Hæstiréttur íslands
Mál nr. 72/2010
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Gáleysi
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 11. nóvember 2010. |
|
Nr. 72/2010.
|
GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf. (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. (Tómas Jónsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gáleysi. Sératkvæði.
Fyrirsvarsmaður G slf. var kjörinn endurskoðandi E ehf. frá haustmánuðum 2005 til maí 2007 og starfaði fyrir félagið að endurskoðun og ráðgjöf. Þess utan sinnti hann ráðgjöf og var til aðstoðar við endurskoðun félagsins fram í nóvembermánuð 2007. G slf. krafði E ehf. um greiðslu þriggja reikninga frá árunum 2006 og 2007, vegna vinnu í þágu félagsins, sem ekki fengust greiddir. Í skýrslu fyrirsvarsmanns G slf. fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa fregnað að félagið hygðist selja helstu eignir félagsins. Hefði hann viljað freista þess að knýja fram greiðslu á reikningunum og krafist kyrrsetningar á eignunum sem fram fór 5. febrúar 2008. Reikningarnir fengust loks greiddir 22. apríl 2008. Á fundi stjórnar félagsins E ehf. 21. apríl 2008 var samþykkt að óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi félagsins, á grundvelli rekstrarvanda og skuldastöðu þess, en úrskurður þess efnis var kveðinn upp af héraðsdómi 28. maí sama ár. Þrotabú E ehf. höfðaði mál þetta gegn G slf. til riftunar á greiðslu skuldar hins gjaldþrota félags við G slf. á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Deila aðila laut einkum að því hvort uppfyllt væru skilyrði ákvæðisins, um að greiðsla hafi verið ótilhlýðileg mismunun milli kröfuhafa félagsins og að fyrirsvarsmaður G slf. hafi verið grandsamur um það og um ógjaldfærni þess er greiðsla skuldarinnar fór fram. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991 fæli í sér kröfu um að sá sem hag hefði af ráðstöfun hefði ekki sýnt af sér gáleysi. Í ákvæðinu fælist að fyrirsvarsmanni G slf. bæri, miðað við þá þekkingu sem hann bjó yfir og upplýsingar sem hann hafði, að sýna aðgæslu og gæta að því að ráðstöfun færi ekki í bága við regluna. Yrði að gera þá kröfu til fyrirsvarsmanns G slf. að hann hefði mátt vita að í kjölfar uppgjörs E ehf., sem kynnt var í árslok 2007, hefðu farið fram umræður í stjórn félagsins um fjárhagsvanda og framtíð þess og að við félaginu blasti rekstrarstöðvun þegar hann 22. apríl 2008, daginn eftir að stjórn félagsins hafði ákveðið að óska eftir gjaldþrotaskiptum og þremur vikum fyrir frestdag, tók við greiðslu skuldarinnar. Hann hefði einnig mátt vita að hann hefði knúið fram greiðslu á kröfu G slf., margir aðrir kröfuhafar félagsins hefðu ekki fengið greiðslu og að greiðslan leiddi til þess að félagið hefði minni eignir til fullnustu handa öðrum kröfuhöfum en ella. Var héraðsdómur staðfestur og krafa þrotabús E ehf. tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi höfðaði mál þetta í héraði til riftunar á greiðslu skuldar hins gjaldþrota félags, Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., við stefnda 22. apríl 2008 að fjárhæð 1.334.839 krónur og til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar úr hendi áfrýjanda. Stefndi lýsti yfir því fyrir Hæstarétti að krafa hans um riftun væri eingöngu reist á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en hann vísaði jafnframt til 138. gr. sömu laga til stuðnings því að skilyrðum 141. gr. væri fullnægt.
Áfrýjandi rekur endurskoðunarþjónustu og er Guðni Þór Gunnarsson endurskoðandi, fyrirsvarsmaður samlagsfélagsins. Hann upplýsti í skýrslu fyrir héraðsdómi að hann hefði verið kjörinn endurskoðandi áðurnefnds eignarhaldsfélags haustið 2005 og hafi starfað fyrir félagið að endurskoðun og ráðgjöf fram á árið 2007. Í maí það ár hafi endurskoðunarfirmað, KPMG hf., verið kjörið endurskoðandi félagsins. Guðni Þór kvaðst þó hafa aðstoðað ,,örlítið við ráðgjöf og annað slíkt alveg [til] nóvember 2007“. Hann hafi meðal annars aðstoðað við gerð árshlutauppgjörs félagsins fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2007.
Á fundi stjórnar eignarhaldsfélagsins 28. nóvember 2007 var meðal annars rætt um ,,fjárhagsvanda í kjölfar 9 mán. uppgjörs og hvert skuli taka fyrirtækið.“ Á stjórnarfundi 10. desember sama ár er meðal annars bókað: ,,Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri eru sammála [...] að nauðsynlegt sé að fá aukið fé inn í reksturinn með sölu hlutafjár til núverandi hluthafa eða nýrra. Stjórnarformaður ítrekar fjárhagsvanda fyrirtækisins og biðlar til stjórnarmanna að koma til aðstoðar við fyrirtækið.“ Fram kom einnig að stjórnarformaður og framkvæmdastjóri væru í persónulegum ábyrgðum fyrir stórum hluta af skuldum félagsins og dótturfélaga, sem flest væru í vanskilum. Enn var haldinn stjórnarfundur 19. desember 2007. Þar er meðal annars bókað að drög að níu mánaða uppgjöri séu sýnd stjórnarmönnum, en þau hafi ekki breyst mikið frá fyrri drögum. Bókaðar eru nokkrar athugasemdir við drögin, en jafnframt er bókað að greiddar hafi verið nokkrar gjaldfallnar kröfur sökum ,,gríðarlegra vanskila“. Þá er bókað um önnur vanskil félagsins og tilgreindra dótturfélaga sem nauðsynlegt sé að koma í skil og að mikil þörf sé á að fá fjármuni inn í félagið. Einnig kemur fram í fundargerð þessa fundar að ágreiningur sé meðal stjórnarmanna um val á þeim vanskilaskuldum, sem greiddar voru og ýmsar aðrar ráðstafanir stjórnenda félagsins. Loks er bókað að stjórnarmenn, að undanskildum Gunnari Þórarinssyni samþykki að ,,reyna [að] lána til félagsins GBP 25.000 hver“. Á fundi stjórnar félagsins 21. apríl 2008 var samþykkt að óska eftir því að bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í bréfi nýs formanns stjórnar, Gunnars Þórarinssonar, til Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2008 sagði meðal annars um ástæður þess að óskað var gjaldþrotaskipta, að félagið ,,getur ekki staðið í fullum skilum við lánadrottna sína og greitt skuldir sínar. Skuldir eru fallnar í gjalddaga og það þykir ekki líklegt þar sem félagið hefur hætt öllum daglegum rekstri að greiðsluörðugleikar muni líða hjá innan skamms tíma.“ Úrskurður um töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta var kveðinn upp 28. maí 2008.
Í skýrslu, sem Gunnar Þórarinsson gaf fyrir skiptastjóra, sem skipaður hafði verið í þrotabúinu, upplýsti hann að félagið hefði byrjað rekstur ,,u.þ.b. árið 2003“ en hann hefði eignast hlut í því 2005. Gunnar, sem er faðir Guðna Þórs fyrirsvarsmanns áfrýjanda, upplýsti einnig í skýrslu sinni að hið gjaldþrota félag hefði átt flugvélar, sem það hefði leigt dótturfélagi sínu, City Star Ltd., en það félag hefði verið skráð í Skotlandi. Önnur dótturfélög hefðu verið Landsflug ehf., sem stundað hefði innanlandsflug þar með talið sjúkraflug, Flugvélaleiga Grindavíkur ehf. og City Star Airlines ehf., en það félag hafi séð um viðhald og rekstur flugvélanna. Stjórnarformaðurinn upplýsti að öll dótturfélögin hafi hætt rekstri í lok janúar 2008 og ,,séu gjaldþrota þar sem skuldir þeirra eru langt umfram eignir.“ Ástæður þess að óskað var gjaldþrotaskipta á búi félagsins sagði stjórnarformaðurinn í skýrslu sinni að hafi verið ,,aðallega erfiður rekstur og skuldastaða.“
Áfrýjandi leitað greiðslu á þremur reikningum, sem félagið hafði gert eignarhaldsfélaginu vegna starfa í þágu þess. Elsti reikningurinn var frá 30. október 2006, 155.625 krónur, næsti frá 9. október 2007, 224.598 krónur, og sá þriðji frá 30. nóvember 2007, 440.979 krónur. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvað Guðni Þór Gunnarsson reikningana ekki hafa fengist greidda og hafi fyrirsvarsmenn eignarhaldsfélagsins sagt ástæður þess vera að þeir væru háir og að áfrýjandi hefði þegar fengið umtalsverðar greiðslur fyrir störf sín. Guðni Þór kvaðst hafa fregnað að eignarhaldsfélagið hygðist selja tvær flugvélar í eigu félagsins, en þær hefðu þá verið helstu eignir þess. Hefði hann viljað freista þess að knýja fram greiðslu á reikningunum og því krafist kyrrsetningar á flugvélunum. Kyrrsetningin hafi farið fram 5. febrúar 2008 og staðfestingarmál verið höfðað í kjölfarið. Reikningarnir hafi svo verið greiddir 22. apríl 2008 ásamt vöxtum og kostnað samtals 1.334.839 krónur.
