Hæstiréttur íslands
Mál nr. 174/2006
Lykilorð
- Veðsetning
- Handveð
- Ógilding samnings
|
|
Fimmtudaginn 26. október 2006. |
|
Nr. 174/2006. |
Jóhann L. Jóhannsson(Gestur Jónsson hrl.) gegn Sparisjóðabanka Íslands hf. (Karl Axelsson hrl.) |
Veðsetning. Handveð. Ógilding samnings.
J undirritaði handveðsyfirlýsingu 29. janúar 2002 að beiðni Á. Yfirlýsingin var síðan afhent bankanum S ásamt tilteknum verðbréfum J sem þá voru í vörslu Á, en S skráði jafnframt tiltekin rafræn hlutabréf í eigu J sem handveðsett. J og Á bar saman um að J hefði ekki vitað undir hvers konar skjal hann hefði ritað í umrætt sinn. J krafðist þess að handveðsyfirlýsingin yrði ógilt með dómi og að honum yrðu afhent umrædd verðbréf og hlutabréf. Ekki var fallist á að handveðsyfirlýsingin væri ógild þar sem hún fullnægði ekki skilyrðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þá var ekki talið að yfirlýsingin væri ógild með vísan til 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda væri ekki unnt að ætla að starfsmenn S hefðu haft vitneskju um með hvaða hætti Á hefði aflað undirskriftar J þegar hún var móttekin. J byggði jafnframt á því að ógilda bæri handveðsyfirlýsinguna á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekki var talið að efni yfirlýsingarinnar væri svo óvenjulegt eða íþyngjandi að skilyrðum ákvæðisins væri fullnægt. Þá var ekki talið að stöðumunur J og Á við útgáfu yfirlýsingarinnar hefði verið þess eðlis að leitt gæti til ógildingar hennar eða að aðstæður við undirritun hefðu verið þeim hætti að ósanngjarnt væri fyrir S að bera hana fyrir sig. Ekki var heldur fallist á að hugsanleg vanræksla S á að gefa J viðtökukvittun gæti leitt til ógildingar yfirlýsingarinnar. Loks var ekki talið að ógilda bæri yfirlýsinguna á þeim grundvelli að hún gengi gegn samkomulagi frá 1. nóvember 2002 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, enda tæki samkomulagið ekki til tilvika þar sem lausafé væri sett að handveði til tryggingar skuldum annars manns. Var S því sýknaður af kröfum J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2006. Hann krefst þess að handveðsyfirlýsing, undirrituð og útgefin af honum 29. janúar 2002 í þágu stefnda, verði ógilt með dómi, að stefnda verði gert að afhenda honum innlend spariskírteini í flokki nr. 100115 að nafnvirði 1.300.000 krónur og innlausnarverð hlutabréfa í Samherja hf. að nafnvirði 7.215 krónur, og að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart honum vegna tjóns, sem hann hafi orðið fyrir vegna sölu stefnda á hlutabréfum í eigu hans í Auðlind hf. að nafnvirði 598.645 krónur og í Delta hf. að nafnvirði 3.100 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hafnað málsástæðum áfrýjanda, sem reistar eru á 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum. Áfrýjandi styður kröfur sínar að öðru leyti við það að á grundvelli 36. gr. síðastnefndra laga beri að ógilda handveðsyfirlýsingu 29. janúar 2002, meðal annars vegna þess að með henni hafi verið gengið gegn samkomulagi, sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samband íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra gerðu 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, en við það sé stefndi bundinn. Í 2. gr. samkomulagsins er fjallað um gildissvið þess. Segir þar að það taki til „allra skuldaábyrgða, þ.e. sjálfskuldarábyrgða og einfaldra ábyrgða“ á skuldaskjölum, yfirdráttarheimildum á tékkareikningum og úttektum með kreditkortum, en einnig til þess er „einstaklingur hefur gefið út leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings.“ Ljóst er af ákvæðum þessum að þar er um tæmandi talningu að ræða og að samkomulagið taki ekki til tilvika, þar sem lausafé er sett að handveði til tryggingar skuldum annars manns. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2006.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 12. maí 2005 og dómtekið 16. desember sl. Stefnandi er Jóhann L. Jóhannsson, Hofteigi 8, Reykjavík. Stefndi er Sparisjóðabanki Íslands hf., Rauðarárstíg 27, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að handveðsyfirlýsing undirrituð og útgefin af honum 29. janúar 2002 til handa stefnda verði ógilt með dómi. Í öðru lagi krefst hann þess að stefnda verði gert að afhenda stefnanda spariskírteini nr. 10-0115 (áður 89/2A10) að nafnvirði 1.300.000 krónur og innlausnarverð hlutabréfa í Samherja hf. að nafnvirði 7215 krónur. Í þriðja lagi krefst hann þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna ólögmætrar sölu stefnda á hlutabréfum í eigu stefnanda í Auðlind hf. að nafnvirði 598.645 krónur og í Delta hf. að nafnvirði 3100 krónur. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu auk málskostnaðar.
I.
Málsatvik
Mál þetta lýtur að gildi handveðsyfirlýsingar sem stefnandi undirritaði 29. janúar 2002 að beiðni bróður síns, Áka Jóhannssonar, en hann afhenti yfirlýsinguna svo starfsmönnum stefnda ásamt tilteknum verðbréfum stefnanda sem þá voru í vörslu Áka. Í kjölfarið voru einnig rafræn verðbréf í eigu stefnanda færð til stefnda sem handveð stefnda. Ágreiningslaust er að umrædd handveðsyfirlýsing var samin af starfsmönnum stefnda. Í haus yfirlýsingarinnar er ritað „HANDVEÐSYFIRLÝSING“. Í upphafi meginmáls yfirlýsingarinnar segir eftirfarandi:
„Undirritaður, Jóhann Lárus Jóhannsson (veðsali), kt. [...], Bólstaðarhlíð 31, 105 Reykjavík gerir kunnugt:
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum Áka Jóhannssonar (skuldara), kt. [...], Huldubraut 20, 200 Kópavogi, við Sparisjóðabanka Íslands hf. (bankinn), kt. [...], nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, í hvaða formi sem skuldbindingarnar eru eða verða á hverjum tíma, allt að vali bankans og hvort sem um er að ræða höfuðstól, vexti verðbætur, gengismun, dráttarvexti eða kostnað, hverju nafni sem nefnist, þ.m.t. innheimtu- og lögmannskostnaður, í hvaða gjaldmiðli sem er, er bankanum hér með sett að handveði:
Öll verðbréf og rafbréf veðsala sem eru vörslu bankans og skráð hjá bankanum og/eða Verðbréfaskráningu Íslands hf. á hverjum tíma.
