Hæstiréttur íslands

Mál nr. 419/2002


Lykilorð

  • Veðflutningur
  • Veðbandslausn


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. desember 2002.

Nr. 419/2002.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Magnús Thoroddsen hrl.)

gegn

Sparisjóði Hafnarfjarðar

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

 

Veðflutningur. Veðbandslausn.

V hf. og S deildu um lausn bifreiðarinnar KJ 985 úr veðböndum og flutning veðsins yfir á bifreiðina SY 302 og yfirlýsingu S af því tilefni. Hafði S átt 1. veðrétt í bifreiðinni KJ 985 en við sölu á henni, þar sem bifreiðin SY 302 gekk upp í kaupin, hafði að kröfu V hf. verið óskað eftir að veðið yrði fært yfir á síðarnefndu bifreiðina vegna láns V hf. til kaupanda hinnar fyrrnefndu. S féllst á það með yfirlýsingu þar sem tekið var fram að skuldabréfið væri að eftirstöðvum 1.800.000 krónur og gaf V hf. út veðskuldabréf með 1. veðrétt í bifreiðinni. S hafði hins vegar ekki aflétt veðinu og gekk síðar að því en við nauðungarsölu fékkst ekkert upp í kröfur V hf. Talið var ótvírætt af gögnum málsins að V hf. hefði verið ljóst að verulega þyrfti að greiða niður áhvílandi veðskuld á bifreiðinni KJ 985 áður en til þess kæmi að S leysti hana úr veðböndum og flytti veðið yfir á bifreiðina SY 302. Í því skyni greiddi hann 1.000.000 krónur inn á skuldina og var sú greiðsla hluti af láni vegna kaupa á bifreiðinni. Með eðlilegri aðgæslu hefði V hf. jafnframt átt að vera ljóst að þessi greiðsla nægði ekki til að eftirstöðvar veðskuldarinnar yrðu 1.800.000 krónur eins og þær voru sagðar vera í yfirlýsingu S og líta yrði á sem skilyrði af hans hálfu fyrir veðflutningi og veðbandslausn þótt það hefði mátt vera skýrar orðað. Átti V hf. þannig ekki að veita lánið fyrr en það hafði fengið vissu fyrir því að veðskuldin hefði verið komin niður í 1.800.000 krónur. Talið var að hann yrði sjálfur að axla ábyrgð af því að hafa veitt lánið án slíkrar staðfestingar enda benti ekkert í gögnum málsins til þess að S hefði gefið nokkurn ádrátt um að færa veðið yfir á verðminni bifreið nema eftirstöðvar væru þær sem í yfirlýsingu hans sagði. Var S því sýknaður af kröfum V hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Héraðsdómi var áfrýjað 6. september 2002. Áfrýjandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.088.872 krónur með nánar greindum dráttarvöxtum frá 5. júní 2000 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er réttilega lýst í héraðsdómi að öðru leyti en því, að nokkrar dagsetningar hafa misritast. Áfrýjandi veitti fyrirtækinu Skýjum ofar ehf. lán að fjárhæð 2.357.690 krónur til kaupa á bifreiðinni KJ 985 og var veðskuldabréf vegna þess gefið út 5. apríl 2000 með 1. veðrétti í bifreiðinni. Skjalinu var þinglýst 7. apríl sama ár á 2. veðrétti, þar sem enn hvíldi á bifreiðinni lán stefnda til HTH ehf. að fjárhæð 2.930.000 krónur. Áfrýjandi greiddi 1.000.000 krónur inn á þá skuld 6. apríl 2000, en það nægði ekki til að koma eftirstöðvum hennar niður í 1.800.000 krónur, eins og ráð var fyrir gert í yfirlýsingu stefnda um veðflutning og veðbandslausn frá 1. mars 2000, sem send var áfrýjanda með símbréfi 5. apríl sama ár. Af veðflutningnum varð ekki og var bifreiðin seld nauðungarsölu 12. maí 2001, án þess að áfrýjandi fengi nokkuð greitt upp í veðkröfu sína.

Það er ótvírætt af gögnum málsins, að áfrýjanda var ljóst, að verulega þyrfti að greiða niður áhvílandi veðskuld á bifreiðinni KJ 985, áður en til þess kæmi, að stefndi leysti hana úr veðböndum og flytti veðið yfir á bifreiðina SY 302. Í því skyni greiddi hann 1.000.000 krónur inn á skuldina 6. apríl 2000 og var sú greiðsla hluti af láni hans til fyrirtækisins Skýjum ofar ehf. vegna kaupa þess á bifreiðinni. Með eðlilegri aðgæslu hefði áfrýjanda jafnframt átt að vera ljóst, að þessi greiðsla nægði ekki til að eftirstöðvar veðskuldarinnar yrðu 1.800.000 krónur, eins og þær voru sagðar vera í yfirlýsingu stefnda rúmum mánuði fyrr og líta verður á sem skilyrði af hans hálfu fyrir veðflutningi og veðbandslausn, þótt það hefði mátt vera skýrar orðað. Áfrýjandi átti þannig ekki að veita lánið fyrr en hann hafði fengið vissu fyrir því, að veðskuldin væri komin niður í 1.800.000 krónur. Verður hann sjálfur að axla ábyrgð af því að hafa veitt lánið án slíkrar staðfestingar, enda bendir ekkert í gögnum málsins til þess, að stefndi hafi gefið nokkurn ádrátt um að færa veðið yfir á verðminni bifreið nema eftirstöðvar væru þær, sem í yfirlýsingu hans sagði.

Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnda, Sparisjóði Hafnarfjarðar, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2002.

Mál þetta var þingfest 20. febrúar 2002 og dómtekið 13. júní sl.   Stefnandi er Vátryggingafélag Íslands, Ármúla 3, Reykjavík en stefndi er Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða 2.088.872 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. júní 2000 til 23. október 2000, af 2.357.690 krónum frá þeim degi til 15. mars 2001, af 2.228.872 krónum frá þeim degi til 12. mars 2001, af 2.193.872 krónum frá þeim degi til 19. mars 2001, af 2.158.872 krónur frá þeim degi til 26. mars 2001, af 2.123.872 frá þeim degi til 1. júlí 2002 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr.6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.088.872 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

I.

Stefndi lánaði HTH efh. 2.930.000 krónur til kaupa á bifreiðinni KJ-985.  Skuldin var tryggð með veðskuldabréfi útgefnu 8. júní 1999 sem hvíldi á 1. veðrétti á bifreiðinni. Skýjum ofar ehf. hugðist kaupa bifreiðina KJ-985, m.a. með því að láta bifreið sína SY-302 upp í kaupin.  Skýjum ofar ehf. leitaði nú til stefnanda með lánafyrirgreiðslu til þess að kaupin gætu farið fram. 

Til þess að svo mætti verða þurfti að flytja lán stefnda af bifreiðinni KJ-985 yfir á bifreiðina SY-302. HTH. ehf. óskaði eftir því við stefnda að svo yrði gert og að bifreiðin KJ-985 yrði þar með leyst úr veðböndum.  Stefndi féllst á þessa málaleitan og útbjó yfirlýsingu um veðflutning og veðbandslausn, dagsetta 1. mars 2000.  Segir í henni að skuldabréfið sé nú að eftirstöðvum 1.800.000 krónur og óskað sé eftir að yfirlýsingin verði færð í veðmálabækur á hina nýju eign sem viðbótarákvæði við fyrrgreint skuldabréf.

Svo fór að þessari yfirlýsingu um veðflutning og veðbandslausn var aldrei þinglýst.  Stefndi segir að ástæðan hafi verið sú að það hafi verið skilyrði af hans hálfu að skuldin yrði fyrst greidd niður um 1.220.914 krónur og henni komið niður í 1.800.000 eins og yfirlýsingin beri sjálf með sér.  Þá hefur stefndi einnig lagt fram útskrift úr fundargerð lánafundar hjá stefnda þar sem segir að lánið verði greitt niður um 1.220.914 krónur.  Stefndi segir að stefnanda hafi verið fullkunnugt um þetta skilyrði enda hafi hann sjálfur greitt 1.000.000 krónur inn á skuldina 7. apríl 2000.  Frekari greiðslur hafi hins vegar ekki borist þrátt fyrir ítrekuð loforð skuldara þar um og því hafi ekkert orðið af veðflutningnum.  Að auki hafi komið í ljós þann 11. maí 2000 að nýju láni hafði verið þinglýst á bifreiðina SY-302 að fjárhæð 1.899.180 krónur og hvíldi það á 1. veðrétti.  Með því hafi veðflutningur í raun verið útilokaður.

Stefnandi kveðst aftur á móti hafa treyst því að bifreiðin KJ-985 yrði leyst úr veðböndum og hafi því lánaði Skýjum ofar ehf. 2.357.690 krónur til kaupa á bifreiðinni.  Var gefið út veðskuldabréf fyrir skuldinni 5. mars 2000 með 1. veðrétti í bifreiðinni KJ-985 og sjálfskuldarábyrgð Ara Þórðarsonar.  Skjalinu var þinglýst 7. mars 2000 á 2. veðrétt með þeim athugasemdum að á 1. veðrétti hvíldi lán stefnda að fjárhæð 2.930.000 krónur.  Stefnandi segir að hið nýja lán að fjárhæð 2.357.690 krónur sundurliðist þannig að 1.304.542 krónur hafi verið uppgreiðsla veðskuldar sem hvílt hafi á bifreiðinni SY-302 og 1.000.000 krónur hafi verið viðbótarlán til Skýjum ofar ehf. sem hafi verið notað til að greiða niður skuldina við stefnda.  Mismunur að fjárhæð 53.148 krónur sé kostnaður vegna útgáfu skuldabréfsins.  Veðskuldabréf stefnanda fór í vanskil og þann 11. maí 2001 var bifreiðin KJ-985 seld nauðungarsölu.  Stefndi leysti bifreiðina til sín fyrir 1.450.000 krónur en ekkert fékkst upp í veðkröfu stefnanda.

