Hæstiréttur íslands
Mál nr. 654/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 17. nóvember 2009. |
|
Nr. 654/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 15. gr. laga nr. 13/1984, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, þó eigi lengur en til föstudagsins 27. nóvember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi frá 11. september 2008 samkvæmt 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um framsal varnaraðila mun hafa borist dómsmálaráðuneytinu með bréfi 7. september 2008. Ráðuneytið hefur fallist á ósk varnaraðila um að ekki verði tekin afstaða til framsalsbeiðninnar fyrr en niðurstaða er fengin um beiðni varnaraðila um hæli hér á landi. Ekki verður fallist á með varnaraðila að hugsanlegar tafir á meðferð framsalsbeiðni sem komi til vegna þessarar óskar hans um málsmeðferð eigi að svo stöddu að leiða til þess að skilyrði laga um gæsluvarðhald yfir honum teljist ekki lengur vera fyrir hendi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2009.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fæddum [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, þó eigi lengur en til föstudagsins 27. nóvember nk. kl. 16:00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að upphaf máls þessa megi rekja til þess að X, sem sé brasilískur ríkisborgari, hafi verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli hinn 9. ágúst sl., er hann hafi framvísað vegabréfi bróður síns. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 12. ágúst sl. í máli nr. 673/2009 hafi varnaraðila verið gert að sæta 30 daga fangelsi fyrir skjalamisnotkun. Með bréfi brasilíska sendiráðsins í Osló, dagsettu 7. september sl., hafi dómsmálaráðuneytinu borist beiðni brasilískra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, dagsett 3. september sl., ásamt fylgigögnum. Framsalsbeiðnin hafi borist ríkissaksóknara með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 9. september sl.
Framsalsbeiðnin sé til fullnustu tveggja refsidóma, en í gögnum sem fylgt hafi henni komi fram að varnaraðili hafi með dómi héraðsdómstólsins í Pouso Alegre, Minas Gerais, frá 24. september 1998, verið dæmdur í 30 ára fangelsi og þrettán mánaða varðhald fyrir rán, mannrán og mótþróa við handtöku. Áfrýjunardómstóll í Minas Gerais hafi endurskoðað refsiákvörðun fyrrnefnds dóms og mildað refsingu varnaraðila í 24 ára fangelsi og 13 mánaða varðhald þann 11. nóvember 2002.
Þá hafi varnaraðili, með dómi héraðsdómstólsins í Sao Paulo, frá 21. desember 1983, verið dæmdur í fimm ára fangelsi, eins árs varðhald og til greiðslu sektar fyrir vopnað rán. Áfrýjunardómstóll í Sao Paulo hafi mildað refsingu varnaraðila í tveggja ára fangelsi, auk sektargreiðslu, hinn 5. september 1984.
Samkvæmt gögnum málsins hafi varnaraðili hafið afplánun í Sao Paulo hinn 22. júní 1996 og átt að ljúka henni hinn 21. júlí 2021. Hinn 23. desember sl. hafi hann fengið leyfi til að vera heima yfir jólin. Varnaraðili hafi ekki snúið aftur til afplánunar, eins og ráðgert hafi verið hinn 3. janúar sl., og hinn 14. janúar sl. hafi verið gefin út handtökuskipun á hendur honum. Interpol hafi gefið út alþjóðlega eftirlýsingu og beiðni um handtöku og gæslu varnaraðila (Red Notice).
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi kynnt varnaraðila framsals- beiðnina hinn 14. september sl. Kvaðst varnaraðili kannast við að beiðnin ætti við hann en hann hafi hafnað framsali. Dómsmálaráðuneytið hafi óskað eftir nánari upplýsingum frá brasilískum yfirvöldum vegna framsalsbeiðninnar, hinn 10. september sl. Að þeim fengnum hafi ríkissaksóknari sent ráðuneytinu umsögn, með bréfi, dagsettu 12. október sl., þess efnis að skilyrði framsals samkvæmt lögum nr. 13/1984 teldust uppfyllt. Hinn 21. og 22. október sl. hafi dómsmálaráðuneytinu borist gögn frá verjanda varnaraðila, m.a. varðandi persónulegar aðstæður hans og fleiri gögn hafi borist síðar nú síðast þann 9. nóvember sl.
Varnaraðili hafi sótt um pólitískt hæli hér á landi. Þann 23. október sl. synjaði Útlendingastofnun beiðni varnaraðila um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Varnaraðili kærði ákvörðun Útlendingastofunnar til dómsmála-ráðuneytisins. Með bréfi til dómsmálaráðuneytisins, dags. 9. nóvember sl., hafi komið fram sú afstaða varnaraðila að honum þætti ekki tímabært að ráðuneytið tæki ákvörðun í framsalsmáli hans fyrr en endanleg niðurstaða lægi fyrir um það hvort hann fengi hæli hér á landi. Með tilliti til þessa hafi ráðuneytið ákveðið að fresta töku ákvörðunar í framsalsmáli varnaraðila þar til niðurstaða ráðuneytisins í kærumáli varnaraðila liggur fyrir, sbr. bréf ráðuneytisins til verjanda varnaraðila, dags. í gær, 12. nóvember 2009.
Varnaraðili hafi setið í gæsluvarðahaldi vegna framsalsmálsins frá því að afplánun refsidóms hans hér á landi lauk, þ.e. frá 11. september sl., á grundvelli 15. gr. laga nr. 13/1984, sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sjá síðast úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-510/2009 og dóm Hæstaréttar í máli nr. 630/2009.
Varnaraðili hafi engin tengsl við landið og má því ætla að hann muni reyna að komast úr landi á meðan framsalsmál hans sé til meðferðar hérlendis. Til að tryggja nærveru varnaraðila á meðan framsalsmál hans sé til meðferðar fyrir íslenskum stjórnvöldum þykir nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi þar til framsalsmálið er til lykta leitt.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og framangreindra lagaákvæða sé þess beiðst að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til þess sem að framan er rakið og gögnum hefur dómsmálayfirvöldum borist beiðni um framsalvarnaraðila til fullnustu tveggja refsidóma. Varnaraðili hefur verið í gæsluvarðhaldi þann tíma sem framsalsmál hans hefur verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum frá 11. september sl. og var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16 í dag með úrskurði þessa dómstóls 30. f.m. sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 4. þ.m. í máli nr. 630/2009. Er beðið ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins um hvort orðið verði við beiðni um framsal en ákvörðunatöku var frestað uns endanleg niðurstaða liggur fyrir um það hvort orðið verði við umsókn varnaraðila um pólitískt hæli hér á landi. Varnaraðili hefur engin tengsl við landið og má því ætla, samkvæmt því sem fram er komið, að hann reyni að komast úr landi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hérlendis. Til að tryggja nærveru varnaraðila er því nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi þar til framsalsmálið verður til lykta leitt og þar sem uppfyllt eru skilyrði 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, sem og með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er krafa ríkissaksóknara tekin til greina, eins og hún er fram sett.
Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
X, fæddur [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, þó eigi lengur en til föstudagsins 27. nóvember nk. kl. 16.00.