Hæstiréttur íslands

Mál nr. 283/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 6

 

Þriðjudaginn 6. júní 2006.

Nr. 283/2006.

M

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

gegn

K

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Opinber skipti. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Í máli vegna ágreinings um opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks var talið að M hefði ekki með kröfugerð sinni farið útfyrir ágreiningsefni málsins eins og þau komu fram í bréfi skiptastjóra, sem vísaði málinu til úrlausnar héraðsdóms. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. maí 2006, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl., sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Eins og greint er frá í hinum kærða úrskurði er mál þetta sprottið af ágreiningi við opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks. Var í hinum kærða úrskurði vísað frá dómi vara- og þrautavarakröfum sóknaraðila í 1. tölulið kröfugerðar hans er lutu að ágreiningi um skiptingu söluandvirðis tiltekinnar fasteignar, sem var skráð eign varnaraðila. Beindi skiptastjóri ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms með bréfi 15. desember 2005. Kemur fram í bréfi skiptastjóra að á skiptafundi 2. desember það ár hafi komið fram ágreiningur með málsaðilum, meðal annars um hvernig skipta skyldi söluandvirði nefndrar fasteignar. Er frá því greint að sóknaraðili telji sig eiga tilkall til helmings söluandvirðis hennar en þeirri kröfu sé mótmælt af varnaraðila og telji hún sig hafa átt fasteignina að fullu.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er umrædd krafa þannig gerð að sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar þess að málsaðilar hafi átt fasteignina í jöfnum eignarhlutföllum og að varnaraðila verði samkvæmt því gert að greiða sér af söluandvirði hennar 6.750.000 krónur. Þá krefst hann af söluandvirði eignarinnar til vara greiðslu á 4.000.000 krónum og til þrautavara greiðslu á 2.505.600 krónum, í öllum tilvikum með nánar tilgreindum vöxtum.

Ekki verður fallist á með héraðsdómara að framangreind kröfugerð rúmist ekki innan þess ágreiningsefnis sem samkvæmt framansögðu var borið upp við héraðsdóm samkvæmt 112. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991, enda ganga vara- og þrautavarakröfur sóknaraðila skemmra en aðalkrafa hans og felast þar af leiðandi í henni. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið að fullu til efnismeðferðar.

Það athugast að ekki verður betur séð en að staðfestingarkrafa sóknaraðila, sem fram kemur í fyrri hluta aðalkröfu hans, feli aðeins í sér málsástæðu fyrir fjárkröfunni.

 Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið  að fullu til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. maí 2006.

Mál þetta var þingfest 20. janúar sl. og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila 5. apríl sl.  Sóknaraðili er M en varnaraðili K. 

Dómkröfur sóknaraðila eru eftirfarandi: 

1.Aðallega, að staðfest verði, að sóknaraðili hafi átt íbúðina 0302 (fastanúmer [...]) í A, til jafns við varnaraðila og eigi því helming af hreinu söluandvirði íbúðarinnar við sölu hennar 29. apríl 2005 miðað við stöðu áhvílandi skulda þann 15. júní 2004 og að varnaraðila verði samkvæmt því gert skylt að greiða honum kr. 6.750.000 með dráttarvöxtum frá 29. apríl 2005 til greiðsludags.

Til vara undir þessum lið krefst sóknaraðili kr. 4.000.000 auk dráttarvaxta frá 29. apríl 2005 til greiðsludags.

Til þrautavara undir þessum lið krefst sóknaraðili greiðslu kr. 2.505.600 auk dráttarvaxta af kr. 2.100.000 frá 15. júní 2004 til 1. júlí sama ár, af kr. 2.277.000 frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af kr. 2.377.600 frá þeim degi til 1. september sama ár og af kr. 2.505.600 frá þeim degi til greiðsludags.

2.Að hann eigi og fái helming hlutafjár eða verðbréfs þess í Kaupþingi Búnaðarbanka hf., sem var á nafni varnaraðila við sambúðarslit 15. júní 2004.  Hafi eign þessi verið seld krefst hann helmings söluandvirðisins auk dráttarvaxta frá söludeginum til greiðsludags.

3.Að varnaraðili endurgreiði honum kr. 148.500, sem er  helmingur kaupverðs tiltekinna heimilistækja, auk dráttarvaxta frá 15. júní 2004 til greiðsludags.

4.Að varnaraðili greiði allan málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum reikningi, ef hann verður lagður fram.

Varnaraðili gerir þá frávísunarkröfu að krafa sóknaraðila í varakröfu og þrautavarakröfu verði vísað frá dómi.  Að öðru leyti gerir varnaraðili þær kröfur að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að aðilar máls þessa voru í sambúð frá haustinu 1999 til 15. júní 2004.  Þau eignuðust eitt barn á sambúðartímanum.  Áður en sambúð aðila hófst hafði varnaraðili keypt íbúð að B.  Sú íbúð var seld haustið 2003 og þá keypt íbúð að A. 

Við sambúðarslit gerðu aðilar tilraun til að koma á samkomulagi vegna fjárslita og var samkomulag milli þeirra undirritað.  Varnaraðili rifti síðar samkomulaginu þar sem hún taldi það bersýnilega ósanngjarnt.  Jafnframt því að deila um fjárskipti sín í milli hafa aðilar deilt um forsjá barns síns og gekk dómur í forsjármálinu í Héraðsdómi Reykjaness 31. janúar sl.  Sóknaraðili hefur áfrýjað þeim dómi til Hæstaréttar.  Varnaraðili átti íbúðina að A áfram eftir sambúðarslit en seldi hana á árinu 2005.

II.

Í þessum þætti málsins krefst varnaraðili frávísunar á kröfulið 1 hvað varðar vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila.  Frávísunarkrafan er byggð á því að þessum kröfum sóknaraðila hafi ekki verið lýst í beiðni skiptastjóra til héraðsdóms heldur hafi sóknaraðili bætt kröfunum við í greinargerð sinni til héraðsdóms sem sé óheimilt. 

Málskot þetta byggist á 112. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 122. gr. sömu laga.  Í 112. gr. segir að rísi ágreiningur milli aðila við opinber skipti um skiptingu eigna skal skiptastjóri leitast við að jafna hann.  Takist það ekki beinir skiptastjóri ágreiningsefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr.  Þar segir meðal annars að skiptastjóri skuli beina skriflegri kröfu til héraðsdóms þar sem meðal annars komi fram um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram af hálfu aðila.

Framangreind ákvæði laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. verða túlkuð á þann veg, sbr. Hæstaréttardómur nr. 146/2002 frá 8. maí 2002, að héraðsdómur fjalli aðeins um þau ágreiningsatriði sem skiptastjóri hefur reynt að sætta og afmarka og að því búnu lagt fyrir dóminn. Verður því að vísa frá vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila undir tölulið 1 í dómkröfum hans. 

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Vísað er frá dómi vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila undir tölulið 1 í dómkröfum hans.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.