II.

Stefnandi byggir kröfu sína á ofangreindri yfirlýsingu um veðflutning og veðbandslausn.  Á grundvelli yfirlýsingarinnar hafi stefnandi lánað Skýjum ofar ehf. 2.357.690 krónur gegn 1. veðrétti í bifreiðinni KJ-985.  Stefndi hafi aftur á móti ekki aflétt sínu veði eins og hann hafði þó ábyrgst í yfirlýsingunni.  Þess í stað hafi stefndi gengið að veðinu og bifreiðin verið seld nauðungarsölu.  Ekkert hafi fengist upp í veðkröfu stefnanda á 2. veðrétti. Stefnandi byggir kröfu sína á almennum reglum fjármunaréttar.

Stefndi byggir á því að skilyrði stefnda fyrir veðflutningnum hafi ekki verið fullnægt og því hafi ekki getað orðið af honum.  Allar ákvarðanir stefnanda á grundvelli fyrirhugaðs veðflutnings hljóti því að vera á hans eigin ábyrgð.  Stefndi getur þess í greinargerð að hann hafi boðið stefnanda að endurgreiða honum innborgun hans að fjárhæð 1.000.000 krónur inn á lánið til þess að gera hann jafnsettan og áður.  Þessu tilboði hafi stefnandi hafnað. 

III.

Fram hefur komið í málinu að aðilar höfðu samráð um ofangreind kaup á bifreiðinni KJ-985, veðflutning í því sambandi og lánafyrirgreiðslu.  Þáttur stefnda fólst eingöngu í því að aflétta láni af bifreiðinni.  Starfsmenn aðila komu að málinu en þeim ber ekki saman að því leyti að starfsmaður stefnda neitar því alfarið að hafa lofað eða gefið ádrátt um að láninu yrði aflétt skilyrðislaust.  Það hafi ávallt verið skilyrði stefnda, eins og fram komi reyndar í yfirlýsingunni sjálfri, að lánið yrði fyrst greitt niður í 1.800.000 krónur, einfaldlega vegna þess að hið nýja veð stæði ekki undir hærri fjárhæð.  Ekki verður annað séð en að stefnanda hafi verið kunnugt um þetta skilyrði því að hann greiddi stefnda 1.000.000 krónur í þessu skyni.  Stefnandi veitti hins vegar Skýjum ofar ehf. hið nýja lán án þess að ganga fyrst úr skugga um hvort stefndi væri búinn að aflétta sínu veði af bifreiðinni. 

Stefnandi byggir kröfu sína á því að í yfirlýsingu stefnda um veðflutning og veðbandslausn felist loforð um að láninu verði aflýst af bifreiðinni KJ-985.  Með því að undirrita þessa yfirlýsingu og gefa hana út hafi stefndi gefið loforð sem hann sé bundinn af.  Hann hafi með yfirlýsingunni ábyrgst að létta veðinu af bifreiðinni. 

Ekki verður fallist á með stefnda að það eitt að undirrita og gefa út þessa yfirlýsingu sé skilyrðislaust loforð um að létta veði af bifreiðinni KJ-985.  Engin slík skuldbinding felst í yfirlýsingunni samkvæmt hljóðan hennar.  Þvert á móti er hún hefðbundin yfirlýsing lánastofnunar um veðflutning og veðbandslausn þegar skuldari óskar eftir að flytja lán af einni eign yfir á aðra. Slík yfirlýsing verður aldrei virk fyrr en veðflutingurinn hefur farið fram, þ.e. skuldareigandi hefur þinglýst láninu á nýtt tryggt veð og leyst fyrri eign úr veðböndum.  Auk þess er tekið fram í yfirlýsingunni að lánið, sem óskað er flutnings á, sé upphaflega að fjárhæð 2.930.000 krónur en nú að eftirstöðvum 1.800.000 krónur.  Má af því ráða að það hafi verið skilyrði stefnda að lánið yrði greitt niður í 1.800.000 krónur áður en veðflutningur yrði heimilaður.

Þegar framangreint er virt þykir ósannað að stefndi hafi gefið loforð um að aflétta hinu umdeilda láni af bifreiðinni KJ-985 skilyrðislaust og áður en nýtt veð væri tryggt. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda og eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og er þá meðtalinn virðisaukaskattur.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Vátryggingafélagi Íslands hf., í máli þessu. 

Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.