Hæstiréttur íslands

Mál nr. 405/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæruvald
  • Reglugerðarheimild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


         

Mánudaginn 3. september 2007.

Nr. 405/2007.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson, settur saksóknari)

gegn

X

(Pétur Kristinsson hdl.)

 

Kærumál. Ákæruvald. Reglugerðarheimild. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Með 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1050/2006 um rannsókn og saksókn efnahagsbrota var meðferð „alvarlegra brota” gegn meðal annars 262. gr. almennra hegningarlaga og skattalögum, auk skipulagðra fjármunabrota sem tengjast atvinnurekstri, felld undir verksvið saksóknara efnahagsbrota. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 er ákæruvald í höndum ríkissaksóknara og lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra. Ákæruvaldið í máli þessu var lögum samkvæmt í höndum ríkislögreglustjóra. Heimild 4. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 stendur til þess eins að saksóknari, sem skipaður er við embætti ríkislögreglustjóra, höfði og flytji mál í umboði forstöðumanns þess. Ákvæði reglugerðar nr. 1050/2006, þar sem ráðgert er að saksóknari efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra fari sjálfstætt með ákæruvald í þeim málum, sem eiga undir það, en ekki í umboði ríkislögreglustjóra, voru því talin í andstöðu við framangreind ákvæði. Ekki var að finna viðhlítandi lagastoð til að víkja á þennan hátt frá lögbundinni skipun ákæruvaldsins með reglugerð. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun því staðfest. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkislögreglustjóri skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. júlí 2007, þar sem máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði lagður á varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að sér verði gert að greiða sakarkostnað í þessum þætti málsins.

Mál þetta var höfðað með ákæru 17. apríl 2007 á hendur varnaraðila fyrir að hafa með nánar tilgreindri háttsemi gerst sekur um umboðssvik og brotið með því gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt upphafsorðum ákærunnar höfðaði „saksóknari efnahagsbrota“ málið og var hún gefin út á „skrifstofu Ríkislögreglustjórans“ af Helga Magnúsi Gunnarssyni saksóknara.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum fara ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri, með ákæruvald. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er dómsmálaráðherra heimilað að skipa saksóknara við einstök embætti lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra, til að annast saksókn og málflutning samkvæmt lögunum „í umboði þeirra.“ Þá er í 1. mgr. 28. gr. laganna mælt svo fyrir að lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri, höfði önnur opinber mál en þau, sem ríkissaksóknari höfðar samkvæmt 3. mgr. 27. gr. þeirra. Eftir síðastgreindu lagaákvæði fer ríkissaksóknari ekki með ákæruvald vegna auðgunarbrota, sem varða við XXVI. kafla almennra hegningarlaga, og eiga slík mál því undir lögreglustjóra. Samkvæmt a. lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skal ríkislögreglustjóri starfrækja lögreglurannsóknardeild til að rannsaka skatta- og efnahagsbrot, en um verkaskiptingu milli hans og annarra lögreglustjóra við rannsókn brota á þessu sviði skal mælt fyrir í reglugerð, sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna. Ræðst þá af sömu heimild hvernig verkum skuli skipt milli ríkislögreglustjóra og annarra lögreglustjóra að því er ákæruvald varðar, þar á meðal vegna brota gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga. Með 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1050/2006 um rannsókn og saksókn efnahagsbrota hefur meðferð „alvarlegra brota“ gegn meðal annars 249. gr. almennra hegningarlaga verið felld undir verksvið þeirrar lögreglurannsóknardeildar við embætti ríkislögreglustjóra, sem um ræðir í áðurnefndum a. lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga. Brotin, sem varnaraðila eru gefin að sök, eru þess eðlis að þetta ákvæði reglugerðar nr. 1050/2006 á við um þau. Að lögum fara því hvorki ríkissaksóknari né aðrir lögreglustjórar en ríkislögreglustjóri með ákæruvald vegna þessara ætluðu brota.

Samkvæmt fyrrnefndri 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 er ákæruvald í höndum ríkissaksóknara og lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra. Heimildin í 4. mgr. sömu lagagreinar, sem áður er getið, stendur til þess eins að saksóknari, sem skipaður er við embætti ríkislögreglustjóra, höfði og flytji mál í umboði forstöðumanns þess. Ákvæði reglugerðar nr. 1050/2006, þar sem ráðgert er að saksóknari efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra fari sjálfstætt með ákæruvald í þeim málum, sem eiga undir það, en ekki í umboði ríkislögreglustjóra, eru því að þessu leyti í andstöðu við framangreind lagaákvæði. Í 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga, sem vísað er til í 7. gr. reglugerðarinnar sem heimild fyrir setningu hennar, verður ekki fundin viðhlítandi stoð til að víkja á þennan hátt frá lögbundinni skipan ákæruvaldsins. Með því að annmarkar voru að þessu leyti á höfðun málsins og meðferð þess verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Samkvæmt 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður kærumálskostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Allur kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Péturs Kristinssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

