Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/2005


Lykilorð

  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. febrúar 2006.

Nr. 350/2005.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Niðurfelling máls. Málskostnaður. Gjafsókn.

Mál K gegn M var fellt niður að ósk málsaðila, sem jafnframt voru sammála um að leggja það í dóm um málskostnað. Talið var rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti félli niður og að gjafsóknarkostnaður K fyrir réttinum greiddist úr ríkissjóði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. ágúst 2005. Með bréfi 25. janúar 2006 lýstu aðilar því yfir að samkomulag hefði tekist um að fella málið niður fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að það gengi til dóms um málskostnað. Áfrýjandi ítrekar kröfu sína um málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi. Stefndi krefst þess að málskostnaður falli niður milli aðila.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

                                                              Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkisjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2005.

I

             Mál þetta, sem dómtekið var hinn 20. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af K, á hendur M, með stefnu áritaðri um birtingu 2. september 2004.

             Dómkröfur stefnanda voru þær, að slitið verði samkomulagi hennar og stefnda um sameiginlega forsjá yfir börnunum Z, kt. [...], og Y, kt. [...], og að henni verði falin forsjá þeirra til 18 ára aldurs.

             Að dæmt verði að stefnda verði gert að greiða stefnanda einfalt meðlag með börnunum Z og Y, til 18 ára aldurs þeirra.

             Að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá barnanna samkvæmt nánari lýsingu í stefnu.

             Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættu 24,5% álagi vegna virðisaukaskatts, samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

             Dómkröfur stefnda voru þær, að slitið verði samkomulagi aðila um sameiginlega forsjá yfir börnunum og kröfu stefnanda um forsjá dætranna, Z, kt. [...], og Y, kt. [...], verði hafnað og að stefnda verði falin forsjá þeirra beggja til 18 ára aldurs.

             Að stefnanda verði gert að greiða stefnda einfalt meðlag með dætrum hans og stefnanda til 18 ára aldurs þeirra.

             Að í dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar dætranna og þess foreldris sem ekki fær forsjá þeirra.

             Að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun og að málskostnaðarfjárhæðin beri dráttarvexti.

             Stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 14. október 2004.

II

             Málavextir eru þeir, að málsaðilar hófu sambúð árið 1983 en höfðu áður verið saman í u.þ.b. ár.  Aðilar giftu sig árið 1987 og eignuðust dótturina Z hinn [...].  Skömmu síðar skildu aðilar að borði og sæng og flutti stefndi til [...]árið 1998.  Stefnandi flutti síðan út til stefnda og tóku þau upp sambúð að nýju og eignuðust aðra dóttur hinn [...].

             Árið 2000 fluttu aðilar til [...]og keyptu sér hús að [...].  Sambúðin gekk hins vegar ekki vel og skildu þau aftur að borði og sæng árið 2001. Gerðu aðilar þá með sér samkomulag um sameiginlega forsjá dætranna og að lögheimili þeirra yrði hjá móður.  Eftir skilnaðinn flutti stefndi aftur út til [...]og dvaldi þar fram til byrjunar árs 2002, er hann flutti aftur heim til Íslands.  Í september 2002 flutti stefnandi til [...] og urðu dæturnar eftir hjá föður sínum.  Í nóvember 2002 var lögheimili dætranna flutt til [...], þar sem þær bjuggu hjá föður sínum og  hefur umgengni stefnanda við dætur sínar verið eftir samkomulagi aðila, u.þ.b. tvisvar sinnum í mánuði, en þó ekki regluleg.  Stefnandi kveður aðila hafa samið svo um að stúlkurnar yrðu aðeins tímabundið hjá stefnda, eða uns stefnandi gæti búið þeim viðunandi umhverfi.  Þessu hefur stefndi mótmælt og kannast ekki við að samningur þeirra um búsetu dætranna hefði verið til ákveðins tíma.

             Hinn 4. febrúar 2003 gerðu aðilar með sér skriflegt samkomulag um að stúlkurnar skyldu eiga lögheimili hjá stefnda, fram til 18 ára aldurs þeirra.

             Stefnandi er í sambúð með A, og hefur samband þeirra staðið í um tvö ár.  Stefnandi og sambýlismaður hennar leigja húsnæði að [...].  Þau búi í stóru einbýlishúsi, sem staðsett sé nálægt leikskóla og grunnskóla, og þar hafi dætur hennar sérherbergi. 

