Hæstiréttur íslands
Mál nr. 681/2016
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Gengistrygging
- Skuldabréf
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. október 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 15.472.991 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. febrúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og skírskotun til dóms Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011, auk fjölmargra dóma réttarins sem gengu í kjölfarið, verður dómurinn staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gunnar Ingi Gunnarsson, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 6. júlí 2016
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 1. júní sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Gunnari Inga Gunnarssyni, Vatnsstíg 21, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 19. maí 2015.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 15.472.991 krónu, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 3. febrúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir að hinn 6. september 2007 undirritaði stefnandi veðskuldabréf til handa Glitni banka hf. Veðskuldabréfið bar yfirskriftina: „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Þá sagði í skuldabréfinu: „Undirritaður útgefandi viðurkennir með undirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda Glitni banka hf. ... eftirfarandi erlendar fjárhæðir eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum, sem birtar eru í almennri gengistöflu Glitnis banka hf., eða í íslenskum krónum:“ Síðan eru í skuldabréfinu fjárhæðir lánsins tilgreindar 51.791 svissneskur franki, 5.126.955 japönsk jen og 31.438 evrur og jafnvirði þeirra fjárhæða þann 31. ágúst 2007, sagt 8.274.000 krónur. Vextir samkvæmt skuldabréfinu eru tilgreindir LIBOR-vextir og EURIBOR-vextir, en lánshluti í íslenskum krónum skyldi vera REIBOR-vextir, en samkvæmt ákvæði skuldabréfsins var heimilt að myntbreyta láninu. Höfuðstóll lánsins skyldi endurgreiddur 1. október 2012, en vextir skyldu greiddir mánaðarlega í 60 mánuði, í fyrsta sinn 1. október 2007. Ágreiningslaust er að fjárhæð lánsins var greidd út í íslenskum krónum.
Stefnandi veitti Glitni banka hf. heimild til að skuldfæra íslenskan krónureikning sinn fyrir vöxtum á gjalddaga þeirra og sama gerði stefndi eftir að hann eignaðist lánið. Á árinu 2011 skipti stefndi láninu upp í þrjú lán með þremur lánsnúmerum.
Stefnandi kveður tildrög þess að hann undirritaði umþrætt veðskuldabréf hafa verið þau, að hann og eiginkona hans hafi keypt fasteignina Norðurgötu 6 og 8, Tjarnarbyggð, Árborg, þann 14. september 2007. Kaupverðið hafi verið 10.342.020 krónur. Kaupendur hafi skuldbundið sig til að greiða kaupverðið, annars vegar með peningum við undirskrift, alls 2.068.020 krónur, og hins vegar með peningum, 8.274.000 krónum, við útborgun láns frá Glitni banka hf.
Við undirritun kaupsamnings hafi annars vegar legið fyrir lánsumsókn frá stefnanda til Glitnis banka hf., sem seljandi hafi veitt skilyrt veðleyfi fyrir, og hins vegar veðskuldabréf undirritað 6. september 2007.
Í veðleyfinu, sem var undirritað af Glitni banka hf., sagði að Brúarbyggð ehf., sem var seljandi fasteignarinnar, veitti stefnanda heimild til að veðsetja Norðurgötu til tryggingar gengistryggðu veðskuldabréfi að fjárhæð 8.274.000 krónur. Síðan sagði í veðleyfinu: „Veðheimildin er veitt með því skilyrði að Glitnir banki hafi greiði allt andvirði lánsins að frádregnum kostnaði bankans inn á reikning nr. 101375 bnr. 0586, hb. 14 þegar veðskuldabréfinu hefur verið þinglýst. Eigandi reikningsins er Brúarbyggð ehf., kt. 530306-1270.“
Glitnir banki greiddi lánið hins vegar inn á íslenskan krónureikning stefnanda og kveðst stefnandi hafa millifært féð til Brúarbyggðar ehf.
Stefnandi skrifaði stefnda bréf þann 22. júní 2010, þar sem hann benti stefnda á að lánssamningurinn væri, í ljósi dóma Hæstaréttar, bundinn ólögmætri gengistryggingu. Stefnandi krafðist endurútreiknings lánsins.
Í 1. málslið ákvæðis X til bráðabirgða í lögum nr. 151/2010, sbr. 2. gr. þeirra laga, um breytingu á lögum nr. 38/2001, sagði að hafi húsnæðislán til neytenda verið greitt út í íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum verið hluti af viðkomandi lánssamningi, en endurgreiðsla skuldarinnar miðast að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, færi um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greinir í 18. gr. laganna. Í nefndu bráðabirgðaákvæði segir jafnframt að afmörkun þeirra skuldbindinga sem falla undir ákvæðið skuli vera í samræmi við skilyrði ákvæðis B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, en þar er í tengslum við vaxtabætur vikið að lánum „sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003 og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum“. Samkvæmt 2. mgr. B-liðar 68. gr. laganna er það skilyrði þess að vaxtagjöld geti myndað rétt til vaxtabóta að um sé að ræða fasteignaveðlán til a.m.k. tveggja ára eða lán við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára enda séu lánin sannanlega til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Stefndi telur að umrædd skuldbinding hafi ekki fullnægt þessum áskilnaði um húsnæðislán „til eigin nota“.
