999, samtals kr. 250.000/3,5, en stefnandi hafi unnið fyrstu 3 1/2 mánuð ársins 1999 við eigin verslun. Þjáningarbótakrafan er grundvölluð á 3. gr. skaðabótalaganna en Júlíus Valsson læknir telur tímabil þjáninga vara í einn mánuð, þ.e. þar til stefnandi lenti í öðru slysi þann 19. maí 1999. Krafan um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku miðast við örorkumat Júlíusar Valssonar læknis en viðmiðunartekjur við ákvörðun bótafjárhæðar fyrir varanlega örorku eru tekjur stefnanda á árinu 1998 með vísan til 2. mgr. 7. gr. skbl. Dráttavaxta er krafist frá því að liðinn var mánuður frá því að kröfubréf var sent stefnda, dags. 4. september 2000.
Til vara byggir stefnandi á því að miða eigi bætur við mat hinna dómkvöddu matsmanna frá 5. október 2001. Til þrautavara byggir stefnandi á yfirmatsgerðinni frá 13. maí 2002.
Stefnandi byggir kröfur sínar á skaðabótalögum nr. 50/1993 auk almennra ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um bótaskyldu húseigenda og leigutaka húsnæðis. Vaxtakröfuna byggir stefnandi á 16. gr. laga nr. 50/1993.
III.
Stefndu mótmæla því að húseignin að Tryggvagötu 28 í Reykjavík hafi verið vanbúinn á þann hátt að stofnast hafi til bótaábyrgðar gagnvart stefnanda. Algengt sé að kantar eða brúnir séu á milli gólfefna. Þar sem slysið varð hafi mæst brúnar korkflísar og hvítar steinflísar. Skilin á milli gólfefnanna hafi því verið greinileg og brúnin sést þegar gengið var um gólfið. Þá mótmæla stefndu því að frágangur á gólfinu hafi verið til þess fallinn að valda slysi í líkingu við það óhapp sem stefnandi varð fyrir. Ekki sé vitað til þess að sérstök eða augljós slysahætta hafi verið í húsakynnunum. Brúnin sem hafi verið 1/2 til 1 sm hafi heldur ekki getað talist svo skörp eða óvenjuleg að sérstök hætta skapaðist.
Byggja stefndu á að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að um vanbúnað hafi verið að ræða sem stofnað geti til bótaábyrgðar en fyrir því beri hún sönnunarbyrði. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að búnaður fasteignarinnar hafi verið andstæður réttarreglum um byggingu og frágang húsa en réttarreglur geri ekki ríkari kröfur um búnað húsakynna starfsemi eins og stefnda Tryggingastofnunar ríkisins. Ekki sé því fram komið að stefndu hafi með ólögmætum hætti skapað hættu sem valdið hafi óhappi stefnanda. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á sök starfsmanna stefndu. Ekki hafi verið um að ræða sérstaka slysahættu sem starfsmenn stefnda hafi vitað um og látið undir höfuð leggjast að ráða úrbætur á. Mótmæla stefndu í þessu sambandi sem rangri og þýðingarlausri skoðun Vinnueftirlits ríkisins, enda ekki um vinnuslys að ræða.
Stefndu byggja á að fall stefnanda hafi verið óhappatilviljun sem ekki stofni til bótaábyrgðar stefndu. Eigin sök stefnanda sé meginorsök þess að hún féll. Stefnandi hefði átt að sjá brúnina þar sem greinilega mismunandi og mislit gólfefni mættust ef hún hefði horft fram fyrir sig. Stefnandi hafi því ekki sýnt lágmarksaðgæslu.
Þá mótmæla stefndu því sem ósönnuðu að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna óhappsins þann 16. apríl 1999 í húsakynnum stefndu.
Komist dómurinn á þeirri niðurstöðu að stefndu beri bótaábyrgð á meintu tjóni stefnanda byggja stefndu á að miða eigi bætur til stefnanda við mat örorkunefndar frá 4. júlí 2001.
Stefndu mótmæla örorkumati Júlíusar Valssonar, dags. 18. ágúst 2000, sem röngu og þýðingarlausu. Ekki sé unnt að ráða af örorkumatinu sérfræðilegt álit eða niðurstöðu um örorku eða miskastig sem byggja mætti á ákvörðun um bætur og teljist það því ekki fullgilt sönnunargagn til viðmiðunar um bætur samkvæmt skaðabótalögum.