             Stefndi hefur frá því hann kom heim frá [...]starfað í söluskála og hóteli að [...], þar sem hann býr jafnframt og ganga stúlkurnar í skóla að [...]. 

III

             Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að það sé börnunum fyrir bestu að henni verði falin forsjá þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, þar sem brostnar séu forsendur fyrir sameiginlegri forsjá.

             Stefnandi hafi verið aðalumönnunaraðili barnanna, að undanskildu tímabilinu frá hausti 2002 til dagsins í dag.  Milli stefnanda og barnanna séu enn náin og góð tengsl þrátt fyrir að þær hafi dvalið hjá stefnda um skeið.  Stefnandi hafi ætíð meðan á dvöl dætranna hjá stefnda hefur staðið rækt umgengni við þær eins vel og hún hafi séð sér fært, bæði með heimsóknum og símhringingum.

             Að mati stefnanda hafi hún fremur en stefndi þá persónulegu eiginleika sem til þurfi til þess að axla ábyrgð á forsjá þeirra, þar sem hún geti búið þeim gott og öruggt umhverfi, þar sem þær búi við umhyggju og reglu sem þær hafi skort hjá stefnda.

             Aðstæður stefnanda séu mjög góðar.  Hún hafi fasta vinnu, tryggt leiguhúsnæði á góðum stað nálægt skóla.  Stefnandi sé í sambúð sem gangi vel og hafi hún og sambýlismaður hennar uppi áform um að gifta sig.  Dætrum hennar semji vel við sambýlismann hennar.  Stefnandi sé búsett í næsta nágrenni við [...]á [...] og leikskólann [...].  Telur stefnandi að með því að stúlkurnar sæki skóla á [...] sé menntun þeirra betur tryggð en í skólanum á [...].

             Að mati stefnanda sé stefndi stúlkunum umhyggjusamur og góður faðir, en hann sé hins vegar ekki fær um að annast þær á viðunandi hátt og veita þeim þá festu sem nauðsynleg sé, vegna óreglulegs og langs vinnutíma hans.  Auk þess hafi hún áhyggjur af andlegri heilsu hans.  Stefndi hafi verið þunglyndur og hafi ekki leitað sér hjálpar vegna þess eftir því sem hún viti best.

             Stefnandi telur og nauðsynlegt að kveðið verði á um meðlag og inntak umgengnisréttar, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Verði henni dæmd forsjá barnanna muni hún stuðla að eðlilegri umgengni þeirra við stefnda.  Stefnandi telur rétt að við ákvörðun á umgengni verði tekið mið af því að töluverðar vegalengdir séu á milli heimili aðila.  Fer stefnandi fram á að umgengni barnanna og stefnda verði sem hér segir:

1.        Regluleg umgengni verði eina helgi í mánuði.

2.        Jóla- og áramótaumgengni.  Umgengi um jól og áramót skiptist þannig að stúlkurnar verði önnur hver jól hjá stefnda og dvelji um áramót hjá stefnanda og öfugt.

3.        Páskar.  Umgengni um páska skiptist til helminga milli aðila.

4.        Stúlkurnar dvelji þrisvar sinnum tvær vikur í senn hjá stefnanda.  Stefndi skuli fyrir 1. apríl ár hvert láta stefnanda vita hvaða tími henti best til sumarleyfis hans og barnanna og fyrir 1. maí ár hvert skuli aðilar hafa ákveðið sumarleyfi dætranna með hvoru foreldra fyrir sig.

Stefnandi byggir kröfu sína um einfalt meðlag úr hendi stefnda með dætrunum á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003 og lágmarksmeðlagsskyldu forsjárlauss foreldris, samkvæmt 57. gr., sbr. 55. gr. laganna.

IV

             Stefndi byggir kröfur sínar á því, að það sé dætrum málsaðila fyrir bestu að hann fari einn með forsjá þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, þar sem forsendur fyrir sameiginlegri forsjá séu brostnar.

             Stefndi mótmælir því sem fram komi hjá stefnanda að hún hafi verið aðalumönnunaraðili telpnanna og að góð og náin tengsl séu milli hennar og dætra þeirra.

             Stefndi heldur því hins vegar fram að mikil og góð tengsl séu milli hans og dætra hans, enda helgi hann sig alfarið uppeldi þeirra og þörfum.  Hjá honum njóti þær umhyggju og reglufestu andstætt því sem stefnandi geti veitt þeim.