Stefndi bauð stefnanda upp á úrræði til lækkunar skuldbindingarinnar, svo sem að skuldbindingin yrði reiknuð í íslenskar krónur miðað við sölugengi undirliggjandi mynta þann 29. september 2008, en stefnandi hafnaði því, þar sem hann taldi skuldbindinguna vera í íslenskum krónum, gengistryggða. Stefnanda stóð og til boða að lánið yrði endurreiknað, að því er stefndi segir umfram skyldu, eftir þeirri aðferðafræði sem lög nr. 151/2010 mæltu fyrir um, þ.e. líkt og um skuldbindingu í íslenskum krónum væri að ræða, sem bæri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, en stefnandi hafnaði því.
Framangreind skuldbinding var ávallt í skilum fram að lokagjalddaga lánsins, en þá innti stefnandi hvorki af hendi áfallna vexti né höfuðstól. Stefndi kveðst ekki bera brigður á, hafi skuldbindingin á annað borð verið í íslenskum krónum, að stefnandi verði ekki krafinn um vangreidda vexti, þ.e. samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, fyrir þegar greidd vaxtatímabil.
Skuld samkvæmt umdeildu skuldabréfi fór í innheimtuferli, sbr. innheimtubréf, greiðsluáskorun og beiðni um nauðungaruppboð, sbr. einnig annað innheimtubréf, þar sem fram komi til viðbótar við fyrra innheimtubréf, að stefndi taldi til veðréttinda í fasteign stefnanda, og eiginkonu hans, að Miðleiti 12, Reykjavík, á grundvelli tryggingarbréfs, upphaflega útgefnu í febrúar 2005, þar sem fram kemur að það sé til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum, en veðréttur samkvæmt þessu tryggingarbréfi var færður yfir á fasteignina að Miðleiti 12.
Stefnandi og eiginkona hans vildu selja umrædda eign, en stefndi var ekki reiðubúinn að aflétta veðböndum. Stefndi kveður að uppreiknuð staða tryggingarbréfsins hafi verið 23.890.269 krónur, nema því aðeins að stefnandi myndi greiða hina umþrættu skuld. Stefnandi brást þá við með því að gefa út ávísun að fjárhæð 8.274.000 krónur, eða það sem hann hafði talið rétta höfuðstólsfjárhæð þegar skuldbindingin var á gjalddaga. Stefnandi innti síðan af hendi fullnaðargreiðslu, þ.e. 15.472.991 krónu til viðbótar fyrri fjárhæð, eða samtals 23.746.991 krónu.
Kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda miðast við það að þessi greiðsla hafi verið umfram skyldu.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að Glitnir banki hf. hafi aldrei veitt honum lán í erlendum gjaldmiðli/-um, og að stefndi, sem leiði rétt sinn á hendur stefnanda frá Glitni banka hf., hafi aldrei eignast aðra og hærri kröfu á hendur stefnanda samkvæmt veðskuldabréfinu frá 6. september 2007, en að hámarki 8.274.000 krónur, sem hafi verið á gjalddaga 1. október 2012.
Stefnandi bendir á að Glitnir banki hf. hafi hvorki gert né getað gert löglegan lánssamning við stefnanda um lán í erlendum myntum þann 6. september 2007. Lánið sem Glitnir banki hf. hafi veitt stefnanda hafi verið veitt á Íslandi af íslensku fjármálafyrirtæki. Stefnandi hafi notað lánsféð til kaupa á fasteignum hér á landi af íslenskum aðila. Til viðskipta, eins og þeirra sem lánið hafi verið veitt til, hafi Glitnir banki hf. aldrei getað veitt lán í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum, enda sé íslensk króna lögeyrir Íslands, og eini gjaldmiðillinn sem Glitnir banki hf. hafi getað, einn og óstuddur, veitt lán í. Til lánveitinga í lögeyri annarra ríkja eða ríkjasambanda hefði Glitnir banki hf. þurft aðkomu banka í því ríki eða innan þess ríkjasambands, sem notaði þann lögeyri sem Glitnir banki hf. hafi látið líta út fyrir að samið hefði verið um að veita stefnanda lánið í.
Til lánveitingar í lögeyri annarra ríkja eða ríkjasambanda hefði Glitnir banki hf. þurft aðkomu banka í því ríki eða innan þess ríkjasambands, sem notaði þann lögeyri sem Glitnir banki hf. hafi látið líta út fyrir að samið hefði verið um að veita stefnanda lánið í. Stefnandi hefði þá orðið að eiga bankareikning hjá erlendum banka eða bönkum til að taka við láninu í þeim gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, sem lánið hefði verið greitt út í. Slíka bankareikninga hafi stefnandi ekki getað stofnað hjá Glitni banka hf. Stefnandi hafi hvorki verið í beinu né óbeinu sambandi við banka í Sviss, Japan eða einhverju ríkja Evrópusambandsins, sem noti evru sem lögeyri, þegar hann hafi samið við Glitni banka hf. um lántöku í september 2007.
