Hæstiréttur íslands
Mál nr. 781/2009
Lykilorð
- Hæfi
- Meðdómsmaður
- Líkamstjón
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 14. október 2010. |
|
Nr. 781/2009. |
Jón Óskar Júlíusson (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Hæfi. Meðdómsmenn. Líkamstjón. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
Í málinu gerði J meðal annars kröfu fyrir Hæstarétti um ómerkingu héraðsdóms á grundvelli þess að hinir tveir sérfróðu meðdómendur í héraði hafi verið vanhæfir til setu í dóminum vegna tengsla sinna við V. Upplýst var í málinu að M, annar sérfróði meðdómandinn, hafði fengið greitt fyrir 74 matsgerðir á árunum 2008 til 2010 úr hendi V. Ekki komu fram mótmæli af hálfu V gegn því að hann hafi tilnefnt M af sinni hálfu til slíkra matsgerða. Í dómi Hæstaréttar segir að leggja yrði til grundvallar að V hefði á greindu tímabili oft tilnefnt M af sinni hálfu til trúnaðarstarfa við örorkumat. Yrði að fallast á með J að hann þyrfti ekki við þessar aðstæður að sæta því að M tæki á sama tíma sæti sem meðdómsmaður í málinu, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2009. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 38.882.077 krónur með 4,5% ársvöxtum af 4.697.176 krónum frá 18. maí 2003 til 1. október 2004, af 31.265.102 krónum frá þeim degi til 15. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 38.882.077 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, 573 krónum 28. nóvember 2003, 300.000 krónum 21. apríl 2004, 500.000 krónum 21. júní 2004, 200.000 krónum 29. júlí 2004 og 158.862 krónum 20. október 2004. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt í héraði.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður verði þá felldur niður.
Aðalkrafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms er byggð á því að hinir tveir sérfróðu meðdómendur í héraði, læknarnir Magnús Páll Albertsson og Sveinbjörn Brandsson, hafi verið vanhæfir til setu í dóminum vegna tengsla sinna við stefnda. Kveðst áfrýjandi fyrst hafa fengið vitneskju um hverjir yrðu kvaddir til dómstarfa við upphaf aðalflutnings málsins og því ekki haft ráðrúm til að kanna hæfi meðdómendanna fyrr en eftir að málið hafi verið dómtekið í héraði. Byggir hann á því að læknarnir tveir séu læknar Orkuhússins sf., Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík, þar sem Ragnar Jónsson, ráðgefandi læknir stefnda, starfi einnig á sömu hæð hússins og þeir. Þeir noti sama tölvukerfi og skrifstofubúnað og Ragnar. Þá telur áfrýjandi að annar eða báðir hinna sérfróðu meðdómenda hafi tekið að sér verkefni fyrir stefnda og þegið fyrir greiðslur á síðustu árum. Kveðst áfrýjandi hafa vitneskju um að annar meðdómsmanna, Magnús Páll, hafi tekið að sér störf fyrir stefnda meðan mál þetta hafi verið í flutningi fyrir héraðsdómi. Lagði hann fram því til staðfestingar tvö tölvubréf 16. og 23. október 2009, þar sem stefndi tilnefndi meðdómsmann af sinni hálfu til að meta örorku tveggja nafngreindra tjónþola sem leituðu eftir bótum frá stefnda. Eru aðilar sammála um að þar hafi verið um að ræða tilvik þar sem viðkomandi tjónþoli og stefndi hafi komið sér saman um að tveir læknar skyldu gera örorkumat og skyldi hvor tilnefna einn. Skoraði áfrýjandi á stefnda að upplýsa meðal annars hvort hinir sérfróðu meðdómsmenn „hafi annast ráðgjöf fyrir félagið og fjölda mála þar sem þeir hafi tekið að sér störf s.s. matsstörf á síðustu þremur árum.“
Stefndi hefur mótmælt aðalkröfu áfrýjanda. Hefur hann bent á að Orkuhúsið sf. sé rekstrarfélag sem hafi alla fasteignina að Suðurlandsbraut 34 á leigu og framleigi síðan rými í húsinu til félaga lækna, sjúkraþjálfara og annarra sem annast stoðkerfisþjónustu. Hvað læknaþjónustuna varði sé það Stoðkerfi ehf. sem leigi aðstöðu í húsinu. Ragnar Jónsson læknir leigi aðstöðu af Stoðkerfum ehf. en eigi hvorki hlut í því félagi né sé fjárhagslega háður rekstri þess eða annarra lækna að Suðurlandsbraut 34. Læknarnir reki starfsemi sína sem einstaklingar og engin fjárhagsleg tengsl séu þeirra á milli. Þá mótmælir stefndi því að tilnefning hans í einhverjum tilvikum á meðdómsmanninum Magnúsi Páli til matsstarfa geri lækninn vanhæfan til setu í héraðsdóminum. Stefndi brást við fyrrgreindri áskorun áfrýjanda með því að upplýsa að meðdómandinn Sveinbjörn hefði ekki tekið að sér matsstörf fyrir stefnda. Hins vegar hefði Magnús Páll fengið greitt fyrir 74 matsgerðir á árunum 2008 til 2010. Ekki lægi fyrir hver hefði tilnefnt hann til starfa í þessum málum en þetta byggi oftast á samkomulagi aðila; Magnús Páll hafi stundum verið tilnefndur af lögmanni tjónþola. Samkvæmt grófri talningu hafi Ragnar Jónsson annast matsstörf í 829 málum fyrir stefnda á sama tímabili.
