Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/2010
Lykilorð
- Skaðabætur
- Sjálfskuldarábyrgð
- Tryggingarbréf
- Gjaldþrotaskipti
- Veðréttindi
- Dráttarvextir
|
Fimmtudaginn 3. mars 2011. |
|
|
Nr. 438/2010. |
Arion banki hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) gegn Stefáni Braga Bjarnasyni og Gunnari Viðari Bjarnasyni (Erlendur Gíslason hrl.) |
Skaðabætur. Sjálfskuldarábyrgð. Tryggingabréf. Gjaldþrotaskipti. Veðréttindi. Dráttarvextir.
S og G tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld V hf. við forvera bankans A hf. á árinu 2003. Í ágústmánuði 2004 keypti félag í eigu S og G, T ehf., vörulager af V hf. sem veðsettur var forvera A hf. Var kaupverðið greitt með tékka. Tékka þennan framseldi G 30. ágúst 2004 fyrir hönd V hf. útibúi A hf. gegn afhendingu frumrits yfirlýsingar S og G um framangreinda sjálfskuldarábyrgð. A hf. krafði S og G um skaðabætur vegna meints fjártjóns af þeirra völdum. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að S og G hefðu farið að með sviksamlegum hætti þegar þeir notuðu andvirði vörulagers, sem A hf. átti veðrétt í, til að greiða yfirdrátt á tékkareikningi V hf. og fengið fellda niður sjálfskuldarábyrgð sína á reikningnum, án þess að gera starfsmönnum A hf. fyrirfram viðvart um ráðstöfunina og afla samþykkis þeirra við henni. Í reynd hefðu S og G notað eign sem A hf. átti veðrétt í til að freista þess að losa sjálfa sig undan sjálfskuldarábyrgð á tilteknum hluta skulda V hf., á tímamarki þegar ljóst var orðið að fyrirtækið gæti alls ekki staðið við skuldbindingar sínar við A hf. Var krafa A hf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2010. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 29.986.083 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. september 2004 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að vextir af kröfunni verði dæmdir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. september 2004 til 22. júlí 2006, en frá þeim degi verði dæmdir dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í málinu krefst áfrýjandi skaðabóta óskipt úr hendi stefndu vegna fjártjóns sem hann telur þá hafa valdið sér með ólögmætum og saknæmum hætti er þeir fengu 30. ágúst 2004 afhent frumrit af yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð, sem þeir höfðu undirritað 26. maí 2003, þar sem þeir höfðu tekist á hendur óskipta sjálfskuldarábyrgð á skuld Véla og þjónustu hf. við Búnaðarbanka Íslands hf. fyrir allt að 38.000.000 krónum á tékkareikningi nr. 3746 við Vesturbæjarútibú bankans. Liggur fyrir að áfrýjandinn Gunnar Viðar framseldi fyrir hönd Véla og þjónustu hf. þennan dag, 30. ágúst 2004, útibúinu tékka að fjárhæð 30.440.000 krónur, útgefinn af Tá ehf. 26. sama mánaðar. Nam skuldin á tékkareikningnum, sem áfrýjendur kváðust greiða með tékkanum, kröfufjárhæð áfrýjanda í málinu, 29.986.083 krónum. Byggir áfrýjandi á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni sem svari til þeirrar kröfu sem hann hafi á þessum tíma átt á hendur stefndu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar þeirra. Skuldin á tékkareikningnum hafi verið talin greidd upp með nefndum tékka, en háttsemi stefndu í tengslum við greiðsluna hafi verið ólögmæt og þeim saknæm. Nemi krafa áfrýjanda því þeirri fjárhæð sem skuldin á tékkareikningnum stóð í þegar stefndu fengu frumrit ábyrgðaryfirlýsingarinnar afhent.
Tékkinn, sem notaður var til framangreindrar greiðslu 30. ágúst 2004, var þannig til kominn að fyrirtækið Tá ehf., félag í eigu stefndu, hafði greitt með honum vörulager sem fyrirtækið hafði keypt af Vörum og þjónustu hf. samkvæmt reikningi dagsettum 26. ágúst 2004. Er óumdeilt að Búnaðarbanki Íslands hf. átti veðrétt í vörum þessum samkvæmt tryggingarbréfi 31. desember 1998 fyrir „öllum skuldum og fjárskuldbindingum“ að fjárhæð allt að 404.000.000 krónur. Bankinn hafði látið birta greiðsluáskorun á hendur Vélum og þjónustu hf. 27. ágúst 2004, þar sem kröfur hans voru gjaldfelldar. Í bréfinu var vakin athygli á 2. mgr. 27. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og fyrirtækinu tilkynnt að því væri „óheimilt án samþykkis Kaupþings Búnaðarbanka hf. að skipta út, framselja, selja eða á annan hátt ráðstafa að hluta til eða að öllu leyti, hvort sem slíkt er gert með skilyrðum eða án skilyrða, hinum veðsettu vörubirgðum.“ Til þessa lagaákvæðis er vísað í 2. mgr. 34. gr. sömu laga, þar sem fjallað er um réttarvernd veðréttar í vörubirgðum.
Í málinu liggur fyrir að Vélar og þjónusta hf., sem stefndu voru í fyrirsvari fyrir, hafði átt í verulegum fjárhagserfiðleikum allt frá árinu 2001. Kom meðal annars fram í skýrslu stefnda Stefáns Braga fyrir dómi að félagið hafi verið komið með 300.000.000 króna neikvætt eigið fé á árinu 2004. Höfðu stefndu fyrir þess hönd átt í viðræðum við viðskiptabanka sinn, Búnaðarbanka Íslands hf., um ráðstafanir til að mæta þessum vanda án þess að árangur bæri. Liggur fyrir í málinu að stefndu fóru með fyrrgreindan tékka í útibú bankans til að greiða upp skuldina á tékkareikningnum án þess að hafa nokkurt samráð um það við þá starfsmenn hans sem annast höfðu samskiptin við fyrirtækið vegna fjárhagsvanda þess. Liggur ekki annað fyrir í málinu en þessum starfsmönnum hafi verið ókunnugt um aðgerð stefndu á þeim tíma sem hún átti sér stað. Þá kom fram í skýrslu þess starfsmanns bankans í útibúinu, sem tók við tékkanum og afhenti frumrit bréfsins um sjálfskuldarábyrgðina, að henni hefði verið ókunnugt um að tékkinn hefði verið til kominn við sölu á vörulager Véla og þjónustu hf. sem veðsettur var bankanum. Sagði hún um þetta: „Það var verið að borga ábyrgðina og ég afhenti skjölin.“
II
Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður fallist á með áfrýjanda að stefndu hafi farið að með sviksamlegum hætti, þegar þeir notuðu andvirði vörulagers, sem bankinn átti veðrétt í, til að greiða yfirdráttinn á tékkareikningnum og fá fellda niður sjálfskuldarábyrgð sína á reikningnum, án þess að gera starfsmönnum bankans fyrirfram viðvart um þessa ráðstöfun og afla samþykkis þeirra við henni. Í reynd notuðu stefndu eign, sem bankinn átti veðrétt í, til að freista þess að losa sjálfa sig undan sjálfskuldarábyrgð á tilteknum hluta skulda fyrirtækis síns, á tímamarki þegar ljóst var orðið að fyrirtækið gæti alls ekki staðið við skuldbindingar sínar við bankann. Breytir engu um þetta hvort Vélar og þjónusta hf. teljist hafa selt Tá ehf. vörulagerinn fyrir eða eftir að greiðsluáskorun áfrýjanda var birt fyrirtækinu 27. ágúst 2004, en í dómi Hæstaréttar 8. maí 2009 í máli nr. 163/2009 var raunar komist að þeirri niðurstöðu að þessi viðskipti teldust hafa átt sér stað eftir að greiðsluáskorunin var birt. Það sem hér var rakið leiðir til þess að tekin verður til greina krafa áfrýjanda um að gera hann eins settan gagnvart stefndu eins og verið hefði ef sjálfskuldarábyrgð þeirra hefði ekki verið felld niður. Þá hefði staðið áfram skuld á tékkareikningnum sem nemur sömu fjárhæð og höfuðstóll kröfu áfrýjanda í þessu máli og stefndu hefðu borið sjálfskuldarábyrgð á greiðslu hennar. Áfrýjandi hefur sýnt fram á með fullnægjandi hætti að full greiðsla úr hendi stefndu samkvæmt ábyrgð þeirra hefði ekki dugað til að gera full skil á kröfu Búnaðarbanka Íslands hf. og síðar áfrýjanda á hendur þrotabúinu. Verður krafa hans því tekin til greina á þeim grundvelli sem lagður er fyrir henni.