Enginn erlendur gjaldeyrir hafi því komið við sögu þegar Glitnir banki hf. hafi greitt stefnanda út andvirði veðlánsins þann 21. september 2007. Glitnir banki hf. hafi greitt íslenskar krónur inn á íslenskan krónureikning stefnanda, enda hafi Glitnir banki hf. ekki getað efnt lánsloforð sitt gagnvart stefnanda á neinn annan hátt. Engu breyti hér um þó að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi búið til skjöl í tengslum við útborgun lánsins þess efnis, að til útgreiðslu væru svissneskir frankar, japönsk jen og evrur og að gjaldmiðlum þessum hefði verið skipt fyrir íslenskar krónur. Einu peningarnir sem Glitnir banki hf. hafi lánað stefnanda hafi verið íslenskar krónur. Glitnir banki hf. hafi ekki einu sinni farið þá leið við útgreiðslu lánsins til stefnanda, að leggja meint lánsfé í erlendum gjaldmiðlum inn á innlenda gjaldeyrisreikninga, höfuðbók 38, eins og oft hafi verið tíðkað á árunum eftir gildistöku laga nr. 38/2001, sem lagt hafi bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum. Það vinnulag fjármálafyrirtækja og málatilbúnaður lögmanna þeirra hafi ruglað dómstóla í ríminu á árinu 2011. Því þá hafi dómstólar allt í einu farið að telja að það skipti einhverju máli inn á hvers konar innlánsreikning hjá lánveitanda lánsféð hefði verið lagt við útborgun þess. Þessi rangi málatilbúnaður, sem einkum hafi verið viðhafður af hálfu hinna þriggja nýju fjármálafyrirtækja, sem Fjármálaeftirlitið hafi komið á fót í október 2008, hafi leitt til þess að sumar lánveitingar í íslenskum krónum hafi verið taldar í erlendum gjaldmiðlum, án þess að vera það. Innlendir gjaldeyrisreikningar séu ekki til í þeirri merkingu að á þeim sé varðveittur gjaldeyrir. Innlendir gjaldeyrisreikningar geymi íslenskar krónur, eins og allir aðrir innlánsreikningar í íslenskum viðskiptabönkum og sparisjóðum. Vegna þess skipti engu fyrir úrslit máls þessa, hvaða niðurstöðu Hæstiréttur hafi komist í máli nr. 524/2011, eins og haldið sé fram í bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 30. maí 2013. Með bréfi þessu hafi stefndi tilkynnt stefnanda að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að lán Glitnis banka hf. til stefnanda, 6. september 2007, hefði verið í erlendum gjaldmiðlum en ekki gengistryggt. Stefndi hefði þá þegar gjaldfellt veðskuldabréfið frá 6. september 2007 og krafist nauðungaruppboðs á Norðurgötu.
Stefnandi byggir jafnframt á því að uppgjör veðskuldarinnar samkvæmt umþrættu veðskuldabréfi hafi verið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1935. Einnig að lánið hafi verið ósamrýmanlegt eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði, í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og 9. gr. reglna um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Lánið hafi verið ósamrýmanlegt ákvæðum þágildandi laga nr. 107/2009 og leiði til ólögmætrar auðgunar stefnda, fái hann haldið þeim 15.472.991 krónu, sem honum hafi tekist að hafa af stefnanda við uppgjör á kröfu samkvæmt umdeildu veðskuldabréfi, með því að bera fyrir sig við innheimtu veðskuldabréfsins önnur og ótengd veðréttindi í Miðleiti 12, Reykjavík, sem stefnandi hafi veitt Glitni banka hf., vegna annarra og óskyldra skuldbindinga, þann 22. febrúar 2005, og löngu hafi verið gerðar upp, og með því knúið fram loforð af hálfu stefnanda þann 7. ágúst 2013 um greiðslu á 23.890.269 krónum, vegna veðláns upphaflega að höfuðstól 8.274.000 krónur, sem verið hafi á gjalddaga 1. október 2012.
Stefnandi bendir á að Glitnir banki hf. hafi komist í greiðsluþrot 7. október 2008, líkt og Landsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. nokkru síðar. Til að bregðast við yfirvofandi hruni fjármálakerfisins hafi Alþingi sett lög nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög, sem fengið hafi Fjármálaeftirlitinu nánast alræðisvald yfir hinu fallandi viðskiptabankakerfi, og heimild til að stofna nýja banka fyrir hönd ríkissjóðs á grunni þeirra föllnu banka.
Samkvæmt stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 hafi stefndi eignast bróðurpart lánasafns Glitnis banka hf., þ. á m. umdeilt veðskuldabréf. Sama dag hafi Fjármálaeftirlitið sett fram forsendur fyrir skiptingu efnahagsreikninga þrotamannanna. Við yfirfærslu hafi átt að miða við gengi gjaldmiðla 30. september 2008. Samkvæmt forsendum Fjármálaeftirlitsins hafi átt að flytja útlán til viðskiptavina Glitnis banka hf. til stefnda, að undanskildum tilteknum lánum, á bókfærðu verði að teknu tilliti til áætlaðra afskrifta einstakra útlána. Samkvæmt stofnefnahagsreikningi stefnda, sem Fjármálaeftirlitið hafi látið vinna og dagsettur sé 14. október 2008, hafi verðmæti yfirfærðra útlána strax verið fært niður um 40% eftir að þau hefðu verið umreiknuð í íslenskar krónur. Samkvæmt því sem stefndi hafi upplýst í gögnum sem hann hafi afhent stefnanda hafi óskert krafa Glitnis banka hf. á hendur stefnanda verið að fjárhæð 13.999.898 krónur þegar Fjármálaeftirlitið hafi ákveðið að flytja hana frá Glitni banka hf. til stefnda. Að teknu tilliti til 40% niðurfærslu hafi krafan, sem stefndi hafi eignast á hendur stefnanda samkvæmt umdeildu veðskuldabréfi, að hámarki verið 8.399.939 krónur, jafnvel lægri, þar sem sannvirði hennar hafi ekki verið metið.
Í stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins, um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til stefnda, hafi sagt um mat á eignum og uppgjöri milli þrotabankans og stefnda, að stofnunin myndi skipa viðurkenndan matsaðila til að meta sannvirði eigna og skulda, sem ráðstafað væri frá Glitni banka hf. til stefnda. Að því mati loknu hafi átt að fara fram uppgjör stefnda og þrotabankanna. Fjármálaeftirlitið hafi ráðið Deloitte LLP til að vinna matið. Mat Deloitte LLP á sannvirði eigna og skulda hafi legið fyrir í apríl 2009. Meðan Deloitte LLP hafi unnið matið á sannvirði lánasafns Glitnis banka hf. hafi fyrstu dómar í héraði gengið, þar sem því hafi verið slegið föstu að tiltekin lán fjármálafyrirtækja, sem veitt hefðu verið eftir gildistöku laga nr. 38/2001 geymdu ólögmæta gengistryggingu. Þessi staðreynd, ásamt því að í aðdraganda efnahags- og gjaldeyrishruns í október 2008 hafi verð erlendra gjaldmiðla hækkað um rösk 100% og gengisfallið ásamt öðru valdið óðaverðbólgu samtímis því sem verð eigna hafi hrapað, hafi leitt til þess að sannvirði lánasafns Glitnis banka hf. hafi verið metið mjög lágt. Mat Deloitte LLP hafi aldrei verið gert opinbert. Sannvirði lánanna virðist hins vegar hafa verið svo lágt, að mati Deloitte LLP, að stjórn stefnda hafi kosið að nefna lánin sem færð hafi verið yfir „deep discount loans“ upp á enska tungu í ársreikningi stefnda fyrir rekstrarárið 2009, sem birtur hafi verið á fyrri hluta árs 2010. Flest fyrirtæki og mikill fjöldi einstaklinga og heimila í landinu hafi verið í eigna- og skuldalegu uppnámi á árinu 2009 og fjármálafyrirtæki hafi ekki vitað hvaða kröfur þau ættu í raun. Stefnandi og stefndi hafi ekki verið nein undantekning þar á. Ríkisstjórnin hafi ákveðið að reyna að taka á þessum vanda með því að leggja fyrir Alþingi frumvarp um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka og gjaldeyrishrunsins. Alþingi hafi samþykkt frumvarpið, sem lög nr. 107/2009 og tóku þau gildi 31. október 2009. Vilji Alþingis hafi staðið til þess, að við endurskipulagningu skulda einstaklinga, heimila og fyrirtækja skyldu nýju bankarnir horfa til þeirra varúðarniðurfærslna sem gerðar hefðu verið við flutning lánasafnanna frá þrotabönkunum til nýju bankanna. Sá galli hafi þó verið á þessari gjöf Njarðar að stefnda og öðrum fjármálafyrirtækjum hafi verið falið vald til að setja reglur um framkvæmd laganna, sem í raun hafi verið ólögmætt valdaframsal. Hafi það komið í bakið á skuldurunum, sem í litlu hafi notið þeirrar skjaldborgar sem lögunum hafi verið ætlað að slá um hagsmuni þeirra.
Stefnandi kveður stefnda að einhverju leyti hafa tekið tillit til laga nr. 107/2009 varðandi innheimtu lána sem flutt hefðu verið til hans. Þegar komið hafi verið fram á árið 2011, og Alþingi hafi sett ný lög nr. 151/2011 vegna dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli 471/2010, hafi stefndi boðið stefnanda að gera veðskuldabréfið frá 6. september 2007 upp með greiðslu á 13.999.898 krónum. Hafi stefndi boðist til að lána stefnanda fjárhæðina til 15 ára með veði í Norðurgötu. Greiða hafi átt af nýja láninu mánaðarlega, í fyrsta sinn 1. desember 2011. Stefnandi kveðst ekki hafa gengið að þessu þar sem lokagjalddagi umþrætts veðskuldabréfs hefði ekki verið fyrr en 1. október 2012, auk þess sem það hafi verið staðföst afstaða hans að veðskuldabréfið hefði að geyma ólögmæta gengistryggingu. Stefnandi kveðst hafa greitt vexti af umþrættu veðskuldabréfi, eins og um hafi verið samið, og boðist reglulega til þess að greiða höfuðstól bréfsins. Hafi hann m.a. staðfest getu sína til greiðslu höfuðstóls veðskuldabréfsins í október 2012 með því að afhenda stefnda bankaávísun, sem stefndi hafi endursent þar sem útgefandi ávísunarinnar hefði sett ranga kennitölu.