Ekki verður fallist á með áfrýjanda að það valdi vanhæfi meðdómendanna í héraði að hafa rekið læknastofur sínar í húsnæði, þar sem Ragnar Jónsson, fastur trúnaðarlæknir stefnda, hafði einnig stofu. Þá hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að Sveinbjörn Brandsson hafi tekið að sér störf fyrir stefnda sem hafi gert hann vanhæfan til setu í héraðsdómi. Málsaðilar deila ekki um að nokkuð hafi tíðkast í skaðabótamálum vegna líkamstjóna, þar sem kröfum hefur verið beint að stefnda, að aðilar hafi komið sér saman um að leita til tveggja lækna til að meta örorku tjónþola. Hafi þá hvor þeirra um sig tilnefnt annan lækninn. Stefndi mótmælir því ekki að hann hafi tilnefnt Magnús Pál Albertsson af sinni hálfu til slíkra matsgerða en hefur ekki upplýst þrátt fyrir áskorun áfrýjanda hversu oft svo hafi staðið á í fyrrgreindum 74 tilvikum. Miðað við þessar upplýsingar verður lagt til grundvallar að stefndi hafi á greindu tímabili oft tilnefnt Magnús Pál af sinni hálfu til trúnaðarstarfa við örorkumöt. Verður fallist á með áfrýjanda að hann þurfi ekki við þessar aðstæður að sæta því að Magnús Páll taki á sama tímabili sæti sem meðdómsmaður í málinu, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Leiðir af þessu að aðalkrafa áfrýjanda verður tekin til greina og hinn áfrýjaði dómur ómerktur.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Jóni Óskari Júlíussyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur14. desember 2009.
Mál þetta var höfðað 14. mars 2008 og dómekið 16. f.m.
Stefnandi er Jón Óskar Júlíusson, Sléttuvegi 7, Reykjavík
Stefndu voru FISK-Seafood hf., Eyrarvegi 18, Sauðárkróki og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík en við munnlegan flutning málsins féll stefnandi frá kröfum á hendur FISK-Seafood hf.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 38.882.077 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 4.697.176 krónum frá 18. maí 2003 til 1. október 2004 en af 31.265.102 krónum frá þeim degi til 15. október 2006 en með dráttarvöxtum af 38.882.077 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda til stefnanda að fjárhæð 573 krónur 28. nóvember 2003, 300.000 krónur 21. apríl 2004, 500.000 krónur 21. júní 2004, 200.000 krónur 29. júlí 2004 og 158.862 krónur 20. október 2004. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en honum var veitt gjafsóknarleyfi 28. júní 2007.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur hans verði lækkaðar verulega, þannig að stefndi verði einungis dæmdur til greiðslu 12.508.253 króna án dráttarvaxta, og málskostnaður verði látinn niður falla.
1
Í stefnu greinir frá málsefni á þann veg að 18. maí 2003 hafi stefnandi orðið fyrir slysi við störf sín um borð í Klakki SH-510, sem FISK-Seafood hf. á Sauðárkróki gerir út, er skuttogarinn var við veiðar á flotvörpu. Slysið hafi átt sér stað með þeim hætti að stefnandi hafi fengið veiðarfærin framan á brjóstkassann þannig að hann hafi fallið aftur fyrir sig á þilfar. Hann hafi strax fundið fyrir óþægindum í baki en þó staðið á fætur og reynt að halda áfram vinnu sinni. Eftir um hálfa klukkustund hafi hann hins vegar fengið aukna verki í bakið með leiðni niður í vinstri fót. Hann hafi þá hætt að vinna og lagst fyrir. Yfirmaður á togaranum hafi haft samband við lækni og hafi stefnanda að ráði hans verið gefið verkjastillandi lyf. Nokkrum klukkustundum síðar hafi hann fundið fyrir leiðsluverkjum niður í báða ganglimi. Hann hafi verið rúmliggjandi það sem eftir var veiðitúrsins, nánar tiltekið í fjóra daga.
Júlíus Skúlason, faðir stefnanda, var skipstjóri í þessari veiðiferð skipsins. Í skipsdagsbók er skráð við daginn 18. maí 2003: „Kl. 09.10 þegar verið var að láta trollið fara vildi það óhapp til að belgurinn slóst í Jón Óskar Júlísson með þeim afleiðingum að hann skall í þilfarið og fann til í baki á eftir. Haft samband við lækni og látinn vita. Jóni voru gefin verkjalyf og látinn hafa hægt um sig. Veður SA 12 m/sek. Hægur.“ Einnig var lögð fram yfirlýsing Júlíusar, dags. 3. mars 2009. Þar segir að hann hafi ekki verið vitni að slysinu. Þegar hann hafi heyrt af slysinu og í ljós hafi komið að meiðsli hafi orðið hafi honum borið sem skipstjóra að skrá um það í skipsdagbók. Skráning hans um slysið sé byggð á frásögn Ragnars Tómassonar, 1. stýrimanns, en hann hafi verið í brúnni þegar slysið varð og verið vitni að því. Í ljós hafi komið að hann hafi misritað tildrög slyssins að því leyti að hann hafi skráð að það hafi orðið þegar verið var að setja trollið út en hið rétta sé að verið var að taka það inn. Varðandi vinnubrögðin um borð breyti engu hvort verið sé að taka troll út eða inn; vinnubrögðin séu því sem næst hin sömu. Jafnframt staðfesti Júlíus að hann hefði hringt í lækni á Borgarspítalanum vegna meiðslanna sem Jón Óskar hafi orðið fyrir í þessu slysi. Hann bar fyrir dóminum að hann hefði heyrt morguninn eftir að eitthvað væri að stefnanda og komið hafi í ljós að hann var að baksa við að pissa í flösku þar sem hann komst ekki úr koju sinni. Hann kvaðst sennilega hafa skráð um atvikið þann sama dag í dagbókina. Hann kvaðst hafa farið með stefnanda á slysadeild þegar eftir að komið var í land að veiðiferð skipsins lokinni.
Í læknisvottorði Steinunnar G. H. Jónsdóttur, dags. 16. ágúst 2005, segir að stefnandi hafi leitað á slysadeild Landspítalans kl. 00.23 22. maí 2003 vegna vinnuslyss sem hann hafi orðið fyrir 18. s.m. en hún hafi verið ábyrgur sérfræðingur á vakt. Í vottorðinu er haft eftir stefnanda að hann hafi verið um borð í skipi úti á sjó er hann hafi fengið veiðarfæri í sig og fallið aftur fyrir sig án þess að geta borið fyrir sig hendur og lent þannig á bakinu. Hann hafi þurft aðstoð til að komast upp í koju og legið þar í fjóra daga alveg óvinnufær. Hann hafi sagst hafa afar slæma mjóbaksverki með leiðni niður í þjóhnappa og læri, þó meira hægra megin. Skrifað hafi verið upp á verkjalyf og málum fylgt eftir með sneiðmyndatöku. Læknirinn kveðst ekki hafa séð stefnanda aftur en henni væri kunnugt um að hann hefði ekki lagast þrátt fyrir sjúkraþjálfun og því verið tekinn til aðgerðar 14. nóvember 2003 þar sem brjósklos hafi verið fjarlægt og hafi Bjarni Hannesson taugaskurðlæknir gert aðgerðina.