[...] “
Því næst eru í yfirlýsingunni ákvæði um til hvers veðsetningin tekur, hvaða heimildir bankinn hafi yfir hinu veðsetta og hverjar séu afleiðingar vanefnda skuldara sem ekki er ástæða til að rekja sérstaklega. Undir miðja yfirlýsinguna, á línu sem auðkennd er með textanum „Undirskrift veðsala“ er handritað nafn stefnanda. Neðst á yfirlýsingunni til vinstri er að finna textann „Vottar að réttri dagsetningu og undirskrift veðsala“ og eru þar handrituð nöfnin Atli Sturluson og Guðlaug J. Sturludóttir.
Ágreiningslaust er að haustið 1999 komu Áki Jóhannsson og faðir hans og stefnanda, Jóhann Lárus Jónasson, á fund Friðriks Halldórssonar, starfsmanns stefnda. Í kjölfar fundarins hóf Jóhann Lárus verðbréfaviðskipti hjá stefnda og aðstoðaði Áki Jóhannsson föður sinn í þessum viðskiptum, m.a. með því að annast ýmis samskipti við starfsmenn stefnda. Samkvæmt skýrslu Jóhanns Lárusar fyrir dómi hætti hann verðbréfaviðskiptum hjá stefnda í mars 2000, en bréf í hans eigu voru þó áfram vistuð hjá stefnda. Stuttu síðar, þ.e. sumarið 2000, hóf Áki sonur hans verðbréfaviðskipti í eigin nafni hjá stefnda. Var þar bæði um að ræða kaup og sölu á verðbréfum í eigu Áka og einnig svokallaða afleiðusamninga, öðru nafni framvirka samninga, sem fólu það í sér að stefndi fjármagnaði kaup Áka á hlutabréfum og skyldi kaupverðið greiðast síðar á ákveðnum degi. Gögnum málsins ber saman um að verðbréfaviðskipti Áka hafi gengið illa og hann hafi tapað fé á umræddum samningum, en ekki liggur fyrir skuld Áka hjá stefnda, sundurliðuð eftir tímabilum. Skýrslum fyrir dómi bar saman um að þegar komið var fram á árið 2001 hafi tap Áka verið orðið svo mikið að frekari samningar Áka hafi verið stöðvaðir og starfsmenn stefnda reynt að beina viðskiptum Áka í áhættuminni farveg með það að markmiði að minnka tap hans.
Samkvæmt framburði Áka Jóhannssonar fyrir dómi var það um haustið 2001 sem starfsmenn stefnda fóru að kalla eftir auknum tryggingum af hans hálfu. Fyrir liggur að á tímabilinu 30. apríl 2001 til 30. desember 2002 falsaði Áki svo nafnritun föður síns og tveggja bræðra, þ.á m. stefnanda, á ýmis skjöl sem hann notaði í blekkingarskyni gagnvart fjármálastofnunum, þar á meðal gagnvart starfsmönnum stefnda. Áki var ákærður fyrir alls 10 brot gegn 155. gr. hegningarlaga með ákæru 22. ágúst 2003. Þrír liðir ákærunnar vörðuðu viðskipti Áka við stefnda og var Áki þar sakaður um skjalafals samkvæmt 155. gr. hegningarlaga með eftirfarandi háttsemi:
„3. Með því að falsa nafnritun föður síns Jóhanns Lárusar Jónassonar, undir handveðsyfirlýsingu dags. 29. janúar 2002 sem bar með sér að Jóhanns Lárus setti að handveði til Sparisjóðabanka Íslands hf. öll verðbréf og rafbréf sín í vörslu bankans og skráð hjá bankanum og/eða Verðbréfaskráningu Íslands hf. á hverjum tíma, sem námu að markaðsverði 16. janúar 2003 kr. 2.884.187, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu ákærða á öllum skuldbindingum hans gagnvart bankanum.
4. Með því að falsa nafnritun bróður síns Jónasar Jóhannssonar, kt. 071162-5089, undir handveðsyfirlýsingu dags. 29. janúar 2002 sem bar með sér að Jónas setti að handveði til Sparisjóðabanka Íslands hf. öll verðbréf og rafbréf sín í vörslu bankans og skráð hjá bankanum og/eða Verðbréfaskráningu Íslands hf. á hverjum tíma, sem námu að markaðsverði 14. janúar 2003 kr. 2.687.760, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu ákærða á öllum skuldbindingum hans gagnvart bankanum. [...]
6. Með því að falsa nafnritun bróður síns Jóhanns L. Jóhannssonar á tryggingarbréf nr. 18124 til staðfestingar á samþykki Jóhanns L. fyrir veðsetningu á fasteign hans að Bólstaðarhlíð 31, Eh.1 í húsi:16,67 (M-0001), öðrum veðrétti, en tryggingarbréfið sem var að fjárhæð allt að kr. 12.000.000 gaf ákærði út 30. júní 2002 til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum allra skuldbindinga ákærða gagnvart Sparisjóðabanka Íslands hf.“
Þá var Áki ákærður fyrir að hafa í blekkingarskyni notað tvö umboð til verðbréfaviðskipta í nafni stefnanda sem hann afhenti starfsmönnum stefnda eftir að hafa falsað nafnritanir stefnanda undir þau, svo sem hér segir:
„1. Umboð dags. september 2002 sem ákærði falsaði nafnritun bróður síns Jóhanns L. Jóhannssonar, undir og bar með sér að veita ákærða umboð til að kaupa og selja skuldabréf og hlutabréf í nafni Jóhanns L. sem voru í vörslu Sparisjóðabanka Íslands hf.
2. Umboð dags. 1. desember 2002 sem ákærði falsaði nafnritun Jóhanns L. undir og bar með sér að veita ákærða fullt og óskorað umboð til að kaupa og selja verðbréf fyrir hönd Jóhanns L., taka við greiðslum, koma fram fyrir hans hönd varðandi slík viðskipti, og til að ráðstafa framangreindum greiðslum til greiðslu skulda Jóhanns L. við Sparisjóðabanka Íslands hf.“
Áki játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2003 dæmdur til að sæta fangelsi í 15 mánuði, þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir.