Stefndu hafa sérstaklega mótmælt upphafstíma dráttarvaxtakröfu áfrýjanda. Það var fyrst með málssókn þessari að áfrýjandi gerði skýra kröfu á hendur stefndu á þeim grundvelli sem fallist er á með þessum dómi. Stefna var birt 6. mars 2009. Stefndu krefjast þess að upphafsdagur dráttarvaxta verði þingfestingardagur málsins 12. mars 2009. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 verður fallist á þá kröfu. Frá 30. september 2004 og fram til upphafsdags dráttarvaxta verða dæmdir vextir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndu, Stefán Bragi Bjarnason og Gunnar Viðar Bjarnason, greiði óskipt áfrýjanda, Arion banka hf., 29.986.083 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. september 2004 til 12. mars 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2010.
I
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 17. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Nýja Kaupþingi banka hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, nú Arion banki hf., með stefnu birtri 6. marz 2009, á hendur Stefáni Braga Bjarnasyni, kt. 131064-7999, Bæjargili 96, Garðabæ, og Gunnari Viðari Bjarnasyni, kt. 040361-6349, Brekkugerði 16, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld, að fjárhæð kr. 30.440.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 08.10. 2004 til greiðsludags. Til vara er þess krafizt, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 29.986.083, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. s.l. frá 30.09. 2004 til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafizt, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 30.440.000, með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 08.10. 2004 til 22. 06. 2006, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautaþrautavara er þess krafizt, að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 29.986.083, með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 30.09. 2004 til 22.07. 2006, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi stefndu að teknu tilliti til flutnings um frávísunarkröfu, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað, auk álags á málskostnað, að skaðlausu að mati réttarins. Til vara gera stefndu þær kröfur, að þeim verði einungis gert að greiða stefnanda kr. 29.986.083 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 12. marz 2009 til greiðsludags og málskostnaður verði felldur niður.
II
Málavextir
Stefndu voru fyrirsvarsmenn félagsins Véla og þjónustu hf. Stefndi Gunnar var framkvæmdastjóri félagsins, en stefndi Stefán stjórnarformaður og fjármálastjóri. Þann 31. desember 1998 gáfu Vélar og þjónusta hf. út tryggingabréf til Búnaðarbanka Íslands hf., þar sem honum voru m.a. veðsettar allar vörubirgðir félagsins. Bréfið var að höfuðstól kr. 404.000.000 og skyldi bundið vísitölu neyzluverðs með grunnvísitölu 183,6. Búnaðarbanki Íslands hf. sameinaðist Kaupþingi banka hf. árið 2003. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 tók stefnandi við eignum og skuldum Kaupþings banka hf., þ.m.t. kröfu þessari.
Þann 26. maí 2003 gengust stefndu undir sjálfsskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar Véla og þjónustu hf. á reikningi nr. 306-26-3746 hjá Búnaðarbankanum fyrir greiðslu á fjárhæð allt að kr. 38.000.000.
Þann 27. ágúst 2004, hófust innheimtuaðgerðir stefnanda á hendur Vélum og þjónustu hf., kt. 591275-0389 (nú þrb. V&Þ hf.) með því að félaginu var birt greiðsluáskorun, þar sem skorað var á félagið að greiða gjaldfallnar kröfur stefnanda.
Samkvæmt reikningi, dags. 26. ágúst 2004, seldu stefndu Tá ehf., nú Vélaborg ehf., sem var félag, m.a. í eigu stefnda Gunnars Viðars, hluta vörulagers Véla og þjónustu hf. Söluverðið var kr. 25.049.799 auk virðisaukaskatts, eða samtals kr. 31.186.999, og var það greitt með tékka, að fjárhæð kr. 30.440.000, en eftirstöðvarnar með skuldajöfnuði milli félaganna. Hinn 30. ágúst 2004 greiddu Vélar og þjónusta hf. kr. 30.440.000 inn á framangreindan yfirdráttarreikning nr. 306-26-3746 hjá Búnaðarbankanum, og við það var yfirdráttarskuld á reikningnum, að fjárhæð kr. 29.986.083, greidd upp. Í kjölfarið fengu stefndu afhent frumrit ábyrgðarskuldbindingar þeirra.
Er ágreiningur með málsaðilum um, hvort salan hafi farið fram á þeim degi, sem dagsetning reikningsins kveður á um, eða síðar, og hefur nú verið skorið úr því með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 163/2009, að salan hafi farið fram hinn 30. ágúst 2004, þ.e. sama dag og tékkinn var innleystur í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og fjárhæðin lögð inn á tékkareikning Véla og þjónustu hf. við bankann.
Bú Véla og þjónustu hf. var úrskurðað gjaldþrota hinn 7. september 2004, að beiðni félagsins sjálfs.
Með bréfi, dagsettu 22. september 2004, rifti skiptastjóri í þrotabúi Véla og þjónustu hf. ofangreindri greiðslu til stefnanda, með vísan til 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Byggði skiptastjóri riftunina á því, að hann taldi, að greiðslan hefði skert greiðslugetu félagsins verulega, og með henni hafi kröfuhöfum félagsins verið mismunað til hagsbóta fyrir stefnanda. Í sama bréfi var þess krafizt, að stefnandi endurgreiddi þrotabúinu ofangreinda fjárhæð, með vísan til 142. og 143 gr. sömu laga.
Hinn 8. október 2004 endurgreiddi stefnandi þrotabúi Véla og þjónustu hf. kr. 30.440.000 vegna ofangreindrar riftunar, með fyrirvara um endurgreiðsluna þess efnis, að greiðslan væri sérgreind eign bankans, og hann reiknaði með því, að hún yrði endurgreidd bankanum, áður en kæmi að úthlutun úr búinu. Við endurgreiðsluna fór fyrrgreindur tékkareikningur í mínus.