Í vottorði Bjarna Hannessonar, dags. 28. nóvember 2003, segir að stefnandi hafi komið til hans vegna verkja í baki sem leiddu niður í vinstri fót. Hann hafi sagst hafa orðið fyrir slysi um borð í togara þann 18. maí 2003, dottið á bakið og fengið væng af trolli á sig. Hann hafi haldið áfram að vinna en tólf tímum seinna hafi hann verið orðinn mjög slæmur og verið óvinnufær síðan vegna verkja niður í vinstri fót. Tölvusneiðmynd hafi sýnt stórt brjósklos L:IV-L:V vinstra megin. Stefnandi hafi verið í sjúkraþjálfun án nokkurs bata og því hafi verið ákveðið að gera á honum aðgerð. Hinn 14. nóvember 2003 hafi verið gerður bakskurður. Við aðgerðina hafi fundist stórt brjósklos sem hafi verið fjarlægt en hluti af brjóskinu hafi sprungið út úr liðbilinu og legið laust í hryggganginum.
Frammi liggur tilkynning til útgerðar og Tryggingastofnunar ríkisins um slys á sjómanni, undirrituð 30. maí 2003 af Júlíusi Skúlasyni skipstjóra. Þar er tildrögum slyssins og aðstæðum lýst þannig: „Verið var að láta trollið fara þegar belgur á trollinu slóst í Jón Óskar bátsmann þannig að hann datt á þilfarið. Fann til í baki á eftir. S.A. 12 m/sek.“ Í viðauka, undirrituðum af stefnanda og launafulltrúa útgerðar, er m.a. bætt við þeim upplýsingum að stefnandi hafi unnið hjá atvinnurekandanum með hléum frá 3. janúar 1991 og hafi ekki strax hætt vinnu eftir slysið heldur daginn eftir (19.05.03).
Hinn 16. janúar 2004 lenti stefnandi í umferðarslysi á Reykjanesbraut sem farþegi í bifreið sem lenti í árekstri fjögurra bifreiða. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið af vettvangi á slysadeild þar sem hann dvaldist í eina klukkustund en var þá útskrifaður. Í þessu slysi tóku sig upp áverkar úr fyrra slysi auk þess sem ný einkenni komu fram. Hinn 3. febrúar 2004 lenti stefnandi aftur í umferðaróhappi sem ökumaður fólksbifreiðar þegar ekið var aftan á hana. Við höggið kastaðist bifreið hans fram á við og aftan á kyrrstæða bifreið.
Stefnandi var til meðferðar hjá fjölda lækna auk þeirra sem að framan greinir. Hann leitaði til Jóseps Ó. Blöndal á St. Fransiskusspítalanum í Stykkishólmi vegna þrálátra og viðvarandi einkenna frá baki. Þá var hann til meðferðar hjá Magnúsi Guðmundssyni, sérfræðingi í gigtarsjúkdómum, og hjá heimilislækni sínum, Eyjólfi Guðmundssyni. Vegna þunglyndis og kvíða vísaði Eyjólfur stefnanda til Kristófers Þorleifssonar geðlæknis. Að auki fór stefnandi m.a. til Bjarna Valtýssonar verkjasérfræðings.
Í vottorði Jóseps Ó. Blöndals, dags. 28. febrúar 2005, segir m.a. að stefnandi hafi verið í Bakprógrammi Bak- og hálsdeildar St. Franciskusspítala í þrjár vikur haustið 2004 en í útskriftarviðtali kvaðst hann vera engu betri af verkjum og jafnvel hafa versnað. Að lokum segir: „Erfitt er að gefa upp í hlutföllum hver þáttur hinna einstöku slysa er í verkjaástandi Jóns Óskars en ljóst má vera að slysið um borð í Klakki var sýnu verst og að hann hafði ekki náð teljandi bata af sínum mjóbaksverkjum, þótt verkir niður í ganglimi hafi læknast við skurðaðgerð í nóvember 2003, þegar hann lenti í slysunum í janúar og febrúar.“
Í læknisvottorði Kristófers Þorleifssonar, dags. 27. desember 2004, segir að stefnandi hafi fyrst komið til hans í viðtal og skoðun 10. nóvember 2004. Áliti læknisins er þannig lýst: „Jón Óskar Júlíusson er í dag haldinn djúpu þunglyndi í kjölfar vinnuslyss sem hann varð fyrir þann 18. maí 2003. Ljóst er að þunglyndiseinkennin hafa farið vaxandi frá því hann slasaðist. Hann hefur haft stöðug verkjavandamál frá baki. Þessir verkir hafa síðan ágerst og versnað eftir að hann varð fyrir bifreiðarslysi í tvígang, fyrst þann 16. jan. 2004 og síðan þann 3. febr. 2004. Þrátt fyrir endurhæfingu og meðferð á Stykkishólmsspítala hefur verkjavandamálið ekki lagast. Verið alls ófær til vinnu og allt hefur hrunið í kringum hann. Hann varð að selja íbúð sína og samband hans við kærustu, sem á von á barni þeirra, er í upplausn. Þetta hefur haft mikil áhrif á Jón Óskar og er sjálfsmynd hans í molum í dag. . .“
2
Að ósk stefnanda voru hinn 20. maí 2005 dómkvaddir tveir matsmenn, Guðmundur Sigurðsson lögfræðingur og Guðjón Baldursson læknir, til að meta, með tilliti til þeirra bótaþátta sem tilgreindir eru í lögum nr. 50/1993, afleiðingar þeirra þriggja slys sem hann hafi orðið fyrir dagana 18. maí 2003, 16. janúar 2004 og 2. febrúar s.á. Matsgerð þeirra er dagsett 12. október 2005. Þar var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að stöðugleikapunktur vegna allra slysanna væri 23. júní 2004. Varanleg örorka vegna slyssins 18. maí 2003 væri 25%, varanlegur miski 15%, tímabil tímabundins atvinnutjóns frá slysdegi til 23. júní 2004 og ætti stefnandi rétt á þjáningabótum frá slysdegi til 15. janúar 2004. Varanleg örorka vegna slyssins 16. janúar 2004 væri 10%, varanlegur miski 7%, tímabil tímabundins atvinnutjóns frá slysdegi til 23. júní 2004 og ætti stefnandi rétt á þjáningabótum frá slysdegi til 24. apríl 2004. Varanleg örorka vegna slyssins 3. febrúar 2004 var metin 0% og varanlegur miski 3%.