Um þá handveðsyfirlýsingu sem stefnandi undirritaði 29. janúar 2002 er ekki fjallað í framangreindri ákæru eða dómi héraðsdóms. Í málinu er þó ágreiningslaust að í kjölfar útgáfu handveðsyfirlýsingarinnar afhenti Áki stefnda spariskírteini í eigu stefnanda að nafnvirði 1.300.000 krónur og hlutabréf í Samherja hf. að nafnvirði 7.215 krónur, en þessi bréf var Áki með í vörslum sínum, eins og nánar verður rakið síðar. Þá skráðu starfsmenn stefnda rafræn hlutabréf í eigu stefnanda sem handveðsett og mun þar hafa verið um að ræða bréf í Auðlind hf. að nafnvirði 598.645 krónur og hlutabréf í Delta hf. að nafnvirði 3100 krónur.
Fyrir dómi bar stefnandi að hann kannaðist við undirritun sína undir handveðsyfirlýsinguna 29. janúar 2002. Hins vegar hefði hann fyrst í mars 2003 við skýrslugjöf hjá lögreglu áttað sig á því að hann hefði í raun og veru undirritað yfirlýsingu um handveð á verðbréfum í sinni eigu. Taldi stefnandi að Áki hefði hugsanlega blekkt sig með því að segja honum að um væri að ræða vottun skjals. Hann hefði því alls ekki gert sér grein fyrir því hvers konar gerning hann hafi undirritað. Útilokaði hann ekki að meginefni skjalsins hefði verið hulið eða Áki hefði villt um fyrir honum með einhverjum hætti án þess að hann gæti rifjað það upp nákvæmlega.
Áki Jóhannsson gaf skýrslu fyrir lögreglu 27. febrúar 2003 og var þá meðal annars borin undir hann handveðsyfirlýsingin 29. janúar 2002. Í skýrslu Áka segir eftirfarandi:
„Áki segist ekki muna eftir að Jóhann L. Jóhannsson, bróðir hans hafi skrifað undir þessa handveðsyfirlýsingu. Áki segist ekki hafa skrifað sjálfur undir þessa handveðsyfirlýsingu. Hann segir að vel geti verið að Jóhann, bróðir hans, hafi skrifað undir þessa handveðsyfirlýsingu án þess að vita hvað hann var að skrifa undir. [/] Áki er spurður hvers vegna hann hafi verið með fjögur spariskírteini ríkissjóðs útgefin 1989 2.fl.A samtals að nafnvirði kr. 1.300.000,00, í eigu bróður hans Jóhanns L. Jóhannssonar, sem Áki fékk starfsmanni Sparisjóðabanka Íslands hf. með handveðsyfirlýsingunni, til tryggingar fyrir skilvísum greiðslum á skuldum Áka við bankann. [/] Áki segir að öll þessi bréf hafi verið geymd í bankahólfi föður síns. Hann segist ekki vita í hvaða banka faðir hans sé með bankahólf, en telur líklegt að það sé í BÍ þar sem hann er með sín viðskipti. Áki segir að faðir hans hafi afhent sér þessi bréf í þeim tilgangi að skipta þeim út fyrir bréf til lengri tíma til að tryggja þeim betri vexti til lengri tíma. hann segist hins vegar hafa tekið þessi bréf og farið með þau beint í Sparisjóðabanka Íslands og lagt þau fram til tryggingar fyrir skuldum sínum þar, er sköpuðust af tapi hans á verðbréfaviðskiptum við bankann.“
Í skýrslu sinni fyrir dómi bar Áki að stefnandi hefði verið í heimsókn heima hjá honum þegar hann skrifaði undir handveðsyfirlýsinguna. Hann hafi líklega sagt bróður sínum að um hafi verið að ræða vottun. Stefnandi hafi ekki vitað undir hvers konar skjal hann var að skrifa. Aðspurður um hvort hann hefði blekkt bróður sinn til að rita undir skjalið svaraði Áki því játandi og sagðist hafa undirbúið það vel. Hann hefði þó ekki leynt texta skjalsins með nokkrum hætti. Lýsing hefði verið góð í herberginu og stefnandi hefði ekki verið undir áhrifum áfengis eða í andlegu ójafnvægi. Hann bar að vottar á skjalinu hefðu ekki verið viðstaddir. Var sá framburður síðar staðfestur í skýrslu Guðlaugar Júlíu Sturludóttur, fyrrverandi eiginkonu Áka, annars vottanna á skjalinu, en í gögnum málsins kemur einnig fram að hinn votturinn, Atli Sturluson, hafi sagt frá atburðum með sama hætti við yfirheyrslur hjá lögreglu. Áki bar að hann hefði verið með tiltekin verðbréf í eigu stefnanda í sínum vörslum, en önnur bréf hefðu verið rafræn. Aðspurður um hvernig hin bréflegu verðbréf hefðu komist í vörslur hans svaraði hann því fyrst til að hann hefði tekið þau í heimildarleysi frá föður sínum. Nánar aðspurður sagði hann hins vegar að faðir hans hefði afhent honum bréfin nokkru fyrr, líklega einhvern tímann í janúar 2002, í þeim tilgangi að ræða við Búnaðarbanka Íslands hf. um hvort rétt væri að selja bréfin.
Í framburði Jóhanns Lárusar Jónassonar, föður Áka Jóhannssonar og stefnanda, kom fram að hann hefði afhent Áka spariskírteini í eigu stefnanda einhverjum mánuðum fyrir janúar 2002 í þeim tilgangi að þau yrðu notuð sem trygging í verðbréfaviðskiptum hjá Búnaðarbanka Íslands hf. Ekkert hafi orðið af þessum viðskiptum. Hafi hann beðið Áka um að skila bréfunum en hann hafi ekki gert það. Honum hafi svo ekki orðið ljóst hvað varð um bréfin fyrr en svik Áka komu í ljós á árinu 2003. Jóhann staðfesti að umrædd bréf hefðu verið raunveruleg eign stefnanda. Hefði hann séð um að kaupa þessi bréf fyrir stefnanda, aðallega í tengslum við skattaafslátt á sínum tíma, og geyma þau fyrir hann.