Hinn 23. febrúar 2007 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu, þar sem hann krafðist greiðslu samkvæmt sjálfskuldarábyrgðinni, þar sem krafa samkvæmt henni hefði raknað við, þegar þrotabúið rifti greiðslunni, í þeim mæli sem hann hefði endurgreitt búinu á grundvelli riftunarinnar. Með dómi Hæstaréttar nr. 420/2007 frá 18. september 2008 vísaði Hæstiréttur kröfum stefnanda frá dómi með þeim rökum, að þar sem hvorki hefði verið leyst úr ágreiningi hans við þrotabúið um veðrétt hans í fjárhæðinni, sem greidd var, né lögmæti riftunarinnar, væri ósamræmi í málatilbúnaði stefnanda, „þar sem hann beinlínis byggir kröfu sína á því að greiðslunni hafi verið rift og hann þar með farið endanlega á mis við hana, en heldur því gagnstæða fram gagnvart þrotabúinu“.
Þann 17. nóvember 2004 lýsti stefnandi kröfu vegna tékkareiknings nr. 306-26-3746 í þrotabú Véla og þjónustu hf. Á skiptafundi, sem haldinn var þann 5. september 2007, var krafa stefnanda í þrotabúið samþykkt, og var því jafnframt lýst yfir, að þar sem ekki væri lengur ágreiningur um fjárhæð lýstra krafna, væri kröfulýsingaskrá endanlega frágengin.
Með bréfi, dagsettu 24. nóvember 2008 (ártalið 2007 í bréfinu mun vera ranglega tilgreint), vísaði skiptastjóri í þrotabúi Véla og þjónustu hf. ágreiningi um, hvort stefnandi eigi veðrétt í hluta af peningaeign búsins, þ.m.t. þeim fjármunum, sem ráðstafað var til þrotabúsins vegna ofangreindrar riftunar, eða hvort hinni umdeildu peningaeign ætti að ráðstafa upp í almennar kröfur, til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar. Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 18. marz 2009, hafnaði dómurinn kröfum stefnanda. Stefnandi skaut málinu til Hæstaréttar, sem kvað upp dóm í málinu 8. maí 2009 í máli nr. 163/2009. Hljóðar dómsorðið svo:
Viðurkennt er að sóknaraðili, Nýi Kaupþing banki hf., njóti eftir ákvæðum 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. réttar til fullnustu af eignum þrotabús V & Þ hf., sem raktar verða til greiðslna til þess á 30.440.000 krónum 8. október 2004 og 51.758.922 krónum 27. desember 2007.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á almennum reglum kröfuréttar og meginreglum samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum númer 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Með því að stefndu hafi skrifað undir ofangreinda sjálfsskuldarábyrgðaryfirlýsingu, hafi þeir tekizt á hendur beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuld á tékkareikningi nr. 0306-26-3746. Sjálfskuldarábyrgð gjaldfalli um leið og skuldin, sem henni sé ætlað að tryggja. Svo sem ofangreind málavaxtalýsing beri með sér, hafi skuldin á reikningnum verið greidd upp þann 30. ágúst 2004. Sökum þess að nefnd greiðsla, að fjárhæð kr. 30.440.000 inn á fyrrgreindan reikning, hafi verið ótilhlýðileg, ógild, riftanleg og ólögmæt hafi skiptastjóri rift greiðslunni til stefnanda og krafizt endurgreiðslu úr hendi stefnanda.
Vegna ofangreindrar riftunar hafi stefnandi endurgreitt þrotabúinu, þann 8. október 2004, nefnda fjárhæð og hafi nefndur reikningur því verið neikvæður sem fjárhæðinni nam, sbr. dómskjal nr. 4, 19 og 20. Ábyrgðin sé enn í fullu gildi og því beri stefndu ábyrgð á skuld á reikningnum, sbr. nefnd sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsing.
Stefnandi byggi á því, að ábyrgðin standi óhögguð vegna nefndrar riftunar og vegna þess að óheimilt hafi verið að greiða skuldina frá upphafi. Það sé meginregla í íslenzkum rétti, að við riftun falli niður skyldur aðila til að efna samning eftir aðalefni sínu. Þannig byggi stefnandi á því, að réttaráhrif riftunar séu þau, að aðilar eigi að vera eins settir og ef greiðsla hefði ekki átt sér stað. Þar sem skiptastjóri hafi rift greiðslu á ofangreindri fjárhæð til bankans, hafi hún ekki komið bankanum að gagni og því rakni fyrra réttarsamband stefnanda og stefndu við og sé því sjálfskuldarábyrgð stefndu enn í fullu gildi. Af þessum sökum séu stefndu ábyrgir fyrir skuld á tékkareikningi nr. 306-26-3746, eins og hún hafi orðið eftir nefnda riftun og endurgreiðslu.
Verði ekki fallizt á sjónarmið stefnanda, um að fyrrgreind sjálfskuldarábyrgð rakni við riftun þrotabúsins á hendur honum, byggi stefnandi varakröfu sína á almennum reglum skaðabótaréttar og þeim ríku kröfum, sem gera verði til stefndu sem forsvarsmanna hlutafélags. Stefnandi byggi þannig á því, að stefndu hafi bakað sér skaðabótaskyldu með því að þeir hafi ívilnað sjálfum sér með greiðslu á skuld á tékkareikningi Véla og þjónustu hf. sem hafi numið kr. 29.986.083 þann 30. ágúst 2004, en stefndu hafi verið í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldarinnar.
Forsvarsmönnum Véla og þjónustu hafi verið eða mátt vera ljóst, þegar ofangreind greiðsla fór fram þann 30. ágúst 2004, að félagið hafi ekki getað staðið í skilum við lánadrottna félagins á gjalddaga, og engar horfur hafi verið á, að greiðsluörðugleikar félagsins yrðu að baki innan skamms tíma. Í stað þess að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta, áður en til greiðslunnar kom, sbr. 1. mgr. 105. gr. laga um hlutafélög og 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., hafi stefndu selt félagi í sinni eigu verðmætustu vörubirgðir Véla og þjónustu hf. á kostnaðarverði og ráðstafað, sem stjórnendur Véla og þjónustu hf., andvirði sölunnar til greiðslu á yfirdráttarskuld, sem þeir hafi verið í persónulegri ábyrgð fyrir. Stefndu hafi því, eins og hag félagsins var komið, stofnað hagsmunum stefnanda í hættu, sjálfum sér til hagsbóta, með saknæmum og ólögmætum hætti.
Við mat á saknæmi og ólögmæti háttsemi stefndu byggi stefnandi á 2. mgr. 34. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Samkvæmt þeirri grein segi, að um veðrétt í vörubirgðum gildi ákvæði 1.-4. mgr. 27. gr. s.l. Sé viðmiðunin samkvæmt því sú, að veðsali hafi heimild til þess að selja vörur, sem heyri til veðsettum vörubirgðum, í samræmi við það, sem tíðkanlegt sé í viðkomandi atvinnurekstri eða skerði ekki að mun veðtryggingu veðhafa. Vörusala, svo skömmu fyrir gjaldþrot félagsins, þar sem allar söluhæstu vörur félagsins séu seldar á kostnaðarverði, án allrar framlegðar, til samkeppnisaðila í eigu stefndu, geti ekki talizt í samræmi við það, sem tíðkanlegt hafi verið í atvinnurekstri V og Þ hf. Stefnandi byggi þannig á því, að fyrrgreint framsal á vörubirgðum V og Þ hf. hafi verið umfram það, sem tíðkanlegt hafi verið í atvinnurekstri V og Þ hf. og því verið óheimilt. Umrætt framsal hafi verið til þess fallið að skerða veðtryggingu stefnanda og í andstöðu við lög um samningsveð.