II
Eins og áður greinir er krafa stefnda um riftun á greiðslu skuldar hins gjaldþrota félags við áfrýjanda reist á 141. gr. laga nr. 21/1991. Sú grein heimilar þrotabúi að krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotmanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaður var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafði af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotmannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.
Greiðsla skuldarinnar við áfrýjanda fór fram 22. apríl 2008, daginn eftir að stjórn Eignarhaldsfélagins City Star Airlines ehf. hafði ákveðið á fundi að óska eftir að bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Ástæður þess voru að mati stjórnar að félagið gæti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga og ekki væri sennilegt að greiðsluörðugleikarnir myndu líða hjá innan skamms tíma, sbr. 2. mgr., sbr. og 1. mgr., 64. gr. laga nr. 21/1991. Deila aðilar einkum um hvort uppfyllt séu skilyrði 141. gr. laganna, um að greiðsla hafi verið ótilhlýðileg mismunun milli kröfuhafa og að fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafi verið grandsamur um það og um ógjaldfærni félagsins er greiðsla skuldarinnar fór fram.
Fyrirsvarsmaður áfrýjanda, Guðni Þór, er endurskoðandi og veitir fyrir hönd áfrýjanda endurskoðunarþjónustu og ýmsa ráðgjöf sem henni tengist gegn gjaldi. Hann er sérfróður um rekstur og reikningsskil. Hann útbjó ársreikninga Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. fyrir árin 2005 og 2006 og aðstoðaði við gerð árshlutauppgjörs vegna fyrstu níu mánaða ársins 2007. Hann var félaginu og nýkjörnum endurskoðendum þess til aðstoðar og ráðgjafar þar til í nóvember 2007. Niðurstaða rekstrarreiknings hins gjaldþrota félags fyrir árin 2005, 2006 og fyrstu níu mánuði ársins 2007 sýndi að samanlagt tap á rekstri þess var um 414.000.000 króna. Hlutafé félagsins í ársreikningum 2005 og 2006 er tilgreint 12.500.000. Um framangreint tap var honum því kunnugt. Hann hefur upplýst að hann hafi fregnað af því að til stæði að selja tvær flugvélar félagsins, sem þá voru helstu eignir þess, og að það hafi verið tilefni þess að hann krafðist kyrrsetningar í þeim til tryggingar kröfu áfrýjanda. Ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991 um að rifta megi ráðstöfunum, sem þar greinir, ef sá sem hag hafði af ráðstöfun vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður, sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg, felur í sér kröfu um að hann hafi ekki sýnt af sér gáleysi. Í ákvæðinu felst að fyrirsvarsmanni áfrýjanda bar, miðað við þá þekkingu sem hann bjó yfir og upplýsingar sem hann hafði, að sýna aðgæslu og gæta að því að ráðstöfun færi ekki í bága við regluna. Verður að gera þá kröfu til hans að hann hafi mátt vita að í kjölfar níu mánaða uppgjörsins sem kynnt var í árslok 2007 hafi farið fram umræður í stjórn félagsins um fjárhagsvanda þess og um framtíð félagsins. Þá hafi hann einnig mátt vita að dótturfélög þess hættu rekstri í janúar 2008 og að við þeim blasti að verða tekin til gjaldþrotaskipta. Honum hafi því mátt vera ljóst að við félaginu blasti rekstrarstöðvun þegar hann 22. apríl 2008, þremur vikum fyrir frestdag, tók við greiðslu skuldarinnar en hún var reist á þremur reikningum og voru fimm til átján mánuðir liðnir frá gjalddaga þeirra. Hann mátti einnig vita að hann hafði knúið fram greiðslu á kröfu áfrýjanda og að margir aðrir kröfuhafa hefðu ekki fengið greiðslu. Er fullnægt því skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 að áfrýjandi hafi mátt vita að greiðslan fól í sér ótilhlýðilega mismunun í hans þágu og að félagið væri ógjaldfært, er greiðslan fór fram. Hann mátti einnig vita að greiðslan leiddi til þess að félagið hafði, sem greiðslunni nam, minni eignir til fullnustu handa öðrum kröfuhöfum. Er fallist á með héraðsdómi að rifta eigi greiðslunni og að áfrýjanda beri að endurgreiða þrotabúinu umkrafða fjárhæð.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Fyrir héraðsdómi reisti áfrýjandi kröfu sína um riftun bæði á 138. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Héraðsdómur tekur í niðurstöðukafla ekki með skýrum hætti af skarið um það á hvorri greininni niðurstaðan um riftun og endurgreiðslu er reist. Fer þetta í bága við f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem þó má ráða af rökstuðningi héraðsdóms að riftun sé reist á 141. gr. laga nr. 21/1991 er ekki næg ástæða til að ómerkja dóminn.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf., greiði stefnda, þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., málskostnað fyrir Hæstarétti, 400.000 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Svo sem fram kemur í atkvæði meirihluta dómenda reisir stefndi kröfu sína um riftun á greiðslunni til áfrýjanda 22. apríl 2008 eingöngu á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þannig er krafan ekki byggð á 134. gr. laganna en í því ákvæði er að finna sérstakar reglur um riftun á greiðslu skuldar sem þrotamaður hefur innt af hendi fyrir gjaldþrot. Er óumdeilt að greiðslunni verður ekki rift á grundvelli þessa ákvæðis. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði 141. gr. laganna séu uppfyllt. Aðilar deila um tvenn skilyrði. Annars vegar hvort greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt verið áfrýjanda til hagsbóta á kostnað annarra og hins vegar hvort áfrýjandi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni eignarhaldsfélagsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.
Í málinu liggur fyrir að fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafði tekið þátt í störfum við gerð árshlutauppgjörs eignarhaldsfélagsins fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2007 og þekkti efni þess. Hann hefur vísað til þess að efnahagsreikningur uppgjörsins hafi sýnt að eignir félagsins hafi verið um 240.000.000 krónum hærri en skuldir og því hafi hann ekki vitað betur en að efnahagur þess væri góður þrátt fyrir taprekstur. Í atkvæði meirihluta dómenda er talið að vitneskja fyrirsvarsmannsins um rekstrartap eignarhaldsfélagsins, áður en hann lét af störfum í þágu þess, leiði til þess að auknar kröfur verði gerðar til hans um aðgæslu, að því er varðar skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991, þegar hann tók við greiðslu kröfu sinnar. Virðist nánast vera lögð á hann sérstök skylda til að kanna hag félagsins við greiðsluna, og það þrátt fyrir vitneskju hans um að árshlutauppgjörið fyrir fyrstu níu mánuðina 2007 hafi sýnt góðan efnahag þess. Er hann þá talinn hafa sýnt af sér gáleysi fyrir að sinna ekki þessari skyldu. Hér tel ég of langt gengið. Vitneskja kröfuhafa um taprekstur félags í fortíðinni getur ekki ráðið úrslitum um mat á því hvort huglæg afstaða hans hafi verið sú sem 141. gr. laganna áskilur til að rifta megi greiðslu. Gildir þá að mínu mati einu þó að um sé að ræða aðila sem sinnt hefur endurskoðunarstörfum í þágu þess á fyrra tímabili.