Þá byggja stefndu á að í örorkumatið vanti rökstuðning um það hvort og að hve miklu leyti fjárhagslegri örorku sé til að dreifa sem afleiðingu af þeim slysum sem stefnandi hefur orðið fyrir, jafnt með tilliti til tekna hennar og starfsgetu.
Fyrir liggi að stefnandi lenti í alvarlegu umferðarslysi 19. maí 1999. Í mati læknisins segi að það hafi einnig leitt til varanlegs miska og örorku og er vísað til örorkumats sem til sé vegna þess slyss. Greinargerð um afleiðingar þess í matinu eða í stefnu skorti alfarið. Það að afleiðingar óhappsins frá 16. apríl 1999 með tilliti til aflahæfis skuli ekki hafa verið rannsakaðar með tilliti til slyssins frá 19. maí s.á. geri það að verkum að ekki sé unnt að byggja á matinu.
Þar sem örorka stefnanda vegna slyssins frá 19. maí 1999 hafi verið metin hærri en sem nemi þeirri örorku sem henni hafi verið metin vegna slyssins frá 16. apríl s.á. verði að telja líklegt að ætlað tjón stefnanda geti ekki verið vegna slyssins frá 16. apríl. Þá hafi stefnandi einnig lent í slysi í september 1997 og verið metin 75% öryrki frá 1. desember 1998. Því séu hverfandi líkur á því að stefnandi hafi í kjölfar óhappsins 16. apríl 1999 orðið fyrir öðru og meira tjóni sem geti verið sennileg afleiðing af því, þar sem hún hafi í reynd verið óvinnufær samkvæmt læknisvottorðum fyrir óhappið. Engin sönnun sé þannig fram komin um að óhappið þann 16. apríl 1999 hafi haft í för með sér líkamstjón.
Með vísan til framangreinds er því mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu tjóni, varanlegum miska eða örorku vegna óhappsins 16. apríl 1999.
Varðandi einstaka liði bótakröfunar byggja stefndu á eftirfarandi:
Samkvæmt gögnum málsins hafi stefnandi sem sé 75% öryrki frá 1. desember 1998 fengið bætur frá almannatryggingum og dagpeninga frá tryggingafélögum sem séu hærri en krafa stefnanda um tímabundna örorku. Ljóst sé því samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að engu tjóni sé fyrir að fara. Þá hafi stefnandi samkvæmt læknisvottorðum verið óvinnufær er óhappið varð. Tímabundnu tjóni samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga geti því ekki verið til að dreifa.
Þá mótmæla stefndu sérstaklega kröfum stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku sem órökstuddum og ósönnuðum. Stefnandi verði að sýna fram á af hverju hún telji fært að miða kröfu sína við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem sé undantekningaregla sem skýra beri þröngt og af hverju hún miði við tekjur á árinu 1998. Byggja stefndu á að 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi ekki við og á henni verði ekki byggt í málinu. Byggja stefndu á að leggja beri til grundvallar tekjur síðustu 12 mánuða fyrir slysdag, sbr. þágildandi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Til stuðnings varakröfu um stórkostlega lækkun umkrafðra bóta vísa stefndu til allra framangreindra mótmæla við bótakröfu stefnanda.
Stefndu byggja á að komi til þess að bætur verði ákvarðaðar á grundvelli 7. gr. skaðabótalaga, verði að leggja til grundvallar að stefnandi var við vinnu er óhappið varð 16. apríl 1999 við sjálfstæðan atvinnurekstur. Telja stefndu að eigi ákvörðun árslauna undir ákvæði 2. mgr. 7. gr. beri að beita ákvæðinu þannig að árslaun séu lýsandi fyrir vinnugetu og aflahæfi stefnanda á slysdegi. Engin gögn hafi komið fram um annað en að reiknað endurgjald við atvinnureksturinn kr. 250.000 sé vegna ársins alls. Ef ekki yrði á það fallist og við það miðað að launin hafi verið fyrir fyrstu þrjá og hálfan mánuð ársins yrði að meta árslaun stefnanda að álitum miðað við árslaun er vænta má að hún hefði haft með hliðsjón af reiknuðu endurgjaldi af sjálfstæðum rekstri er óhappið varð. Miðað við útreikninga stefnda yrði tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku 585.348 krónur.