Stefnandi byggi á því, telji dómurinn sjálfskuldarábyrgð stefndu niður fallna, að hin ólögmæta og saknæma háttsemi stefndu sé orsök þess, að stefnandi hafi farið á mis við greiðslu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðarinnar. Því sé ljóst, að tjón stefnanda af þeim sökum sé bein og sennileg afleiðing af háttsemi stefndu. Stefndu hafi, í störfum sínum sem formaður stjórnar og framkvæmdastjóri Véla og þjónustu hf., forræði á fjármunum félagsins, og hafi þeir verið í aðstöðu til að ráðstafa andvirði vörusölunnar með þeim hætti, að þeir sjálfir hafi losnað undan efndum sjálfskuldarábyrgðarinnar vegna skuldar á fyrrgreindum tékkareikningi. Þannig hafi stefnandi farið á mis við greiðslu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar stefndu, og stefnandi hafi því orðið fyrir tjóni, sem hafi numið fjárhæð skuldar á fyrrgreindum tékkareikningi á þeim degi, sem greiðslan átti sér stað. Því hafi stefndu valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni með háttsemi sinni. Af framangreindu sé því ljóst, að beint orsakasamband sé á milli háttsemi stefndu og tjóns stefnanda.
Stefnandi byggi á því, svo sem atvik málsins beri með sér, að stefndu hafi ekki verið í góðri trú um lögmæti ofangreindrar háttsemi, þegar þeir inntu ofangreinda greiðslu af hendi. Sökum þess að greiðslan hafi verið talin ótilhlýðileg, ógild, riftanleg og ólögmæt, hafi skiptastjóri rift greiðslunni til stefnanda og krafizt endurgreiðslu úr hendi hans. Stefndu hafi borið persónulega ábyrgð á skuldinni, en greiðsla annarra skulda félagsins hefði verið öðrum en þeim sjálfum til hagsbóta. Ekkert sé fram komið, sem bendi til þess að skýra megi háttsemi stefndu á annan hátt en þann, að þeir hafi, með greiðslu á skuldinni, viljað ívilna sjálfum sér með ólögmætum og saknæmum hætti, á kostnað stefnanda, svo þeir mættu losna úr sinni persónulegu ábyrgð. Af þeim sökum byggi stefnandi á því, að ljóst megi vera, að stefndu hafi, með greiðslu á skuldinni, ætlað sér að losna undan sjálfskuldarábyrgð sinni. Því sé hin ólögmæta háttsemi stefndu að sama skapi saknæm.
Stefnandi byggi á því, að af öllu ofangreindu megi ráða, að stefndu séu skaðabótaskyldir vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi sinnar og að fjárhagslegt tjón stefnanda megi rekja til þeirrar háttsemi.
Stefnufjárhæð málsins í aðalkröfu og þrautavarakröfu, kr. 30.440.000, sé miðuð við stöðu á tékkareikningi Véla og þjónustu hf. nr. 306-26-3746 hinn 8. október 2004, eftir að stefnandi hafði endurgreitt þrotabúinu, samkvæmt kröfu skiptastjóra, fjárhæð þá, sem stefndu höfðu greitt inn á nefndan reikning þann 30. ágúst 2004, sbr. dómskjal nr. 4. Fjárhæð varakröfu og þrautaþrautavarakröfu, kr. 29.986.083, sé miðuð við neikvæða stöðu á tékkareikningi nr. 0306-26-3746 fyrir greiðslu þann 30. ágúst 2004 vegna hinnar umdeildu vörusölu, sem sé sú fjárhæð, sem stefnandi hefði getað krafið stefndu um undir sjálfskuldarábyrgðinni, hefði hin umdeilda sala ekki átt sér stað.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafstími dráttarvaxta samkvæmt aðalkröfu, 8. október 2004, sé miðaður við daginn, sem stefnandi hafi endurgreitt þrotabúi V og Þ hf. kr. 30.440.000. Upphafstími dráttarvaxta samkvæmt varakröfu, 30. september 2004, sé miðaður við þann dag, þegar mánuður var liðinn frá því að hin umdeilda greiðsla inn á reikning nr. 306-26-3746 átti sér stað. Vegna varakröfu vísi stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. s.l.
Munur á aðalkröfu og þrautavarakröfu annars vegar og varakröfu og þrautaþrautavarakröfu hins vegar byggi eingöngu á mismunandi upphafstíma dráttarvaxta. Í þrautavarakröfu og þrautaþrautavarakröfu sé gerð krafa um almenna vexti fram að upphafsdegi dráttarvaxta. Að öðru leyti séu sjónarmið vegna þrautavarakröfu og þrautaþrautavarakröfu þau sömu og í aðal- og varakröfu. Í þrautavarakröfu sé miðað við upphafstíma dráttarvaxta þann 22. júní 2006, en það sé sá dagur, sem mál vegna kröfu þessarar var höfðað í fyrsta sinn. Í þrautaþrautavarakröfu sé miðað við upphafstíma dráttarvaxta þann 22. júlí 2006, en það sé mánuði frá þeim degi, sem mál vegna kröfu þessarar var höfðað í fyrsta sinn. Krafa um dráttarvexti í þrauta- og þrautaþrautavarakröfu sé studd við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu
Þrautavarakröfu sína um vexti, frá 08.10.2004 til 22.06. 2006, styðji stefnandi við 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þrautaþrautavarakröfu sína um vexti frá 08.10.2004 til 22.07. 2006 styðji stefnandi við 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.
Varðandi varnarþing vísist til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 32. gr. s.l.
Málsástæður stefnda
Krafa um sýknu af aðalkröfu stefnanda:
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því, að ábyrgðarskuldbinding stefndu hafi raknað við, við riftun skiptastjóra á greiðslunni. Kröfur stefndu um sýknu af öllum kröfum stefnanda byggi hins vegar á því, að þegar greiðsla hafi verið innt af hendi inn á reikning 306-26-3746 hjá stefnanda, hafi ábyrgðarskuldbinding þeirra fallið niður, enda hafi aðalskuldari (þ.e. V&Þ) þá verið búinn að efna loforð sitt um greiðslu á yfirdrætti til stefnanda, og stefndu hafi fengið afhent frumrit ábyrgðarskuldbindingarinnar. Um það sé ekki deilt í málinu, að ábyrgðarskuldbinding stefndu hafi fallið niður, heldur einungis, hvort ábyrgðarskuldbinding þeirra hafi raknað við, við riftun skiptastjóra á greiðslunni. Stefndu hafni því, að svo hafi verið.
