Hæstiréttur íslands
Mál nr. 572/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 22. október 2008. |
|
Nr. 572/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Bjarni Eiríksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2008.
Með beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri í dag, er þess krafist að X, kt. [...], [heimilisfang], Garðabæ, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. október 2008 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi að undanförnu haft til rannsóknar ætlaða stórfellda framleiðslu og dreifingu fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem hafi borist lögreglu og á grundvelli gagna sem lögreglan hefur aflað í þágu rannsóknar málsins sé talið að að A og B standi að framleiðslunni og að kærði komi með einhverjum hætti að því ferli eða í beinu framhaldi af framleiðslunni, þ.e. dreifingu efnanna. Hafi B og A verið með aðstöðu í iðnaðarhúsnæði á tveimur stöðum, að Y og Z, í Hafnarfirði og sé talið að framleiðslan hafi farið fram þar. Lögregla hafi aflað upplýsinga um að kærði hafi haft einhvern aðgang að húsnæðinu að Y á þeim tíma sem framleiðsluferlið eða undirbúningur þess var kominn af stað eins og sjá megi af framlögðum gögnum.
Í gær hafi lögreglan farið inn í bæði framangreint iðnaðarhúsnæði. Inni í húsnæðinu að Z hafi veri mikið magn ætlaðra sterkra fíkniefna á framleiðslustigi, auk þess sem uppsett hafi verið tæki sem sérfræðingar beri um að unnt sé að nota við framleiðslu sterkra fíkniefna og hafi framleiðsla verið þar í gangi. Tekin hafi verið sýni úr efnum á staðnum og fyrsta svörun verið methamfetamine, en efnin verði send til frekari greiningar. Sérfræðingar hafi verið fengnir á vettvang til að meta umfang framleiðslunnar og ætlaða almannahættu sem kunn að hafa verið samfara framleiðslunni. Samkvæmt þeirra upplýsingum kunni sprengihætta að fylgja efnaframleiðslu þeirri sem talið sé að hafi farið fram í húsnæðinu. Í húsnæðinu að Y hafi fundist mikið magn af ætluðu amfetamíni.
Við frekari leit lögreglu í áðurgreindri aðstöðu að Z, þar sem ætluð fíkniefnaframleiðsla fór fram, hafi fundist mikið magn af hassi í tösku um 15-20 kg.
Rannsókn lögreglu miði að því að finna út hvernig staðið hafi verið að hinni ætluðu framleiðslu, umfangi framleiðslunnar, hvort efni hafi verið farin í dreifingu, fjármögnun, skipulagningu og hvort fleiri aðilar tengist ætlaðri framleiðslu og dreifingu. Rannsóknin sé mjög umfangsmikil og talið að mikil vinna verði við úrvinnslu gagna, sem aflað hefur verið og mun verða aflað við rannsóknina.
Rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnabrot kærða. Nauðsynlegt sé talið að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn og/eða vitni og/eða að kærði geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafi í málinu og hafi ekki verið haldlögð. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Nánar sé vísað til framlagðra gagna hvað varðar rökstuddan grun lögreglu um ætlaðan þátt kærða í hinu stórfellda fíkniefnabroti.
Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði hefur mótmælt framkominni gæsluvarðhaldskröfu og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en gerir þá kröfu til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er ljóst að kærði átti í samskiptum við kærða A í húsnæðinu að Y eftir að tækjabúnaði til fíkniefnaframleiðslu hafði verið komið þar upp og þá er komið fram að þar fannst mikið magn af ætluðu amfetamíni. Einnig liggur fyrir að kærði hafði aðgang að umræddu húsnæði og hefur komið þangað í fleiri skipti. Að öllu framangreindu virtu og gögnum málsins, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi átt aðild að stórfelldu fíkniefnalagabroti í félagi við aðra. Getur refsing varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, haft áhrif á framburð vitna og meðkærðu, eða komið sönnunargögnum undan. Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er og verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. október 2008 kl. 16:00.