Stefndi hafi gjaldfellt veðskuldabréfið þann 7. mars 2013 og talið sig þá eiga kröfu á hendur stefnanda að höfuðstólsfjárhæð 21.222.038 krónur. Sú krafa hafi byggt á ákvæði í skuldabréfinu þess efnis að kröfuhafa væri heimilt að umreikna skuldina í lok gjaldfellingardags í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi á þeim myntum sem skuldin samanstæði af.
Stefndi hafi loks fallist á, þann 7. ágúst 2013, að hann myndi láta aflétta tryggingarbréfinu af Miðleiti 12, Reykjavík, gegn því að stefnandi greiddi inn á reikning stefnda 23.890.269 krónur. Í lok nóvember hafi stefndi fallist á að veita skilyrt veðleyfi gegn greiðslu á 15.686.599 krónum, sem stefnandi ætti að fá við afsal. Við uppgjör kaupanna við afsal hafi komið í hlut stefnanda 15.472.991 króna, sem gengið hafi til stefnda, sem þegar hefði fengið greiddar 8.274.000 krónur.
Stefndi, sem hafi eignast með verulegum afslætti verðtryggða kröfu, upphaflega að höfuðstól 8.274.000 krónur, samkvæmt umþrættu veðskuldabréfi, hafi, með bolabrögðum, knúið fram greiðslu höfuðstóls, að fjárhæð 22.841.508 krónur, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Krefst stefnandi þess að uppgjöri veðskuldarinnar verði vikið til hliðar og stefndi dæmdur til að endurgreiða stefnanda 15.472.991 krónu, þar sem það hafi verið ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, í ljósi efnis veðskuldabréfsins sem uppgjörið hafi tekið til, stöðu samningsaðila bæði við lánveitinguna 2007 og uppgjörið 2013/2014, og þeirra atvika sem leitt hafi til þess að stefndi eignaðist veðskuldabréfið.
Þegar stofnað hafi verið til skuldarinnar af hálfu stefnanda, í september 2007, hafi hann verið að leita eftir hagstæðustu lánakjörum hjá viðskiptabanka sínum, þegar hann hafi samið um að taka veðlán að fjárhæð 8.274.000 krónur til fimm ára. Starfsmenn viðskiptabanka stefnanda hafi talið bestu lánakjörin haustið 2007 vera fólgin í gengistryggðu krónuláni. Þeirri ráðleggingu hafi stefnandi tekið, sem hafi reynst honum kostnaðarsöm.
Starfsmenn Glitnis banka hf. hafi kosið að kalla lánasamninginn „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Lánasérfræðingur Glitnis banka hf. og lögfræðingar bankans hafi vitað eða mátt vita árið 2007 að Glitnir banki hf. gæti ekki veitt lán í erlendum gjaldmiðlum. Heitið á lánasamningi bankans við stefnanda hafi því í raun verið merkingarlaust, að öðru leyti en því að um veðskuldabréf hafi verið að tefla, sem hafi veitt lánveitanda og síðari eigendum þess rétt til að fullnusta kröfuna samkvæmt skuldabréfinu yrði hún ekki greidd, án undangengins dóms og aðfarar, sbr. 17. lið skilmála veðskuldabréfsins. Þann rétt hafi stefndi nýtt sér þann 10. maí 2013 þegar hann hafi krafist nauðungaruppboðs á hinum veðsettu eignum.
Stefnandi telur það engu skipta fyrir rétt stefnda gagnvart sér, að í veðskuldabréfinu, sem hafi verið í stöðluðu formi Glitnis banka hf. og einhliða samið af starfsmönnum bankans, hefði verið að finna yfirlýsingu stefnanda um að hann viðurkenndi með undirritun sinni á veðskuldabréfið að skulda Glitni banka hf. 51.791 svissneskan franka, 5.126.955 japönsk jen og 31.438 evrur. Til að stefnandi gæti skuldað Glitni banka hf. framangreindar fjárhæðir, og síðar stefnda, hafi Glitnir banki hf. þurft að hafa verið bær um að lána tilgreindar fjárhæðir. Glitnir banki hf. hafi ekki getað það og þar með hafi skuldayfirlýsingin misst marks. Túlka verði efni veðskuldabréfsins með hliðsjón af því að Glitnir banki hf. hafi getað það og mátt þegar bankinn hafi veitt lánið. Hefði Glitnir banki hf. verið bær um að lána framangreinda erlenda gjaldmiðla hefði ekki þurft að taka það fram í veðskuldabréfinu að fjárhæðirnar væru jafnvirði 8.274.000 króna.
Þá verði að horfa til þess að stefnandi hafi einnig skrifað undir að skuld hans við Glitni banka hf., samkvæmt veðskuldabréfinu, gæti verið í íslenskum krónum, sem bæri REIBOR-vexti. Þetta hafi verið í samræmi við þá staðreynd að stefnandi hafi sótt um lán að fjárhæð 8.274.000 krónur. Glitnir banki hf. hafi lofað stefnanda að lána þá fjárhæð gegn veði í fasteignum, sem stefnandi hafi verið að kaupa. Í veðleyfinu, sem seljandi eignanna hafi veitt og stefnandi ásamt starfsmönnum Glitnis banka hf. hafi undirritað, hafi skuld stefnanda við Glitni banka hf. verið lýst þannig að um væri að ræða gengistryggt veðskuldabréf Glitnis banka hf., að fjárhæð 8.274.000 krónur.
Með vísan til framangreinds hafi Glitnir banki hf. aðeins eignast kröfu á hendur stefnanda að fjárhæð 8.274.000 krónur hinn 6. september 2007. Höfuðstóll þeirrar kröfu hafi verið á gjalddaga 1. október 2012. Stefnandi hafi boðið fram greiðslu höfuðstóls og vaxta til lúkningar skuldinni sem stefnandi hafi ekki verið til viðræðna um. Glitnir banki hf. hafi skuldfært reikning stefnanda fyrir vöxtum á umsömdum gjalddögum þeirra meðan bankinn hafi starfað og teljist það fullnaðargreiðsla þeirra vaxta. Hið sama hafi stefndi gert, er hann hafi eignast veðskuldabréfið með miklum afslætti eftir að viðskiptabankakerfið hafi verið komið í þrot.
Stefnandi byggir og á því að fái stefndi haldið þeim 15.472.991 krónu sem hann hafi knúið fram, auðgist hann sem nemi þeirri fjárhæð, á kostnað stefnanda. Sú auðgun sé í andstöðu við yfirlýst markmið með setningu neyðarlaganna og laga nr. 107/2009. Lög þessi hafi verið sett til að slá skjaldborg um einstaklinga, heimili og fyrirtæki, sem staðið hafi frammi fyrir fjárkröfum fjármálafyrirtækja, sem komin hafi verið í þrot, fjárkröfum sem hafi verið langt umfram það sem nokkurn hafi órað fyrir þegar til þeirra hafi verið stofnað. Stjórnvöld hafi ákveðið að taka kröfurnar af lögmætum eigendum þeirra, meta þær til sannvirðis, greiða fyrrum eiganda það, og fá þær í hendur nýjum eigendum. Þessir nýju eigendur hafi mátt og átt að innheimta kröfurnar með hliðsjón af metnu sannvirði þeirra, en það hafi stefndi ekki gert.
Um lagarök vísar stefnandi til laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2001, laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, laga nr. 107/2009, laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, laga nr. 38/2014, um fyrningu, og til ákvæða nr. XIV í lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, varðandi fyrningu krafna vegna ólögmætrar gengistryggingar.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hin umdeilda skuldbinding sé um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum. Í fyrsta lagi sé fyrirsögn þess: „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Í annan stað séu lánsfjárhæðir, þ.e. höfuðstólsfjárhæð skuldbindinga stefnanda, samkvæmt orðalagi skuldabréfsins, fyrst tilgreindar í þremur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi séu vextir samkvæmt skuldabréfinu LIBOR- og EURIBOR-vextir, til samræmis við það að um erlent lán sé að ræða. Tilvísun til REIBOR-vaxta taki ljóslega mið af því að stefnandi hafi getað stofnað til skuldbindingar í íslenskum krónum samkvæmt bréfinu, svo sem á grundvelli myntbreytingar, sbr. 7. og 8. gr. skuldabréfsins. Af ofangreindu leiði, bæði um einstök atriði og að samanlögðu, að umrædd skuldbinding teljist ótvírætt vera í erlendum gjaldmiðlum. Stefndi mótmælir því sérstaklega, að fyrirrennari hans hafi talið skuldbindinguna vera annars efnis, þ.e. í íslenskum krónum gengistryggða, auk þess sem slíkt verði ekki ráðið af efni skuldabréfsins. Í þessu samhengi hafi og tilvísun stefnanda til skilyrtrar veðheimildar, þar sem rætt sé um gengistryggt lán, enga þýðingu, en umrætt skjal stafi hvorki frá lánveitanda né geti það ráðið efni skuldabréfsins sem slíks.
Raunar sé það svo að Hæstiréttur Íslands hafi margsinnis slegið því föstu, þ. á m. í máli þar sem sjö dómarar hafi tekið sæti, að skuldbinding sem þessi sé í erlendum gjaldmiðlum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 og einnig t.d. í máli nr. 446/2013, en þar hafi beinlínis verið ráðgert að efndir aðalskyldu lántaka færu fram í íslenskum krónum. Stefndi vísar og til dóms Hæstaréttar í máli nr. 835/2014, þar sem niðurstaðan hafi verið á sama veg.
Stefndi bendir á að Hæstiréttur hafi margsinnis slegið því föstu að sé tilgreining skuldbindingarinnar í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. höfuðstólsfjárhæðar, skýrlega getið, sé um að ræða gilda skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum. Þurfi þá ekki að líta til þess með hvaða hætti efndir aðalskyldna hafi farið fram. Að þessu leyti sé málatilbúnaður stefnanda haldlaus, þ.e. form og efni skuldabréfsins beri það skýrlega með sér að vera í erlendum gjaldmiðlum. Þegar um sé að ræða skuldabréf fari fjarri því, m.a. með hliðsjón af eðli þeirra, að kaupandi skuldabréfsins þurfi að inna af hendi greiðslu beinlínis eftir efni samnings (in natura), sem svari til skuldaviðurkenningarinnar. Um slíkt hafi útgefandi og kaupandi skuldabréfs þvert á móti algjört sjálfdæmi. Þá sé og að því að gæta að þótt efndir aðalskyldna aðila hafi farið fram í íslenskum krónum, í þeim skilningi að erlendir gjaldmiðlar hafi ekki formlega skipt um hendur, fái það engu breytt um það að öll meðferð skuldbindinga af þessum toga sé með þeim hætti að um skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða, sbr. m.a. greiðsluseðla og kvittanir vegna lánsins.