Það sé meginregla í íslenzkum rétti, að til ábyrgðarskuldbindingar stofnist aðeins fyrir loforð ábyrgðarmanns; ábyrgðarmaður verði að sýna vilja sinn glögglega í verki til þess að til skuldbindingar hans stofnist. Í þessu máli liggi hins vegar fyrir, að ábyrgðarloforð stefndu til stefnanda hafi fallið niður, þegar greiðsla var innt af hendi og frumrit ábyrgðarskuldbindingarinnar þar af leiðandi afhent stefndu. Hafi þar verið um fullnaðar- og lokauppgjör á ábyrgðarskuldbindingu stefndu að ræða. Stefndu hafi aldrei eftir það lýst þeim vilja sínum, eða gert nokkuð til að gefa stefnanda tilefni til þess að ætla, að þeir hafi vilja til að takast aftur á hendur ábyrgðarskuldbindingu gagnvart stefnanda. Því telji stefndu, að ábyrgðarskuldbinding þeirra sé ekki fyrir hendi. Slík skýring samræmist ekki þeim meginreglum, sem gildi um stofnun og lok ábyrgðarskuldbindinga.
Stefnandi hafi gefið stefndu ástæðu til að ætla, að þeir væru lausir undan ábyrgðarskuldbindingu sinni, án tillits til fjárhagsstöðu V&Þ. Ábyrgðarskuldbinding stefndu geti ekki hafa raknað við, þar sem þeir hafi mátt gera ráð fyrir því, að skuldbinding þeirra gagnvart stefnanda væri endanlega fallin niður við greiðslu og afhendingu á ábyrgðinni.
Þannig liggi fyrir, að við greiðslu inn á reikning 306-26-3746 hafi stefndu fengið frumrit ábyrgðarinnar afhent; þeir hafi í raun fengið staðfestingu á því, að þeir væru lausir úr ábyrgð. Stefndu hafi, á þeim tímapunkti, ekki mátt gera ráð fyrir því, að til síðar tilkominnar riftunar á greiðslu þessari kæmi, þannig að hugsanlega gæti skuldbinding þeirra raknað við.
Hér verði að hafa í huga, að stefnandi hafi vitað, eða mátti vera ljóst, að greiðslunni yrði rift, eða að það væri að minnsta kosti líklegt, að gerð yrði krafa um riftun. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um fjárhagslega stöðu V&Þ í lok ágúst 2004, enda helzti lánadrottinn félagsins og nýbúinn að gjaldfella fjárhagslegar skuldbindingar þess. Stefnandi hafi vitað eða mátti vita, að við það hafi grunnur áframhaldandi rekstrar félagsins brostið. Stefnandi hafi því mátt vita, að það væri varhugavert að taka við greiðslu inn á yfirdráttarreikning félagsins, hvað þá að láta af hendi frumrit ábyrgðarskuldbindingar stefndu til þeirra, án nokkurra athugasemda eða fyrirvara, og gefa þeim þannig glögglega til kynna, að þeir væru lausir úr ábyrgð. Stefndu og V&Þ hafi aftur á móti verið í góðri trú, enda hafi þeir talið, að stefnandi væri með allsherjarveð í öllum vörubirgðum félagsins. Hafi stefndu því ekki getað gert annað en að greiða andvirði þess lagers, sem keyptur hafi verið, inn á reikning, sem stefnandi hafi vísað til, enda hann búinn að skora skriflega á stefndu að gera slíkt.
Alþekkt sé, að ríkar kröfur séu gerðar til aðgæzluskyldu og fagmennsku í vinnubrögðum lánastofnana. Þessar kröfur leiði meðal annars til þess, að allan vafa um það, hvort ábyrgðarskuldbinding sé fyrir hendi, hafi stofnazt, eða raknað við, beri að túlka ábyrgðarmönnum í hag, enda lánastofnanir í yfirburðastöðu gagnvart ábyrgðarmönnum almennt.
Hér verði einnig að hafa í huga, að greiðslan hafi verið innt af hendi í samræmi við skýr fyrirmæli stefnda um, að allar greiðslur vegna sölu vara ættu að fara inn á þennan tiltekna reikning. Í greiðsluáskorun stefnanda, dagsettri 27. ágúst 2004, komi fram, að greiðslur megi leggja inn á reikning 301-26-9131. Stefndu hafi hins vegar fengið munnleg fyrirmæli þann 30. ágúst 2004 um, að greiða ætti inn á reikning 306-26-3746, og hafi þau fyrirmæli verið staðfest skriflega strax daginn eftir, sbr. dskj. nr. 29 og 30. Það hafi því verið í samræmi við fyrirmæli stefnanda sjálfs, sem greiðslur hafi verið lagðar inn á umræddan yfirdráttarreikning. Vegna þessa telji stefndu, að engin krafa sé til staðar á hendur stefndu á grundvelli kröfuábyrgðar.
Ekki hafi verið sýnt fram á, að greiðsla sú, sem lögð hafi verið inn á reikning 306-26-3746, hafi í raun verið riftanleg. Slíkt sé forsenda þess, að hægt sé að líta svo á, að ábyrgðarskuldbinding stefndu hafi raknað við.
Fyrir liggi, að stefnandi telji sig eiga veðrétt í umræddri greiðslu, þannig að við úthlutun úr þrotabúi V&Þ eigi kr. 30.440.000 að greiðast upp í veðkröfur stefnanda, sbr. kröfugerð stefnanda í máli nr. X-21/2008, enda hafi allur lager V&Þ verið veðsettur stefnanda með tryggingarbréfi í vörubirgðum. Ljóst sé hins vegar, að eigi stefnandi veðrétt í umræddri greiðslu þýði það, að greiðslan hafi ekki verið riftanleg. Ástæðan sé sú, að það sé forsenda riftunar, að greiðsla hafi orðið þrotabúi til tjóns. Hefði stefnandi átt veðrétt í umræddri greiðslu, hefði greiðslunni alltaf verið úthlutað upp í veðkröfur stefnanda í þrotabú V&Þ hf., en ekki komið til úthlutunar upp í almennar kröfur. Þrotabúið hefði því aldrei orðið fyrir tjóni við það, að greiðslan væri innt beint af hendi inn á reikning stefnanda, en ekki til þrotabúsins. Ljóst sé því, að greiðslan hafi ekki verið riftanleg, þótt stefnandi hefði átt veðrétt í greiðslunni, eins og hann haldi fram.
Af fyrirliggjandi gögnum liggi fyrir, að stefnandi sjálfur sé á sömu skoðun. Með bréfi stefnanda til skiptastjóra V&Þ, dags. 15. janúar 2007, sbr. dskj. nr. 32, haldi stefnandi því einmitt fram, að ekki hafi verið um riftanlega ráðstöfun að ræða, þar sem meginskilyrði riftunar, um að riftanleg ráðstöfun hafi orðið þrotabúinu til tjóns, hafi brostið. Vísi hann máli sínu til stuðnings til álitsgerðar Viðars Más Matthíassonar, sem liggi fyrir í máli þessu á dskj. nr. 31. Sé hér um bindandi yfirlýsingu að ræða, sem í felist bindandi ráðstöfun á sakarefni þessa máls.