Í stefnu segir að á grundvelli umræddrar handveðsyfirlýsingar hafi stefndi átt ýmis viðskipti með hlutabréfaeign stefnanda og valdið honum verulegu tjóni. Hlutabréfaeign stefnanda í vörslu stefnda miðað við 1. desember 2004 sé eftirfarandi: Hlutabréf í Samherja hf. að nafnvirði 7.215 krónur og innlend spariskírteini nr.10-0115 (áður 89/2A10) að nafnvirði 1.300.000 krónur. Auk þess hafi stefnandi átt hlutabréf í Auðlind hf. að nafnvirði 598.645 krónur og hlutabréf í Delta hf. að nafnvirði 3.100 krónur sem stefndi móttók 29. janúar 2001 og seldi síðar á grundvelli handveðsyfirlýsingarinnar. Andvirðinu hafi svo verið ráðstafað í þágu stefnda. Stefnanda hafi aldrei verið tilkynnt um fyrirhugaða sölu eða hvernig söluverðinu yrði ráðstafað. Hann hafi því enga hugmynd haft um að hann væri ekki lengur eigandi að umræddum hlutabréfum. Við aðalmeðferð málsins var upplýst að stefndi hefði selt hlutabréf stefnanda í Samherja hf. Breytti stefnandi kröfugerð sinni á þá leið að í stað þess að krefjast afhendingar hlutabréfa stefnanda í Samherja hf. að nafnvirði 7.215 krónur krefst hann nú innlausnarverðs þessara bréfa. Var ekki gerð athugasemd við þessa breytingu á kröfugerð af hálfu stefnda.
Í stefnu segir að stefnandi hafi enga þekkingu á verðbréfum eða verðbréfaviðskiptum. Kom fram í aðilaskýrslu hans fyrir dómi að hann hafi litla þekkingu á viðskiptum og noti t.d. ekki debet-kort. Hann hafi ekki heyrt um starfsemi stefnda fyrr en í skýrslutöku hjá lögreglu þann 24. mars 2003. Hann hafi ekki vitað að stefndi væri með í vörslum sínum verðbréf í hans eigu, enda hafi faðir hans alfarið séð um öll slík viðskipti fyrir hans hönd án þess að stefnandi kæmi þar nærri. Í aðilaskýrslu stefnanda kom þó fram að hann hafi á tímabilum leigt íbúðarhúsnæði sem hann á í Bólstaðarhlíð og einnig hafi hann einu sinni undirritað veðleyfi vegna fasteignakaupa fyrir barn sitt í samráði við föður sinn.
Stefnandi hefur skorað á stefnda að leggja fram gögn sem sýna skuldastöðu Áka á þeim tíma þegar umrædd handveðsyfirlýsing var útbúin. Af hálfu stefnda hafa verið lögð fram ýmis gögn um skuldastöðu Áka Jóhannssonar við stefnda á mismunandi tímum og yfirlit yfir verðbréfaeign hans. Ekki er ástæða til að rekja þessi gögn sérstaklega. Ágreiningslaust er að núverandi skuldastaða Áka Jóhannssonar við stefnda er umfram verðmæti þeirra verðbréfa stefnanda sem stefndi hefur í vörslum sínum. Eins og síðar greinir í lýsingu málsástæðna stefnanda er því hins vegar haldið fram að stefndi hafi leyft Áka Jóhannssyni að halda áfram verðbréfaviðskiptum jafnvel þótt fram væri í upphafi ársins 2003 að Áki hefði falsað skjöl og framvísað þeim til stefnda.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Friðrik Halldórsson, fyrrverandi starfsmaður stefnda, Áki Jóhannsson, Jóhann Lárus Jóhannsson, Ásgerður Hafstein, fyrrverandi starfsmaður stefnda, Bryndís Sigurðardóttir, starfsmaður stefnda, og Guðlaug Júlí Sturludóttir. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur frekar en þegar hefur verið gert.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að handveðsyfirlýsing stefnanda sé ógild þar sem hún hafi ekki lagastoð. Þannig fullnægi yfirlýsingin ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Í yfirlýsingunni sé hvergi tilgreind fjárhæð veðkröfu eða hámark þeirrar skuldar sem hún á að tryggja. Þannig segir í handveðssetningunni að stefnandi: „ábyrgist greiðslu á öllum skuldum Áka Jóhannssonar (skuldara) við útgáfu yfirlýsingarinnar og síðar á hvaða tíma sem er í hvaða formi sem skuldbindingarnar eru eða verða á hverjum tíma allt að vali bankans og hvort sem um er að ræða höfuðstól, vexti, verðbætur, gengismun, dráttarvexti eða kostnað, hverju nafni sem nefnist, þ.m.t. innheimtu- og lögmannskostnaður, í hvaða gjaldmiðli sem er, er bankanum hér með ...“ Hvorki sé getið um hámarksfjárhæð sem yfirlýsingunni er ætlað að tryggja eins og áskilið er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 né er skuldinni sem bréfinu er ætla að tryggja lýst á fullnægjandi hátt. Stefndi sé fjármálafyrirtæki og hafi samkvæmt þágildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996, sbr. núgildandi lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 borið víðtækar skyldur um fagleg vinnubrögð, þar með talið aðgæslu- og upplýsingaskyldu. Stefnandi telur að stefndi hafi ekki sinnt þeim skyldum eins og lög áskilja og því beri að ógilda handveðsyfirlýsinguna með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997.
Í annan stað byggir stefnandi á því að ógilda beri handveðsyfirlýsinguna á grundvelli 33. gr. nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem Áki hafi viðurkennt að hafa beitt stefnanda blekkingum til þess að fá undirskrift hans. Eins og áður hafi verið rakið þá hafi stefnandi hvorki haft hugmynd um tilvist stefnda né að hann ætti verðbréf í vörslum stefnda. Þá hafi stefnandi enga þekkingu á verðbréfaviðskiptum og hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað undirritun hans þýddi. Yfirlýsingin hafi að mati stefnanda verið fengin með óheiðarlegum hætti sem heiðvirð fjármálastofnun á borð við stefnda geti ekki borið fyrir sig í samræmi við 33. gr. laga nr. 7/1936. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að Áki hafi síðar falsað umboð frá stefnanda til handa sér þess efnis að honum væri heimilt að ráðstafa eignum stefnanda til greiðslu sinna skulda hjá stefnda. Fyrir það brot hafi Áki þegar verið dæmdur. Handveðsyfirlýsinguna verði að skoða í beinu samhengi við hin fölsuðu umboð sem Áki hafi verið dæmdur fyrir. Gefi þau vísbendingu um að stefndi hafi talið þörf á frekari umboðum frá stefnanda eftir að hafa fengið handveðsyfirlýsingu stefnanda. Þá beri líta til þess að vottar hafi ekki verið viðstaddir undirritun stefnanda.
