Hæstiréttur íslands
Mál nr. 357/2008
Lykilorð
- Rökstuðningur
- Kærumál
|
|
Mánudaginn 8. september 2008. |
|
Nr. 357/2008. |
Ís-ferðaþjónusta ehf. (Garðar Briem hrl.) gegn Bjarna Ásgeiri Jónssyni og Margréti Atladóttur(Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Rökstuðningur.
Í kærði úrskurð héraðsdómara þar sem tekin var til greina krafa B og M um frestun aðalmeðferðar um óákveðinn tíma eða þar til fyrir lægi úrlausn kröfu þeirra um að bú Í yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki var talið að rökstuðningur í forsendum héraðsdómsins fullnægði þeirri kröfu sem felst í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2008, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um frestun aðalmeðferðar í óákveðinn tíma eða þar til fyrir lægi úrlausn um kröfu þeirra um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að fresta málinu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Krafa sóknaraðila um málskostnað í héraði var ekki gerð í héraði við meðferð á þeim ágreiningi sem leyst er úr í hinum kærða úrskurði. Kemur hún því ekki til efnislegrar meðferðar fyrir Hæstarétti.
Í forsendum hins kærða úrskurðar er niðurstaða hans einungis rökstudd með eftirfarandi orðum: „Telja verður að niðurstaða dómsmáls um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda skipti máli um framhald máls þess sem hér er beiðst frestunar á.“ Hvorki er gerð fyrir því hvers vegna slík niðurstaða skipti máli né lagagrundvelli þess að fresta málinu á þessari forsendu. Þessi rökstuðningur fullnægir ekki þeirri kröfu sem telja verður að felist í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný.
Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fella niður kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2008.
Stefnendur í aðalsök og stefndu í gagnsök Bjarni Ásgeir Jónsson og Margrét Atladóttir krefjast þess að aðalmeðferð sem ákveðin hefur verið 23. júní nk. verði frestað um óákveðinn tíma. Stefnendur byggja kröfu sína um frestun aðalmeðferðar á því að hinn 30. apríl sl. hafi stefnendur lagt fram kröfu um gjaldþrotaskipti á búi stefnda í aðalsök og stefnanda í gagnsök ÍS ferðaþjónustu ehf. Grundvöllur kröfunnar sé árangurslaus kyrrsetningargerð sem fram fór 25. apríl sl. Af hálfu stefnanda hefur verið tekið til varna gegn kröfu um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta og verður aðalmeðferð þess ágreiningsmáls 25. júní nk. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Verði ekki orðið við frestbeiðni stefnenda er þess krafist að stefndi leggi fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 3.000.000 króna og er vitnað til b liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um þessa kröfu.
Af hálfu stefnda í aðalsök og stefnanda í gagnsök er frestbeiðni mótmælt. Þau rök sem fram séu borin með frestbeiðni séu ekki tæk og beri að hafna beiðninni. Engar ástæður réttlæti það að málinu sé raskað í þeim farvegi sem það er nú í. Hvergi séu lagaheimildir til eða að finna fordæmi fyrir því að máli hafi verið frestað vegna þess að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá öðrum aðilanum eða máli verið frestað í þeim tilgangi að veita öðrum aðilanum svigrúm til þess að gera tilraun til þess að gera hinn gjaldþrota. Aðalstefnandi hefði getað farið af stað í kyrrsetningarferli fyrir rúmum tveimur árum síðan en hafi ekki gert og því skyldi honum veittur frestur nú?
Í kröfugerð gangaðila sé krafist málskostnaðartryggingar. Þessari kröfu beri að hafna þar sem áskilið sé í 133. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að slík krafa komi fram við þingfestingu.
Telja verður að niðurstaða dómsmáls um framkomna kröfu um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda skipti máli um framhald máls þess sem hér er beiðst frestunar á. Er því fallist á þá kröfu stefnda að fresta aðalmeðferð um óákveðinn tíma eða þar til úr ágreiningsmáli því sem til meðferðar er vegna fram kominnar beiðni um gjaldþrotaskipti hefur verið leyst.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Aðalmeðferð í máli þessu er frestað um óákveðinn tíma eða þar til fyrir liggur úrlausn um þá kröfu stefnenda Bjarna Ásgeirs Jónssonar og Margrétar Atladóttur að bú stefnda ÍS ferðaþjónustu ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta.