Hæstiréttur íslands

Mál nr. 765/2015

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Þuríður B. Sigurjónsdóttir hdl. )

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að til rannsóknar hjá lögreglu væri kæra brotaþola á hendur X fyrir ólögmæta meingerð í sinn garð með því að hafa vísvitandi eða af stórkostlegu gáleysi smitað hana af tilteknum sjúkdómi. Af því leiddi að öll samskipti af hálfu X við brotaþola væru til þess fallin að raska friði hennar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 4. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er til rannsóknar hjá lögreglu kæra brotaþola á hendur varnaraðila fyrir ólögmæta meingerð í sinn garð með því að hafa vísvitandi eða af stórkostlegu gáleysi smitað hana af HIV-veirunni. Af því leiðir að öll samskipti af hálfu varnaraðila við brotaþola eru til þess fallin að að raska friði hennar. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Þuríðar Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.                        

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 4. nóvember 2015 þess efnis að X, [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann veiti A, kt. [...], eftirför, hringi í hana, sendi henni smáskilaboð í gegnum síma eða internet eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, þar með talið í gegnum aðra aðila eða með aðgangi annarra aðila að samfélagsmiðlum og heimasíðum.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu liggi varnaraðili nú undir sterkum grun um að hafa um helgi í lok september sl. sent A skilaboð og vinabeiðni á facebook undir nafninu [...]. Þriðjudaginn þar á eftir hafi verið ósvarað símtal á síma A úr [...] númeri sem hún hafi ekki kannast við. Föstudaginn þar á eftir sé aftur hringt til hennar úr sama númeri og hún svari og heyri þá strax að varnaraðili er að hringja í hana, hún hafi ekki talað við hann og skellt fljótlega á hann. Varnaraðili hringi þá aftur í hana og hún svari ekki en þá sendi hann henni sms „hæ you should know why I am calling before dropping the call“. Í kjölfarið hafi réttargæslumaður A talað við verjanda varnaraðila sem hafi komið því áleiðis til hans að hún vildi ekki að hann væri að setja sig í samband við hana.

Þriðjudaginn 27. október sl. hafi varnaraðili svo aftur haft samband við hana en hún hafi ekki svarað símanum.

Fyrir liggi hjá lögreglu mál 007-2015-[...] þar sem A kærir varnaraðili fyrir ólögmæta meingerð í sinn garð með því að hafa vísvitandi eða af stórkostlegu gáleysi smitað sig af HIV veirunni. Það mál sé enn til rannsóknar en staðfest hafi verið að A og varnaraðili séu bæði smituð af HIV.

Lögreglustjóri byggi ákvörðun sína um nálgunarbann á því að varnaraðili sé nú sterklega grunaður um að vera að setja sig í samband við A með margvíslegum hætti sem sé til þess fallið að raska friði hennar verulega. Varnaraðila megi vera ljóst að A vilji ekki að hann setji sig í samband við hana enda sýnt að hann reyni að fá samband við hana með brögðum, svo sem með því að skipta um nafn á facebook og með því að skipta um símanúmer í þeirri von að hún svari honum. 

Í ljósi ofangreinds og þess að hann sé nú undir grun um að hafa brotið gegn A og sett hana í mjög erfiða stöðu vegna smits og veikinda telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt enda séu öll samskipti frá honum mjög íþyngjandi fyrir hana og ekki séð að hægt verði að leggja á hana að þurfa að þola frekara áreiti af hans hálfu. Þegar litið sé til fyrri sögu þá sé talin hætta á að hann muni halda háttsemi sinni áfram sé hann látinn afskiptalaus og að hætta sé á því að hann haldi áfram að raska friði hennar í skilningi 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verði verndað með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

 

Niðurstaða

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, hefur krafist þess að staðfest verði sú ákvörðun hans frá 4. nóvember sl., um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þar sem uppfyllt séu skilyrði 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til að því verði beitt. Í a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 segir að beita megi nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Í b-lið ákvæðisins segir að beita megi nálgunarbanni ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt áðurnefndum a-lið.

Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili ítrekað frá því í lok september sl. sett sig í samband við brotaþola í óþökk hennar. Í ljósi þess sem fram kemur í gögnum málsins og rakið hefur verið fyrir dóminum um hegðun varnaraðila gagnvart brotaþola verður að telja ljóst að rökstuddur grunur sé um að kærði hafi með háttsemi sinni raskað friði brotaþola. Er þá einnig litið til fyrri samskipta aðila en rannsókn þar að lútandi mun enn standa yfir. Þá verður að telja, í ljósi tíðni þeirra samskipta sem greint er frá í greinargerð lögreglustjóra, að hætta sé á því að hann haldi háttsemi sinni áfram. Er því fullnægt framangreindum skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni enda verður ekki talið að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Þá þykja ekki vera efni til að marka nálgunarbanni skemmri tíma en krafist er en litið er til þess að við kröfu um nálgunarbann hefur verið gætt meðalhófs eins og kostur er. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um nálgunarbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þuríðar Sigurjónsdóttur hdl. sem ákveðst 185.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hreiðar Eiríksson hdl. 185.000 krónur.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                    Staðfest er ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 4. nóvember 2015, þess efnis að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði. Lagt er bann við því að hann veiti A, kt. [...], eftirför, hringi í hana, sendi henni smáskilaboð í gegnum síma eða internet eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, þar með talið í gegnum aðra aðila eða með aðgangi annarra aðila að samfélagsmiðlum og heimasíðum.

                    Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þuríðar Sigurjónsdóttur hdl.  sem ákveðst 185.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hreiðar Eiríksson hdl. 185.000 krónur.