Jafnframt byggja stefndu á því til stuðnings varakröfu um lækkun að skipta beri sök og að stefnandi verði að bera stærstan hluta tjóns síns sjálf vegna eigin sakar. Komi til bótaskyldu verði að meta fjárhæðir bóta á grundvelli sakarskiptingar og að álitum, enda eigi framsettar kröfur stefnanda ekki stoð í lögum nr. 50/1993 eða almennum reglum fébótaréttar svo sem að framan er rakið.
Til stuðnings varakröfu stefndu er upphafstíma dráttarvaxta einnig mótmælt með vísan til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Telja stefndu að miða verði við dómsuppsögu í fyrsta lagi en til vara mánuð frá þingfestingu máls.
IV.
Hinn 16. apríl 1999 kom stefnandi í þjónustumiðstöð stefnda Tryggingastofnunar ríkisins að Tryggvagötu 28, Reykjavík. Stefnandi fékk viðtal við þjónustufulltrúa sem staðsettur var í rými innan við afgreiðsluna. Þegar stefnandi var að ganga fram í afgreiðsluna eftir viðtalið kveðst hún hafa rekið tærnar í brún sem var á samskeytum korkflísa sem eru á innra rýminu og steinflísa á afgreiðslunni. Engin vitni voru að því þegar stefnandi datt. Stefndu hafa ekki véfengt að slysið hafi orðið með þeim hætti sem stefnandi hefur lýst. Samkvæmt því og þar sem ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en að frásögn hennar sé rétt verður hún lögð til grundvallar. Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins var brúnin á samskeytunum skörp og ca 10 mm. Í skýrslunni er brúnin auðsætt sögð skapa hættu á að hnotið sé um hana. Þá segir í skýrslunni að búa þurfi svo um samskeytin að komið verði í veg fyrir fallhættu fólks.
Við skýrslutökur við aðalmeðferð málsins upplýstist að strax eftir slysið var ráðist í að eyða brúninni á samskeytum gólefnanna með þeim hætti að gerður var aflíðandi halli með korkflísum að brún steinflísanna.
Dómarar kynntu sér aðstæður á slysstað en engin starfsemi fer þar nú fram. Húsnæðið er óbreytt en búið er að fjarlægja afgreiðsluborð og skrifborð sem áður skildu afgreiðslu frá rýminu innan við hana. Þar sem afgreiðslan var eru ljósar steinflísar en annars staðar brúnar korkflísar. Vegna litarmunar og ólíkrar gerðar gólfefnanna eru samskeyti þeirra augljós. Brún á samskeytum gólfefnanna stafar af því að steinflísarnar eru þykkari en korkflísarnar. Ekki er við aðra mælingu að styðjast á þykktarmuninum en mælingu Vinnueftirlitsins, en samkvæmt henni var brúnin á samskeytunum eins og áður er getið ca 10 mm eða 1 sm. Stefndu byggja hins vegar á að brúnin hafi verið 1/2 til 1 sm.
Ekki er um það að ræða að frágangur á samskeytum gólfefnanna hafi brotið í bága við lög eða reglugerðir. Þá liggur ekkert fyrir um að áður hafi orðið þar slys eða að mönnum hafi verið slysahætta ljós.
Það er mat dómsins að ekki hafi verið um vanbúnað að ræða sem ljós slysahætta hafi stafað af þó að óveruleg brún hafi verið á greinilegum samskeytum ólíkra gólfefna í gangvegi þar sem gengið var úr einu rými í annað. Telja verði að ef stefnandi sem áður hafði gengið sömu leið hefði sýnt eðlilega aðgæslu hefði hún getað varast hæðarmuninn eins og á stóð.
Aðstæður í þjónustumiðstöð stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, voru samkvæmt framangreindu ekki með þeim hætti að á stefndu verði lögð ábyrgð á því slysi, sem stefnandi varð fyrir og verður ekki rakið til annars en óhappatilviljunar og aðgæsluleysis stefnanda. Verða stefndu því sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi fékk gjafsókn með gjafsóknarleyfi, dagsettu 6. nóvember 2000.
Málskostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttarlögmanns, 370.000 krónur án virðisaukaskatts, og útlagður kostnaður, 793.630 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dóm þennan kveða upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari og meðdómendurnir Atli Þór Ólason bæklunarlæknir og Sveinbjörn Brandsson bæklunarskurðlæknir. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna anna dómsformanns.
Dómsorð:
Stefndu, íslenska ríkið og Tryggingastofnun ríkisins eru sýkn af kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda 1.163.630 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 370.000 krónur án virðisaukaskatts.