Við umfjöllun sína um 33. gr. nr. 7/1936 vísar stefnandi einnig til þess að hann hafi aldrei gert sér grein fyrir því hvers konar ábyrgð hann væri að taka á sig, eins og áskilið er í samkomulagi milli fjármálafyrirtækja, Neytendasamtakanna og stjórnvalda frá 1. nóvember 2001. Hafi það verið sérstaklega mikilvægt þar sem um hafi verið að ræða allsherjarveðsyfirlýsingu útgefna af stefnanda í þágu þriðja aðila. Jafnframt hafi stefndi ekki framkvæmt greiðslumat vegna viðskipta Áka Jóhannssonar, eins og áskilið sé í 3. gr. samkomulagsins. Þá telur stefnandi ljóst að stefndi sjálfur hafi heldur ekki framkvæmt mat á greiðslugetu Áka, eins og þó sé áskilið í 6. gr. laga um neytendakaup nr. 121/1994. Telur stefnandi að á þeim tíma þegar stefndi krafðist viðbótartryggingar fyrir viðskiptum Áka hafi fjárhagsleg staða hans verið svo slæm að stefnandi hefði aldrei samþykkt að gangast í ábyrgð með þeim hætti sem handveðsyfirlýsingin gerir ráð fyrir.
Stefnandi telur að ef stefndi hefði sinnt skyldu sinni til að framkvæma greiðslumat vegna skuldastöðu Áka áður en handveðsyfirlýsingin var gefin út, þá hefði athygli stefnanda verið vakin á því að hann væri raunverulega að skrifa undir sem veðsali. Ljóst sé að vanræksla stefnda á því að leita eftir samþykki stefnanda fyrir því að greiðslumat hafi ekki verið gert verði að skýra stefnda í óhag.
Að lokum byggir stefnandi á því að verði ekki fallist á ofangreind sjónarmið þá beri að beita 36. gr. laga nr. 7/1936 og ógilda handveðsyfirlýsinguna þar sem bersýnilega sé ósanngjarnt að stefndi beri hana fyrir sig vegna þeirra aðstæðna sem uppi voru er stefnandi undirritaði yfirlýsinguna eins og áður hefur verið rakið. Þá sé það að mati stefnanda andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnda að bera hana fyrir sig þar sem stefndi beri einhliða ábyrgð á því að efni yfirlýsingarinnar sé ólögmætt og ósanngjarnt.
Krafa stefnanda um skil á verðbréfum í hans eigu, sem stefndi hefur enn í vörslu sínum og hefur neitað að afhenda stefnda á grundvelli handveðsyfirlýsingarinnar, er byggð á því að ljóst sé að stefndi geti ekki haldið verðmætum í eigu stefnanda á grundvelli ógildrar handveðsyfirlýsingar og því eigi stefnandi rétt á að fá eftirtalin verðbréf afhent, þ.e. annars vegar hlutabréf í Samherja hf. að nafnvirði 7215 krónur og hins vegar spariskírteini nr. 10-0115 (áður 89/2A10) að nafnvirði 1.300.000 krónur. Við aðalmeðferð málsins var upplýst að stefndi hefði selt hlutabréf stefnanda í Samherja hf. Breytti stefnandi kröfugerð sinni á þá leið að í stað þess að krefjast afhendingar hlutabréfa stefnanda í Samherja hf. að nafnvirði 7215 krónur krefst hann innlausnarverðs þessara bréfa.
Að því er varðar viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda vegna þeirra viðskipta sem áttu sér stað á grundvelli handveðsyfirlýsingar og falsaðs umboðs þá telur stefnandi ljóst að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna þeirra gerninga sem stefndi framkvæmdi á grundvelli handveðsyfirlýsingarinnar. Skaðabótaskylda stefnda sé byggð á því að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið stefnanda verulegu tjóni þar sem hlutabréf hans í Auðlind hf. að nafnvirði 598.645 krónur og hlutabréf í Delta hf. að nafnvirði 3100 krónur voru seld á grundvelli ógildrar eða ógildanlegrar allsherjaryfirlýsingar. Sú háttsemi stefnda sé alfarið á hans ábyrgð, þar sem ljóst sé að stefnanda hafi ekki verið tilkynnt um fyrirhugaða sölu á hlutabréfunum né á hvaða verði þau skyldu seld. Þá er ljóst að hlutabréfin sem stefnandi átti hafi margfaldast að verðmæti á þeim tíma sem liðinn er auk þess sem í einhverjum tilvikum kunni að vera að stefnandi hafi misst af tækifærum til þess að kaupa frekari hlutabréf á kjörum sem hluthöfum í félögunum stóðu einungis til boða. Jafnframt liggi fyrir að frá þeim tíma sem stefndi tók hlutabréf stefnanda í sínar vörslur og seldi þau, hafi stefnandi verið sviptur umráða- og eignarrétti yfir þeim bréfum og hafi hann sömuleiðis orðið fyrir tjóni vegna þess. Tjón stefnanda vegna sölu stefnda á hlutabréfum í eigu stefnanda sé bein afleiðing af réttarbroti stefnda sem áður er gerð grein fyrir. Hafi stefndi með saknæmum og ólögmætum starfsháttum bakað stefnanda tjón sem hann beri ótvírætt skaðabótaábyrgð á. Þar sem enn sé óvissa um endanlegt tjón stefnanda kjósi stefnandi að krefjast aðeins viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda.
Stefnandi vísar til laga nr. 75/1997 um samningsveð og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá er vísað til meginreglna skaðabótaréttar um skaðabótaskyldu, þá sérstaklega sakarreglunnar sem og reglna um sérfræðiábyrgð. Auk þess vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar um forsendur efnda fjárskuldbindinga og meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og ógildingarreglur samningalaga. Að sama skapi er vísað til laga nr. 121/1994 um neytendalán og lög nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. núgildandi lög nr. 161/2002.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vekur athygli á því að þótt því sé ítrekað haldið fram af stefnanda að hann hafi verið blekktur til að undirrita umrædda handveðsyfirlýsingu sé þrátt fyrir það ekki byggt á svikum sem sjálfstæðri málsástæðu eða vísað til laga því til stuðnings, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936.
Stefndi hafnar því að umrædd handveðsyfirlýsing fullnægi ekki skilyrðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997. Af orðalagi ákvæðisins og greinargerð með frumvarpi að lögunum megi sjá að kveðið sé á með skýrum hætti að ákvæðið nái ekki til handveða. Ákvæðið hafi auk þess eingöngu að geyma reglu sem varði formskilyrði samningsveða til að þau öðlist réttarvernd gagnvart þriðja manni við þinglýsingu en hefur engin áhrif á skuldbindingargildi handveðsyfirlýsingar milli veðhafa og veðsala. Jafnvel þótt talið yrði að ákvæðið ætti við um handveð væri samningurinn því gildur milli málsaðila. Lög um samningsveð geri hvergi þá kröfu til handveðsyfirlýsingar að tilgreind sé fjárhæð veðkröfunnar eða þeirrar skuldar sem hún á að tryggja. Kröfu stefnanda á þessum grundvelli er því alfarið hafnað. Stefndi hafnar því einnig að stefndi hafi ekki sinnt þeim faglegu skyldum sem lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 leggja á hann, þ.m.t. aðgæslu- og upplýsingaskyldu.