Stefndi hefur ekki lagt fram gögn í málinu sem renna haldbærum stoðum undir fullyrðingu hans um að fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafi vitað eða mátt vita um það sem fram fór á stjórnarfundum í eignarhaldsfélaginu í nóvember og desember 2007, þar sem fjallað var um fjárhagsvanda þess. Ekki hafa heldur verið lögð fram gögn um vitneskju hans um rekstur dótturfélaga í ársbyrjun 2008 og ekki verið sýnt fram á að honum hafi mátt vera ljóst að við félaginu blasti rekstrarstöðvun þegar hann tók við greiðslunni 22. apríl 2008. Getur skyldleiki hans við þann mann sem gegndi þá stjórnarformennsku félagsins ekki létt af stefnda lögbundinni sönnunarbyrði um þetta. Ætla má að fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafi á þessum tíma vitað að flugvélar eignarhaldsfélagsins hefðu verið seldar en engin sönnun hefur verið færð fram í málinu um að honum hafi verið ljóst að andvirði þeirra dygði ekki til að greiða skuldir félagsins.
Það getur ekki talist ótilhlýðilegt í sjálfu sér að greiða gjaldfallnar rekstrarskuldir með venjulegum greiðslueyri, þó að greitt sé skömmu fyrir gjaldþrot. Samkvæmt því sem að framan greinir hefur stefndi ekki fært fram í málinu sönnun þess að fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafi haft vitneskju um fjárhagsstöðu eignarhaldsfélagsins þegar greiðsla fór fram eða mátt vita að sú ráðstöfun gæti talist vera honum til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt á kostnað annarra kröfuhafa. Tel ég því að sýkna beri áfrýjanda af kröfu stefnda og dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað sem ég tel hæfilega ákveðinn 700.000 krónur á báðum dómstigum.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. október 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., kt. 570796-2169, Borgartúni 25, Reykjavík, gegn GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf., kt. 690905-1240, Kristnibraut 81, Reykjavík, með stefnu sem birt var 18. febrúar 2009.
Dómkröfur stefnanda eru að rift verði með dómi greiðslu hins gjaldþrota félags, Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., á skuld við stefnda þann 22. apríl 2008 að fjárhæð 1.334.839 kr. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.334.839 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. apríl til greiðsludags. Auk þess er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því: Með bréfi, sem móttekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 14. maí 2008, var krafist að Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í bréfinu er m.a. greint frá því að félagið geti ekki staðið í fullum skilum við lánadrottna sína og greitt skuldir sínar; félagið sé hætt öllum rekstri og skuldirnar fallnar í gjalddaga; ólíklegt sé að greiðsluörðugleikar muni líða hjá innan skamms tíma. Greint er frá því að samþykkt hefði verið á stjórnarfundi 21. apríl 2008 að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta af framangreindum ástæðum.
Krafan var tekið fyrir á dómþingi 28. sama mánaðar, þar sem Gunnar Þórarinsson, stjórnarformaður félagsins, var mættur og lagði kröfuna í úrskurð. Með úrskurði sama dag var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með vísun til tilgreindra eigna og skulda félagsins í bréfinu og framangreindra málsástæðna félagsins að öðru leyti. En í ljósi þess taldi dómarinn að fullnægt væri skilyrðum 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að verða við kröfu félagsins um að bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að í beiðni félagsins um gjaldþrotaskipti sé greint frá því að fyrrum stjórn félagsins hefði samþykkt að bæta veðskuldum á allar eignir félagsins áður en hluthafafundur var haldinn 13. mars 2008. Flestar þeirra hefðu snúið að greiðslum til aðila tengdum stjórnarmönnum félagsins. Jafnframt hefðu stjórnendur greitt út alla aðra fjármuni sem fyrir fundust í félaginu til aðila sér tengdum. Um verulegar fjárhæðir hafi verið að ræða þar sem nokkrum kröfuhöfum hafi verið hyglað á kostnað annarra kröfuhafa þrátt fyrir vitneskju manna um að félagið stefndi í þrot.
Þá er af hálfu stefnanda staðhæft að í skýrslutöku af stjórnarformanninum hafi verið lögð fram ýmis gögn sem renni stoðum undir að kröfuhöfum hafi verið mismunað. Þeirra á meðal séu gögn um sölu á flugvélum félagsins, TF-CSA og TF-CSB af gerðinni Dornier, sem sýni að kaupverðinu var skipt á milli tiltekinna kröfuhafa félagsins með óeðlilegum hætti.