Þannig verði því ekki betur séð en að báðir aðilar í þessu máli efist um réttmæti riftunar skiptastjóra. Því sé ómögulegt, að hægt sé að líta svo á, að ábyrgðarskuldbinding stefndu gagnvart stefnanda hafi raknað við, enda heimil og lögmæt riftun forsenda þess.
Það ætti að vera óumdeilt, að stefnandi haldi því fram, að hann sé nú þegar búinn að fá kröfuna greidda og að hún sé sérgreind eign stefnanda í vörzlum þrotabúsins.
Stefndu eigi erfitt með að sjá rökin og sanngirnina að baki því, að þeir séu krafðir um greiðslu, sem stefndi haldi sjálfur fram, að hann hafi fengið og eigi sérgreinda á reikningi hjá þrotabúinu. Því sé mótmælt, að stefnandi geti fengið sömu skuldina greidda í tvígang. Væri þar um óréttmæta auðgun stefnanda að ræða.
Verði talið, þrátt fyrir allt framangreint, að ábyrgðarskuldbinding stefndu hafi raknað við, skuli ábyrgðarskuldbindingu þeirra vikið til hliðar í heild með stoð í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Ljóst sé, að aðstæður í íslenzku efnahagslífi séu nú um stundir allt aðrar og verri en þær hafi verið, þegar stefndu gengust undir ábyrgðarskuldbindingu sína í maí 2003, eða fyrir um 6 árum síðan. Það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að krefja stefndu um greiðslu á háum ábyrgðarskuldbindingum, enda ekki á færi einstaklinga að standa undir öðrum eins skuldbindingum, einkum eins og efnahagsástandið sé nú um stundir. Þá sé það jafnframt ósanngjarnt, að stefndu sé haldið við slíkar skuldbindingar um jafn langan tíma og raun beri vitni.
Loks sé á því byggt, að fjögurra ára fyrningartími ábyrgðarskuldbindingar stefndu sé liðinn, hvort heldur sé miðað við upphaflegan stofnunartíma skuldbindingarinnar, 26. maí 2003, eða þann tíma, þegar hún eigi að hafa raknað við vegna riftunar skiptastjóra, þ.e. 22. september 2004.
Að öðru leyti sé krafa um sýknu byggð á þeim sömu sjónarmiðum og hér á eftir greini, eftir því sem við geti átt.
Krafa um sýknu af varakröfu stefnanda:
Stefnandi byggi varakröfu sína á almennum reglum skaðabótaréttar, þar sem stefndu hafi ívilnað sjálfum sér með því að greiða skuld á tékkareikningi V&Þ, sem þeir hafi verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Til marks um saknæma og ólögmæta háttsemi stefndu tiltaki stefnandi m.a., að stefndu hafi mátt vera ljóst, þegar ofangreind greiðsla var innt af hendi hinn 30. ágúst 2004, að V&Þ hafi ekki getað staðið í skilum við lánardrottna félagsins. Í stað þess að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta, áður en til greiðslunnar kom, hafi stefndu selt félagi í sinni eigu verðmætustu vörubirgðir V&Þ og ráðstafað andvirðinu til greiðslu á yfirdráttarskuld. Þá hafi framsal umrædds hluta vörulagers verið í andstöðu við ákvæði samningsveðlaga nr. 75/1997 (svl.), sbr. 2. mgr. 34. gr. og 1.-4. mgr. 27. gr.
Stefndu mótmæli öllum málatilbúnaði stefnanda alfarið. Sala umrædds lagers og greiðsla hennar inn á umræddan reikning hafi verið í alla staði eðlileg og í samræmi við lög og reglur, og hagsmunir stefnanda hafi á engan hátt verið fyrir borð bornir. Skilyrði bótaábyrgðar séu ekki fyrir hendi. Sönnunarbyrði um sök stefndu sé alfarið á hendi stefnanda.
Í fyrsta lagi liggi fyrir, að sala umrædds lagers hafi farið fram 26. ágúst 2004, áður en stefnandi hafi komið fram með greiðsluáskorun á hendur Vélum og þjónustu hf., sbr. dskj. nr. 9, en ekki eftir þann tíma, eins og stefnandi haldi fram. Þetta sé staðfest í skýrslum þeim, sem teknar hafi verið af fyrirsvarsmönnum V&Þ, sbr. dskj. nr. 12 og 13, en þar sé því lýst, að kaupin hafi átt sér stað þennan dag. Það að reikningur vegna sölunnar kunni að hafa verið keyrður úr bókhaldskerfi félagsins nokkrum dögum síðar breyti engu um, að salan hafi farið fram 26. ágúst 2004. Bréf Hugs, sbr. dskj. nr. 24, hafi því enga þýðingu í máli þessu. Þá liggi fyrir, að fyrir umræddan lager hafi verið greitt með ávísun, útgefinni 26. ágúst 2004, sbr. dskj. nr. 5. Auk þess megi benda á, að þennan dag hafi fyrirsvarsmenn V&Þ lagt fyrir stefnanda lista yfir stöðu vörubirgða hinn 26. ágúst 2004, sbr. dskj. nr. 28, en sá listi hafi verið án þeirra vara, sem seldar höfðu verið til Táar ehf. (nú Vélaborg ehf.). Þessu til enn frekari stuðnings sé það staðfest í dómi Hæstaréttar nr. 420/2007, að salan hafi farið fram þennan dag, en þar segi orðrétt:
Hinn 26. ágúst 2004 keypti Tá ehf. [nú Vélaborg ehf.], félag sem upplýst er að hafi verið í eigu áfrýjenda og fleiri aðila, hluta af vörubirgðir V&Þ [svo] og greiddi kaupverðið meðal annars með tékka að fjárhæð 30.440.000 krónur.
Þá verði jafnframt að vísa til framlagðra yfirlýsinga fyrrum starfsmanna V&Þ, sem starfað hafi hjá félaginu í ágúst 2004, sbr. dskj. 33 og 34. Þar staðfesti þeir, að þeim hafi verið tilkynnt þann 26. ágúst 2004 um sölu á hluta lagersins, og strax þann sama dag hafi hinar seldu vörur verið komnar í umráð kaupanda, Táar ehf.
Með hliðsjón af þessu verður það að teljast hafið yfir allan vafa að sala lagersins hafi í raun farið fram 26. ágúst 2004, áður en stefnandi kom fram greiðsluáskorun á hendur V&Þ. Sönnunarbyrðin um, að salan hafi átt sér stað síðar, hvíli á stefnanda.
Í öðru lagi hafi sala umrædds lagers verið fullkomlega í samræmi við eðli rekstrar V&Þ og hafi ekki skert tryggingu stefnanda að neinu leyti. Salan hafi því verið fullkomlega í samræmi við ákvæði 27. gr. svl., sbr. 2. mgr. 34. gr. sömu laga.