Stefnandi vildi ekki una niðurstöðu matsmanna og að ósk hans voru 9. desember 2005 dómkvaddir eftirtaldir matsmenn til að meta í yfirmati afleiðingar framangreindra slysa: Atli Þór Ólason bæklunarskurðlæknir, Kristinn Tómasson, geð- og embættislæknir, og Stefán Már Stefánsson prófessor. Yfirmatsgerð er dagsett 10. ágúst 2006. Um varanlegan miska segir m.a.: „Þá telja matsmenn einnig að verulegur kvíði og þunglyndi hafi fylgt í kjölfar fyrstu tveggja slysanna. Matsmenn telja að þessi geðröskun sé á háu stigi og komi til með að há Jóni Óskari verulega í framtíðinni. Meta þeir þennan þátt til 20% varanlegs miska og skipta honum jafnt milli slysanna 18. maí 2003 og 16. janúar 2004.“ Um slysið 2. febrúar 2004 segir: „ . . . Höggið virðist hafa verið lítið, hann fann ekki til eymsla eftir áreksturinn samkvæmt lögregluskýrslu og hann leitaði ekki strax til læknis. Matsmenn telja því að síðasta slysið hafi valdið lítilli viðbót einkenna enda liggur bein staðfesting fyrir auknum eða nýjum einkennum ekki fyrir í gögnunum. Afleiðingar slyss þessa koma hér því ekki frekar við sögu.“
Meginniðurstaða matsins er sem hér segir:
„Varanlegur miski Jóns Óskars, sem rakinn verður til vinnuslyssins 18. maí 2003, telst hæfilega metinn 25 stig. Varanlegur miski hans, sem rakinn verður til slyssins 16. janúar 2004 er hæfilega metinn 15 stig, þ.e. samtals 40 stig.
Varanleg örorka, sem rakin verður til slyssins 18. maí 2003, telst 40 stig og 25 stig vegna slyssins 16. janúar 2004, þ.e. samtals 65 stig.
Batahvörf (stöðugleikapunktur) vegna slysanna 18. maí 2003 og 16. janúar 2004 eru 1. október 2004.
Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins 18. maí 2003 er ákveðið 100% frá slysdegi til 1. október 2004. Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins 16. janúar 2004 telst 100% frá slysdegi til 1. október 2004.
Þjáningabætur vegna slyssins 18. maí 2003 ákveðast frá slysdegi til 1. október 2004, þar af rúmliggjandi í 19 daga. Þjáningabætur vegna slyssins 16. janúar 2004 ákveðast frá slysdegi til 1. október 2004, þar af rúmliggjandi í 17 daga.“
Stefndi lagði fram dóm Hæstaréttar í máli nr. 310/2006. Stefnandi þessa máls krafðist þess að íslenska ríkinu yrði gert að greiða honum miskabætur þar sem hann hefði saklaus verið látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 21. febrúar 2004 til hádegis 27. sama mánaðar vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefna en rannsókn leiddi ekki til útgáfu ákæru á hendur stefnanda. Í málinu kom fram að stefnandi viðurkenndi að neyta fíkniefna og umbúðir utan af fíkniefnum fundust á heimili hans. Íslenska ríkið var sýknað af bótakröfu stefnanda. Með bréfum, dags. 6. maí 2008, til yfirmatsmanna vakti lögmaður athygli þeirra á framangreindum upplýsingum um hagi stefnanda og leitaði álits á því hvort þær kynnu að valda því að forsendur matsins stæðust ekki. Í svarbréfi yfirmatsmanna, dags. 22. maí 2008, segir: „. . . Þeir telja að miðað við þessi gögn séu forsendur yfirmatsgerðarinnar óbreyttar. Hins vegar útiloka yfirmatsmenn ekki að við endurupptöku matsmálsins kunni að finnast læknisfræðileg gögn eða önnur gögn um verulega og langvarandi fíkniefnaneyslu Jóns Ágústs sem gæti breytt forsendum okkar og niðurstöðu í fyrrgreindri yfirmatsgerð.“
Yfirmatsmennirnir staðfestu matsgerð sína fyrir dómi og gáfu á henni nokkrar skýringar.
Að beiðni stefnda var á dómþingi 25. júní 2008 dómkvaddur matsmaður, Sigurður Thorlacius læknir, til að gefa álit á því hvort og þá að hve miklu leyti ætlað vinnuslys 18. maí 2003 um borð í Klakki SH-510 hafi haft áhrif á að hann var metinn til örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins og hjá Lífeyrissjóði sjómanna, Lífeyrissjóði VR og hjá Lífeyrissjóði Norðurlands. Í niðurstöðu mats, dags. 10. september 2008, segir að sú færniskerðing stefnanda sem liggi til grundvallar örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi örorkumatsstaðli og mati á orkutapi hans gagnvart framangreindum lífeyrissjóðum verði að hálfu leyti rakin til sjóvinnuslyssins 18. maí 2003. Stefndi aflaði útreiknings Talnakönnunar hf. á eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna til stefnanda frá Tryggingastofnun ríkisins og framangreindum lífeyrissjóðum miðað við stöðugleikapunkt 1. október 2004 vegna slysa 18. maí 2003, 16. janúar 2004 og 3. febrúar 2004. Niðurstöður kveða á um 36.875.000 krónur varðandi lífeyrissjóðina og 9.228.000 krónur að því er tekur til Tryggingastofnunar ríkisins.