Stefndi hafnar því að skilyrði 33. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt í máli þessu. Hann bendir á að ekkert liggi fyrir um að Áki Jóhannsson hafi blekkt stefnanda til að skrifa undir yfirlýsinguna 29. janúar 2002. Fyrir liggi að Áki hafi ekki verið ákærður vegna yfirlýsingarinnar. Stefndi hafnar því alfarið að stefnandi hafi ekki vitað undir hvað hann var að skrifa þegar hann gaf út handveðsyfirlýsinguna. Á yfirlýsingunni, fyrir neðan undirritun stefnanda, standi skýrum stöfum „Undirskrift veðsala“. Þá beri yfirlýsingin heitið „Handveðsyfirlýsing“ sem ritað sé stórum hástöfum efst á blaðinu sem fyrirsögn. Sú krafa sé gerð til einstaklinga í viðskiptum að þeir lesi yfir þau skjöl sem þeir undirrita og bera þeir sjálfir ábyrgð á þeim skuldbindingum sem þeir taka sér á hendur. Yfirlýsing stefnanda í stefnu um að hann hafi talið sig vera að skrifa undir sem „vottur að einhverjum pappírum“ sé ekki studd neinum gögnum öðrum en yfirlýsingu stefnanda sjálfs. Hvað sem líði vottun yfirlýsingarinnar liggi fyrir að stefnandi hafi sjálfur viðurkennt að hafa undirritað handveðsyfirlýsinguna á tilgreindum degi. Undirritun vottanna varði því, svo sem hér stendur á, engu öðru en ábyrgð þeirra sjálfra gagnvart stefnda.
Stefndi hafnar því að skoða beri handveðsyfirlýsinguna í beinu samhengi við hin fölsuðu umboð og yfirlýsingar sem Áki Jóhannsson var sakfelldur fyrir að hafa gert, en um þessi afbrot Áka sé ekki deilt. Um það sé heldur ekki deilt í málinu að Áki hafi átt í fjárhagserfiðleikum þegar hann leitaði til stefnanda og bað hann um að skrifa undir yfirlýsinguna. Fjárhagserfiðleikar Áka geti hins vegar ekki orðið þess valdandi að handveðsyfirlýsing stefnanda sé ógild eða að óheiðarlegt hafi verið fyrir stefnda að reisa rétt sinn á henni. Stefnanda hafi verið fullljóst eða hefði mátt vera ljóst af orðalagi yfirlýsingarinnar hvers vegna Áki leitaði til hans. Stefndi hafi hins vegar allan tímann verið í góðri trú um að handveðsyfirlýsing stefnanda væri rétt og lögleg.
Stefndi hafnar því algjörlega að honum hafi borið að gera stefnanda grein fyrir því hvers konar ábyrgð hann væri að taka með yfirlýsingu sinni. Hann telur að samkomulag milli banka, verðbréfafyrirtækja, Neytendasamtakanna, Sambands íslenskra sparisjóða og viðskiptaráðherra frá 1. nóvember 2001, eigi ekki við um handveðsyfirlýsingar heldur eingöngu sjálfskuldaábyrgðir. Stefnda hafi því engin skylda borið til þess að greiðslumeta Áka vegna viðskipta hans við stefnda eða gera stefnanda grein fyrir því hvers konar ábyrgð hann væri að taka á sig. Stefnanda hafi mátt vera ábyrgð sín ljós af lestri yfirlýsingarinnar sem hann undirritaði og gaf út. Þá bendir stefndi jafnframt á að framangreint samkomulag hafi ekkert lagagildi og verði eingöngu skoðað sem stefnu- og/eða viljayfirlýsing aðila þess. Stefndi telur tilvísun í stefnu til 6. gr. laga um neytendalán nr. 141/1994 fráleita og telur enga reglu þar að finna sem átt geti við í málinu.
Stefndi bendir á að 33. gr. laga nr. 7/1936 beri að skýra þröngt með hliðsjón af meginreglunni um skuldbindingargildi samninga. Hann leggur áherslu á að stefndi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við handveðsyfirlýsingu stefnanda og hafi enga ástæðu haft til að ætla að hún væri ekki í samræmi við vilja stefnanda og beri stefnandi sönnunarbyrðina um annað. Samkvæmt orðalagi 33. gr. laga nr. 7/1936 beri að miða við þann tímapunkt þegar yfirlýsingin kom til vitundar stefnda. Það sé ekki næg ástæða til ógildingar samkvæmt greininni að stefnandi hafi lítið vit á verðbréfaviðskiptum. Stefnandi hefði þurft að vera andlega vanheill og samningurinn litaður af slíkri andlegri truflun til að fallist yrði á ógildingu af þessum ástæðum, en ekki sé byggt á slíkum grundvelli í stefnu. Samkvæmt öllu þessu sé skilyrðum 33. gr. laga nr. 7/1936 ekki fullnægt í málinu.
Stefndi telur að stefnandi rökstyðji með engum hætti hvaða atvik hafi verið uppi við gerð yfirlýsingarinnar, með hvaða hætti mismunandi staða samningsaðila geti valdið ógildingu yfirlýsingarinnar eða að hvaða leyti ósanngjarnt sé fyrir stefnda að bera hana fyrir sig samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936. Sé tilvísun stefnanda til greinarinnar því vanreifuð og órökstudd. Stefndi hafnar því að öðru leyti að ósanngjarnt sé fyrir hann að bera fyrir sig yfirlýsingu stefnanda vegna þeirra ástæðna sem uppi voru þegar yfirlýsingin var gefin út og vísar hann um þetta til sömu atriða og áður greinir í umfjöllun um 33. gr. laga nr. 7/1936. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að nein atvik hafi komið síðar til sem heimilað geti ógildingu yfirlýsingarinnar á grundvelli 36. gr.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna sölu stefnda á verðbréfum í eigu stefnanda. Vísar hann til þess að umrædd handveðsyfirlýsing sé skuldbindandi fyrir stefnanda eins og þegar hafi verið rökstutt. Af sömu ástæðum sé einnig kröfu um skil á bréfum sem stefndi hafi enn í vörslum sínum mótmælt.