Þá segir í stefnu: „Þann 5. febrúar 2008 voru framangreindar flugvélar kyrrsettar að beiðni stefnda, . Flugvélarnar voru síðan seldar þann 21. apríl 2008. Samkvæmt yfirliti frá Sigurði Snædal Júlíussyni hdl. hjá Logos-lögmannsþjónustu, sem annaðist sölu vélanna, fékk stefnda greiddar kr. 1.334.839 af söluandvirði þeirra vegna kyrrsetningarinnar en jafnframt telur stefnandi að greiðsluna hafi mátt rekja til tengsla hins stefnda félags og stefnanda. Með bréfi fulltrúa skiptastjóra dags. 6. febrúar 2009 til stefnda var greiðslunni sem stefndi fékk á grundvelli hennar rift og þess krafist að stefndi endurgreiddi þrotabúinu þá fjárhæð sem það fékk eigi síðar en 11. febrúar 2009. Engin viðbrögð hafi hins vegar orðið af hálfu stefnda og er því þessi málshöfðun nauðsynleg.“
Af hálfu stefnda er málsatvikum og ágreiningsefni lýst á þann veg að Guðni Þór Guðnason endurskoðandi, stofnandi og eigandi stefnda, GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf., hafi veitt Eignarhaldsfélaginu City Star Airlines ehf. „endurskoðunarþjónustu“ árin 2005-2007. Reikningar stefnda á eignarhaldsfélagið sem voru gefnir út 30. október 2006, 9. október 2007 og 30. nóvember 2007, hefðu ekki verið greiddir þrátt fyrir ítrekuð tilmæli. Forsvarsmenn eignarhaldsfélagsins hefðu sagt Guðna Þór að þeir myndu ekki greiða reikningana vegna þess að þeir hefðu greitt honum nóg í gegnum tíðina.
Þá segir að Guðna Þór hefði borist til eyrna að eignarhaldsfélagið hygðist selja tvær flugvélar sínar. Hann hafi vitað að um var að ræða helstu eignir félagsins og viljað freista þess að fá umrædda reikninga greidda með því að krefjast kyrrsetningar á vélunum og fá þar með tryggingu fyrir greiðslu. Þá yrði skorið úr réttmæti kröfu hans í framhaldi í staðfestingarmáli um kyrrsetninguna. Kyrrsetningargerðin hafi farið fram 5. febrúar 2008 og staðfestingarmál höfðað í kjölfarið. Málið hafi hins vegar verið fellt niður án kostnaðar [5. maí 2008] þar sem eignarhaldsfélagið hafi greitt kröfuna auk lögmannskostnaðar hinn 22. apríl 2008. „Með greiðslu lá því fyrir viðurkenning félagsins á réttmæti krafna stefnda.“
Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefnandi byggir á því að greiðsla Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. til stefnda, hinn 22. apríl 2008, brjóti gegn meginreglum um jafnræði kröfuhafa svo sem lög nr. 21/1991 kveða á um, einkum 141. gr. laganna. Greiðslan hafi verið ótilhlýðileg stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Ótvírætt sé að eignarhaldsfélagið var á þessum tíma ógjaldfært og að forsvarsmanni stefnda var kunnugt um það. Um réttarheimildir vísar stefnandi til 138. og 141. gr. laga nr. 21/1991.
Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á: Stefndi byggir á því að ákvæði 138. og 141. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við í þessu máli. Kyrrsetningu hefði verið aflétt áður en dómur gekk í staðfestingarmáli um gerðina. Greiðslan hafi ekki skert greiðslugetu eignarhaldsfélagsins verulega, m.a. í ljósi hlutfalls kröfu stefnda af heildarfjárhæð söluandvirðis flugvélanna. Þá sé ekki sannað að félagið hafi verið ógjaldfært þegar stefndi fékk greiðsluna eða orðið það vegna hennar. Á þeim tíma hafi dótturfélag eignarhaldsfélagsins haft gilt flugrekstrarleyfi. Leyfið hafi verið endurnýjað í febrúar 2009 að teknu tilliti til fjárhagsstöðu félagsins. Um réttarheimildir vísar stefndi til almennra reglna gjaldþrotaréttar og kröfuréttar.
Niðurstaða: Guðni Þór Gunnarsson bar fyrir rétti að hafa verið kjörinn endurskoðandi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á haustmánuðum 2005 og starfað fyrir hönd félagsins við endurskoðun, ráðgjöf og skattframtöl og annað slíkt. Í maí árið 2007 hafi KPMG verið kjörinn endurskoðandi og tekið við flest öllu, sem hann hefði verið að gera, en hann haldið áfram að vinna fyrir félagið við ráðgjöf og annað slíkt þar til í nóvember 2007.