3
Samkvæmt sundurliðun frá stefnda, dags. 13. september 2006, innti félagið af höndum greiðslur til stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns, samtals að upphæð 1.286.860 krónur. Einnig var um að ræða greiðslur vegna læknisvottorða svo og innborganir á höfuðstól, samtals að upphæð 1.000.000 króna. Síðustu greiðslur voru 12. ágúst 2004, læknisvottorð 12.865 krónur, 20. október 2004, ýmiss kostnaður ót. 158.862 krónur, og 25. ágúst 2005 læknisvottorð 25.700 krónur.
Lögmaður stefnda sendi lögreglunni á Sauðarkróki bréf, dags. 9. júlí 2004. Þar segir að félaginu hafi borist fregnir um að lýsing stefnanda á atvikinu 18. maí 2003 kunni að vera ónákvæm og var þess óskað að teknar yrðu vitnaskýrslur af þeim sem voru með stefnanda á vakt í umræddri veiðiferð eða öðrum hugsanlegum vitnum. Markmiðið væri að reyna að fá fram hvað gerðist í raun og veru, hvort stefnandi hafi slasast eins og lýst sé í skipsbók og hvort einhver vitni væru að atburðinum. Skýrslutökur af skipverjum í umræddri veiðiferð fóru fram dagana 22. júlí til 3. ágúst 2004 og verður hér greint frá meginefni skýrslnanna.
Ingi Björgvin Kristjánsson netamaður kvaðst ekki kannast neitt við málið og hafa heyrt um meiðsli stefnanda mörgum mánuðum síðar. Skipið hafi verið á flottrollsveiðum á Reykjaneshrygg og þeir stefnandi verið saman stjórnborðsmegin og séð um höfuðlínustykki og kapal, ásamt Ómari Bragasyni að hann minnti.
Lúðvík S. Friðbergsson netamaður kvaðst ekkert kannast við málið. „Jón Óskar var í koju þegar ég mætti á vakt mína. Hann var þá sagður veikur og ég spurði einskis.“
Jón Pétur Sigurðsson háseti: „Ég sá Jón Óskar ekki verða fyrir neinum áföllum um borð í þessari veiðiferð. Ég hafði engin samskipti við hann. Jón Óskar var sagður veikur og haft var samband við lækni. Bjarki kom víst að honum. Það sá þetta víst enginn. Ég heyrði að Jón Óskar hefði dottið.“
Stefán Valdimarsson 2. stýrimaður: „Ég man ekki eftir neinu vinnuslysi um borð. Við vorum allir á dekki og slys hefði varla farið fram hjá manni. Eitt sinn fékk Jón Óskar í bakið og var hann að drepast um borð. Ég þori ekki að tímasetja hvenær það var og hann hætti á skipinu upp úr því en fór í eina siglingu eftir það.“
Ómar Bragason 2. vélstjóri: „Ég kannast við að hafa verið skipverji á Klakk SH-510 í umrætt sinn. Ég kannast ekki við umrætt atvik og minnist þess ekki að hafa orðið vitni að því að þetta hafi gerst.“
Helgi Þór Emilsson háseti kvaðst ekkert kannast við þetta mál að öðru leyti en því að stefnandi hafi fengið í bakið þegar þeir voru í úthafinu. Eitt skiptið þegar átti að ræsa hann hafi hann ekki komist úr koju og verið rúmfastur eftir það. Hann kannaðist ekki við að „belgur á trollinu“ hafi slegist í stefnanda með þeim afleiðingum að hann hafi fallið við og slasast á baki. „Í úthafinu er aðeins ein vakt. . . . Þetta kemur mér mjög á óvart. Ég heyrði að Jón Óskar hafi farið í aðgerð út af brjósklosi. Meira veit ég ekki.“
Kristján Tryggvi Ragnarsson háseti: „Ég sá þetta ekki. Hann fékk víst í bakið og var rúmfastur. Heyrði síðar að Jón Óskar hefði meitt sig.“
Björn Ragnarsson háseti var spurður hvort hann kannaðist við málið og svaraði: „Nei, ég varð aldrei var við neitt svoleiðis og hef ekkert heyrt um það.“
Guðmundur Páll Ingólfsson háseti: „Ég man að Jón Óskar fékk í bakið í veiðiferðinni. Hann var óvinnufær, lá í koju og gat ekki labbað. Ég kannast ekki við að hafa orðið vitni að neinu slysi um borð og hef ekkert um það heyrt. Ég hef þá ekki verið á vaktinni.“
Bjarki Tryggvason matsveinn: „Kl. 05.30 morguninn sem Jón Óskar fékk í bakið kom klefafélagi hans, Guðmundur Páll Ingólfsson, til mín þar sem ég var að taka til morgunverðinn og sagði hann mér að Jón Óskar væri lamaður og gæti ekki hreyft sig. Ég fór inn í klefann til þeirra félaga og spurði Jón Óskar hvort hann gæti hreyft tærnar sem hann og gat og gerði. Síðan fór ég upp í brú og ræddi málið við vakthafandi stýrimann, Ragnar Tómasson. Ragnar fór síðan niður í klefann til Jóns Óskars en er Ragnar kom aftur upp þá hélt ég til minna fyrri starfa að taka til morgunverðinn. Ég tel að Ragnar hafi gefið Jóni Óskari verkjatöflur án þess þó ég spurði eftir því. Jón Óskar var í koju næstu tvo daga og ég færði honum mat að borða. Síðan kom hann fram til snæðings. Þegar við fórum frá borði í Reykjavíkurhöfn þá gekk Jón Óskar óstuddur frá borði. Í gegnum tíðina hefur það verið svo að ef einhver meiðir sig um borð þá leitar viðkomandi fyrst til mín og ég „plástra“ og met hvort frekari meðferðar er þörf. Ég kannast ekki við að slys hafi orðið um borð í þessari veiðiferð. Það ræddi enginn í mín eyru.“
Ragnar Tómasson, 1. stýrimaður: „Verið var á úthafskarfaveiðum og þá eru ekki neinar vaktir sem slíkar. Ég var í brúnni og verið var að vinna við trollið á dekkinu. Belgurinn á trollinu slóst eitthvað til og við það hrasaði Jón Óskar. Hann stóð upp en kvartaði eitthvað í bakinu á eftir og síðar hreinlega „læstist“ hann. Hann var kominn fram úr kojunni en síðan varð að setja hann hreinlega í þeim stellingum aftur upp í kojuna. Ég man ekki hvort það var daginn eftir. Jón Óskar var óvinnufær það sem eftir var af veiðiferðinni og hefur ekki komið aftur. Ég var sóttur upp í brú umrætt sinn og hjálpaði Guðmundur Páll, klefafélagi Jóns Óskars, mér að setja hann upp í kojuna. Ég gaf Jóni Óskari verkjastillandi og skipstjórinn, Júlíus faðir Jóns Óskars, hafði síðan samband við lækni. Aðspurður kveðst Ragnar ekki minnast þess að belgurinn á trollinu hafi slegist í fleiri en Jón Óskar. Ekki svo ég tæki eftir. Það er ætíð einhver sláttur á trollinu.“
Framangreindir skipverjar, aðrir en Björn Ragnarsson, Kristján Tryggvi Ragnarsson og Lúðvík S. Friðbergsson báru vætti við aðalmeðferð málsins og staðfestu framangreindar skýrslur sínar. Vitnið Ragnar Tómasson kvaðst hafa verið í brú skipsins við hífitækin en unnið hafi verið við að taka inn trollið. Hann var spurður hvort hann hefði sé væng rekast í stefnanda og svaraði: „Ég sá bara að hann hrasaði við trollið.“ Hann kvað stefnanda hafa fallið við á dekkinu, staðið upp aftur og haldið áfram við sitt verk. Hann hafi síðan sagst finna til í baki eftir að hann hafi lokið vinnu sinni við að taka inn trollið og losa aflann úr því.