Stefndi gerir alvarlega athugasemd við framsetningu viðurkenningarkröfu stefnanda og mótmælir áskilnaði hans um að auka við kröfur sínar á síðari stigum málsins vegna skaðabóta sem hann telur sig eiga tilkall til úr hendi stefnda. Það sé grundvallarskilyrði fyrir heimild stefnanda til að auka við kröfur sínar með þessum hætti að það verði ekki metið honum til vanrækslu. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að afla upplýsinga hjá stefnda um viðskipti með hlutabréfin áður en hann höfðaði mál þetta. Hefði hann því getað gert ákveðna kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda í stefnu.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir yfirlýsing stefnanda 29. janúar 2002, þar sem kveðið er á um að hann setji stefnda að handveði öll verðbréf og rafbréf sín sem séu í vörslu stefnda og skráð hjá stefnda og/eða Verðbréfaskráningu Íslands hf. á hverjum tíma, til tryggingar hvers konar skuldum Áka Jóhannssonar við stefnda. Upplýst er í málinu að á þeim tíma þegar yfirlýsingin var gefin út voru engin verðbréf í eigu stefnanda í vörslum stefnda. Í málinu er hins vegar komið fram að Áki Jóhannsson afhenti stefnda spariskírteini stefnanda og hlutabréf hans í Samherja hf., hvort tveggja á bréflegu formi, ásamt handveðsyfirlýsingunni 29. janúar 2002. Í framhaldinu munu starfsmenn stefnda hafa sótt rafbréf í eigu stefnanda á svokallað „hlutlaust“ svæði hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf., skráð þau sem veðsett og þannig svipt stefnanda ráðstöfunarheimildum yfir þeim. Ekkert liggur fyrir í málinu um hvort eða með hvaða hætti þessi „handveðsetning“ rafbréfanna var tilkynnt Verðbréfaskráningu Íslands hf. eða hvort og þá hvenær stefnanda voru sendar tilkynningar frá Verðbréfaskráningu Íslands hf. um rafbréfaeign hans. Eins og málið liggur fyrir verður því við það að miða að um engar slíkar tilkynningar til stefnanda hafi verið að ræða. Víkur þá að málsástæðum stefnanda fyrir kröfu hans um ógildingu handveðsyfirlýsingarinnar 29. janúar 2002.
Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð er fjallað um nánari skilyrði þess að samningsveð öðlist réttarvernd gagnvart þriðja manni við þinglýsingu. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna öðlast handveð ekki réttarvernd við þinglýsingu heldur við það að hið veðsetta er afhent veðhafa eða aðila sem tekið hefur að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Eðli málsins samkvæmt geta ákvæði 4. gr. laga nr. 75/1997 því ekki átt við um handveð og handveðsígildi, svo sem um ræðir í máli þessu. Hafa ákvæði 4. gr. laganna þar að auki ekki þýðingu um gildi veðsetningar milli veðsala og veðhafa, heldur lúta að réttarvernd veðhafa gagnvart þriðja manni, sem fyrr segir. Eru því haldlausar málsástæður stefnanda sem byggðar eru á umræddri grein laga nr. 75/1997.
Ekkert í málinu bendir til þess að starfsmenn stefnda hafi vitað eða mátt vita um með hvaða hætti Áki Jóhannsson aflaði undirskriftar stefnanda undir yfirlýsinguna 29. janúar 2002 þegar hún var móttekin í starfstöð stefnda. Var starfsmönnum stefnda afhent handveðsyfirlýsing, sem venjuleg var að formi og efni, undirrituð af stefnanda og vottfest. Samkvæmt þessu er ekki unnt að ætla að starfsmenn stefndu hafi á umræddu tímamarki haft vitneskju um atvik sem leitt geta til þess að óheiðarlegt sé fyrir stefnda að bera löggerninginn fyrir sig. Verður umrædd yfirlýsing því fráleitt talin ógild á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Koma þá að síðustu til skoðunar málsástæður stefnanda byggðar á 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.
Af hálfu stefnanda hefur verið lögð á það áhersla að hann hafi verið blekktur og aldrei verið ljóst hvað yfirlýsingin 29. janúar 2002 fól í sér. Í tilefni af þessari málsástæðu stefnanda telur dómari rétt að vekja athygli á því að samkvæmt íslenskum rétti er meginreglan sú að viljaskortur löggerningsgjafa leiðir því aðeins til ógildis að móttakandi gerningsins sé grandvís um viljaskortinn, sbr. gagnályktun frá 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936. Ranghugmyndir stefnanda um efni yfirlýsingarinnar 29. janúar 2002 geta því, einar og sér, ekki leitt til þess að yfirlýsingin teljist ógild, enda er því ekki haldið fram í málinu að stefnanda skorti almennt hæfi til þess að skuldbinda sig fjárhagslega með löggerningum. Verður því að kanna heildstætt hvort atvik séu með þeim hætti að það teljist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnda að bera fyrir sig umrædda yfirlýsingu. Verður við mat á þessu að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Eins og áður greinir er ekki annað komið fram en að handveðsyfirlýsingin 29. janúar 2002 sé venjuleg að formi og efni með hliðsjón af þeim viðskiptum sem hér um ræðir. Það verður ekki talið ósanngjarnt af hálfu stefnda, eða andstætt góðri viðskiptavenju, að fallast á að taka verðmæti náins skyldmennis Áka Jóhannssonar að handveði vegna viðskipta hans við stefnda. Máttu starfsmenn stefnda með réttu gera ráð fyrir að stefnandi hefði sinnt þeirri lágmarksskyldu að kynna sér efni þeirra yfirlýsingar sem hann undirritaði og að raunverulegur vilji hans kæmi þannig fram í yfirlýsingunni. Myndi niðurstaða í aðra átt vera ósamþýðanleg þeirri meginreglu íslensks réttar að fjárráða menn hafi heimild til að ráðstafa fjárhagslegum hagsmunum sínum að vild með löggerningum. Það er því álit dómara, að til að efni handveðsyfirlýsingarinnar 29. janúar 2002 geti talist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, verði að liggja fyrir að skuldastaða Áka Jóhannssonar við stefnda á þessum tíma hafi verið slík, að starfsmönnum stefnda hafi mátt vera ljóst að útilokað var í reynd að Áki gæti greitt skuldir sínar við stefnda.