Þær vörur, sem seldar hafi verið, hafi verið vörur, sem ætlaðar hafi verið til endursölu og hverjum sem er hafi verið frjálst að kaupa. Í þessu tilviki hafi auk þess aðeins lítill hluti heildarvörulagers V&Þ verið seldur. Samkvæmt dskj. nr. 28 hafi bókfært kostnaðarverð birgða félagsins hinn 26. ágúst 2004 verið kr. 303.761.294 án vsk., án þess hluta lagersins sem seldur hafi verið. Sala lagersins fyrir kr. 25.049.799 án vsk. hafi því verið innan við 10% af heildarlagernum.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 257/2008 hafi verið komizt að því, að í lok september 2004 hafi verðmæti þess lagers, sem eftir stóð eftir söluna á hluta lagersins til Táar ehf. hinn 26. ágúst 2004, verið kr. 95.101.355. Sé miðað við þetta verðmæti lagersins, en ekki bókfært kostnaðarverð hinn 26. ágúst 2004 skv. dskj. 28, kr.. 303.761.294, sé ljóst, að heildarverðmæti lagers V&Þ fyrir söluna á þeim hluta lagersins, sem um ræði í þessu máli, hafi verið kr. 120.151.154 án vsk. (25.049.799 + 95.101.355). Salan á hluta lagersins til Táar ehf. sé því í mesta lagi aðeins um 20% af heildarlager félagsins (25.049.799/120.151.154). Ljóst sé því, að hvernig sem á sé litið hafi sala hluta lagers V&Þ hinn 26. ágúst 2004 aðeins verið sala á litlum hluta heildarlagers félagsins.
Í þriðja lagi verði jafnframt að hafa í huga, að tilgangur með sölu lagersins hinn 26. ágúst 2004 hafi ekki verið sá að rýra verðmæti vörubirgða V&Þ eða skerða hagsmuni stefnanda, sem veðhafa með neinum hætti, heldur hafi hér einungis verið um að ræða aðgerð til að afla félaginu fjár. Stefndu hafi ekki vitað, hinn 26. ágúst 2008, að til stæði hjá stefnanda að gjaldfella allar kröfur á félagið daginn eftir og hafi því enga ástæðu haft til þess að grípa til aðgerða, sem brytu í bága við hagsmuni stefnanda. Þeir hafi fundið fyrir því dagana á undan sölunni, að treglega hafi gengið að fá fyrirgreiðslu frá stefnanda, og því hafi verið gripið til sölunnar. Stefndu hafi alla tíð gert ráð fyrir því, að það tækist að ná samkomulagi um frekari fyrirgreiðslu. Á þessum tíma, þegar salan fór fram, hafi staða V&Þ ekki verið þannig, að stjórn félagsins bæri að krefjast gjaldþrotaskipta.
Í fjórða lagi verði að hafa í huga, að andvirði vörusölunnar hafi runnið beint til stefnanda hinn 30. ágúst 2004. Í kjölfar þess að greiðsluáskorun hafi borizt til V&Þ hafi andvirðið verið lagt inn á reikning 306-26-3746 hjá stefnanda í samræmi við skýr fyrirmæli stefnanda, eins og nánar sé rakið hér á undan. Andvirðið hafi því runnið beint til greiðslu skulda við stefnanda í samræmi við greiðsluáskorun þá, er stefnandi hafði beint til V&Þ, en ekki í rekstur V&Þ eða í vasa fyrrverandi fyrirsvarsmanna þess.
Í fimmta lagi verði að minnast á, að til þess að sala vöru verði talin fara í bága við 1. mgr. 27. gr. samningsveðlaga, verði hún að skerða að mun tryggingu veðhafa. Jafnvel þótt talið verði, að með sölunni hafi trygging stefnanda verið skert að einhverju leyti, sé með öllu ósannað, að hún hafi skerzt að mun í skilningi ákvæðisins.
Þá sé jafnframt rétt að hafa í huga í þessu sambandi, að því leyti sem lagerinn kunni að hafa verið seldur undir markaðsvirði hinn 26. ágúst 2004, að það hafi verið leiðrétt með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 212/2007. Kröfuhafar í þrotabú V&Þ hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna sölunnar.
Salan hafi því verið í fullkomnu samræmi við eðli rekstrarins og ekki skert að nokkru leyti tryggingu stefnanda. Það að stefnandi hafi látið þessa greiðslu af hendi til þrotabús V&Þ, hafi verið gert á eigin ábyrgð og áhættu stefnanda, og raunar virðist það alveg hafa verið óþarfi, hafi stefnandi á annað borð átt veðrétt í andvirðinu, eins og hann hafi haldið fram.
Þá hafni stefndu því, að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tjóni af völdum stefndu. Fyrir liggi, að andvirði sölu lagersins hafi verið notað til greiðslu skuldar við stefnanda. Stefnandi hafi sjálfur haldið því fram, að hann ætti veðrétt í þessari greiðslu. Sé það rétt, hafi greiðslan aldrei verið riftanleg, sbr. þau sjónarmið sem hér séu rakin að framan. Stefndi hafi tekið þá ákvörðun að endurgreiða skiptastjóra umrædda greiðslu á eigin áhættu, án þess að bera gildi riftunarinnar undir dómstóla eða stefndu. Stefnandi verði því sjálfur að bera hallann af því að hafa innt greiðsluna af hendi og ekki tekizt að fá hana aftur frá skiptastjóra. Hafi stefnandi orðið fyrir einhverju tjóni sé það vegna hans eigin aðgerða, en ekki aðgerða stefndu.
Að öðru leyti sé því hafnað, að skilyrði bótaábyrgðar séu fyrir hendi, þ.á. m. skilyrði um orsakatengsl og sennilega afleiðingu, verði á annað borð talið, að stefndu hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, m.a. með vísan til þess, sem hér að framan greini.
Þá sé jafnframt byggt á þeim sömu sjónarmiðum og eigi við um aðalkröfu, eftir því sem við geti átt, sem og því sem hér á eftir greini.
Krafa um sýknu af þrauta- og þrautaþrautavarakröfum stefnanda:
Stefndi byggi kröfur sínar um sýknu af þrauta- og þrautaþrautavarakröfum stefnanda á þeim sömu málsástæðum og hér á undan hafa verið greindar, sem og þeim málsástæðum, sem hér á eftir greini undir þrautavarakröfu stefndu.
Þrautavarakrafa
Telji dómurinn ekki tilefni til þess að fallast á sýknu stefndu af kröfum stefnanda, byggi stefndu til þrautavara á því, að þeim verði aðeins gert að greiða kr. 29.986.093 með dráttarvöxtum frá 12. marz 2009.
Ljóst sé, að skuld V&Þ við stefnanda hafi, hinn 30. ágúst 2004, numið kr. 29.986.093. Geti krafa stefnanda því aldrei numið hærri fjárhæð.