Í bréfi stefnda, dags. 26. nóvember 2004, til lögmanns stefnanda, er þess getið að félagið hafi greitt 1.286.860 krónur vegna áætlaðs tímabundins tekjutjóns stefnanda sem feli í sér ofgreiðslu; einnig hafi það án skyldu greitt stefnanda að ósk hans 1.000.000 króna upp í ætlað tjón hans. Þá segir að í ljósi framburða skipverja fyrir lögreglu þurfi að fá frekari upplýsingar frá stefnanda og öðrum um hvernig slysið atvikaðist.
Frammi liggur skýrsla sem lögreglan í Reykjavík tók 2. maí 2005 af stefnanda samkvæmt beiðni stefnda 14. apríl 2005. Stefnandi bar að hann hefði slasast er verið var að taka trollið og að honum meðtöldum muni hafa verið átta til tíu menn á dekkinu. Hann var beðinn að skýra sem nákvæmast frá óhappinu og sagði: „Ég gekk fram með bb. síðunni á skipinu. Ég fór fram með síðunni til þess að ganga undir vængina á trollinu sem voru að rúllast inn á tromluna sem trollið gekk inn á, gerði þetta til þess að þurfa ekki að beygja mig eins mikið er ég fór undir vængina til þess að taka fótreipið klárt, en ég var bátsmaður er slysið átti sér stað, ég var bátsmaður í þessari ferð skipsins og það var verk bátsmannsins þegar trollið var tekið inn sem ég var að vinna. Ég var í raun undir vængjunum þegar slysið átti sér stað. Ég fékk vænginn snöggt í brjóstið, féll aftur á bak, byrjaði að taka fótreipið klárt en fann þá að ég gat ekki lyft upp fyrir mig, fann mikla verki í baki sem leiddu niður í báðar fætur en ég kvartaði ekki undan þessu. Ég veit ekki hvort einhverjir sáu er ég datt.“
Í bréfi stefnda, dags. 15. júní 2005, til lögmanns stefnanda segir að eftir heildstæða skoðun á gögnum málsins sé niðurstaða félagsins sú að sönnun skorti fyrir því að ætlað slys hafi í raun og veru orðið. Fyrir liggi að tíu af ellefu samstarfsmönnum stefnanda hafi ekki tekið eftir að hann félli og slasaðist í veiðiferðinni þótt sumir þeirra hafi unnið mjög náið með honum í umrætt sinn. Aðeins Ragnar Tómasson kveðist hafa séð slysið úr brúnni en það sé mjög ólíklegt miðað við stöðu hans, hvar ætlað slys eigi að hafa orðið og staðsetningu tromlunnar. Enginn annar samstarfsmanna stefnanda hafi séð eða heyrt neitt um slys stefnanda og virðist hann í upphafi ekki hafa kennt slysi um bakóþægindi sín. Ýmislegt annað, s.s. mótsagir í gögnum málsins, renni frekari stoðum undir þá niðurstöðu félagsins að hafna frekari greiðslum í málinu og áskilji það sér rétt til þess að endurkrefja stefnanda um þær greiðslur sem þegar hafi verið inntar af hendi.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 15. september 2006, til stefnda var sett fram bótakrafa hans, reist á yfirmatsgerðinni, skaðabótalögum nr. 50/1993, kjarasamningi og venju. Með svarbréfi 14. nóvember 2006 var höfnun á bótaskyldu ítrekuð.
4
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á því að hann hafi orðið fyrir slysi um borð í togaranum Klakki SU-510 18. Maí 2003. Ábyrgð stefnda sé reist á því að stefnandi hafi, þegar slysið varð, verið tryggður slysatryggingu hjá honum sem FISK-Seafood hf. hafi keypt til hagsbóta fyrir hann, sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Gögn málsins beri skýrlega með sér að umrætt slys hafi orðið. Þannig greini skipsdagbók frá slysinu sem og tilkynning til útgerðar og Tryggingastofnunar ríkisins, undirrituð af launafulltrúa FISK-Seafood og skipstjóra. Læknisfræðileg gögn og álit dómkvaddra matsmanna, bæði í undirmatsgerð og yfirmatsgerð, taki svo af öll tvímæli um það að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í greint sinn. Þá hafi frásögn stefnanda verið skýr frá upphafi. Einnig er byggt á því að hvað sem öðru líði feli greiðslur stefnda inn á tjón stefnanda á tímabilinu 19. ágúst 2003 til 25. ágúst 2005, alls 2.525.955 krónur, í sér bindandi viðurkenningu félagsins á bótaskyldu. Þá hafi útgerð skipsins viðurkennt, með ýmsum staðfestingum og slysatilkynningum svo bindandi sé, að slysið hafi átt sér stað. Skaðabótakrafa stefnanda er reiknuð út á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 og umfang tjónsins er reist á matsgerð yfirmatsmanna frá 10. ágúst 2006. Krafan er þannig sundurliðuð: Sjúkrakostnaður/annað fjártjón 7.616.975 krónur. Tímabundið atvinnutjón 2.524.651 króna. Þjáningabætur 584.150 krónur. Varanlegur miski 1.588.375 krónur. Varanleg örorka 26.567.926 krónur.
Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi reist á því að ekki sé nægilega sannað að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í skilningi skilmála slysatryggingarinnar og vátryggingaréttar, þ.e. að hann hafi orðið fyrir skyndilegum, utanaðkomandi atburði sem hafi valdið meiðslum á líkama hans. Um þetta er vísað til eftirtalins: Skipverjar, sem voru með stefnanda á dekki og stóðu jafnvel við hliðina á honum allan tímann, sáu hann ekki fá neitt í sig eða falla á bakið og stefnandi nefndi það ekki við neinn um borð að hafa orðið fyrir belgi eða trolli þegar hann fékk í bakið. Miðað við þá frásögn stefnanda að hann hafi verið að fara undir vængina þegar slysið varð sé ómögulegt að Ragnar Tómasson stýrimaður (innskot dómsins: Hér er byggt á skýrslu Ragnars hjá lögreglu) hafi séð ætlað atvik miðað við stöðu hans í skipinu. Færsla skipstjórans, föður stefnanda, í skipsdagbók hafi lítið sem ekkert sönnunargildi enda sé ljóst að hún sé byggð á frásögn einhvers annars. Hinu sama gegni um tilkynningu um slysið til útgerðar og Tryggingastofnunar ríkisins enda stafi innihald hennar frá stefnanda og/eða föður hans. Læknisvottorð og matsgerðir séu því marki brennd að þau byggi á einhliða frásögn og lýsing stefnanda á því hvernig ætlaður atburður hafi orðið. Frásögn stefnanda um atburðinn sé ótrúverðug, á reiki og ekki í samræmi við gögn málsins. Þá verði að benda á að trollið sé dregið löturhægt upp úr sjónum og því geti ekki verið að vængurinn hafi „slegist“ í stefnanda.
Því er hafnað að greiðsla stefnda í upphafi hafi falið í sér bindandi skuldbindingu. Félagið hafi trúað frásögn stefnanda í upphafi en þegar í ljós hafi komið að meiðsl hans hafi ekki orðið með þeim hætti sem hann hafi lýst sé ljóst að stefndi hafi ekki lengur verið bundinn af ákvörðun sinni um bótaskyldu. Því er enn fremur hafnað að stefndi hafi með „. . .ýmsum staðfestingum og slysatilkynningum. . .“ viðurkennt með bindandi hætti að slysið hafi átt sér stað og óljóst sé hvað átt sé við.
Á því er einnig byggt af hálfu stefnda að ekki sé sannað að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni. Málatilbúnaður stefnanda sé reistur á yfirmatsgerð en niðurstöður hennar séu rangar þar sem allar upplýsingar hafi ekki verið lagðar á borðið af hálfu stefnanda þegar matið fór fram. Í því efni er með vísun til dóms Hæstaréttar nr. 310/2006 bent á að stefnandi hafi viðurkennt neyslu fíkniefna og hafi brotasögu tengda fíkniefnum svo og að hann hafi hlotið mikinn mannorðsmissi vegna gæsluvarðhaldsins sem hafi haft í för með sér andlegar þjáningar og nánast útilokað sé að leiðrétta, en í yfirmatsgerðinni sé mikið gert úr andlegum veikindum stefnanda vegna hins ætlaða slysaatburðar. Yfirmatsgerðin sé röng hvað varðar andlega líðan stefnanda eftir hið ætlaða atvik enda hafi stefnandi fyrst farið til geðlæknis 10. nóvember 2004, þ.e. eftir að hann hafi auk þess atviks lent í tveimur umferðarslysum og sætt gæsluvarðhaldi í tæplega sjö sólarhringa. Samkvæmt þessu verði að sýkna stefnda á þeim grundvelli að ekki liggi fyrir nægileg og fullnægjandi sönnun á líkamstjóni stefnanda.
Varakrafa stefnda er þannig sundurliðuð: Útlagður kostnaður 1.459.240 krónur. Tímabundið atvinnutjóna 369.947 krónur. Þjáningabætur 441.760 krónur. Varanlegur miski 1.588.375 krónur. Varanleg örorka 12.508.253 krónur en til frádráttar komi greiðslur að fjárhæð 1.000.000 króna.
5
Óumdeilt er að í gildi var slysatrygging sem kröfugerð stefnanda á hendur stefnda er grundvölluð á svo og að í skilmálum, sem giltu um vátrygginguna, er slys skilgreint þannig: „Með orðinu „slys“ er hér átt við skyndilegan, utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist sannanlega án vilja hans.“ Þá sætir ekki ágreiningi að stefnandi hlaut brjósklos í veiðiferð skuttogarans Klakks SH-510 sem lauk að kvöldi 21. maí 2003 og að öllum líkindum hinn 18. þess mánaðar.
Í undirmatsgerð er dregin sú ályktun að þar sem stefnandi hafi sagst hafa verið einkennalaus frá baki fyrir óhappið um borð í togaranum þann 18. maí 2003 megi telja víst að orsakasamband sé milli slyssins og einkenna hans sem hann reki til þess. Dómurinn er þeirrar skoðunar að slíkt samband í tíma geti bent til orsakasambands en að álykta að slíku orsakasambandi verði slegið föstu vegna þessa tímasambands eins saman er rangt. Rétt er að hafa í huga að brjósklos er langoftast hluti af hrörnunarbreytingum í hrygg og hefur þá ekkert samband við nein slys. Brjósklos eru oft til staðar án þess að gefa einkenni. Þau geta tengst áverkum með orsakatengslum en gera það sjaldan.