Gögn málsins um skuldastöðu Áka Jóhannssonar hjá stefnda 29. janúar 2002 og þróun þessarar stöðu eftir þann dag, eru ekki eins og skýr og æskilegt væri. Með hliðsjón af umfangi viðskipta Áka og fyrirliggjandi upplýsingum um skuldir hans telur dómari þó ekki að legið hafi fyrir í janúar 2002 að skuldastaða Áka væri svo vonlaus að handveð stefnanda væri í reynd aðeins innborgun skyldmennis inn á botnlausar skuldir hans við stefnda. Eins og málið liggur fyrir verður því ekki talið að sýnt hafi verið fram á að efni yfirlýsingarinnar 29. janúar 2002 sé svo óvenjulegt eða íþyngjandi að skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 fyrir ógildi sé fullnægt.
Ekki verður séð að stöðumunur stefnanda og Áka við útgáfu yfirlýsingarinnar 29. janúar 2002 hafi verið þess eðlis að leitt geti til ógildingar hennar. Þá verður ekki talið að aðstæður við undirritun yfirlýsingarinnar hafi verið með þeim hætti að ósanngjarnt sé fyrir stefnda að bera hana fyrir sig. Koma þá til skoðunar atvik sem til komu eftir að yfirlýsingin var gefin út.
Í málinu er ekki komið fram að stefnanda hafi verið send kvittun fyrir móttöku þeirra verðbréfa sem stefndi tók að handveði. Á það ber að líta að kvittun handveðshafa fyrir móttöku hefur það að meginmarkmiði að taka af tvímæli um hvert sé andlag veðréttar. Í málinu er því ekki haldið fram að sérgreiningu veðandlagsins hafi verið ábótavant eða að stefndi hafi með einhverjum hætti farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt handveðsyfirlýsingunni. Þýðing hugsanlegrar vanrækslu á því að gefa út viðtökukvittun fyrir sakarefni málsins er því eingöngu sú að tilkynning sem þessi kynni að hafa vakið athygli stefnanda á skuldbindingu hans og verið honum tilefni til viðbragða sem ekkert liggur þó fyrir um hver hefðu átt að vera.
Þótt útgáfa viðtökukvittunar verði almennt talin til vandaðra viðskiptahátta þegar sett er að handveði og móttekið heildarsafn verðbréfa, svo sem um ræðir í máli þessu, verður að líta til þess að handveðssali verður að afsala sér umráðum og ráðstöfunarheimildum yfir andlagi handveðs til þess að handveðið öðlist réttarvernd, sbr. fyrrgreind ákvæði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997. Getur handveðssala því almennt ekki dulist hvaða verðmæti hann lætur af hendi hverju sinni enda þótt engin viðtökukvittun sé gefin út. Í því tilviki sem um ræðir í máli þessu voru þau verðbréf, sem sett voru að handveði, hins vegar ekki í vörslum stefnanda heldur undir höndum Áka Jóhannssonar, sem hafði fengið þau frá föður sínum og stefnanda, Jóhanni Lárusi Jónassyni, að því er virðist án samþykkis eða vitneskju stefnanda. Meginástæða þess að stefnanda gat dulist að stefndi hafði móttekið tiltekin verðbréf í hans eigu 29. janúar 2002, var þannig fyrst og fremst sú að umrædd bréf voru í vörslum annars manns og kom aldrei til þess að stefnandi þyrfti að sjá á eftir bréfunum. Að þessu virtu verður ekki séð að hugsanleg vanræksla stefnda á því að gefa stefnanda viðtökukvittun geti leitt til þess að umrædd handveðsyfirlýsing stefnanda sé, að hluta eða í heild, ógild samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936.
Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að stefnda hafi borið að fylgja ákvæðum í samkomulagi fjármálafyrirtækja, Neytendasamtakanna og stjórnvalda 1. nóvember 2001 um notkun sjálfskuldarábyrgða. „Sjálfskuldarábyrgð“ merkir, andstætt „einfaldri ábyrgð“, að maður ábyrgist greiðslu á tiltekinni skuld á gjalddaga, án tillits til þess hvort tilraunir hafi verið gerðar til þess að fá skuld greidda hjá skuldara. Fer sjálfskuldarábyrgð oft þannig fram að ábyrgðarmaður ritar einfaldlega nafn sitt á skuldaskjal, t.d. skuldabréf, eða „skrifar upp á“ eins og það er stundum nefnt í töluðu máli. Yfirlýsing um handveð felur hins vegar ekki í sér sjálfskuldarábyrgð í þessum skilningi, eins og stefnandi virðist ganga út frá, heldur það að ákveðin verðmæti eru afhent handveðshafa til tryggingar fullnustu á tiltekinni skuld. Yfirlýsing um handveð fer og fram með öðrum hætti en áritun sjálfskuldarábyrgðarmanns á skuldaskjal. Umrætt samkomulag 1. nóvember 2001 tekur samkvæmt orðum sínum til sjálfskuldarábyrgða í framangreindum skilningi auk ábyrgða á víxlum og veðsetningar á fasteign til tryggingar skuldum annars manns. Er því ljóst að samkomulagið hefur ekki þýðingu fyrir sakarefni málsins.
Dómari telur ósannað að viðskiptavenja gangi í þá átt að fjármálastofnanir kynni handveðssölum sérstaklega skuldastöðu skuldara þegar þeir gefa út handveðsyfirlýsingar í þeirra þágu. Stendur það handveðsölum næst að kanna sjálfir hver sé skuldastaða þess skuldara sem þeir ljá veð með þessum hætti. Þá telur dómari ósannað að stefndi hafi vanrækt þá skyldu sína að senda stefnanda tilkynningar um ráðstafanir stefnda á verðbréfum í hans eigu sem gerðar voru á grundvelli handveðsyfirlýsingarinnar 29. janúar 2002.
Samkvæmt öllu framangreindu verður hafnað þeim málsástæðum stefnanda sem grundvallaðar eru á 36. gr. laga nr. 7/1936. Fellst dómari því ekki á að umrædd handveðsyfirlýsing sé ógild og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Með hliðsjón af þeim vafaatriðum sem uppi eru í máli þessu, einkum þeim sem lúta að upplýsingum um skuldastöðu Áka Jóhannssonar við stefnda, og hversu seint gögn um þessi atriði hafa verið lögð fram í málinu af hálfu stefnda, verður málskostnaður látinn falla niður með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnanda flutti málið Guðrún B. Birgisdóttir hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Karl Axelsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sparisjóðabanki Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhanns L. Jóhannssonar.
Málskostnaður fellur niður.