             Stefndi telur aðstæður sínar mjög góðar.  Hann hafi fasta vinnu nálægt heimili sínu og stúlkunum líki vel að búa í sveitinni.  Stefndi mótmælir því að skólinn á [...] sé verri skóli en skólinn á [...].  Stúlkurnar séu báðar mjög ánægðar í skólanum og leikskólanum og í því umhverfi sem þær hafi búið í hjá honum.  Stefndi kannast ekki við að eiga við þunglyndi að stríða.

             Stefndi er sammála stefnanda um að nauðsynlegt sé að kveða á um meðlag og inntak umgengnisréttar, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.

             Stefndi kveðst hafa reynt að stuðla að eðlilegri umgengni stefnanda og dætra þeirra, án árangurs.  Hins vegar telur hann tillögu stefnanda að umgengni vera heldur litla og telur eðlilegt að regluleg umgengni væri 4-5 daga í mánuði.

             Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

             Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

V

             Aðila málsins greinir á um hvort þeirra eigi að fara með forsjá dætra þeirra, Z og Y, en við skilnað að borði og sæng, samkvæmt skilnaðarleyfisbréfi, dagsettu [...] 2001, gerðu málsaðilar með sér samkomulag um sameiginlega forsjá barnanna.  Telja þau nú að forsendur sameiginlegrar forsjár þeirra séu brostnar og krefjast hvort um sig forsjár yfir dætrum sínum.

Samkvæmt beiðni stefnanda var dómkvaddur sálfræðingurinn Ragna Ólafsdóttir, til þess að meta forsjárhæfni málsaðila, tengsl þeirra við börnin, félagslegar aðstæður o.fl.  Er sálfræðiskýrsla hennar dagsett 30. mars 2005.  Í skýrslunni er rakin saga málsaðila og raktar niðurstöður sálfræðiprófa, sem lögð voru fyrir þau.

             Í niðurlagi skýrslunnar er að finna samantekt og ályktun um forsjárhæfni foreldra og kemur þar fram, að báðir foreldrar eru hæfir uppalendur.  Sálfræðirannsókn á málsaðilum hafi ekki leitt í ljós nein geðræn veikindi hjá aðilum eða persónuleikaraskanir og leitt í ljós að þeir virðist búa yfir góðum sjálfsstyrk, virðast ókvíðin, félagslynd og vel aðlöguð, eins og þar segir.  Matsmaður telur báða foreldra þokkalega vel gefna og þó að fjárhagur þeirra sé ekki góður þá séu þau bæði fær um að fara vel með aflafé sitt og láta enda ná saman í heimilisrekstri.

             Í niðurstöðu matsgerðar greinir matsmaður svo frá að vísbendingar séu um að tilfinningatengsl sem stefnandi, K, myndar, kunni að vera fremur yfirborðskennd en djúp og náin.  Hún virðist hafa gott innsæi í persónuleika dætra sinna.  Matsmaður lýsir stefnda, M, sem einstaklingi með gott sjálfstraust, kraftmiklum og markmiðssæknum.  Hann virðist þó hafa tilhneigingu til þess að líta fram hjá eigin veikleikum.

             Í niðurstöðu sinni greinir matsmaður svo frá að báðar stúlkurnar séu í góðu jafnvægi og séu sáttar við umhverfi sitt.  Báðar stúlkurnar séu í góðum tengslum við fólk í umhverfi sínu.

             Hinn dómkvaddi matsmaður kannaði og tengsl stúlknanna við foreldra sína.  Greinir hún svo frá að Z og Y hafi dvalið hjá föður sínum frá því sumarið 2002 er þær voru fimm og þriggja ára gamlar.  Fram að því að þær fluttu til föður síns hafi móðir þeirra aðallega annast um þær.  Vegna aðstæðna hafi umgengni við móður verið stopul.  Báðar stúlkurnar hafi sterk tengsl við föður sinn.  Álítur matsmaður að faðir hafi ágætan skilning á þörfum og þroska dætra sinna, setji þeim nauðsynlegar reglur og sýni þeim mikla ástúð og umhyggju.  Tengsl stúlknanna við móður sína séu einnig sterk.  Hún sýni þeim ástúð og þær séu hændar að henni, en í ljósi þess að móðir hafi farið á mis við að fylgjast daglega með viðfangsefnum og þroska barna sinna séu tengslin milli hennar og stúlknanna um sumt öðruvísi en við föður.  Faðir sé í nánari tengslum við þær og sé kunnugri þörfum þeirra, væntingum og kröfum.  Þá segir matsmaður, að ljóst sé að stúlkurnar líti svo á að heimili þeirra sé hjá föður og ekki sé hægt að merkja annað en að þær séu sáttar við það.  Matsmaður greinir og frá því, að við athugun hennar hafi eldri stúlkan, Z, átt erfitt með að ræða um móður sína í því umhverfi sem hún búi í og megi ætla að það sé vörn hennar til að umbera það að hafa ekki móður sína nálægt sér.  Einnig hafi matsmaður greint nokkurn trega hjá stúlkunni í samtölum þar sem móður hennar hafi borið á góma.