 

                                         Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. júlí 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 15. júní sl., er höfðað með ákæru saksóknara efnahagsbrota, útgefinni 17. apríl 2007, á hendur X, kt. [...], [...], Akureyri,

„fyrir umboðssvik með því að hafa þriðjudaginn 29. ágúst 2006, misnotað aðgang sinn að gjaldeyrisviðskiptakerfi í Netbanka hlutafélagsins Glitnis, með því að nýta sér með kerfisbundnum og sviksamlegum hætti kerfisvillu í gjaldeyrisviðskiptakerfinu, sem var til komin vegna mistaka starfsmanna félagsins við forritun þess sem leiddi til þess að kaup- og sölugengi víxlaðist, og hafa þannig aflað sér kr. 3.132.561,95 með samtals 491 færslu á gjaldeyrisreikningum sínum nr. 565-38-710142, 565-38-710210, 565-38-100087 og 565-38-100200 þar sem hann í öllum tilvikum keypti dollara fyrir evrur og seldi síðan strax aftur fyrir evrur.  Vegna kerfisvillunnar fékk ákærði í öllum tilvikum í þessum viðskiptum til sín þá fjárhæð sem undir eðlilegum kringumstæðum rennur til bankans í formi álags. 

Telst þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreint brot.“ 

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði þ.á.m.hæfileg málsvarnarlaun sér til handa verði ákærði sýknaður.  Verði ákærði sakfelldur fellur verjandi hans frá kröfu um málsvarnarlaun. 

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála segir að með ákæruvald fari ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri.  Í 4. mgr. sömu lagagreinar er dómsmálaráðherra fengin heimild til að skipa saksóknara við einstök embætti lögreglustjóra, þar á meðal embætti ríkislögreglustjóra, til að annast saksókn og málflutning samkvæmt lögum þessum í umboði þeirra. 

Þann 11. desember 2006 setti dómsmálaráðherra reglugerð um rannsókn og saksókn efnahagsbrota nr. 1050/2006, sem tók gildi 1. janúar 2007. 

Í 1. mgr. 1. gr., sbr. 3. gr. reglugerðarinnar er saksóknara efnahagsbrota falið að annast rannsókn á tilgreindum brotum og meðferð þeirra mála fyrir dómstólum.  Í 4. mgr. 1. gr. segir að saksóknari efnahagsbrota, sem sé skipaður til starfa hjá ríkislögreglustjóranum samkvæmt heimild í lögum um meðferð opinberra mála, sé í fyrirsvari fyrir rannsóknum efnahagsbrota.  Hann annist ákæruvald ríkislögreglustjórans vegna efnahagsbrota en beri faglega ábyrgð gagnvart ríkissaksóknara.  Í 6. mgr. kemur fram að ríkissaksóknari geti gefið fyrirmæli um meðferð einstakra mála hjá saksóknara efnahagsbrota, kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd rannsóknar og fylgst með henni og í því sambandi er vísað til 5. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála þar sem fjallað er um stöðu ríkissaksóknara gagnvart „öðrum ákærendum“. 

Í 1. mgr. 2. gr. framangreindrar reglugerðar er saksóknara efnahagsbrota falið að taka ákvörðun um hvort höfða skuli mál á grundvelli rannsóknar sem hann hefur látið framkvæma.  Hann höfði mál í nafni saksóknara efnahagsbrota og flytji þau fyrir héraðsdómi nema ríkissaksóknara beri að höfða málið samkvæmt fyrirmælum laga um meðferð opinberra mála.  

Í 7. gr. reglugerðarinnar segir að reglugerðin sé sett með heimild í 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, með síðari breytingum. 

Af þessu verður ráðið að saksóknara efnahagsbrota sé með framangreindri reglugerð í raun falið sjálfstætt ákæruvald.  Ekki verður talið að í tilvitnuðum ákvæðum lögreglulaga felist heimild til að stofna embætti sjálfstæðs handhafa ákæruvalds enda eru meginreglur um ákæruvaldið í lögum um meðferð opinberra mála.  Í 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram hverjir fara með ákæruvaldið.  Verður að telja að með ákvæðum umræddrar reglugerðarinnar sé farið út fyrir heimild 4. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála sem heimilar aðeins skipun saksóknara sem annist saksókn og málflutning í umboði lögreglustjóra.  Verður saksóknara efnahagsbrota ekki falin sjálfstæð meðferð ákæruvalds með reglugerð að óbreyttum lögum.  Brast hann því heimild til að gefa út ákæru í máli þessu í eigin nafni.  Er því ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.   

Eftir úrslitum málsins og 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Guðmundssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin kr. 300.000, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur tafist vegna anna dómarans.

Úrskurðinn kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

                                                      Á L Y K T A R O R Ð :

Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá dómi.

Sakarkostnaður, þ.á.m. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Péturs Kristinssonar hdl., kr. 300.000, greiðist úr ríkissjóði.