Í yfirmatsgerð segir: „Við slysið 18. maí 2003 var Jón Óskar að vinna um borð í Klakki SH-510 þegar belgur á trolli lenti á brjóstkassa hans svo hann féll á bakið. Við þetta hlaut hann brjósklos milli 4. og 5. mjóhryggjarliðbola vinstra megin sem þrýsti á úttaug. Í aðgerðarlýsingu Bjarna Hannessonar taugaskurðlæknis kemur fram að um ferskan áverka á liðbrjóski var að ræða. Matsmenn telja því að mjög góð sönnun liggi fyrir að um brjósklos tengt áverka sé að ræða.“ Þessi tilvitnun í aðgerðarlýsingu Bjarna Hannessonar er ekki rétt. Þar kemur ekki fram að brjósklosið hafi verið ferskt heldur að það hafi verið til staðar „útbungandi discur og síðan fannst frítt fragment ... “. Þá bar yfirmatsmaðurinn Atli Þór Ólason fyrir dómi að yfirmatsmenn hefðu ekki haft undir höndum umrædda aðgerðarlýsingu við vinnslu matsgerðarinnar, enda er hennar ekki getið í heimildarlista þar. Hann taldi að verið væri að vitna í læknisvottorð Bjarna Hannessonar. Í nefndu vottorði kemur ekkert fram um aldur brjósklossins. Þar segir hins vegar að við aðgerðina hafi verið til staðar stórt brjósklos og að hluti af brjóskinu hafi sprungið út úr liðbilinu og legið laust í hryggganginum (sbr. áðurnefnt frítt fragment í aðgerðarlýsingu). Bjarni Hannesson bar einnig fyrir dóminum að útilokað væri að sjá í slíkri aðgerð hversu gamalt brjósklosið væri og einnig væri ómögulegt að sjá við aðgerð hver orsök þess væri.
Dómurinn telur niðurstöðu yfirmatsmanna varðandi áfallastreituröskun ekki rétta. Matsmaðurinn Kristinn Tómasson geðlæknir bar fyrir dómi að ætlað slys uppfyllti ekki skilyrði þess að hægt væri að tala um áfallastreituröskun vegna þess. Dómendur eru sammála því. Yfirmatsmenn töldu þrátt fyrir það að rekja bæri áfallastreituröskun til ætlaðs slyss. Samt sem áður hafði stefnandi lent í tveimur umferðarslysum á tímabilinu frá þeim tíma og fram að yfirmatsfundi og einnig setið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefna. Þá gerir það niðurstöðu yfirmatsmanna varðandi áfallastreituröskun enn rýrari en ella að í yfirmatsgerð er ekkert fjallað um fíkniefnaneyslu stefnanda og hugsanleg áhrif hennar á andlega líðan stefnanda.
Færsla skipstjórans, föður stefnanda, í skipsdagbók um ætlað atvik hefur ekkert sönnunargildi. Ekki var um samtímafærslu að ræða og hún var ekki gerð af Ragnari Tómassyni, fyrsta stýrimanni, sem í raun fór með vald skipstjóra, heldur skipstjóranum sjálfum sem var í káetu sinni þennan dag, 18. maí. Verulegt misræmi er milli þess sem annars vegar er haldið fram í málinu um atvik ætlaðs slyss og hins vegar þess sem skipstjórinn skráir í skipsdagbók og í skýrslu til útgerðar og tryggingafélags og hann hlýtur að hafa eftir stefnanda. Sitt er hvað að hífa inn troll eða láta það fara, m.a. með hliðsjón af tímamismun, svo og hvort um er að ræða belg flottrolls eða vængi.
Stefnandi kveðst hafa verið undir vængjunum þegar slysið átti sér stað með þeim hætti að hann hafi fengið væng snöggt í brjóstið og fallið aftur á bak. Það virðist ósennilegt að stefndi hafi getað verið undir vængnum sem dróst inn á flottromluna þannig að vængurinn gæti hafa slegist framan á hann.
Það er með ólíkindum að enginn þeirra níu skipverja, sem voru að störfum með stefnanda á þilfari togarans, og einhverjir jafnvel honum við hlið eða því sem næst, skyldi verða atviksins var hafi það borið að á þann hátt sem stefnandi lýsir. Hinn eini af áhöfninni, sem styður það að eitthvað hafi komið fyrir stefnanda, er Ragnar Tómasson, sem var í brúnni og ber að hann hafi séð stefnanda hrasa og falla við.
Óhugsandi verður að teljast að í hinu þrönga samfélagi skipverja skyldi enginn hafa spurnir af hinni ætluðu ástæðu þess að bátsmaðurinn, stefnandi máls þessa, væri svo dögum skipti frá störfum.
Niðurstaða málsins er sú að ekki sé sýnt fram á að líkamstjón stefnanda hafi orðið með þeim hætti sem hann lýsir eða að fullnægt sé skilyrði slysatryggingarinnar um skyndilegan, utanaðkomandi atburð.
Stefndi verður ekki bundinn af viðurkenningu sem felist í greiðslum til stefnanda enda voru þær felldar niður þegar rannsókn, sem fram fór að tilhlutun hans, varð til þess að styrkja grun sem vaknað hafði um að ekki væri allt með felldu. Þá verður ekki séð að af hálfu útgerðar skipsins hafi verið gefnar viðurkenningar „með ýmsum staðfestingum og slysatilkynningum“ sem þýðingu geti haft fyrir úrlausn málsins.
Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður. Þrír lögmenn hafa annast rekstur málsins hver af öðrum fyrir stefnanda; Arnar Þór Stefánsson héraðsdómslögmaður, Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður og Ólafur Örn Svansson hæstaréttarlögmaður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar málflutningsþóknanir (að meðtöldum virðisaukaskatti) Arnars Þórs Stefánssonar hdl. 850.000 krónur, Daggar Pálsdóttur hrl.180.000 krónur og Ólafs Arnar Svanssonar hrl. 320.000 krónur.
Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Magnús Páll Albertsson og Sveinbjörn Brandsson, bæklunarlæknar.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Óskars Júlíussonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar málflutningsþóknanir lögmanna hans, Arnars Þórs Stefánssonar héraðsdómslögmanns, 850.000 krónur, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur, og Ólafs Arnar Svanssonar hæstaréttarlögmanns, 320.000 krónur.