Stefndi bendir á að tilvísun stefnanda til þess að íslenska krónan sé lögeyrir hér á landi, sbr. lög nr. 87/1992, og því geymi innlendir gjaldeyrisreikningar íslenskar krónur, og til þess að stefnandi hefði getað stofnað til skuldbindingar í hinum umsömdu erlendu gjaldmiðlum hefði hann þurft að eiga bankareikninga í þeim í heimalöndum hinna umsömdu gjaldmiðla, fari í bága við skýr dómafordæmi Hæstaréttar, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 337/2015, 577/2014, 558/2014, 466/2014, 409/2014, 90/2014, 57/2014, 25/2014, 26/2014, 187/2014, 498/2013, 446/2013, 337/2013, 715/2012, 66/2012, 467/2011, 50/2012 og 3/2012, en í öllum tilvikum hafi lánsskuldbindingar gagnvart innlendum fjármálafyrirtækjum verið taldar í erlendum myntum. Stefndi byggir á því að af ákvæðum laga nr. 38/2001 leiði að engar takmarkanir séu á lánveitingum innlendra lánastofnana í erlendum myntum. Um þá lögskýringu vísar stefndi meðal annars til tilvísaðra dóma, sérstaklega í málum nr. 92/2010 og 153/2010.
Stefndi telur að málatilbúnaður stefnanda hér að lútandi sé í andstöðu við eðli bankastarfsemi og innlánsreikninga, þ. á m. sé sá greinarmunur sem stefnandi geri á krónureikningum og gjaldeyrisreikningum, og leiði raunar af sér ómöguleika þegar erlend lán séu annars vegar, nema því aðeins að lánveitingin fari beinlínis fram fyrir tilstuðlan banka í heimalandi viðkomandi gjaldmiðils, sem hafi ekki, a.m.k. hingað til, verið talin raunin í bankastarfsemi, þ. á m. alþjóðlegri. Þá fái það engan veginn staðist að halda því fram að málatilbúnaður lögmanna innlendra fjármálafyrirtækja hafi ruglað dómstóla í rýminu á árinu 2011, eins og stefnandi haldi fram. Við úttekt á innstæðu eigi innstæðueigandi að jafnaði rétt á að fá afhenta t.d. seðla í viðkomandi gjaldmiðli, sem hafi þá sömu réttarstöðu, eða að úttekt fari fram með samningi um sölu viðkomandi gjaldmiðils samhliða úttekt. Allar framangreindar ráðstafanir feli í sér að innstæðueigandi geti nálgast innstæðuna í viðkomandi gjaldmiðli og þannig fengið efndir á skuldbindingu innlánsstofnunar. Við þessar aðstæður teljist fé í erlendum gjaldmiðlum í reynd hafa skipt um hendur í þeim skilningi sem hér skipti máli, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 66/2012. Ummæli á borð við þau að „enginn erlendur gjaldeyrir komi því við sögu“ feli og í sér ofureinföldun af hálfu stefnanda, enda erlendu lánsfjárhæðirnar í reynd færðar til andvirðis í íslenskar krónur sem stefnandi fái síðan til ráðstöfunar. Þess utan hafi umfjöllun um þetta atriði, með tilliti til eðlis skuldaskjalsins, enga þýðingu fyrir úrlausn sakarefnisins.
Þegar af þeirri ástæðu að um gilda skuldbindingu sé að ræða fái málatilbúnaður stefnanda, um að það sé andstætt lögum nr. 7/1936, lögum nr. 161/2002, sbr. reglugerð nr. 670/2013, og lögum nr. 107/2009, ásamt því að það leiði til ólögmætrar auðgunar fái stefndi „haldið þeim 15.472.991 krónum, sem honum tókst að hafa af stefnanda við uppgjör kröfu“ , ekki staðist, enda leiði af honum að hliðra eigi lögmætri og gildri fjárskuldbindingu í andstöðu við meginreglur fjármuna- og samningaréttar. Þá beri gögn málsins skýrlega með sér að stefndi hafi ítrekað, umfram skyldu, boðið stefnanda upp á úrræði ýmiss konar, sem hann hafi hins vegar ítrekað kosið að hafna, og verði stefnandi að bera af því allan halla. Í þessu ljósi skjóti það skökku við að stefnandi haldi því fram að viðskiptahættir stefnda séu ekki í samræmi við góðar viðskiptavenjur. Þannig sé ekki um það að ræða að stefndi hafi knúið fram „með bolabrögðum“ greiðslur umræddrar skuldbindingar, nema síður sé.