Lagt var fyrir Guðna Þór dskj. nr. 21, sem eru drög að rekstrarreikningi og efnahagsreikningi fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2007. Guðni Þór kvaðst hafa komið að einstökum þáttum við þessa reikningsgerð við afstemmingar og annað slíkt. Þegar þessi drög að efnahags- og rekstrarreikningi voru gerð hafi eignir félagsins verið um 800.000.000 og skuldir upp á 590.000.000; veltufé hefi verið upp á 400.000.000 á móti 78.000.000. Staðan hafi því verið góð. Þetta hafi hann vitað um efnahag félagsins þegar hann lauk störfum fyrir það.
Þegar hann gaf út umdeilda reikninga í þessu máli, sbr. dskj. 10, 11 og 12, sagði Guðni Þór, að ljóst hefði verið að þetta væri síðasta verk hans fyrir félagið. Þess vegna hefði hann farið sérstaklega vel yfir stöðuna og farið yfir alla tíma, sem hann hefði unnið fyrir félagið, og krafist greiðslu fyrir það.
Guðni Þór sagði að fyrstu viðbrögð forsvarsmanna félagsins við þessum reikningum hefði verið að lofa honum greiðslu. Þegar hann ítrekaði kröfuna hafi Atli Georg Árnason stjórnarformaður sagt honum að reikningarnir yrðu ekki greiddir þar sem fjárhæðin væri of há. Kvaðst Guðni Þór þá hafa leitað til Sigurbjörns Daða Dagbjartssonar, fjármálastjóra félagsins. Sigurbjörn Daði hefði verið sömu skoðunar og stjórnarformaðurinn. Hann hafi þá séð þann kost vænstan að leita sér lögfræðilegrar aðstoðar. Hvorki Atli Georg né Sigurbjörn Daði hefðu borið því við að félagið hefði ekki burði til að greiða reikningana.
Þegar hann krafðist kyrrsetningar á eignum félagsins, kvaðst Guðni Þór ekki hafa haft upplýsingar um að félagið væri jafn illa statt og síðar kom í ljós.
Á aðalfundi félagsins í maí 2007 kvaðst Guðni Þór ekki hafa náð kjöri sem endurskoðandi félagsins.
Guðni Þór kvað Gunnar Þórarinsson, fyrrum stjórnarformann eignarhaldsfélagsins, vera föður sinn. Faðir hans hefði ekki starfað fyrir GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf.
Vísað var til þess að í greinargerð stefnda sé sagt frá því að forsvarsmanni stefnda hefði borist til eyrna að Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf. hygðist selja tvær flugvélar í eigu þess. Á þeim tíma kvað Guðni Þór flugmálastjórn hafa haft upplýsingar um það og margir aðrir vitað um þetta.
Guðni Þór Gunnarsson endurskoðandi veitti Eignarhaldsfélaginu City Star Airlines ehf. endurskoðunarþjónustu í gegnum GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf. árin 2005 til og með 2007. Vafalaust er því að Guðni Þór hefur víðtæka þekkingu á rekstri eignarhaldsfélagsins og afkomu þessi ár. Gunnar Þórarinsson, faðir Guðna Þórs, átti hlut í eignarhaldsfélaginu frá árinu 2005. Frá þeim tíma var hann í stjórn félagsins og að síðustu stjórnarformaður þess, er hann krafðist gjaldþrotaskipta fyrir hönd félagsins með bréfi, sem móttekið var í héraðsdómi hinn 14. maí 2008. Þegar GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf. fékk umdeilda greiðslu, hinn 22. apríl 2008, mátti Guðni Þór, vegna tengsla sinnar og þekkingar, vita um ógjaldfærni Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., en samþykkt hafði verið á stjórnarfundi daginn áður að krefjast gjaldþrotaskipta.
Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfur stefnanda.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Rift er greiðslu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á skuld við GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf. þann 22. apríl 2008 að fjárhæð 1.334.839 krónur.
Stefndi, GÞG endurskoðun og ráðgjöf slf., greiði stefnanda, þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., 1.334.839 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. apríl 2008 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 403.069 krónur í málskostnað.