Þá geri stefndu þá kröfu, að dráttarvextir verði einungis reiknaðir frá þingfestingardegi máls þessa, þ.e. 12. marz 2009, en á kröfur stefnanda reiknist ekki vextir eða dráttarvextir, eins og stefnandi krefjist. Stefndu telji, að þeim beri ekki að greiða dráttarvexti allan þann tíma, sem mál stefnanda, vegna þessarar sömu greiðslu, hafi verið að velkjast í dómskerfinu. Þannig megi benda á, að stefndi hafi upphaflega hafið málarekstur út af því sakarefni, sem um ræði í þessu máli, með stefnu, þingfestri þann 9. nóvember 2004, sem hann hafi sjálfur fellt niður, og aftur með stefnu, þingfestri 22. júní 2006, sem vísað hafi verið frá vegna vanreifunar. Stefnandi hafi aftur hafið málsókn á hendur stefndu út af þessu sama máli 23. febrúar 2007, en enn hafi málinu verið vísað frá með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 18. september 2008 í máli nr. 420/2007. Ljóst sé því, að stefnandi sé nú að fara af stað í fjórða skipti vegna sölu hins umrædda lagers og ábyrgðarskuldbindingar stefndu vegna þess að hann hafi ekki haft kröfur og málatilbúnað í því horfi, að hægt sé að leggja efnisdóm á málið. Ljóst sé, að það sé ekki við stefndu að sakast, að úr ágreiningsefni aðila hafi ekki enn verið leyst og því sé fráleitt, að stefndu beri að greiða vexti eða dráttarvexti vegna alls þess tíma, sem liðinn sé frá því að stefndi hóf fyrst málarekstur vegna þess sakarefnis, sem hér um ræði, sbr. 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Ekkert tilefni sé því til þess að dæma vexti eða dráttarvexti, eins og stefnandi krefjist, heldur sé rétt að miða dráttarvexti við þingfestingardag þessa máls, verði á annað borð talið, að krafa á hendur stefndu sé fyrir hendi. Við mat á ákvörðun um dráttarvexti, sem og reyndar við mat á málsástæðum stefndu í heild, telji stefndu einnig rétt að hafa til hliðsjónar lög nr. 32/2009, sem hafi það m.a. að markmiði að draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því, að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar, sbr. 1. gr.
Að öðru leyti en hér greini sé málatilbúnaði og málsástæðum stefnanda mótmælt í heild sinni.
Stefndu vísi einkum til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, sem og til ákvæðis III. kafla samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr. Þá sé vísað til laga um samningsveð nr. 75/1997, einkum 34., sbr. 27. gr. laganna. Einnig sé vísað til laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sem og til laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og eldri fyrningarlaga nr. 14/1905. Einnig sé vísað til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 7. gr. Þá sé vísað til 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um málskostnað sé vísað til 129. gr., sbr. 130. gr. sömu laga, en um álag vísist til 131. gr. sömu laga, en ljóst sé af framangreindu, að stefnandi sé nú að fara af stað í fjórða sinn með mál út af sama sakarefni, án tilefnis. Rétt sé því að dæma hann til greiðslu álags á málskostnað í samræmi við ákvæði 131. gr. laganna.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefndu gáfu skýrslu fyrir dómi og enn fremur Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur á lánaborði Arion banka og fyrrum útibússtjóri Vesturbæjarútibús Búnaðarbankans, og Haraldur Baldursson, verzlunarstjóri hjá Vélaborg ehf.
Ágreiningslaust er, að stefndu skrifuðu undir sjálfskuldarábyrgð á reikningi nr. 3746 í Vesturbæjarútibúi Búnaðarbankans, fyrir allt að kr. 38.000.000, en ábyrgðin liggur fyrir í málinu í ljósriti á dskj. nr. 3.
Ágreiningur er um það í málinu, hvenær stefndu seldu vörubirgðir út úr félaginu Vélar og þjónusta til Vélaborgar ehf. Halda stefndu því fram, að það hafi verið fyrir gjaldfellingu á skuldum félagsins við bankann hinn 27. ágúst 2004. Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. 163/2009, uppkveðnum 8. maí 2009, að ósannað væri að salan hefði farið fram fyrir þann tíma, og hafa stefndu ekki í máli þessu fært frekari sönnur fyrir þeirri staðhæfingu sinni, að salan hefði farið fram hinn 26. ágúst 2004. Sala stefndu á umræddum vörulager var því óheimil, svo sem fram kemur í framangreindum dómi Hæstaréttar, en stefnandi átti veð í vörulagernum. Andvirði sölunnar, kr. 30.440.000, var hins vegar notað til að greiða upp skuldir félagsins við bankann á framangreindum yfirdráttarreikningi nr. 3746, og losa stefndu þannig undan sjálfskuldarábyrgðinni.
Samkvæmt fullyrðingum stefndu, sem fá jafnframt stoð í bréfum lögfræðings stefnanda á dskj. nr. 29 og 30, dags. 31.08. 2004, bar að ráðstafa andvirði vegna vörusölu V&Þ inn á reikning félagsins nr. 3746, svo sem stefndu höfðu gert.
Að kröfu skiptastjóra þrotabús V&Þ um riftun greiðslunnar millifærði Kaupþing banki fjárhæðina út af reikningnum til þrotabúsins með fyrirvara um réttmæti riftunarinnar, sem bankinn taldi óheimila. Jafnframt taldi bankinn sjálfskuldarábyrgð stefndu rakna við, um leið og fjárhæðin var greidd út af reikningnum.
Enda þótt stefnandi hafi aldrei látið reyna á réttmæti riftunarinnar fyrir dómi gagnvart þrotabúinu, felur áðurnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 163/2009 í sér, að riftunarkrafan hafi verið óréttmæt og er bankanum þar m.a. viðurkenndur réttur til að njóta fullnustu af eignum þrotabús V&Þ ehf., sem raktar verða til greiðslu til þrotabúsins á umræddum kr. 30.440.000.
Fyrir liggur, að þessi fjárhæð var hinn 24.11. 2009 greidd af þrotabúinu til stefnanda, þar sem hún var lögð inn á reikning nr. 009131 í útibúi bankans nr. 0301. Byggir stefnandi aðalkröfu sínar þannig á því, að sjálfskuldarábyrgð stefndu standi enn, þar sem skuld á reikningi nr. 3746 sé óuppgerð.
Þegar litið er til þess, að greiðslan var upphaflega lögð inn á framangreindan yfirdráttarreikning að tilmælum bankans og sjálfskuldarábyrgðin þar með felld niður, en greiðslan síðan millifærð til þrotabús V&Þ, án þess að lögmæt riftunarkrafa eða viðurkenning bankans á riftunarkröfu þrotabúsins lægi fyrir, er ekki fallizt á með stefnanda, að bankinn hafi sjálfdæmi í því að láta endurgreiðslu þrotabúsins renna inn á reikning að eigin vali bankans, í þeim tilgangi að endurvekja sjálfskuldarábyrgð stefndu. Samkvæmt framansögðu er litið svo á, að stefndu hafi með greiðslunni á kr. 30.440.000 hinn 30. ágúst 2007 inn á reikning nr. 3746 greitt upp yfirdráttarskuld fyrirtækisins, sem sjálfskuldarábyrgð þeirra tók til og ber því að sýkna þá af aðalkröfu stefnanda í máli þessu.
Varakrafa stefnanda byggir á skaðabótasjónarmiðum.
Þar sem fyrir liggur, að stefnandi hafi þegar fengið umrædda fjárhæð vegna sölu vörulagersins greidda, hefur hann ekki sýnt fram á, að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem þessari greiðslu nam. Ber því einnig að sýkna stefndu af varakröfu stefnanda.
Þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggja á mismunandi upphafstíma vaxta í aðal- og varakröfum, og taka framangreindar sýknuástæður því jafnframt til þeirra.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu hvorum um sig málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 600.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Stefán Bragi Bjarnason og Gunnar Viðar Bjarnason, eru sýknir af kröfum stefnanda, Arion banka hf.
Stefnandi greiði hvorum hinna stefndu kr. 600.000 í málskostnað.