Tilvísanir stefnanda til stjórnvaldsákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, geti og engu breytt með tilliti til úrlausnarefnisins. Hvorki leiði af henni né lögum og hvað þá almennum reglum kröfuréttar, að „verðmat“ á framseldum kröfuréttindum á milli framseljanda og framsalshafa sé bindandi í lögskiptum framsalshafa og skuldara. Sama sé að segja um bókfært virði í stofnefnahagsreikningi eða viðlíka. Um hafi verið að ræða mat á heildarvirði lánasafna, en ekki einstökum lánum sem slíkum, og því engan veginn unnt að heimfæra reiknuð afföll upp á einstök lán eða fallast á fast hlutfall afsláttar fyrir hvern lántaka á þeim grunni. Í samræmi við framangreint muni stefndi ekki verða við áskorun stefnanda um að upplýsa um hvert hafi verið metið sannvirði lánasafns Glitnis banka hf. til einstaklinga við færslu þess þann 14. október 2008 frá Glitni banka hf. til stefnda, en stefnandi geti fengið aðrar þær upplýsingar, sem hann hafi óskað eftir í stefnu, t.d. úr ársreikningum stefnda, sem þess utan séu þýðingarlausar fyrir úrlausn sakarefnisins og verði því ekki afhentar.
Stefndi hafnar því sem röngu og ósönnuðu og auk þess vanreifuðu, að hann hafi brotið gegn lögum nr. 107/2009. Stefndi hafnar því að lögin feli í sér ólögmætt valdframsal Alþingis, eins og stefnandi haldi fram í stefnu, auk þess sem það sé þýðingarlaust fyrir úrlausn sakarefnisins. Skilyrðum óréttmætrar auðgunar geti í ljósi framangreinds, ekki talist fullnægt.
Stefndi telur að fjárkrafa stefnanda, sem virðist samanstanda af þeim fjármunum, öðrum en reglulegum vaxtagreiðslum, sem stefnandi hafi innt af hendi, að frádregnu því sem stefnandi telji sig að réttu lagi hafa átt að greiða, þ.e. 23.746.991 kr. – 8.274.000 kr., samtals 15.472.991 króna, sem sé stefnukrafan, taki ekki mið af því að stefnandi hafi skuldað vexti á lokagjalddaga lánsins, og standist því ekki. Þá sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt, og hljóti hann að miðast í fyrsta lagi við þingfestingardag.
Þá bendir stefndi á að áhöld hljóti að vera um það hvort málatilbúnaður stefnanda, um að uppgjöri aðila sé vikið til hliðar og stefndi dæmdur til endurgreiðslu tilgreindrar fjárhæðar, standist, enda sé grundvöllur málatilbúnaðar stefnanda að þessu leyti ekki alls kostar skýr, þ. á m. um hvort byggt sé á reglum um endurheimtu ofgreidds fjár eða ógildingarreglum samningaréttar, eða eftir atvikum hvorum tveggja, og hvernig slíkt fari á annað borð saman.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, og almennra reglna fjármunaréttarins.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Í málinu greinir aðila á um hvort lán sem stefnandi tók 6. desember 2006 hjá Glitni banka hf., sem stefndi leiðir rétt sinn frá, hafi verið í íslenskum krónum og bundið gengi erlendra mynta með þeim hætti að í bága færi við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001, eða hvort um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.
Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2020 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim efnum.
Lánið var veitt með því að stefnandi gaf út skuldabréf, sem bar yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Þá sagði í skuldabréfinu: „Undirritaður útgefandi viðurkennir með undirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda Glitni banka hf. ...CHF 51.791 ... JPY 5.126.955 ... EUR 31.438 ... jafnvirði í íslenskum krónum þann 31.08.2007 8.274.000“. Efni skuldabréfsins hefur verið nánar lýst hér að framan.
Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringar á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.
Eins og að framan greinir var um að ræða skuld reista á skuldabréfi, sem samkvæmt yfirskrift þess var í erlendum gjaldmiðlum og þar sem fjárhæð skuldarinnar var skýrlega tilgreind í þremur erlendum myntum, sem sagt var að væru jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Form og efni skuldaskjalsins bar því ótvírætt með sér að um væri að ræða lán í hinum tilgreindu erlendu myntum. Að því gættu gat útgreiðsla lánsins eða endurgreiðsla skuldarinnar engu breytt, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 446/2013 og 653/2015.
Með vísan til þess var um að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum og ákvæði þess ekki í andstöðu við fyrirmæli VI. kafla laga nr. 38/2001. Þá geta vangaveltur stefnanda um eðli gjaldeyrisreikninga sem og að lögeyrir Íslands sé íslensk króna engu breytt um eðli skuldbindingarinnar. Þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að um lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum hafi verið að ræða, sem stefnanda bar skylda til að greiða verður ekki séð hvernig ákvæði laga nr. 161/2002 eða laga nr. 107/2009 geti leitt til þess að lánið teljist ólögmætt eða að víkja beri til hliðar fyrrgreindu skuldabréfi á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eða að greiðsla stefnanda til stefnda á grundvelli fyrrgreinds samnings leiði til ólögmætrar auðgunar stefnda og eru þær málsástæður hans haldlausar.
Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur, og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Inga Gunnarssonar.
Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.