             Af framlagðri matsgerð er ljóst að stúlkurnar hafa þörf fyrir báða foreldra sína og eru tengdar þeim báðum þó á mismunandi hátt sé.  Þá liggur og fyrir að báðir foreldrar eru hæfir til að fara með forsjá þeirra.  Hins vegar ber að líta til þess að stúlkurnar hafa nú búið hjá föður sínum í nær þrjú ár, sem er langur tími í stuttri ævi þeirra.  Þann tíma hefur umgengni móður við stúlkurnar ekki verið mikil, sem móðir kveður vera sökum þess hve langt sé á milli þeirra.   Aðstæður föður eru góðar og hefur hann tíma og svigrúm til þess að annast stúlkurnar.  Stúlkunum virðist líða vel hjá föður sínum og vera í góðu jafnvægi.

             Þegar metnar eru fyrirliggjandi upplýsingar í máli þessu ásamt sálfræðiskýrslu og framburði aðila er það niðurstaða dómsins að hag stúlknanna, Z og Y, verði best borgið fari faðirinn með forsjá þeirra beggja og þær búi áfram hjá föður sínum.  Ekki þykir koma til álita að skipta forsjá stúlknanna enda eru þær á svipuðum aldri og mat beggja foreldra að hag þeirra sé best borgið fái þær að alast upp saman eins og verið hefur.  Ber því samkvæmt framansögðu að fallast á forsjárkröfu stefnda. 

             Í málinu er gerð krafa um að kveðið verði á um meðlag og inntak umgengnisréttar.  Ekkert bendir til annars en að báðir foreldrar muni stuðla að eðlilegum samskiptum og góðri umgengni við dæturnar.  Hins vegar verður að ætla, samkvæmt því sem fram er komið, að stúlkurnar hafi þörf fyrir meiri umgengni við móður sína en verið hefur og þörf sé á að komið verði á föstu skipulagi varðandi umgengnina.  Með hliðsjón af aldri stúlknanna og búsetu foreldra þykir mega fallast á að umgengni móður við dætur sínar verði með þeim hætti sem hún hefur gert tillögu um, þ.e. að dæturnar verði hjá móður eina helgi í mánuði og sex vikur yfir sumartímann.  Þá dvelji stúlkurnar hjá móður önnur hver jól og önnur hver áramót, og fjóra daga í páskafríi, allt eftir nánara samkomulagi aðila.

             Stefnandi greiði einfalt meðlag með dætrum sínum, frá uppkvaðningu dóms þessa og til 18 ára aldurs þeirra, eins og verið hefur og samkomulag er um.

             Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af máli þessu.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar,  Daggar Pálsdóttur, hrl., 390.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

             Við ákvörðun málskostnaðar er ekki tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu.

             Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum, Guðfinnu Eydal sálfræðingi og Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, M, skal fara með forsjá stúlknanna, Z og Y.

Stefnandi, K, skal greiða einfalt meðlag með stúlkunum frá uppkvaðningu dóms þessa og til 18 ára aldurs þeirra.

Umgengni stefnanda, K, við stúlkurnar skal vera eina helgi í mánuði frá því að skóla lýkur á föstudegi fram til sunnudagskvölds.  Stúlkurnar dvelji hjá stefnanda sex vikur yfir sumartímann, eftir nánara samkomulagi aðila.  Stúlkurnar dvelji hjá stefnanda önnur hver jól og önnur hver áramót og fjóra daga í páskafríi, eftir nánara samkomulagi aðila.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar af þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur, hrl., 390.000 krónur.