Hæstiréttur íslands
Mál nr. 414/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 21. nóvember 2000. |
|
Nr. 414/2000. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Erlendur Gíslason hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Talið var að sterkur grunur væri kominn fram um að X hefði framið manndráp og þótti verknaður sá, sem X var grunaður um, vera þess eðlis að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 14. febrúar 2001 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Í hinum kærða úrskurði er ranglega hermt að í kröfu ríkissaksóknara um gæsluvarðhald yfir varnaraðila komi fram að hann hafi játað að hafa átt sök á voveiflegu andláti nafngreindrar stúlku. Þess er og að geta að varnaraðili skaut úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 2. ágúst 2000 um gæsluvarðhald til Hæstaréttar með kæru 4. sama mánaðar, sbr. dóm Hæstaréttar 10. ágúst 2000 í máli nr. 306/2000.
Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2000.
Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag á grundvelli kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir X.
Þess er krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 14. febrúar 2001 kl. 16:00.
[ . . . ]
Eins og málið liggur nú fyrir að virtum rannsóknargögnum sem fyrir lágu í dóminum í dag þykir vera fyrir hendi sterkur grunur um að kærði hafi með háttsemi sinni framið afbrot, sem varðað getur við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Sá verknaður, sem kærði er grunaður um, þykir þess eðlis að ætla má að það sé í þágu almannahagsmuna að gæsluvarðhaldi sé beitt. Eru því skilyrði til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er því krafa ríkissaksóknara tekin til greina og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 14. febrúar 2001 kl. 16:00, en þó aldrei lengur en þar til dómur gengur í máli hans sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Úrskurð þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 14. febrúar 2001 kl. 16:00, en þó aldrei lengur en þar til dómur gengur í máli hans.